Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 30/2021. Ákvörðun kærunefndar útboðsmála.

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 13. september 2021
í máli nr. 30/2021:
Garðvík ehf.
gegn
sveitarfélaginu Norðurþingi og
Bæjarprýði ehf.

Lykilorð
Stöðvunarkröfu hafnað.

Útdráttur
Kröfum kæranda um stöðvun samningsgerðar og stöðvun framkvæmda var hafnað.

Með kæru móttekinni af kærunefnd útboðsmála 13. ágúst 2021 kærði Garðvík ehf. samninga sveitarfélagsins Norðurþings (hér eftir vísað til sem varnaraðila) við félagið Bæjarprýði ehf. Kærandi hefur uppi eftirfarandi kröfur: „Kærandi gerir þá kröfu [að] samningar sem gengið var til við fyrirtækið Bæjarprýði ehf. kt: […] um viðgerðir á hellulögnum, hellulögn og kantsteinslögn neðan Naustsins, við Ásgarðsveg og viðgerðir á kantsteinum sem og gerð niðurtekta víðar um bæinn, verði gerði óvirkir og framkvæmdir stöðvaðar. Til viðbótar er þess krafist að frekari samningsgerð við Bæjarprýði ehf. verði stöðvuð og varnaraðila verði gert að bjóða verk út í örútboði meðal aðila að Rammasamningi RK-17.09 sem og önnur sambærileg verk á Skrúðgarðyrkjusviði. Er í öllum tilvikum krafist þess að varnaraðili greiði kæranda kostnað við hafa kæruna uppi samkvæmt mati nefndarinnar, sbr. 3. mgr. 111. gr. laganna.“

Kærandi sendi frekari gögn til nefndarinnar með tölvupósti 16. ágúst 2021.

Varnaraðila og Bæjarprýði ehf. var kynnt kæran og gefinn kostur á að gera athugasemdir. Með greinargerð 19. ágúst 2021 krefst varnaraðili þess að öllum kröfum kæranda verði hafnað en Bæjarprýði ehf. hefur ekki látið málið til sín taka.

Í þessum hluta málsins tekur nefndin afstöðu til krafna kæranda um stöðvun framkvæmda og að stöðvuð verði frekari samningsgerð við Bæjarprýði ehf. en úrlausn málsins bíður að öðru leyti endanlegs úrskurðar.

I

Kæra þessa máls beinist að framkvæmdum á vegum varnaraðila við Garðarsbraut í Húsavík. Varnaraðili birti tilkynningu til íbúa vegna framkvæmdanna hinn 15. júlí 2021 og kom þar fram að framkvæmdirnar lytu að endurnýjun gangstétta, tengingu snjóbræðslukerfis og öðrum yfirborðsfrágangi ásamt lagfæringu gangbrautarlýsingar við nærliggjandi gangbrautir. Samkvæmt tilkynningunni var ráðgert að framkvæmdunum yrði að mestu lokið fyrir Mærudaga. Kærandi beindi erindi til sveitarfélagsins í tengslum við framkvæmdirnar og var erindinu svarað á fundi skipulags- og framkvæmdarráðs varnaraðila 10. ágúst 2021.

Málatilbúnaður kæranda byggir að meginstefnu til á því að varnaraðila hafi verið óheimilt að ganga til samninga við þau fyrirtæki sem komu að framkvæmdunum án þess að leita fyrst til aðila að rammasamningi nr. 17.09. Vísar kærandi meðal annars til þess að engin opinber verðkönnun hafi farið fram og að ætla megi að samanlagður kostnaður framkvæmdanna sé yfir 5 milljónir króna. Varnaraðili vísar til þess að framkvæmdum við Garðarsbraut sé lokið og þegar af þeirri ástæðu geti krafa kæranda um stöðvun samningsgerðar ekki náð fram að ganga.

II

Niðurstaða

Samkvæmt 110. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup er kærunefnd útboðsmála, að kröfu kæranda, heimilt að stöðva innkaupaferli eða samningsgerð um stundarsakir þar til endanlega hefur verið skorið úr kæru, enda hafi verulegar líkur verið leiddar að broti gegn lögunum eða reglum settum samkvæmt þeim við tiltekin innkaup sem leitt getur til ógildingar ákvörðunar eða annarra athafna varnaraðila.

Samkvæmt upplýsingum frá varnaraðila er framkvæmdunum lokið. Þá verður ekki ráðið af gögnum málsins að fyrirhugað sé af hans hálfu að ganga til samninga við Bæjarprýði ehf. um önnur verk. Samkvæmt framangreindu verður að hafna kröfum kæranda í þessum hluta málsins.

Ákvörðunarorð:

Kröfum kæranda, Garðvík ehf., um stöðvun framkvæmda og stöðvun frekari samningsgerðar við Bæjarprýði ehf., er hafnað.


Reykjavík, 13. september 2021


Reimar Pétursson

Kristín Haraldsdóttir

Auður Finnbogadóttir

 Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira