Hoppa yfir valmynd

Kæra vegna kaupa á heimildarmynd

Ár 2017, miðvikudaginn 5. júlí, var kveðinn upp í mennta- og menningarmálaráðuneytinu svofelldur

 

ÚRSKURÐUR

í máli MMR17040060.

 

Kæruefni, málsatvik og málsmeðferð.

Mennta- og menningarmálaráðuneytinu barst með tölvubréfi, dags. 6. apríl 2017, stjórnsýslukæra A, fyrir hönd B (hér eftir nefndir kærendur). Í kæru er þess krafist að Menntamálastofnun standi við ákvörðun sína um kaup á heimildarmyndinni C. Fram kemur í kæru að ákvörðun stofnunarinnar um kaupin hafi verið kynnt með tölvupósti þann 6. október 2016, en eftir mannabreytingar hjá stofnuninni hafi kærendum verið kynnt ný niðurstaða í málinu í tölvupósti frá 6. apríl 2017. Þar kemur fram að stofnunin hafi ekki fjármagn til þess að kaupa sýningarrétt að myndinni. Vísa kærendur til 23. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, máli sínu til stuðnings, um afturköllun ákvörðunar, 20. gr. sömu laga, um birtingu ákvörðunar og skuldbindingar því fylgjandi og 36. gr., um formkröfur.  Telja kærendur ljóst að hér sé um bindandi stjórnvaldsákvörðun að ræða sem kynnt hafi verið með formlega réttum hætti og krefjast þess að staðið verði við hana.

Með tölvubréfum ráðuneytisins, dags. 7. apríl 2017, var óskað umsagnar Menntamálastofnunar um kæruna og var sá svarfrestur sem þar var veittur framlengdur að beiðni stofnunarinnar til 31. maí sl. Í umsögn Menntamálastofnunar, dags. 30. maí sl., er vísað til 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaganna, þar sem mælt sé fyrir um það að lögin gildi þegar stjórnvöld taki ákvarðanir um rétt eða skyldu manna. Þá gildi II. kafli laganna um sérstakt hæfi einnig um gerð samninga einkaréttarlegs eðlis, sbr. 3. mgr. sömu greinar, enda teljast slíkar ákvarðanir ekki stjórnvaldsákvarðanir. Þá bendir Menntamálastofnun á að ekki hafi verið kominn á neinn formlegur samningur um kaup á umræddri mynd, heldur hafi málið verði á viðræðustigi. Krefst Menntamálastofnun þess að kærunni verði vísað frá ráðuneytinu á þeim grundvelli að ekki sé um kæranlega ákvörðun lægra setts stjórnvalds að ræða. Með tölvubréfi ráðuneytisins, dags. 12. júní 2017, var óskað eftir athugasemdum kærenda við umsögn Menntamálastofnunar og bárust þær með tölvubréfi kærenda, dags. 26. júní 2017. Í athugasemdunum er bent á að mál þetta hverfist ekki um þá ákvörðun Menntamálastofnunar að kaupa ekki ákveðið námsefni, heldur það að Menntamálastofnun sé ekki að standa við samning sem kominn var á og í því felist stjórnvaldsákvörðunin. Þá kemur fram í athugasemdum kærenda að það sé einfaldlega rangt af hálfu Menntamálastofnunar að halda því fram að ekki hafi verið kominn á samningur milli aðila og er vísað til tölvuskeytis kærenda til stofnunarinnar, dags. 10. október 2016, um að þeir fallist á tilboð stofnunarinnar.Telja kærendur með hliðsjón af framangreindu að Menntamálastofnun hafi ekki gilda málsvörn í málinu.

 

Rökstuðningur niðurstöðu

Í máli þessu er deilt um það hvort komist hafi á bindandi samningur milli A fyrir hönd B, og Menntamálastofnunar, um kaup stofnunarinnar á heimildarmyndinni C.

Í 1. málsl. 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga segir að lögin gildi þegar stjórnvöld, þar á meðal stjórnsýslunefndir, taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna. Þá gildir II. kafli laganna um sérstakt hæfi einnig um gerð samninga einkaréttarlegs eðlis, sbr. 3. gr. sömu greinar, enda teljast slíkar ákvarðanir ekki stjórnvaldsákvarðanir. Gilda því lögin þegar teknar eru stjórnvaldsákvarðanir, þ.e. þegar teknar eru ákvarðanir um réttindi og skyldur fólks. Gilda lögin því m.a. ekki um þjónustustarsemi hins opinbera né heldur ákvarðanir einkaréttarlegs eðlis, svo sem til kaupa á vörum og þjónustu, eins og mælt er fyrir um í athugasemdum með frumvarpi til laganna (Alþt. 1992, A-deild, bls. 3283.) Í athugasemdum við 1. gr. frumvarps til stjórnsýslulaga kemur fram að við mat á því hvort þær ákvarðanir sem tengjast opinberri þjónustu falli undir gildissvið laganna verði að skoða hvort ákvörðunin sé lagalegs eðlis, t.d. færir fólki réttindi eða skerðir þau, eða hvort ákvörðunin lúti fyrst og fremst að framkvæmdinni, t.d. því hvaða námsefni skuli lagt til grundvallar við kennslu. Það er afstaða ráðuneytisins að ákvarðanir Menntamálastofnunar um framleiðslu eða kaup á námsefni teljist ekki stjórnvaldsákvarðanir í skilningi stjórnsýslulaga nr. 37/1993, með síðari breytingum. Með vísan til framangreinds telst mál þetta því ekki kæranlegt til mennta- og menningarmálaráðuneytis og ber því að vísa málinu frá ráðuneytinu.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Vísað er frá kæru A, fyrir hönd B, á hendur Menntamálastofnun.

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira