Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 161/2022 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 161/2022

Fimmtudaginn 2. júní 2022

A

gegn

Reykjanesbæ

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 21. mars 2022, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Reykjanesbæjar, dags. 18. febrúar 2022, um að synja umsókn hans um lán til tryggingar húsaleigu.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 3. febrúar 2022, sótti kærandi um fjárhagsaðstoð fyrir janúar 2022. Með ákvörðun velferðarsviðs Reykjanesbæjar, dags. 8. febrúar 2022, var umsókn kæranda synjað með vísan til greinar 4.3.3. í reglum Reykjanesbæjar um fjárhagsaðstoð. Þann 10. febrúar 2022 skilaði kærandi inn beiðni til áfrýjunarnefndar velferðarráðs þar sem óskað var eftir undanþágu frá grein 4.3.3. í reglum um fjárhagsaðstoð vegna yfirfærslu tekna fyrir febrúar. Þá óskaði kærandi eftir láni til tryggingar húsaleigu. Með ákvörðun velferðarráðs Reykjanesbæjar, dags. 18. febrúar 2022, var umsókn kæranda um fjárhagsaðstoð samþykkt en umsókn hans um lán til tryggingar húsaleigu var synjað.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 21. mars 2022. Með erindi, dags. 24. mars 2022, óskaði úrskurðarnefndin eftir því að kærandi legði fram afrit af hinni kærðu ákvörðun. Umbeðin gögn bárust frá kæranda þann 1. apríl 2022. Með bréfi, dags. 6. apríl 2022, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Reykjanesbæjar ásamt gögnum málsins. Sú beiðni var ítrekuð þann 3. maí 2022. Greinargerð Reykjanesbæjar barst úrskurðarnefndinni 3. maí 2022 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 4. maí 2022. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að umsókn hans um lán vegna tryggingar fyrir húsnæði sem hann hafi tekið á leigu hafi verið synjað án útskýringa. Hann hafi verið að detta út af endurhæfingarlífeyri og á sama tíma hafi hann þurft að flytja vegna sambandsslita. Af þeim sökum skuldi hann þessa tryggingu og bráðvanti aðstoð þar sem einu tekjurnar hans séu fjárhagsaðstoð frá Reykjanesbæ. Kærandi óski eftir aðstoð fyrir þessari tryggingu svo að hann missi ekki húsnæðið.

III.  Sjónarmið Reykjanesbæjar

Í greinargerð Reykjanesbæjar kemur fram að kærandi hafi haft samband við fyrrum ráðgjafa sinn hjá Reykjanesbæ í byrjun febrúar 2022. Hann hafi greint frá því að hann væri nýfluttur til Reykjanesbæjar aftur og væri að leigja herbergi. Hann hafi fengið lánað hjá foreldrum sínum fyrir tryggingunni og vilji endurgreiða þeim. Kærandi hafi verið boðaður í viðtal þann 4. febúar 2022, auk þess sem hann hafi fengið leiðbeiningar um að skila inn nýrri umsókn um fjárhagsaðstoð. Kærandi hafi skilað inn umsókn um fjárhagsaðstoð þann 3. febrúar 2022.

Kærandi hafi aftur haft samband daginn sem viðtalið hafi átt að fara fram. Hann hafi þá misst af rútu og því hafi viðtalið verið tekið í gegnum síma. Hann hafi greint frá því að hann væri ekki lengur á endurhæfingarlífeyri, hann hafi útskrifast og væri tilbúinn að fara að vinna. Hann hafi fengið síðustu greiðsluna fyrir janúar. Kæranda hafi þá verið bent á að klára að skila inn gögnum með umsókn sinni um fjárhagsaðstoð þar sem vantað hafi gögn með umsókninni. Þá hafi kæranda einnig verið greint frá því að ráðgjafar hefðu ekki heimild til að samþykkja lánið sem og að umsókn hans um fjárhagsaðstoð vegna janúar yrði synjað þar sem hann hafi verið með tekjur frá Tryggingastofnun ríkisins á sama tíma. Hann hafi fengið þær upplýsingar að áfrýja þyrfti báðum umsóknum. Kærandi hafi skilað inn gögnum þann 7. febrúar 2022.

Umsókn um fjárhagsaðstoð vegna janúar hafi verið synjað 8. febrúar 2022. Kærandi hafi fengið leiðbeiningar um hvernig hann gæti staðið að því að skila inn beiðni til áfrýjunarnefndar í tölvupósti þann 9. febrúar 2022 og í símtali þann 10. febrúar 2022. Beiðni til áfrýjunarnefndar hafi borist þann 10. febrúar 2022. Erindi kæranda hafi farið fyrir áfrýjunarnefnd þann 18. febrúar 2022 þar sem ráðgjafi hafi óskað eftir fjárhagsaðstoð vegna yfirfærslu tekna í febrúar ásamt heimild fyrir því að kærandi fengi fyrirframgreiðslu þar sem hann kæmi úr kerfi þar sem greitt hafi verið fyrir fram. Jafnframt hafi verið óskað eftir láni vegna tryggingar fyrir leigu að upphæð 75.000 kr.

Umsókn vegna fjárhagsaðstoðar hafi verið samþykkt en umsókn vegna tryggingar húsaleigu hafi verið synjað á þeim forsendum að umrætt húsnæði væri herbergi og því ekki möguleiki á þinglýsingu húsaleigusamnings.

 

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Reykjanesbæjar um að synja umsókn kæranda um lán til tryggingar húsaleigu.

Markmið félagsþjónustu á vegum sveitarfélaga er að tryggja fjárhagslegt og félagslegt öryggi og stuðla að velferð íbúa á grundvelli samhjálpar, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. laganna skal þess gætt við framkvæmd félagsþjónustunnar að hvetja einstaklinginn til ábyrgðar á sjálfum sér og öðrum, virða sjálfsákvörðunarrétt hans og styrkja hann til sjálfshjálpar. Um leið skulu við framkvæmd félagsþjónustunnar sköpuð skilyrði til að einstaklingurinn geti tekið virkan þátt í samfélaginu á eigin forsendum. Félagsleg þjónusta skuli í heild sinni miða að valdeflingu og miðast við einstaklingsbundnar þarfir og aðstæður. Með félagsþjónustu er átt við þjónustu, aðstoð og ráðgjöf, meðal annars í tengslum við fjárhagsaðstoð, sbr. 1. mgr. 2. gr. Í 1. mgr. 12. gr. laganna kemur fram að sveitarfélag skuli sjá um að veita íbúum þjónustu og aðstoð samkvæmt lögunum og jafnframt tryggja að þeir geti séð fyrir sér og sínum. Þá segir í 2. mgr. 12. gr. að aðstoð og þjónusta skuli jöfnum höndum vera til þess fallin að bæta úr vanda og koma í veg fyrir að einstaklingar og fjölskyldur komist í þá aðstöðu að geta ekki ráðið fram úr málum sínum sjálf. Í athugasemdum með ákvæði 12. gr. í frumvarpi til laga nr. 40/1991 kemur fram að skyldur sveitarfélaga miðist annars vegar við að veita þjónustu og aðstoð samkvæmt lögunum og hins vegar að tryggja að íbúar geti séð fyrir sér og fjölskyldum sínum.

Í VI. kafla laga nr. 40/1991 er kveðið á um fjárhagsaðstoð en í 19. gr. laganna kemur fram sú grundvallarregla að hverjum manni sé skylt að framfæra sjálfan sig, maka sinn og börn yngri en 18 ára. Samkvæmt 21. gr. laganna skal sveitarstjórn setja reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar að fengnum tillögum félagsmálanefndar er metur þörf og ákveður fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf, miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilja veita. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri útfærslu að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar velferðarmála, enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.

Í grein 4.5.7. í reglum Reykjanesbæjar um fjárhagsaðstoð er fjallað um lán til fyrirframgreiðslu húsaleigu og til tryggingar húsaleigu. Í 1. mgr. greinarinnar segir að heimilt sé að veita þeim sem hafi fjárhagsaðstoð til framfærslu samkvæmt reglum þessum, í mánuðinum sem sótt sé um og þrjá mánuði þar á undan, lán til fyrirframgreiðslu húsaleigu og/eða til tryggingar leiguhúsnæði. Í 3. mgr. greinarinnar kemur fram að þinglýstur húsaleigusamningur skuli liggja fyrir eða önnur staðfesting um að samningur eigi við rök að styðjast ásamt staðfestri umsókn um húsnæðisbætur. Miða skuli við að leigufjárhæð sé í samræmi við leigu á almennum markaði.

Samkvæmt gögnum málsins sótti kærandi um lán að fjárhæð 75.000 kr. til tryggingar húsaleigu. Umsókn kæranda var synjað og hefur Reykjanesbær vísað til þess að umrætt húsnæði sé herbergi og því sé ekki möguleiki á þinglýsingu húsaleigusamnings.

Í 9. gr. laga nr. 75/2016 um húsnæðisbætur er kveðið á um skilyrði fyrir greiðslu húsnæðisbóta en samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins koma húsnæðisbætur aðeins til álita vegna leigu á íbúðarhúsnæði. Í c-lið 2. mgr. 9. gr. kemur fram að hið leigða íbúðarhúsnæði verði að vera hér á landi og fela í sér venjulega og fullnægjandi heimilisaðstöðu þar sem að lágmarki er eitt svefnherbergi ásamt séreldhúsi eða séreldunaraðstöðu, sérsnyrtingu og baðaðstöðu. Í 3. mgr. 9. gr. er kveðið á um atriði sem girða fyrir rétt til húsnæðisbóta. Þar segir í c-lið ákvæðisins að húsnæðisbætur verði ekki veittar vegna leigu á hluta íbúðarhúsnæðis, svo sem vegna leigu á einstökum herbergjum.

Þar sem kærandi leigir herbergi er ljóst að réttur til húsnæðisbóta er ekki til staðar. Að því virtu er skilyrði greinar 4.5.7. í reglum Reykjanesbæjar um fjárhagsaðstoð, að umsókn um húsnæðisbætur sé staðfest, ekki uppfyllt. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Reykjanesbæjar, dags. 18. febrúar 2022, um að synja umsókn A, um lán til tryggingar húsaleigu, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira