Hoppa yfir valmynd

Stjórnsýslukæra vegna beiðni MAST um að fá aðgang að heimili kæranda vegna eftirlits með gæludýrum.

 

Föstudaginn, 16. júní 2023, var í matvælaráðuneytinu 

kveðinn upp svohljóðandi úrskurður: 

 

 

Stjórnsýslukæra

Með erindi, dags 18. október 2022 var kærð sú beiðni Matvælastofnunar (MAST) um að fá aðgang að heimili kæranda vegna eftirlits með gæludýrum, 13. október 2022.  

 

Kröfur

Krafa kæranda er ekki tilgreind með skýrum hætti í kæru. Af efni kærunnar má þó telja að kærandi krefjist þess að fallið verði frá beiðni um aðgang að heimili hans vegna eftirlits með gæludýrum sem eru í umsjá hans. 

 

Málsatvik 

Þann 13. október 2022 barst kæranda bréf frá Matvælastofnun þar sem lögð var fram beiðni um aðgang að heimili hans vegna eftirlits með gæludýrum. Í bréfinu er vísað til ábendinga um óviðunandi ástæðum sem stofnununni hefðu borist og óskað eftir því að kærandi heimili eftirlit á heimili sínu sex dögum síðar eða miðvikudaginn 19. október 2022. Kærandi svaraði bréfinu samdægurs og hélt því fram að þær ábendingar sem stofnununni hefðu borist gætu ekki átt við rök að styðjast. Í kjölfarið, þann 18. október 2022 barst ráðuneytinu erindi frá kærandi þar sem fram kemur að kærð sé sú ákvörðun Matvælastofnunar um beiðni um aðgang að heimili kæranda vegna eftirlits með gæludýrum. Þann 20. október 2022 óskaði ráðuneytið eftir umsögn Matvælastofnunar vegna málsins. Umsögn stofnunarinnar barst ráðuneytinu þann 7. nóvember 2022. Kæranda var í framhaldinu gefinn frestur til andmæla og bárust þau ráðuneytinu þann 16. desember 2022. Þá barst ráðuneytinu vottorð þann 21. desember 2022 frá  dýralækni dýra kæranda. Málið er tekið til úrskurðar á grundvelli fyrirliggjandi gagna.  

 

Stjórnarmið kæranda 

Í erindinu kemur fram að kærandi mótmælir þeim ábendingum sem Matvælastofnun hafi borist um að hann halda gæludýr á heimili sínu við óviðunandi aðstæður. Telur hann að slík ábending sé byggð á órökstuddum dylgjum og bendir á að fyrir utan sjúkraflutningamenn fyrir ári síðan og dýralækni kæranda hafi ekki nokkur aðili verið inn á heimili hans í meira en eitt ár. Af því sögðu telur kærandi það vera útilokað mál að umræddar kvartanir sem um ræðir geti átt við rök að styðjast. Þá telur kærandi að eftirlitserindið frá stofnununni séu bein viðbrögð við pistli sem kærandi hafði birt á vísir.is þar sem gagnrýni var gerð á starfhætti Matvælastofnunnar í störfum sem lúta að velferð dýra. Að lokum skilur kærandi ekki hvaða eltingaleikur virðist vera gagnvart honum af hálfu Matvælastofnunar. Bendir hann á að á hverjum áratug virðist vera að stofnunin hafi séð tilefni til að athuga aðstæður smávægilegs dýrahalds hans sem ekkert hefur þótt athugavert við.  

 

Stjórnarmið Matvælastofnunar 

Í erindi Matvælastofnunar kemur fram að sú kærða ákvörðun sem um hér ræðir, það er beiðni um aðgang að heimili kæranda vegna eftirlits með gæludýrum sé byggð á lögum nr. 55/2013 um velferð dýra. Í 1. mgr. 4. gr. laganna kemur fram að Matvælastofnun hafi eftirlit með því að ákvæðum laganna sé framfylgt. Þá kemur fram í 1. mgr. 34. gr. laganna að stofnuninni sé heimilt að fara í eftirlitsheimsóknir á hvern þann stað þar sem dýr eru haldin til að kanna aðstæður og aðbúnað þeirra og við beitingu þvingunarúrræða. Hins vegar sé ekki heimilt að fara í þessum tilgangi í íbúðarhús án samþykkis eiganda eða umráðamanns húsnæðisins nema með fengnum dómsúrskurði. Hafi stofnununni borist tvær ábendingar um að kærandi haldi gæludýr á heimili sínu við óviðunandi aðstæður og hafi því stofnunin verið að sinna hlutverki sínu í samræmi við lögin með því að óska eftir umræddum aðgangi að heimili kæranda. Að því sögðu hafnar stofnunin því að kveikjan að bréfi stofnunarinnar til kæranda frá 13. október 2022 hafi verið grein sem kærandi fékk birta á vísir.is skömmu áður en bréfið var ritað. Að lokum kannast stofnunin ekki við að stunda einelti gagnvart kæranda.   

 

Forsendur og niðurstaða 

Í 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 kemur fram að aðila máls sé heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til þess að fá hana fellda úr gildi eða henni breytt nema annað leiði af lögum eða venju. Það eru því aðeins stjórnvaldsákvarðanir sem eru kæranlegar samkvæmt ákvæðinu en ekki aðrar athafnir stjórnvalda, ákvarðanir þeirra um málsmeðferð eða verklagsreglur stjórnvalda. Með hugtakinu stjórnvaldsákvörðun er átt við ákvarðanir um rétt og skyldu manna í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Stjórnvaldsákvörðun er ákvörðun sem tekin er í skjóli stjórnsýsluvalds og beint er milliliðalaust út á við að tilteknum aðila eða aðilum og með henni er kveðið á bindandi hátt um rétt eða skyldu þeirra í ákveðnu og fyrirliggjandi máli. Þá er það yfirleitt einkennandi fyrir stjórnvaldsákvarðanir að þær eru teknar einhliða af stjórnvöldum og oftast á skriflegan hátt.  

Samkvæmt gögnum málsins  er ekki unnt að sjá að sú kærða ákvörðun sé kæranleg á grundvelli framangreindrar 26. gr stjórnsýslulaga. Ákvörðun Matvælastofnunar um að leggja fram umrædda beiðni um aðgang að heimili kæranda telst til ákvarðanna um málsmeðferð. Slíkar ákvarðanir lúta að formi málsins og verða ekki taldar binda enda á málið og teljast því ekki stjórnvaldsákvarðanir í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. 

Í ljósi yfirstjórnunarhlutverks ráðherra óskaði ráðuneytið eftir umsögn Matvælastofnunar vegna málsins. Með vísan til þeirra sjónarmiða sem fram koma í fyrirliggjandi umsögn Matvælastofnunnar er það mat ráðuneytisins að málsmeðferð stofnunarinnar hafi verið fullnægjandi og í samræmi við gildandi lög og reglur.  

 

Með hliðsjón af ofangreindu er stjórnsýslukæru, dags 18. október 2022, vísað frá Matvælaráðuneytinu. Að fenginni niðurstöðu ráðuneytisins þykir ekki ástæða til að fjalla um aðrar málsástæður sem hafðar hafa verið uppi vegna  málsins.  

 

 

 

Úrskurðarorð

Stjórnsýslukæru, dags. 18. október 2022, vegna beiðni Matvælastofnunar um aðgang að heimili kæranda hér með vísað frá ráðuneytinu.  


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum