Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd um upplýsingamál

1180/2024. Úrskurður frá 21. mars 2024

Hinn 21. mars 2024 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 1180/2024 í máli ÚNU 23030008.
 

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 14. mars 2023, kærði A, f.h. Frigus II ehf., synjun fjármála- og efnahags­ráðuneytis á beiðni um gögn. Kærandi óskaði hinn 15. febrúar 2023 eftir aðgangi að öllum reikningum vegna vinnu Íslaga ehf. fyrir ráðuneytið, sem kæranda hefðu verið afhentir með útstrikunum, án þess að nokkrar upplýsingar í þeim væru afmáðar. Ráðuneytið hafnaði beiðninni hinn 21. febrúar sama ár með vísan til þess að lýsing á vinnu Íslaga sem kæmi fram í reikningunum væru upplýsingar um efna­hagslega mikilvæga hagsmuni ríkisins, sbr. 3. tölul. 10. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012.
 
Í kæru er gerð krafa um að ráðuneytinu verði gert skylt að afhenda alla reikninga vegna vinnu Íslaga fyrir ráðuneytið á tímabilinu 1. janúar 2018 til loka janúar 2023. Í kærunni er tilgreint að samkvæmt upp­lýsingum frá ráðuneyt­inu varði reikningarnir annars vegar vinnu fyrirtækisins vegna kaupa ríkis­sjóðs á öllu hlutafé fyrirtækis­ins Auðkennis ehf. og hins vegar lögfræðiráðgjöf vegna stöðugleikaeigna o.fl. Þóknanir úr ríkissjóði til Íslaga undanfarin ár hafi numið gríðarlegum fjárhæðum, sem ekki sjái enn fyrir endann á. Þá hafi vinna fyrirtækisins fyrir ráðuneytið verið án útboðs. Hagsmunir almennings að fá aðgang að upplýsingum um hvað sé verið að greiða fyrir séu augljósir.
 

Málsmeðferð

Kæran var kynnt fjármála- og efnahagsráðuneyti með erindi, dags. 14. mars 2023, og ráðuneytinu veittur kostur á að koma á fram­færi umsögn um kæruna. Jafnframt var þess óskað að úrskurðarnefnd um upp­lýs­inga­mál yrði látið í té afrit af þeim gögnum sem kæran lýtur að.
 
Umsögn ráðuneytisins barst úrskurðarnefndinni hinn 28. mars 2023. Í henni kemur fram að reikningar Íslaga til ráðuneytisins séu 33 talsins. Upplýsingar í þeim sem synjað hafi verið um aðgang að varði virka viðskipta- og fjárhagslega hagsmuni einstaklinga og lögaðila, sem og mikilvæga hagsmuni ríkis­ins sem tengist úrvinnslu stöðugleikaeigna. Stöðugleikaeignir voru mótteknar af Seðlabanka Íslands fyrir hönd ríkissjóðs og upplýsingar um umsýslu þeirra falli því að mati ráðuneytisins undir þagnarskyldu­ákvæði 58. gr. laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, sbr. 2. mgr. þeirrar greinar.
 
Umsögn ráðuneytisins var kynnt kæranda með erindi, dags. 29. mars 2023, og honum veittur kostur á að koma á fram­færi frekari athugasemdum. Þær bárust hinn 17. apríl 2023. Óþarft er að rekja frekar það sem fram kemur í gögnum málsins, sbr. 31. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Úrskurðarnefndin hefur haft hliðsjón af öllum gögnum málsins við úrlausn þess.
 

Niðurstaða

1.

Mál þetta varðar ákvörðun fjármála- og efnahagsráðuneytis frá 21. febrúar 2023 að synja kæranda um aðgang að 33 reikn­ingum vegna vinnu fyrirtækisins Íslaga ehf. fyrir ráðuneytið á tímabilinu 1. janúar 2018 til janúarloka 2023. Ákvörðun ráðuneytisins var byggð á 3. tölul. 10. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012, en í umsögn til úrskurðarnefndarinnar er einnig vísað til 9. gr. sömu laga og 58. gr. laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002.
 
Í 3. tölul. 10. gr. upplýsingalaga kemur fram að heimilt sé að takmarka aðgang almennings að gögnum þegar mikilvægir almannahagsmunir krefjast, enda hafi þau að geyma upplýsingar um efnahagslega mikilvæga hagsmuni ríkisins. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi því sem varð að upplýsingalög­um, nr. 140/2012, kemur fram að undir ákvæðið falli upplýsingar um fjármál ríkisins og efnahagsmál. Það séu þó aðeins upplýsingar sem talist geta varðað mikilvæga hagsmuni ríkis­ins á borð við fjármála­stöð­ugleika eða upplýsingar sem eru þess eðlis að afhending þeirra og birt­ing gæti skaðað fjárhag eða efna­hag ríkisins.
 
Úrskurðarnefndin hefur farið yfir þá reikninga sem kæranda var synjað um aðgang að. Í þeim er vinnu Íslaga lýst með mjög almennum hætti. Að því leyti sem ákveðin verkefni eru tilgreind í lýsingunni eru það að langstærstum hluta upplýsingar sem teljast ekki vera viðkvæmar samkvæmt almennum sjónar­mið­um eða eru opinberlega að­gengi­legar. Ráðuneytið hefur að engu leyti rökstutt með hvaða hætti af­hending upplýsinganna gæti verið til þess fallin að skaða fjárhag eða efnahag ríkisins. Þótt upp­lýs­ing­arnar varði fjár- og efnahagsmál ríkisins telur úrskurðarnefndin vandséð að afhending þeirra myndi raska þeim hagsmunum sem ákvæði 3. tölul. 10. gr. upplýsingalaga er ætlað að standa vörð um. Að mati nefnd­arinnar stendur ákvæðið ekki í vegi fyrir afhendingu upplýsinganna.
 

2.

Ráðuneytið vísar til þess í umsögn til nefndarinnar að í reikningunum séu upplýsingar sem varði fjár­hags­mál­efni einstaklinga og mikil­væga virka fjárhags- eða viðskiptahagsmuni lögaðila, sbr. 9. gr. upp­lýs­ingalaga. Þá falli upplýsingar um umsýslu stöðugleikaeigna undir þagnarskylduákvæði 58. gr. laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002.
 
Í 2. málsl. 3. mgr. 4. gr. upplýsingalaga kemur fram að almenn ákvæði laga um þagnar­skyldu takmarki ekki rétt til aðgangs að gögnum samkvæmt lögunum. Andspænis slíkum ákvæðum eru sérstök þagnar­skyldu­ákvæði, þar sem upplýsingar þær sem þagnarskyldan tekur til eru sérgreindar. Með gagnályktun frá 2. málsl. 3. mgr. 4. gr. upplýsingalaga verður talið að sérstök þagnarskylduákvæði geti takmarkað rétt til aðgangs að gögnum samkvæmt upplýsingalögum. Það fer eftir efni og orðalagi við­komandi ákvæð­is hvernig það verður skýrt og samræmt ákvæðum upplýsingalaga, sbr. athuga­semdir í frumvarpi því sem varð að gildandi upplýsingalögum.
 
Í 58. gr. laga nr. 161/2002 kemur eftirfarandi fram:
 

Stjórnarmenn fjármálafyrirtækis, framkvæmdastjórar, endurskoðendur, starfsmenn og hverj­ir þeir sem taka að sér verk í þágu fyrirtækisins eru bundnir þagnarskyldu um allt það sem þeir fá vitneskju um við framkvæmd starfa síns og varðar viðskipta- eða einkamálefni við­skiptamanna þess, nema skylt sé að veita upplýsingar samkvæmt lögum. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi.
 
Sá sem veitir viðtöku upplýsingum af því tagi sem um getur í 1. mgr. er bundinn þagn­ar­skyldu með sama hætti og þar greinir. Sá aðili sem veitir upplýsingar skal áminna viðtakanda um þagnarskylduna.

 
Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur lagt til grundvallar að 1. mgr. ákvæðisins hafi að geyma sér­staka þagn­arskyldu að því er varðar upplýsingar um viðskipta- eða einkamálefni viðskiptamanna fjár­mála­fyrir­tækja. Svo sem fram kemur í 2. mgr. ákvæðisins fylgir þagnarskyldan upplýsingunum til þess sem veitir þeim viðtöku. Seðlabanki Íslands tók við stöðugleikaeignum fyrir hönd ríkissjóðs frá slita­búum fallinna fjármálafyrirtækja í kjölfar setningar laga um stöðugleikaskatt, nr. 60/2015, og breytinga á ákvæði til bráðabirgða III í þágildandi lögum um Seðlabanka Íslands, nr. 36/2001. Lindarhvoll ehf. annaðist umsýslu stöðugleikaeigna að mestu leyti.
 
Úrskurðarnefndin hefur farið yfir þá reikninga sem deilt er um aðgang að. Það er mat nefndarinnar að upplýsingar í þeim um stöðugleikaeignir sem kunna að varða viðskipta- eða einkamálefni viðskipta­manna fjármála­fyrir­tækis í skilningi 1. mgr. 58. gr. laga nr. 161/2002 séu ekki undirorpnar þagnarskyldu þar sem þær eru opin­berlega aðgengilegar.
 
Í þremur reikningum er að finna upplýsingar um út­burðarmál sem varða tiltekna fasteignsem var hluti af stöðugleikaframlagi slitabús fjármálafyrirtækis. Úr­skurð­arnefndin telur að þær upp­lýs­ing­ar varði viðskipta- eða einkamálefni viðskiptamanns fjár­mála­fyrir­tækis í skilningi 1. mgr. 58. gr. laga nr. 161/2002. Þá virðast upplýsingarnar ekki vera aðgengilegar opin­berlega. Er ráðu­neytinu því óheim­ilt að veita kæranda aðgang að upplýsingunum. Með vísan til þessa ber ráðuneytinu að yfirstrika eftir­far­andi upplýsingar í reikningum með númerin 0001172, 0001173 og 0001222, og afhenda þá kæranda svo breytta:
 

  1. Á reikningi 0001172, dags. 10.02.2019, skal yfirstrika heiti fasteignar sem fram kemur á milli orð­anna „útburðarmál“ og „Observer“ í skjalinu.
  2. Á reikningi 0001173, dags. 08.03.2019, skal yfirstrika heiti fasteignar sem fram kemur á milli orð­anna „útburðarmál“ og „Observer“ í skjalinu.
  3. Á reikningi 0001222, dags. 01.05.2019, skal yfirstrika heiti fasteignar sem fram kemur á milli orðanna „útburðarmál“ og „Obsverver“ í skjalinu.

 
Að mati úrskurðarnefndarinnar er ekki að öðru leyti að finna upplýsingar í reikningunum sem varða einka- eða fjár­hagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt sé og eðlilegt að fari leynt, sbr. 1. málsl. 9. gr. upplýsinga­laga. Í reikningunum er að finna upplýsingar um lögaðila, sem að mati nefndarinnar teljast ekki varða mikilvæga virka fjárhags- eða viðskiptahagsmuni þeirra sem sanngjarnt sé og eðlilegt að fari leynt, sbr. 2. málsl. 9. gr. laganna, þar sem þær eru ýmist opinberlega aðgengilegar og/eða eru ekki til þess fallnar að valda lögaðilunum tjóni. Kemur því hvorki 9. gr. upplýsingalaga né önnur tak­mörk­un­ar­ákvæði lag­anna í veg fyrir afhendingu reikninganna.

 

Úrskurðarorð

Fjármála- og efnahagsráðuneyti er skylt að afhenda A, f.h. Frigus II ehf., alla reikninga vegna vinnu Íslaga ehf. fyrir ráðuneytið á tímabilinu 1. janúar 2018 til janúarloka 2023, þó þannig að yfirstrikaðar séu upplýsingar um heimilisfang á þremur reikninganna á svofelldan hátt:
 

  1. Á reikningi 0001172, dags. 10.02.2019, skal yfirstrika heiti fasteignar sem fram kemur á milli orðanna „útburðarmál“ og „Observer“ í skjalinu.
  2. Á reikningi 0001173, dags. 08.03.2019, skal yfirstrika heiti fasteignar sem fram kemur á milli orðanna „útburðarmál“ og „Observer“ í skjalinu.
  3. Á reikningi 0001222, dags. 01.05.2019, skal yfirstrika heiti fasteignar sem fram kemur á milli orðanna „útburðarmál“ og „Obsverver“ í skjalinu.

 
 
 
Trausti Fannar Valsson, formaður
Hafsteinn Þór Hauksson
Sigríður Árnadóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum