Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 21/2012. Ákvörðun kærunefndar útboðsmála:

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 1. ágúst 2012

í máli nr. 21/2012:

Verktakafélagið Glaumur ehf.

gegn

Vegagerðinni

Með bréfi, dags. 12. júlí 2012, kærir Verktakafélagið Glaumur ehf. útboð Vegagerðarinnar „Strandavegur (643): Djúpvegur – Geirmundarstaðavegur“. Kærandi gerir eftirfarandi kröfur:

1.        Að kærunefnd útboðsmála stöðvi innkaupaferli á grundvelli útboðsins þar til endanlega hefur verið leyst úr kæru, sbr. 1. mgr. 96. gr. laga nr. 84/2007 um opinber innkaup.

2.        Að nefndin ógildi ákvörðun kærða um að vísa frá tilboði kæranda, sbr. 1. mgr. 97. gr. laga nr. 84/2007.

3.        Að nefndin felli úr gildi ákvörðun kærða um að hefja samningsgerð við bjóðandann Borgarverk ehf.

4.        Að því frágengnu, að nefndin láti uppi álit sitt á skaðabótaskyldu kærða gagnvart kæranda vegna þeirrar ákvörðunar kærða að vísa tilboði kæranda frá, sbr. 2. mgr. 97. gr. laga nr. 84/2007.

5.        Í öllum tilvikum er þess krafist að nefndin úrskurði að kærði greiði kæranda kostnað við að hafa kæruna uppi, sbr. 3. mgr. 97. gr. laga nr. 84/2007.

Kærða var kynnt kæran þegar hún barst og gefinn kostur á að gera athugasemdir. Sérstaklega var óskað eftir athugasemdum kærða vegna kröfu kæranda um stöðvun. Með bréfi, dags. 17. júlí 2012, krefst kærði þess að öllum kröfum kæranda verði hafnað, þ. á m. kröfu um stöðvun innkaupaferlis.

Í þessum hluta málsins tekur kærunefnd útboðsmála til skoðunar hvort rétt þyki að stöðva samningsgerð í tengslum við útboðið. Endanlega verður leyst úr efnisatriðum kærunnar síðar.

 

I.

Kærði auglýsti í maí 2012 útboðið „Strandavegur (643): Djúpvegur – Geirmundarstaðavegur“. Með auglýsingunni óskaði kærði eftir tilboðum í nýlögn Strandavegar (643) milli Djúpvegar og Geirmundarstaðavegar í Steingrímsfjarðarbotni í Strandabyggð í Strandasýslu. Samkvæmt útboðsgögnum skal verkinu vera að fullu lokið eigi síðar en 15. nóvember 2013.

Í kafla 1.6 í útboðsgögnum er fjallað um gerð samnings, en þar segir meðal annars:

„Með tilboði sínu skal bjóðandi skila inn upplýsingum í samræmi við kröfur í lið 1.8 Hæfi bjóðenda, lið 1.11 Gæðakerfi verktaka og öllum upplýsingum um fjárhagsstöðu og reynslu stjórnenda í samræmi við lið 2.2.2, útfylltum eyðublöðum um verkreynslu bjóðanda og yfirstjórnenda ásamt reynslu í notkun gæðastjórnunarkerfa. Vanti upplýsingar og/eða þær eru ófullnægjandi mun verkkaupi vísa tilboði frá við yfirferð gagna. Verkkaupi áskilur sér rétt til að láta minni háttar vöntun eða formannmarka á fylgigögnum með tilboði ekki hafa áhrif á gildi tilboða, enda hafi vöntunin eða annmarkinn að mati verkkaupa ekki áhrif á tölulega niðurstöðu tilboðsins, jafnræði bjóðenda sé ekki raskað og ógilding tilboðs fæli í sér strangari ákvörðun en nauðsynlegt væri vegna eðlis og umfangs annmarkans.“

Í kafla 1.11 í útboðsgögnum er kveðið á um gæðakerfi verktaka. Þar segir:

„Gerð er krafa um að bjóðandi vinni samkvæmt skilgreindu gæðastjórnunarkerfi og skal hann eða stjórnendur verksins hafa unnið með gæðastjórnunarkerfi í að minnsta kosti einu verki og leggja fram gögn þar að lútandi. Gæðastjórnunarkerfið skal taka mið af ÍST EN ISO 9001 staðlinum. Gæðastjórnunarkerfið skal hafa að markmiði að allar aðgerðir séu kerfisbundnar og auðraktar. Það skal innifela skipulagða skjalavistun og handbók sem er viðhaldið. Bjóðandi skal leggja fram með tilboði lýsingu á/yfirlit yfir það gæðastjórnunarkerfi sem hann vinnur með, ásamt upplýsingum um verk það sem gæðastjórnunarkerfið hefur verið notað.

Eftirfarandi atriði skulu koma fram í lýsingu/yfirliti: Hlutverk og starfssvið fyrirtækisins, stjórnskipulag þess og ábyrgðarskipting; Gæðastefna; Lýsing á/verklagsregla um meðferð samningsgagna (verkfyrirmæla/-teikninga og dreifingu þeirra); Verklagsregla um vistun og geymslu skjala; Verklagsregla um útgáfustýringu skjala; Verklagsregla(ur) um meðferð frábrigða og umbætur.

Verktaki með vottað gæðastjórnunarkerfi fyrir viðkomandi starfsemi getur skilað vottunarskírteini í stað lýsingar/yfirlits.

Fyrir verkbyrjun skal verktaki leggja fram: Gæðaskipulag (gæðaáætlun) verksins. Gæðaskipulagið skal innihalda stjórnskipulag verks og ábyrgðarskiptingu; Gæðastýringaráætlun (eftirlitsáætlun) verksins. Áætlunin skal byggja á kröfum samningsgagna. Tilgreind skulu gögn sem staðfesta að gæðakröfur séu uppfylltar.

Á verktíma skal verktaki leggja fram eftirfarandi gögn: Eigi síðar en 10 dögum áður en vinna við tilgreindan verkþátt hefst, skal verktaki leggja fram, eins og við á, lýsingar á framkvæmd verkþáttarins; Gögn sem sýna að gæðastýringaráætlun sé fylgt. Þar á meðal niðurstöður mælinga og prófana og eru þær grunnur að verkuppgjöri. Gögnin skulu vera verkkaupa aðgengileg á verktíma. Verktaki skal afhenda verkkaupa þessi gögn í verklok sem hluta af verkskilum; Þar sem þess er krafist skal verktaki framvísa fullgildum uppruna- og gæðavottorðum til samþykktar hjá verkkaupa vegna efnis sem hann hyggst leggja til verksins.

Verkkaupa er heimilt að gera úttekt á gæðastjórnunarkerfi verktaka.“

Útboðið var svo sem áður greinir auglýst í maí 2012. Útboðsgögn voru aðgengileg og seld á skrifstofum kærða í Reykjavík og Borgarnesi frá og með 28. maí 2012. Samkvæmt útboðsgögnum var fyrirspurnarfrestur til 12. júní sama ár en svarfrestur ótiltekinn. Skilafrestur tilboða var fyrir kl. 14.00 19. sama mánaðar og var opnunartími tilboða fyrirhugaður sama dag kl. 14.15. Tilboð í hinu kærða útboði voru opnuð samkvæmt áætlun og skiluðu fimm bjóðendur tilboðum, þ. á m. kærandi, sem var lægstbjóðandi og bjóðandinn Borgarverk ehf., sem átti næst lægsta tilboð útboðsins. Samkvæmt gögnum málsins er kostnaðaráætlun kærða vegna verksins að fjárhæð 194.600.000 krónur, tilboð kæranda að fjárhæð 147.706.200 krónur og tilboð bjóðandans Borgarverks ehf. að fjárhæð 166.520.000 krónur.

Með bréfi kærða 3. júlí 2012 var kæranda tilkynnt um þá ákvörðun kærða að vísa tilboði kæranda frá og ganga til samninga við bjóðandann Borgarverk ehf. Þar upplýsti kærði einnig um að fyrirhugað væri að bindandi samningur yrði kominn á að tíu dögum liðnum frá dagsetningu bréfsins, sbr. 1. mgr. 76. gr. laga nr. 84/2007. Í bréfinu segir meðal annars:

„[Kærði] hefur yfirfarið framlögð gögn af hálfu [kæranda] sbr. grein 1.6 í almennri útboðslýsingu verksins. Er þar sérstaklega tekið fram að ef upplýsingar vantar og/eða þær eru ófullnægjandi muni verkkaupi vísa tilboði frá við yfirferð gagna.

Í grein 1.11 í útboðslýsingu er gerð sú krafa að bjóðandi vinni samkvæmt skilgreindu gæðastjórnunarkerfi. Skal hann eða stjórnendur verksins hafa unnið með gæðastjórnunarkerfi í að minnsta kosti einu verki og leggja fram nánar tilgreind gögn þar að lútandi, sbr. fyrrgreint ákvæði. Af hálfu [kæranda] voru mjög takmarkaðar upplýsingar gefnar um gæðakerfi verktaka og ekki lögð fram nein þau gögn er áskilin eru í því sambandi. Er það niðurstaða [kærða] að [kærandi] uppfylli ekki þær kröfur sem fram eru settar í lið 1.11 í [a]lmennri útboðslýsingu um gæðakerfi verktaka. Er tilboði [kæranda] því vísað frá.“

Með tölvubréfi til kærunefndar útboðsmála 13. júlí 2012 upplýsti kærði um að ekki hefði verið gengið frá bindandi samningi í hinu kærða útboði og að beðið yrði með það þar til niðurstaða nefndarinnar, um kröfu kæranda um stöðvun innkaupaferlisins, liggur fyrir.

 

II.

Kærandi vísar til þess að hann sé verktaki sem sérhæfi sig í jarðvinnu og vegagerð og að hann hafi tekið þátt í fjölmörgum útboðum vegna vegaframkvæmda og jarðvinnugerðar, þ. á m. útboðum kærða. Kærandi heldur því fram að vegur sá, sem hið kærða útboð lýtur að, sé í svonefndum C7 vegaflokki, sem geri lágmarkskröfur um gæði samkvæmt verklýsingu kærða, og bendir á að hann hafi nýlega unnið að nýlagningu vega í svonefndum A vegaflokki, sem geri mun strangari kröfur um gæði og eftirlit en þegar um áðurgreindan C7 vegaflokk er að ræða.

Kærandi vísar til þess að í tilboði sínu í hinu kærða útboði hafi ekki verið að finna nákvæma lýsingu á því gæðastjórnunarkerfi sem hann starfi eftir. Í tilboðinu hafi hins vegar verið tekið fram að gæðamál væru í góðum farvegi hjá kæranda og að hann væri „[...] í forystu í notkun Gæðakerfis byggt á grunni Samtaka iðnaðarins“ eftir að hafa innt af hendi verk við Vífilstaðaveg, sbr. útboð kærða nr. g2008-053. Bendir kærandi sérstaklega á í þessu samhengi að við verklok þess verks hafi ítarlegum gögnum um gæðastjórnunarkerfi kæranda verið skilað til kærða. Því til viðbótar tiltekur kærandi að hann hafi með tilboði sínu skilað inn upplýsingum um reynslu starfsmanna félagsins við notkun gæðastjórnunarkerfis í tengslum við vegaframkvæmdir fyrir kærða. Kærandi vísar til þess að hann hafi talið sig fullnægja kröfum í kafla 1.11 í útboðsgögnum hins kærða útboðs, með vísan til áðurgreindra upplýsinga, enda teldi hann sýnt að hann hefði unnið með gæðastjónunarkerfi sem kærði hefði samþykkt og að kærandi uppfyllti kröfur um tæknilega getu til að vinna verk það sem um ræðir.

Kærandi bendir á að ágreiningur sé milli málsaðila um hvort kærða hafi verið heimilt að vísa tilboði kæranda frá í hinu kærða útboði á þeim grundvelli að hann hafi ekki skilað inn ítarlegri lýsingu á gæðakerfi sínu, þrátt fyrir að kærði hafi verið upplýstur um að kærandi notaðist við gæðakerfi byggðu á fyrirmynd Samtaka iðnaðarins og að kærði hafi haft undir höndum ítarlegar upplýsingar um kerfið og útfærslu þess vegna fyrri verkefna kæranda fyrir kærða. Kærandi reisir kröfur sínar á því að áðurgreind ákvörðun kærða, um að ógilda tilboð kæranda, samræmist ekki útboðsgögnum kærða, lögum nr. 84/2007 og viðurkenndri stjórnsýsluframkvæmd kærða. Því beri að taka kröfur kæranda til greina.

Kærandi byggir á grunnreglu útboðsréttar þess efnis að minniháttar ágallar á tilboði leiði ekki til ógildis þess og bendir á að þegar um minniháttar ágalla sé að ræða sé kaupanda skylt að veita bjóðanda færi á að lagfæra tilboð sitt áður en gripið sé til þess ráðs að ógilda það. Kærandi heldur því fram að ágalli á tilboði geti aðeins leitt til ógildingar þess, án þess að bjóðanda sé veitt færi á að bæta þar úr, í tilvikum þar sem ágallinn er til þess fallinn að hafa áhrif á jafnræði bjóðenda eða verð tilboðs. Kærandi bendir á að þessari grunnreglu sjái meðal annars stað í kafla 1.6 í útboðsgögnum hins kærða útboðs og 2. mgr. 73. gr. laga nr. 84/2007.

Kærandi heldur því fram að sú staðreynd, að hann hafi ekki lýst gæðakerfi sínu með ítarlegum hætti í tilboði, geti ekki talist meiriháttar ágalli, sem sé til þess fallinn að raska jafnræði aðila eða hafa áhrif á tölulega niðurstöðu tilboðsins, í fyrrgreindum skilningi. Þvert á móti sé ljóst að um sé að ræða minniháttar annmarka, sbr. upplýsingar í tilboði kæranda og fyrri verk kæranda í þágu kærða þar sem gerðar voru strangari kröfur um gæði en í hinu kærða útboði.

Að síðustu heldur kærandi þvi fram að stjórnsýsluframkvæmd kærða staðfesti það að ágalli á tilboði kæranda hafi verið minniháttar. Bendir kærandi á að kærði hafi í framkvæmd veitt bjóðendum, sem ekki lögðu fram allar tilskyldar upplýsingar með tilboðum sínum, færi á að leggja þær fram. Vísar kærandi til úrskurðar kærunefndar útboðsmála frá 6. september 2010 í máli nr. 21/2010 málatilbúnaði sínum til stuðnings, þar sem kærði veitti bjóðanda, sem ekki skilaði inn lýsingu á gæðastjórnunarkerfi með tilboði sínu svo sem áskilið var í útboðsgögnum, færi á að bæta þar úr. Heldur kærandi því fram að kærði hefði ekki veitt bjóðandanum í tilvitnuðu máli færi á að bæta úr þessum annmarka, ef það væri mat kærða að annmarkinn, þ.e. upplýsingar um gæðastjórnunarkerfi, væri til þess fallinn að raska jafnræði bjóðanda.

Með því sem á undan er rakið, ekki síst stjórnsýsluframkvæmd kærða sem getið er að framan, telur kærandi sýnt að verulegar lýkur séu á því að kærði hafi við framkvæmd hins kærða útboðs brotið gegn lögum nr. 84/2007. Því beri að taka til greina kröfu kæranda um stöðvun innkaupaferlis útboðsins um stundarsakir.

Þá bendir kærandi á að í ljósi þess að hann hafi átt lægsta tilboð í hinu kærða útboði hafi hann átt raunhæfa möguleika á því að tilboð hans væri valið ef réttilega hefði verið staðið að útboðinu, sbr. 1. mgr. 101. gr. laga nr. 94/2007. Ákvörðun kærða, um að vísa tilboði kæranda frá, hafi verið ólögmæt og til þess fallin að koma í veg fyrir möguleika kæranda í útboðinu.

Að síðustu vísar kærandi til bréfs kærða, dags. 3. júlí 2012, sem barst honum 5. sama mánaðar. Kærandi hafnar þeirri túlkun kærða að bindandi samningur yrði kominn á að liðnum tíu dögum frá dagsetningu bréfsins og heldur því fram að tíu daga fresti samkvæmt 1. mgr. 76. gr. laga nr. 84/2007 hefði ekki átt að ljúka fyrr en 15. júlí 2012.

 

III.

Kærði mótmælir staðhæfingu kæranda þess efnis að vegur sá, sem hið kærða útboð varðar, sé í svonefndum C7 vegaflokki sem geri lágmarkskröfur um gæði samkvæmt verklýsingu kærða. Telur kærði ekki allskostar rétt að miða kröfur til framkvæmda á grundvelli hins kærða útboðs einungis við vegflokk C7 og vísar í því samhengi til kafla 6.3 í útboðsgögnum þar sem fjallað er um vegflokka og nákvæmni. Kærði hafnar því að vegir í vegflokki C7 skuli vera í lakari gæðum en vegir annarra vegflokka og að uppfylla beri skilgreindar kröfur í öllum tilvikum. Bendir kærði á að það sé meðal annars tilgangur gæðakerfis að tryggja að fylgst sé með og gengið úr skugga um að kröfur útboðsgagna séu uppfylltar.

Kærði mótmælir einnig staðhæfingu kæranda þess efnis að ítarlegum gögnum um gæðastjórnunarkerfi hans hafi verið skilað til kærða við verklok fyrra verks og kannast ekki við að sú sé raunin.

Kærði reisir kröfur sínar á því að kærandi hafi ekki lagt fram tilskilin gögn um gæðakerfi, sem nota á við verk það sem hið kærða útboð lýtur að, og því hafi kærða óhjákvæmilega borið að vísa tilboði kæranda frá. Því til stuðnings vísar kærði til 71. gr. laga nr. 84/2007, þar sem kveðið er á um að við ákvörðun kaupanda um gerð samnings skuli einungis litið til gildra tilboða. Kærði vísar til þess að tilboð í opinberum innkaupum sé því aðeins gilt að það sé gert í samræmi við útboðsgögn hverju sinni, þ. á m. að slíkum tilboðum fylgi upplýsingar og gögn sem áskilin eru í útboðsgögnum. Tilboð kæranda hafi samkvæmt framangreindu ekki fullnægt þeim áskilnaði.

Kærði byggir á því að óheimilt sé að veita einstökum bjóðendum viðbótarfresti til að uppfylla skýrar kröfur útboðsgagna að því er varðar framlagningu gagna með tilboði og að slíkt fæli í sér mismunun milli bjóðenda, þar sem bjóðanda væri með því móti fengið tækifæri til að bæta tilboð sitt og stöðu á kostnað annarra bjóðenda. Slíkt væri í andstöðu við meginreglur útboðsréttar um jafnræði og gagnsæi í opinberum innkaupum, sbr. 14. gr. laga nr. 84/2007.

Kærði bendir á að í kafla 1.6 hafi með skýrum og ótvíræðum hætti verið tiltekið að bjóðendum bæri að skila inn nánar tilteknum gögnum með tilboðum sínum, þ.e. í síðasta lagi við lok tilboðsfrests og fyrir opnun tilboða. Ef einstökum bjóðendum væri veittur viðbótarfrestur væri með því brotið gegn áðurgreindri meginreglu um jafnræði bjóðenda.

Kærði vísar til þess að í kafla 1.11 í útboðsgögnum sé með skýrum og afdráttarlausum hætti tilekið hvaða kröfur séu gerðar í útboðinu með tilliti til framlagningar gagna um gæðakerfi. Kærði heldur því fram að þær almennu upplýsingar um gæðakerfi kæranda, sem fylgdu tilboði hans, komist hvergi nærri því að uppfylla áðurgreindar kröfur og að af hálfu kærða sé litið svo á að engin tilskilin gögn um gæðakerfi, sbr. kafla 1.11 í útboðsgögnum, hafi borist frá kæranda með tilboði hans.

Kærði mótmælir því að fyrrgreindur annmarki geti talist minniháttar annmarki á tilboði kæranda og telur þvert á móti að um sé að ræða meiriháttar annmarka, enda hafi engin tilskilinna gagna um gæðakerfi kæranda borist með tilboði hans. Kærði heldur því fram að þau gögn sem fylgdu tilboði kæranda hafi einungis falið í sér takmarkaðar upplýsingar um notkun gæðakerfis í starfsemi kæranda fram til ársins 2008. Þar sé fullyrt að kærandi sé í forystu í notkun gæðakerfis sem byggi á grunni Samtaka iðnaðarins, án þess að þar sé nokkra lýsingu að finna á gæðakerfi kærandans. Þá heldur kærði því fram að staðhæfing kæranda, um að hann sé í fremstu röð á sviði gæðamála, feli ekki í sér staðfestingu um það efni. Kærði áréttar, með hliðsjón af upplýsingum í tilboði kærnada, að litið hafi verið svo á að tilboð kæranda hafi skort öll tilskilin gögn um gæðakerfi. Ekki sé unnt að fallast á að slíkt geti talist minniháttar annmarki.

Kærði hafnar því að sér hafi borið að veita kæranda kost á að bæta úr áðurgreindum annmarka eftir opnun tilboða og telur að slíkt hefði óhjákvæmilega haft í för með sér röskun á jafnræði bjóðenda og þar með brot á þeirri meginreglu útboðsréttar.

Kærði mótmælir staðhæfingum kæranda um ætlaða stjórnsýsluframkvæmd og telur þær rangar. Heldur kærði því fram að hann hafi í framkvæmd litið á tilboð sem ógild, þegar ekki berast með þeim þau gögn og upplýsingar sem áskilin eru í útboðsgögnum. Því til viðbótar upplýsir kærði um að breytingar hafi verið gerðar á stöðluðum útboðgögnum kærða í septembermánuði 2010. Fyrir þann tíma hafi kærði allajafna kallað eftir gögnum frá þremur lægstbjóðendum eftir opnun tilboða. Frá þeim tíma hafi í útboðsgögnum verið gerð skýrari krafa um að öll gögn varðandi hæfi bjóðenda skuli fylgja tilboðum þeirra. Því eigi fyrrgreindar athugasemdir kæranda, varðandi ætlaða stjórnsýsluframkvæmd kærða, og tilvísun hans til úrskurðar kærunefndar útboðsmála frá 6. september 2010 í máli nr. 21/2010, ekki við í málinu. Kærði vísar á hinn bóginn til ákvörðunar nefndarinnar frá 5. júlí 2011 í máli nr. 17/2011, þar sem kröfu kæranda um stöðvun samningsgerðar um stundarsakir var hafnað með vísan til þess að tilskilin gögn hafi ekki fylgt tilboði kæranda í hinu kærða útboði og því hafi ekki verið leiddar líkur að því að um brot á lögum nr. 84/2007 væri að ræða.

Að síðustu vísar kærði til þeirra ströngu skilyrða sem gerð eru í 1. mgr. 96. gr. laga nr. 84/2007 fyrir því að stöðva innkaupaferli eða samningsgerð um stundarsakir og bendir á að við mat á því hvort skilyrðin séu fyrir hendi verði að líta til hinna ríku almannahagsmuna af því að opinber innkaup nái fram að ganga með eðlilegum hætti og að taka beri tillit til hagsmuna annarra bjóðenda af því að útboðið fái eðlilegan framgang. Telur kærði að kærandi hafi ekki sýnt fram á að skilyrði ákvæðisins séu uppfyllt í málinu.

 

IV.

Samkvæmt 1. mgr. 96. gr. laga nr. 84/2007 um opinber innkaup getur kærunefnd útboðsmála stöðvað innkaupaferli eða gerð samnings við tiltekin innkaup, að kröfu kæranda, ef nefndin telur að verulegar líkur séu á því að brotið hafi verið gegn lögunum, þ. á m. þeim ákvæðum tilskipunarinnar sem vísað er til í lögunum eða reglum settum samkvæmt þeim.

Kærandi krefst þess að kærunefnd útboðsmála stöðvi innkaupaferli á grundvelli hins kærða útboðs, með vísan til þess að kærði hafi brotið gegn lögum nr. 84/2007 er hann vísaði frá tilboði kæranda í útboðinu á þeim grundvelli að með tilboði hans hefðu ekki fylgt tiltekin gögn sem áskilin voru í útboðsgögnum.

Samkvæmt útboðsgögnum hins kærða útboðs bar bjóðendum að skila inn með tilboðum sínum nánar tilteknum upplýsingum, þ. á m. um gæðakerfi verktaka. Í því fólst að bjóðendum bar meðal annars að skila inn með tilboðum sínum upplýsingum um það gæðastjórnunarkerfi sem þeir hygðust vinna eftir og reynslu þeirra af slíkum kerfum, samkvæmt nánari fyrirmælum útboðsgagna, eða eftir atvikum vottunarskírteini vegna vottaðs gæðastjórnunarkerfis, og að auki gæðaskipulags- og gæðastýringaráætlunum vegna verksins. Af gögnum málsins verður ráðið að kærandi skilaði ekki inn með tilboði sínu gögnum með áðurgreindum upplýsingum, þrátt fyrir áskilnað útboðsgagna þar um. Miðað við fyrirliggjandi gögn virðast því ekki verulegar líkur á að brotið hafi verið gegn lögum nr. 84/2007 og telur nefndin rétt að hafna kröfu kæranda um stöðvun innkaupaferlis hins kærða útboðs.

 

Ákvörðunarorð:

Hafnað er kröfu kæranda, Verktakafélagsins Glaums ehf., um stöðvun innkaupaferlis vegna útboðs kærða, Vegagerðarinnar, vegna útboðs kærða „Strandavegur (643): Djúpvegur – Geirmundarstaðavegur“.

                

               Reykjavík, 1. ágúst 2012.

 

Páll Sigurðsson,

         Auður Finnbogadóttir,

Stanley Pálsson

 

Rétt endurrit staðfestir,

 

Reykjavík, 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum