Hoppa yfir valmynd
Kærunefnd útlendingamála

Nr. 659/2023 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 9. nóvember 2023 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 659/2023

í stjórnsýslumáli nr. KNU23060213

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.       Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 29. júní 2023 barst kærunefnd útlendingamála sjálfkrafa kæra, samkvæmt 3. málsl. 7. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016, á ákvörðun Útlendingastofnunar um að taka ekki til efnismeðferðar hér á landi umsókn einstaklings er kveðst heita [...], vera fæddur [...], og vera ríkisborgari Afganistan (hér eftir kærandi), um alþjóðlega vernd og vísa honum frá landinu.

Kærandi krefst þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að lagt verði fyrir stofnunina að taka umsókn hans um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar hér á landi, aðallega með vísan til 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga en til vara með vísan til 42. gr. laga um útlendinga, sbr. 3. mgr. 36. gr. laganna.

II.        Málsmeðferð

Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi 1. febrúar 2023. Við leit að fingraförum kæranda í Eurodac gagnagrunninum sama dag kom í ljós að fingraför hans höfðu verið skráð í grunninn af yfirvöldum í Þýskalandi. Hinn 15. febrúar 2023 var beiðni um viðtöku kæranda og umsóknar hans um alþjóðlega vernd beint til yfirvalda í Þýskalandi, sbr. d-lið 1. mgr. 18. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir Dyflinnarreglugerðin). Í svari frá þýskum yfirvöldum, dags. 16. febrúar 2023, samþykktu þau viðtöku kæranda á grundvelli d-liðar 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Kærandi kom til viðtals hjá Útlendingastofnun 8. mars 2023, ásamt löglærðum talsmanni sínum. Útlendingastofnun ákvað 27. júní 2023 að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi ekki til efnismeðferðar og að honum skyldi vísað frá landinu. Ákvörðunin var birt fyrir kæranda 28. júní 2023 og barst kærunefnd greinargerð kæranda 5. júlí 2023. Frekari gögn bárust kærunefnd 10., 19. og 25. október 2023. Sambýliskona kæranda kom í viðtal til kærunefndar 25. október 2023.

III.      Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að þýsk stjórnvöld beri ábyrgð á meðferð umsóknar kæranda um alþjóðlega vernd á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Umsóknin yrði því ekki tekin til efnismeðferðar, sbr. c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, enda fæli flutningur kæranda til Þýskalands ekki í sér brot gegn 42. gr. laga um útlendinga, sbr. jafnframt 3. mgr. 36. gr. laganna. Þá taldi Útlendingastofnun að kærandi hefði ekki slík tengsl við Ísland að nærtækast væri að hann fengi hér vernd eða að sérstakar ástæður mæltu annars með því að taka bæri umsókn hans til efnismeðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kæranda var vísað frá landinu, sbr. c-lið 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, og skyldi hann fluttur til Þýskalands.

IV.      Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda vísar hann til viðtals hans hjá Útlendingastofnun og greinargerðar sinnar til stofnunarinnar hvað málavexti varðar. Kærandi vísar til þess að hann sé í hjúskap með afganskri konu sem búsett sé hér á landi en þau eigi von á barni saman.

Kærandi byggir á því að ákvæði 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga mæli fyrir um að umsókn um alþjóðlega vernd skuli tekin til efnismeðferðar, nema undantekningar sem greindar eru í a-, b-, c- og d-liðum ákvæðisins eigi við. Samkvæmt c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga sé stjórnvöldum heimilt að synja því að taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar. Kærandi leggur áherslu á að um sé að ræða heimild en ekki skyldu. Kærandi sé í hjúskap með nafngreindri konu sem sé afganskur ríkisborgari og búsett hér á landi. Kærandi hafi komið til Íslands til að búa með eiginkonu sinni sem sé barnshafandi. Kærandi telji það varhugavert og í andstöðu við tilgang Dyflinnarreglugerðarinnar að Útlendingastofnun hafi tekið ákvörðun um að synja kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi og senda hann til Þýskalands í ljósi hjúskaparstöðu hans og þess að hann eigi von á barni með eiginkonu sinni. Kærandi byggir á því að hann eigi rík tengsl við Ísland en ekki viðtökuríki þar sem honum hefur verið synjað um alþjóðlega vernd. Hér á landi eigi hann fjölskyldutengsl og hann vilji eðli málsins samkvæmt vera í samvistum við eiginkonu sína og barn. Kærandi krefst þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi. Kærandi leggur jafnframt áherslu á það að á meðan á dvöl hans í Þýskalandi stóð hafi hann haft takmörkuð réttindi þar í landi. Kæranda hafi í tvígang verið synjað um alþjóðlega vernd.

Kærandi byggir á því að taka skuli mál hans til efnismeðferðar hér á landi vegna sérstakra ástæðna, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kærandi eigi eiginkonu hér á landi en hann sé ekki með tengsl við Þýskaland. Kærandi vilji vera með eiginkonu sinni hér á landi og taka þátt í uppeldi barns þeirra. Kærandi hafi lagt fram gögn sem sína fram á að hann sé í hjúskap með nafngreindri konu. Kærandi geri athugasemd við ákvörðun Útlendingastofnunar þegar komi að mati á framlögðu hjúskaparvottorði. Í ákvörðun Útlendingastofnunar sé vísað til þess að samkvæmt skjalarannsóknarskýrslu hafi hjúskaparvottorðið talist ótraustvekjandi. Kærandi vísar til þess að ekki sé gerð krafa um að hjúskaparvottorð séu gefin út af embættum sem teljist sambærileg og embætti sýslumanns á Íslandi. Kærandi og eiginkona hans séu múslímar og því hafi þau gengið í hjúskap hjá íslams-afgönsku félagi í Þýskalandi. Kærandi byggir á því að það sé ekki Útlendingastofnunar að hafna framlögðu hjúskaparvottorði með þessum hætti. Kærandi telur að stofnunin fari á svig við jafnræðisreglu stjórnsýsluréttarins, því ekki verði séð að Útlendingastofnun framkvæmi í öllum tilvikum slíka rannsókn á framlögðum hjúskaparvottorðum þegar um umsóknir sé að ræða frá einstaklingum með annan trúarlegan bakgrunn. Að sama skapi telji kærandi að Útlendingastofnun setji mjög óljósar kröfur um magn af afritum mynda og samskipta milli kæranda og eiginkonu hans. Kærandi vísar til þess að mismikil rafræn og skrifleg samskipti séu á milli hjóna og gerir því athugasemd við mat Útlendingastofnunar þegar komi að magni af framlögðum ljósmyndum. Kærandi telur að hann hafi sérstök tengsl við Ísland í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga og því skuli taka mál hans til efnismeðferðar hér á landi. Kærandi vísar jafnframt til 32. gr. a og 32. gr. b reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, með síðari breytingum. Kærandi byggir á því að hann megi vænta þess að eiga erfitt uppdráttar vegna alvarlegrar mismununar í Þýskalandi. Kærandi óttist að aðstæður hans verði sambærilegar þeim sem taldar séu fram í framangreindri reglugerð og því beri að taka umsókn hans til efnismeðferðar hér á landi. Kærandi hafi verið réttindalaus í Þýskalandi auk þess sem hann hafi upplifað fordóma, einkum af hálfu starfsfólks útlendingastofnunar þar í landi.

Kærandi byggir á því til vara að íslenskum stjórnvöldum sé skylt að taka mál hans til efnismeðferðar hér á landi, enda sé óheimilt að senda hann til svæðis þar sem hann hafi ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga. Kærandi byggir á því að þegar aðstæður séu með þeim hætti beri íslenskum stjórnvöldum að taka mál til efnismeðferðar samkvæmt 3. mgr. 36. gr. laganna. Kærandi vísar til athugasemda við 42. gr. laga um útlendinga í frumvarpi til laga um útlendinga en þar komi fram bann við endursendingu þangað sem líf fólks eða frelsi sé í hættu (non-refoulement). Þá vísar kærandi til þess að íslenskum stjórnvöldum beri að hafa hliðsjón af þeim meginreglum sem Evrópudómstóllinn setji fram í dómum sínum að því leyti sem þær séu til skýringar á alþjóðlegum skuldbindingum íslenska ríkisins og séu þeim samhljóma. Vísar kærandi til dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í máli M.S.S gegn Belgíu og N.H. og fleiri gegn Frakklandi máli sínu til stuðnings. Þá vísar kærandi til þess að hann hafi orðið fyrir vanvirðandi meðferð í Þýskalandi þar sem honum hafi verið synjað um dvalar- og atvinnuleyfi þrátt fyrir tæplega átta ára dvöl þar í landi.

V.        Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Aðstæður kæranda

Samkvæmt gögnum málsins er kærandi karlmaður á [...]sem kom einsamall hingað til lands. Í viðtali hjá Útlendingastofnun greindi kærandi frá því að hafa komið til Þýskalands árið 2015 og lagt fram umsókn um alþjóðlega vernd árið 2016 en hann hafi fengið synjun á umsókn sinni þar í landi í tvígang. Kærandi hefur greint frá því að eiga sambýliskonu hér á landi sem er handhafi alþjóðlegrar verndar, en þau hafi eignast barn saman nýlega. Kærandi hafi kynnst henni í Þýskalandi í september 2022 og þau gift sig mánuði síðar að trúarlegum sið en ekki lagalega. Kærandi hafi dvalið með sambýliskonu sinni í Þýskalandi þar til í janúar 2023 en hann hafi svo komið einn hingað til lands 31. janúar 2023 og lagt fram umsókn um alþjóðlega vernd hér á landi degi síðar. Kærandi greindi frá því að hafa starfað í Þýskalandi frá árinu 2019 en hann hafi verið með tímabundið dvalarleyfi þar í landi sem hann hafi þurft að endurnýja reglulega. Kærandi hafi leigt húsnæði og haft aðgang að heilbrigðiskerfinu þar í landi. Þá greindi kærandi frá því að hafa orðið fyrir fordómum frá starfsfólki útlendingayfirvalda í Þýskalandi. Í viðtali hjá Útlendingastofnun greindi kærandi frá því að hafa farið í aðgerð í Þýskalandi vegna líkamlegra kvilla en að hann væri í lagi núna. Þá væri andleg heilsa hans góð en hann hefði áhyggjur af sambýliskonu sinni. Þá greindi kærandi frá því að atburðir sem hefðu hent hann í heimaríki hefðu áhrif á andlega heilsu hans.

Ákvæði 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga segir að umsókn um alþjóðlega vernd skuli tekin til efnismeðferðar nema:

c. heimilt sé að krefja annað ríki, sem tekur þátt í samstarfi á grundvelli samninga sem Ísland hefur gert um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um alþjóðlega vernd sem lögð er fram hér á landi eða í einhverju samningsríkjanna, um að taka við umsækjanda.

Í samræmi við samning ráðs Evrópusambandsins og Íslands og Noregs um þátttöku hinna síðarnefndu í framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna samþykkti Ísland áðurnefnda Dyflinnarreglugerð, sbr. auglýsingu í C-deild Stjórnartíðinda nr. 1/2014.

Í greinargerð vísar kærandi til þess að 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga kveði aðeins á um heimild til handa stjórnvöldum til að synja umsækjendum um efnismeðferð en ekki skyldu. Meginregla laganna sé því sú að allar umsóknir skuli teknar til efnismeðferðar nema rétt þyki að beita undantekningarreglum laganna en í samræmi við almennar lögskýringarreglur skuli túlka undantekningarreglur þröngt. Kærunefnd áréttar að samkvæmt orðalagi 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga skal umsókn um alþjóðlega vernd skv. 37. gr. laganna tekin til efnismeðferðar nema aðstæður í a - d-lið ákvæðisins eigi við um umsóknina. Af því orðalagi er ljóst að stjórnvöldum beri skylda til að beita ákvæðum a – d-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga eigi þau við. Þá eru íslensk stjórnvöld jafnframt bundin af jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga við mat á því hvort umsókn skuli tekin til efnismeðferðar. Er umræddri málsástæðu kæranda hafnað.

Í III. kafla Dyflinnarreglugerðarinnar koma fram viðmið, í ákveðinni forgangsröð, um hvaða ríki skuli bera ábyrgð á umsókn um alþjóðlega vernd. Ábyrgð Þýskalands á umsókn kæranda er byggð á d-lið 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar þar sem kærandi hefur fengið synjun á umsókn um alþjóðlega vernd þar í landi. Samkvæmt framansögðu er heimilt að krefja þýsk stjórnvöld um að taka við kæranda, sbr. c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Aðstæður í Þýskalandi

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður og málsmeðferð umsókna um alþjóðlega vernd í Þýskalandi, m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum og gögnum:

 • 2022 Country Reports on Human Rights Practices – Germany (United States Department of State, 20. mars 2023);
 • Amnesty International Report 2022/23 - Germany (Amnesty International, 27. mars 2023);
 • The AnkER centres. Implications for asylum precedures, reception and return (European Council on Refugees and Exiles, 26. apríl 2019);
 • Asylum Information Database, Country Report: Germany (European Council on Refugees and Exiles, 6. apríl 2023);
 • Asylum Information Database, Housing out of reach. The reception of refugees and asylum seekers in Europe (European Council on Refugees and Exiles, 29. maí 2019);
 • Conclusions on Germany (European Commission against Racism and Intolerance, 28. febrúar 2017);
 • Country Report – Immigration Detention in Germany: From Open Arms to Public Backlash (Global Detention Project, ágúst 2020);
 • Freedom in the World 2023 – Germany (Freedom House, mars 2023);
 • Report by Nils Muižnieks Commissioner for Human Rights of the Council Of Europe Following his Visit to Germany on 24th April and from 4 to 8 May 2015 (Council of Europe: Commissioner for Human Rights, 1. október 2015);
 • Report to the German Government on the visit to Germany carried out by the European Committee for the Prevention of Torture and Inhuman or Degrading Treatment or Punishment (CPT) from 13 to 15 August 2018 (Council of Europe, 9. maí 2019);
 • Upplýsingar af heimasíðu stofnunar gegn mismunun (https://www.antidiskriminierungsstelle.de/EN/homepage/homepage-node.html,);
 • Upplýsingar af heimasíðu þýsku útlendingastofnunarinnar (www.bamf.de);
 • World Report 2023 – Germany (Human Rights Watch, 12. janúar 2023).

Þýskaland er eitt af aðildarríkjum Evrópusambandsins og því bundið af reglum sambandsins við málsmeðferð umsækjenda um alþjóðlega vernd, t.a.m. tilskipunum sambandsins um meðferð umsókna um alþjóðlega vernd nr. 2013/32/EU, um móttökuaðstæður nr. 2013/33/EU og um lágmarksviðmið til þess að teljast flóttamaður nr. 2011/95/EU. Þá hefur Þýskaland verið aðili að Evrópuráðinu frá 13. júlí 1950 og fullgilti mannréttindasáttmála Evrópu árið 1953. Þýskaland fullgilti samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri illri og ómannlegri eða vanvirðandi meðferð 1. október 1990, um borgarleg og stjórnmálaleg réttindi og um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi 17. desember 1973. Þá fullgilti Þýskaland barnasáttmálann 6. mars 1992. Þá gerðist ríkið aðili að Flóttamannasamningnum 1. desember 1953.

Í skýrslu European Council on Refugees and Exiles (ECRE) frá árinu 2023 kemur fram að einstaklingar skuli sækja um alþjóðlega vernd í Þýskalandi hjá þýsku útlendingastofnuninni (þ. Bundesamt für Migration und Flüchtlinge) eða lögreglunni. Lögum samkvæmt eigi umsækjendur rétt á gistirými í móttökumiðstöðvum (þ. Aufnahmeeinrichtung) frá því að þeir leggi fram umsókn sína og þar til niðurstaða liggur fyrir. Í skýrslunni kemur fram að árið 2022 hafi meðalmálsmeðferðartími útlendingastofnunar á umsóknum um alþjóðlega vernd verið rúmir sjö mánuðir. Umsækjendur um alþjóðlega vernd í Þýskalandi eigi rétt á viðtali með aðstoð túlks, áður en ákvörðun er tekin í máli þeirra hjá þýsku útlendingastofnuninni. Í framangreindum gögnum kemur fram að umsækjendur sem fengið hafi synjun á umsókn sinni hjá þýsku útlendingastofnuninni geta kært niðurstöðuna til sérstaks stjórnsýsludómstóls (þ. Verwaltungsgericht). Fái umsækjendur synjun á umsókn sinni hjá útlendingastofnun eða stjórnsýsludómstól eigi þeir möguleika á því að leggja fram viðbótarumsókn (þ. Folgeantrag) um alþjóðlega vernd hjá útlendingastofnun. Ef nýjar upplýsingar eða gögn liggi fyrir í máli umsækjanda, aðstæður hafa breyst í máli hans eða verulegir annmarkar voru á fyrri málsmeðferð, geti skilyrði viðbótarumsóknar verið uppfyllt. Umsækjendur geti borið mál sitt undir þýska dómstóla sé viðbótarumsókn þeirra synjað. Jafnframt eigi umsækjendur þess kost að leggja fram beiðni fyrir Mannréttindadómstól Evrópu um bráðabirgðaráðstöfun samkvæmt 39. gr. málsmeðferðarreglna dómstólsins, telji þeir endanlega niðurstöðu um synjun á alþjóðlegri vernd hafa í för með sér hættu á ofsóknum eða meðferð sem brjóti í bága við ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu.

Í skýrslu ECRE frá árinu 2023, um aðstæður og aðbúnað umsækjenda um alþjóðlega vernd í Þýskalandi kemur fram að umsækjendum séu tryggð búsetuúrræði og mataraðstoð. Flestar móttökumiðstöðvar hafi þá stefnu að hýsa einstæðar konur og fjölskyldur í aðskildum byggingum eða álmum. Þá séu sumar móttökumiðstöðvar sem útvegi aðskilin herbergi fyrir einstaklinga í viðkvæmri stöðu. Þá verður ráðið af skýrslu ECRE að umsækjendur um alþjóðlega vernd í Þýskalandi eigi rétt á nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu. Samkvæmt dómaframkvæmd þýskra dómstóla felur orðalagið „nauðsynleg heilbrigðisþjónusta“ ekki einvörðungu í sér bráðaþjónustu. Þá geta umsækjendur um alþjóðlega vernd sem glíma við sálræn áföll fengið aðgang að þjónustu sérfræðilækna og annarra meðferðaraðila. Þó eru dæmi um að umsækjendur hafa átt í erfiðleikum með að nálgast slíka þjónustu, m.a. vegna fjarlægða milli búsetu- og meðferðarúrræða. Í skýrslunni kemur jafnframt fram að börn umsækjenda um alþjóðlega vernd eigi rétt á menntun í Þýskalandi til 16 ára aldurs.

Af þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér verður talið að þýsk stjórnvöld uppfylli skyldur sínar varðandi lögfræðiaðstoð til handa umsækjendum um vernd samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 32/2013 um málsmeðferð við veitingu og afturköllun alþjóðlegrar verndar, sbr. 19. og 20. gr. hennar. Samkvæmt skýrslu ECRE tryggi þýsk yfirvöld umsækjendum ekki lögfræðiaðstoð endurgjaldslaust við meðferð máls á fyrsta stjórnsýslustigi. Frá árinu 2019 hafi verið boðið upp á lögfræðiráðgjöf fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd og var sú ráðgjöf endurbætt árið 2023, en hún nái ekki til lögfræðiaðstoðar á fyrsta eða öðru stjórnsýslustigi. Á kærustigi eigi umsækjendur kost á lögfræðiráðgjöf og fyrir dómstólum geti þeir sótt um aðstoð lögmanns á kostnað þýskra yfirvalda.

Í skýrslu samtakanna Freedom House frá árinu 2023 kemur fram að stjórnarskrá Þýskalands og annarri löggjöf sé ætlað að tryggja jafnræði meðal allra auk þess sem í þeim er að finna ákvæði sem leggi bann við mismunun á grundvelli uppruna, trúar og annarra ástæðna. Þá kemur fram í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins fyrir árið 2022 að umsækjendur um alþjóðlega vernd og flóttafólk hafi orðið fyrir ofbeldi í Þýskalandi. Í skýrslu samtakanna Amnesty International kemur fram að árið 2021 hafi þýska ríkisstjórnin samþykkt aðgerðaráætlun til að uppræta hatursglæpi en þó hafi skort heildarstefnu við að uppræta kynþáttafordóma. Þá kemur fram í skýrslu samtakanna fyrir árið 2022 að aðgerðaráætlun gegn hægri-öfgastjórn hafi verið kynnt í mars 2023 en þar hafi ekki verið tekið á stofnana- og kerfisbundnum kynþáttafordómum. Þá sé starfrækt stofnun gegn mismunun (e. Anti-Discrimination Agency) í Þýskalandi sem einstaklingar sem telji sig hafa orðið fyrir mismunun geti leitað til. Á vefsíðu stofnunarinnar kemur fram að hlutverk hennar sé fyrst og fremst að veita þolendum mismununar leiðbeiningar og aðstoð um það í hvaða farveg sé best að leggja mál þeirra.

Ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga

Í 1. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga segir:

Ef svo stendur á sem greinir í 1. mgr. skal þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæla annars með því.

Kærandi byggir mál sitt m.a. á því að taka skuli umsókn hans til efnismeðferðar hér á landi á grundvelli 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kærandi kvaðst í viðtali hjá Útlendingastofnun 2. mars 2023 hafa sérstök tengsl við landið þar sem hann eigi sambýliskonu og barn sem séu með dvalarleyfi hér á landi. Kærandi byggir á því að hann eigi rík tengsl við Ísland en ekki viðtökuríki þar sem honum hefur verið synjað um alþjóðlega vernd. Hér á landi eigi hann fjölskyldutengsl og hann vilji eðli málsins samkvæmt vera í samvistum við sambýliskonu sína og barn. Kærandi hefur lagt fram gögn máli sínu til stuðnings, þ. á m. fæðingarvottorð barns hans og ljósmyndir af sér með barni sínu og sambýliskonu sinni.

Lög um útlendinga veita ekki skýrar leiðbeiningar um hvernig hugtakið sérstök tengsl skv. 2. mgr. 36. gr. skuli túlkað. Í athugasemdum sem fylgdu ákvæðinu í frumvarpi því er varð að lögum um útlendinga kemur fram að ákvæðinu sé ætlað að taka m.a. til þeirra tilvika þegar umsækjendur eiga ættingja hér á landi en ekki í því ríki sem þeir yrðu aftur sendir til. Þetta geti einnig átt við í öðrum tilfellum þar sem tengsl eru ríkari en við viðtökuríkið, svo sem vegna fyrri dvalar. Í athugasemdunum kemur jafnframt fram að með ákvæðinu sé stjórnvöldum eftirlátið mat og hafi heimild til að taka mál til efnismeðferðar umfram það sem leiðir af sérstökum reglum, svo sem reglum Dyflinnarreglugerðarinnar. Af því má m.a. leiða að þau tengsl sem ákvæðið vísar til geta verið fjarlægari en þau nánu fjölskyldutengsl sem Dyflinnarreglugerðin mælir fyrir um, sbr. m.a. g-lið 2. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar.

Í 4. mgr. 32. gr. b reglugerðar um útlendinga segir að umsækjandi teljist ekki hafa sérstök tengsl við Ísland nema aðstandandi hans sé búsettur hér á landi í lögmætri dvöl. Við mat á sérstökum tengslum skal m.a. líta til þess hvort umönnunarsjónarmið séu fyrir hendi, hvort umsækjandi og aðstandandi hans hafi deilt eða alist upp á sama heimili eða hafi á einhverjum tímapunkti haft uppeldisskyldu eða framfærsluskyldu sín á milli. Stjórnvöldum er heimilt að krefja umsækjanda um að sýna fram á umrædd tengsl, t.d. með framlagningu skilríkja eða vottorða. Þá er stjórnvöldum heimilt að óska eftir því að aðstandandi umsækjanda staðfesti umrædd tengsl. Þá segir í 5. mgr. ákvæðisins að við mat á sérstökum tengslum ber þó ávallt að hafa til hliðsjónar þau tengsl sem viðkomandi hefur í því ríki þar sem hann hefur heimild til dvalar í, m.a. lengd dvalar í ríkinu, fjölskyldutengsl og samfélagsleg tengsl sem umsækjandi hefur myndað við ríkið. Þá skal jafnframt hafa til hliðsjónar hvort viðkomandi eigi rétt á fjölskyldusameiningu skv. VIII. kafla laga um útlendinga.

Kærunefnd telur að leggja skuli til grundvallar að ef umsækjandi um alþjóðlega vernd á sannanlega ættingja hér á landi, sem hefur heimild til dvalar hér, sem hann hefur raunveruleg og sérstök tengsl við hér á landi en ekki í viðtökuríki, geti umsókn hans verið tekin til efnismeðferðar hér á landi á grundvelli sérstakra tengsla hans við landið. Kærunefnd telur að af framangreindu sé ljóst að meta þurfi einstaklingsbundnar aðstæður umsækjenda um alþjóðlega vernd m.t.t. fyrirliggjandi gagna við mat á því hvort skilyrðum ákvæðisins sé fullnægt.

Kærandi kvaðst í viðtali hjá Útlendingastofnun eiga sambýliskonu sem væri búsett hér á landi. Kærandi hefði kynnst sambýliskonu sinni í Þýskalandi í brúðkaupi systur hennar 3. september 2022. Þá hafi þau gift sig að trúarlegum sið 8. október 2022 þar í landi en giftingin hafi ekki verið lögformleg. Kærandi hafi búið með sambýliskonu sinni í Þýskalandi þar til í janúar 2023 en þá hafi hún snúið aftur til Íslands og hann komið stuttu síðar hingað til lands og sótt um alþjóðlega vernd. Samkvæmt gögnum málsins eignuðust kærandi og sambýliskona hans barn [...]og samkvæmt framlögðu fæðingarvottorði hefur kærandi verið skráður faðir barnsins. Kærandi hefur lagt fram ljósmyndir af sér með sambýliskonu sinni og barni. Sambýliskona kæranda lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd hér á landi 23. nóvember 2018 og hefur hlotið alþjóðlega vernd hér á landi. Í ljósi þeirra sérstöku tengsla sem kærandi byggir umsókn sína á, annars vegar við sambýliskonu sína og hins vegar við barn þeirra, óskaði kærunefnd eftir því að fá hana til nefndarinnar í viðtal í því skyni að svara spurningum um samband þeirra og tengsl kæranda við barnið. Sambýliskona kæranda kom til viðtals hjá kærunefnd 25. október 2023 og var framburður hennar um samband þeirra, samveru og tengsl í samræmi við frásögn kæranda. Þá greindi sambýliskona kæranda frá því að þau væru í sambúð hér á landi og kærandi væri í góðum tengslum við barn sitt. Þá greindi sambýliskona kæranda frá því að barn þeirra væri í þörf fyrir að alast upp með föður sínum.

Þegar málið er metið heildstætt er það mat nefndarinnar að leggja verði til grundvallar að kærandi eigi sambýliskonu og barn sem séu með dvalarleyfi hér á landi. Sambýliskona kæranda og barn hans teljast til nánustu aðstandenda hans samkvæmt 17. tölul. 3. gr. laga um útlendinga. Af gögnum málsins og framburði eiginkonu kæranda í viðtali hjá kærunefnd má ráða að kærandi og sambýliskona hans séu í sambúð hér á landi. Þá telur kærunefnd að kærandi hafi komið að uppeldi barnsins hér á landi eftir fæðingu þess og því séu umönnunarsjónarmið fyrir hendi, sbr. 4. mgr. 32. gr. a reglugerðar um útlendinga. Kærunefnd telur gögn málsins jafnframt bera með sér að kærandi gegni uppeldisskyldum gagnvart barni sínu, sbr. áðurnefnt fæðingarvottorð og framburð sambýliskonu kæranda. Kærunefnd telur, með hliðsjón af heildarmati í máli kæranda, að tengsl hans við barn sitt séu sérstök í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Í ljósi gagna málsins, m.a. um að kærandi sé þátttakandi í lífi barns síns og gegni umönnunarhlutverki gagnvart því, telur kærunefnd, eins og hér háttar sérstaklega á að það væri ósanngjarnt gagnvart kæranda og barni hans ef kærandi yrði endursendur til viðtökuríkis, þar sem honum hefur verið synjað um alþjóðleg vernd. Þá er sérstaklega litið til hagsmuna barnsins samkvæmt 3. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013, sbr. einnig 2. mgr. 10. gr. og 3. mgr. 25. laga um útlendinga. Kærunefnd telur í ljósi heildarmats á aðstæðum kæranda, eins og hér stendur sérstaklega á, að kærandi hafi sérstök tengsl við landið í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Í ljósi framangreindrar niðurstöðu er að mati kærunefndar ekki tilefni til umfjöllunar um aðrar málsástæður kæranda og athugasemdir hans við ákvörðun Útlendingastofnunar.

Samantekt

Með vísan til framangreinds er það niðurstaða kærunefndar að fella úr gildi ákvörðun Útlendingastofnunar í máli kæranda og leggja fyrir stofnunina að taka umsókn hans um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar.


 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka mál kæranda til efnismeðferðar.

 

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate shall examine the merits of the applicant´s application for international protection in Iceland.

 

 

Þorsteinn Gunnarsson

 

 

Bjarnveig Eiríksdóttir                                    Gunnar Páll Baldvinsson

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum