Hoppa yfir valmynd

Brottvikning úr skóla

Ár 2009, fimmtudaginn 29. október, var kveðinn upp í mennta- og menningarmálaráðuneytinu svofelldur

ÚRSKURÐUR

Kæruefnið

I.

Menntamálaráðuneytinu barst með tölvupósti, þann 23. febrúar sl., stjórnsýslukæra A og B (kærendur) f.h. sonar þeirra, C, 9 ára nemanda við skóla X. Þá barst viðbót við kæruna frá lögmanni kærenda 2. mars sl.

Kærð er sú ákvörðun skólastjóra skóla X að vísa C tímabundið úr skóla, í 5 virka daga, en ákvörðunin var tilkynnt foreldrum með bréfi, undirrituðu af aðstoðarskólastjóra skólans, dags. 12. febrúar sl.

Kærendur gera þær kröfur að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Í greinargerð lögmanns bæjarfélags Y og skóla X (lögmanns bæjarfélags Y), mótt. 24. mars sl., er þess krafist að öllum kröfum kærenda verði hafnað og ákvörðun um 5 daga brottvísun, dags. 12. febrúar sl., verði staðfest.

II.

Í niðurlagi greinargerðar lögmanns bæjarfélags Y er tekið fram að skólastjóri skóla X hafi ekki komið að hinni kærðu ákvörðun. Er þessi staðhæfing ekki skýrð nánar eða hvaða þýðingu henni er ætlað að hafa fyrir gildi ákvörðunarinnar. Af því tilefni telur ráðuneytið ástæðu til að vekja athygli á því að skólastjóri skóla X ber, sem yfirmaður skólans, ábyrgð á ákvörðun um brottvísun nemandans úr skólanum. Í ljósi allra atvika málsins og röksemda skólans fyrir hinni kærðu ákvörðun verður að líta svo á að hún hafi verið tekin með vitund og vilja skólastjórans og sé á hans ábyrgð. Að öðrum kosti hefði honum borið að afturkalla ákvörðunina, sbr. 2. tölul. 25. gr. stjórnsýslulaga. Að sama skapi verður að telja að skólastjóra beri að jafnaði sjálfum að tilkynna og undirrita ákvarðanir sem lúta að réttindum og skyldum nemenda en ekki fela það öðrum starfsmönnum skólans nema um forföll eða aðrar brýnar ástæður sé að ræða.

Málavextir

I.

Í máli þessu er deilt um hvort sú ákvörðun að vísa C tímabundið úr skóla X hafi verið lögmæt. Í upphafi skal tekið fram að ágreiningur er hjá málsaðilum um suma málavexti og aðdraganda að hinni kærðu ákvörðun, og ber að skoða málavaxtalýsingu þessa í því ljósi.

II.

Eins og málavaxtalýsingar bera með sér, þá hefur C átt við hegðunarvandamál að stríða allt frá því hann byrjaði í leikskóla og hefur verið undir eftirliti og leiðsögn sálfræðinga og lækna vegna þess. Fram kemur að í leikskóla hafi verið unnið með drenginn eftir sjónrænni atferlismótun sem hafi gengið mjög vel. Honum hafi gengið ágætlega í grunnskóla í fyrstu en fljótlega hafi farið að bera á hegðunarvandamálum. Skólaárið 2008-2009 hafi verið unnið með C eftir aðgerðaáætlun sem unnin var af skólanum í samráði við sálfræðing drengsins.

Fram kemur í kæru að 12. febrúar sl. hafi kærendur verið boðaðir á fund aðstoðarskólastjóra. Á fundinum hafi þeim verið tilkynnt að til stæði að víkja syni þeirra tímabundið úr skólanum í 5 virka daga og þeim veitt tækifæri til að koma að athugasemdum sínum af því tilefni en ekki verið veittur frestur í því skyni. Þeir hafi sett fram skriflegar athugasemdir sínar á staðnum og afhent aðstoðarskólastjóranum. Þá hafi þeim verið afhent bréf á móti, dags. sama dag, þar sem C var vísað tímabundið úr skólanum. Í bréfinu var vísað til þess að skólastjórnendur hafi með markvissum hætti, í samráði við kennara, foreldra og utanaðkomandi sérfræðinga reynt að vinna að málefnum drengsins en þrátt fyrir þær aðgerðir, sem miðað hafi að því að ráða bót á málinu, hafi verið einsýnt að breyting hafi ekki orðið til batnaðar. Auk þess hafi verið vísað til atviks sem varð í skólanum þann 11. febrúar sl., er C réðist að stuðningsfulltrúa, beitti hann líkamlegu ofbeldi, notaði meiðandi orðbragð auk þess að hrækja framan í viðkomandi. Þá var tekið fram í bréfinu að foreldrum drengsins hafi verið gefinn kostur á að tjá sig um efni málsins og það hafi þau gert. Loks kom þar fram að það sé ákvörðun aðstoðarskólastjóra, að virtum gögnum málsins og að teknu tilliti til sjónarmiða foreldra í málinu, að vísa C úr skóla tímabundið, í 5 virka daga, á meðan leitað sé leiða til úrbóta. Í bréfi kærenda, sem afhent var á fundinum, kemur m.a. fram að þau telji sig hafa sýnt það í verki að þau hafi vilja til að fylgja syni sínum eftir þegar þess gerist þörf og óskað hefur verið eftir því. Þá telji þau þetta fyrirkomulag hafa gengið vel og séu tilbúin til að fylgja drengnum eftir eins og þurfa þykir.

Í greinargerð lögmanns bæjarfélags Y kemur fram að á yfirstandandi skólaári og fyrri skólaárum C hafi starfsmenn skólans, í samstarfi við ýmsa fagaðila og foreldra, lagt mikla vinnu við skólagöngu drengsins. Sú vinna hafi m.a. falist í gerð áætlana, breytingum á dagsskipulagi, stuðningsúrræðum, uppsetningum á umbunakerfum o. fl. Fjöldi funda hafi verið haldnir og margir aðilar utan og innan skólans komið að þeim. Í upphafi skólaárs hafi máli C verið vísað til nemendaverndarráðs og þar óskað eftir greiningu, en skólasálfræðingur metið það svo að ekki væri þörf frekari greininga en þeirra sem þegar lægju fyrir. Tveimur vikum síðar hafi mál drengsins aftur verið tekið fyrir í nemendaverndarráði og þá vísað til félagsmálastjóra. Í framhaldinu hafi verið ákveðið að miða að tilteknum úrræðum til stuðnings fjölskyldunni. Í október hafi verið gerð breyting á viðveru C í skólanum, sem hafi miðað að því að sleppa honum tímabundið við þann tíma skóladagsins sem honum hafi verið hvað erfiðastur. Drengnum hafi verið úthlutaður fastur tími í Skjóli á hverjum degi og fengið stuðning í öllum þeim tímum sem hann sótti, auk þess sem sérstakt umbunarkerfi hafi verið sett upp.

Þá er því haldið fram í greinargerð lögmanns bæjarfélags Y að kærendur hafi enga lögvarða hagsmuni af því að fá hina kærðu ákvörðun fellda úr gildi, enda séu réttaráhrif hennar fallin niður og þar með engin ákvörðun til að fella úr gildi. Fram kemur í greinargerð að faðir C hafi sótt hann í skólann daginn sem atvikið átti sér stað og seinna um daginn hafi verið hringt til kærenda þar sem þeim hafi verið tilkynnt að kl. 11 daginn eftir yrði haldinn fundur með þeim til að ræða viðbrögð við þessu atviki, en skólayfirvöld hafi litið atburðinn mjög alvarlegum augum og talið nauðsynlegt að bregðast strax við. Faðir drengsins hafi aftur á móti komið í skólann kl. 8 morguninn eftir og þá átt langan fund með stjórnendum skólans. Á fundinum hafi faðirinn komið að öllum sjónarmiðum foreldra og því hafi verið hætt við að halda fyrirhugaðan fund kl. 11 sama dag en þess í stað hafist handa við að vinna úr upplýsingum, m.a. þeim sjónarmiðum sem fram komu á fundinum með föður C. Eftir hádegið hafi kærendur verið boðaðir í skólann þar sem þeim var tilkynnt um ákvörðunina. Ákvörðunin hafi því verið tekin að vel ígrunduðu máli, sérstaklega miðað við erfiðar aðstæður, kærendum veitt raunhæft tækifæri til að undirbúa sig fyrir fund með skólastjórnendum þar sem málin hafi verið rædd ítarlega. Ákvörðunin hafi ekki verið tekin strax eftir þann fund heldur seinna um daginn. Þau skriflegu andmæli sem afhent voru um leið og ákvörðunin var tilkynnt hafi ekki falið neitt nýtt í sér, enda hafi allt komið fram á fundi með föðurnum fyrr um daginn. Það sé því ekki rétt að á fundinum hafi kærendum gefist fyrsta og eina tækifærið til að koma að andmælum. Þá er tekið fram í umsögninni að skólastjóri skóla X hafi ekki komið að ákvörðuninni.

Athugasemdir kærenda við greinargerð lögmanns bæjarfélags Y bárust ráðuneytinu með bréfi, dags. 7. apríl sl. Þar er m.a. mótmælt þeirri lýsingu sem fram kemur í greinargerðinni, um það með hvaða hætti staðið var að brottvikningu C umræddan dag. Faðir drengsins hafi farið í skólann kl. 8 þann 12. febrúar sl. og rætt við tvo aðila úr skólastjórninni um málið með mjög óformlegum hætti. Boðaður fundur hafi verið haldinn kl. 11 sama dag og hafi kærendur mætt á hann. Fundurinn hafi staðið mjög stutt yfir og þeim afhent þar bréf um brottvikninguna. Þau hafi þá óskað eftir því að syni þeirra yrði ekki vísað úr skólanum og lýst því yfir að þau væru reiðubúin að fylgja honum eftir í skólanum alla daga á meðan lausn og úrræði fyndust, sem hafi áður gefið góða raun. Svör skólans hafi verið á þann veg að ákvörðun hefði þegar verið tekin og yrði ekki haggað. Þá hafi kærendur lagt fram bréf sem þau hefðu skrifað heima þar sem fram kom beiðni um að þeim yrði leyft að fylgja drengnum eftir á skólatíma. Þau hafi í kjölfarið haft samband við lögmann sinn, sem hafi sent skólanum beiðni um rökstuðning fyrir ákvörðun um brottvísun drengsins þann sama dag. Mótmæla kærendur lýsingu lögmanns bæjarfélags Y á atvikum þann dag, eins og hún er sett fram í greinargerð, sem rangri og ósannaðri.

III.

Með bréfi ráðuneytisins, dags. 9. mars sl., var óskað eftir afstöðu skólastjóra til fyrirliggjandi kæru, auk upplýsinga og gagna sem brottvísun C byggðist á. Sama dag ritaði ráðuneytið bréf til formanns skólanefndar bæjarfélags Y þar sem gefinn var kostur á að koma að athugasemdum við kæruna, og frekari upplýsingum sem kynnu að varða málið. Greinargerð lögmanns bæjarfélags Y barst ráðuneytinu 24. mars sl. og var send lögmanni kærenda til umsagnar með bréfi, dags. 26. s.m. Athugasemdir þeirra bárust ráðuneytinu 7. apríl sl., og viðbótargögn vegna kærunnar bárust 28. s.m.

Málsástæður

Með hliðsjón af 31. gr. stjórnsýslulaga verður hér einungis fjallað um þær málsástæður sem teljast skipta máli við úrlausn þessa máls, en öll framkomin sjónarmið og málsástæður hafa verið hafðar til hliðsjónar við úrlausn þess.

I.

Fram kemur í kæru að kærendur telji ákvörðun um tímabundna brottvísun drengsins, þann 12. febrúar sl., ólögmæta með öllu, þegar litið sé til forsögu málsins, allrar skólagöngu C og þeirrar aðgerðaáætlunar sem skólinn samdi fyrir hann í samráði við sérfræðinga, og starfað hafði verið eftir. Benda kærendur á að ekki sé starfandi annar grunnskóli í bæjarfélagi Y og því sé ákvörðunin enn alvarlegri og harkalegri þar sem önnur skólaúrræði fyrir drenginn kalli á verulega mikla röskun fyrir hann og fjölskyldu hans. Þá mótmæla þau að þeir atburðir sem áttu sér stað 11. febrúar sl. verði notaðir sem ástæða fyrir brottrekstri þar sem skólayfirvöldum sé fullkomlega ljóst hver vandamál sonar þeirra séu og eigi jafnframt að vera kunnugt um hvernig bregðast skuli við þeim. Kærendur benda á að unnin hafi verið sérstök aðgerðaáætlun í skólanum vegna mála C en svo virðist sem skólinn geti ekki unnið eftir þeim áætlunum sem gerðar hafi verið. Mótmæla þau því að þurft hafi að beita svo íþyngjandi og ströngu úrræði sem brottvísun úr skóla sé og benda á að þetta sé í annað sinn á þessu skólaári sem skólinn grípi til þessa úrræðis. Kærendur sjái ekki tilgang eða markmið með hinni kærðu brottvísun og telja að heimild 4. mgr., sbr. 3. mgr. 14. gr. laga um grunnskóla eigi ekki við þar sem mál sonar þeirra séu og hafi verið í ákveðnum farvegi. Þá telja þau að ákvæðum stjórnsýslulaga hafi ekki verið fylgt við undirbúning hinnar kærðu ákvörðunar og því sé ekki um lögmæta ráðstöfun að ræða. Á fundi þar sem ákvörðun um brottrekstur var tilkynnt kærendum hafi þeim verið gert að koma athugasemdum sínum að samtímis og því augljóst að ákvörðunin hafði þegar verið tekin og andmælaréttur því aðeins veittur til málamynda. Kærendur telji jafnframt rökstuðning skólans fyrir ákvörðun um brottvísun vera með öllu ófullnægjandi og ekki uppfylla ákvæði 22. gr. stjórnsýslulaga um efni rökstuðnings.

II.

Um þá ákvörðun að vísa C tímabundið úr skóla þann 12. febrúar sl. segir í greinargerð lögmanns bæjarfélags Y að hún hafi alls ekki verið meira íþyngjandi en nauðsynlegt var til að bregðast við því alvarlega atviki sem átti sér stað og rakið hefur verið hér að framan. Um nokkurt skeið hafi verið reynt að ráða bót á hegðun drengsins skv. 3. mgr. 14. gr. laga um grunnskóla og ljóst sé að þau mál séu enn óútkljáð og því hafi verið rétt, með hliðsjón af aðstæðum, að vísa C úr skóla skv. 4. mgr. 14. gr. s.l. Þegar sú ákvörðun var tekin hafi öll gögn og upplýsingar um skólagöngu og aðstæður drengsins legið fyrir og þeir sem stóðu að ákvörðuninni hafi þekkt málið mjög vel. Eini hluti málsins sem þurft hafi að rannsaka hafi því verið atvikið sjálft, sem skólayfirvöld hafi litið alvarlegum augum og talið að við því yrði strax að bregðast. Málshraði hafi því verið mjög mikilvægur við ákvarðanatökuna og hafi hin kærða ákvörðun verið tekin að vel ígrunduðu máli, sérstaklega miðað við erfiðar aðstæður. Andmælaréttar kærenda hafi verið gætt, auk þess sem sjónarmið og afstaða þeirra hafi þegar legið fyrir í gögnum málsins. Kærendur geti hins vegar ekki tafið ákvörðunartöku með því að afhenda ný andmæli sem innihaldi engar nýjar upplýsingar eða röksemdir.

Rökstuðningur niðurstöðu

I.

Í 3. mgr. 14. gr. laga um grunnskóla er kveðið á um að reynist hegðun nemanda verulega áfátt beri kennara hans að leita orsaka þess og reyna að ráða á því bót, m.a. með viðtölum við nemandann sjálfan og foreldra hans. Verði samt ekki breyting á til batnaðar skal kennari leita aðstoðar skólastjóra og sérfróðra ráðgjafa skólans sem leita leiða til úrbóta, eftir atvikum að teknu tilliti til hlutverks barnaverndaryfirvalda. Í 4. mgr. sömu greinar kemur fram að skólastjóri geti vísað nemanda úr skóla um stundarsakir eða ótímabundið meðan mál skv. 3. mgr. er óútkljáð, enda tilkynni hann foreldrum nemanda og skólanefnd tafarlaust þá ákvörðun. Um slíka ákvörðun gilda ákvæði stjórnsýslulaga. Brottvísun úr skóla sem er ætlað að vara lengur en einn dag telst stjórnvaldsákvörðun og gilda því um hana ákvæði stjórnsýslulaga, sbr. álit umboðsmanns Alþingis 24. febrúar 1994, máli nr. 761/1993. Um þá ákvörðun sem tilkynnt var kærendum með bréfi, dags. 12. febrúar sl., um brottvísun sonar þeirra úr skólanum, giltu því ákvæði stjórnsýslulaga.

II.

Í 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, með síðari breytingum, er kveðið á um að aðili máls skuli eiga þess kost að tjá sig um efni máls áður en stjórnvald tekur ákvörðun í því, enda liggi ekki fyrir í gögnum málsins afstaða hans og rök fyrir henni eða slíkt sé augljóslega óþarft. Í órjúfanlegum tengslum við greinina eru ákvæði 14. og 15. gr. sömu laga, þar sem annars vegar er mælt fyrir um skyldu stjórnvalds til þess að tilkynna aðila um meðferð máls og um rétt aðila til þess að fá að kynna sér gögn máls. Í athugasemdum með frumvarpi til laga þeirra sem síðan urðu að stjórnsýslulögum nr. 37/1993 kemur fram að kjarni andmælareglunnar sé sá að ekki verði tekin ákvörðun um réttarstöðu aðila fyrr en honum hefur verið gefinn kostur á því að kynna sér málsgögn og málsástæður sem ákvörðun byggist á og að tjá sig um málið. Í reglunni felist því að aðili máls skuli eiga kost á að tryggja réttindi sín og hagsmuni með því að kynna sér gögn máls og málsástæður sem ákvörðun mun byggjast á, leiðrétta framkomnar upplýsingar og koma að frekari upplýsingum um málsatvik áður en stjórnvald tekur ákvörðun í máli hans. Loks segir að andmælareglan eigi ekki aðeins að tryggja hagsmuni aðila. Tilgangur hennar sé einnig sá að stuðla að því að mál verði betur upplýst. Tengist hún þannig rannsóknarreglunni, þ.e. að stjórnvöld eigi að stuðla að því að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga. (Alþt. 1992-93, A-deild, bls. 3295.)

Samkvæmt því sem fram kemur í greinargerð var hringt til kærenda sama dag og atburðurinn átti sér stað og þau boðuð á fund kl. 11 daginn eftir til að ræða viðbrögð við atvikinu. Faðir C hafi aftur á móti komið í skólann kl. 8 morguninn eftir, þá átt langan fund með skólastjórnendum og komið að sjónarmiðum sínum og athugasemdum. Því hafi verið hætt við að halda fyrirhugaðan fund kl. 11 og í stað þess hafist handa við að vinna úr fyrirliggjandi upplýsingum, m.a. sjónarmiðum foreldra. Eftir hádegið hafi kærendur svo verið boðaðir í skólann og þeim tilkynnt um ákvörðunina, um leið og þau hafi afhent skrifleg andmæli sín við henni, sem ekki hafi falið í sér neitt nýtt þar sem sjónarmið og afstaða þeirra hafi þegar komið fram á fundinum og auk þess legið fyrir í gögnum málsins.

Kærendur hafa mótmælt þessari atvikalýsingu umræddan dag. Samkvæmt því sem fram kemur í kæru og athugasemdum við greinargerð lögmanns bæjarfélags Y hafi faðir drengsins farið í skólann kl. 8 12. febrúar sl. og rætt við tvo aðila úr skólastjórninni um málið með mjög óformlegum hætti. Boðaður fundur hafi verið haldinn kl. 11 sama dag og þar tilkynnt að til stæði að víkja C tímabundið úr skólanum. Hafi kærendum verið veitt tækifæri til að koma að athugasemdum sínum en ekki veittur neinn frestur til þess og þau því sett fram skriflegar athugasemdir sínar á staðnum. Hafi þeim verið afhent bréf á móti, dags. sama dag, þar sem tilkynnt var um brottvísunina.

Af fyrirliggjandi gögnum er ljóst að 11. febrúar sl. kom upp atvik þar sem C sýndi af sér þannig framkomu að starfsfólk og stjórnendur skólans þurftu að hafa afskipti af málinu. Enduðu þau afskipti með því að faðir C sótti hann í skólann. Fyrir liggur að við endurkomu drengsins í skólann í október 2008 var samin sérstök áætlun sem unnið skyldi eftir skólaárið 2008-2009, þ. á. m. hvernig skyldi brugðist við í aðstæðum þegar C missir stjórn á skapi sínu.

Í rökstuðningi fyrir umræddri brottvísun kemur fram í bréfi aðstoðarskólastjóra, dags. 19. febrúar sl. að umræddan dag hafi C ráðist að stuðningsfulltrúa og beitt hann líkamlegu ofbeldi, notað meiðandi orðbragð auk þess sem hann hrækti á hana. Síðan segir: „Þetta atvik lítum við alvarlegum augum ekki síst m.t.t. þess að atvik af þessu tagi hafi komið upp áður, því var ákveðið að beita ákvæðum 4. mgr. 14. gr. laga um grunnskóla nr. 91/2008 og vísa honum úr skóla tímabundið. Auk þess styðst þessi ákvörðun við skólareglur skóla X...“ Af umræddum rökstuðningi verður ekki ráðið hvort eða þá með hvaða hætti tekin hafi verið afstaða til sjónarmiða og athugasemda kærenda sem þau afhentu á fundi með aðstoðarskólastjóra 12. febrúar sl. og beindust að því að finna annað og vægara úrræði en brottvísun. Að mati ráðuneytisins kunnu þessi sjónarmið þeirra að vera til þess fallin að ná sáttum í málinu og hafa áhrif á lausn málsins til lengri tíma. Hefði því verið ástæða til að leggja mat á framkomin sjónarmið og athugasemdir kærenda, með tilliti til meðalhófssjónarmiða, hvort önnur úrræði kynnu að vera vænlegri til árangurs. Í því sambandi verður einnig að horfa til þess að umrætt atvik varðaði samskipti 9 ára drengs við starfmann skólans. Var því nauðsynlegt að mati ráðuneytisins að tekin væri afstaða til athugasemda foreldra í þessu samhengi (sbr. Páll Hreinsson, Stjórnsýslulögin, 1994, bls. 231). Í þessu sambandi verður enn fremur að árétta þann tilgang 4. mgr. 14 laga um grunnskóla að tilgangur ákvæðisins er að skapa nauðsynlegt svigrúm fyrir stjórnendur skóla og foreldra til lausnar á vandanum.

Ákvörðun um brottvísun varðar mikilvæg réttindi og skyldur nemenda sem eiga ótvíræðan rétt til þess að sækja grunnskóla og ber jafnframt skylda til þess. Ákvörðun um brottrekstur barns úr skóla er íþyngjandi, um mikilsverða hagsmuni er að tefla og er því mikilvægt að gætt sé hófs við beitingu þessa úrræðis um leið og tryggt er að málsmeðferð samkvæmt stjórnsýslulögum sé fylgt í slíkum tilvikum. Í því sambandi skiptir ekki síður máli að ekki verði dráttur á málsmeðferð og þau úrræði sem nauðsyn þykir að grípa til hafi tilætluð áhrif.

Eins og rakið hefur verið hér að framan ríkir ágreiningur milli málsaðila um það með hvaða hætti samskiptum foreldra og starfsmanna skólans hafi verið háttað 12. febrúar sl. og hvað hafi komið fram þeirra í millum. Hins vegar liggur fyrir að ákvörðun var tekin um brottvísun C sama dag og foreldrum barst vitneskja um að hún væri yfirvofandi.

Ráðuneytið lítur svo að þær aðstæður kunni að koma upp að skólastjórnendur þurfi að bregðast við með skjótum hætti þegar upp koma alvarleg og brýn tilvik sem kallað geta á beitingu úrræða samkvæmt 4. mgr. 14. gr. laga um grunnskóla. Í slíkum tilvikum kann jafnvel að reynast nauðsynlegt að víkja nemanda samdægurs úr skóla. Eigi brottvísun hins vegar að vara lengur en þann sama dag er skólastjórnendum nauðsynlegt að tryggja andmælarétt samkvæmt lagaákvæðinu. Játa verður skólastjórnendum ákveðið svigrúm til að hraða andmælaferlinu í svo alvarlegum málum, þannig að taka megi ákvörðun bæði fljótt og örugglega. Slík íþyngjandi ákvörðun verður hins vegar að byggjast á traustum og málefnalegum forsendum og ber skólastjórnendum að tryggja að andmælaréttur hafi verið veittur með raunhæfum og sannanlegum hætti og rökstudd afstaða sé tekin til framkominna sjónarmiða hlutaðeigandi í málinu áður en ákvörðun er tekin um brottrekstur á grundvelli ákvæðisins.

Eins og hér háttar til, að teknu tilliti til þess ágreinings sem uppi er milli aðila um málsatvik þann 12. febrúar sl., og því að ekki verður slegið föstu að andmælaréttar kærenda hafi fyllilega verið gætt, telur ráðuneytið að ekki verði fullyrt að við undirbúning ákvörðunar um brottvísun C úr skólanum hafi kærendur fengið raunhæft tækifæri til þess að koma að sjónarmiðum sínum áður en hin kærða ákvörðun var tekin og að lagt hafi verið mat á sjónarmið þeirra í ljósi allra atvika málsins.

Samkvæmt framansögðu voru annmarkar á meðferð stjórnenda skóla X á málinu. Skorti þar á að gætt væri andmælaréttar kærenda og tekin væri afstaða til sjónarmiða þeirra með raunhæfum og sannanlegum hætti, og þar með að ákvörðun um brottvísun C væri byggð á nægilega traustum grunni. Að mati ráðuneytisins verður að telja þá annmarka sem hér hefur verið lýst verulega og verður því ekki hjá því komist að ógilda hina kærðu ákvörðun um brottreksturinn, eins og nánar greinir í úrskurðarorðum.

III.

Kærendur halda því einnig fram að meðalhófsregla stjórnsýslulaga hafi ekki verið virt við meðferð málsins. Í 12. gr. stjórnsýslulaga er mælt fyrir um að stjórnvöld skulu því aðeins taka íþyngjandi stjórnvaldsákvörðun þegar lögmætu markmiði, sem að er stefnt, verður ekki náð með öðru og vægara móti. Skal þess þá gætt að ekki sé farið strangar í sakirnar en nauðsyn ber til. Í meðalhófsreglunni felast þrír meginþættir. Í fyrsta lagi er gerð sú krafa að efni ákvörðunarinnar sé til þess fallið að ná því markmiði sem að er stefnt, í öðru lagi skal velja það úrræði sem vægast er þar sem fleiri úrræða er völ er þjónað geta því markmiði sem að er stefnt og í þriðja lagi er gerð sú krafa að gætt sé hófs í beitingu þess úrræðis sem valið hefur verið. Því er óheimilt að beita úrræðinu á harkalegri hátt en nauðsyn ber til. Eins og áður hefur verið rakið varðar ákvörðun um brottrekstur mikilsverða hagsmuni nemenda, réttindi þeirra og skyldur, og er íþyngjandi fyrir þann sem í hlut á. Ráðuneytið hefur komist að niðurstöðu um að andmælaréttar hafi ekki verið nægilega gætt í máli þessu. Að sama skapi verður ekki séð að könnuð hafi verið önnur og vægari úrræði sem kynnu að hafa komið í veg fyrir að grípa þyrfti til brottvísunar í umrætt sinn, svo sem sérstök fylgd stuðningsaðila sem hefði mögulega þjónað því markmiði sem að var stefnt með umræddri brottvísun. Við mat á því hvort meðalhófs hafi verið gætt í máli þessu verður óhjákvæmilega að líta til þess að drengnum hafi fjórum mánuðum áður verið vísað úr sama skóla ótímabundið í þrjár vikur og bar skólastjórnendum því að leita allra leiða, í samvinnu við kærendur, svo til endurtekinnar brottvísunar þyrfti ekki að koma í umrætt sinn. Telur ráðuneytið því að ekki hafi verið gætt meðalhófs við töku hinnar kærðu ákvörðunar, sem telst verulegur annmarki á stjórnvaldsákvörðun og verður því jafnframt að ógilda hana af þeim sökum.

IV.

Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið er það mat ráðuneytisins að sú ákvörðun skólastjóra skóla X að vísa syni kærenda úr skólanum, 12. febrúar sl., sé haldin verulegum annmarka vegna brota á meðalhófsreglu og andmælarétti kærenda. Sú ákvörðun er því ógildanleg af þeim ástæðum, eins og nánar greinir í úrskurðarorðum.

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun skólastjóra skóla X um tímabundna brottvikningu C úr skóla X, sem tilkynnt var um í bréfi til foreldra hans, dags. 12. febrúar 2009, er felld úr gildi.
Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira