Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Barnaverndarmál

Mál nr. 444/2023-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 444/2023

Mánudaginn 11. desember 2023

A og B

gegn

barnaverndarþjónusta C

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Guðfinna Eydal sálfræðingur.

Með kæru, dags. 10. ágúst 2023, kærði D lögmaður, f.h. A og B, til úrskurðarnefndar velferðarmála úrskurð umdæmisráðs E frá 23. ágúst 2023 vegna umgengni F, við G.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Drengurinn G er X ára gamall. Barnaverndarþjónusta C fer með forsjá drengsins sem er í varanlegu fóstri hjá fósturforeldrum sínum. Drengurinn var vistaður utan heimils á vistheimili barna í janúar 2022 þar til hann fór á fósturheimili þann 11. febrúar 2022. Kærendur eru fósturforeldrar drengsins.

Mál drengsins hefur verið til meðferðar barnaverndaryfirvalda á grundvelli barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl.) frá fæðingu hans vegna fíkniefnaneyslu. Móðir var svipt forsjá drengsins með dómi Héraðsdóms H 25. janúar 2023. Dóminum var ekki áfrýjað til Landsréttar.

Mál drengsins var tekið fyrir á fundi umdæmisráðs E þann 23. ágúst 2023. Fyrir fundinn lá fyrir greinargerð starfsmanna barnaverndarþjónustu C, dags. 3. ágúst 2023, sem lögðu til umgengni, fjórum sinnum á ári í fjórar klukkustundir í senn. Þá var gerð krafa um móður myndi skila hreinni fíkniefnaprufu fyrir hverja umgengni og að umgengi færi fram undir eftirliti. Kærendur voru sátt við tillögur barnaverndarþjónustunnar en óskuðu eftir því að umgengni færi ekki fram á heimili móður. Móðir var ekki samþykk tillögu starfsmanna og var málið því tekið til úrskurðar. Úrskurðarorð hins kærða úrskurðar er svohljóðandi, auk þess sem þar er bent á kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála:

Umdæmisráð ákveður að drengurinn, G, eigi umgengni við móður í sex skipti á ári, fjórar klukkustundir í senn. Umgengni skal vera undir eftirliti, á heimili móður eða öðrum stað sem aðilar koma sér saman um og skal móðir skila hreinni fíkniefnaprufu fyrir hverja umgengni.“

Kæra fósturforeldra barst úrskurðarnefnd velferðarmála með bréfi, dags. 13. september 2023. Með bréfi úrskurðarnefndar velferðarmála, dags. 28. september 2023, var óskað eftir greinargerð barnaverndarþjónustu C ásamt gögnum málsins. Greinargerð barnaverndarþjónustu C barst nefndinni með bréfi, dags. 6. október 2023 og með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 18. október 2023, var hún send lögmanni kærenda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að gerð sé krafa um hinum kærða úrskurði verði hrundið og málinu vísað til nýrrar málsmeðferðar hjá barnaverndarþjónustu C.

Hvað varðar málavexti eins og þeir horfa við kærendum, þá vísist til málavaxtalýsingar í hinum kærða úrskurði og greinargerðar starfsmanna barnaverndarþjónustu C. Kærendur taki undir þá lýsingu sem þar komi fram.

Drengurinn hafi verið í fóstri hjá kærendum óslitið frá því febrúar 2022, fyrst í tímabundnu fóstri en frá febrúar 2023 í varanlegu fóstri. Fram komi í gögnum málsins og sé óumdeilt að fóstrið hafi gengið vel og drengurinn hafi myndað sterk og kærleiksrík tengsl við kærendur.

Meðan fóstrið hafi verið tímabundið hafi kynmóðir drengsins haft umgengni við hann vikulega og síðar hálfsmánaðarlega. Framkvæmd umgengninnar hafi gengið stóráfallalaust fyrir sig, þó ýmsir hnökrar hafi verið á, eins og nánar sé lýst síðar í kæru þessari og í gögnum málsins.

Í hinum kærða úrskurði, dags. 23. ágúst 2023, sé tíðni umgengni í varanlegu fóstri drengsins ákveðin í sex skipti á ári, m.a. með vísan til þess að drengurinn sé ánægður að sjá móður og vilji sjálfur hitta hana, jafnvel oftar en verið hefur. Þá sé vísað til þess að umgengnin veiti drengnum tækifæri til að njóta ánægjulegra samverustunda með móður sinni, auk þess að viðhalda tengslum og þekkingu á uppruna sínum.

A fundi Umdæmisráðs E hinn 23. ágúst 2023 hafi verið úrskurðað um umgengni drengsins við móður. Umgengni hafi verið ákveðin fjórar klukkustundir í senn sex sinnum á ári. Auk þess hafi verið ákveðið að umgengni skyldi vera undir eftirliti á heimili móður. Þá hafi það verið skilyrði fyrir umgengni að móðir skilaði hreinni fíkniefnaprufu.

Kærendur byggi kæru sína á því að inntak þeirrar umgengni sem úrskurðað hafi verið um geti ekki þjónað þeim markmiðum sem fóstrið byggir á, þ.e. að um varanlegt fóstur sé að ræða sem standa eigi til 18 ára aldurs drengsins og markmið þess sé að drengurinn aðlagist fósturfjölskyldunni sem sinni eigin.

Kærendur bendi á ítrekaðar forsendur í úrskurðum úrskurðarnefndar velferðarmála er varði umgengni fósturbarna við foreldra sína um að haga verði umgengni þannig að fósturbörnin fá frið til að aðlagast fósturfjölskyldu sinni, enda markmið varanlegs fósturs að tryggja til frambúðar umönnun barnanna, öryggi þeirra og þroska möguleika. Þá hafi einnig ítrekað verið byggt á því af hálfu úrskurðanefndar að líta beri til þess að með umgengni kynforeldra við fósturbörn sé ekki verið að reyna styrkja tengsl þeirra, heldur viðhalda þeim tengslum sem þegar séu fyrir hendi, ekki síst í þeim tilgangi að börnin þekki uppruna sinn. Þá hafi einnig í úrskurðum nefndarinnar verið vísað til þess að það séu ríkir hagsmunir fósturbarna að tengslamyndun þeirra við fósturforeldra sé ótrufluð.

Þannig byggi kærendur á því að það geti í raun ekki verið neinn ágreiningur um hvernig best skuli hagað umgengni í varanlegu fóstri og telja þau að þau grundvallarsjónarmið eigi vel við í máli þessu. Vilji þau standa vörð um réttindi drengsins um að ná stöðugleika og ró í fóstrinu sem ætlað sé að vara til 18 ára aldurs.

Kærendur vísi m.a. til skýrslna eftirlitsaðila til stuðnings kröfum sínum. Í skýrslunum komi m.a. fram að kynmóðir segi ítrekað við drenginn að hún sé móðir hans og spyrji hann um hvort hann sakni hennar ekki. Kærendur byggi þannig sérstaklega á því að hætta sé á því að umgengnin við móður geti haft áhrif á öryggi tengsla hans við kærendur.

Þá lýsa kærendur einnig vanlíðan hjá drengnum í tengslum við umgengnina eftir að hún sé afstaðin. Fram komi í greinargerð starfsmanna barnaverndarþjónustu C að kærendur hafi lýst því að drengurinn sofi illa eftir umgengni, fái martraðir og magaverk. Þá hafi kærendur talið það slæmt fyrir drenginn hversu mikið af mat og sælgæti drengurinn fái í umgengninni, og m.a. fái hann matvæli sem hann sé með staðfest ofnæmi fyrir. Það hafi valdið drengnum magaverk og öðrum meltingaróþægindum í kjölfar umgengni. Þá hafi kærendur einnig merkt vanlíðan hjá drengnum i aðdraganda umgengninnar og hafi hann margoft sagst ekki vilja fara, grátið og viljað að fósturfaðir verði með í umgengninni.

Ítrekað sé að drengurinn hafi búið við mikinn óstöðugleika meðan hann hafi verið í umsjá móður en hún eigi langa sögu um vímuefnaneyslu. Þá sé drengurinn afar ungur. Hann sé í dag nýorðinn X ára gamall og hafi farið af heimili móður um X ára aldur. Gögn málsins og hegðun drengsins í umgengni virðist staðfesta að tengslin séu jákvæð milli drengsins og móður, en miðað við lýsingar af heimilisaðstæðum hjá móður í dómi um forsjársviptingu hennar, fíkniefnaneyslu hennar og aðrar aðstæður telji kærendur það alveg óljóst hversu rík eða djúp tengslin séu í raun og veru.

Þannig byggja kærendur á því að ekkert bendi til að drengurinn sé í þörf fyrir svo tíða umgengni sem hinn kærði úrskurður segir til um heldur þvert á móti hafi hann, í ljósi brotinnar forsögu og erfiðra aðstæðna hjá móður, mun ríkari þörf fyrir frið og ró í fóstrinu og tíma til að aðlagast fjölskyldunni, enda sé markmið vistunarinnar að hann tilheyri fjölskyldu kærenda til frambúðar.

Þá vilji kærendur lýsa efasemdum um hvort heppilegt sé að drengurinn hitti móður í íbúð hennar, þar sem hún virðist ávallt nota tímann í að elda mat og gefa sælgæti, í stað þess að umgengnin fari fram í húsnæði á vegum barnaverndarþjónustu C. Kærendur benda á að móður hafi ítrekað verið sett mörk hvað þetta varðar sem ekki hafi verið mikið tekið tillit til.

Þá telji kærendur að með því að færa umgengnina í húsnæði á vegum barnaverndarþjónustunnar verði með öllu hægt að koma í veg fyrir atvik eins og því sem lýst sé í gögnum málsins, þegar móðir hafi rakað allt hárið af drengnum og látið hann sitja á bleyjunni á stól meðan á því stóð, og sýnt það „live“ á Facebook. Það atvik hafi setið mjög í drengnum lengi vel. Kærendur telji einnig að sú vanlíðan sem drengurinn sýni eftir umgengni megi einnig rekja til þess að um sé að ræða hinn sama stað og hann upplifði mikil áföll og vanrækslu af hálfu móður. Þekkt sé í áfallafræðum að heimsókn á staði sem tengist áföllum geti „triggerað“ vanlíðan hjá þolanda.

Eins og lýst sé í gögnum málsins hafi drengnum verið skipaður talsmaður og reynt hafi verið að fá fram vilja hans til umgengninnar, tíðni hennar og lengd. Kærendur vilja mótmæla þeim framgangi málsins og telji það enga þýðingu hafa að leita eftir vilja eða afstöðu fjögurra ára barns. Með vísan til ungs aldurs hans og erfiðrar forsögu sé alls ekki hægt að fullyrða að drengurinn sé að lýsa eindregnum og upplýstum vilja. Að mati kærenda sé talsmannaskýrslan ansi rýr og sem dæmi megi nefna komi ekkert fram um hvort talsmaður hafi lagt mat á hvort drengurinn hafi nægilega þroskað tímaskyn til að geta sagt til um afstöðu til lengdar eða tíðni umgengni.

Að mati kærenda verði að vega hagsmuni og þarfir drengsins upp á móti ætluðum vilja hans. Ef vilji ungra barna fari ekki saman við hagsmuni þeirra og þau sjónarmið um stöðugleika í fóstri sem fyrr hafi verið reifuð, sé vandséð hvernig það teljist þeim fyrir bestu að taka tillit til viljans við ákvarðanatöku. Kærendur telji að ósk drengsins, sem hann virðist lýsa við talsmann, um að hitta móður meira, byggi að einhverju leyti á óskhyggju um að geta verið með öllum þeim sem honum þyki vænt um. Hann vilji ekki rjúfa tengsl sín við móður og sýni henni hollustu með því að lýsa því að hann vilji hitta hana. Slíkt sé eðlislægt hjá svo ungum börnum og kærendur vilji ekki gera lítið úr þeim jákvæðu tengslum sem þó séu til staðar milli drengsins og kynmóður. Grundvallaratriðið sé þó að kærendur telji að gögn málsins sýni svo ekki verði um villst að móðir sé ekki í stakk búin til að vera með drenginn í svo mikilli umgengni sem hinn kærði úrskurður segi til um og enn síður á þann veg sem hún sjálf hefur krafist. Því sé ekki unnt við ákvörðun um umgengni að taka tillit til óska drengsins, svo langt sem þær ná.

Þá sé þess getið að kærendum sé vel kunnugt um grundvallarréttindi hvers barns til að þekkja uppruna sinn og njóta beinna samskipta og tengsla við upprunafjölskyldu sína. Þau virði þann rétt drengsins og muni ávallt leitast við að styðja við umgengni hans við upprunafjölskyldu sína, svo hann megi njóta þeirra réttinda. Drengurinn njóti nú þegar fyrir tilstilli kærenda samvista við aðra systur sína, sem einnig sé í fóstri og hafi þau sett sig í samband við eldri systur hans og þannig reynt að viðhalda tengslum drengsins við hana.

Að lokum byggi kærendur kæru sína á því að ekkert hafi komið fram í málinu sem réttlæti umgengni umfram það sem hefðbundið hafi verið í varanlegu fóstri, þ.e. tvisvar til fjórum sinnum á ári, eins og tillaga starfsmanna barnaverndarþjónustunnar hafi sagt til um, sbr. greinargerð þeirra.

Með vísan til alls framangreinds krefjist kærendur þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið og vísað til nýrrar málsmeðferðar hjá barnaverndarþjónustu C, svo leggja megi nýtt mat á hagsmuni drengsins með tilliti til tíðni umgengni hans við móður.

III. Sjónarmið barnaverndarþjónustu C

Í greinargerð barnaverndarþjónustu C kemur fram að málið varði úrskurð umdæmisráðs E um umgengni kynforeldris við barn í varanlegu fóstri.

Málavöxtum sé rækilega lýst í kæru og öðrum gögnum sem fyrir liggi í málinu. Drengurinn sem um ræðir sé í varanlegu fóstri á vegum barnaverndarþjónustu C. Barnaverndarþjónusta C hafi gert kröfu um það fyrir umdæmisráði að umgengni drengsins við kynmóður yrði fjórum sinnum á ári, fjórar klst. í senn undir eftirliti og að undangenginni fíkniefnaprufu hjá móður. Kynmóðir hafi gert kröfu um umgengni á sex vikna fresti, fjórar klst. í senn. Niðurstaða umdæmisráðs þann 23. ágúst 2023 hafi verið sú að drengurinn skyldi eiga umgengni við móður í sex skipti á ári, fjórar klst. í senn, undir eftirliti, og væri skilyrði að móðir skilaði hreinni vímuefnaprufu fyrir umgengni. Taldi ráðið ekkert benda til þess að umgengni drengsins við móður væri andstæð hagsmunum hans og taldi að ekki hefði verið sýnt fram á að umgengni væri bersýnilega andstæð hagsmunum hans. Því væri ekki ástæða til að takmarka umgengnisrétt frekar.

Barnaverndarþjónustan hafi tekið ákvörðun um að una úrskurðinum með hliðsjón af rökstuðningi umdæmisráðs, en fósturforeldrar drengsins hafi ekki verið sátt við niðurstöðu ráðsins og ákveðið að kæra hana til úrskurðanefndar velferðarmála.

Barnaverndarþjónusta C muni því ekki hafa uppi neinar kröfur í málinu.

IV. Afstaða drengsins

Drengnum var skipaður talsmaður sem tók viðtal við hann 3. febrúar 2023 í leikskóla hans. Í skýrslu talsmanns segir að útskýrt hafi verið fyrir drengunum í samræmi við aldur hans og þroska. í viðtalinu hafi drengurinn átt erfitt með að einbeita sér og verið mikið á ferðinni á meðan rætt hafi verið við hann, auk þess sem úthald hans hafi ekki verið mikið.

Þegar drengurinn hafi verið spurður um viðhorf hans og væntingar til umgengni við móður hafi komið fram hjá drengnum að honum líði vel þegar hann hitti móður sína í flestum tilvikum en hann hafi líka stundum verið leiður þegar hann hafi hitt hana. Þegar drengurinn hafi verið spurður nánar út í hvers vegna hann væri stundum leiður hafi drengurinn átt erfitt með að útskýra það nánar.

Því næst hafi drengurinn verið spurður hvar, hversu lengi og hvar hann vilji hitta móður. Drengurinn hafi átt erfitt með að svara spurningunni. Drengurinn hafi tjáð talsmanni að hann vildi hitta móður meira en hann væri að gera í dag en hafi átt erfitt með að greina frá því hversu mikið.

V. Afstaða móður

Úrskurðarnefndin óskaði eftir afstöðu móður til kærunnar og barst hún með bréfi, dags. 24. nóvember 2023. Í greinargerð lögmanns móður kemur fram að kærandi krefjist þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

Umgengni hafi nú þegar farið fram samkvæmt úrskurði umdæmisráðs í tvö skipi og gengið vel fyrir sig. Dagsetningar og fyrirkomulag umgengni hafi einnig verið sett upp fyrir næsta ár þannig að umgengni fari fram í annað hvort skipti á heimili móður en í hitt skiptið í húsnæði barnaverndar C. Barnavernd og móðir hafi komist að samkomulagi um þetta fyrirkomulag umgengni. Móðir hafi einnig umgengni sex sinnum á ári við eldri dóttur sína og í síðustu umgengni hafi bæði börnin fengið að vera í umgengni hjá móður á sama tíma.

Á því sé byggt, af hálfu móður, að umgengni sú sem ákvörðuð hafi verið sé ekki á neinn hátt til þess fallin að raska tengslamyndum drengsins á fósturheimilinu.

Kærendur byggi kæru sína m.a. á því að inntak umgengni sem úrskurðað hafi verið um geti ekki þjónað þeim markmiðum sem fóstrið byggir á. Um varanlegt fóstur sé að ræða sem standa eigi til 18 ára aldurs drengsins og markmið þess sé að drengurinn aðlagist fósturfjölskyldunni sem sinni eigin.

Af hálfu móður sé á það bent að drengurinn hafi nú þegar verið hjá fósturforeldrum óslitið frá 11. febrúar 2022 og ekkert í gögnum málsins bendi til annars en að hann hafi náð að aðlagast vel á fósturheimilinu og myndað góð tengsl við fósturforeldrana. Þannig segi til að mynda í greinargerð barnaverndarþjónustu C frá 3. ágúst 2023 fyrir fund umdæmisráðs Í „Drengurinn ... hefur dafnað í fóstrinu, tekið miklum framförum á fósturtímanum og tengst fósturforeldrum sínum tilfinningaböndum.“ Drengurinn hafi fljótt farið að kalla fósturforeldra sína mömmu og pabba og hann hafi mikla þörf fyrir umhyggju og nánd frá fósturforeldrum sínum. Einnig sé staðfest í kæru að drengurinn eigi sterk og kærleiksrík tengsl við fósturforeldra. Virðist hann því fljótt hafa náð góðri tengingu við fósturforeldrana.

Þá sýni gögn málsins ekki fram á neinn slíkan vanda hjá drengnum sem réttlætt geti þörf á að takmarka umgengni móður við drenginn frekar en gert hefur verið. Í framlögðu skjali frá leikskóla barnsins, dags. 6. janúar 2023, komi fram að líðan drengsins sé góð, hann sé öruggur með sig í leikskólanum og taki virkan þátt í skólastarfinu.

Ef takmarka eigi umgengni verði að sýna fram á að annað sé bersýnilega andstætt hagsmunum barnsins.

Samkvæmt 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 eigi barn rétt á umgengni við foreldra nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins. Verði ekki séð að nokkuð bendi til þess að það sé bersýnilega andstætt hagsmunum og þörfum barnsins að umgangast móður sína með þeim hætti sem úrskurðað hafi verið. Umgengni móður við drenginn fari ávallt fram í öruggum aðstæðum undir eftirliti starfsmanna á vegum barnaverndarþjónustu C auk þess sem móðir þurfi að skila hreinu fíkniefnaprófi daginn fyrir umgengni. Gögn málsins lýsi mikilli væntumþykju á milli drengsins og móður hans eins og m.a. komi fram í umfjöllun úr matsgerð vegna forsjárhæfnismats í dómi héraðsdóms I frá 25. janúar 2023.

Röksemdir kærenda varðandi það hvað hafi farið úrskeiðis í umgengni móður við drenginn séu allt tilvik sem hafi átt sér stað áður en til forsjársviptingar kom. Móðir hafi verið með aðra afstöðu til málsins á þeim tíma, þ.e. hvorki búin að átta sig á því að barnið væri að fara í langtíma fóstur né farin að treysta fósturforeldrunum til að gera sitt besta við uppeldi barnsins. Viðhorf hennar hafi mikið breyst frá þeim tíma og hún geri sér grein fyrir því að drengnum vegni vel hjá fósturforeldrunum. Því sé alfarið hafnað að drengurinn eigi svo slæmar minningar frá heimili móður að það valdi honum vanlíðan að fara þangað í umgengni. Verði ekki séð að slíkar fullyrðingar séu staðfestar á nokkum hátt í gögnum málsins. Verði því ekki talið að kærendur hafi sýnt fram á að það sé bersýnilega andstætt hagsmunum drengsins að umgengni verði í sex skipti á ári enda einungis um að ræða fjórar klukkustundir í senn. Að mati móður þjóni það hagsmunum drengsins best á þessum tímapunkti að úrskurður umdæmisráðs verði staðfestur.

Þá sé á því byggt að almennt sé það börnum fyrir bestu að viðhalda tengslum við kynforeldra sína.

Verði að telja að barnaverndarstarf eigi að vinna út frá þeirri forsendu að börnum sé mikilvægt að þekkja uppruna sinn jafnvel þó foreldrar séu sviptir forsjá þeirra. Markmið umgengni foreldra við barn, þegar barn sé í varanlegu fóstri, sé að barnið þekki uppruna sinn. Í inngangi Sáttmála Sameinuðu þjóðanna um rétt barnsins sé fjallað um hversu mikilvægar siðvenjur og menningararfleið hverrar þjóðar séu. Í því að þekkja uppruna sinn felist m.a. að þekkja sögu fjölskyldu sinnar, menningu þeirrar þjóðar sem það eigi uppruna að rekja til, þ.m.t. matarmenninguna sem sé mjög rík í uppunalandi drengsins, móðurmálið o.s.frv. Móðir sé eini aðilinn hér á landi sem geti kennt drengnum þessi atriði.

Telja verði að börn hafi almennt nær undantekningalaust mikla þörf fyrir að þekkja uppruna sinn en í því felst m.a. að börn fái að kynnast foreldrum sínum og mynda sér sína eigin skoðun varðandi þau. Þá sé það niðurstaða Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Stands Lobbers of.l. gegn Noregi, mál nr. 37283/13 frá 10. september 20219 að almennt sé það barni fyrir bestu að viðhalda tengslum þess við fjölskyldu sína.

Umgengni móður við drenginn samkvæmt úrskurði umdæmisráðs sé einungis sem nemur einum sólarhring á ári og sé því ekki til þess fallin að styrkja tengsl barns við móður umfram það að barnið viti hver móðir sín sé og hver uppruni þess sé. Ítrekað sé mikilvægi þess að drengurinn fái að kynnast uppruna sínum. Verði ekki séð að minni umgengni tryggi það sem skyldi.

Mikilvægt sé að hlustað sé á rödd barna eftir því sem unnt sé hverju sinni.

Á því sé byggt af hálfu móður að það sé grundvallaratriði og markmið laga þegar börn eigi í hlut að leitast sé við að þau fái að tjá vilja sinn og að vilji þeirra sé virtur að því marki sem unnt sé miðað við aðstæður. Í skýrslu talsmanns, frá 3. febrúar 2023, hafi verið leitast við að fá fram vilja drengsins. Í þeirri skýrslu komi skýrt fram að drengurinn vilji umgengni við móður þó að með vísan til ungs aldurs hans geti hann ekki lýst því hversu mikil umgengni eigi að vera.

Stöðugleiki hafi komist á í lifi barnsins.

Móðir hafi á þessum tímapunkti ákveðið að sætta sig við að umgengni verði einungis sex sinnum á ári og tekið ákvörðun um að kæra ekki úrskurð umdæmisráðs frá 23. ágúst 2023. Kominn sé á samningur um umgengnina, umgengni gangi vel fyrir sig og líf allra hlutaðeigandi sé að komast í fastar skorður. Verður ekki talið að það séu hagsmunir drengsins að fella úrskurð umdæmisráðs úr gildi og vísa málinu til nýrrar meðferðar. Þvert á móti sé best fyrir drenginn að þessi stöðugleiki haldist og fósturforeldrar og kynmóðir deili ekki frekar um umgengni drengsins.

Allmörg börn á íslandi fari á milli heimila foreldra sinna, jafnvel vikulega. Telja verður að það sé ekki meira íþyngjandi fyrir fósturforeldra að sæta því að fósturbörn fari í umgengni nokkrum sinnum á ári til kynforeldra sinna heldur en fyrir foreldra sem ekki búa saman og séu hugsanlega alls ekki samstíga varðandi uppeldisaðferðir. Hafa beri í huga að hér sé einungis um að ræða 24 klukkustundir á ári sem móðir fær umgengni við drenginn.

Umgengni foreldra við börn hafi verið að aukast þegar um varanlegt fóstur sé að ræða.

Af hálfu móður sé á því byggt að umgengni kynforeldra hafi smám saman verið að aukast þegar börn séu í varanlegu fóstri og að telja verði ljóst að umgengni muni halda áfram að aukast frekar en hitt. Verulegar líkur séu á því að ákvarðanir um mjög takmarkaða umgengni barna við kynforeldra verði eitt af þeim erfiðu málum sem verði litið til í framtíðinni og metið óforsvaranlegt gagnvart þeim börnum, sérstaklega í þeim tilvikum sem börnin sjálf hafi óskað eftir meiri umgengni. Hafi slíkt viðhorf verið áberandi þegar rætt sé við fullorðna einstaklinga sem hafi verið í varanlegu fóstri. Mikilvægt sé að fósturforeldrar skilji að þetta hafi lítið með tengsl þeirra við fósturforeldrana að gera heldur þörf barnsins fyrir að kynnast kynforeldri og njóta samvista með því.

Þá sé að mati móður ávallt nauðsynlegt að meta hvert mál fyrir sig enda öll tilvik ólík. Það sé því verulega mikilvægt að hvert mál sé skoðað og metið hvort það sé eitthvað sem liggi fyrir um að umgengni sé ekki í samræmi við hagsmuni barnsins. Ekkert slíkt liggi fyrir í því máli sem hér sé til skoðunar. Telji móðir að krafa kærenda sé ekki byggð á því hvað drengnum sé fyrir bestu heldur því að fósturforeldrar vilji leitast við að takmarka aðkomu móður að lífi hans sem mest. Það sé skiljanleg afstaða hjá fósturforeldrum en ekki gild röksemd í málinu, enda ekki í samræmi við hagsmuni drengsins.

Móðir hafni því alfarið að það sé drengnum fyrir bestu að endurskoða umgengni hennar við hann á þessum tímapunkti. Drengurinn eigi rétt á umgengni við móður og móðir eigi rétt á umgengni við hann samkvæmt 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Að mati móður þjóni það hagsmunum drengsins best á þessum tímapunkti að úrskurður umdæmisráðs verði staðfestur og hún fái umgengni við hann eigi sjaldnar en sex sinnum á ári.

Því sé ítrekuð krafa móður um að hinn kærðu úrskurður verði staðfestur.

VI.  Niðurstaða

Drengurinn, G er X ára gamall og er í varanlegu fóstri hjá fósturforeldrum sínum, sem eru kærendur.

Með hinum kærða úrskurði var ákveðið að drengurinn hefði umgengni við móður sex sinnum á ári, í fjórar klukkustundir í senn. Þá var ákveðið að umgengni færi fram undir eftirliti á heimili móður eða á þeim stað sem aðilar kæmu sér saman um. Auk þess skal móðir skila hreinni fíkniefnaprufu fyrir umgengni. Forsenda hins kærða úrskurðar er að ekkert bendi til þess að umgengni drengsins við móður sé andstæð hagsmunum hans. Þvert á móti gefi umgengni honum færi á að njóta áfram ánægjulegra samverustunda með móður auk þess að viðhalda tengslum og þekkingu á sínum uppruna.

Kærendur krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og málinu vísað heim til nýrrar meðferðar. Kærendur kveðast hafa verið sáttir við tillögur þær er komu fram í greinargerð starfsmanna barnaverndarþjónustu C. Í umræddri greinargerð starfsmanna barnaverndarþjónustunnar var lagt til að umgengni yrði fjórum sinnum á ári í fjórar klukkustundir í senn. Móðir myndi skila hreinni fíkniefnaprufu fyrir hverja umgengni og að umgengni færi fram undir eftirliti. Kærendur óskuðu eftir því að umgengni færi ekki fram á heimili móður.

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. bvl. á barn rétt á umgengni við foreldra og aðra sem eru því nákomnir. Foreldrar eiga með sama hætti rétt á umgengni við barn sitt í fóstri samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar, nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með ráðstöfun þess í fóstur. Við mat á þessu skal meðal annars taka tillit til þess hversu lengi fóstri er ætlað að vara. Samkvæmt 3. mgr. lagagreinarinnar skal taka afstöðu til umgengni barns, sem ráðstafað er í fóstur, við foreldra og aðra nákomna og skal taka mið af því hvað þjóni best hagsmunum barnsins. Samkvæmt 4. mgr. sömu lagagreinar hefur umdæmisráð barnaverndar úrskurðarvald um ágreiningsefni er varða umgengni barns við foreldra og aðra nákomna, hvort sem það varðar rétt til umgengni, umfang umgengnisréttarins eða framkvæmd.

Það er meginregla í barnaverndarstarfi að hagsmunir barns skuli ávallt vera í fyrirrúmi og beita skuli þeim ráðstöfunum sem barni eru fyrir bestu. Við úrlausn þessa máls ber því að líta til þeirrar stöðu sem drengurinn er í. Það er gert til þess að unnt sé að taka ákvörðun um umgengni móður við son hennar á þann hátt að hún þjóni hagsmunum hans best, sbr. 3. mgr. 74. gr. bvl.

Að mati úrskurðarnefndarinnar ber fyrst og fremst að líta til þess hvaða hagsmuni drengurinn hefur af umgengni við móður. Í greinargerð starfsmanna barnaverndarþjónustu C, sem lögð var fyrir umdæmisráð kemur fram að eftir að drengurinn vistaðist utan heimilis 16. janúar 2022 hefði hann umgengni við móður fyrstu tvo mánuði fósturtímans á þriggja vikna fresti í þrjá tíma í senn undir eftirliti. Umgengni var aukinn í apríl 2022 þannig að hún var einu sinni í viku, þrjár klukkustundir í senn undir eftirliti. Á meðferðarfundi í febrúar 2023 var tekin ákvörðun um að umgengni væri einu sinni í mánuði í þrjár klukkustundir í senn þar til niðurstaða Landsréttar lægi fyrir. Móðir féll frá áfrýjun málsins til Landsréttar og var þá bókað að umgengni yrði fjórum sinnum á ári í fjórar klukkustundir í senn undir eftirliti. Í greinargerð starfsmanna kemur fram að umgengni hafi ítrekað fallið niður á fósturtímanum og að móðir hafi ekki farið eftir leiðbeiningum varðandi mataræði drengsins. Þá kemur fram að drengurinn hafi dafnað vel í fóstrinu, tekið miklum framförum og tengst fósturforeldrum sínum tilfinningaböndum. Móðir hafi verið svipt forsjá drengsins og þegar málum sé þannig háttað sé lagt upp úr því að umgengni sé fyrst og fremst til þess gerð að barn þekki uppruna sinn en ekki til að styrkja tengsl.

Samkvæmt hinum kæra úrskurði umdæmisráðs er það forsenda hans að ekkert bendi til þess að umgengni drengsins við móður sé andstæð hagsmunum hans, sbr. 2. mgr. 74. gr. bvl. Jafnframt byggir umdæmisráð niðurstöðu hins kærða úrskurðar á því að drengurinn vilji hitta móður sína oftar auk þess að viðhalda tengslum og þekkingu á drengsins uppruna sínum.

Úrskurðarnefndin telur að miðað við aldur og þroska drengsins þá orki það tvímælis hvort að drengurinn hafi verið að lýsa raunverulegum vilja sínum í samtali við talsmann og hafi í raun getu eða þroska til að hafa hagsmuni sína í fyrirrúmi þegar talsmaður óskaði eftir afstöðu hans til umgengni. Nefndin telur að barn þurfi að vera eldra og þroskaðra til þess að meintur vilji þess sé látinn hafa mikil áhrif á niðurstöðu máls. Þá telur nefndin að þekking á uppruna og að viðhalda tengslum náist með umgengni fjórum sinnum á ári líkt og barnaverndarþjónusta rökstyður vel í greinargerð sinni til umdæmisráðs, dags. 17. ágúst 2023.

Með vísan til alls þess, sem að framan greinir, ber að fella úr gildi hinn kærða úrskurð umdæmisráðs E og vísa málinu til nýrrar meðferðar ráðsins.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Úrskurður umdæmisráðs E frá 23. ágúst 2023 varðandi umgengni G, við F, er felldur úr gildi og málinu vísað til nýrrar meðferðar ráðsins.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

 

Kári Gunndórsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum