Hoppa yfir valmynd

Ákvörðun forstjóra [C] um niðurlagningu starfs kæranda (2)

Stjórnsýslukæra

Ráðuneytið vísar til stjórnsýslukæru [A] f.h. [B], dags. 5. mars 2020, sem barst ráðuneytinu 9. sama mánaðar, þar sem kærð er til ráðuneytisins ákvörðun forstjóra [C], dags. 21. nóvember 2019, um að leggja niður starf kæranda með 12 mánaða fyrirvara miðað við dagsetningu bréfsins í samræmi við ákvæði ráðningarsamnings og 43. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

 

 

Kröfur kæranda

Kærandi krefst þess að felld verði úr gildi ákvörðun forstjóra [C], dags. 21. nóvember 2019, um að leggja niður starf kæranda hjá [C] með 12 mánaða fyrirvara miðað við dagsetningu bréfsins.

 

 

Málsatvik

Málsatvik eru þau að forstjóri [C] afhenti kæranda bréf, dags. 21. nóvember 2019, þar sem honum var tilkynnt að starf kæranda hafi verið lagt niður með 12 mánaða fyrirvara miðað við dagsetningu bréfsins í samræmi við ákvæði ráðningarsamnings og 43. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Starfslok voru samdægurs. Í bréfinu var bent á að unnt væri að óska eftir skriflegum rökstuðningi fyrir uppsögninni með vísan til 1. málsl. 2. mgr. 44. gr. framangreindra laga. Með tölvubréfi, dags. 22. nóvember 2019, óskaði kærandi eftir rökstuðningi fyrir ákvörðuninni. Með tölvubréfi, dags. 1. desember 2019, svaraði forstjóri [C] umræddri beiðni um rökstuðning. Með bréfi, dags. 20. desember 2019, óskaði [A] eftir ítarlegri rökstuðningi fyrir framangreindri ákvörðun, dags. 21. nóvember 2019. Með bréfi, dags. 7. janúar 2020, svaraði forstjóri [C] umræddri beiðni og sendi [A}ítarlegri rökstuðning fyrir ákvörðuninni. Þar kom fram að [C] þyrfti að hagræða í sínum rekstri samkvæmt nýsamþykktum fjárlögum og fjármálaáætlun og hafi því ekki verið hjá því komist að fækka störfum hjá stofnuninni. Kæranda hafi því verið sagt upp störfum samkvæmt ákvæði í ráðningarsamningi og 43. gr. laga nr. 70/1996. Í því bréfi var sérstaklega vísað til skyldu opinberra vinnuveitenda að rökstyðja uppsögn starfsmanna skriflega sé þess óskað, sbr. 2. mgr. 44. gr. laga nr. 70/1996 og V. kafla stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og því haldið fram að sá rökstuðningur sem barst kæranda 1. desember 2019 hafi ekki uppfyllt ákvæði laga um efni rökstuðnings. Farið var fram á að forstjóri [C] rökstyddi uppsögn eða niðurlagningu starfs kæranda með ítarlegum hætti og að uppfylltum lagaákvæðum og að rökstuðningur stofnunarinnar innihéldi svör við 13 sundurliðuðum spurningum, þ.á m. var óskað eftir rökstuðningi fyrir hvernig forstjóri stofnunarinnar teldi að tilgreind ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hafi verið uppfyllt við ákvörðunina, m.t.t. rannsóknarskyldu, jafnræðis- og meðalhófsreglu. Auk framangreinds var farið fram á að forstjóri [C] afhenti öll gögn er varði kæranda og tengdust ákvörðun stofnunarinnar um að segja kæranda upp störfum eða leggja niður starf kæranda ásamt afriti af þeirri aðgerðaáætlun sem unnið hafi verið eftir. [A] ítrekaði beiðni um rökstuðning fyrir uppsögn eða niðurlagningu starfs með bréfi til forstjóra [C], dags. 14. janúar 2020 og að öll gögn yrðu afhent. Í bréfinu kom fram að félagið taldi að beiðni þess hafi ekki verið svarað og að umbeðin gögn hafi ekki fylgt. Sérstaklega var óskað eftir að stofnunin rökstyddi synjun um afhendingu gagnanna með vísan til viðeigandi lagaákvæða sem heimili slíka synjun. (A) barst tölvubréf frá forstjóra [C], dags. 17. janúar 2020, þar sem kom fram að beiðni um rökstuðning hafi þegar verið svarað með bréfi, dags. 7. janúar 2020.

 

 

Málsástæður í stjórnsýslukæru og málsmeðferð

Með stjórnsýslukæru [A] f.h. [B], dags. 5. mars 2020, er kærð til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra ákvörðun forstjóra [C], dags. 21. nóvember 2019, um að leggja niður starf kæranda með 12 mánaða fyrirvara miðað við dagsetningu bréfsins í samræmi við ákvæði ráðningarsamnings og 43. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

Í stjórnsýslukæru eru gerðar þær kröfur að framangreind ákvörðun, dags. 21. nóvember 2019, verði felld úr gildi. Í rökstuðningi með stjórnsýslukærunni er gerð grein fyrir starfsferli kæranda hjá [C]. Einnig kemur þar fram að rökstuðningur forstjóra [C] í bréfi, dags. 7. janúar 2020, uppfylli vart ákvæði 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 en ekkert hafi komið þar fram um ástæðu þess að kæranda var sagt upp störfum eða starf kæranda lagt niður annað en að starfið hafi ekki verið nauðsynlegt í kjarnastarfsemi eða í tekjuöflun stofnunarinnar. Ekki komi fram neinar skýringar á því hvaða starfsemi stofnunarinnar teljist til kjarnastarfsemi eða hvað af starfsemi stofnunarinnar teljist nauðsynleg og hvað ekki. Ennfremur er þar vísað til rannsóknarreglu 10. gr., jafnræðisreglu 11. gr. og meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá kemur þar fram að þegar litið sé til þeirra upplýsinga og gagna sem liggi fyrir virðist sem uppsögn eða niðurlagning starfs kæranda hafi í eðli sínu snúið að kæranda sjálfum og því eigi 2. málsl. 1. mgr. 44. gr. laga nr. 70/1996 ekki við. Uppsagnir á öðrum grundvelli sem sé að finna í tilnefndum málslið krefjist þess að áminningarferli fari fram áður, sbr. 1. mgr. 44. gr. og 21. gr. laganna, sbr. þó 45. gr. laganna. Í öllum tilvikum beri stofnun að veita starfsmanni andmælarétt, sbr. m.a. 21. gr. laganna og 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kærandi hafi ekki fengið að tjá sig um uppsögn eða niðurlagningu starfsins og því hafi andmælaréttur kæranda ekki verið virtur. Þá segir í stjórnsýslukærunni að í íslenskum rétti gildi sú grundvallarregla, sem nefnd sé réttmætisreglan, en í henni felist að ákvarðanir í stjórnsýslu skuli vera byggðar á málefnalegum sjónarmiðum og að uppfylltum öðrum skilyrðum sem og í þessu tilviki að uppfylltum ákvæðum laga nr. 70/1996 og stjórnsýslulaga nr. 37/1993 enda teljist ráðningar og uppsagnir til stjórnvaldsákvarðana, þ.á m. beri stofnunum að veita rökstuðning fyrir slíkum ákvörðunum. Forstjóri [C] hafi ekki lagt fram nein gögn, upplýsingar eða rökstuðning þess efnis sem sýni að ákvörðun um uppsögn eða niðurlagningu starfs kæranda hafi verið byggð á málefnalegum sjónarmiðum eða ástæðum eða verið byggð á fullupplýstum grunni. Þess sé krafist að ráðuneytið taki ákvörðun forstjóra [C] til endurskoðunar, sbr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Einnig sé þess krafist að kærandi fái rökstuðning fyrir ákvörðun forstjóra [C], að kærandi fái afrit af öllum gögnum sem búið hafi að baki ákvörðun um að segja kæranda upp störfum eða leggja niður starf kæranda og að þeim spurningum sem félagið beindi til forstjóra verði svarað lið fyrir lið.

Eftirtalin gögn fylgdu stjórnsýslukærunni í ljósritum: 1) Bréf, dags. 21. nóvember 2019. 2) Tölvupóstsamskipti, dags. 22. nóvember og 1. desember 2019. 3) Bréf, dags. 20. desember 2019. 4) Bréf, dags. 7. janúar 2020. 5) Bréf, dags. 14. janúar 2020. 6) Tölvubréf, dags. 17. janúar 2020. 6) Feril- og ritaskrá. 7) Starfslýsing.

 

 

Rökstuðningur

      Um  starfslok opinberra starfsmanna gilda ákvæði laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

Í 1. málsl. 1. mgr. 43. gr. laganna er svohljóðandi ákvæði: "Forstöðumaður stofnunar hefur rétt til að segja starfsmanni upp störfum eftir því sem fyrir er mælt í ráðningarsamningi."

Í 1. mgr. 44. gr. laganna er svohljóðandi ákvæði: "Skylt er að veita starfsmanni áminningu skv. 21. gr. og gefa honum færi á að bæta ráð sitt áður en honum er sagt upp störfum ef uppsögn á rætur að rekja til ástæðna sem þar eru tilgreindar. Annars er ekki skylt að gefa starfsmanni kost á að tjá sig um ástæður uppsagnar áður en hún tekur gildi, þar á meðal ef uppsögn stafar af öðrum ástæðum, svo sem þeirri að verið sé að fækka starfsmönnum vegna hagræðingar í rekstri stofnunar." Í 2. mgr. 44. gr. laganna segir: "Ef starfsmaður óskar skal rökstyðja uppsögn skriflega. Ef hún á rætur að  rekja til ástæðna sem tilgreindar eru í 21. gr. má bera hana undir hlutaðeigandi ráðherra."

Þá segir í 49. gr. laga nr. 70/1996: "Ákvörðunum stjórnvalda samkvæmt lögum þessum verður ekki skotið til æðri stjórnvalda, nema öðruvísi sé fyrir mælt í einstökum ákvæðum laganna."

Í hinni kærðu ákvörðun, dags. 21. nóvember 2019, tölvubréfi forstjóra [C], dags. 1. desember 2019 og bréfi, dags. 7. janúar 2020, þar sem kemur fram rökstuðningur fyrir hinni kærðu ákvörðun og gerð er grein fyrir hér að framan kemur fram að uppsögnin og niðurlagning starfs kæranda hjá [C] stafaði af því að verið var að fækka starfsmönnum vegna hagræðingar í rekstri stofnunarinnar, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 44. gr. laga nr. 70/1996.

Ákvæði laga nr. 70/1996 hafa ekki að geyma sérstaka kæruheimild til æðra stjórnvalds vegna framangreindrar ákvörðunar, dags. 21. nóvember 2019, en samkvæmt því er umrædd ákvörðun ekki kæranleg til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Með vísan til framanritaðs er stjórnsýslukæru [B] í máli þessu vísað frá.

 

 

Úrskurðarorð

Stjórnsýslukæru [B] í máli þessu er vísað frá.

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira