Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir um sjávarútveg og fiskeldi

Úrskurður nr. 10 um ákvörðun Fiskistofu um áminningu vegna brots á 2. mgr. 2. gr. laga nr. 57/1996 um nytjastofa sjávar

Stjórnsýslukæra

Matvælaráðuneytið vísar til stjórnsýslukæru sem barst með tölvubréfi, dags. 7. desember 2023, þar sem [A], kærir ákvörðun Fiskistofu, dags. 8. nóvember 2023, um að veita kæranda, eiganda og útgerðaraðila skipsins [B], skriflega áminningu vegna brots gegn 2. mgr. 2. gr. laga nr. 57/1996, um nytjastofna sjávar.

Kæruheimild er í 18. gr. laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar.

Kröfur

Kærandi krefst þess að felld verði úr gildi ákvörðun Fiskistofu, dags. 8. nóvember 2023, um að veita kæranda skriflega áminningu vegna brots gegn 2. mgr. 2. gr. laga nr. 57/1996, um nytjastofna sjávar, sem byggir á því að í veiðiferð skipsins [B] þann 21. september 2023 hafi mátt sjá fiska hafna aftur úti í sjó þegar einn skipverja hafi staðið á dekkinu og spúlað loðnu út fyrir borðstokkinn og þegar verið var að dæla afla úr veiðarfæri skipsins í lestar þess.

Málsatvik

Málsatvikum er lýst í skýrslu veiðieftirlitsmanna, dags. 6. mars 2023. Þar kemur fram að hinn 21. febrúar 2023, hafi veiðieftirlitsmenn Fiskistofu verið með eftirlit með loðnuflotanum. Notast hafi verið við ómannað, fjarstýrt loftfar með myndupptökubúnaði og flogið út frá Eyjafjallasandi. Um klukkan 14:30 hafi verið flogið yfir skipið [B] til að skoða hvað væri í nót skipsins. Í ljós hafi komið töluvert magn af loðnu sem var á dekki skipsins og hafi dróninn þá verið settur á upptöku. Tekið hafi verið upp myndband og sé lengd þess 01:45 mínútur. Á myndbandsupptöku megi sjá skipverja að störfum við dælingu á afla úr veiðarfæri skipsins í lestar þess. Þá hafi einn skipverja staðið á dekkinu og spúlað loðnu út fyrir borðstokkinn stjórnborðsmegin. Af þeim sökum hafi Fiskistofa haft til skoðunar hvort áhöfn á skipinu [B] hafi í umrætt sinn brotið gegn ákvæði 2. mgr. 2. gr. laga nr. 57/1996 með því að hafa ekki hirt og landað þeim afla sem komið hafði í veiðarfæri fiskiskipsins.

Með bréfi, dags. 20. september 2023, tilkynnti Fiskistofa kæranda að stofnunin hefði mál félagsins til meðferðar og veitti félaginu kost á að gera athugasemdir og senda gögn, sbr. 13. og 14. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þar kemur fram m.a. að Fiskistofa hafi til meðferðar mál er varði meint brot áhafnar og eftir atvikum útgerðar skipsins [B], gegn 2. mgr. 2. gr. laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar en áður en afstaða verði tekin til þess hvort brot hafi verið framin og eftir atvikum hvort stjórnsýsluviðurlögum verði beitt var kallað eftir andmælum. Í bréfinu kom m.a. fram að á myndabandsupptöku megi sjá einn skipverja standa á dekki og spúla loðnu út fyrir borðstokk með þeim afleiðingum að nokkrir fiskar hafi hafnað aftur í sjó stjórnborðsmegin. Frestur til andmæla var veittur til og  með 6. október 2023.

Með bréfi, dags. 12. október 2023, bárust Fiskistofu athugasemdir frá [A]. Þar kemur fram að kærandi geri þá kröfu að málið verði fellt niður. Mikil áhersla sé lögð á góða meðferð afla og umgengni um nytjastofna hjá útgerð [A] þar sem hráefni er unnið til manneldis að stærstum hluta í vinnslum félagsins. Enginn vafi sé á því að allur afli, sem kom í veiðarfærið í umræddri veiðiferð, var hirtur og honum landað eins og skylt sé samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laga nr. 57/1996. Á myndbandsupptökum sem Fiskistofa vísi til megi sjá þegar verið sé að dæla úr veiðarfærinu í lestar skipsins. Skipið hafði verið á loðnuveiðum í umrætt sinn og á loðnuveiðum sé lögð áhersla á að veiða fisk til manneldis og allur afli sé kældur í lestum skipsins með sjó. Á umræddu myndbandi sem Fiskistofa vísi til megi sjá hvar loðna lendi á dekkinu þegar dælt sé úr veiðarfærinu. Við dælingu á uppsjávarafla megi áætla að um 30 rúmmetrar af sjó og afla fari í gegnum sjóskilju skipsins á mínútu og þar af um 18 rúmmetrar af fiski. Þegar afla sé dælt um borð í skipið sé gert ráð fyrir um 10% sjó með afla. Eðli máls samkvæmt geti það gerst að afli lendi á dekkinu og sérstaklega þegar um smáfisk eins og loðnu sé að ræða. Ekki sé hægt að segja með vissu hvað hafi valdið því að nokkrir fiskar lendi á dekkinu en fyrir því geti verið margvíslegar ástæður. Megi þar nefna að rennur geti stíflast, lestar geti yfirfyllst, hreyfing geti verið á skipinu eða vandamál verið við dælingu úr veiðarfærinu svo eitthvað sé nefnt. Allar framangreindar mögulegar ástæður séu fylgifiskur veiða og hafi fylgt þeim veiðiaðferðum sem notaðar hafi verið í tugi ára við uppsjávarveiðar eins og Fiskistofu ætti að vera kunnugt um eftir að hafa verið með eftirlitsmenn um borð í þessum skipum. Áhöfn skipsins geri allt sem í hennar valdi standi til að lágmarka slíka bresti við dælingu. Á myndbandi Fiskistofu megi sjá þegar nokkrir fiskar lendi aftur út í sjó. Hönnun skipa geri ráð fyrir því að sjór gangi yfir og á dekk skipsins og þess vegna séu skipin búin svokölluðum lensportum sem hafi þann tilgang að hreinsa dekk skipanna af sjó til að tryggja öryggi skipsins og áhafnar. Ef það sé fiskur á dekkinu þegar sjór flæði um dekkið þá fari fiskurinn óhjákvæmilega með sjónum útbyrðis. Öryggi áhafnar sé ávallt í fyrirrúmi og til að tryggja öryggi áhafnar sé mikilvægt að hreinsa fisk af gönguleiðum því ef slíkt sé ekki gert geti það skapað hættu á að menn renni til og sérstaklega út í sjó þar sem vinnuumhverfið sé á stöðugri hreyfingu. Auk alls sé bent á að þegar verið sé að dæla afla úr veiðarfærum skipa sé oft verið að dæla mörg hundruð tonnum á klukkustund í lestar og það magn af fiski sem sjáist hafna aftur út í sjó stjórnborðsmegin í þessu myndbandi sé einungis brot af því og heildarafla skipsins í viðkomandi veiðiferð. Sé það mat útgerðarinnar að slík frávik í uppsjávarveiðum eigi ekki að fella undir eiginlegt brottkast. Með vísan til framangreinds sé gerð sú krafa að málið verði látið falla niður.

Með bréfi, dags. 8. nóvember 2023, tók Fiskistofa ákvörðun um að veita kæranda, [A], útgerðaraðila skipsins [B] skriflega áminningu. Þar er vísað til málsatvikalýsingar sem gerð var grein fyrir í bréfi Fiskistofu til kæranda, dags. 20. september 2023. Málsatvikum sé þannig lýst í skýrslu veiðieftirlitsmanna Fiskistofu, dags. 6. mars 2023, að hinn 21. febrúar 2023 hafi veiðieftirlitsmenn verið við eftirlit með loðnuflotanum. Notast hafi verið við ómannað, fjarstýrt loftfarmeð myndupptökubúnaði og flogið út frá Eyjafjallasandi. Um klukkan 14:30 hafi verið flotið yfir skipið [B] til að skoða hvað væri í nót skipsins. Í ljós hafi komið töluvert magn af loðnu sem var á dekki skipsins og hafi dróninn þá verið settur á upptöku. Tekið hafi verið upp myndband og sé lengd þess 01:45 mínútur. Á myndbandsupptöku megi sjá skipverja að störfum við dælingu á afla úr veiðarfæri skipsins í lestar þess. Þá hafi einn skipverja staðið á dekkinu og spúlað loðnu út fyrir borðstokkinn með þeim afleiðingum að þó nokkuð magn afla hafnaði aftur út í sjó stjórnborðsmegin. Af þeim sökum hafi Fiskistofa til skoðunar hvort áhöfn á skipinu [B] hafi með framferði sínu í umrætt sinn brotið gegn ákvæði 2. mgr. 2. gr. laga nr. 57/1996 með því að hafa ekki hirt og landað þeim afla sem komið hafði í veiðarfæri fiskiskipsins. Í 2. mgr. 2. gr. laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, segi að skylt sé að hirða og landa öllum afla sem kemur í veiðarfæri fiskiskipa. Ráðherra geti með reglugerð ákveðið að sleppa skuli lifandi afla sem er undir tiltekinni lengd eða þyngd eða fæst í ákveðin veiðarfæri og hafi hann einnig heimild til að heimila með reglugerð að fiski af verðlausum tegundum sé ekki landað heldur varpað í sjóinn, sbr. reglugerð nr. 468/2013, um nýtingu afla og aukaafurða. Brot gegn 2. mgr. 2. gr. laga nr. 57/1996 geti varðað stjórnsýsluviðurlögum, þ.e. sviptingu leyfis til veiða í atvinnuskyni samkvæmt 1. og 2. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1996 eða skriflegri áminningu samkvæmt 3. mgr. 15. gr. sömu laga. Þá geti brot gegn 2. mgr. 2. gr. laga nr. 57/1996 jafnframt varðað refsingum, sektum eða fangelsi allt að 6 árum, samkvæmt 23. gr., sbr. 24. gr. sömu laga. Brot gegn 2. mgr. 2. gr. laga nr. 57/1996 telst fullframið hvort sem það sé með refsinæmri athöfn eða athafnaleysi og hvort sem það er framið af ásetningi eða gáleysi, Þá sé í 24. gr. laganna lögfest hlutlæg refsiábyrgð einstaklinga og lögaðila gegn ákvæðum laganna, að nánari skilyrðum uppfylltum. Í bréfi Fiskistofu, dags. 20. september 2023, vegna meintra brota áhafnar og útgerðar fiskiskipsins [B] hafi málsatvikum verið lýst, leiðbeint um lagaatriði og aðila málsins gefinn kostur á að koma andmælum og athugasemdum í samræmi við 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 áður en afstaða yrði tekin til þess hvort brot hafi verið framin og eftir atvikum ákvörðun um viðurlög. Hinn 22. september 2023 hafi kærandi óskað eftir aðgangi að myndbandsupptöku sem lá fyrir í málinu og var hún afhent kæranda 2. október sama ár. Með tölvubréfi, dags. 12. október 2023, bárust Fiskistofu athugasemdir kæranda. Kærandi krefjist þess að málið verði fellt niður í kjölfar andmæla sinna. Að sögn kæranda sé mikil áhersla lögð á góða meðferð afla og umgengni nytjastofna hjá útgerðinni þar sem hráefni sé unnið til manneldis að stærstum hluta í vinnslum félagsins. Telji kærandi að allur afli, sem hafi komið í veiðarfærið í umræddri veiðiferð, hafi verið hirtur og honum landað eins og skylt sé samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laga nr. 57/1996. Fiskistofa fallist ekki á þá staðhæfingu í ljósi þeirrar myndbandsupptöku sem liggi fyrir í málinu, sem sýni hvar þó nokkur afli, hafni aftur út í sjó stjórnborðsmegin. Kærandi segi að á loðnuveiðum sé áhersla lögð á að veiða fisk til manneldis og allur afli sé kældur í lestum skipsins með sjó. Loðna sé smávaxinn beinfiskur og algeng stærð loðnu um 13-20 cm. Segi kærandi að við dælingu á uppsjávarafla megi áætla að um 30 rúmmetrar af sjó og afla fari í gegnum sjóskilju skipsins á mínútu og þar af um 18 rúmmetrar af fiski. Þegar afla sé dælt um borð í skipið sé gert ráð fyrir um 10% sjó með afla. Segi kærandi að eðli máls samkvæmt geti það gerst að afli lendi á dekkinu og sérstaklega þegar um smáfisk eins og loðnu sé að ræða. Kærandi kveðst ekki hægt að segja með vissu hvað hafi valdið því að nokkrir fiskar lentu á dekkinu líkt og gerst hafi um borð í skipinu [B] í umræddri veiðiferð en fyrir því geti verið margvíslegar ástæður. Nefni kærandi þar aðstæður eins og að rennur geti stíflast, lestar geti yfirfyllst, hreyfing geti verið á skipinu eða vandamál við dælingu úr veiðarfærinu. Segi kærandi allar framangreindar mögulegar ástæður fylgifiskur veiða og hafi fylgt þeim veiðiaðferðum sem notaðar hafi verið í tugi ára við uppsjávarveiðar. Fiskistofa fallist ekki á þessi sjónarmið kæranda. Verklag við veiðar skuli endurspegla þau lög og stjórnvaldsfyrirmæli sem í gildi séu hverju sinni um framkvæmd veiða. Fiskistofa sé meðvituð um þá hugsanlegu ágalla sem séu á framkvæmd dælingar á afla úr veiðarfærum í lestar skips og þær margvíslegu ástæður sem geti orðið þess valdandi að afli lendi á dekki þess við þá aðgerð. Sé það mat Fiskistofu að fyrst og fremst verði að sýna meiri varkárni við dælingu, þ.e. tryggja vandaðri vinnubrögð við framkvæmdina. Kærandi segi það magn af fiski sem sjáist hafna aftur út í sjó stjórnborðsmegin í áðurnefndu myndbandi einungis vera brot af þeim afla sem dælt sé úr veiðarfærum skips og heildaraflaskipsins í viðkomandi veiðiferð. Sé það álit kæranda að slík frávik í uppsjávarveiðum eigi ekki að fella undir eiginlegt brottkast og því geri kærandi þá kröfu að málið verði látið falla niður. Eðlilegt sé að afföll verði við dælingu, en það magn sem hér um ræðir sé umfram það magn sem eðlilegt þyki, að mati Fiskistofu. Til að koma í veg fyrir að lestar yfirfyllist, sé að mati Fiskistofu, t.a.m. hægt að dæla minna magni í lestar skipsins, og sýna frekari árvekni til að stöðva dælingu í tíma. Einnig segi kærandi að hönnun skipa geri ráð fyrir því að sjór gangi yfir og á dekk skipsins og þess vegna væru skipin búin lensportum sem hafi þann tilgang að hreinsa dekk skipanna af sjó til að tryggja öryggi skips og áhafnar. Kærandi segi óhjákvæmilegt að fiskur fari útbyrðis með sjónum, sé fiskur á dekkinu þegar sjór flæði um dekkið. Fiskistofa telji að koma megi í veg fyrir þess háttar brottkast t.d. með því að setja ristar á lensport, sem komi í veg fyrir að sá fiskur sem hefur hafnað á dekki skips, falli útbyrðis. Einnig segi kærandi að öryggi áhafnar sé ávallt í fyrirrúmi og til að tryggja öryggi áhafnar sé mikilvægt að hreinsa fisk af gönguleiðum. Sé slíkt ekki gert geti það skapað hættu á að menn renni til og sérstaklega út á sjó þar sem vinnuumhverfið sé á stöðugri hreyfingu. Sé það mat Fiskistofu að þær tillögur til úrbóta sem stofnunin hafi lagt til séu gerðar með tilliti til öryggis áhafnar, þannig megi með bættri framkvæmd við dælingu koma í veg fyrir að fiskur lendi á gönguleið áhafnar. Ennfremur segi kærandi áhöfn skipsins gera allt sem í hennar valdi standi til að lágmarka bresti við dælingu, sem yrðu þess valdandi að slíkt magn og hér um ræðir safnaðist fyrir á dekki skipsins.  Á grundvelli alls framangreinds hafni Fiskistofa kröfu kæranda um að málið verði fellt niður. Meginágreiningurinn í máli þessu lúti að því hvort áhöfn fiskiskipsins [B] hafi orðið uppvís að brottkasti hinn 21. febrúar 2023, í skilningi 2. mgr. 2. gr. laga nr. 57/1996. Fyrir liggi að hinn 21. febrúar 2023 var [B] á veiðum. Við eftirlit kom í ljós töluvert magn af loðnu sem var á dekki skipsins. Þá sjáist hvar einn skipverja standi á dekkinu og spúli loðnu út fyrir borðstokkinn með þeim afleiðingum að þó nokkur afli, er komið hafði í veiðarfæri skipsins, hafnar aftur út í sjó, stjórnborðsmegin. Málatilbúnaður Fiskistofu byggi í grunninn á skýrslu veiðieftirlitsmanna sem urðu vitni að broti áhafnar skipsins í beinu streymi, en einnig var myndefnið að hluta til tekið upp. Sú myndbandsupptaka sem liggi fyrir í máli þessu sé því til stuðnings öðrum gögnum sem sýni fram á þá brotlegu háttsemi sem áhöfn fiskiskipsins [B] sé grunuð um að hafa viðhaft í umræddri veiðiferð. Myndbandsupptaka sem fyrir liggi í máli þessu sýni með skýrum hætti framgöngu skipverja um borð við dælingu og tilfærslu milli tanka, þegar afli sem áður hafði komið í veiðarfæri skipsins féll aftur út í sjó. Athafnir skipverja og eftir atvikum athafnaleysi þeirra, sem á dekkinu standa, endurspegli að mati Fiskistofu viðhorf áhafnar til brotsins, þ.e. að það magn afla sem féll á dekkið sé eðlilegur fylgifiskur við framkvæmd dælingar og að um viðhöfð vinnubrögð sé að ræða. Ekki hafi verið gripið til ráðstafana eða áhöfn sýnt nokkra viðleitni til að reyna að bjarga þeim aflaverðmætum sem veidd höfðu verið í veiðarfæri skipsins og féllu útbyrðis. Einnig sé það mat Fiskistofu að með háttsemi sinni hafi skipverjar á skipinu [B] sýnt af sér refsivert athæfi og eftir atvikum refsivert athafnaleysi, í ljósi þeirra lögbundnu athafnaskyldu sem á þeim hafi hvílt, að viðlagðri refsiábyrgð, og án tillits til hugsanlegra afleiðinga hennar og atvika að öðru leyti, þ.e. skyldu skipverja samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laga nr. 57/1996 til að hirða og landa þeim afla sem kom í veiðarfæri skipsins. Sé það mat Fiskistofu að áhöfn fiskiskipsins hafi brotið gegn umræddu ákvæði 2. mgr. 2. gr. framangreindra laga með því að hafa látið undir höfuð leggjast að bregðast við með þeim hætti sem til var ætlast af þeim og lög kveða á um, við framkvæmd veiða. Þá beri kærandi ábyrgð á því að aðbúnaður og tækjakostur sé  í samræmi við lög og reglur á þeim fiskiskipum sem hann gerir út, og að verklag við veiðar sé í samræmi við gildandi lög og reglur. Þá sérstaklega að framkvæmd veiða brjóti ekki í bága við ákvæði 2. mgr. 2. gr. laga nr. 57/1996. Að mati Fiskistofu hafi brot skipverja verið aðfinnsluverð og því virðist sem verklag við dælingu um borð í umræddu skipi kæranda sé í andstöðu við hátternisreglur laga nr. 57/1996 og grundvallar markmið þeirra um sjálfbæra nýtingu fiskistofna og góða umgengni um auðlindir sjávar. Við mat á alvarleika brota líti Fiskistofa til magns þess afla sem var á dekki skipsins og féll útbyrðis. Hlutfall þess afla af heildarafla skipsins hafi takmarkaða þýðingu við mat Fiskistofu. Að mati Fiskistofu hafi brotið verið framið af stórkostlegu gáleysi hið minnsta eða lægsta stigi ásetnings. Brotið teljist fullframið hvor sem það sé framið af ásetningi eða gáleysi. Að mati Fiskistofu teljist mál þetta nægilega upplýst og atvik og staðreyndir málsins, sem þýðingu hafi að lögum, vera sönnuð. Með vísan til málsatvika og eðlis brota, athugasemda kæranda og alls þess sem að framan greinir, sé það niðurstaða Fiskistofu að starfsmenn kæranda hafi brotið gegn ákvæði 2. mgr. 2. gr. laga nr. 57/1996, í umræddri veiðiferð. Í 1. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1996 segi að Fiskistofa skuli svipta skip leyfi til veiða í atvinnuskyni ef útgerð eða áhöfn skips eða aðrir þeir sem í þágu útgerðar starfi hafi brotið gegn ákvæðum laganna eða reglum settum samkvæmt þeim. Við fyrsta brot sem varði sviptingu veiðileyfis skuli leyfissvipting ekki standa skemur en fjórar vikur og ekki lengur en í eitt ár. Í 2. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1996 segi að við fyrsta brot, sem varði sviptingu veiðileyfis, skuli leyfissvipting ekki standa skemur en eina viku og ekki lengur en tólf vikur eftir eðli og umfangi brots. Í 3. mgr. 15. gr. segi að við fyrsta minni háttar brot skuli Fiskistofa, þrátt fyrir ákvæði 1. og 2. mgr., veita hlutaðeigandi útgerð skriflega áminningu. Við mat á því hvort um minniháttar brot sé að ræða sé m.a. litið til þess hvort ætla megi að brot hafi í för með sér umtalsverðan fjárhagslegan ávinning fyrir hlutaðeigandi útgerð og/eða tengda aðila, fjölda brota, hversu mikilvægum hagsmunum brot ógnar og hvort það hefur verið framið af ásetningi eða gáleysi. Að sama skapi telst brot meiriháttar ef verknaður er framinn með sérstaklega vítaverðum hætti eða við aðstæður sem auka mjög á saknæmi brots. Líta verði til markmiða laga nr. 57/1996 við mat á þeim hagsmunum sem brotin ógna. Lögunum sé ætlað að tryggja tvö meginatriði. Í fyrsta lagi að öllum afla sem komi í veiðarfæri skips sé landað í viðurkenndri höfn og í öðru lagi að allur afli sé veginn og skráður. Í máli þessu er litið til þess að brotin voru til þess fallin að hafa í för með sér ávinning fyrir hlutaðeigandi útgerð og/eða tengda aðila, þar sem aflaheimildum var ekki ráðstafað í þann afla sem féll útbyrðis við framkvæmd dælingar. Brotin ógna jafnframt hagsmunum sem tengjast aflaskráningu. Fiskveiðistjórnunarkerfið byggi á því að aflaskráning gefi rétta mynd af því hve mikið er veitt úr sameiginlegri auðlind þjóðarinnar og jafnframt hvort afli tiltekins skips sé innan veiðiheimilda þess. Mikilvægir almannahagsmunir séu jafnframt fólgnir í því að upplýsingar um veiðar úr nytjastofnum sjávar séu réttar svo hægt sé að áætla stofnstærð og hámarks afkastagetu. Góð umgengni um nytjastofna sjávar sé þýðingarmikil svo þeir verði nýttir með sjálfbærum hætti er tryggi til langs tíma hármarksafrakstur fyrir íslensku þjóðina. Það sé niðurstaða Fiskistofu að um ámælisvert brot sé að ræða, framin hið minnsta af stórkostlegu gáleysi skipverja. Þá séu engin fyrri brot sem hafi ítrekunaráhrif í máli þessu. Að því virtu telji Fiskistofa og í ljósi þess að um fyrsta brot er að ræða og einstaka veiðiferð, sem og atvika að öðru leyti með hliðsjón af meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar, að umrætt brot varði skriflegri áminningu, samkvæmt 3. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1996 vegna brots gegn 2. mgr. 2. gr. sömu laga. Áminningin hafi ítrekunaráhrif í tvö ár frá og með dagsetningu ákvörðunar, sbr. 19. gr. sömu laga.  Þá kom þar fram að ákvörðunina megi kæra til matvælaráðuneytisins innan eins mánaðar frá því að hún barst til kæranda, sbr. 18. gr. laga nr. 57/1996. Einnig var þar tekið fram að kæra fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunarinnar.

Málsástæður í stjórnsýslukæru og málsmeðferð

Með stjórnsýslukæru sem barst ráðuneytinu með tölvubréfi, dags. 7. desember 2023, kærði [A], þá ákvörðun Fiskistofu, dags. 8. nóvember 2023, að veita kæranda, útgerðaraðila skipsins [B] skriflega áminningu vegna brots gegn 2. mgr. 2. gr. laga nr. 57/1996, um nytjastofna sjávar.

Í stjórnsýslukærunni segir m.a. að með bréfi, dags. 20. september 2023, hafi Fiskistofa tilkynnt kæranda að stofnunin hefði til meðferðar meint brot áhafnar, og eftir atvikum útgerðar skipsins [B], gegn ákvæði 2. mgr. 2. gr. laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar. Málavöxtum sé lýst í framangreindu bréfi Fiskistofu, þar sem komi fram að eftirlitsmenn Fiskstofu hafi verið við eftirlit með loðnuflotanum þann 21. febrúar 2023, og notast við ómannað fjarstýrt loftfar með myndupptökubúnaði við eftirlitið. Á myndbandsupptöku hafi mátt sjá nokkra fiska hafna aftur úti í sjó þegar einn skipverja hafi staðið á dekkinu og spúlað loðnu út fyrir borðstokkinn og gerist þetta aftur þegar verið sé að dæla afla úr veiðarfæri skipsins í lestar þess. Eftir að hafa fengið aðgang að myndbandsupptöku sem vísað sé til í bréfi Fiskistofu til kæranda hafi Fiskistofu verið sendar athugasemdir og andmæli kæranda með bréfi, dags. 12. október 2023. Á myndbandi Fiskistofu megi sjá þegar nokkrir fiskar, þ.e. loðnur, lenda aftur úti í sjó. Í andmælum kæranda komi fram mögulegar skýringar og ástæður þess að nokkrir fiskar falla aftur út í sjó. Hönnun skipa geri ráð fyrir því að sjór gangi yfir og á dekk skipsins og þess vegna séu skipin búin svokölluðum lensportum sem hafi þann tilgang að hreinsa dekk skipanna af sjó til að tryggja öryggi áhafnar og skips. Ef það sé fiskur á dekkinu þegar sjór flæðir um dekkið þá fari fiskurinn óhjákvæmilega með sjónum útbyrðis. Kærandi hafi öryggi áhafnar ávallt í fyrirrúmi og til að tryggja öryggi áhafnar sé mikilvægt að hreinsa fisk af gönguleiðum á dekkinu því ef slíkt sé ekki gert geti það skapað hættu á að menn renni til og sérstaklega út á sjó þar sem vinnuumhverfið sé á stöðugri hreyfingu. Ástæða þess að fiskur lendi á dekkinu geti verið af margvíslegum toga og ekki sé hægt að segja með vissu hvað hafi valdið því að það gerðist í umrætt sinn, en það geti gerst þegar rennur stíflist, lestar yfirfyllist, hreyfing á skipinu að vandamál við dælingu úr veiðarfærinu svo eitthvað sé nefnt. Allar framangreindar mögulegar ástæður séu fylgifiskur veiða og hafi fylgt þeim veiðiferðum sem notaðar hafi verið í tugi ár a við uppsjávarveiðar. Áhöfn skipsins geri þó allt sem í hennar valdi standi til að lágmarka slíka bresti við dælingu.

Kærandi byggi kröfu sína um ógildingu ákvörðunarinnar á eftirfarandi málsástæðum: Í fyrsta lagi byggir kærandi á því að lýsingu á meintu broti hafi verið breytt af hálfu Fiskistofu á síðari stigum máls. Í lýsingu Fiskistofu á meintu broti í bréfi til kæranda, dags. 20. september 2023, sé meintu broti lýst með þeim hætti að „nokkrir fiskar“ hafi hafnað aftur út í sjó þegar einn skipverji stóð á dekkinu og spúlaði loðnu út fyrir borðstokkinn. Í lýsingu Fiskistofu á meintu broti í bréfi til kæranda þar sem komist sé að þeirri niðurstöðu að um ámælisvert brot sé að ræða, staðhæfi Fiskistofa hins vegar að þó nokkuð magn afla hafi hafnað aftur út í sjó. Kærandi geri alvarlegar athugasemdir við það að lýsingu brots sé breytt með þessum hætti enda miðist athugasemdir kæranda til Fiskistofu við að þarna hafi aðeins verið um nokkra fiska að ræða líkt og haldið sé fram í upphaflegri lýsingu Fiskistofu á meintu broti og því sem komi fram á myndbandsupptöku sem liggi fyrir í málinu. Af þessu megi vera ljóst að Fiskistofa hafi ekki lagt til grundvallar alveg sömu málsatvik og lýst hafði verið í upphaflegu erindi til kæranda. Þá séu gerðar athugasemdir við lýsingar á málavöxtum og málatilbúnað Fiskistofu en í ákvörðun Fiskistofu, dags. 8. nóvember 2023, sé við mat á alvarleika brotsins m.a. litið til þess magns afla sem hafi verið á dekki skipsins og fallið útbyrðis. Í bréfi Fiskistofu, dags. 20. september 2023, sé í engu látið að því liggja eða því haldið fram að öll sú loðna sem var á dekkinu hafi fallið útbyrðis, sbr. framangreint og þá sé myndbandsupptaka sem liggi fyrir í málinu mjög skýr og greinargóð og sé þar ekki að sjá að allur afli sem sé á dekkinu falli útbyrðis heldur þvert á móti. Þau sjónarmið Fiskistofu um magn afla sem hafni aftur út í sjó hafi haft verulega þýðingu við úrlausn málsins því í ákvörðun Fiskistofu segi að eðlilegt sé að „einhver afföll verði við dælingu, en það magn sem hér um ræðir er umfram það magn sem eðlilegt þykir, að mati Fiskistofu.“ Kærandi telji málatilbúnað Fiskistofu og lýsingar á málavöxtum í ákvörðun sinni sem sé í engu samræmi við upphaflega lýsingu á málavöxtum og lýsingu á meintu broti. Kærandi hafi ekki haft kost á að tjá sig um efni málsins miðað við breytta lýsingu á meintu broti og tryggja réttindi sín og hagsmuni með því að kynna sér málsástæður sem ákvörðun Fiskistofu var svo byggð á, leiðrétta framkomnar upplýsingar og koma að frekari upplýsingum um málsatvik í samræmi við andmælareglu stjórnsýsluréttar, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í öðru lagi byggi kærandi á því að verklag við veiðarnar hafi verið í fullu samræmi við gildandi lög og reglur og með engu móti sé hægt að halda því fram að athafnir skipverja hafi verið í andstöðu við hátternisreglur laga nr. 57/1996. Á myndbandsupptöku sem málatilbúnaður Fiskistofu byggi m.a. á, megi sjá að nokkrar loðnur  falli útbyrðis. Á myndbandinu megi einnig sjá hvar miklu magni af loðnu sé dælt í lestar skipsins og loðnu sem liggi við lestarlúgu á dekki skipsins. Í bréfi kæranda til Fiskistofu, dags. 12. október 2023, þar sem gerðar séu athugasemdir við mat Fiskistofu á meintu broti sé verklagi við dælingu lýst og sömuleiðis upplýst um mögulega bresti við dælingu sem geti verið af ýmsum ástæðum. Allar lýsingar hafi verið gerðar í þeim tilgangi að upplýsa um framgang veiðanna. Auk þess hafi verið bent á mikilvægi þess að þegar brestir verði við dælingu og afli lendi á dekki að fyrst og fremst sé hugað að öryggi áhafnar sem í þessu tilviki hafi verið að hreinsa gönguleiðir á dekki. Í þriðja lagi  sé það rangt sem haldið sé fram í ákvörðun Fiskistofu að kærandi hafi haft ávinning af meintu brottkasti þar sem aflaheimildum hafi ekki verið ráðstafað í þann afla sem féll útbyrðis við framkvæmd dælingar. Kærandi geti með engu móti séð hver ávinningur kæranda ætti að vera af því að hirða ekki allan afla, þá loðnu, sem kom með veiðarfærinu því fram að umræddri veiðiferð hafi kærandi verið búinn að veiða um 9% af heildaraflanum á vertíðinni. Kvótastaðan hafi því verið góð og með engu móti verði séð hver ávinningur kæranda sé eins og Fiskistofa haldi fram í ákvörðun sinni. Í fjórða lagi geri kærandi athugasemdir við það að Fiskistofa telji breytingar á búnaði skipsins og skipinu sjálfu hefðu getað komið í veg fyrir það að afli færi útbyrðis með sjó á dekki sem fari út um lensport og leggi til að ristar verði settar í lensport. Við hönnun skipa sé fyrst og fremst horft til öryggis áhafnar og gildi ákveðin öryggisviðmið samkvæmt reglugerð nr. 122/2004, um öryggi fiskiskipa sem eru 15 metrar eða lengri að mestu lengd. Samkvæmt reglu 14, í viðauka reglugerðarinnar um smíði, vatnsþéttleika og ýmsan búnað, segi að op skuli búin rimlum en bil milli rimla skuli ekki vera meira en 230 mm og ekki minna en 150 mm sem loðna fari hæglega í gegnum. Að setja ristar í lensport, eins og Fiskistofa leggi til og sé með öllu gegn reglum um öryggi skipa, geti orðið til þess að sjór sem óhjákvæmilega lendi á dekki fari ekki óhindraða leið út aftur sem geti valdið því að skip fyllist af sjó með tilheyrandi alvarlegum afleiðingum. Tillögur Fiskistofu í þessum efnum séu óábyrgar og með öllu í andstöðu við reglugerðir og viðmiðanir um smíði skipa með tilliti til öryggissjónarmiða.

Eftirtalin gögn fylgdu stjórnsýslukærunni í ljósritum. 1) Ákvörðun Fiskistofu, dags. 8. nóvember 2023, tilv. 2022-12-23-2506. 2) Bréf Fiskistofu, dags. 20. nóvember 2023, tilv. 2022-12-23-2506. 3) Bréf [A], dags. 12. október 2023.

Með tölvubréfi, dags. 11. desember 2023, óskaði ráðuneytið eftir umsögn Fiskistofu um málið, staðfestu afriti af hinni kærðu ákvörðun auk annarra gagna sem Fiskistofa kynni að hafa um málið.

Í umsögn Fiskistofu, dags. 20. desember 2023, segir m.a. að málið hafi hafist með tilkynningu um upphaf máls með erindi Fiskistofu til kæranda, dags. 20. september 2023. Þar hafi kæranda verið gefinn kostur á að gera athugasemdir við framkomnar upplýsingar um málsatvik og leiðbeint um rétt kæranda til aðgangs að gögnum o.fl. Þann 22. september 2023, óskaði kærandi eftir myndbandsupptöku þeirri sem lá fyrir í málinu og varð Fiskistofa við beiðninni. Þar sem afhending á myndbandsupptöku dróst vegna tæknilegra annmarka var andmælafrestur kæranda lengdur til 13. október 2023. Þann 12. október 2023 hafi  kærandi sent athugasemdir sínar vegna málsins. Fiskistofa kynnti sér athugasemdir kæranda og tók ákvörðun um á áminna útgerð fiskiskipsins. Ákvörðunin hafi verið birt kæranda 8. nóvember 2023. Í kæru, dags. 7. desember 2023, komi að nokkru leyti fram sömu sjónarmið og lögð hafi verið fram af hálfu kæranda þann 12. október 2023. Hafi þau verið rakin í ákvörðun Fiskistofu, dags. 8. nóvember 2023 og þeim svarað með ítarlegum hætti. Vísi Fiskistofa í þessu samhengi til röksemda og niðurstöðu hinnar kærðu ákvörðunar. Í kæru séu málsástæður dregnar fram í fjórum liðum og þar sem Fiskistofa hafi ekki fengið tækifæri til að svara þeim sjónarmiðum á fyrri stigum málsins þá verði það gert í umsögninni. Í fyrsta lagi byggi kærandi á því að lýsingu á meintu broti hafi verið breytt af hálfu Fiskistofu á síðari stigum máls, úr „nokkrir fiskar“ í „þónokkuð magn afla“ sem hafi fallið útbyrðis. Fiskistofa fái ekki séð að þetta hafi þýðingu við úrlausn málsins og hafni ályktun kæranda um að hafa ekki lagt til grundvallar sömu málsatvik og lýst hafi verið í upphaflegu erindi til kæranda. Fiskistofa árétti að í ljósi þess að um fyrsta brot hafi verið að ræða og einstaka veiðiferð, sem og atvika að öðru leyti með hliðsjón af meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar, hafi brotið verið talið varða skriflegri áminningu, samkvæmt 3. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, þ.e. vægustu mögulegu viðurlögum sem beitt sé vegna brottkasts. Í öðru lagi byggi kærandi á því að verklag við veiðarnar hafi verið í fullu samræmi við gildandi lög og reglur og með engu móti sé hægt að halda því fram að athafnir skipverja hafi verið í andstöðu við hátternisreglur laga nr. 57/1996. Samkvæmt 2. mgr. 2. gr. sé það skylda skipverja að hirða og landa öllum þeim afla sem komi í veiðarfæri fiskiskipa. Sé það mat Fiskistofu að skipverji á [B] hafi sýnt af sér refsivert athæfi er hann spúlaði loðnu út fyrir borðstokkinn og aðrir refsivert athafnaleysi, er þeir létu hjá líða að bregðast við með þeim hætti sem til var ætlast af þeim og lög kveði á um, við framkvæmd veiða. Í þriðja lagi byggi kærandi á því að hafa ekki haft ávinning af meintu broti, þar sem kærandi hafi verið búinn að veiða um 9% af heildarafla á vertíðinni. Fiskistofa telji ávinning útgerðarinnar fólginn í því að aflaheimildum hafi ekki verið ráðstafað í þann afla sem féll útbyrðis, en samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laga nr. 57/1996 sé skylt að hirða og landa öllum afla sem komi í veiðarfæri fiskiskipa og samkvæmt 2. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 745/1996, um vigtun og skráningu sjávarafla, skuli allur afli skráður til aflamarks á veiðiskip. Horfa beri til markmiða laga nr. 57/1996 sem hafi verið ætlað að tryggja tvö megin atriði, þ.e. að öllum afla sem komi í veiðarfæri skips sé landað í viðurkenndri höfn og að allur afli sé veginn og skráður. Í fjórða og síðasta lagi geri kærandi athugasemdir við það að Fiskistofa telji breytingar á búnaði skipsins og skipinu sjálfu geta komið í veg fyrir það að afli falli útbyrðis með sjó á dekki sem fari út um lensport skipsins. Fiskistofa árétti að einungis hafi verið um tillögu að ræða sem gæti komið í veg fyrir að afli félli útbyrðis eða í það minnsta takmarkað umfangið. Fiskistofa geri að sjálfsögðu þær kröfur að allar úrbætur séu gerðar í samræmi við lög og reglur. Fiskistofa hafni málatilbúnaði kæranda og telji að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun með vísan til forsendna hennar. 

Umsögn Fiskistofu fylgdu eftirtalin gögn í ljósritum: 1) Tilkynning um upphaf máls (andmælabréf), dags. 20. september 2023. 2) Athugasemdir kæranda, dags. 12. október 2023. 3) Ákvörðun Fiskistofu (hin kærða ákvörðun), dags. 8. nóvember 2023. 4) Brotaskýrsla (frumskýrsla), dags. 6. mars 2023. 5) Ferill dróna og skips. 6) Lögskráning skips. 7) Upplýsingar um skip.

Með tölvubréfi, dags. 9. janúar 2024 sendi ráðuneytið kæranda ljósrit af umsögn Fiskistofu, dags. 20. desember 2023, og veitti kæranda kost á að gera athugasemdir við umsögnina. Frestur var veittur til og með 24. janúar 2024.

Engar  athugasemdir bárust ráðuneytinu frá kæranda.

Þann 20. mars 2024 óskaði ráðuneytið eftir afriti af umræddri myndbandsupptöku úr dróna Fiskistofu, og fékk ráðuneytið myndbandið afhent þann 21. mars 2024.

Rökstuðningur og niðurstaða

I.

Stjórnsýslukæra í máli þessu barst matvælaráðuneytinu þann 7. desember 2023, með tölvubréfi, dags. sama dag. Kærufrestur í málinu sem er einn mánuður, sbr. 18. gr. laga nr. 57/1996, var því ekki liðinn þegar stjórnsýslukæran barst ráðuneytinu. Kæran verður því tekin til efnismeðferðar.

II.

Um veiðar og vigtun sjávarafla gilda lög nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar. Í 5. gr. laganna segir að öllum afla sem íslensk skip veiða úr stofnum sem að hluta eða öllu leyti haldi sig í efnahagslögsögu Íslands skuli landað innanlands og hann veginn í innlendri höfn. Í 2. mgr. 2. gr. laganna segir að skylt sé að hirða og landa öllum afla sem kemur í veiðarfæri fiskiskipa. Reglan er áréttuð í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 57/1996 en þar segir að öllum afla sem íslensk skip veiði úr stofnum sem að hluta til eða öllu leyti haldi sig í efnahagslögsögu Íslands skuli landað innanlands og hann veginn í íslenskri höfn.  Í 1. mgr. 6. gr. laganna kemur fram sú meginregla að allur afli skuli veginn á hafnarvog í löndunarhöfn þegar við löndun aflans. Í 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 745/2016, um vigtun og skráningu sjávarafla, segir að skipstjóri skips beri ábyrgð á því að afli skipsins sé veginn samkvæmt ákvæðum reglugerðarinnar. Í 2. mgr. sömu greinar segir að afli skuli skráður til aflamarks á veiðiskip. Þá segir í 3. mgr. 2. gr. laga nr. 36/1992, um Fiskistofu, að Fiskistofa skuli annast framkvæmd laga um stjórn fiskveiða og eftirlit með fiskveiðum.

III.

Hin kærða ákvörðun Fiskistofu í máli þessu, dags. 8. nóvember 2023, um að veita [A], útgerðaraðila skipsins [B] skriflega áminningu byggir á því að í veiðiferð skipsins þann 23. febrúar 2023 hafi mátt sjá fiska hafna aftur út í sjó þegar einn skipverja hafi staðið á dekkinu og spúlað loðnu út fyrir borðstokkinn og gerist þetta þegar verið er að dæla afla úr veiðarfæri skipsins í lestar þess.

Ákvörðunin er byggð á því að með framangreindri háttsemi hafi verið brotið gegn 2. mgr. 2. gr. laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, en í umræddu lagaákvæði segir m.a.:

„Skylt er að hirða og landa öllum afla sem kemur í veiðarfæri fiskiskipa. Ráðherra getur með reglugerð ákveðið að sleppa skuli lifandi afla sem er undir tiltekinni lengd eða þyngd eða fæst í ákveðin veiðarfæri. Þá getur ráðherra með reglugerð ákveðið að heimilt sé að varpa fyrir borð verðlausum fiski og innyflum, hausum og öðru því sem til fellur við verkun eða vinnslu um borð í veiðiskipum.“

Af hálfu kæranda hefur því ekki verið mótmælt að tiltekið magn hafi farið í sjóinn en því borið við að hönnun skipa geri ráð fyrir því að sjór gangi yfir og á dekk skipsins og þess vegna séu skipin búin svokölluðum lensiportum sem hafi þann tilgang að hreinsa dekk skipanna af sjó til að tryggja öryggi áhafnar og skips. Ef það sé fiskur á dekkinu þegar sjór flæðir um dekkið þá fari fiskurinn óhjákvæmilega með sjónum útbyrðis. Kærandi hafi öryggi áhafnar ávallt í fyrirrúmi og til að tryggja öryggi áhafnar sé mikilvægt að hreinsa fisk af gönguleiðum á dekkinu því ef slíkt sé ekki gert geti það skapað hættu á að menn renni til og sérstaklega út á sjó þar sem vinnuumhverfið sé á stöðugri hreyfingu. Ástæða þess að fiskur lendi á dekkinu geti verið af margvíslegum toga og ekki sé hægt að segja með vissu hvað hafi valdið því að það gerðist í umrætt sinn, en það geti gerst þegar rennur stíflist, lestar yfirfyllist, hreyfing á skipinu að vandamál við dælingu úr veiðarfærinu svo eitthvað sé nefnt. Allar framangreindar mögulegar ástæður séu fylgifiskur veiða og hafi fylgt þeim veiðiferðum sem notaðar hafi verið í tugi ár a við uppsjávarveiðar. Áhöfn skipsins geri þó allt sem í hennar valdi standi til að lágmarka slíka bresti við dælingu.

IV.

Brot gegn þeim ákvæðum sem fjallað er um í III. kafla hér að framan varða viðurlögum samkvæmt 24. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða. Þar er kveðið á um að Fiskistofa skuli beita áminningum og svipta skip leyfi til veiða í atvinnuskyni ef brotið sé gegn ákvæðum laganna eða reglum settum samkvæmt þeim eftir því sem nánar sé mælt fyrir um í lögum nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar.

Þegar litið er til framanritaðs telur ráðuneytið að sú háttsemi sem lýst er í tilkynningu til kæranda um meðferð máls sbr. brotaskýrslu veiðieftirlitsmanna og kæranda gefinn kostur á að koma fram með andmæli áður en ákvörðun verði tekin er ekki í samræmi við þá háttsemi sem síðar er lýst í ákvörðun Fiskistofu um áminningu, þar sem fyrst er talað um nokkra fiska en svo þó nokkuð magn af afla. Í skýrslu veiðieftirlitsmanna dags. 6. mars 2023 kemur fram að töluvert magn af loðnu hafi verið á dekki og hafi einn skipverji smúlað lo[ð]nunni út stjórnborðsmegin í rólegheitum. Þá segir í bréfi Fiskistofu dags. 20. september 2023 að einn skipverja standi á dekki og spúli loðnu út fyrir borðstokk með þeim afleiðingum að nokkrir fiskar hafi hafnað aftur í sjó stjórnborðsmegin. Í ákvörðun um áminningu dags. 8. nóvember 2023 kemur fram að þó nokkuð magn afla hafi hafnað aftur út í sjó stjórnborðsmegin. Í andmælabréfi kæranda dags. 12. október 2023 virðist kærandi vera að svara fyrir að nokkrir fiskar hafi hafnað í sjó. Ráðuneytið telur því að kærandi hafi ekki notið með fullnægjandi hætti andmælaréttar í málinu.

Þá er einnig ekki nægilega upplýst hvað hafi orðið um allan þann afla sem sást á myndbandsupptöku á dekki skipsins. Ljóst er að brot gegn 2. mgr. 2. gr. laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, gerir ekki kröfu um að tiltekið magn afla verði að falla í sjó til að um sé að ræða brottkast eða óforsvaranlega meðferð á afla, en í ljósi þess að hvorki brotaskýrsla né önnur gögn málsins eins og tilkynning um meðferð máls, myndbandsupptakan eða ákvörðun um áminningu og umsagnir í málinu varpa ljósi á hvað hafi orðið um þann afla sem sjá mátti á dekki skipsins á því tímabili þegar fjarstýrða loftfar Fiskistofu flaug yfir og tók upp í tæplega tvær mínútur (1:45 mín.), þá verður málið að teljast ekki vera nægilega upplýst. Þannig hefur Fiskistofa tekið fram að við mat á alvarleika brota líti Fiskistofa til magns þess afla sem var á dekki skipsins og féll útbyrðis. Ljóst er að einhver loðna sem hafi verið á dekki skipsins hafi fallið í sjóinn, eins og myndbandsupptakan sýnir, en það liggur ekki ljóst fyrir hversu mikill afli hefur fallið útbyrðis.

V.

Með vísan til framanritaðs er það niðurstaða ráðuneytisins að fella hina kærðu ákvörðun Fiskistofu, dags. 8. nóvember 2023, úr gildi um að veita [A], útgerðaraðila skipsins [B] skriflega áminningu, og vísa málinu aftur til stofnunarinnar til nýrrar meðferðar. Niðurstaðan er fengin í ljósi þess að kærandi hafi ekki notið fullnægjandi andmælaréttar áður en ákvörðun var tekin í máli hans. Þá telur ráðuneytið að afmarka og upplýsa þurfi betur hversu mikið magn sé um að ræða sem talið er að hafi farið í sjóinn, þrátt fyrir að ekki sé gerð krafa um ákveðið magn í þeim efnum í lögum nr. 57/1996.

Beðist er velvirðingar á þeim töfum sem hafa orðið á uppkvaðningu þessa úrskurðar en þær er að rekja til mikilla anna í ráðuneytinu.

Úrskurðarorð

Ákvörðun Fiskistofu, dags. 8. nóvember 2023, um að veita [A], útgerðaraðila skipsins [B], skriflega áminningu, er felld úr gildi og málinu vísað til nýrrar meðferðar.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum