Hoppa yfir valmynd

349/2020

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 349/2020

Miðvikudaginn 18. nóvember 2020

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Anna Rut Kristjánsdóttir lögfræðingur.

Með kæru, móttekinni 13. júlí 2020, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 22. maí 2020 um endurreikning og uppgjör tekjutengdra greiðslna ársins 2019.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Við endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta vegna ársins 2019 komst Tryggingastofnun ríkisins að þeirri niðurstöðu að kæranda hefðu verið ofgreiddar bætur það ár að fjárhæð 990.188 kr. Með bréfi, dags. 22. maí 2020, fór stofnunin fram á endurgreiðslu hinna ofgreiddu bóta. Undir rekstri málsins tók Tryggingastofnun ríkisins tvær nýjar ákvarðanir í málinu. Samkvæmt fyrri ákvörðuninni frá 23. júlí 2020 komst Tryggingastofnun ríkisins að þeirri niðurstöðu að kæranda hefðu verið ofgreiddar bætur það ár að fjárhæð 395.509 kr. og samkvæmt seinni ákvörðuninni, dags. 14. september 2020, var niðurstaða Tryggingastofnunar ríkisins sú að ofgreiðsla næmi 324.195 kr.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála þann 13. júlí 2020. Með bréfi, dags. 15. júlí 2020, óskaði úrskurðarnefnd velferðarmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Þann 24. júlí 2020 bárust viðbótargögn frá kæranda og voru þau send Tryggingastofnun til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Greinargerð Tryggingastofnunar barst með bréfi, dags. 6. ágúst 2020, og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 7. ágúst 2020. Athugasemdir bárust frá kæranda 13. ágúst 2020 og voru þær sendar Tryggingastofnun til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 14. ágúst 2020. Með bréfi, dags. 9. september 2020, barst viðbótargreinargerð frá Tryggingastofnunun ríkisins og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 10. september 2020. Athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi, dags. 10. september 2020, og voru þær sendar Tryggingastofnun ríkisins til kynningar með bréfi, dags. 11. september 2020. Frekari athugasemdir bárust ekki.   

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir þá kröfu að Tryggingastofnun framkvæmi nýjan endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta ársins 2019 þar sem Ríkisskattstjóri hafi úrskurðað um dreifingu tekna hennar fyrir tekjuárin 2016, 2017, 2018, 2019 og 2020.

Í athugasemdum kæranda frá 24. júlí 2020 kemur fram ósk um að endurreikningur tekjutengdra bóta fari fram samkvæmt 16. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar. Í ákvörðun Tryggingastofnunar frá 22. júlí 2020 komi fram að réttindi hennar vegna ársins 2019 hafi ekki verið leiðrétt, eingöngu leiðrétt samkvæmt skattframtali 2020, þ.e. tekjuárið 2019.

Kærandi gerir grein fyrir þeim greiðslum sem hún hafi fengið frá Tryggingastofnun á tímabilinu mars til desember 2019, samtals að fjárhæð 1.488.195 kr.

Samkvæmt reiknivél Tryggingastofnunar á heimasíðu stofnunarinnar ættu réttindi kæranda að vera 481.080 kr. í endurhæfingarlífeyri, 48.110 kr. í aldurstengdan örorkulífeyri, 1.069.670 kr. í tekjutryggingu, 53.483 kr. í orlofs- og desemberuppbætur, 7.280 kr. í framfærsluuppbót og 355.565 kr. í barnalífeyri.

Í athugasemdum kæranda frá 13. ágúst 2020 ítrekar hún fyrri kröfu sína. Við tekjudreifingu Ríkisskattstjóra hafi greiðslur hennar frá lífeyrissjóði lækkað umtalsvert á tekjuárinu 2019 og því sé nauðsynlegt að óska eftir endurreikningi heildarbóta hennar frá Tryggingastofnun.

Í fyrirliggjandi yfirliti launagreiðanda frá Ríkisskattstjóra komi fram að eiginmaður hennar eigi töluverðan ónýttan persónuafslátt fyrir tekjuárið 2019. Kærandi og eiginmaður hennar óski eftir að þessi ónýtti persónuafsláttur verði nýttur vegna framangreinds uppgjörs hjá Tryggingastofnun.

Í athugasemdum kæranda frá 10. september 2020 komi fram að kærandi sé sátt við endurreikning Tryggingastofnunar, dags. 14. september 2020, en ítreki ósk sína um að ónýttur persónuafsláttur fyrir tekjuárið 2019 hjá kæranda og maka hennar verði nýttur vegna fyrrgreinds uppgjörs hjá Tryggingastofnun.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar

Í greinargerð Tryggingastofnunar kemur fram að kærður sé endurreikningur tekjutengdra bóta ársins 2019.

Í 16. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, sé kveðið á um tilhögun útreiknings tekjutengdra bóta. Í 2. mgr. ákvæðisins sé vísað til laga nr. 90/2003 um tekjuskatt varðandi hvað skuli teljast til tekna. Til tekna samkvæmt III. kafla laga um almannatryggingar teljist tekjur samkvæmt II. kafla laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, að teknu tilliti til ákvæða 28. gr. sömu laga um hvað teljist ekki til tekna og frádráttarliða samkvæmt 1., 3., 4. og 5. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. og 31. gr. sömu laga eða undantekninga og takmarkana samkvæmt öðrum sérlögum.

Tryggingastofnun greiði lífeyri á grundvelli áætlunar um tekjur viðkomandi árs, sbr. 5. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar. Bótaþegi beri ábyrgð á því að slík tekjuáætlun endurspegli árstekjur og beri að breyta áætluninni ef svo sé ekki, sbr. 1. mgr. 39. gr. sömu laga og 3. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags, en þar komi fram að bótaþega sé skylt að veita Tryggingastofnun allar nauðsynlegar upplýsingar til að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og endurskoðun þeirra. Að sama skapi sé bótaþega skylt að tilkynna Tryggingastofnun um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geti haft áhrif á greiðslur.

Í 7. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar komi fram að þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum, skuli Tryggingastofnun endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna. Einnig sé fjallað um endurreikning í reglugerð nr. 598/2009. Tryggingastofnun hafi ekki heimild til að líta fram hjá tekjuupplýsingum sem fram komi í skattframtölum.

Samkvæmt 4. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 170/2009, sbr. breytingareglugerð nr. 1118/2013, sé Tryggingastofnun ríkisins heimilt, þegar einstaklingur leggi inn nýja umsókn um bætur, að miða útreikning bóta eingöngu við þær tekjur sem áætlað sé að aflað verði eftir að bótaréttur stofnist. Unnt sé að beita heimild þessari, bæði um nýja umsókn um örorkubætur/endurhæfingarlífeyri og um nýja umsókn um ellilífeyri hjá sama einstaklingi, enda sé ekki um samfellt bótatímabil að ræða. Heimildinni verði þó eingöngu beitt einu sinni um útreikning ellilífeyris. Þegar um endurhæfingar- eða örorkulífeyrisþega sé að ræða teljist umsókn vera ný ef liðin séu meira en tvö ár frá því að síðasta örorkumat hafi runnið út eða viðkomandi einstaklingur hafi verið í virkri endurhæfingu og/eða fengið greiðslur frá Tryggingastofnun.

Komi í ljós við endurreikning bóta að bætur hafi verið ofgreiddar fari um það samkvæmt 55. gr. laganna. Þar komi fram sú skylda Tryggingastofnunar til að innheimta ofgreiddar bætur. Sú meginregla sé ítrekuð í 9. gr. reglugerðar nr. 598/2009.

Kærandi hafi með kæru sent gögn um að Ríkisskattstjóri hafi samþykkt tekjudreifingu vegna greiðslna frá lífeyrissjóðum á árinu 2019. Vegna þeirra gagna hafi verið gerður nýr endurreikningur fyrir kæranda fyrir árið 2019 sem hafi verið birtur á „Mínum síðum“ kæranda þann 23. júlí 2020. Kærandi sé enn ósátt við þann útreikning eins og fram komi í viðbótargögnum kæranda og telji hún, með vísan til reiknivélar Tryggingastofnunar á vef stofnunarinnar, að hún hafi átt að fá hærri greiðslur árið 2019.

Á árinu 2019 hafi kærandi verið með endurhæfingarlífeyri og tengdar greiðslur frá 1. mars 2019 og út árið. Í samræmi við ákvæði 4. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 598/2009 hafi allar tekjur kæranda á tímabilinu 1. mars 2019 til 31. desember 2019 áhrif á réttindi kæranda. Endurreikningur hafi verið byggður á upplýsingum úr skattframtölum bótaþega.

Við nýtt bótauppgjör ársins 2019 hafi komið í ljós að á tímabilinu 1. mars 2019 til 31. desember 2019 hafði kærandi verið með 1.697.869 kr. í lífeyrissjóðstekjur, 104.444 kr. í aðrar tekjur og sameiginlegar tekjur þeirra hjóna höfðu verið 758 kr. í vexti og verðbætur.

Hið nýja uppgjör tekjutengdra bóta ársins 2019 hafi leitt til 395.509 kr. ofgreiðslu að teknu tilliti til staðgreiðslu skatta, en krafa Tryggingastofnunar hafði áður verið 990.188 kr. Kærandi hafi á árinu 2019 fengið greiddar 1.488.195 kr. en réttindi samkvæmt nýju skattframtali kæranda, að teknu tilliti til dreifingar lífeyrissjóðsgreiðslna, séu 1.482.021 kr., þ.e. mismunur upp á 6.174 kr. Krafan sé því fyrst og fremst tilkomin vegna staðgreiðslu skatta og nýtingar persónuafsláttar fyrir 2019 sem hafi verið bakfærður, en við álagningu skattyfirvalda hafi væntanlega verið tekið tillit til þess.

Tryggingastofnun sé skylt lögum samkvæmt að framkvæma endurreikning ár hvert þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum. Tryggingastofnun sé ekki heimilt að horfa fram hjá tekjum sem birtist á framtali bótaþega, eins og ítrekað hafi verið staðfest af úrskurðarnefnd og hafi einnig verið staðfest fyrir dómstólum.

Hvað varðar þá fullyrðingu kæranda að hún eigi rétt á hærri greiðslum og tilvísun hennar til reiknivélar Tryggingastofnunar á heimasíðu stofnunarinnar sé bent á að þær tölur sem kærandi hafi gefið upp séu reiknuð réttindi fyrir árið 2020 miðað við tekjuforsendur ársins 2019, en ekki reiknuð réttindi fyrir árið 2019.

Kærð ákvörðun sé í samræmi við þau lög og reglur sem gildi um uppgjör og endurreikning tekjutengdra bóta. Með vísun til framanritaðs telji Tryggingastofnun ekki forsendur til að breyta fyrri ákvörðun sinni.

Í viðbótargreinargerð Tryggingastofnunar, dags 9. september 2020, kemur fram að kærandi hafi í athugasemdum sínum, dags. 13. ágúst 2020, óskað eftir að heildarbótagreiðslur hennar verði endurreiknaðar fyrir tekjuárið 2019 í samræmi við skattframtal 2020 eftir að Ríkisskattstjóri hafi samþykkt tekjudreifingu lífeyrisgreiðslna hennar. Þá óski kærandi einnig eftir að ónýttur persónuafsláttur eiginmanns kæranda verði nýttur vegna uppgjörsins.

Eins og hafi komið fram hafi Tryggingastofnun gert nýjan endurreikning fyrir kæranda fyrir árið 2019 vegna tekjudreifingar Ríkisskattstjóra á lífeyrisgreiðslum hennar sem hafi verið birtur á „Mínum síðum“ kæranda þann 23. júlí 2020. Þau leiðu mistök hafi reyndar átt sér stað að allar lífeyrissjóðsgreiðslur kæranda árið 2019 hafi verið reiknaðar kæranda til tekna en einungis hafi átt að taka tillit til lífeyrissjóðsgreiðslna kæranda frá mars og út árið 2019, þ.e. þann tíma sem kærandi hafi fengið greiddan endurhæfingarlífeyri frá stofnuninni.

Það hafi nú verið leiðrétt og fylgi með nýr endurreikningur kæranda fyrir árið 2019. Hið nýja uppgjör tekjutengdra bóta ársins 2019 hafi leitt til 324.195 kr. ofgreiðslu að teknu tilliti til staðgreiðslu skatta, en krafa Tryggingastofnunar hafði í upphafi verið 990.188 kr. Á árinu 2019 hafi kærandi fengið greiddar 1.488.195 kr. en réttindi samkvæmt nýju skattframtali kæranda, að teknu tilliti til dreifingar lífeyrissjóðsgreiðslna, séu 1.614.673 kr. Krafan sé því fyrst og fremst tilkomin vegna staðgreiðslu skatta og nýtingar persónuafsláttar fyrir 2019 sem hafi verið bakfærður, en væntanlega hafi verið tekið tillit til þess við álagningu skattyfirvalda. Tryggingastofnun geti ekki nýtt persónuafslátt fyrri ára heldur taki skatturinn tillit til hans við álagningu.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um endurreikning og uppgjör á tekjutengdum bótum kæranda vegna ársins 2019.

Í kjölfar kæru til úrskurðarnefndar velferðarmála framkvæmdi Tryggingastofnun ríkisins tvo nýja endurreikninga og uppgjör í máli kæranda. Í athugasemdum kæranda frá 10. september 2020 kemur fram að kærandi sé sátt við endurreikning Tryggingastofnunar, dags. 14. september 2020, en hún ítreki ósk sína um að ónýttur persónuafsláttur fyrir tekjuárið 2019 verði nýttur vegna fyrrgreinds uppgjörs.

Ljóst er að samkvæmt gögnum málsins stendur einungis eftir ágreiningur um ónýttan persónuafslátt kæranda og maka hennar við endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta ársins 2019.

Í 1. málsl. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar segir að rísi ágreiningur um grundvöll, skilyrði eða fjárhæð bóta eða greiðslna samkvæmt þeim lögum kveði úrskurðarnefnd velferðarmála, sbr. lög nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála, upp úrskurð í málinu.

Samkvæmt framangreindu ákvæði getur úrskurðarnefnd velferðarmála einungis fjallað um ágreining samkvæmt lögum nr. 100/2007 um almannatryggingar, svo og þeim reglugerðum sem settar eru með stoð í lögunum. Ljóst er að ákvörðun um nýtingu persónuafsláttar er ekki tekin á grundvelli laga um almannatryggingar. Það ágreiningsefni á því ekki undir úrskurðarnefnd velferðarmála. Með hliðsjón af framangreindu er kæru vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

Kæranda er bent á að ágreiningsefni um skattalega meðhöndlun greiðslna frá Tryggingastofnun fellur undir valdsvið skattyfirvalda. Kærandi getur því leitað til Skattsins vegna þess.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira