Hoppa yfir valmynd

Nr. 262/2022 Úrskurður

 KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 13. júlí 2022 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 262/2022

í stjórnsýslumáli nr. KNU22050050

 

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 30. maí 2022 kærði [...], kt. [...], ríkisborgari Gana ( hér eftir nefnd kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 4. maí 2022, um að synja umsókn hennar um dvalarleyfi á grundvelli a-liðar 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að henni verði veitt ótímabundið dvalarleyfi á Íslandi með vísan til 58. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016 ásamt síðari breytingum, reglugerð um útlendinga nr. 540/2017 ásamt síðari breytingum, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944, mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 auk annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

II.            Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi fékk útgefið dvalarleyfi vegna vistráðningar 18. júlí 2015 með gildistíma til 18. júlí 2016. Hinn 4. janúar 2016 lagði kærandi fram umsókn um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar með íslenskum ríkisborgara. Útlendingastofnun afturkallaði dvalarleyfi hennar vegna vistráðningar 22. janúar 2016 og var kæranda veitt dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar 1. apríl 2016 með gildistíma til 1. apríl 2017. Leyfið var endurnýjað nokkrum sinnum, síðast með gildistíma til 10. ágúst 2022. Samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá Íslands skildu kærandi og maki hennar að borði og sæng 6. maí 2021. Kærandi lagði fram umsókn um ótímabundið dvalarleyfi 3. nóvember 2021. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 4. maí 2022, var umsókn kæranda um ótímabundið dvalarleyfi synjað. Hinn 17. maí 2022 lagði kærandi fram beiðni um endurupptöku á ákvörðun Útlendingastofnunar sem var synjað af hálfu stofnunarinnar 30. maí 2022. Ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 4. maí 2022, var kærð til kærunefndar útlendingamála 30. maí 2022. Hinn 31. maí 2022 bárust kærunefnd viðbótarathugasemdir frá Útlendingastofnun vegna stjórnsýslukæru. Kærunefnd barst greinargerð kæranda 14. júní 2022 ásamt fylgiskjölum. Kærunefnd sendi viðbótarathugasemdir Útlendingastofnunar til kæranda 27. júní 2022.

III.           Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í hinni kærðu ákvörðun vísar Útlendingastofnun til ákvæðis 58. gr. laga um útlendinga. Samkvæmt túlkun kærunefndar útlendingamála leiði af orðalagi a-liðar 1. mgr. 58. gr. laganna að mat á því hvort umsækjandi uppfylli áfram skilyrði dvalarleyfis miðist við þann tíma sem umsókn sé lögð fram. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi kæranda og þáverandi maka skilið að borði og sæng 6. maí 2021 en Útlendingastofnun hefði móttekið umsókn kæranda um ótímabundið dvalarleyfi 3. nóvember 2021. Var það mat Útlendingastofnunar að kærandi uppfyllti ekki skilyrði a-liðar 58. gr. laga um útlendinga og var umsókn hennar því synjað. Fram kom að kæranda hefði ekki verið gefinn kostur á að tjá sig um efni máls, sbr. 1. mgr. 12. gr. laga um útlendinga, enda hefði slíkt verið augljóslega óþarft þar sem fyrir lægi skráning í þjóðskrá um skilnað hennar og fyrrverandi maka að borði og sæng.

IV.       Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda rekur hún málsmeðferð sína hjá íslenskum stjórnvöldum er varðar dvalarleyfi en 1. apríl 2016 hafi hún fyrst fengið útgefið dvalarleyfi vegna hjúskapar við íslenskan ríkisborgara. Hinn 1. apríl 2020 hafi hún því verið búin að uppfylla skilyrði laga um fjögurra ára samfellda dvöl á Íslandi, sbr. 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga. Þegar hún hafi skilið við eiginmann sinn að borði og sæng 6. maí 2021 hafði hún því uppfyllt framangreint skilyrði í þrettán mánuði og á sama tíma einnig skilyrði a-liðar 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga. Dagana 3. nóvember 2021 og 13. maí 2022 hafi hún jafnframt uppfyllt skilyrði 72. gr. laga um útlendinga og því einnig skilyrði a-liðar 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga.

Að mati kæranda er aðeins deilt um það hvort hún uppfylli skilyrði a-liðar 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga. Þegar að núgildandi lög um útlendinga hafi verið sett hafi a-lið 1. mgr. 58. gr. laganna verið breytt og ekki lengur miðað við að útlendingur þyrfti að hafa dvalist hér á landi á sama grundvelli allan tímann. Í núgildandi lögum sé þvert á móti gert ráð fyrir því að útlendingur geti skipt um grundvöll dvalar. Þá megi rökstyðja af orðalagi ákvæðisins að ekki sé nauðsyn að útlendingur uppfylli skilyrði þess dvalarleyfis sem hann dvelur hér á formlega þegar umsókn um ótímabundið dvalarleyfi sé lagt fram, nóg sé að hann uppfylli áfram skilyrði einhvers dvalarleyfis sem veiti grundvöll ótímabundins dvalarleyfis. Íslensk stjórnvöld verði að gæta að því að leggja ekki þyngri skyldur á málsaðila en lög kveði skýrlega á um.

Með hliðsjón af framangreindu byggi kærandi aðallega á því að skilyrði a-liðar 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga hafi vissulega verið uppfyllt þegar hún lagði fram hina upphaflegu umsókn um ótímabundið dvalarleyfi 3. nóvember 2021 enda hafi hún þá uppfyllt skilyrði dvalarleyfis á grundvelli 72. gr. laganna. Þá sé ljóst að kærandi hafi uppfyllt öll skilyrði 58. gr. laga um útlendinga þegar hún lagði fram beiðni um endurupptöku 17. maí 2022, nokkrum dögum eftir að ný umsókn, dags. 12. maí 2022, um dvalarleyfi á grundvelli 72. gr. laga um útlendinga hafi verið lögð fram. Kærandi vekur athygli á því að Útlendingastofnun hafi enn ekki afturkallað núgildandi dvalarleyfi hennar og hún hafi því óslitna dvöl hér á landi enn þann dag í dag ólíkt þeim úrskurðum sem vísað sé til í hinni kærðu ákvörðun.

Í hinni kærðu ákvörðun hafi verið lagt til grundvallar að kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði til að fá dvalarleyfi vegna hjúskapar endurnýjað þegar hún hafi lagt fram umsókn um ótímabundið dvalarleyfi. Kærandi byggir á því til vara að framangreind forsenda Útlendingastofnunar hafi verið röng og ófullnægjandi að teknu tilliti til þess að kærandi hafi á þessum tímapunkti þegar verið búin að öðlast sjálfstæðan rétt til að fá útgefið ótímabundið dvalarleyfi. Kærandi byggir þessa afstöðu í fyrsta lagi á því að dvöl hennar hafi þegar verið komin yfir tímamörk um samfellda dvöl. Við framlagningu umsóknarinnar hafi hún dvalið hér á landi samfellt í rúm fimm ár. Kærandi hafi lagt fram umsókn sína í nóvember 2021 eða tæplega sex mánuðum eftir skilnað sinn að borði og sæng. Því megi telja ljóst að sú umsókn hafi ekki verið gerð á grundvelli hjúskapar við fyrrum íslenskan maka sinn og bar Útlendingastofnun að leiðbeina henni þá strax um stöðu sína. Í öðru lagi byggir kærandi á því að Útlendingastofnun hafi metið það sem svo í hinni kærðu ákvörðun að gildandi dvalarleyfi skyldi ekki afturkallað en þannig myndaði það grundvöll fyrir ótímabundið dvalarleyfi. Kærandi bendir á að dvalarleyfi hennar hafi ekki verið afturkallað og því sé skilyrði 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga fullnægt. Í tilfelli kæranda hafi Útlendingastofnun metið það sem svo, með vísan til meðalhófsreglu og sanngirnisástæðna, að ekki skyldi afturkalla dvalarleyfi hennar. Sú staðreynd leiði hins vegar til þess að kærandi hafi uppfyllt og uppfylli enn skilyrði a-liðar 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga.

V.        Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi ótímabundið dvalarleyfi hafi hann dvalist hér á landi samfellt síðustu fjögur ár samkvæmt dvalarleyfi sem geti verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis. Um nánari skilyrði fyrir veitingu ótímabundins dvalarleyfis er m.a. mælt fyrir um í a-e liðum 1. mgr. 58. gr. laganna. Af orðalagi ákvæðis 1. mgr. 58. gr. má ráða að útlendingur sem sækir um ótímabundið dvalarleyfi þurfi almennt að uppfylla skilyrði a-e-liða 1. mgr. til að fá útgefið leyfið. Samkvæmt a-lið 1. mgr. er skilyrði fyrir veitingu ótímabundins dvalarleyfis að útlendingur uppfylli áfram skilyrði dvalarleyfis þegar hann sækir um ótímabundið dvalarleyfi. Þá leiðir af orðalagi a-liðar 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga að við mat á því hvort umsækjandi uppfyllir áfram skilyrði dvalarleyfis er miðað við þann tíma þegar umsókn er lögð fram.

Af gögnum málsins er ljóst að kærandi hafi 6. maí 2021 fengið leyfi til skilnaðar að borði og sæng frá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu. Hinn 3. nóvember 2021 lagði kærandi fram umsókn um ótímabundið dvalarleyfi á grundvelli 58. gr. laga um útlendinga

Með vísan til framangreinds telur kærunefnd ljóst að kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði a-liðar 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga er hún lagði fram umsókn um ótímabundið dvalarleyfi, enda hafði kærandi og maki hennar þá þegar fengið leyfi til skilnaðar að borði og sæng og skilyrði fyrir útgáfu dvalarleyfis samkvæmt 70. gr. laganna því ekki uppfyllt. Þá telur nefndin að þær undantekningar frá 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga sem kveðið er á um í sama ákvæði geti ekki átt við í máli kæranda. Verður ákvörðun Útlendingastofnunar því staðfest.

Vegna umfjöllunar kæranda um að skilyrði a-liðar 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga hafi verið uppfyllt þar sem hún hafi uppfyllt skilyrði 72. gr. laganna þegar hún lagði fram umsókn um ótímabundið dvalarleyfi í nóvember 2021 tekur kærunefnd fram að þegar kærandi lagði fram umsókn sína um ótímabundið dvalarleyfi hafði kærandi ekki sótt um dvalarleyfi á grundvelli 72. gr. laganna. Var því ekkert tilefni fyrir Útlendingastofnun að taka afstöðu til þess hvort skilyrði til veitingar dvalarleyfis samkvæmt 72. gr. væru uppfyllt þegar kærandi lagði fram umsókn sína um ótímabundið dvalarleyfi.

Af gögnum málsins er ljóst að kærandi hefur nú lagt fram umsókn um dvalarleyfi á grundvelli 72. gr. laga um útlendinga, sbr. 5. mgr. 72. gr. sömu laga. Með vísan til þess telur kærunefnd að kærandi eigi þann möguleika að fá afstöðu Útlendingastofnunar til þess hvort hún uppfylli skilyrði fyrir ótímabundnu dvalarleyfi á grundvelli umsóknar þar um. Með framangreindum leiðbeiningum tekur kærunefnd fram að ekki er tekin afstaða til þess hvort kærandi uppfylli skilyrði laga um útlendinga er varðar ótímabundið dvalarleyfi.

 

 

 

Úrskurðarorð

:

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

Þorsteinn Gunnarsson

 

Gunnar Páll Baldvinsson                                                                               Sandra Hlíf Ocares


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira