Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 708/2021 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 708/2021

Miðvikudaginn 27. apríl 2022

A

gegn

Sjúkratryggingum Íslands

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir.

Með kæru, dags. 17. desember 2021, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála afgreiðslu Sjúkratrygginga Íslands frá 7. október 2021 á umsókn um styrk til kaupa á rafknúnum hjólastól með handstýringu (stýri).

I. Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 23. september 2021, var sótt um styrk til kaupa á rafknúnum hjólastól með handstýringu (stýri). Með bréfi Sjúkratrygginga Íslands, dags. 7. október 2021, samþykktu Sjúkratryggingar Íslands umsóknina með 100% þátttöku í kostnaði. Tekið var fram í bréfinu að Sjúkratryggingar Íslands greiddu 235.000 kr. fyrir þessa stærð af rafskutlu.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 29. desember 2021. Með bréfi, dags. 3. janúar 2022, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Sjúkratrygginga Íslands ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 10. janúar [2022], barst greinargerð stofnunarinnar og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 11. janúar 2022. Athugasemdir bárust með tölvupósti frá kæranda þann 14. janúar 2022 og voru þær sendar Sjúkratryggingum Íslands til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 18. janúar 2022. Viðbótargreinargerð, dags. 31. janúar [2022], barst frá Sjúkratryggingum Íslands og var hún send kæranda til kynningar með bréfi nefndarinnar, dagsettu sama dag. Þann 7. febrúar 2022 bárust athugasemdir með tölvupósti frá kæranda og voru þær kynntar Sjúkratryggingum Íslands með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 8. febrúar 2022. Frekari athugasemdir bárust ekki.


 

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi óskar endurskoðunar á afgreiðslu Sjúkratrygginga Íslands á styrk til kaupa á rafknúnum hjólastól með handstýringu (stýri) og að hann fá hærri styrk sem sé sambærilegur kaupum á rafhjólastól.

Í kæru greinir kærandi frá því að hann hafi sótt um létta rafskutlu í október 2021. Ástæða umsóknarinnar sé verulega skert göngufærni hans, lélegt gönguúthald og jafnvægi vegna þess sjúkdóms sem hann sé með. Samkvæmt sérfræðilæknum sé hann með […] sem sé sjaldgæfur taugasjúkdómur en tíðni þess sjúkdóms sé 1-9/1.000.000 samkvæmt orpha. Engin lækning sé til við þessum sjúkdómi eins og staðan sé nú. Ekki sé vitað hver hröðun þessa sjúkdóms verði á getu kæranda til hreyfingar og sjálfsbjörgunar en undanfarin ár hafi færni hans minnkað töluvert. Afleiðingar þessa sjúkdóms séu þekktar, lífið endi í hjólastól en þangað til vilji kærandi geta notað þann kraft og styrk sem hann hafi til að komast um og taka þátt sem mest sem hann geti með aðstoð rétta hjálpartækisins sem henti honum.

Samkvæmt 2. gr. reglugerðar nr. 760/2021 um styrki vegna hjálpartækja komi fram að tilgangur hjálpartækja sé sagður „að aðstoða fatlaða til að takast á við umhverfi sitt, auka eða viðhalda færni og sjálfsbjargargetu“. Í 3. gr. sömu reglugerðar segi að hjálpartækinu sé ætlað að vera til að auðvelda athafnir daglegs lífs og sé tæki til sjálfsbjargar og öryggis. Umsókn kæranda fjalli einmitt um það. Hann breyti því ekki að vera veikur og missa allan mátt og að vera tekinn úr umferð í lífinu vegna þessa taugahrörnunarsjúkdóms löngu fyrr en hann hafði hugsað sér en hann óski eftir að fá að nýta tímann sem honum sé gefinn til þess að fá að taka þátt sem mest hann geti með aðstoð hjálpartækis sem hann passi í.

Tauga- og vöðvarýrnun kæranda hafi aukist síðastliðin ár og hreyfifærni hans minnkað verulega. Hann geti lítið gengið og þá einungis stuttar vegalengdir í einu, fæturnir beri hann oft ekki og hann haldi illa jafnvægi. Honum finnist öryggi sínu ógnað þar sem jafnvægið hafi brugðist honum oftar en ekki og hann lent illa marinn og meiddur eftir að hafa lent í götunni. Fyrir utan líkamlega afturför og skakkaföll þá hafi þessi sjúkdómur einnig haft mikil andleg áhrif á hann. Kærandi hafi einangrast félagslega vegna verulegrar skertrar hreyfigetu. Hann hafi ávallt verið mjög hraustur og mikil félagsvera og því hafi sjúkdómurinn tekið mikinn toll af lífi hans á seinni árum. Hann geti ekki lengur farið með konunni sinni í göngutúra um bæinn eða um nánasta umhverfi, ekki farið í búðir hvort sem það séu almenn innkaup eða jólainnkaup eða skemmtilegri athafnir eins og að fara á söfn eða ferðast eins og þau langi til. Hann hafi ekki færi á að fylgjast með barnabörnunum í tómstundum þeirra þar sem oft þurfi að labba eða standa í langan tíma. Að mati kæranda hafi hann verið að missa af miklu, missa af samverustundum með sínum nánustu sem hann harmi mjög, en á sama tíma sé ekkert að gert vegna sjúkdóms hans sem og skorts á viðeigandi hjálpartæki. Honum þyki nóg að þurfa að berjast við líkamlega afturför og þann sársauka sem því fylgi þó að hann þurfi ekki að berjast við andlegt þrot líka. Hann eigi enn inni mikilvægan og dýrmætan tíma sem hann eigi að geta notið með sínum nánustu á meðan hann hafi enn þrótt til þess að taka þátt í lífinu. Hann þurfi eingöngu rétta hjálpartækið til að hann geti það, tæki í réttri stærð fyrir sig.

Í umsókn sinni hafi kærandi sótt sérstaklega um Atto Sport rafskutluna eftir að hafa mátað margar aðrar týpur rafskutla sem hafi engan veginn passað honum vegna hæðar hans. Kærandi sé vel yfir meðalhæð, sé X cm á hæð og leggjalangur, og framangreind týpa af rafskutlu henti honum mjög vel af nokkrum ástæðum. Hann sitji rétt í þessari týpu og sé með góðan bakstuðning sem aðrar skutlur hafi ekki getað veitt. Hún rúmi hann betur en aðrar og hafi einnig töluvert meira og stærra pláss fyrir fætur hans en aðrar rafskutlur. Kærandi hafi prófað margar aðrar týpur sem séu í boði og hann passi einfaldlega ekki í þær vegna hæðar sinnar.

Kærandi hafi fengið jákvætt svar frá Sjúkratryggingum Íslands um fullan styrk fyrir rafskutlu en sá styrkur hljóði upp á 235.000 kr. Hins vegar kosti Atto rafskutlan með örmum og stafahaldara, sem hann þurfi á að halda, 1.099.880 kr. miðað við gjaldskrá þann 6. júní 2021. Þarna sé talsverður munur á milli sem kærandi þurfi að borga og hafi einfaldlega ekki efni á, hann sé öryrki og með mjög takmarkaða innkomu til að lifa á. Honum hafi verið bent á að hann gæti sótt um rafknúinn léttan hjólastól og fengið hann gjaldfrjálsan. Slíkur stóll kosti nú rúmar 500.000 kr.

Kæranda langi til að fá tækifæri til að taka þátt í lífinu á meðan hann geti og hafi þrótt til í stað þess að vera „plantað“ einhvers staðar og geta ekki farið vegna skorts á hreyfifærni og réttu hjálpartæki. Kærandi hafi nú þegar misst margt og af ótal mörgu en hann sjái fram á að Atto Sport rafskutla geti gert honum kleift að komast um, aðstoðað hann við athafnir daglegs lífs og að hann geti tekið þátt í lífinu með fólkinu sínu, verið öruggur og þau öruggari um hann. Kerfið eigi ekki að mismuna fólki, hvorki eftir hæð, þyngd né fjárhagsstöðu og sú staðreynd að kerfið geti stutt hann til kaupa á hjólastól að andvirði 500.000 kr. sem ekki sé þörf á á þessum tíma en geti svo einungis stutt hann um 200.000 kr. styrk á léttara farartæki, sem sannarlega eigi við um þarfir hans nú og myndi auka lífsgæði hans verulega, sé dæmi um kerfi sem taki ekki mannlega þáttinn inn í sína ákvörðunartöku.

Eins og staðan sé nú sé kærandi ekki tilbúinn til þess að fara í hjólastól, hvorki andlega né líkamlega, enda sé það stórt skref að taka. Auk þess telji hann sig ekki heldur vera kominn á þann stað að þurfa slíkan stól sem honum finnist vera lykilatriði hér. Reglugerð um hjálpartæki taki skýrt fram að hjálpartæki séu „tæki sem ætlað er að draga úr fötlun, aðstoða fatlaða við að takast á við umhverfi sitt, auka eða viðhalda færni og sjálfsbjargargetu eða auðvelda umönnun“. Hjálpartækið eigi sem sagt að leiða til aukinnar færni eða viðhalda þeirri færni sem fyrir sé, en ekki að ýta einstaklingum í meira íþyngjandi hjálpartæki en þörf sé fyrir. Kærandi sé að leitast eftir því að fá hjálpartæki sem henti þörfum hans á þessum tíma, í réttri stærð, fyrir mann sem sé yfir X á hæð.

Kerfið eigi ekki að mismuna fólki eftir því hvaða tegund rafknúinna hjálpartækja henti ríkinu að veita einstaklingi fullan styrk, heldur eigi að taka tillit til einstaklingsins og notagildi hvers hjálpartækis fyrir hann. Sé kærandi metinn til að geta fengið rafdrifinn hjólastól að verðmæti um 500.000 kr. þá telji hann að hann ætti að geta fengið verðmæti rafhjólastólsins sem upphæð styrks til kaupa á rafskutlu sem henti honum betur.

Kærandi beini því til úrskurðarnefndar velferðarmála að styðja hann í þessari viðleitni sinni til að halda í þá færni og reisn sem hann hafi enn með því að úrskurða um hærri styrk og sambærilegan kaupum á rafhjólastól svo að raunhæft sé fyrir hann að fjárfesta í hjálpartæki sem henti honum eða að Sjúkratryggingum Íslands sé gert kleift að fjárfesta í kaupum á slíku hjálpartæki sem Atto rafskutlan yrði í hans daglega lífi.

Í athugasemdum kæranda við greinargerð Sjúkratrygginga Íslands greinir kærandi frá því að hann muni ekki hvaða týpur það hafi verið sem hann hafi prufað en hann hafi prufað það sem hafi verið í boði, bæði í Fastus og Eirbergi. Þær skutlur sem hafi verið í boði þar hafi verið of litlar fyrir hann, sem hafi verið aðalmálið, en einnig hafi þær verið fyrirferðarmeiri í bíl og meira mál að pakka þeim saman en Atto skutlan og skipti það einnig miklu máli. Einhverjar hafi ekki verið hæfar til að taka með sér til útlanda sem skipti ekki síður miklu máli því ekki verði kærandi hæfari til göngu á erlendri grund en íslenskri. Kærandi hafi einnig farið í Stoð en þar hafi engar skutlur verið í boði með þessum eiginleikum svo að hann hafi ekkert mátað þar.

Í athugasemdum kæranda við viðbótargreinargerð Sjúkratrygginga Íslands bendir hann á að ekki sé allt fólk að sömu stærð og þessar rafskutlur sem Sjúkratryggingar Íslands séu með samninga um henti honum bara alls ekki, X cm háum manninum. Kærandi veltir fyrir sér hvar sé þá jafnræði á milli umsækjenda. Kærandi hefði engan veginn getað notað þær rafskutlur sem boðið sé upp á og hver væri tilgangurinn með því að taka þannig skutlu þar sem illa hefði farið um kæranda og endað með að hann hefði gefist upp á að nota. Það geti ekki verið í lagi að bjóða ekki hjálpartæki fyrir alla og Sjúkratryggingar Íslands hafi ekki boðið upp á tæki sem hafi hentað. Því ætti styrkur til að kaupa tæki að vera í það minnsta eins hár og þær rafskutlur kosti sem Sjúkratryggingar Íslands bjóði upp á.

III. Sjónarmið Sjúkratrygginga Íslands

Í greinargerð Sjúkratrygginga Íslands segir að sótt hafi verið um styrk til kaupa á rafknúnum hjólastól með handstýringu (stýri) með umsókn, dags. 23. september 2021. Með ákvörðun stofnunarinnar, dags. 10. október 2021, hafi umsókn verið samþykkt. Samkvæmt reglum Sjúkratrygginga Íslands sé hámarksgreiðsluþátttaka í rafskutlu af þeirri gerð sem sótt hafi verið um 235.000 kr. m.vsk. Kæra byggi á því að kærandi telji styrk of lágan og óski eftir að fá hærri styrk sambærilegan við styrk fyrir rafknúnum hjólastól (500 þús.) sem hann ætti einnig rétt á.

Reglugerð nr. 760/2021 um styrki vegna hjálpartækja sé sett samkvæmt ákvæði 1. mgr. 26. gr. laga nr. 112/2008 um sjúkratryggingar, en þar segi að sjúkratryggingar taki þátt í kostnaði við öflun nauðsynlegra hjálpartækja sem séu til lengri notkunar en þriggja mánaða, með takmörkunum og samkvæmt nánari ákvæðum reglugerðar sem ráðherra setur.

Framangreind reglugerð kveði endanlega á um hvaða hjálpartæki sé unnt að fá styrk til kaupa á, greiðsluhluta Sjúkratrygginga Íslands og magn hjálpartækja til sérhvers sjúkratryggðs einstaklings þegar það eigi við. Umsókn skuli meta eftir færni og sjúkdómi hvers og eins umsækjanda og kveði reglugerðin á um þau skilyrði sem uppfylla þurfi í hverju tilfelli.

Í 4. gr. reglugerðarinnar komi fram hvaða kröfur séu gerðar til hjálpartækja til að hægt sé að fá samþykktan styrk. Þar komi fram að styrkur geti verið greiddur sem ákveðið hlutfall af verði hjálpartækis og/eða ákveðin fjárhæð til kaupa á hjálpartæki.  Í 2. mgr. sömu greinar komi fram að sé um að ræða samninga Sjúkratrygginga Íslands í kjölfar útboðs, sé styrkur frá stofnuninni háður því að hjálpartæki sé keypt hjá tilteknu samningsbundnu fyrirtæki. Enn fremur komi fram í sömu málsgrein að þar sem stofnunin hafi ekki gert samninga sé leitað tilboða í einstök hjálpartæki og vörur eða gerðar verðkannanir og styrkveiting miðuð við það verð. Styrkur frá stofnuninni sé þannig ávallt bundinn við tiltekna tegund og gerð hjálpartækis.

Í umsókn kæranda hafi verið óskað eftir ákveðinni tegund af rafskutlu (Atto max). Verð á þeirri skutlu sé mun hærra en almennt gerist á rafskutlum og mun hærra en Sjúkratryggingar Íslands hafi nokkurn tíma greitt fyrir rafskutlu. Í lögum um sjúkratryggingar nr. 112/2008 komi fram í 47. gr. að Sjúkratryggingum Íslands beri að leita bestu mögulegu kjara, að teknu tilliti til gæða, á þeim vörum og þjónustu sem stofnunin greiði eða taki þátt í að greiða.

Fram til 1. desember 2021 hafi ekki verið í gildi samningar um rafskutlur og því hafi styrkir fyrir þær verið ákvarðaðir út frá verðkönnunum sem gerðar séu árlega eins og ákvæði í 4. gr. reglugerðar kveður á um. Styrkjum var skipt í þrjá flokka eftir stærð rafskutla. Þegar styrkir voru ákvarðaðir var tekið meðaltal af verði hvers flokks miðað við þær rafskutlur sem hafa verið samþykktar hjá Sjúkratryggingum Íslands. Hámarksstyrkur fyrir stórar og kraftmiklar skutlur var 590 þús.kr., styrkur fyrir millistærð var 385 þús. kr. og fyrir minnsta flokkinn var styrkurinn 235 þús. kr. Þegar síðasta könnun var gerð í lok maí 2021, var Atto max, sú skutla sem um ræðir, ekki með í samanburði því að hún var ekki til sölu á Íslandi.

Í umsókn kæranda komi fram að þessi tiltekna rafskutla hafi orðið fyrir valinu því að aðrar sem prófaðar hafi verið hafi reynst of litlar. Ekki komi fram í umsókn hvaða skutlur hafi verið prófaðar en á markaði séu skutlur sem séu sambærilegar við þá sem óskað sé eftir en á mun lægra verði. Benda megi á upplýsingar á heimasíðu stofnunarinnar um þær rafskutlur sem samningur hafi verið gerður um, undir kaflanum Rafknúnir hjólastólar með handstýringu.[1] Upplýsingar um þá rafskutlu sem kærandi óski eftir sé að finna á slóð Atto Sport Max.[2]

Í greinargerð kæranda komi fram að hann óski eftir að fá sambærilegan styrk og hægt væri að fá vegna hjólastóls. Vísað skuli til 2. mgr. 4. gr. reglugerðar um hjálpartæki en þar komi fram: „Styrkur frá stofnuninni er þannig ávallt bundinn við tiltekna tegund og gerð hjálpartækis“. Styrkurinn sé því ávallt bundinn því tæki sem verið sé að kaupa og ekki heimilt að yfirfæra hann yfir á aðra tegund tækis.

Þess beri einnig að geta að eftir 1. desember 2021 hafi verið gerður samningur í kjölfar útboðs um verð á rafskutlum. Sú skutla sem kærandi óski eftir (Atto max) hafi ekki verið tekin inn í samning við Sjúkratryggingar Íslands vegna þess hve hátt verð á henni sé. Nú hafi Sjúkratryggingar Íslands því ekki heldur heimild til að samþykkja styrk fyrir kaupum á þeirri skutlu.

Það sé mat Sjúkratrygginga Íslands að í samræmi við 4. gr. reglugerðar nr. 760/2021 sé stofnuninni eingöngu heimilt að veita styrk til kaupa á rafskutlu í samræmi við niðurstöðu verðkönnunar. Verðkönnun á rafskutlum hafi verið gerð í maí 2021. Í samræmi við niðurstöðu þeirrar könnunar sé styrkur fyrir þann flokk rafskutla, sem óskað sé eftir í umsókn kæranda, 235.000 kr. Sjúkratryggingum Íslands sé því eingöngu heimilt að veita styrk í samræmi við þá upphæð.

Með vísan til framangreinds beri að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

Í viðbótargreinargerð Sjúkratrygginga Íslands er bent á að rafskutlur séu skilgreindar í fylgiskjali með reglugerð nr. 760/2021 sem rafknúinn hjólastóll með stýri ISO nr. 12 23 03 og styrkir um úthlutanir á þeim falli því undir kafla 1223 í fylgiskjali með reglugerð.

Í kafla 1223 komi fram:

,,Rafknúnir hjólastólar eru að jafnaði greiddir ef viðkomandi getur ekki notað handdrifinn hjólastól eða komist lengri ferðir á handdrifnum hjólastól. Sjúkratryggingar Íslands ákvarða hvaða rafknúnir hjólastólar, hleðslutæki og rafgeymar eru keyptir í hverju tilviki og úthlutar þeim síðan til notkunar meðan þörf einstaklingsins er fyrir hendi....“

Á þeim tíma sem umsókn hafi komið frá kæranda hafi ekki verið til staðar samningar um rafskutlur (rafknúna hjólastóla með stýri). Þá hafi Sjúkratryggingum Íslands borið að fara eftir þeim fyrirmælum sem fram komi í 4. gr. reglugerðar nr. 760/2021 en þar komi fram að þar sem stofnunin hafi ekki gert samninga sé leitað tilboða í einstök hjálpartæki og vörur eða gerðar verðkannanir og styrkveiting miðuð við það verð.

Kærandi hafi fengið styrk í samræmi við þær reglur sem hafi gilt um styrki fyrir rafskutlur á þeim tíma sem umsókn hafi borist. Stofnuninni sé ekki heimilt að breyta frá þeim reglum þó svo að umsækjandi ákveði að velja skutlu sem sé dýrari en styrkur. Kæranda sé að sjálfsögðu frjálst að velja þá skutlu sem hann telji að henti sér best, en það breyti ekki þeim reglum sem Sjúkratryggingar Íslands séu bundnar af til að fara eftir við afgreiðslu styrkja.

Þá er upplýst að Sjúkratryggingar Íslands hafi áður veitt styrk vegna skutlu sömu gerðar og óskað sé eftir í umsókn kæranda. Sá styrkur hafi verið miðaður við sömu reglur og sá styrkur sem veittur sé til kæranda. Sjúkratryggingum Íslands beri að gæta jafnræðis á milli umsækjanda.

IV. Niðurstaða

Mál þetta varðar afgreiðslu Sjúkratrygginga Íslands á umsókn kæranda um styrk til kaupa á rafknúnum hjólastól með handstýringu (stýri).

Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laga nr. 112/2008 um sjúkratryggingar taka sjúkratryggingar þátt í kostnaði við öflun nauðsynlegra hjálpartækja sem eru til lengri notkunar en þriggja mánaða, með takmörkunum og samkvæmt nánari ákvæðum reglugerðar sem ráðherra setur. Í reglugerðinni skal meðal annars kveðið á um hvaða hjálpartæki sjúkratryggingar taki þátt í að greiða og að hve miklu leyti.

Í 2. mgr. 26. gr. laga um sjúkratryggingar hefur hjálpartæki verið skilgreint þannig að um sé að ræða tæki sem ætlað sé að draga úr fötlun, aðstoða fatlað fólk við að takast á við umhverfi sitt, auka eða viðhalda færni og sjálfsbjargargetu eða auðvelda umönnun. Einnig segir að hjálpartækið verði jafnframt að teljast nauðsynlegt og hentugt til að auðvelda athafnir daglegs lífs.

Reglugerð nr. 760/2021 um styrki vegna hjálpartækja hefur verið sett með stoð í framangreindu ákvæði. Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar greiða Sjúkratryggingar Íslands styrki vegna hjálpartækja sem eru til lengri notkunar en þriggja mánaða til að auðvelda einstaklingum að takast á við athafnir daglegs lífs. Einkum er um að ræða hjálpartæki til sjálfsbjargar og öryggis og í ákveðnum tilvikum til þjálfunar og meðferðar.

Samkvæmt 4. gr. reglugerðarinnar eru styrkir eingöngu veittir til kaupa á þeim hjálpartækjum sem tilgreind eru í fylgiskjali með reglugerðinni, að uppfylltum öðrum skilyrðum hennar. Í fylgiskjalinu er að finna lista yfir þau hjálpartæki sem Sjúkratryggingar Íslands taka þátt í að greiða. Í kafla 1223 er fjallað um rafknúna hjólastóla og þar segir meðal annars:

„Rafknúnir hjólastólar eru að jafnaði greiddir ef viðkomandi getur ekki notað handdrifinn hjólastól eða komist lengri ferðir á handdrifnum hjólastól. Sjúkratryggingar Íslands ákvarða hvaða rafknúnir hjólastólar, hleðslutæki og rafgeymar eru keyptir í hverju tilviki og úthlutar þeim síðan til notkunar meðan þörf einstaklingsins er fyrir hendi.“

Í 2. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar segir síðan:

„Þegar um er að ræða samninga Sjúkratrygginga Íslands í kjölfar útboðs, sbr. IV. kafla laga um sjúkratryggingar, er styrkur frá stofnuninni háður því að hjálpartæki sé keypt hjá tilteknu samningsbundnu fyrirtæki. Sjúkratryggingar Íslands skulu veita upplýsingar um aðila sem stofnunin hefur gert samninga við og um hvaða hjálpartæki er að ræða. Þar sem stofnunin hefur ekki gert samninga er leitað tilboða í einstök hjálpartæki og vörur eða gerðar verðkannanir og styrkveiting miðuð við það verð. Styrkur frá stofnuninni er þannig ávallt bundinn við tiltekna tegund og gerð hjálpartækis.“

Kærandi sótti um styrk til kaupa á rafknúnum hjólastól með handstýringu (stýri) af gerðinni Atto Sport Max. Við afgreiðslu málsins hjá Sjúkratryggingum Íslands í september 2021 voru ekki til staðar samningar um rafskutlur og voru því styrkir ákvarðaðir út frá verðkönnunum í samræmi við 2. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 760/2021. Samkvæmt verðkönnuninni er upphæð styrks fyrir þann flokk rafskutla, sem kærandi óskaði eftir, 235.000 kr.

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, telur skýrt samkvæmt fylgiskjali reglugerðar nr. 760/2021 um styrki vegna hjálpartækja að greiðsluþátttaka í kostnaði vegna rafknúinna hjólastóla með handstýringu (stýri) sé 100% og að í þeim tilvikum sem sótt er um styrk fyrir hjálpartæki, sem ekki hafi verið samið um, skuli leita eftir tilboði í hjálpartækið eða styrkveiting miðuð við verð samkvæmt verðkönnun, sbr. 2. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar.

Að öllu framangreindu virtu verður ekki annað séð en að Sjúkratryggingar Íslands hafi greitt kæranda styrk í fullu samræmi við það sem kveðið er á um í reglugerð nr. 760/2021. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur því ekki skilyrði fyrir frekari greiðsluþátttöku vegna kaupa á rafskutlu í tilviki kæranda.

Afgreiðsla Sjúkratrygginga Íslands á umsókn kæranda um styrk til kaupa á rafknúnum hjólastól með handstýringu (stýri) er því staðfest.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Afgreiðsla Sjúkratrygginga Íslands á umsókn A, um styrk til kaupa á rafknúnum hjólastól með handstýringu (stýri), er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 

 [1]https://www.sjukra.is/media/gatlistar-hjalpartaekja/Vorulisti-Rafknunir-hjolastolar-skjavaenn-breyting-23122021.pdf

[2] mobilityscootersplus.com


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira