Hoppa yfir valmynd
Kærunefnd jafnréttismála

Mál nr. 3/2023 - Úrskurður

Úrskurður kærunefndar jafnréttismála

 

 

A

gegn

Menntaskólanum í Kópavogi

 

Ráðning. Mismunun á grundvelli kyns. Fallist á brot.

A kærði ákvörðun M um að ráða konu í starf matreiðslumeistara við skólann sem hann hafði sótt um ásamt tveimur öðrum körlum. Í ljósi þess að konan sótti um starfið daginn eftir að umsóknarfrestur rann út og henni einni var boðið í viðtal var talið að ekki hefði verið jafnræði með umsækjendum við umsóknarferlið. Var A talinn hafa leitt líkur að því að kyn hefði haft áhrif á ákvörðun M um ráðningu konunnar, sbr. 4. mgr. 19. gr. laga nr. 150/2020. Þá varð ekki séð að hlutlæg og málefnaleg sjónarmið hefðu legið til grundvallar ákvörðun M. Varð það niðurstaða kærunefndar að kærði hefði mismunað umsækjendum um starf á grundvelli kyns, sbr. 1. mgr. 19. gr. laga nr. 150/2020. Var því talið að M hefði brotið gegn lögum nr. 150/2020.

 1. Á fundi kærunefndar jafnréttismála 20. desember 2023 er tekið fyrir mál nr. 3/2023 og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:
 2. Með kæru, dags. 17. febrúar 2023, kærði A ákvörðun Mennta­skólans í Kópavogi að ráða konu í starf matreiðslumeistara við skólann. Kærandi telur að með ráðningunni hafi kærði brotið gegn lögum nr. 150/2020, um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna.
 3. Kæran ásamt fylgigögnum var kynnt kærða með bréfi, dags. 20. mars 2023. Greinar­gerð kærða barst 11. apríl 2023 en án fylgigagna sem bárust 17. s.m. Samdægurs var kæranda send greinargerð ásamt fylgigögnum til athugasemda. Athugasemdir kæranda eru dags. 19. s.m., auk þess sem hann sendi nefndinni ábendingu 8. maí s.á. Með tölvubréfi 4. ágúst 2023 óskaði kærunefndin eftir frekari skýringum frá kærða sem bárust með tölvupósti 16. ágúst 2023 og voru sendar kæranda til upplýsingar 23. s.m.

   

  MÁLAVEXTIR

   

 4. Kærði auglýsti eftir matreiðslumeistara til starfa í mötuneyti skólans frá áramótum. Í auglýsingu um starfið var gert að skilyrði að viðkomandi hefði full réttindi sem matreiðslumaður, framúrskarandi samskiptahæfni og ætti auðvelt með að vinna með ungu fólki í líflegu umhverfi framhaldsskólans. Tekið var fram að mjög mikilvægt væri að viðkomandi sýndi sjálfstæði í vinnubrögðum og hefði góða skipulagshæfileika. Helstu verkefni og ábyrgð voru að stýra mötuneyti skólans og skipuleggja innkaup, undirbúa, elda og ganga frá eftir málsverði nemenda og starfsfólks, undirbúa veitingar fyrir viðburði á vegum skólans og vinna að góðri hráefnisnýtingu í samvinnu við Hótel- og matvælaskólann sem er innan kærða. Tekið var fram að unnið væri í dagvinnu en að utan reglulegs starfstíma skólans gæti vinnutími verið sveigjanlegur. Þá var tilgreint að tekið væri við umsóknum í gegnum starfatorg.is og að náms- og starfsferilsskrá skyldi fylgja með innsendri umsókn ásamt sakavottorði og þeim gögnum sem umsækjendur teldu skipta máli í ráðningarferlinu. Sérstaklega var tekið fram að einungis innsend gögn yrðu lögð til grundvallar ráðningu og réðu vali þeirra sem yrðu kallaðir í starfsviðtal. Varðandi nánari upplýsingar um starfið var bent á framkvæmdastjóra Hótel- og matvælaskólans. Ekki var tilgreindur umsóknarfrestur í auglýsingunni en samkvæmt kærða var hann til 5. desember 2022.
 5. Alls bárust fjórar umsóknir um starfið, frá þremur körlum áður en umsóknarfrestur rann út og frá einni konu daginn eftir að hann rann út. Viðtal var tekið við konuna og í framhaldinu ákveðið að bjóða henni starfið, sem hún þáði. Var niðurstaðan tilkynnt kæranda 6. janúar 2023, sem óskaði rökstuðnings um hæl. Rökstuðningur var veittur sama dag.

  SJÓNARMIÐ KÆRANDA

   

 6. Kærandi telur að kærði hafi við ráðningu konu í starf matreiðslumeistara mismunað honum á grundvelli kyns og þar með brotið gegn 1. mgr. 19. gr. laga nr. 150/2020, um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna.
 7. Kærandi telur sig hafa uppfyllt allar kröfur í auglýsingu um starfið og segir hana hafa verið birta 3. desember 2022. Bendir hann á að sú sem hafi verið ráðin hafi hvorki reynslu af rekstri mötuneytis né sé hún með meistararéttindi í matreiðslu eins og óskað hafi verið eftir. Hafi hún því ekki uppfyllt þær kröfur sem voru gerðar til starfsins í auglýsingu. Bendir kærandi á að hann hafi uppfyllt allar kröfur í auglýsingunni en ekki verið boðaður í viðtal. Þyki honum það sérstakt og ýti það undir grunsemdir hans um að í ráðningar­ferlinu hafi verið pottur brotinn.
 8. Kærandi tekur fram að honum finnist rökstuðningur kærða fyrir ráðningu konunnar sem fékk starfið ekki vera í samræmi við þær kröfur sem voru gerðar til starfsins í auglýsingu. Bendir hann á að það veki furðu að menntastofnun sem sjái um að mennta fólk í iðngreininni ráði fólk sem ekki uppfylli kröfurnar sem kærði setur sjálfur í auglýsingu.
 9. Kærandi bendir á að hann hafi aldrei verið boðaður í viðtal eftir að hann sótti um starfið eins og kærði heldur fram. Hið rétta sé að hann hafi hringt í framkvæmdastjóra Hótel- og matvælaskólans og óskað eftir að fá að skoða aðstöðuna og eftir frekari upplýsingum áður en hann myndi taka ákvörðun um að sækja um starfið. Framkvæmdastjórinn hafi tekið þessari umleitan vel og hafi þeir hist 1. desember 2022. Hafi þeir átt gott samtal á meðan þeir gengu um aðstöðuna. Vísar kærandi til meðfylgjandi tölvupósta þessu til staðfestingar. Degi síðar hafi kærandi sent framkvæmdastjóranum starfsumsókn en sá síðarnefndi þá minnt hann á að senda umsóknina einnig í gegnum starfatorg. Hafi kærandi í framhaldinu gert það. Hafi framkvæmdastjóranum því ekki getað dulist að kærandi hefði áhuga á starfinu en auk þess sé ljóst að fundur kæranda og framkvæmdastjórans hafi ekki verið starfsviðtal. Telur kærandi að kærði hafi brotið gegn reglum stjórnsýsluréttarins með því að bjóða honum ekki í starfsviðtal.
 10. Kærandi telur að þau veiku rök kærða að auglýsingin hafi verið villandi og að ekki hafi verið ætlunin að ráða matreiðslumeistara heldur matartækni haldi ekki. Auglýsingin sé skýr um að óskað sé eftir matreiðslumeistara, bæði í fyrirsögn hennar og texta, auk þess sem krafist sé fullra réttinda. Sé auglýsingin lesin í samhengi sé augljóst að upphaflega hafi kærði verið að leita eftir matreiðslumeistara. Allt tal um annað sé eftiráskýringar.
 11. Kærandi tekur fram að tölvupóstur framkvæmdastjórans til skólameistarans sem hefur yfirskriftina „punktar um viðtöl“ sé fullur af rangfærslum: Í fyrsta lagi hafi hann aldrei verið boðaður í starfsviðtal. Í öðru lagi hafi hann ekki átt samtal við fram­kvæmdastjórann um viðveru. Í þriðja og síðasta lagi hafni hann því að hafa ekki sýnt áhuga eða eldmóð. Bendir kærandi á að ekki hafi verið um að ræða starfsviðtal þegar hann rölti um gangana með framkvæmdastjóranum. Sé þetta yfirvarp framkvæmda­stjórans og eftiráskýring.
 12. Kærandi bendir á að kærði viðurkenni þá mismunun sem kærandi hafi orðið fyrir, þ.e. að kærði hafi boðað konuna sem var ráðin í viðtal en ekki hann. Þá bendir hann á að kærði reyni að skýra út að kærandi hafi ekki staðið sig jafn vel í viðtali sem hann var aldrei boðaður í. Tekur kærandi fram að það væri áhugavert að fá að sjá formlegt hæfnismat.
 13. Kærandi bendir á að sjö kennarar við skólann séu matreiðslumeistarar. Eigi yfirmaður mötuneytis að vinna náið með þessum matreiðslumeisturum. Verði því að telja ein­kennilega ákvörðun að ráða matartækni í stað matreiðslumeistara í starfið. Bendir kærandi á að konan sem var ráðin hafi nýlokið námi í matreiðslu, auk þess sem einn meðmælandi hennar sé kennari hjá kærða.
 14. Að lokum tekur kærandi fram að málið beri þess merki að ekki hafi verið farið að lögum og reglum sem gilda um ráðningu í störf hjá hinu opinbera.

   

  SJÓNARMIÐ KÆRÐA

   

 15. Kærði tekur fram að kærandi hafi óskað eftir að fá að koma í viðtal við framkvæmda­stjóra Hótel- og matvælaskólans áður en umsóknarfrestur var liðinn. Hafi þeir hist 30. nóvember 2022. Þar hafi framkvæmdastjórinn tekið viðtal við kæranda og farið yfir starfið og starfsaðstöðu.
 16. Kærði bendir á að konunni sem var ráðin hafi verið boðið að koma í viðtal eftir að umsóknarfresti lauk. Hún sé með 16 ára starfsferil í mötuneytum en af umsóknar­gögnum hafi hún þótt standa öðrum umsækjendum framar þar sem hún hefði til viðbótar við full réttindi sem matreiðslumaður starfsleyfi sem matartæknir. Bendir kærði á að matartæknar séu sérhæfðir mötuneytisstarfsmenn með áherslu á hollt og næringarríkt fæði. Kærði tekur fram að hún hafi staðið sig framúrskarandi vel í starfsviðtali og fengið úrvalsmeðmæli þegar leitað var umsagna. Hún hafi verið jákvæð og sýnt framúrskarandi samskiptahæfni.
 17. Kærði tekur fram að starfslýsing yfirmanns mötuneytis sé í mótun en ætlunin sé að yfirmaður mötuneytis vinni náið með matreiðslukennurum skólans að hráefnisnýtingu þess hráefnis sem gengur af við kennslu og sé stefnt að því að móta starfið með kennur­um skólans á næstu vikum. Þess utan sé vísað í starfslýsingu í auglýsingu.
 18. Kærði tekur fram að fyrirsögn auglýsingarinnar hafi verið villandi þar sem óskað var eftir matreiðslumeistara en í hæfnikröfum sé einungis gerð krafa um full réttindi, þ.e. að viðkomandi sé útskrifaður matreiðslumaður með sveinsbréf. Hótel- og matvælaskóli Íslands sé sérstök eining undir regnhlíf kærða. Sjö matreiðslumenn hafi starfað innan Hótel- og matvælaskólans, allt karlar, en sú sem var ráðin sé sú áttunda í röðinni.
 19. Kærði tekur fram að þáverandi framkvæmdastjóri Hótel- og matvælaskólans hafi séð um ráðninguna og unnið úr umsóknum. Samkvæmt upplýsingum frá honum hafi sú sem var ráðin skilað umsókn degi of seint. Hann hafi engu að síður ákveðið að taka umsókn hennar til greina þar sem vinna úr innsendum umsóknum var ekki hafin. Engar frekari umsóknir hafi borist eftir að umsóknarfresti lauk. Framkvæmdastjórinn hafi séð um að taka viðtöl en hann hafi ekki stuðst við skriflegar staðlaðar spurningar. Engin skrifleg gögn liggi fyrir um viðtalið fyrir utan tölvupóst sem hann sendi skóla­meistara í tilefni af kærunni.

   

   

   

  NIÐURSTAÐA

   

 20. Mál þetta snýr að því hvort kærði hafi brotið gegn 19. gr. laga nr. 150/2020, um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, með ráðningu konu í starf matreiðslumeistara í mötu­neyti skólans.
 21. Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 150/2020 kemur fram að markmið laganna sé að koma í veg fyrir mismunun á grundvelli kyns og koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 151/2020, um stjórn­sýslu jafnréttismála, gilda lögin um stjórnsýslu á sviði jafnréttismála á því sviði sem löggjöf um jafnréttismál tekur til, m.a. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, og um störf kærunefndar jafnréttismála. Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laganna tekur kæru­nefnd jafnréttismála til meðferðar kærur sem til hennar er beint samkvæmt framan­sögðu og kveður upp skriflegan úrskurð um hvort ákvæði laganna hafi verið brotin.
 22. Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 150/2020 er atvinnurekendum óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli kyns. Samkvæmt sönnunarreglu í 4. mgr. 19. gr. laganna kemur það í hlut umsækjanda sem telur á sér brotið að leiða líkur að því að honum hafi verið mismunað á grundvelli kyns. Takist sú sönnun ber atvinnu­rekand­anum að sýna fram á að aðrar ástæður en kyn hafi legið til grundvallar ákvörðun hans. Af framangreindu er ljóst að það kemur í hlut kæranda að færa fram staðreyndir eða önnur gögn og upplýsingar sem leiða líkur að því að kyn hafi haft áhrif á ráðningu í það starf sem um ræðir í málinu hjá kærða.
 23. Við mat á því hvort ákvæði 19. gr. laga nr. 150/2020 hafi verið brotið skal taka mið af menntun, starfsreynslu, sérþekkingu eða öðrum sérstökum hæfileikum sem krafa er gerð um í viðkomandi starfi samkvæmt lögum eða reglugerðum eða telja verður annars að komi að gagni í starfinu. Árétta ber að framangreint verður ekki talið fela í sér sjálfstæða heimild fyrir nefndina til að byggja á öðrum sjónarmiðum en kærði hefur sjálfur lagt til grundvallar og ekki heldur heimild til að endurmeta innbyrðis vægi þessara sjónarmiða með sjálfstæðum hætti, svo lengi sem þau voru málefnaleg og innan þess svigrúms sem kærði hefur, sbr. athugasemdir við 19. gr. frumvarps þess sem varð að lögum nr. 150/2020. Þá fellur það ekki undir valdsvið kærunefndarinnar að endur­skoða mat kærða á því hvaða umsækjandi fellur best að þeim sjónarmiðum sem lögð var áhersla á við ráðninguna nema draga megi þá ályktun af gögnum málsins að matið hafi ekki verið forsvaranlegt.
 24. Í auglýsingu þeirri sem liggur til grundvallar í málinu var auglýst eftir matreiðslu­meistara í mötuneyti kærða. Gert var að skilyrði að viðkomandi hefði full réttindi sem matreiðslumaður, framúrskarandi samskiptahæfni og ætti auðvelt með að vinna með ungu fólki í líflegu umhverfi framhaldsskólans. Þá var tekið fram að mjög mikilvægt væri að viðkomandi sýndi sjálfstæði í vinnubrögðum og hefði góða skipulagshæfileika. Helstu verkefni og ábyrgð voru að stýra mötuneyti skólans og skipuleggja innkaup, undirbúa, elda og ganga frá eftir málsverði nemenda og starfsfólks, undirbúa veitingar fyrir viðburði á vegum skólans og vinna að góðri hráefnisnýtingu í samvinnu við Hótel- og matvælaskólann sem er innan kærða. Í auglýsingunni var tilgreint að tekið væri við umsóknum í gegnum starfatorg.is og að náms- og starfsferilsskrá skyldi fylgja með innsendri umsókn ásamt sakavottorði og þeim gögnum sem umsækjendur teldu skipta máli í ráðningarferlinu. Sérstaklega var tekið fram að einungis innsend gögn yrðu lögð til grundvallar ráðningu og réðu vali þeirra sem yrðu kallaðir í starfsviðtal. Varðandi nánari upplýsingar um starfið var bent á framkvæmdastjóra Hótel- og matvælaskólans. Ekki var tilgreindur umsóknarfrestur en ágreiningslaust er að hann var til 5. desember 2022.
 25. Fyrir liggur að kærði er stjórnvald og um málsmeðferð við ráðningar hjá kærða gilda stjórnsýslulög nr. 37/1993 og lög nr. 70/1996, um réttindi og skyldurstarfsmanna ríkis­ins, auk meginreglna stjórnsýslu- og starfsmannaréttar. Í málinu liggur fyrir að sú sem var ráðin hafi sótt um starfið daginn eftir að umsóknarfrestur rann út. Sendi hún um­sóknina í tölvupósti beint á framkvæmdastjóra Hótel- og matvælaskólans sem ákvað í framhaldinu að taka við hana viðtal. Fyrir liggur að hún var eina konan í umsækjenda­hópnum og sú eina sem var boðið í viðtal við framkvæmdastjórann sem tók ákvörðun um að ráða hana. Samkvæmt því verður ekki annað séð en að ekki hafi verið jafnræði með umsækjendum við umsóknarferlið. Með vísan til þess verður fallist á að kærandi hafi leitt líkur að því að mismunun á grundvelli kyns hafi haft áhrif á ákvörðun kærða um að ráða konuna, sbr. 4. mgr. 19. gr. laga nr. 150/2020. Samkvæmt því kemur það í hlut kærða að sýna fram á að aðrar ástæður en kyn hafi legið til grundvallar ákvörðun hans.
 26. Eins og áður segir liggur fyrir að sú sem var ráðin skilaði umsókn degi eftir að umsókn­arfresturinn rann út, auk þess sem henni einni var boðið í viðtal. Þá liggur fyrir að auglýst var eftir matreiðslumeistara til að gegna starfinu sem var laust til umsóknar en sú sem var ráðin var matreiðslumaður með starfsleyfi sem matartæknir. Samkvæmt því uppfyllti hún ekki þær kröfur sem gerðar voru til starfsins samkvæmt auglýs­ingu. Hefur það ekki áhrif á þessa niðurstöðu að kærði telji að fyrirsögn auglýsingar­innar hafi verið villandi, enda bar honum að tryggja að hún væri í samræmi við þær kröfur sem hann gerði til umsækjenda. Þá athugast jafnframt að framkvæmdastjóri Hótel- og matvælaskólans tók einn ákvörðun um ráðninguna en ekki skólameistari sem ber lögum samkvæmt sem forstöðumaður stofnunar ábyrgð á ráðningum hjá kærða. Breytir hér engu að skólameistari hafi skrifað undir ráðningarsamning við konuna sem var ráðin. Samkvæmt þessu er ljóst að málsmeðferðin var ekki í samræmi við þær reglur stjórnsýslu- og starfsmannaréttar sem gilda um ráðningar.
 27. Að öllu þessu virtu verður ekki séð að hlutlæg og málefnaleg sjónarmið hafi legið til grundvallar ákvörðun kærða um ráðningu í umrætt starf. Samkvæmt því verður að telja að kærða hafi ekki tekist að sýna fram á að aðrar ástæður en kyn hafi legið til grundvallar fyrrnefndri ákvörðun hans, sbr. 4. mgr. 19. gr. laga nr. 150/2020.
 28. Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða kærunefndar jafnréttismála að kærði hafi mismunað umsækjendum um starf á grundvelli kyns, sbr. 1. mgr. 19. gr. laga nr. 150/2020.

Ú r s k u r ð a r o r ð

Kærði, Menntaskólinn í Kópavogi, braut gegn lögum nr. 150/2020, um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, við ráðningu matreiðslumeistara í mötuneyti kærða.

 

Kristín Benediktsdóttir

 

Andri Árnason

 

Ari Karlsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum