Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 284/2020 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 284/2020

Fimmtudaginn 18. júní 2020

A

gegn

Hafnarfjarðarbæ

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 9. júní 2020, kærði B, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála málsmeðferð Hafnarfjarðarbæjar í tengslum við samning um notendastýrða persónulega aðstoð.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi hefur verið með samning við Hafnarfjarðarbæ um notendastýrða persónulega aðstoð (NPA) frá árinu 2017. Í desember 2019 óskaði sveitarfélagið eftir endurskoðuðum ársreikningi vegna ársins 2018. Kærandi vísaði til þess að hún hefði þegar skilað öllum rekstrarskýrslum fyrir árið 2018 í samræmi við fyrri framkvæmd. Í janúar og febrúar 2020 bárust ekki samningsbundnar greiðslur frá Hafnarfjarðarbæ. Kærandi kom á framfæri mótmælum sínum á á fundi bæjarstjóra 25. febrúar 2020 og í kjölfarið bárust greiðslur vegna þessara tveggja mánaða. Þann 25. mars 2020 fékk kærandi senda kröfu í heimabanka sinn frá sveitarfélaginu, að fjárhæð 22.974.464 kr. Með bréfi, dagsettu sama dag, var skorað á kæranda að skila ársreikningi vegna ársins 2018, ella yrði krafist endurgreiðslu á fjármunum sem hafi verið ráðstafað til hennar á tímabilinu 1. janúar til 31. desember 2018, samtals að fjárhæð 22.974.464 kr. Þann 3. apríl 2020 var fyrrgreind krafa dregin til baka.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 9. júní 2020 þar sem meðal annars kemur fram að hún telji sveitarfélagið hafa brugðist lagaskyldu sinni til að veita lög- og samningsbundna samfellda NPA þjónustu. Öll málsmeðferðin hafi verið í andstöðu við lögmæltar málsmeðferðarreglur og jafnframt í ósamræmi við málsmeðferðarreglur um riftun samkvæmt samningum aðila. Krafa Hafnarfjarðarbæjar um skil á ársreikningum hafi einnig verið byggð á óljósum laga- eða samningsgrundvelli sem samræmist ekki fyrirmælum laga nr. 38/2018 og reglugerðar nr. 1250/2018.

II. Niðurstaða

Kærð er málsmeðferð Hafnarfjarðarbæjar í tengslum við samning um notendastýrða persónulega aðstoð.

Hlutverk úrskurðarnefndar velferðarmála er að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana eftir því sem mælt er fyrir um í lögum sem kveða á um málskot til nefndarinnar, sbr. 1. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála. Þannig er grundvöllur þess að unnt sé að leggja fram kæru til úrskurðarnefndar að fyrir liggi stjórnvaldsákvörðun. Um stjórnvaldsákvörðun er að ræða þegar stjórnvöld taka ákvarðanir um rétt eða skyldur manna í skjóli stjórnsýsluvalds, sbr. 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Í 35. gr. laga nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir kemur fram að heimilt sé að kæra stjórnvaldsákvarðanir samkvæmt lögunum til úrskurðarnefndarinnar innan þriggja mánaða frá því að umsækjanda berst tilkynning um ákvörðunina. Nefndin úrskurðar um hvort málsmeðferð hafi verið í samræmi við lög og hvort ákvörðun hafi verið efnislega í samræmi við lög nr. 38/2018 og reglur sveitarfélaga settar á grundvelli þeirra.

Af framangreindu er ljóst að úrskurðarvald nefndarinnar er afmarkað við að fjalla um réttmæti tiltekinnar ákvörðunar eða ákvarðana sem teknar eru á grundvelli laga nr. 38/2018 og málsmeðferðina í aðdraganda ákvörðunarinnar. Af gögnum málsins má ráða að Hafnarfjarðarbær hafi tekið ákvörðun um að stöðva samningsbundnar greiðslur til kæranda í janúar og febrúar 2020 og ákvörðun um að krefja hana um endurgreiðslu á fjármunum sem hafði verið ráðstafað til hennar á tímabilinu 1. janúar til 31. desember 2018, samtals að fjárhæð 22.974.464 kr. Í kæru til úrskurðarnefndarinnar kemur fram að sveitarfélagið hafi dregið kröfu um endurgreiðslu til baka þann 3. apríl 2020 og að umræddar greiðslur hafi borist kæranda.

Í 1. tölul. 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er stjórnvaldi veitt heimild til að afturkalla ákvörðun að eigin frumkvæði sem tilkynnt hefur verið aðila máls þegar það er ekki til tjóns fyrir aðila. Að mati úrskurðarnefndarinnar var það skilyrði uppfyllt í tilviki kæranda, enda um ívilnandi ákvarðanir að ræða. Líkt og að framan greinir þarf að liggja fyrir stjórnvaldsákvörðun til þess að úrskurðarnefndin geti tekið kæru til meðferðar. Þar sem sveitarfélagið hefur afturkallað framangreindar ákvarðanir er það mat úrskurðarnefndarinnar að málið sé ekki tækt til efnismeðferðar. Kærunni er því vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

Úrskurðarnefndin vekur athygli á að líkt og fram kemur í fyrirliggjandi bréfi umboðsmanns Alþingis, dags. 19. maí 2020, er hægt að leita til félagsmálaráðuneytisins ef kærandi telur tilefni til að gera athugasemdir við almenna stjórnsýslu Hafnarfjarðarbæjar.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

                                                                                                                                                                                                Kári Gunndórsson

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira