Hoppa yfir valmynd

Nr. 295/2023 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 17. maí 2023 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 295/2023

í stjórnsýslumáli nr. KNU23030083

 

Beiðni [...] um endurupptöku

 

I.       Málsatvik

Hinn 22. september 2022 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 6. júlí 2022, um að taka umsókn einstaklings er kveðst heita [...], vera fæddur [...]og vera ríkisborgari Palestínu (hér eftir kærandi), um alþjóðlega vernd á Íslandi ekki til efnismeðferðar og vísa honum frá landinu. Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda 22. september 2022.

Hinn 29. september 2022 barst kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku. Með úrskurði kærunefndar nr. 434/2022, dags. 27. október 2022, var beiðni kæranda hafnað. Hinn 23. mars 2023 barst kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku að nýju. Upplýsingar um málsmeðferð í máli kæranda bárust kærunefnd frá Útlendingastofnun og stoðdeild ríkislögreglustjóra 28. mars og 11. apríl 2023. Með tölvubréfi kærunefndar til kæranda, dags. 4. maí 2023, voru kæranda kynntar framangreindar upplýsingar og veittur frestur til andmæla í samræmi við 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kærunefnd bárust andmæli kæranda 8. maí 2023 ásamt fylgigögnum. Þá fékk kærunefnd upplýsingar frá Vinnumálastofnun 9. maí 2023.

Af beiðni kæranda um endurupptöku má ráða að hún byggi á 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

II.        Málsástæður og rök kæranda

Í beiðni kæranda um endurupptöku er byggt á því að meira en 12 mánuðir séu nú liðnir frá því að hann lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd hér á landi, en tafir á afgreiðslu málsins séu ekki á hans ábyrgð. Samkvæmt 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 skuli taka umsókn til efnismeðferðar ef meira en 12 mánuði hafi liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar séu ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs. Sé litið til stjórnsýsluframkvæmdar um framangreint ákvæði laganna hafi afgreiðsla umsóknar miðast við umsóknardag annars vegar og hins vegar þegar endanleg niðurstaða stjórnvalda sé framkvæmd með flutningi umsækjanda til viðtökuríkis. Þar sem 12 mánuðir séu nú liðnir og kærandi enn staddur á Íslandi, telur hann að stjórnvöldum sé skylt að taka umsókn hans um alþjóðlega vernd á Íslandi til efnismeðferðar.

III.      Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Í 1. mgr. 40. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga kemur fram að flóttamaður skv. 37. gr. laganna, sem er hér á landi eða kemur hér að landi, hefur samkvæmt umsókn rétt á að fá hér alþjóðlega vernd. Stjórnvöldum er þó heimilt, á grundvelli a-, b-, c- og d-liðar 1. mgr. 36. gr. laganna, að taka umsókn ekki til efnismeðferðar við þær aðstæður sem tilgreindar eru í umræddum stafliðum.

Með 10. gr. laga nr. 14/2023, um breytingu á lögum um útlendinga, voru breytingar gerðar á orðalagi 2. mgr. 36. gr. laganna. Í hinu nýja ákvæði er m.a. kveðið nánar á um við hvaða tímamark skuli miða þegar 12 mánaða fresturinn er annars vegar auk þess sem kveðið er á um til hvaða sjónarmiða skuli líta við mat á því hvað teljist tafir á málsmeðferð hins vegar. Í lokamálslið 2. mgr. 23. gr. breytingalaganna kemur fram að ákvæði 10. gr. gildi ekki um meðferð umsókna sem bárust fyrir gildistöku laganna. Umrædd lög tóku gildi 5. apríl 2023 og ljóst að umsókn kæranda barst fyrir gildistöku þeirra. Fer því um mál kæranda samkvæmt þágildandi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga í samræmi við fyrri framkvæmd nefndarinnar og jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga við úrlausn beiðni kæranda um endurupptöku.

Í þágildandi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga kom fram að ef svo stæði á sem greindi í 1. mgr. skyldi þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefði slík sérstök tengsl við landið að nærtækast væri að hann fengi hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæltu annars með því. Ef meira en 12 mánuðir hefðu liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar væru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skyldi taka hana til efnismeðferðar.

Af orðalagi þágildandi 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga leiddi að umrætt 12 mánaða tímabil hæfist þegar umsækjandi legði fyrst fram umsókn um alþjóðlega vernd hjá stjórnvöldum. Í úrskurðum kærunefndar hefur verið lagt til grundvallar að tímabilinu hafi lokið þegar endanleg niðurstaða stjórnvalda var framkvæmd með flutningi umsækjanda til viðtökuríkis eða þegar kærandi færi úr landi sjálfviljugur eftir að ákvörðun í máli hans hafði verið tekin.

Kærunefnd hefur túlkað þágildandi 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga á þann hátt að þó að 12 mánaða fresturinn sé liðinn verði umsókn ekki tekin til efnismeðferðar af þeim sökum ef tafir á málsmeðferð eða flutningi verði fyrst og fremst raktar til athafna eða athafnaleysis umsækjanda sem hann ber sjálfur ábyrgð á, nema þær tafir hafi verið óverulegar og ljóst er að hægt hefði verið að flytja kæranda áður en 12 mánaða fresturinn var liðinn.

Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi 23. mars 2022 og rann því umræddur 12 mánaða frestur út á miðnætti 23. mars 2023. Kemur því til skoðunar hvort tafir á afgreiðslu umsóknar kæranda séu á ábyrgð hans sjálfs.

Hinn 28. mars 2023 óskaði kærunefnd útlendingamála eftir upplýsingum frá Útlendingastofnun og stoðdeild. Sneri fyrirspurn nefndarinnar að því hvort tafir hefðu orðið á meðferð umsóknar kæranda og ef svo væri, hvort tafir væru á ábyrgð kæranda, sbr. þágildandi 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Svar stoðdeildar barst kærunefnd þann sama dag. Þar kom m.a. fram að 28. október 2022 hafi kærandi ekki verið með skráðan dvalarstað í kerfum lögreglu. Þá hafi stoðdeild hringt í eitt skipti í kæranda 1. nóvember 2022 en hann ekki svarað. Ekki séu frekari samskipti skráð vegna málsins í kerfum lögreglu.

Í svari Útlendingastofnunar kom fram að Útlendingastofnun teldi að kærandi hefði ekki tafið mál sitt en vísaði á stoðdeild um frekari svör varðandi framkvæmd.

Með tölvubréfi kærunefndar, dags. 4. maí 2023, voru kæranda send þau gögn sem bárust frá stoðdeild og Útlendingastofnun honum veittur frestur til að koma að andmælum í samræmi við 13. gr. stjórnsýslulaga. Í tölvubréfi kæranda, dags. 8. maí 2023, kemur fram að hann mótmæli því harðlega að hann hafi með einhverjum hætti tafið mál sitt. Kærandi vísar til þess að engin gögn liggi fyrir um hvort stoðdeild hafi verið búin að undirbúa flutning, t.d. með því að bóka flugmiða eða útbúa ferðaskilríki. Þannig virðist eina tilraun stoðdeildar felast í því að reyna ræða með almennum hætti við sig um hugsanlega brottvísun, en af gögnum málsins megi ráða að engar frekari aðgerðir hafi verið fyrirhugaðar til þess að undirbúa flutning. Þá liggi heldur ekki fyrir hvort að búið var að birta fyrir honum tilkynningareyðublað í tengslum við hinn fyrirhugaðan flutning. Þá hafi ekki verið rætt við hann með aðstoð túlks um skyldur hans gagnvart stjórnvöldum og afleiðingar þess að verða ekki við þeim, sbr. 2. mgr. 11. gr. laga um útlendinga. Þá vísar kærandi til íþyngjandi áhrifa að telja tafir á málsmeðferð á ábyrgð umsækjenda um alþjóðlega vernd. Vísar kærandi til dóms Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-351/2022. Þannig sé ekki hægt að leggja til grundvallar að kærandi hafi reynt að komast undan stjórnvöldum með einhverjum hætti. Í þessu sambandi beri einnig að líta til þess að kærandi hafi fengið útgefið tímabundið leyfi til starfa frá Vinnumálastofnun 27. september 2022. Umrætt leyfi hafi svo verið endurnýjað án athugasemda 10. mars 2023. Þannig standist ekki skoðun að stjórnvöld hafi ekki vitað hvar kærandi hafi verið búsettur enda hafi þau verið búin að taka við leyfi þar sem hann tilgreindi sérstaklega búsetu sína. Framangreindar umsóknir hafi verið afgreiddar án nokkurra athugasemda. Kærandi telur að hann eigi ekki að bera hallann af því að mismunandi deildir innan Vinnumálastofnunar og Útlendingastofnunar skiptist ekki á upplýsingum eða að misskráning hafi átt sér stað. Í þessu sambandi vísar kærandi til þess að skýr forsenda þess að fá útgefið bráðabirgða atvinnu- og dvalarleyfi sé að viðkomandi umsækjandi flytji úr húsnæði á vegum stjórnvalda. Þannig sé ekki rétt að kærandi hafi látið sig hverfa heldur þurfti hann beinlínis að yfirgefa húsnæðið í samræmi við útgáfu leyfisins. Stjórnvöldum hafi mátt vera ljóst hvar hann var búsettur vegna umsókna sinna um atvinnuleyfi. Þá hafi ávallt verið hægt að ná í kæranda símleiðis. Kærandi mótmælir því að hann hafi látið sig hverfa 28. október 2022 og gerir athugasemdir við að slíkar upplýsingar séu ekki skráðar samdægurs í kerfum lögreglu. Þá gerir kærandi athugasemd við að hann sé skráður horfinn mánuði eftir að umsókn hans sé samþykkt hjá Vinnumálastofnun. Kærandi telur að þó að stoðdeild hafi ekki fundið sig 28. október 2022 þýði ekki að hann sé horfinn. Engar frekari tilraunir hafi verið gerðar fyrir utan eitt símtal 1. nóvember 2022. Kærandi telur eitt símtal og meint heimsókn ekki til þess fallin að hann sé talinn horfinn og vísar til íþyngjandi áhrifa þess að tafir á málsmeðferð séu taldar á hans ábyrgð. Þá mótmælir kærandi því að hann hafi verið í felum enda hafi hann lagt fram umsóknir til stjórnvalda. Þá bendir ekkert til þess að stoðdeild hafi haft samband við atvinnuveitanda kæranda þrátt fyrir að fullt tilefni hafi verið til þess. Ávallt hafi verið hægt að finna kæranda á starfsstöð hans og augljóst að stoðdeild hafi getað aflað upplýsinga frá öðrum stjórnvöldum um atvinnuréttindi hans. Því séu aðgerðir stoðdeildar og framkvæmdin ómarkviss. Þá vísar kærandi til þess að ekki sé óeðlilegt að missa af einu símtali eða að hann sé ekki heima á þeirri stundu þegar meint heimsókn átti sér stað. Með athugasemdum kæranda fylgdu gögn frá Vinnumálastofnun um að hann hafi lagt fram umsókn um tímabundið atvinnuleyfi 23. desember 2022 sem hafi verið samþykkt.

Með tölvubréfi kærunefndar, dags. 9. maí 2023, var óskað eftir staðfestingu frá Vinnumálastofnun á því að kærandi hefði fengið útgefið tímabundið atvinnuleyfi. Í svari frá Vinnumálastofnun sem barst nefndinni þann sama dag kom fram að kærandi hefði fengið útgefið atvinnuleyfi með gildistíma til 21. júlí 2023 en 26. apríl 2023 hefði atvinnuleyfið verið afturkallað og hann væri því ekki með gilt atvinnuleyfi.

Af gögnum málsins er ljóst að kærandi lagði fram umsókn um tímabundið atvinnuleyfi til Vinnumálastofnunar en hann hafi upphaflega fengið atvinnuleyfið útgefið 27. september 2022 sem hafi svo verið framlengt af Vinnumálastofnun 10. mars 2023. Af framangreindum upplýsingum frá stoðdeild Ríkislögreglustjóra má ráða að stoðdeild hafi reynt að hafa upp á dvalarstað kæranda 28. október 2022 en það ekki borið árangur. Þá hafi eina tilraun stoðdeildar til að hafa samband við kæranda verið símleiðis 1. nóvember 2022, en ekki hafi náðst í kæranda þann dag. Af bókunum stoðdeildar er ljóst að engin frekari samskipti voru skráð vegna málsins. Telur kærunefnd að þar sem framangreindar upplýsingar hafi legið fyrir hjá stjórnvöldum, þ. á m. upplýsingar um atvinnurekanda kæranda og starfsstöð hans sé ljóst að framkvæmd stoðdeildar hafi verið ómarkviss og því ekki hægt að líta svo á að tafir á málsmeðferð kæranda hafi verið af hans völdum.

Í ljósi alls framangreinds og samfelldrar dvalar kæranda hér á landi síðan hann lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd 23. mars 2022, er það mat kærunefndar að atvik hafi breyst verulega í máli kæranda á þann hátt að hann eigi rétt á endurupptöku máls síns, sbr. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga, og er það niðurstaða kærunefndar að fella ákvörðun Útlendingastofnunar úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar á grundvelli framkvæmdar kærunefndar við beitingu þágildandi 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.


 

Úrskurðarorð:

Fallist er á beiðni kæranda um endurupptöku á máli hans.

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi og lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka mál kæranda til efnismeðferðar.

 

The appellant‘s request for re-examination of the case is granted.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate shall examine the merits of the appellant‘s application for international protection in Iceland.

 

 

Þorsteinn Gunnarsson

 

 

Bjarnveig Eiríksdóttir                                                Sandra Hlíf Ocares


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum