Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 9/2020

Hinn 26. nóvember 2020 var á fundi endurupptökunefndar tekið fyrir mál nr. 9/2020:

Beiðni um endurupptöku

hæstaréttarmálsins nr. 62/2001:

Ákæruvaldið

gegn

Ásgeiri Inga Ásgeirssyni

og kveðinn upp svohljóðandi

ÚRSKURÐUR:

 1. Beiðni um endurupptöku
  1. Með erindi, dagsettu 22. október 2020, fór Gerður Berndsen þess á leit að hæstaréttarmálið nr. 62/2001, sem dæmt var í Hæstarétti Íslands 21. júní 2001, verði endurupptekið.
  2. Með vísan til 54. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla fjallar endurupptökunefnd um endurupptökubeiðni þessa. Nefndina skipa Haukur Örn Birgisson, Gizur Bergsteinsson og Hrefna Friðriksdóttir.
 2. Málsatvik
  1. Með dómi Hæstaréttar 21. júní 2001 í máli nr. 62/2001 var Ásgeir Ingi Ásgeirsson fundinn sekur um að hafa banað dóttur endurupptökubeiðanda, Áslaugu Perlu Kristjónsdóttur, að morgni laugardagsins 27. maí 2000 með því að koma henni fram af svölum Engihjalla 9 í Kópavogi þeim afleiðingum að hún lést af völdum mikilla áverka er hún hlaut við fallið, sbr. 211. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Ásgeir Ingi var dæmdur til að sæta fangelsi í 16 ár og til greiðslu bóta til endurupptökubeiðanda og föður Áslaugar Perlu.
  2. Endurupptökubeiðandi hefur tvívegis áður óskað eftir endurupptöku hæstaréttarmálsins. Í fyrra skiptið með beiðni, dags. 3. september 2015, sbr. mál endurupptökunefndar nr. 12/2015. Beiðninni var vísað frá endurupptökunefnd með úrskurði nefndarinnar 22. september 2015. Í síðara skiptið með beiðni, dags. 29. september 2017, sbr. mál nr. 26/2017. Beiðninni var einnig vísað frá endurupptökunefnd með úrskurði nefndarinnar 19. október 2017.
 3. Grundvöllur beiðni
  1. Endurupptökubeiðandi byggir beiðni sína á því að sönnunargögn í hæstaréttarmálinu hafi verið rangt metin, en áverkar á dóttur hennar gefi til kynna að henni hafi verið nauðgað af Ásgeiri Inga. Í þessu sambandi vísar endurupptökubeiðandi til gagna málsins og vitnar í framburð Ásgeirs Inga og annarra vitna um atvik málsins.
  2. Endurupptökubeiðandi telur beiðni sína uppfylla skilyrði c-liðar 1. mgr. 228. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 um að verulegar líkur séu leiddar að því að sönnunargögn sem færð voru fram í málinu hafi verið rangt metin svo að áhrif hafi haft á niðurstöðu þess.
 4. Niðurstaða
 1. Endurupptökunefnd tekur mál þetta til úrlausnar á grundvelli XXXIV. kafla laga um meðferð sakamála. Í 1. mgr. 232. gr. laganna er kveðið á um að endurupptökunefnd geti leyft samkvæmt beiðni að mál sem dæmt hefur verið í Hæstarétti verði tekið til meðferðar og dómsuppsögu að nýju ef fullnægt er þeim skilyrðum sem greinir í 1. mgr. 228. gr. laganna. Í 1. mgr. 228. gr. er kveðið á um að endurupptökunefnd geti orðið við beiðni manns, sem telur sig ranglega sakfelldan eða sakfelldan fyrir mun meira brot en það sem hann hefur framið, um að sakamál verði endurupptekið ef einhverju skilyrða í stafaliðum a til d 1. mgr. 228. gr. er fullnægt. Þá hefur ríkissaksóknari heimildir til þess að óska eftir endurupptöku að skilyrðum a og b liðar 3. mgr. 228. gr. uppfylltum. Sé dómfelldi látinn getur endurupptökunefnd orðið við beiðni maka, barna, foreldra eða systkina hins látna um endurupptöku máls enda sé einhverju skilyrða 1. mgr. fullnægt og sérstaklega standi á, sbr. 5. mgr. 228. gr., sbr. 29. gr. laga nr. 78/2015.
 2. Í 1. mgr. 228. gr. laga um meðferð sakamála er talið upp með tæmandi hætti hverjir hafa heimild til að beiðast endurupptöku sakamáls. Hvorki brotaþoli né foreldri brotaþola í þeim tilvikum þar sem brotaþoli er látinn hafa slíka heimild. Endurupptökunefnd er því ekki heimilt að fallast á beiðni endurupptökubeiðanda um endurupptöku þess máls sem um ræðir. Þegar af þeirri ástæðu ber að vísa beiðni þessari frá endurupptökunefnd.

Úrskurðarorð

Beiðni Gerðar Berndsen um endurupptöku hæstaréttarmálsins nr. 62/2001, sem dæmt var í Hæstarétti Íslands 21. júní 2001, er vísað frá endurupptökunefnd.

Haukur Örn Birgisson formaður

Gizur Bergsteinsson

Hrefna Friðriksdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira