Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 4/2014

Á fundi úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála þann 15. apríl 2014 var tekið fyrir mál nr. 4/2014:

 

Kæra A

á ákvörðun

Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs

 

og kveðinn upp svohljóðandi

 

Ú R S K U R Ð U R:

A, hér eftir nefnd kærandi, hefur með kæru, dags. 31. janúar 2014, skotið til úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs (hér eftir Fæðingarorlofssjóður), dags. 18. desember 2013, þar sem kærandi var endurkrafin um X krónur fyrir maí 2013 ásamt 15% álagi að fjárhæð X krónur.

 

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í sex mánuði vegna barns hennar sem fæddist þann Y. júlí 2013. Ein tilkynning barst frá kæranda um tilhögun fæðingarorlofs og var hún afgreidd í fæðingarorlof í samræmi við hana, sbr. greiðsluáætlun, dags. 29. maí 2013. Greiðsluáætlunin var leiðrétt með bréfi, dags. 24. júní 2013, þar sem greiðslur til kæranda voru hækkaðar þar sem hún hafði sýnt fram á að hafa ekki verið þátttakandi á innlendum vinnumarkaði á tímabilinu janúar til maí 2012. Þeir mánuðir voru því undanskildir við útreikning á meðaltali heildarlauna kæranda í þessum síðari útreikningi og við það hækkuðu meðaltalslaun úr X krónur í X krónur. Greiðslur til kæranda í maí 2013 hækkuðu þannig úr X krónu í X krónur. Kærandi var jafnframt afgreidd með lengingu á fæðingarorlofi vegna veikinda hennar á meðgöngu frá 21. maí 2013 fram að fæðingardegi barns, sbr. 4.- 7. mgr. 17. gr. ffl.

Með bréfi Fæðingarorlofssjóðs, dags. 20. september 2013, var athygli kæranda vakin á því að stofnunin væri með til meðferðar mál hennar vegna hugsanlegrar ofgreiðslu fyrir maí 2013 og óskað frekari gagna og skýringa frá kæranda. Kærandi lagði fram umbeðin gögn hjá Fæðingarorlofssjóði. Með bréfi Fæðingarorlofssjóðs, dags. 24. október 2013, var kærandi endurkrafin um útborgaða fjárhæð fyrir maí 2013. Kæranda var send leiðrétt greiðsluáskorun, dags. 18. desember 2013, þar sem endurkrafan var hækkuð þar sem fyrri endurkrafa var miðuð við greiðsluáætlun, dags. 29. maí 2013, þar sem greiðslur til kæranda voru lægri en samkvæmt leiðréttri greiðsluáætlun, dags. 24. júní 2013. Kærandi var endurkrafin um X krónur að viðbættu 15% álagi að fjárhæð X krónur.

Kærandi kærði ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs til úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála með kæru, dags. 31. janúar 2013. Með bréfi, dags. 12. febrúar 2013, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs ásamt gögnum málsins. Greinargerð Fæðingarorlofssjóðs barst með bréfi, dags. 21. febrúar 2013. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 25. febrúar 2014, var greinargerð Fæðingarorlofssjóðs send kæranda til kynningar. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda. Við meðferð kærumálsins hefur Fæðingarorlofssjóður fallið frá kröfu um 15% álag.

 

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi kveðst hafa neyðst til að hætta í vinnu vegna meðgöngunnar þann Y maí 2013. Hún hafi þá tekið út sumarfrí sem hún hafi átt inni til 23. maí 2013. Eftir að sumarfríinu hafi lokið hafi hún fengið greiðslur frá Fæðingarorlofssjóði. Þann 30. maí 2013 hafi hún fengið greitt orlof sem hún hafi átt. Þessa fáu daga í maí mánuði sem hún hafi fengið greiðslur frá Fæðingarorlofssjóði hafi verið X krónur. Undir lok fæðingarorlofs hennar hafi hún verið endurkrafin um X krónur þar sem hún hafi fengið of háar greiðslur frá vinnuveitanda sínum. Kærandi kveðst hafa óskað upplýsinga frá Fæðingarorlofssjóði í maí um hvort greiðsla orlofs hefði áhrif á fæðingarorlof hennar og hafi hún fengið þær upplýsingar að þetta væri fé sem hún ætti inni hjá vinnuveitandanum og það hefði ekki áhrif. Hefði hún haft réttar upplýsingar hefði hún sleppt því að taka orlofið sitt út á þessum tíma.

 

III. Sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs

Í greinargerð Fæðingarorlofssjóðs eru rakin ákvæði laga um fæðingar- og foreldraorlof og álit umboðsmanns Alþingis í máli nr. 7022/2012 o.fl. Fæðingarorlofssjóður bendir á að þau mistök hafi verið gerð í málinu að 15% álag hafi verið lagt á endurkröfu á hendur kæranda og falli sjóðurinn frá kröfunni um 15% álag. Fæðingarorlofssjóður vísar til þess að á viðmiðunartímabili kæranda, skv. 2. mgr. 13. gr. ffl. hafi viðmiðunarlaun hennar verið X krónur á mánuði en frá því að viðmiðunartímabili hafi lokið og fram að fæðingu barnsins hafi þau verið komin í X krónur sem miðað hafi verið við. Þannig hafi verið tekið mið af hækkuðum launum kæranda, henni til hagsbóta við útreikning á hugsanlegri ofgreiðslu, skv. 10. mgr. 13 gr. og 4. mgr. 33. gr. ffl. Í maí 2013 hafi kærandi fengið greiddar X krónur úr Fæðingarorlofssjóði og hefði henni því verið heimilt að þiggja greiðslur frá vinnuveitanda sem hafi næmi mismuni á X krónum og fjárhæð greiðslu Fæðingarorlofssjóðs eða X krónur án þess að það kæmi til lækkunar á greiðslum úr sjóðnum, sbr. 2. málsl. 10. mgr. 13. gr ffl. Í maí 2013 hafi kærandi þegið X krónur í laun frá vinnuveitanda sínum. Hafi þá verið tekið tillit til launa sem kærandi hafi unnið sér inn í apríl 2013 en komi fram í staðgreiðsluskrá í maí 2013 alls X krónur og þau dregin frá hugsanlegri ofgreiðslu, en laun samkvæmt staðgreiðsluskrá hafi verið X krónur. Launaseðill kæranda númer 21 beri með sér að í mánuðinum hafi einnig verið greidd orlofslaun og í skýringum kæranda á launaseðlinum komi fram að verið sé að greiða sumarfrí/orlof sem kærandi segist hafa verið búin að vinna sér inn. Fæðingarorlofssjóður telur ljóst að greiðslur sem kærandi hafi fengið frá vinnuveitanda sínum í maí 2013 séu annars vegar hefðbundin laun og hins vegar hafi henni verið greidd orlofslaun. Ljóst sé að útborgun ótekins orlofs teljist til réttinda sem séu ósamrýmanleg fæðingarorlofsgreiðslum skv. 4. mgr. 22. gr. ffl. og úrskurði úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála í máli nr. 64/2012. Fæðingarorlofssjóður telur ljóst að orlofsgreiðslan eigi við um það tímabil sem kærandi hafi verið í fæðingarorlofi, þ.e. maí 2013, ásamt öðrum þeim launum sem kærandi hafi þegið í mánuðinum að undanskildum X krónum. Alls hafi verið gerð krafa um að kærandi endurgreiddi Fæðingarorlofssjóði X krónur að viðbættu 15% álagi eða X krónur. Alls hafi því verið gerð krafa um X krónur, sbr. greiðsluáskorun, dags. 18. desember 2013. Fæðingarorlofssjóður falli hins vegar frá kröfu um 15% álag í málinu nú eða X krónur þannig að eftir standi krafa sjóðsins vegna höfuðstóls að fjárhæð X krónur.

 

IV. Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að endurkrefja kæranda um greiðslu að fjárhæð X krónur að viðbættu 15% álagi að fjárhæð X krónur, fyrir maí 2013 úr Fæðingarorlofssjóði vegna fæðingar barns þann Y. júlí 2013.

Kærandi sótti um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í sex mánuði vegna barns hennar sem fæddist þann Y. júlí 2013 og var umsókn hennar samþykkt. Kærandi var endurkrafin um hluta útborgaðrar fjárhæðar fyrir maí 2013. Endurkrafa Fæðingarorlofssjóðs byggðist á því að kærandi hafi þegið of há laun frá vinnuveitanda sínum á sama tíma og hún þáði greiðslur frá Fæðingarorlofssjóði.

Barn kæranda er eins og fyrr greinir fætt þann Y. júlí 2013. Viðmiðunartímabil útreiknings meðaltals heildarlauna kæranda skv. 2. mgr. 13. gr. ffl. er því tímabilið frá janúar til desember 2012. Þar sem kærandi hafði sýnt fram á að hafa ekki verið þátttakandi á innlendum vinnumarkaði á tímabilinu janúar til maí 2012 var miðað við tímabilið júní til desember 2012. Í greiðsluáætlun, dags. 24. júní 2013, kemur fram að meðaltekjur kæranda á viðmiðunartímabili skv. 2. mgr. 13. gr. ffl. voru alls X krónur og greiðsla úr Fæðingarorlofssjóði miðað við 100% fæðingarorlof væri samkvæmt því X krónur. Af útreikningi sem fylgdi hinni kærðu ákvörðun frá 18. desember 2013 má hins vegar sjá að litið var til launa kæranda eftir að viðmiðunartímabili lauk og fram að fæðingu barns hennar og miðað við X  króna meðallaun við útreikning á endurgreiðslukröfu Fæðingarorlofssjóðs. Er það samkvæmt heimild í 10. mgr. 13. gr. ffl. til hækkunar á meðaltals heildarlaunum vegna launahækkana eftir lok viðmiðunartímabils en fyrir fæðingu barns. Er það kæranda til hagsbóta.

Samkvæmt 10. mgr.13. gr. ffl. skulu greiðslur frá vinnuveitanda til foreldris í fæðingarorlofi sem eru hærri en nemur mismun greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði og meðaltals heildarlauna foreldris skv. 2. eða 5. mgr. koma til frádráttar greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Eingöngu skuli greiðslur frá vinnuveitanda sem ætlaðar eru fyrir það tímabil sem foreldri er í fæðingarorlofi koma til frádráttar greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði, en úrskurðarnefndin hefur miðað við almanaksmánuði í þessu sambandi. Þar sem kærandi þáði greiðslur frá Fæðingarorlofssjóði í maí 2013 var henni einungis heimilt að þiggja greiðslur frá vinnuveitanda sem námu mismuni meðaltals heildarlauna hennar eins og þau voru hækkuð og greiðslna frá Fæðingarorlofssjóði án þess að greiðslur vinnuveitanda til hans kæmu til frádráttar greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.

Úrskurðarnefndin telur að Fæðingarorlofssjóður hafi réttilega borið endurgreiðslukröfu á hendur kæranda við meðaltals heildarlaun að fjárhæð X krónur. Samkvæmt gögnum málsins fékk kærandi greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði í samræmi við 33% fæðingarorlof í maí 2013 að fjárhæð X krónur. Kæranda var því heimilt að þiggja greiðslur frá vinnuveitanda að fjárhæð X krónur í maí 2013 án þess að það hefði áhrif á greiðslur fæðingarorlofssjóðs. Er þessi túlkun í samræmi við álit umboðsmanns Alþingis í máli nr. 7022/2012 o.fl. frá 28. ágúst 2013.

Samkvæmt gögnum málsins fékk kærandi greidd laun frá vinnuveitanda sínum að fjárhæð X krónur í maí 2013 og var hluti fjárhæðarinnar orlof sem kærandi hafði áunnið sér. Það er mat úrskurðarnefndarinnar að líta verði svo á að greiðslur sem kærandi fékk frá vinnuveitanda sínum fyrir maí 2013 hafi verið ætlaðar fyrir það tímabil, sbr. 10. mgr. 13. gr. og 4. mgr. 33. gr. ffl. Það athugast að Fæðingarorlofssjóður tekur í greinargerð sinni ekki afstöðu til þeirrar frásagnar kæranda að hún hafi fengið rangar upplýsingar hjá sjóðnum um þýðingu orlofstöku fyrir greiðslur úr sjóðnum, en nefndin getur ekki vikið frá þeim skilyrðum sem sett eru í lögum fyrir greiðslur úr sjóðnum á grundvelli slíkrar upplýsingagjafar.

Samkvæmt framangreindu þáði kærandi þannig hærri greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði en henni var heimilt lögum samkvæmt fyrir maí 2013. Ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að endurkrefja kæranda um X krónur verður því staðfest. Við meðferð kærumálsins hefur Fæðingarorlofssjóður fallið frá kröfu um 15% álag að fjárhæð X krónur. Ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að krefja kæranda um 15% álag að fjárhæð X krónur verður því felld úr gildi.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 18. desember 2013, um að endurkrefja A um útborgaða fjárhæð fyrir maí 2013 að fjárhæð X krónur er staðfest.

Ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 18. desember 2013, um að krefja A um 15% álag að fjárhæð X krónur er felld úr gildi.

 

Haukur Guðmundsson formaður

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira