Hoppa yfir valmynd
Kærunefnd jafnréttismála

Mál nr. 7/2024 - Úrskurður

Úrskurður kærunefndar jafnréttismála

 

 

A

gegn

B

 

Frávísun.

Máli A gegn B var vísað frá kærunefnd þar sem ekki lágu fyrir upplýsingar um hvernig háttsemi sú sem kæran beindist að tengdist þeim þáttum sem getið er um í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 85/2018, um jafna meðferð utan vinnumarkaðar.

  1. Á fundi kærunefndar jafnréttismála 8. ágúst 2024 er tekið fyrir mál nr. 7/2024 og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:
  2. Með kæru, dags. 16. mars 2024, kærði A B vegna framkomu kórstjórans gagnvart sér sem hún telur að hafi farið gegn lögum nr. 85/2018, um jafna meðferð utan vinnumarkaðar.
  3. Kærandi lýsir því að kórstjóri kærða hafi hótað sér í síma „vanvirðingu og niðurlægingu mætti [hún] á fleiri æfingar hjá [kærða]“ og að hann hygðist „beita sambýlismanni [kæranda] við aðgerðina“. Samtalið hafi komið kæranda í opna skjöldu og hún líti á það sem brottrekstur úr kórnum. Lítur hún svo á að um hafi verið að ræða áreitni í skilningi laga nr. 85/2018, sbr. 4. tölul. 3. gr. laganna. Þá tekur hún fram að eina raunhæfa krafan sem hún geti gert sé að krefjast afsökunarbeiðni frá kórstjóranum vegna ólögmætrar framkomu í hennar garð.
  4. Með tölvupósti 19. mars 2024 var kæranda gefinn kostur á að gera nánari grein fyrir efni kærunnar. Jafnframt var athygli kæranda vakin á því að áreitni yrði að tengjast einhverjum þeim þáttum sem um getur í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 85/2018, um jafna meðferð utan vinnumarkaðar, sbr. jafnframt 4. tölul. 3. gr. laganna, til þess að kærunefndin gæti tekið málið til umfjöllunar. Með tölvupósti 8. apríl s.á. brást kærandi við erindi nefndarinnar og tók fram að hún héldi kærunni óbreyttri til streitu.

     

    NIÐURSTAÐA

     

  5. Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 85/2018, um jafna meðferð utan vinnumarkaðar, kemur fram að lögin gildi um jafna meðferð einstaklinga á öllum sviðum samfélagsins, utan vinnumarkaðar, óháð kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, skertri starfsgetu, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu. Í 2. gr. sömu laga kemur fram að markmið laganna sé að vinna gegn mismunun og koma á og viðhalda jafnri meðferð einstaklinga á öllum sviðum samfélagsins, utan vinnumarkaðar, óháð þeim þáttum sem um geti í 1. mgr. 1. gr. Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laganna telst áreitni mismunun þegar hún tengist einhverjum þeim þáttum sem getið er um í 1. mgr. 1. gr. laganna.
  6. Samkvæmt 4. tölul. 3. gr. laga nr. 85/2018 er skilgreiningin á áreitni hegðun sem tengist kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu þess sem fyrir henni verður og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi og skapa aðstæður sem eru ógnandi, fjandsamlegar, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi fyrir viðkomandi.
  7. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 151/2020, um stjórnsýslu jafnréttismála, gilda lögin um stjórnsýslu á sviði jafnréttismála á því sviði sem löggjöf um jafnréttismál tekur til, m.a. laga um jafna meðferð utan vinnumarkaðar, og um störf kærunefndar jafnréttismála. Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laganna tekur kærunefnd jafnréttismála til meðferðar kærur sem til hennar er beint samkvæmt framansögðu og kveður upp skriflegan úrskurð um hvort ákvæði laganna hafi verið brotin.
  8. Af kæru og þeim upplýsingum sem liggja fyrir í málinu má ráða að kærandi telji að framkoma kórstjórans feli í sér áreitni í skilningi 4. tölul. 3. gr. laga nr. 85/2018 og þar með brot gegn lögunum. Jafnvel þótt framkoma kórstjóra geti verið vanvirðandi eða niðurlægjandi að mati kórfélaga verða að liggja fyrir upplýsingar sem tengjast þeim þáttum sem getið er um í 1. mgr. 1. gr., sbr. 4. tölul. 3. gr. laga nr. 85/2018, til þess að kærunefnd geti tekið málið til meðferðar. Í máli þessu liggja engar slíkar upplýsingar fyrir þrátt fyrir að kærunefnd hafi farið þess á leit við kæranda að bæta úr því. Að því virtu verður ekki hjá því komist að vísa málinu frá, sbr. og 1. mgr. 23. gr. reglugerðar nr. 408/2021, um kærunefnd jafnréttismála.

 

Ú r s k u r ð a r o r ð

Máli þessu er vísað frá kærunefnd jafnréttismála.

 

Kristín Benediktsdóttir

 

Andri Árnason

 

Ari Karlsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum