Hoppa yfir valmynd

Synjun á greiðslu námsstyrks

 

Ár 2007, miðvikudaginn 6. júní, var kveðinn upp í menntamálaráðuneytinu svofelldur

 

ÚRSKURÐUR:

I. Kröfur aðila.

Með bréfi, dags. 27. nóvember sl., kærði A, f.h. B (hér eftir nefnd kærandi), ákvörðun námsstyrkjanefndar (hér eftir nefnd kærði), dags. 15. nóvember sl., um að synja umsókn hennar um greiðslu námsstyrks fyrir skólaárið 2006-2007 skv. lögum um námsstyrki, nr. 79/2003 og reglugerð um námsstyrki nr. 692/2003, með áorðnum breytingum.

Með hliðsjón af gögnum málsins er krafa kæranda skilin þannig að þess sé krafist að ákvörðun kærða verði felld úr gildi og henni verði úrskurðaður námsstyrkur fyrir skólaárið 2006-2007.

Af hálfu kærða er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði staðfest, enda sé hún í samræmi við lög og reglur.

 

II. Málsatvik.

Kærandi, sem hefur skráð lögheimili í Svíþjóð og stundar nám við framhaldsskóla í þar í landi, nánar tiltekið við skóla X í Stokkhólmi, sótti um námsstyrk skv. lögum um námsstyrki og reglugerð um námsstyrki fyrir skólaárið 2006-2007 með bréfi dags. 18. september sl. Með bréfi, dags. 28. september sl., hafnaði Lánasjóður íslenskra námsmanna umsókn kæranda um akstursstyrk þar sem hún uppfyllti ekki það skilyrði að stunda reglubundið nám á framhaldsskólastigi hér á landi. Kærandi sendi kærða í kjölfarið bréf, dags. 11. október sl., með frekari rökstuðningi  en kærði synjaði erindinu með bréfi, dags. 15. nóvember sl., á þeim grundvelli að kærða væri einungis heimilt að veita námsstyrki vegna reglubundins framhaldsskólanáms hér á landi, sbr. 2. gr. laga um námsstyrki og 1. gr. reglugerðar um námsstyrki.

 

Með bréfi, dags. 27. nóvember sl., skaut kærandi ákvörðun kærða til menntamálaráðuneytisins.

 

III. Málsmeðferð.

Stjórnsýslukæra kæranda var móttekin 28. nóvember sl. Með bréfi, dags. 24. janúar sl., leitaði ráðuneytið umsagnar kærða um kæruna. Umsögn kærða barst ráðuneytinu 1. febrúar sl. Með bréfi ráðuneytisins, dags. 1. febrúar sl., voru athugasemdir kærða kynntar kæranda og honum gefinn kostur á að koma að frekari athugsemdum. Kærandi sendi ráðuneytinu athugsemdir við umsögn námsstyrkjanefndar með bréfi, dags. 9. febrúar sl.

 

IV. Málsástæður og lagarök kæranda.

Í umsókn kæranda, dags. 18. september sl., er rakið að kærandi stundi nám í klassískum listdansi við skóla X og að stefnt sé að því að hún ljúki stúdentsprófi þaðan á vormisseri 2009 en auk náms í listdansi byggi námsskrá skólans á bóklegum greinum. Fram kemur að kærandi hafi komist í 35 manna hóp nemenda sem valdir hafi verið inn í skólann af 200 umsækjendum sem þreyttu inntökupróf í febrúar 2006. Kærandi hafi eins og aðrir námsmenn þurft að flytja aðsetur sitt til Svíþjóðar til að fá réttindi þar í landi, s.s. aðgang að læknisþjónustu.

Í bréfi kæranda til kærða, dags. 11. október sl., er vísað til samnings milli Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar um norrænt menntunarsamfélag á framhaldsskólastigi, dags. 4. mars 1992, þar sem fram komi að nemendur sem sest hafi að í öðru Norðurlandaríki ásamt foreldrum sínum eða forráðamönnum fyrir 20 ára aldur og stundi þar framhaldsskólanám hafi rétt til að sækja um fjárhagslega námsaðstoð í því ríki. Kærandi segir að þessu sé ekki til að dreifa í hennar tilviki þar sem einungis hún hafi flutt til Svíþjóðar vegna námsins en foreldrar hennar búi ennþá á hér á landi. Kærandi vísar til 3. gr. samningsins þar sem fram komi að aðrir nemendur, sem við upphaf framhaldsskólanáms í öðru Norðurlandaríki en heimalandi hafi ekki haft þar fasta búsetu og stundað að minnsta kosti hálft starf í tvö ár hið skemmsta, eigi að beina umsókn um fjárhagslega aðstoð til þess aðila sem samkvæmt gildandi samningum milli norrænna námsaðstoðarstofnana á hverjum tíma beri að fjalla um umsóknina. Í tilviki kæranda hljóti það að vera sá aðili sem sjái um úthlutun námsstyrkja, þ.e. Lánasjóður íslenskra námsmanna f.h. kærða.

Þá vitnar kærandi til upplýsinga sem fram komi á heimasíðu hallonorden.org um að þeir sem hyggi á nám en hafi ekki við upphaf þess átt fasta búsetu í tvö ár skuli sækja um námsaðstoð í því landi sem samkvæmt samkomulagi milli norrænna námsaðstoðaryfirvalda ber að fjalla um umsóknina. Þar sem kærandi hafi verið að flytja til Svíþjóðar sl. haust geti hún ekki sótt um námsaðstoð þar í landi en meginreglan sé að námsmenn frá Norðurlöndunum fái námsaðstoð frá heimalandi sínu. Kærandi telur að þar sem framangreint samkomulag norrænu ríkjanna tryggi að nemendur geti sótt um skólavist í öðru norrænu ríki hljóti þeir jafnframt að eiga rétt á að sækja um styrk vegna námsins.

Í stjórnsýslukærunni kemur fram að kærandi hafi sótt um námsstyrk sem íslenskir nemendur eigi kost á ef þeir dvelji fjarri heimili sínu við framhaldsskólanám. Ekkert sambærilegt nám og kærandi stundar í Svíþjóð sé til hér á landi. Tilgreint er að kærandi eigi ekki rétt á húsaleigubótum í Svíþjóð þrátt fyrir að hún leigi þar herbergi þar sem ekki sé gert ráð fyrir að húsaleigubætur séu greiddar leigutökum yngri en 18 ára.

Í athugasemdum kæranda við greinargerð kærða, dags. 9. febrúar sl., er bent á að ef kærandi hefði haldið áfram námi sínu við skóla Y og flutt til Reykjavíkur, hefði hún átt rétt á námsstyrk. Því hljóti að vera hægt að sækja um námsstyrk ef nemandi þurfi að flytja enn lengra frá heimili sínu. Þá tilgreinir kærandi að samnemendur hennar við skóla X í Stokkhólmi fái styrki frá heimalöndum sínum, þ.e. nemandi frá Finnlandi fái styrk að fjárhæð kr. 300.000,- á ári og nemandi frá Noregi fái sömu styrkupphæð frá ríki, auk framlags frá sveitarfélagi sínu. Því hljóti kærandi að eiga rétt á námsstyrk frá heimalandi sínu, Íslandi.

V. Málsástæður og lagarök kærða.

Í hinni kærðu ákvörðun er vísað til synjunar Lánasjóðs íslenskra námsmanna, dags. 28. september sl. og tekið fram að eðlilegt sé að styrkumsókn kæranda hafi verið send til umfjöllunar hjá sjóðnum með vísan til fyrrgreinds samnings um norrænt menntunarsamfélag á framhaldsskólastigi frá 4. mars 1992. Vísað er til þess að í synjunarbréfinu hafi komið fram að skilyrði námsaðstoðar skv. 1. gr. reglugerðar um námsstyrki væri að nemandi stundaði reglulegt nám á framhaldsskólastigi hér á landi, sbr. sambærilegt orðalag í 2. gr. laga um námsstyrki. Hin kærða ákvörðun byggðist á því að kærði taldi ótvírætt skv. framansögðu að aðeins væri heimilt að veita styrki til náms sem fram færi hér á landi.

Í greinargerð kærða, dags. 31. janúar sl., er rakið að kærandi stundi nám við skóla X í Stokkhólmi, Svíþjóð en réttur til námsstyrkja sé hins vegar háður því að reglubundið framhaldsnám sé stundað hér á landi, sbr. 2. gr. laga um námsstyrki og a-lið 1. gr. reglugerðar um námsstyrki. Að mati kærða eru tilvitnuð ákvæði laga og reglugerðar um námsstyrki ótvíræð og ekkert fordæmi sé fyrir undanþágu frá því skilyrði sem þar komi fram um reglubundið framhaldsskólanám hér á landi.

Kærði telur ákvörðun sína í máli þessu vera í samræmi við lög og reglur og fer fram á það að ráðuneytið staðfesti hana.

 

VI. Rökstuðningur niðurstöðu.

Gildissvið stjórnsýslulaga og kæruheimild.

Í stjórnsýsluframkvæmd hér á landi hefur ákvörðun stjórnvalds um bætur eða styrk til einstaklings verið talin stjórnvaldsákvörðun í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Af því leiðir að ákvæði stjórnsýslulaga eiga við um slíkar ákvarðanir. Kæra kæranda verður af þeim sökum talin byggjast á almennri kæruheimild samkvæmt 26. gr. stjórnsýslulaga.

Samkvæmt 5. gr. laga um námsstyrki skipar menntamálaráðherra fimm manna nefnd, svokallaða námsstyrkjanefnd, sem skal sjá um úthlutun námsstyrkja. Samkvæmt 6. gr. laganna skal nefndin leggja fyrir menntamálaráðherra tillögur um árlegar fjárveitingar í samræmi við markmið laganna.

Námsstyrkjanefnd er kærði í máli þessu. Samkvæmt auglýsingu nr. 3/2004 um staðfestingu forseta Íslands á reglugerð um Stjórnarráð Íslands fer menntamálaráðuneytið meðal annars með mál er varða námslán og námsstyrki. Ákvörðun nefndarinnar er því réttilega kærð til menntamálaráðuneytisins og barst hún ráðuneytinu innan kærufrests, sbr. 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

 

Um skilyrði laga um námsstyrki, nr. 79/2003.

Í lögum um námsstyrki er mælt fyrir um skilyrði styrkveitinga. Samkvæmt 2. gr. laganna njóta þeir nemendur sem stunda reglubundið framhaldsskólanám hér á landi og verða að dveljast fjarri fjölskyldu sinni vegna námsins réttar til námsstyrkja. Í 8. gr. laganna segir að menntamálaráðuneytið setji reglugerð er mæli nánar fyrir um hvernig lögin skuli framkvæmd.

 

Reglugerð um námsstyrki, nr. 692/2003.

Menntamálaráðherra hefur mælt nánar fyrir um framkvæmd laganna. Við móttöku framangreindrar stjórnsýslukæru var í gildi reglugerð nr. 692/2003, með síðari breytingum, sem kærði hefur byggt á við úrlausn máls þessa. Samkvæmt 1. gr. reglugerðarinnar eiga nemendur á framhaldsskólastigi sem fullnægja tilgreindum skilyrðum rétt til námsstyrkja til jöfnunar á fjárhagslegum aðstöðumun vegna búsetu svo sem nánar er kveðið á um í reglugerðinni.

Í a-lið 1. mgr. 1. gr. reglugerðarinnar kemur fram að nemendur á framhaldsskólastigi, sem stunda reglubundið nám á framhaldsskólastigi hér á landi, sem ekki er á háskólastigi eða gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi, enda sé um að ræða a.m.k. eins árs skipulagt nám við framhaldsskóla sem fellur undir ákvæði laga um framhaldsskóla nr. 80/1996, með áorðnum breytingum, eigi rétt til námsstyrkja til jöfnunar á fjárhagslegum aðstöðumun vegna búsetu svo sem nánar er kveðið á um í reglugerðinni. Þá er jafnframt tilgreint að námsstyrkjanefnd sé heimilt að styrkja annað hliðstætt nám á framhaldsskólastigi.

 

Niðurstaða.

Í máli þessu er deilt um hvort uppfyllt hafi verið skilyrði 1. mgr. 2. gr. laga um námsstyrki, sbr. a-lið 1. mgr. 1. gr. reglugerðar um námsstyrki um reglubundið framhaldsskólanám hér á landi en kærandi stundar framhaldsskólanám sitt í Svíþjóð.

Af hálfu kæranda hefur verið vísað til ákvæðis 3. gr. samnings um norrænt menntunarsamfélag á framhaldsskólastigi frá 4. mars 1992 en þar segir í 1. mgr. að nemendur, sem sest hafi að í öðru Norðurlandaríki ásamt foreldrum sínum eða forráðamönnum fyrir fullnaðan 20 ára aldur og stundi þar nám á framhaldsskólastigi, hafi rétt á að sækja um fjárhagslega námsaðstoð í því ríki. Í 2. mgr. sömu greinar kemur fram að aðrir nemendur, sem við upphaf framhaldsskólanáms í öðru Norðurlandaríki en heimalandi hafi ekki haft þar fasta búsetu og stundað að minnsta kosti hálft starf í tvö ár hið skemmsta, skuli beina umsókn um fjárhagslega aðstoð til þess aðila sem samkvæmt gildandi samningum á milli norrænna námsaðstoðarstofnana á hverjum tíma ber að fjalla um umsóknina. Af hálfu kærða er fram komið í bréfi, dags. 15. nóvember sl., að Lánasjóður íslenskra námsmanna telst vera sú námsaðstoðarstofnun sem hér er vísað til. Í 1. gr. samningsins kemur fram að aðilar hans skuldbindi sig til að veita námsmönnum, sem hafa fasta búsetu í öðru Norðurlandaríki, aðgang að lögbundnu námi á framhaldsskólastigi með sömu skilmálum og ríkisborgurum eigin lands. Samningurinn veitir því íslenskum ríkisborgurum ákveðin réttindi vegna framhaldsskólanáms sem fram fer í öðru Norðurlandaríki, að uppfylltum nánar tilgreindum skilyrðum skv. ákv. 1. mgr. 3. gr. samningsins og leggur þær skyldur á hendur íslenskum stjórnvöldum að tryggja ríkisborgurum annarra Norðurlandaríkja sambærileg réttindi til framhaldsskólanáms á Íslandi og íslenskir ríkisborgarar njóta, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga um námsstyrki.

Samkvæmt 1. gr. laga um námsstyrki veitir ríkissjóður námsstyrki til jöfnunar á fjárhagslegum aðstöðumun nemenda í framhaldsskólum að því leyti sem búseta veldur þeim misþungum fjárhagsbyrðum. Með aðstöðumun vegna búsetu er hér átt við að nemandi þurfi að bera aukinn kostnað af því að sækja skóla fjarri fjölskyldu sinni. Í 2. tölul. 1. mgr. 2. gr. laganna segir að rétt til námsstyrkja njóti nemendur sem stunda reglubundið framhaldsskólanám hér á landi, sbr. ákvæði a-liðar 1. mgr. 1. gr. reglugerðar um námsstyrki. Að mati ráðuneytisins er því óhjákvæmilegt annað en að skýra ákvæði 2. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga um námsstyrki svo að kærða sé óheimilt að veita námsstyrki vegna framhaldsskólanáms sem fram fer utan Íslands. Þá er jafnframt ljóst að ákvæði samnings um norrænt menntunarsamfélag á framhaldsskólastigi skapa kæranda ekki rétt til að hljóta fjárhagsaðstoð úr hendi íslenskra stjórnvalda.

Með vísan til þess sem að framan er rakið er óhjákvæmilegt að staðfesta hina kærðu ákvörðun eins og nánar greinir í úrskurðarorðum.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Hin kærða ákvörðun námsstyrkjanefndar frá 15. nóvember 2006 um synjun námsstyrks til B á skólaárinu 2006-2007 er staðfest.

 
Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira