Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Barnaverndarmál

Mál nr. 480/2019 - Úrskurður

Staðfestur úrskurður barnaverndarnefndar um umgengi kynmóður við son hennar.

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 480/2019

Miðvikudaginn 4. mars 2020

A

gegn

Barnaverndarnefnd B

                             ÚR S K U R Ð U R               

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Björn Jóhannesson lögfræðingur og Guðfinna Eydal sálfræðingur.

Með bréfi 20. nóvember 2019 kærði C lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála úrskurð Barnaverndarnefndar B frá 12. nóvember 2019 vegna umgengni kæranda við son hennar, D.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

D er tæplega X ára og lýtur forsjá Barnaverndarnefndar B. Kærandi er kynmóðir drengsins. Drengurinn er í varanlegu fóstri og hefur verið í umsjá fósturforeldra sinna, föðurafa og eiginkonu hans, frá X árs aldri. Móðir drengsins var svipt forsjá hans með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í X sem var staðfestur með dómi Hæstaréttar í X Faðir drengsins var sviptur forsjá hans með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur  X.

Kærandi hafði fyrst umgengni við drenginn í október X og óskaði í kjölfarið eftir frekari umgengni. Ekki náðist samkomulag um tíðni umgengni og því var málið lagt fyrir Barnaverndarnefnd B sem úrskurðaði þann X að kærandi ætti umgengni við drenginn sex sinnum á ári. Þann X óskaði kærandi eftir breytingum á fyrirkomulagi og tíðni umgengni hennar við drenginn. Ekki náðist samkomulag um tíðni umgengninnar og var málið því tekið til úrskurðar samkvæmt 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl.). Úrskurðarorð hins kærða úrskurðar er svohljóðandi, auk þess sem þar er bent á kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála:

„Barnaverndarnefnd B ákveður að D, hafi umgengni við móður sína, A, sex sinnum á ári í allt að tvær klukkustundir í senn. Umgengni fari fram undir eftirliti í húsnæði á vegum Barnaverndar B í febrúar, maí og nóvember ár hvert. Í mars, ágúst og desember ár hvert fari umgengni fram á heimili móðurömmu og undir eftirliti. Skilyrði er að móðir sé edrú og í jafnvægi þegar umgengni á sér stað. Þá verði fósturforeldrar viðstaddir umgengnina ef þau kjósa það. Símtöl eru ekki heimiluð.“

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess aðallega að umgengni hennar við son sinn verði aðra hverja helgi og drengurinn fái að gista á heimili hennar. Kærandi gerir jafnframt þá kröfu að drengurinn fái að hafa samband við hana í gegnum síma þegar hann vill.

Til vara gerir kærandi þá kröfu að umgengni hennar við son sinn verði eina helgi í mánuði og að sonur hennar fái að gista hjá henni ef hann vill og hafa samband við hana í síma.

Til þrautavara gerir kærandi þá kröfu að umgengni hennar við son sinn verði aukin frá því sem nú er og vari lengur hverju sinni. Kærandi telur þá umgengni sem hún nýtur samkvæmt núverandi fyrirkomulagi vera of sjaldan og í of skamman tíma í senn. Þá telur kærandi að ekki sé þörf á því að umgengni fari fram undir eftirliti, enda hafi hún verið edrú í tvö ár og engin vandamál komið upp í umgengni á þeim tíma.

Málavextir séu í stuttu máli þeir að kærandi hafi verið svipt forsjá sonar síns með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur þann X og hafi sá dómur verið staðfestur af Hæstarétti þann X. Sonur hennar hafi verið í umsjá föðurafa síns og konu hans frá X árs aldri og verið í varanlegu fóstri hjá þeim frá árinu X. Kærandi hafi nýtt sér umgengni frá árinu X og  hún hafi gengið afar vel, enda líðan kæranda góð og hún í mun betra jafnvægi en hún hafi verið á árum áður. Kærandi hafi notið umgengni við son sinn sex sinnum á ári í allt að tvær klukkustundir í senn frá árinu X, sbr. síðustu úrskurði Barnaverndarnefndar B.

Kærandi byggi kröfur sínar á því að barn eigi rétt á umgengni við kynforeldra sína og aðra sem séu þeim nákomin samkvæmt 1. mgr. 74. gr. bvl. Sá réttur sé í samræmi við mannréttindaákvæði og alþjóðasamninga sem Ísland hafi fullgilt. Kærandi byggi jafnframt á því að kynforeldrar eigi rétt á umgengi við barn í fóstri nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins, samkvæmt 2. mgr. 74. gr. bvl. Kærandi bendi á að réttur barns til að njóta umgengni við kynforeldra sína sé sérstaklega ríkur enda komi fram í greinargerð með frumvarpi sem varð að bvl. að „ef neita á um umgengnisrétt með öllu eða takmarka hann verulega verður þannig að sýna fram á að hann sé bersýnilega andstæður hagsmunum barnsins“. Telji kærandi að ekkert slíkt eigi við í málinu. Þá telji kærandi að markmið fósturs standi ekki í vegi kröfum hennar líkt og haldið sé fram af Barnavernd B og Barnaverndarnefnd B. Í greinargerð Barnaverndar B frá X er vísað til greinargerðar að baki frumvarpi sem varð að bvl. og tekið fram að þegar varanlegt fóstur sé annars vegar „sé viðurkennt að hagsmunir barnsins kunni að krefjast þess að umgengni verði takmörkuð allverulega“. Þetta segi ekki alla söguna þar sem að í greinargerðinni að baki frumvarpi bvl. komi jafnframt fram, á eftir framangreindri tilvitnun, að „árétta ber að meta þarf hagsmuni barnsins í hverju tilviki“.

Kærandi vísar sérstaklega til þess umgengni hafi gengið vel síðustu ár. Um þetta geti starfsmenn barnaverndar vottað sem hafa haft eftirlit með umgengni kæranda við son sinn, en af umsögnum þeirra að dæma hafi umgengnin gengið vel og drengurinn tekið móður sinni vel. Þá bendir kærandi á að það sé syni hennar jafnframt mikilvægt að hitta og tengjast móður sinni, auk þess sem hann hafi ánægju af því að hitta móður sína. Samkvæmt skýrslu talsmanns, dags. X, hafi drengurinn mjög gaman af því að hitta móður sína og segist hann vilja hitta hana oftar og lengur í hvert skipti. Ekki sé annað að sjá, af umræddri skýrslu talsmanns, að drengurinn upplifi móður sína og þær samverustundir sem hann á með henni jákvæðar og ekkert bendi til þess að þær valdi honum vanlíðan eða séu með nokkrum hætti andstæðar hagsmunum hans.

Kærandi byggi kröfu sína jafnframt á því að sonur hennar hafi aldrei verið í hættu staddur í umgengni né hafi hann komist í uppnám í tengslum við umgengni við hana. Kærandi telji sig hafa fullkomna getu og hæfni til að sinna syni sínum í umgengni og að innsæi hennar í þarfir sonar síns sé dýpra en nokkurn tímann áður. Kærandi sé reglusöm og hafi verið edrú síðan X. Hún nýti sér ýmis stuðningsúrræði til að halda áfram að standa sig og bæta, m.a. hjá X. Kærandi stundi nám í X og búi á áfangaheimilinu E, en sé að bíða eftir því að komast í félagslegt húsnæði. Hún hafi leyfi til þess að fá son sinn í næturgistingu þar sem hún dvelji núna og því sé ekkert því til fyrirstöðu að fallist verði á kröfur hennar. Kærandi elski son sinn og sýni honum ástúð og umhyggju. Það sé hennar einlægi vilji að fá að umgangast hann meira en hún geri nú og vilji í þeim efnum vera í fullu samstarfi við barnavernd og fósturforeldra. Kærandi sé ólétt af þriðja barni sínu og hún vilji að drengurinn njóti mikilla samvista við systkini sitt svo að tengsl myndist milli þeirra.

Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. bvl. skuli barnaverndaryfirvöld taka tillit til sjónarmiða og óska barna eftir því sem aldur og þroski gefa tilefni til. Þessi regla sé ein meginreglna barnaverndarréttar og liður í því að gæta að því sem telst barni fyrir bestu, sbr. 1. mgr. 4. gr. bvl.  Öll gögn þessa máls beri með sér að drengurinn sé skýr og greindur átta ára gamall drengur sem sé fullfær um að láta í ljós vilja sinn. Engin ástæða sé til að draga í efa hæfni hans til þess að tjá vilja sinn um hvernig umgengni hans við móður sína skuli háttað. Í skýrslu talsmanns komi greinilega fram að drengurinn vilji njóta mikillar umgengni við móður sína, þá helst tvisvar sinnum í viku og að umgengnin fari fram til skiptis heima hjá ömmu sinni, F frænku sinni, móður sinni og í húsnæði barnaverndar. Drengurinn hafi jafnframt tjáð vilja sinn til þess að umgengnin verði lengri í hvert skipti en hún sé núna og sagt að hann væri til í að gista stundum hjá móður sinni. Enn fremur segist drengurinn vera til í að fá að heyra í móður sinni einstaka sinnum í síma eða með öðrum hætti. Um sé að ræða talsvert aðra afstöðu en fram komi hjá drengnum er starfsmaður barnaverndar ræddi einslega við hann á fósturheimilinu X. Kærandi bendir á að skýrsla talsmanns hafi talsvert meira vægi en samtal starfsmanns barnaverndar við drenginn um vilja hans enda hafi honum verið skipaður sérstakur talsmaður til þess að fá fram afstöðu hans í málinu. Ekki sé víst að drengurinn hafi þorað að tjá sig með eins frjálsum hætti við starfsmann barnaverndar og við talsmann sem hafi verið skipaður sérstaklega til að gæta hagsmuna hans.

Kærandi telji ekki hafi verið tekið nægilegt tillit til vilja drengsins og skýrslu talsmanns í hinum kærða úrskurði. Niðurstaðan virðist fremur ráðast af greinargerð starfsmanna Barnaverndar B, dags. X, og afstöðu fósturforeldra. Með gildistöku 74. gr. a. bvl. hafi ætlunin verið að styrkja réttarstöðu fósturforeldra við meðferð mála sem þessa, m.a. vegna gagnrýni umboðsmanns Alþingis í áliti sínu frá 7. apríl 2006 í máli nr. 4474/2005, þar sem umboðsmaður hafi fjallað ítarlega um aðild fósturforeldra við ákvörðun um umgengni við barn í varanlegu fóstri. Líkt og komi fram í hinum kærða úrskurði þá komi m.a. fram það sjónarmið umboðsmanns að fósturforeldrar væru að jafnaði þeir aðilar sem best þekki hagi og líðan barnanna. Vegna þessa hafi verið talið rétt að styrkja réttarstöðu fósturforeldra svo að þeir nytu aðildar að málum sem þessu. Þó beri að taka fram að í greinargerð að baki frumvarpinu sem varð að breytingarlögum nr. 80/2011 segir um 39. gr., sem varð að 74. gr. a bvl., að þrátt fyrir þetta nýmæli þá sé áréttað að niðurstaða máls ráðist sem fyrr af hagsmunum barnsins og rétti þess til að umgangast foreldra og aðra nákomna. Með vísan til þess sem hafi verið rakið hér að framan um góð tengsl kæranda og drengsins auk einlægs vilja hans til að njóta frekari umgengni við móður sína telji kærandi ljóst að drengurinn njóti góðs af ríkulegri umgengni við móður sína.

Að lokum byggi kærandi kröfur sínar á því að ekkert í málinu bendi til þess að umgengni hennar við drenginn raski hagsmunum hans, hvorki öryggi hans eða stöðugleika. Enn síður bendi nokkuð til þess að drengurinn geti borið skaða af umgengni við kæranda.

Til þrautavara geri kærandi þá kröfu að umgengni verði aukin frá því sem nú er. Kærandi telji ekkert því til fyrirstöðu umgengni hennar við son sinn verði allt að 12 sinnum á ári, eða einu sinni í mánuði, í það minnsta að umgengni þeirra verði aukin úr sex sinnum í átta sinnum á ári. Þá krefst kærandi þess að hver umgengni vari a.m.k. í þrjár til fjórar klukkustundir, fremur en aðeins tvær klukkustundir. Kærandi byggi á því að tvær klukkustundir í senn sé of skammur tími og kveðist finna fyrir því að hún og sonur hennar séu rétt farin njóta samvistanna almennilega þegar þessar tvær klukkustundir séu á enda. Afar erfitt sé að viðhalda þeim góðu tengslum sem hafa myndast milli kæranda og sonar hennar með svo skammri umgengni í svona fá skipti ár hvert.

Með vísan til framangreinds ítrekar kærandi kröfur sínar. Umgengnin hafi gengið vel og fyrir liggi skýr vilji sonar kæranda, sem sé átta ára, um að fá að hitta móður sína oftar og lengur í hvert sinn.

III.  Afstaða Barnaverndarnefndar B

Í greinargerð Barnaverndarnefndar B til úrskurðarnefndarinnar 12. desember 2019 er vísað til þess að í 74. gr. bvl. sé fjallað um umgengni í fóstri. Segi þar í 1. mgr. að barn í fóstri eigi rétt til umgengni við kynforeldra og aðra sem séu því nákomnir. Samkvæmt sömu lagagrein eigi kynforeldrar rétt til umgengni við barn í fóstri, nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt sé að með fóstrinu. Við mat á þessu skuli meðal annars taka tillit til þess hve lengi fóstri sé ætlað að vara. Þá skuli einnig taka mið af því hvað þjóni hagsmunum barnsins best.

Í málinu sé um að ræða barn sem ekki hafi verið í umsjá móður sinnar frá því að hann var eins árs gamall. Umgengni drengsins við móður hafi jafnframt legið niðri í rúm þrjú ár, eða frá X mánuði X þar til í X árið X. Forsjárlaus móðir drengsins hafi því ekki verið þátttakandi í lífi hans stóran hluta af lífaldri drengsins. Frumgeðtengsl sem barn býr að alla ævi myndist á fyrstu tveim árum í lífi þess. Í tilfelli drengsins hafi hann farið úr umsjá móður sinnar við eins árs aldur. Drengurinn hafi verið vistaður í varanlegu fóstri frá því í Xmánuði árið X. Markmiðið með varanlegri fósturvistun sé, samkvæmt 4. tölul. 3. gr. reglugerðar nr. 804/2004 um fóstur, að tryggja til frambúðar umönnun, öryggi og stöðugleika barns innan fósturfjölskyldu.

Afar jákvætt sé að móðir hafi náð að gera breytingar á lífi sínu og það sé mikilvægt fyrir drenginn að hún sé í góðu ástandi til að sinna umgengni á tímabili fósturs. Við mat á umgengni í varanlegu fóstri breyti í sjálfu sér ekki að kærandi hafi með ýmsu móti bætt forsjárhæfni sína. Markmið með umgengni kæranda við drenginn sé ekki að byggja upp tengsl þeirra á milli heldur fyrst og fremst að drengurinn þekki uppruna sinn. Það sé mat Barnaverndarnefndar B að því verði náð með umgengni sex sinnum á ári. Drengurinn búi við góðar og traustar aðstæður í umsjá fósturforeldra sinna og hafi fósturforeldrar, sem séu aðal umönnunaraðilar drengsins, greint frá því að drengurinn hafi þörf fyrir rútínu og reglu í lífi sínu.

Drengurinn hafi tengst fósturforeldrum mjög vel og bæði þroskast og dafnað eðlilega. Hann búi við góðar og traustar aðstæður í umsjá fósturforeldra og þekki þau sem einu foreldra sína, þó að honum sé kunnugt um að hann eigi aðra foreldra. Ekki séu áform um að vinna að því að drengurinn tilheyri fleiri fjölskyldum.

Umgengni barns við foreldra og aðra nákomna þurfi að þjóna hagsmunum barnsins en ekki vera á forsendum fullorðinna eða þjóna þeirra hagsmunum. Umgengni þurfi að vera við hæfi miðað við aðstæður og samrýmanleg þeim markmiðum sem að sé stefnt með ráðstöfun drengsins í varanlegt fóstur. Í því tilliti verði að horfa sérstaklega til þess að tryggja að friður og ró, stöðugleiki og öryggi ríki í lífi drengsins í varanlegu fóstri í umsjá fósturforeldra. Verði það ekki gert beri að líta svo á að þess hafi ekki verið nægilega gætt að umgengni þjóni hagsmunum barnsins best, sbr. 3. mgr. 74. gr. bvl.

Með því að ákveða umgengni kæranda við drenginn með hinum kærða úrskurði sé stuðlað að því að drengurinn viðhaldi tengslum sínum við móður, en jafnframt að þeim stöðugleika sem fósturforeldrar hafi náð skapa í lífi drengsins sé viðhaldið.

Með vísan til þess er að framan greinir, forsendna hins kærða úrskurðar og 2. og 3. mgr. 74. gr. bvl. þyki umgengni við kæranda við drenginn hæfilega ákveðin með hinum kærða úrskurði. Í ljósi þess, allra gagna málsins og með hagsmuni drengsins að leiðarljósi, gerir Barnaverndarnefnd B þá kröfu að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

 

IV.  Afstaða D

Í málinu liggur fyrir skýrsla talsmanns drengsins frá X. Barnvernd B óskaði eftir að talsmaður kannaði afstöðu drengsins til umgengni við kæranda. Í skýrslu talsmanns kemur fram að drengurinn væri ánægður með að vera byrjaður aftur í skóla og honum þætti gaman að hitta vini sína. Fram kom að hann hefði verið á námskeiði í sumar auk þess að æfa X.

Talsmaður spurði drenginn um hvað honum þætti um að hitta móður sína og svaraði drengurinn því meðal annars að honum þætti það gaman að hitta hana. Þá kvaðst hann hlakka mikið til að hitta hana og það væri leiðinlegt að þurfa kveðja hana. Aftur á móti liði honum ágætlega eftir umgengni og væri ekkert leiður eftir á. Aðspurður um þörf fyrir að hitta móður sína sagði drengurinn „ekki þörf, en ég vill það mjög mikið“. Aðspurður sagðist hann helst vilja hitta móður sína á heimili móðurömmu og stundum heima hjá F frænku. Það væri líka fínt að hitta hana í G, það væri bara gott að skiptast á. Þá væri hann líka til í að hitta hana heima hjá henni. Aðspurður kvaðst hann vilja hafa einhvern viðstaddan í umgenginni og nefndi þá helst föðurafa en sagði að eftirlitsaðili sem hefði verið með þeim væri líka fínn.

Aðspurður um hversu oft hann vildi hitta móður sína og hversu lengi í einu kvaðst drengurinn alveg vera til í að gista stundum hjá henni, þó ekki alltaf og hann væri til í að lengur í hvert sinn. Hann vilji helst fá að hitta hana tvisvar í mánuði. Aðspurður um hvort hann vildi hafa samskipti sín við kæranda með öðrum hætti, svaraði hann því að þau væru fín eins og þau væru. Þau tali mikið saman og það væri alltaf gaman hjá þeim. Hann vilji ekki tala við hana í síma eða á netinu en væri alveg til í að heyri henni öðru hverju en samt ekki svo oft.

V.  Afstaða fósturforeldra

Í bréfi fósturforeldra til úrskurðarnefndarinnar, dags. X, kemur fram að kærandi óski eftir meiri umgengni við drenginn en ákveðin hafi verið og fylgt eftir umliðin ár, þ.e. sex sinnum á ári. Umgengnin hafi gengið vel. Þau kveðast auðvitað ekki vita hver áhrifin yrðu af aukinni umgengni en óttist að það gæti dregið úr þeirri festu sem nú sé í daglegu lífi drengsins. Fósturforeldrar telja að sú festa og regla sem sé í uppeldi drengsins skipti hann miklu máli. Honum gangi mjög vel, í skóla og í samskiptum jafnt við jafnaldra sína sem og aðra. Þess vegna mæli fósturforeldrar ekki með því að umgengni verði aukin frá því sem verið hefur, eða henni breytt með einhverjum hætti.

VI. Niðurstaða

D er fæddur X og er í varanlegu fóstri hjá föðurafa og eiginkonu hans. Hann hefur verið hjá sömu fósturforeldrum frá því að hann var X árs gamall.

Með hinum kærða úrskurði frá 12. nóvember 2019 var ákveðið að kærandi hefði umgengni við drenginn sex sinnum á ári í allt að tvær klukkustundir í senn undir eftirliti í húsnæði á vegum Barnaverndar B. Það skilyrði var sett að kærandi væri edrú og í jafnvægi þegar umgengni ætti sér stað. Fósturforeldrar yrðu viðstaddir ef þau óskuðu þess. Þá væru símtöl ekki leyfð. Í úrskurðinum er byggt á því að drengurinn hafi tengst fósturforeldrum vel. Hann hafi verið í fóstri hjá sömu fósturforeldrum frá því að hann var X árs gamall. Mat starfsmanna barnaverndar sé það að umgengni oftar en sex sinnum á ári þjóni ekki hagsmunum drengsins. Benda starfsmenn á að fyrstu fjögur ár í lífi hans hafi kærandi ekki verið til staðar fyrir hann og hafi ekki átt umgengi við hann frá X árs aldri og þar til hann varð tæplega X ára gamall. Að mati starfsmanna geti símtöl við kæranda komið á róti á líf drengsins og benda á að fósturforeldrar hafi greint frá því að hann þrífist best í mikilli rútínu og reglu.

Kærandi krefst þess aðallega að umgengni hennar við son sinn verði aðra hverja helgi og drengurinn fái að gista á heimili hennar. Kærandi gerir jafnframt þá kröfu að drengurinn fái að hafa samband við hana í gegnum síma þegar hann vill. Til vara gerir kærandi þá kröfu að umgengni hennar við son sinn verði eina helgi í mánuði og að sonur hennar fái að gista hjá henni ef hann vill og hafa samband við hana í síma.

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 á barn í fóstri rétt á umgengni við kynforeldra og aðra sem eru því nákomnir. Kynforeldrar eiga með sama hætti rétt á umgengni við barn sitt samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar, nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með ráðstöfun þess í fóstur. Við mat á þessu skal meðal annars taka tillit til þess hversu lengi fóstri er ætlað að vara. Samkvæmt 3. mgr. lagagreinarinnar skal taka afstöðu til umgengni barns við foreldra og aðra nákomna og skal taka mið af því hvað þjóni hagsmunum barnsins best. Samkvæmt 4. mgr. sömu lagagreinar hefur barnaverndarnefnd úrskurðarvald um ágreiningsefni er varða umgengni barns við foreldra og aðra nákomna, hvort sem það varðar rétt til umgengni, umfang umgengnisréttarins eða framkvæmd.

Það er meginregla í barnaverndarstarfi að hagsmunir barns skulu ávallt hafðir í fyrirrúmi og að beita skuli þeim ráðstöfunum sem barni eru fyrir bestu. Við úrlausn þessa máls ber því að líta til þeirrar stöðu sem drengurinn er í. Það er gert til að unnt sé að taka ákvörðun um umgengni hans við kæranda á þann hátt að hún þjóni hagsmunum hans best, sbr. 3. mgr. 74. gr. bvl.

Samkvæmt því sem fram kemur í framangreindum lagaákvæðum ber að leysa úr kröfu kæranda með tilliti til þess hvað þjónar hagsmunum drengsins best með tilliti til stöðu hans en fóstrinu er ætlað að vara til 18 ára aldurs. Umgengni kæranda við drenginn þarf að vera við hæfi miðað við aðstæður og samrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt var að með ráðstöfun hans í varanlegt fóstur. Í því tilliti ber sérstaklega að horfa til þess að tryggja þarf að friður, ró, stöðugleiki og öryggi ríki í lífi drengsins í hinu varanlega fóstri hjá fósturforeldrunum þar sem markmiðið er að tryggja honum stöðugt og öruggt umhverfi til frambúðar og að umgengni valdi sem minnstum truflunum. Verði það ekki gert ber að líta svo á að þess hafi ekki verið nægilega gætt að umgengnin þjóni hagsmunum drengsins best, sbr. 3. mgr. 74. gr. bvl.

Í hinum kærða úrskurði kemur fram að það sé mat starfsmanna barnaverndar að það þjóni hagsmunum drengsins best að umgengni við kæranda sé ekki oftar en sex sinnum á ári.

Við úrlausn þessa máls ber að mati úrskurðarnefndarinnar að líta til þess hvaða hagsmuni drengurinn hefur af umgengni við kæranda. Eins og fram hefur komið átti kærandi ekki umgengni við drenginn frá X árs aldri þegar hann var tekinn úr hennar umsjá og þar til í X, þegar drengurinn var tæplega X ára gamall. Kærandi hefur átt umgengni við hitt drenginn sex sinnum á árinu og hefur umgengni gengið vel.

Frumgeðtengsl, sem barnið býr að alla ævi, myndast á fyrstu tveimur árum í lífi þess. Í þessu tilviki komst drengurinn í öruggt, stöðugt umhverfi við eins árs aldur og hefur náð að tengjast fósturforeldrum vel. Drengurinn er því fyrst og fremst tengdur fósturforeldrum sínum sem hafa annast hann og er sú fjölskylda sem hann þekkir. Markmiðið með umgengni kæranda við drenginn er að stuðla að því að hann þekki uppruna sinn en ekki að reyna að skapa ný tengsl við kæranda.

Að mati úrskurðarnefndarinnar skiptir ekki öllu máli í þessu sambandi að kærandi hefur tekið sig á. Það er vegna þess að lögvarðir hagsmunir drengsins eru að hann búi við stöðugleika, frið og ró í fóstrinu, fái svigrúm til að tengjast fósturfjölskyldunni áfram og að umgengni valdi sem minnstri truflun. Drengnum líður vel og ekkert bendir til að hann hafi þörf fyrir breytingar. Það geta ekki talist hagsmunir drengsins að vera í miklum tengslum við kynforeldri þar sem slík tengsl eiga ekki að vera varanleg og til frambúðar.

Að mati úrskurðarnefndarinnar hefur drengurinn ekki forsendur til að gera sér grein fyrir hvað sé honum fyrir bestu hvað varðar umgengni við kæranda. Á þessum tíma í lífi drengsins eru það því ekki hagsmunir hans að tekin verði áhætta með því að auka umgengni eða gera tilraunir með aukna umgengni, svo sem kærandi leggur til. Það er mat úrskurðarnefndarinnar að aukin umgengni gæti raskað ró drengsins í fóstrinu. Þá telja fósturforeldrar að aukin umgengni við kæranda sé drengnum ekki til hagsbóta.

Þegar allt framangreint er virt er það mat úrskurðarnefndarinnar að það þjóni hagsmunum drengsins best við núverandi aðstæður að umgengni hans við kæranda verði verulega takmörkuð á þann hátt sem ákveðið var með hinum kærða úrskurði.

Því verður að telja að umgengnin hafi verið ákveðin í samræmi við þau sjónarmið sem leggja ber til grundvallar samkvæmt 2., 3. og 4. mgr. 74. gr. bvl. þegar umgengni barns í fóstri við foreldri er ákveðin. Með vísan til alls þess, sem að framan greinir, ber að staðfesta hinn kærða úrskurð Barnaverndarnefndar B.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Úrskurður Barnaverndarnefndar B frá 13. september 2018 varðandi umgengni A við son hennar, D er staðfestur.

Kári Gunndórsson

 

     Björn Jóhannesson                                                                   Guðfinna Eydal


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira