Hoppa yfir valmynd

Nr. 44/2022 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 23. febrúar 2022 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 44/2022

í stjórnsýslumáli nr. KNU21100021

 

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

I.       Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 11. október 2021 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari Georgíu (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 4. október 2021, um að synja honum um dvalarskírteini fyrir útlending sem ekki er EES- eða EFTA-borgari á grundvelli hjúskapar með EES- eða EFTA-borgara, sbr. 90. gr. og 2. mgr. 92. gr. laga um útlendinga.

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að honum verði veittur dvalarréttur á landinu.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.         Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um dvalarskírteini fyrir útlending sem ekki er EES- eða EFTA-borgari á grundvelli hjúskapar með EES- eða EFTA-borgara hinn 11. maí 2020. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 4. október 2021, var umsókninni synjað. Kærandi kærði ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála hinn 11. október 2021. Greinargerð kæranda barst kærunefnd hinn 26. október 2021 ásamt fylgigögnum. Upplýsingar bárust frá stoðdeild ríkislögreglustjóra hinn 13. janúar 2022.

III.      Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að við vinnslu umsóknar hafi komið í ljós að fylgigögn með umsókninni væru ófullnægjandi. Hafi Útlendingastofnun sent kæranda bréf, dags. 21. september 2020, þar sem óskað hafi verið eftir staðfestingu á sambandi með ljósmyndum af aðilum saman við hin ýmsu tækifæri, greinargerð aðila um samband þeirra og samskiptasögu kæranda og maka hans. Hinn 27. september hafi maki kæranda sent stofnuninni svar undir nafni kæranda með ljósmyndum auk þess sem þar hafi komið fram að þau hefðu þekkst í þrjú ár og hafi átt í vinasambandi í fyrstu. Hafi maki kæranda heimsótt kæranda nokkrum sinnum til heimaríkis og hitt þar fjölskyldu hans og þau ákveðið að gifta sig. Kærandi hafi viljað búa í heimaríki sínu en maki viljað búa á Íslandi áfram og því hafi kærandi ákveðið að sækja um dvalarskírteini á Íslandi. Þá hafi kærandi og maki átt í samskiptum í gegnum samskiptaforritin Skype og Messenger. Hafi Útlendingastofnun ítrekað fyrri beiðni með tölvubréfi hinn 15. október 2020 og sent nýja beiðni um gögn hinn 19. október 2020 þar sem óskað hafi verið eftir skriflegri greinargerð kæranda og maka varðandi samband þeirra auk staðfestingar á samskiptum og ljósriti af vegabréfi maka. Hinn 26. október 2020 hafi kærandi lagt fram afrit af vegabréfi maka og greinargerð varðandi samband þeirra en tekið fram að honum væri ekki fært að leggja fram gögn um samskipti sín og maka þar sem þau væru ekki vistuð og að hann hefði ekki verið meðvitaður um að hann þyrfti að sýna fram á þau í umsóknarferlinu.

Hinn 11. nóvember 2020 hafi stofnunin á ný ítrekað beiðni um staðfestingu á samskiptum kæranda og maka og hinn 16. desember 2020 hafi kæranda verið sendar leiðbeiningar í tölvubréfi hvernig sanna mætti samskipti milli hans og maka með gögnum eða öðru. Í framhaldi af því hafi maki hringt í Útlendingastofnun og kvaðst ætla að senda senda skriflegt svar við beiðninni með þeim upplýsingum að tölvan hennar hefði hrunið og allar ljósmyndir glatast. Hafi Útlendingastofnun sent kæranda bréf hinn 29. júní 2021 þar sem fram hafi komið þau atriði sem helst þættu gefa til kynna að um mögulegan málamyndahjúskap væri að ræða. Andmælabréf hefði borist Útlendingastofnun frá lögmanni kæranda, dags. 14. júlí 2021, þar sem fullyrðingum stofnunarinnar var hafnað.

Var það mat Útlendingastofnunar með vísan til gagna málsins að fyrir hendi væri rökstuddur grunur um að til hjúskapar kæranda og maka hans hefði verið stofnað í þeim tilgangi að afla honum dvalarskírteinis hér á landi, enda hefði ekki verið sýnt fram á annað svo óyggjandi væri, sbr. 2. mgr. 92. gr. laga um útlendinga. Var umsókn kæranda því synjað.

IV.    Málsástæður og rök kæranda

Kærandi mótmælir því harðlega í greinargerð að hjúskapur hans og maka sé til málamynda. Í málinu liggi fyrir íslenskt hjúskaparvottorð frá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu en Útlendingastofnun hafi ekki borið fyrir sig að umrætt vottorð sé falsað eða óáreiðanlegt og framhjá því verði ekki litið. Allt að einu virðist stofnunin tína til ýmiskonar ótengd atriði til þess að tortryggja samband þeirra, sem dæmi sé í hinni ákvörðun vísað til þess að kæranda hafi verið synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi í apríl 2018. Telur kærandi að um sé að ræða ómálefnalegt sjónarmið sem ætti ekki að hafa neina þýðingu fyrir úrlausn málsins. Kærandi og maki hafi kynnst hér á landi árið 2017 eins og gögn málsins gefi til kynna, samband þeirra hafi þróast hægt og rólega og að endingu hafi þau orðið ástafangin. Í kjölfarið hafi kærandi sagt skilið við fyrrverandi eiginkonu sínu í heimaríki sínu hinn 26. febrúar 2020 og gengið í hjúskap með maka sínum hinn 16. apríl 2020. Í hinni kærðu ákvörðun sé vísað til þess að kærandi hafi ekki getað lagt fram fullnægjandi samskiptasögu, mörg ár aftur í tímann. Vísar kærandi til þess að hvorki hann né maki hafi gert sér grein fyrir því að nauðsynlegt væri að varðveita samskipti þeirra í mörg ár og auk þess hafi þau gefið eðlilega skýringu á meintum ljósmyndaskorti, þ.e. að tölvan hafi hrunið og allar myndir glatast þar með. Í hinni kærðu ákvörðun sé enn fremur vísað til þess að ekki liggi fyrir hvenær stofnað hafi verið til fyrra hjúskapar kæranda, en að mati kæranda hafi það enga þýðingu fyrir úrlausn málsins. Þá hafi kærandi aldrei verið beðinn um slíkar upplýsingar og af þeim sökum sé ómálefnalegt að vísa til slíkra sjónarmiða við ákvörðunartöku. Með öðrum orðum telur kærandi að þau sjónarmið sem séu honum í óhag hafi fengið of mikið vægi við töku ákvörðunar og að ekki hafi verið horft með hlutlægum hætti á málavexti.

Vísar kærandi til þess að hvergi í hinni kærðu ákvörðun sé tekið tillit til hagsmuna maka síns að halda samvistum við kæranda og séu hagsmunir hennar fyrir borð bornir án nokkurs rökstuðnings. Sé þessi annmarki sérstaklega alvarlegur þar sem hún hafi einnig hagsmuna að gæta í málinu. Jafnframt er áréttað að því tilfinnanlegri eða meira íþyngjandi sem stjórnvaldsákvörðun er, þeim mun strangari kröfur verði að gera til rannsóknar á þeim atvikum er leiða til niðurstöðunnar. Við úrlausn málsins hafi Útlendingastofnun borið að leggja mat á hvort viðhlítandi upplýsingar og gögn lægju fyrir þannig unnt væri að meta rétt kæranda til dvalarleyfis á Íslandi. Byggir kærandi á því að rannsóknarskylda Útlendingastofnunar sé ekki uppfyllt í málinu enda sé látið duga að vísa í hin ýmsu ákvæði laga um útlendinga án þess að leggja sérstakt mat á þá hagsmuni sem séu í húfi. Sjáist það langar leiðir að hagsmunir stjórnvalda af brottvísun kæranda séu hverfandi gagnvart hagsmunum kæranda og maka að halda sínum samvistum áfram í skjóli friðhelgi heimilisins. Áréttar kærandi að honum hafi ekki verið kunnugt um endurkomubannið sem sé í gildi til 11. febrúar 2022 og að hann hafi aldrei verið upplýstur um það og afleiðingar þess. Þá kannist hann heldur ekki við undirritun sína á umrætt birtingarvottorð og þegar af þeirri ástæðu sé ekki tilefni til þess að ætla að hann hafi vísvitandi hunsað fyrirmæli íslenskra stjórnvalda.

V.      Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í XI. kafla laga um útlendinga er fjallað um sérreglur um útlendinga sem falla undir samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og stofnsamning Fríverslunarsamtaka Evrópu. Samkvæmt 1. mgr. 80. gr. laganna gilda ákvæði kaflans um rétt útlendinga sem eru ríkisborgarar ríkis sem fellur undir samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og stofnsamning Fríverslunarsamtaka Evrópu til að koma til landsins og dveljast hér á landi. Í 2. mgr. 80. gr. laganna segir að ákvæði kaflans gildi einnig um aðstandendur EES- eða EFTA-borgara sem fylgja honum til landsins eða koma til hans. Í 1. mgr. 82. gr. laga um útlendinga er þá kveðið á um að aðstandandi EES- eða EFTA-borgara sem falli undir ákvæði XI. kafla hafi rétt til að dveljast hér á landi með honum. Með aðstandanda í skilningi ákvæðisins er m.a. átt við maka. Jafnframt er í 86. gr. laganna fjallað um rétt til dvalar lengur en þrjá mánuði fyrir aðstandendur EES- eða EFTA-borgara og aðra útlendinga sem eru ekki EES- eða EFTA-borgarar. Af athugasemdum sem fylgdu frumvarpi því er varð að gildandi lögum um útlendinga er ljóst að XI. kafla laganna felur að verulegu leyti í sér innleiðingu á ákvæðum tilskipunar nr. 2004/38/EB um rétt borgara sambandsins og aðstandenda þeirra til frjálsrar fara og dvalar á yfirráðasvæði aðildarríkjanna.

Í málinu liggur fyrir afrit af hjúskaparskírteini, dags. 16. apríl 2020, en samkvæmt efni þess gengu kærandi og maki hans í hjúskap á Íslandi. Þá liggur fyrir að maki kæranda er ríkisborgari Litháen, búsett á Íslandi og stundar atvinnu hér. Kærunefnd telur því ljóst að ákvæði XI. kafla laga um útlendinga eigi við um kæranda enda sé hann maki ríkisborgara Litháen sem hefur nýtt sér rétt sinn til frjálsrar farar og dvalar á Evrópska efnahagssvæðinu, sbr. 1. og 2. mgr. 80. gr. laganna.

Í 1. mgr. 90. gr. laga um útlendinga segir að útlendingur sem dvelst hér á landi samkvæmt 86. gr. í meira en þrjá mánuði skuli fá útgefið dvalarskírteini. Umsóknarfrestur er þrír mánuðir frá komu til landsins og skal Útlendingastofnun gefa út skírteinið að fenginni umsókn, sbr. jafnframt 3. mgr. 90. gr. laganna. Í máli þessu liggur fyrir að Útlendingastofnun synjaði kæranda um útgáfu dvalarskírteinis á þeim grundvelli að dvalarréttur kæranda væri fallinn brott, sbr. 92. gr. laganna.

Í 1. mgr. 92. gr. laga um útlendinga er fjallað um brottfall dvalarréttar EES- eða EFTA-borgara eða aðstandenda hans. Við túlkun ákvæðisins verður því að hafa í huga að ákvæðið felur í sér frávik frá þeirri grundvallarreglu að EES- eða EFTA-borgarar sem og aðstandendur þeirra geti, að tilteknum skilyrðum uppfylltum, nýtt sér rétt til frjálsrar farar og dvalar á Evrópska efnahagssvæðinu, líkt og m.a. er kveðið á um í 80. og 82. gr. laga um útlendinga. Í 1. mgr. 92. gr. segir að réttur til dvalar samkvæmt ákvæðum XI. kafla falli niður ef um málamyndagerning að hætti 8. mgr. 70. gr. laganna sé að ræða. Í 8. mgr. 70. gr. er mælt fyrir um að sé rökstuddur grunur um að til hjúskapar eða sambúðar hafi verið stofnað í þeim tilgangi að afla dvalarleyfis og ekki sé sýnt fram á annað svo að óyggjandi sé veiti það ekki rétt til dvalarleyfis. Þá kemur m.a. fram í 2. mgr. 92. gr. laganna að heimilt sé að synja um útgáfu dvalarskírteinis ef rökstuddur grunur sé um að til hjúskapar hafi verið stofnað í þeim tilgangi einum að afla dvalarleyfis og ekki sé sýnt fram á annað svo óyggjandi sé. Í ljósi tengsla 1. og 2. mgr. 92. gr. laga um útlendinga við 8. mgr. 70. gr. laganna telur kærunefnd rétt að við beitingu fyrrnefndu ákvæðanna skuli höfð hliðsjón af athugasemdum við ákvæði 8. mgr. 70. gr. þeirra að því er varðar mat á því hvort skilyrði um „rökstuddan grun“ í skilningi ákvæðisins sé uppfyllt. Í athugasemdum við 70. gr. í frumvarpi því er varð að gildandi lögum um útlendinga segir m.a. orðrétt:

„Ákvæðinu er ætlað að heimila synjun á veitingu leyfis ef hægt er að sýna fram á að til hjúskapar hafi verið stofnað í öðrum tilgangi en til samvistar, t.d. til að afla dvalarleyfis. Þegar metið er hvort grunur sé á málamyndahjúskap er m.a. litið til þess hvort aðilar hafi búið saman fyrir stofnun hjúskapar, aldursmunar, hvort þau tali tungumál hvors annars, þekki til einstakra atriða eða atvika úr lífi hvort annars og hjúskaparsögu viðkomandi maka og hvort hún veki grunsemdir hvað þetta varðar. Við mat á aðstæðum sem þessum þarf þó að taka tillit til þess að mismunur getur verið á milli menningarheima hvað varðar hefðir og aðdraganda hjúskapar og þekkingu hjóna hvort á öðru við upphaf hjúskapar. Það að aðilar hafi ekki hist áður eða búið saman fyrir stofnun hjúskapar getur ekki verið eini grundvöllur þess að synja um veitingu leyfis á þessum grundvelli heldur verður fleira að koma til sem bendir til þess að um málamyndagerning sé að ræða. Auk þessara þátta getur skipt máli hvort viðkomandi útlendingur hafi áður sótt um dvöl í landinu á öðrum grundvelli, m.a. með umsókn um alþjóðlega vernd og að viðkomandi útlendingur hafi gengið í hjúskap stuttu eftir að þeirri umsókn hafi verið hafnað. Þá getur þurft að líta til þess hvort viðkomandi eigi ættingja hér á landi, maki hérlendis hafi verið giftur á Íslandi og skilið rétt eftir að maki hans eða hann sjálfur hafi öðlast sjálfstæð réttindi hér á landi, hversu oft ábyrgðaraðili hafi verið giftur hér á landi og hvort grunur er um að hann hafi fengið verulegar fjárhæðir sem gætu tengst málinu.“

Í framangreindum athugasemdum er vísað til atriða sem m.a. er unnt að líta til við mat á því hvort um rökstuddan grun sé að ræða í skilningi ákvæðisins. Þó er ljóst að upptalning á þeim atriðum er koma til skoðunar er ekki tæmandi og gilda almennar sönnunarreglur í slíkum málum. Þannig er stjórnvöldum ótvírætt heimilt að líta til annarra atriða en nefnd eru í áðurnefndum lögskýringargögnum enda sé slíkt mat byggt á málefnalegum sjónarmiðum.

Samkvæmt hinni kærðu ákvörðun var það mat Útlendingastofnunar að fyrir hendi væri rökstuddur grunur um að til hjúskapar kæranda og maka hans hafi verið stofnað í þeim tilgangi að afla kæranda dvalarskírteinis hér á landi. Þá hefði kærandi ekki sýnt fram á annað svo óyggjandi væri. Var kæranda því synjað um dvalarskírteini hér á landi, sbr. 2. mgr. 92. gr. laga um útlendinga. Má ráða af ákvörðuninni að Útlendingastofnun byggi mat sitt á eftirfarandi atriðum. Í fyrsta lagi að kærandi hafi áður sótt um alþjóðlega vernd á Íslandi, í öðru lagi að kærandi kvaðst vera fráskilinn við umsókn sína um alþjóðlega vernd árið 2017 en leggi nú fram gögn um hjónaskilnað í febrúar 2020, í þriðja lagi að kærandi og maki hafi ekki búið saman fyrir stofnun hjúskapar og í fjórða lagi að kærandi hafi lagt fram takmarkað magn af ljósmyndum sem teknar hafi verið við fá tækifæri. Þá hafi kærandi ekki lagt fram samskiptasögu þeirra af samskiptamiðlum þrátt fyrir að kærandi og maki hans hafi kynnst fyrir rúmlega þremur árum síðan auk þess sem fram komi í umsókn um dvalarrétt að hann hafi aðeins dvalið á Íslandi í þrjá mánuði árið 2017 sem sé ekki í samræmi við gögn málsins.

Eins og áður greinir sótti kærandi um alþjóðlega vernd á Íslandi hinn 22. maí 2017 undir nafninu [...]. Var umsókn hans synjað með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 31. janúar 2018, og var honum að auki brottvísað og ákvarðað endurkomubann til Íslands í tvö ár. Kærunefnd útlendingamála staðfesti ákvörðun Útlendingastofnunar með úrskurði hinn 5. apríl 2018. Úrskurðurinn var birtur fyrir kæranda og talsmanni hans hinn 9. apríl 2018 og undirritaði kærandi birtingarvottorðið ásamt talsmanni og vottum. Í hinni kærðu ákvörðun kemur fram að þegar stoðdeild ríkislögreglustjóra hugðist flytja kæranda til heimaríkis hafi hann verið horfinn og í framhaldi af því hafi kærandi verið eftirlýstur af lögreglu. Hafi stoðdeild framkvæmt flutning kæranda til heimaríkis hinn 11. febrúar 2020 ásamt því að skrá á hann endurkomubann inn á Schengen-svæðið frá 14. febrúar 2020 til 11. febrúar 2022. Samkvæmt upplýsingum frá stoðdeild ríkislögreglustjóra var kærandi fluttur til heimaríkis hinn 11. febrúar 2021 og að stoðdeild árétti oftar en ekki við slíka flutninga að endurkomubann skráist og byrji að telja við brottfarardag út af Schengen-svæðinu. Í dvalarréttarumsókn kæranda kemur fram að kærandi hafi dvalið á Íslandi um þriggja mánaða tímabili árið 2017 en annars dvalið í heimaríki á árunum 2015-2020. Ljóst er að sú staðhæfing samræmist ekki gögnum málsins, enda var kærandi fluttur frá landinu hinn 11. febrúar 2020 og þá eru fyrirliggjandi í gögnum málsins nokkrar ljósmyndir af kæranda og maka sem bera með sér að hafa verið teknar árið 2019 hér á landi. Þá liggur fyrir í gögnum málsins skjáskot af bréfi Fangelsismálastofnunar, dags. 7. febrúar 2020, þar sem kæranda var veitt reynslulausn vegna 30 daga fangelsisrefsingar sem honum voru ákvarðaðar með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur, dags. [...]. Að öðru leyti verður fyrri dvalartími kæranda hér á landi í ólögmætri dvöl ekki ráðinn.

Samkvæmt gögnum málsins kom kærandi aftur til landsins hinn 11. mars 2020 með nýútgefið vegabréf frá heimaríki, dags. 15. febrúar 2020, undir nafninu [...]. Kærandi lagði fram umrædda dvalarréttarumsókn hinn 11. maí 2020 og hefur dvalið á landinu frá þeim tíma þrátt fyrir að vera í endurkomubanni til landsins, þ. á m. í um 17 mánuði frá framlagningu umsóknar þangað til Útlendingastofnun tók ákvörðun í málinu. Af gögnum málsins verður því ekki annað ráðið en að Útlendingastofnun hafi heimilað kæranda dvöl á landinu á meðan umsókn hans var til meðferðar og þannig ekki beitt úrræðum 94. og 95. gr. laga um útlendinga vegna ólögmætrar dvalar hans hér á landi sem og á Schengen-svæðinu.

Kærunefnd telur að fallast megi á með Útlendingastofnun að framangreind atriði hafi gefið tilefni til að stofnunin kannaði hvort hjúskapur kæranda og eiginkonu hans hafi verið stofnað í þeim tilgani einum að afla dvalarleyfis sbr. 2. mgr. 92. gr. laga um útlendinga. Á hinn bóginn er það mat kærunefndar að þau atriði sem vísað er til í hinni kærðu ákvörðun leiði ekki ein og sér til þess að litið verði svo á að sá rökstuddur grunur sé fyrir hendi í skilningi síðastnefnds ákvæðis. Í því sambandi horfir kærunefnd til þess að við meðferð málsins hefur kærandi lagt fram myndir af sér og maka við ýmis tilefni sem spanna nokkurra ára tímabil auk gagna sem sýna fram á að þau hafi verið í samskiptum á samfélagsmiðlum. Þá verður að mati kærunefndar ekki horft framhjá því að Útlendingastofnun aflaði ekki upplýsinga, svo sem með viðtölum eða með því að láta fara fram könnun á dvalarstað þeirra og samvistum, s.s. með því að boða þau bæði í viðtöl, sem varpað hefðu getað frekara ljósi á samband kæranda og maka hans og aðdraganda hjúskapar þeirra.

Að mati kærunefndar kunna þessir annmarkar á rannsókn málsins hjá Útlendingastofnun að hafa haft áhrif á niðurstöðu málsins og eru þeir slíks eðlis að ekki verður bætt úr þeim á æðra stjórnsýslustigi. Með vísan til þess er því óhjákvæmilegt að fella ákvörðunina úr gildi og leggja fyrir stofnunina að taka mál kæranda til meðferðar að nýju.

 

 

 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir stofnunina að taka mál kæranda til meðferðar á ný.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate is instructed to re-examine the appellants’ case.

 

 

Þorsteinn Gunnarsson

 

 

Gunnar Páll Baldvinsson                                                                  Sandra Hlíf Ocares

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira