Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 51/2020 - Úrskurður

.

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 51/2020

Fimmtudaginn 7. maí 2020

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 28. janúar 2020, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 24. janúar 2020, um að synja umsókn hans um atvinnuleysisbætur.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um greiðslu atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun 2. janúar 2020 og óskaði eftir 25% atvinnuleysisbótum. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 24. janúar 2020, var umsókn kæranda synjað á þeirri forsendu að tekjur hans skertu bætur að fullu.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 28. janúar 2020. Með bréfi, dags. 31. janúar 2020, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 13. febrúar 2020, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 17. febrúar 2020. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hann hafi verið í 100% starfshlutfalli síðustu 36 mánuði en farið í 50% starfshlutfall í mars 2019 og út það ár. Rök Vinnumálastofnunar séu þau að hann hafi einungis sótt um 25% vinnu. Kæranda hafi verið sagt upp fyrri samningi og eftir uppsagnarfrest hafi hann farið í 50% starfshlutfall. Þeim samningi hafi verið sagt upp vegna breytinga hjá fyrirtækinu en hann hafi hætt störfum 31. desember 2019. Í samtali við starfsmann Vinnumálastofnunar hafi verið fullyrt að kærandi ætti rétt til 4. desember 2020 þegar 70 ára aldri yrði náð. Kærandi geti ekki séð að síðustu 10 mánuðir stýri bótum, þrátt fyrir greiðslur úr lífeyrissjóði og frá Tryggingastofnun ríkisins.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi á umsókn um atvinnuleysisbætur einungis óskað eftir 25% atvinnuleysisbótum og að hann væri reiðbúinn að taka starfi í því hlutfalli. Þá hafi komið fram að hann væri að þiggja reglulegar tekjur frá Lífeyrissjóði verslunarmanna og Tryggingastofnun ríkisins, samtals að fjárhæð um 350.000 kr. á mánuði. Umsókn kæranda hafi verið hafnað þar sem fyrirséð væri að áætlaðar tekjur kæranda myndu skerða atvinnuleysisbætur hans að fullu.

Vinnumálastofnun tekur fram að lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um rétt launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga til atvinnuleysistrygginga. Í 4. mgr. 15. gr. laganna segi að tryggingarhlutfall launamanns geti aldrei orðið hærra en sem nemi starfshlutfalli hans á ávinnslutímabilinu eða því starfshlutfalli sem hann sé reiðubúinn að ráða sig til. Á umsókn um atvinnuleysisbætur hafi kærandi sagst vera reiðubúinn til að ráða sig til starfa í 25% starfshlutfalli. Tryggingarhlutfall kæranda sé því 25%. Mál þetta varðar einnig skerðingu á greiðslum atvinnuleysistrygginga vegna tekna en höfnun Vinnumálastofnun byggi á því að tekjur kæranda komi til með að skerða bætur hans að fullu.

Líkt og fyrr segi fái kærandi reglulegar tekjur frá lífeyrissjóði sínum, auk greiðslna frá Tryggingastofnun ríkisins. Á grundvelli 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar beri Vinnumálastofnun að taka ákvörðun um skerðingu á atvinnuleysistryggingum vegna tekna atvinnuleitenda. Við útreikning á skerðingu Vinnumálastofnunar sé horft til reiknireglu 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sem Vinnumálastofnun sé gert að framfylgja við skerðingu á atvinnuleysisbótum vegna tekna. Ákvæðið feli í sér að þegar samanlagðar tekjur og atvinnuleysisbætur séu hærri en sem nemi óskertum rétti atvinnuleitanda til atvinnuleysisbóta að viðbættu frítekjumarki skuli skerða atvinnuleysisbætur um helming þeirra tekna sem umfram séu. Reikniregla sú sem birtist í 1. mgr. 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar megi setja upp með eftirfarandi hætti:

Þar sem kærandi hafi einungis verið skráður 25% atvinnulaus eigi hann einungis rétt á 25% af fullum atvinnuleysisbótum eða 72.375 kr. á mánuði. Tryggingarhlutfall atvinnuleitanda geti aldrei orðið hærra því starfshlutfalli sem hann sé reiðubúinn að ráða sig til, sbr. 4. mgr. 15. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Óskertur réttur kæranda til atvinnuleysisbóta sé því 25% af fullum atvinnuleysisbótum. Frítekjumark atvinnuleysistrygginga sé 71.262. kr. Samkvæmt greiðsluáætlun kæranda hafi hann 347.500 kr. í tekjur á mánuði. Skerðing á atvinnuleysisbótum kæranda sé því með eftirfarandi hætti:

((72.375+71.262)-(374.500+72.375))/2=(143.637-446.875)/2=-153.119

Skerðing til kæranda myndi því nema 153.119 kr. Þar sem kærandi hafi einungis óskað eftir 25% starfshlutfalli geti hann í mesta lagi átt rétt á 72.375 kr. í atvinnuleysisbætur á mánuði. Skerðing sé því meiri en sem nemi rétti hans til atvinnuleysisbóta. Kærandi eigi því ekki rétt á greiðslum atvinnuleysistrygginga. Því hafi Vinnumálastofnun borið að hafna umsókn kæranda. 

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að synja umsókn kæranda um greiðslur atvinnuleysisbóta á þeirri forsendu að tekjur hans skerði bætur að fullu.

Í 1. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar er kveðið á um gildissvið laganna, en þar segir að lögin gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verða atvinnulausir. Markmið laganna er að tryggja launamönnum eða sjálfstætt starfandi einstaklingum tímabundna fjárhagsaðstoð á meðan þeir eru að leita sér að nýju starfi eftir að hafa misst fyrra starf sitt, sbr. 2. gr. laganna.

Samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laganna telst launamaður, sbr. a-lið 3. gr., að fullu tryggður samkvæmt lögunum eftir að hafa starfað samfellt á síðustu tólf mánuðum á innlendum vinnumarkaði áður en hann sækir um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar að öðrum skilyrðum laganna uppfylltum, sbr. þó 4. mgr. Í því ákvæði kemur fram að tryggingarhlutfall launamanns geti aldrei orðið hærra en sem nemi starfshlutfalli hans á ávinnslutímabilinu eða því starfshlutfalli sem hann sé reiðubúinn að ráða sig til.

Á umsókn um atvinnuleysisbætur kveðst kærandi vera reiðubúinn til að fara í 25% starfshlutfall. Samkvæmt 4. mgr. 15. gr. laga nr. 54/2006 er tryggingarhlutfall kæranda því 25% og því á hann einungis rétt á 25% af fullum atvinnuleysisbótum, eða 72.375 kr. á mánuði. Meðfylgjandi umsókn kæranda voru upplýsingar um tekjur hans, meðal annars frá Lífeyrissjóði verslunarmanna og Tryggingastofnun ríkisins, samtals að fjárhæð 347.500 kr.

Í 36. gr. laga nr. 54/2006 er kveðið á um frádrátt frá atvinnuleysisbótum vegna tekna hins tryggða. Þar segir í 1. mgr.:

„Þegar samanlagðar tekjur af hlutastarfi hins tryggða, sbr. 17. eða 22. gr., og atvinnuleysisbætur hans skv. 32.–34. gr. eru hærri en sem nemur óskertum rétti hans til atvinnuleysisbóta að viðbættu frítekjumarki skv. 4. mgr. skal skerða atvinnuleysisbætur hans um helming þeirra tekna sem umfram eru. Hið sama gildir um tekjur hins tryggða fyrir tilfallandi vinnu, elli- eða örorkulífeyrisgreiðslur samkvæmt lögum um almannatryggingar, um elli- og örorkulífeyrisgreiðslur úr almennum lífeyrissjóðum, greiðslur úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga sem eru komnar til vegna óvinnufærni að hluta, fjármagnstekjur hins tryggða og aðrar greiðslur sem hinn tryggði kann að fá frá öðrum aðilum. Eingöngu skal taka tillit til þeirra tekna sem hinn tryggði hefur haft á þeim tíma er hann fær greiddar atvinnuleysisbætur, sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum.“

Að virtum þeim upplýsingum sem fyrir liggja um tekjur kæranda og í ljósi framangreindrar frádráttarreglu er ljóst að tekjur kæranda skerða atvinnuleysisbætur hans að fullu. Ákvörðun Vinnumálastofnunar um að synja umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur er því staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 24. janúar 2020, um synjun á umsókn A, um atvinnuleysisbætur er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira