Hoppa yfir valmynd

Nr. 138/2018 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 138/2018

Fimmtudaginn 9. ágúst 2018

A og B

gegn

Hafnarfjarðarbæ

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, 12. apríl 2018, kærðu A, og B til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Hafnarfjarðarbæjar, dags. 5. apríl 2018, um uppsögn á húsaleigusamningi þeirra við sveitarfélagið.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærendur hafa verið með leigusamning við Hafnarfjarðarbæ um árabil vegna félagslegs leiguhúsnæðis. Með bréfi fjölskylduþjónustunnar í Hafnarfirði, dags. 13. febrúar 2018, var kærendum tilkynnt um uppsögn á leigusamningi þeirra með vísan til þess að þau væru yfir tekjumörkum 23. gr. reglugerðar nr. 1042/2013 um lánveitingar Íbúðalánasjóðs til sveitarfélaga, félaga og félagasamtaka sem ætlaðar eru til byggingar eða kaupa á leiguíbúðum. Kærendur áfrýjuðu þeirri ákvörðun til fjölskylduráðs Hafnarfjarðar sem tók málið fyrir á fundi þann 23. mars 2018 og staðfesti uppsögnina. Kærendum var tilkynnt um þá ákvörðun með bréfi, dags. 5. apríl 2018.

Kærendur lögðu fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 12. apríl 2018. Með bréfi, dagsettu sama dag, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Hafnarfjarðarbæjar vegna kærunnar. Greinargerð Hafnarfjarðarbæjar barst með bréfi, dags. 24. maí 2018, og var send kærendum til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 30. maí 2018. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kærenda

Kærendur greina frá aðstæðum sínum og barna sinna og telja að Hafnarfjarðarbær hafi ekki tekið tillit til þeirra aðstæðna. Kærendur taka fram að þau séu gjaldþrota og því hafi þau ekki tök á að taka lán í banka. Þá hafi þau ekki möguleika á að fara á leigumarkaðinn vegna slæms ástands hjá þeim.

III.  Sjónarmið Hafnarfjarðarbæjar

Hafnarfjarðarbær greinir frá því að kærendur hafi verið leigjendur hjá sveitarfélaginu í mörg ár en síðasti leigusamningur við þau hafi verið gerður 1. júlí 2017 sem hafi gilt til 30. júní 2018. Við endurmat á aðstæðum kærenda, þegar hillt hafi undir lok leigutímans, hafi komið í ljós að árstekjur þeirra væru nokkuð yfir viðmiðunarmörkum 23. gr. reglugerðar nr. 1042/2013. Því hafi verið tekin ákvörðun um að samningurinn yrði ekki endurnýjaður og kærendum veittur frestur í sex mánuði til að rýma íbúðina. Í apríl 2018 hafi borist bréf frá lögmanni C, fyrir hönd kærenda, þar sem erfiðum aðstæðum þeirra hafi verið lýst. Óskað hafi verið eftir því að kannað yrði hvort grundvöllur væri fyrir því að fjölskyldan fengi aðstoð frá Hafnarfjarðarbæ til að kaupa íbúðina eða að þau fengju lengri frest til að rýma hana, eða eitt ár. Beiðnin hafi verið lögð fyrir fund fjölskylduráðs Hafnarfjarðarbæjar sem samþykki að veita kærendum frest til 1. maí 2019 til að rýma íbúðina, með hliðsjón af aðstæðum þeirra.

Hafnarfjarðarbær tekur fram að almennar leiguíbúðir sveitarfélagsins séu hugsaðar sem tímabundið úrræði fyrir fólk í húsnæðiserfiðleikum eða neyðarúrræði. Ýmis atriði geti orðið til þess að ekki komi til áframhaldandi leigu, svo sem að leigutaki uppfylli ekki lengur skilyrði leiguréttar, vanskil á greiðslu húsaleigu og húsgjalda, ítrekuð brot á húsreglum og fleira. Aðstæður leigutaka séu endurmetnar reglulega og við endurmat á aðstæðum kærenda í nóvember 2017 hafi komið í ljós að árstekjur þeirra væru um það bil X kr. yfir viðmiðunarmörkum. Auk þess væru X uppkomin börn á heimilinu sem einnig hefðu tekjur. Skilyrði fyrir endurnýjun leigusamningsins hafi því ekki verið fyrir hendi, en þeim gefinn lengri frestur til að rýma íbúðina.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Hafnarfjarðarbæjar um uppsögn á húsaleigusamningi kærenda við sveitarfélagið á þeirri forsendu að þau væru yfir tekjumörkum 23. gr. reglugerðar nr. 1042/2013 um lánveitingar Íbúðalánasjóðs til sveitarfélaga, félaga og félagasamtaka sem ætlaðar eru til byggingar eða kaupa á leiguíbúðum.

Í IV. kafla laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga er að finna almenn ákvæði um rétt til félagsþjónustu á vegum sveitarfélaga. Þar segir í 12. gr. að sveitarfélag skuli sjá um að veita íbúum þjónustu og aðstoð samkvæmt lögunum og jafnframt tryggja að þeir geti séð fyrir sér og sínum. Samkvæmt 45. gr. laganna skulu sveitarstjórnir, eftir því sem kostur er og þörf er á, tryggja framboð af leiguhúsnæði, félagslegu kaupleiguhúsnæði og/eða félagslegum eignaríbúðum handa þeim fjölskyldum og einstaklingum sem ekki eru á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum lágra launa, þungrar framfærslubyrðar eða annarra félagslegra aðstæðna. Þá kemur fram í 46. gr. laganna að félagsmálanefndir skuli sjá til þess að veita þeim fjölskyldum og einstaklingum, sem ekki eru færir um það sjálfir, úrlausn í húsnæðismálum til að leysa úr bráðum vanda á meðan unnið er að varanlegri lausn.

Í 1. gr. reglna um úthlutun á almennu leiguhúsnæði hjá Hafnarfjarðarbæ kemur meðal annars fram að rétt til að sækja um almennar leiguíbúðir eigi þeir sem búi við erfiðar félagslegar aðstæður, sbr. 1. mgr. 37. gr. laga nr. 44/1998 um húsnæðismál, VI. kafla reglugerðar nr. 1042/2013 um lánveitingar Íbúðalánasjóðs til sveitarfélaga, félaga og félagasamtaka sem ætlaðar séu til byggingar eða kaupa á leiguíbúðum og XII. kafla laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Almennar leiguíbúðir séu hugsaðar sem tímabundið úrræði fyrir fólk í húsnæðiserfiðleikum eða neyðarúrræði. Í 9. gr. reglnanna kemur fram að í leigusamningi við leigutaka skuli tilgreina að framhald leigu sé háð breytingum á félagslegri stöðu leigutaka. Þá segir meðal annars í 12. gr. reglnanna að áframhaldandi leiguafnot séu háð mati á aðstæðum leigutaka hverju sinni áður en til endurnýjunar leigusamningsins komi, sbr. 10. gr.

Í gögnum málsins liggur fyrir húsaleigusamningur kærenda og Hafnarfjarðarbæjar, undirritaður 19. júní 2017. Í 13. grein samningsins er kveðið á um sérákvæði á milli samningsaðila en þar kemur meðal annars fram að íbúðin sé leigð vegna tímabundinna félagslegra aðstæðna leigutaka og eðli málsins samkvæmt njóti hann ekki forleiguréttar, ef skilyrði til leiguréttar séu ekki lengur fyrir hendi. Leigutaki skuldbindi sig til að víkja úr húsnæðinu, ef hann uppfylli ekki lengur skilyrði til leiguréttar.

Í reglugerð nr. 1042/2013, um lánveitingar Íbúðalánasjóðs til sveitarfélaga, félaga og félagasamtaka sem ætlaðar eru til byggingar eða kaupa á leiguíbúðum, kemur fram að framkvæmdaraðila sem fengið hafi lán til kaupa eða byggingar á leiguíbúðum samkvæmt 1. mgr. 37. gr. laga nr. 44/1998 um húsnæðismál sé eingöngu heimilt að leigja þær íbúðir til einstaklinga sem uppfylli skilyrði um tekju- og eignamörk samkvæmt 23. og 24. gr., sbr. þó 25. og 26. gr. Auk þess ber framkvæmdaraðila að hafa eftirlit með því að leigjendur uppfylli skilyrði um tekju- og eignamörk og setja sér sérstakar reglur um ráðstöfun leiguíbúða. Tekjumörk eru tilgreind í 23. gr. reglugerðarinnar og er þeim breytt um hver áramót. Tekjumörkin fyrir árið 2016 voru 6.649.000 kr. fyrir hjón og sambúðarfólk. Samkvæmt upplýsingum frá Hafnarfjarðarbæ voru tekjur kærenda á árinu 2016 alls X kr. eða X kr. yfir framangreindum tekjumörkum.

Þar sem tekjur kærenda voru yfir tekjumörkum reglugerðar nr. 1042/2013 er það mat úrskurðarnefndarinnar að Hafnarfjarðarbæ hafi verið heimilt að segja húsaleigusamningi þeirra upp. Með vísan til þess er hin kærða ákvörðun staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Hafnarfjarðarbæjar, dags. 5. apríl 2018, um uppsögn á húsaleigusamningi A og B, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira