Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Barnaverndarmál

Mál nr. 312/2023-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 312/2023

Föstudaginn 17. nóvember 2023

A

gegn

B

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Björn Jóhannesson lögfræðingur og Guðfinna Eydal sálfræðingur.

Með kæru, móttekinni 31. maí 2023, kærði C lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála úrskurð umdæmisráðs B frá 14. apríl 2023 vegna umgengni hennar við D. Rökstuðningur fyrir kæru barst úrskurðarnefndinni 19. júní 2023.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Stúlkan D er X ára gömul og lýtur forsjá B. Kærandi er móðir stúlkunnar.

Stúlkan hefur verið í varanlegu fóstri hjá fósturforeldrum sínum frá 20. janúar 2015, en áður var hún í tímabundnu fóstri. Stúlkan hefur verið vistuð utan heimilis frá 8. janúar 2014 eða frá því hún var X mánaða gömul. Kærandi afsalaði sér forsjá stúlkunnar til nefndar B í janúar 2015.

Mál stúlkunnar var tekið fyrir á fundi umdæmisráðs B þann 14. apríl 2023. Fyrir fundinn lá fyrir greinargerð starfsmanna B, dags. 24. febrúar 2023, sem lögðu til umgengni, fjórum sinnum á ári, í janúar, maí, ágúst og nóvember í tvær klukkustundir í senn undir eftirliti. Skilyrði umgengi væri að kærandi væri edrú og í góðu jafnvægi. Kærandi var ekki samþykk tillögu starfsmanna og var málið því tekið til úrskurðar. Úrskurðarorð hins kærða úrskurðar er svohljóðandi, auk þess sem þar er bent á kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála:

Umdæmisráð B ákveður að D, hafi umgengni við móður sína, A, fjórum sinnum á ári, í tvær klukkustundir í senn. Umgengni verði undir eftirliti í húsnæði á vegum B eða á öðrum stað sem er til þess fallinn að móðir og telpan geti átt gæðastundir og aðilar koma sér saman um. Umgengni skal vera í janúar, maí, ágúst og nóvember ár hvert. Skilyrði fyrir umgengni er að móðir sé edrú og í góðu jafnvægi.“

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 19. júní 2023. Með bréfi úrskurðarnefndar velferðarmála, dags. 23. ágúst 2023, var óskað eftir greinargerð B ásamt gögnum málsins. Greinargerð B barst nefndinni þann 14. september 2023 og með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 20. september 2023, var hún send lögmanni kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að kærandi hafi farið fram á að fá meiri umgengni með dóttur sinni en því hafi verið hafnað með úrskurði umdæmisráðs.

Kærandi taki undir að vissulega sé stöðuleiki mikilvægur fyrir barnið. Kærandi eigi hins vegar erfitt með að skilja hvernig umgengni hennar við barnið valdi barninu óstöðugleika. Nú sé mjög algengt að börn séu í umgengni við annað eða bæði foreldri sitt og hafi það hingað til ekki verið talið valda miklum óstöðugleika. Það verði að teljast valda miklum óstöðugleika að umgengni sé svo lítil sem umdæmisráð hefur ákveðið.

Kærandi telji að það sé stefna  B að slíta tengsl barna við foreldra sína þegar forsjársvipting hefur átt sér stað. Lögmaður kæranda hafi þrátt fyrir að hafa ítrekað spurt hvers vegna aldrei fengið svör um hvaða tilgangi það eigi að þjóna. Þó vissulega það séu án efa oft góðar og gildar ástæður til þess þá sé það mat lögmanns að meta þurfi slíkt í hverju máli fyrir sig. Þegar börn séu að koma úr mikilli vanrækslu, jafnvel ofbeldi þá sé mikilvægt að fjarlægja börnin frá þeim aðstæðum sem þau voru í til þess að hjálpa þeim að dafna til framtíðar. Samkvæmt frumvarpi til barnaverndarlaga má sjá í umfjöllun um 74. gr. barnaverndarlaga að ef neita eigi um umgengnisrétt með öllu eða að takmarka hann verulega verður þannig að sýna fram á að hann sé bersýnilega andstæður hagsmunum barnsins. Umgengnin sem kærandi hefur fengið verður að teljast vera verulega skert umgengni. Það séu það ekki rök með slíkri umgengni að barnavernd bjóði öðrum foreldrum upp á svipaða stöðu eða jafnvel minni umgengni. Það verði því að krefjast þess að barnavernd sýni fram á að það sé bersýnilega andstætt hagsmunum barnsins að umgengni sé takmörkuð svo verulega líkt og barnavernd hafi lagt til. Það hafi ekki verið gert, enda telur kærandi að ekki sé nokkur einasta ástæða til staðar til þess að takmarka umgengni svo mikið.

Þá hafi Mannréttindadómstóll Evrópu verið með slík mál til umfjöllunar undanfarin ár, þá sérstaklega hvað snýr að barnavernd í Noregi. Megi þá einna helst nefna málið sem féll í yfirrétti Mannréttindadómstóls Evrópu þann 10. september 2019, í máli 37283/13, þar sem mannréttindadómstóllinn komst að því að barnaverndin í Noregi hafi brotið gegn 8 gr. sáttamálans þegar meðal annars foreldrar voru sviptir forsjá barna sinna og umgengin hafi verið í algjöru lágmarki, þar sem ekki hafi verið áætlað að sameina fjölskylduna aftur. Í dómnum kemur m.a. fram  (bls. 66) : ,,að öllu jöfnu er það í hag barnsins að halda tengslum við fjölskyldu sína, nema í þeim tilfellum þar sem fjölskyldan er sannarlega óhæf, þar sem tengslaslit þýðir að rífa barnið frá rótum sínum. Fjölskyldubönd skulu einungis rofin í mjög sérstökum kringumstæðum og allt skal gert til þess að halda persónulegu sambandi og ef til þess kemur endurbyggja fjölskylduna.“

Þá skal nefna 3. tölul. 9. gr. barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna en þar segir m.a. orðrétt ,, Aðildarríki skulu virða rétt barns sem skilið hefur verið frá foreldri eða foreldrum sínum til að halda persónulegum tengslum og beinu sambandi við þau bæði með reglubundnum hætti, enda sé það ekki andstætt hagsmunum þess.“ Það liggi ljóst fyrir þegar litið sé til laganna, og dóma mannréttindadómstólsins að einungis þegar aðstæður séu sérstakleg slæmar skuli slíta tengsl foreldra við börnin sín, þá sé það sett í hendur stjórnvaldsins að sýna fram á það að umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum barnsins. Sé það ekki gert þá ber barni að fá reglubundna umgengni við það foreldri sitt sem það býr ekki hjá og vera í persónulega tengslum við foreldri sitt.

Bæði móðir og barn hafa mikinn vilja til að vera í umgengni og því sé ekkert því til fyrirstöðu að slík umgengni sé til staðar með þeim hætti að tengsl þeirra haldist. Stjórnvöldum beri að virða þau lög sem séu til staðar í landinu og virða þá alþjóðasamninga sem Ísland hefur gerst aðili að.

III. Sjónarmið B

Í greinargerð B segir að hinn kærði úrskurður varði umgengni móður við dóttur sína sem sé í varanlegu fóstri á vegum B. Vakin sé athygli á því að umræddur úrskurður hafi verið kveðin upp þann 14. apríl 2023 hjá Umdæmisráði B og lögmaður móður upplýstur um úrskurðinn þar 3. maí 2023. Í úrskurðarorði komi fram að úrskurði megi skjóta til úrskurðarnefndar velferðarmála, sbr. 8. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 innan fjögurra vikna frá því að aðilum var kunnugt um úrskurðinn. Því sé aðallega gerð krafa um að kærunni verði vísað frá hjá úrskurðanefnd velferðarmála á þeim grundvelli að almennur kærufrestur hafi verið liðin þegar lögmaður kærði úrskurðinn til úrskurðanefndar velferðarmála þann 19. júní 2023. Til vara sé gerð krafa um að hinn kærði úrskurður verði staðfestur hjá úrskurðarnefnd velferðarmála.

Varðandi forsögu málsins sé vísað til hins kærða úrskurðar, greinargerðar starfsmanna og annarra meðfylgjandi gagna málsins.

Málefni stúlkunnar með tillit til umgengni við kæranda hafi verið lagt fyrir fund barnaverndarnefndar B þann 7. desember 2021, 18. janúar 2022 og átti að vera lagt fyrir þann 15. febrúar 2022 en málinu hafi ávallt verið frestað að beiðni kæranda og lögmanni hennar. Þann 18. október 2022 óskaði kærandi eftir því að málið færi aftur fyrir barnaverndarnefnd með tillit til úrskurðar um umgengni. Starfsmaður ræddi símleiðis við kæranda þann 19. október 2022 sem óskaði eftir að fá umgengni við stúlkuna eins oft og hægt væri og lagði til annan hvern mánuð, alls sex skipti á ári. Óskaði kærandi eftir því að fá stúlkuna í heimsókn til sín, án eftirlits í fjórar klukkustundir í senn. Hafði kærandi að eigin sögn verið þá edrú frá 17. september 2021.

Málið hafi verið bókað á meðferðarfundi starfsmanna þann 28. nóvember 2022. Þar komi fram það mat starfsmanna að ekki hafi verið raunhæft að auka umgengni með þeim hætti sem kærandi hafði óskað eftir. Þá töldu starfsmenn það ekki raunhæft að umgengni færi fram á heimili kæranda enda þekki stúlkan ekki aðstæður móður og hefur stúlkan verið að glíma við erfiðar tilfinningar, sé mjög viðkvæm og með kvíðaeinkenni og sveiflast mikið í skapi. Stúlkan hafi verið í listmeðferð til þess að vinna með að bæta líðan sinn. Þá kom fram að stúlkan sé óróleg í nýjum aðstæðum og megi lítið breyta út frá hennar daglegri rútínu án þess að það komi stúlkunni í uppnám. Starfsmenn lögðu til í október 2021 að umgengni yrði aukin um eitt skipti eða í alls fjögur skipti á ári. Starfsmenn hafi því lagt til í bókun þann 28. nóvember 2022 að umgengni yrði óbreytt frá fyrri tillögum eða fjögur skipti á ári, í tvær klukkustundir í senn og undir eftirliti.

Í skýrslu talsmanns stúlkunnar, dags. 9. nóvember 2022 hafi komið fram að stúlkan haldi að hún hitti móðir tvisvar sinnum á ári og að hún myndi vilja fá að hitta móður þrisvar eða fjórum sinnum á ári. Vísaði stúlkan svo til að hún vildi hitta móður jafn oft og föður eða þrisvar sinnum á ári.

Samkvæmt 74. gr. a. barnaverndarlaga ber að afla afstöðu fósturforeldra þegar umgengni er ákveðin í varanlegu fóstri. Afstaða fósturforeldra barst þann 27. október 2022 þar sem fram kom að þau voru alfarið á móti umgengni eins og kærandi lagði upp með. Töldu fósturforeldrar umgengni vera hæfilega eins og hún væri og vísuðu til þess að stúlkan væri að jafnaði viku að jafna sig eftir hverja umgengni, stúlkan væri viðkvæm og sveiflist mikið í skapi. Greindu fósturforeldrar frá því að stúlkan væri nú í viðtölum hjá listmeðferðarfræðingi og allt óvænt og óskipulag geti komið stúlkunni í uppnám.

Í kæru sé meðal annars vísað til þess að mjög algengt sé að börn séu í umgengni við annað eða bæði foreldri og það hafi hingað til ekki verið talið valda miklum óstöðugleika. Þá sé vísað til þess að það verði að teljast valda miklum óstöðugleika að umgengni barnsins við kæranda sé svo lítil eins og umdæmisráð hefur ákveðið. Vert sé að benda á að stúlkan hafi verið hjá listmeðferðarfræðing eins og nánar sé rakið í bókun meðferðarfundar, dags. 28. nóvember 2022 vegna aðstæðna og líðan og þurfi lítið út að bregða til að koma stúlkunni í uppnám. Því sé ljóst að mikilvægt sé að viðhalda stöðugleika í lífi stúlkunnar en það séu fyrst og fremst hagsmunir stúlkunnar sem ber að horfa til, sbr. 1. mgr. 4. gr. bvl. sem segir að beita skuli þeim ráðstöfunum sem ætla má að barni sé fyrir bestu. Þá verði hagsmunir annarra, svo sem hagsmunir foreldra að víkja, sbr. 1. tl. 3. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins.

Þá vísar lögmaður til dóms Mannréttindadómstóls Evrópu gegn Noregi í máli nr. 37283/13 vegna forsjársviptingar og lágmarks umgengni og hafi það brotið gegn 8. gr. sáttmálans. Þessi rök lögmanns lágu einnig fyrir hjá umdæmisráði og komi fram í afstöðu kæranda í hinum kærða úrskurði. Í niðurstöðukafla úrskurðar komi fram að þau sjónarmið um túlkun 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem fram hafa komið í dómum Mannréttindadómstóls Evrópu varðandi tilhögun umgengni við kynforeldra við börn í fóstri, sem kærandi vísar í máli sínu til stuðnings, þykja ekki eiga við í þessu máli. Ljóst þykir að ekki sé hægt að heimfæra umræddan dóm yfir á mál þetta er varðar eingöngu umgengni í þessu máli.

Lögmaður vísar einnig til þess að bæði kærandi og barn hafa mikinn vilja til að vera í umgengni og því sé ekkert því til fyrirstöðu að slík umgengni sé til staðar með þeim hætti. Samkvæmt talsmannskýrslu stúlkunnar, dags. 9. nóvember 2022 sem aflað hafi verið vegna beiðni kæranda um umgengni sagðist stúlkan vilja hitta móður sína þrisvar eða fjórum sinnum á ári en endaði á að segja þrisvar sinnum. Umdæmisráð úrskurðaði að kærandi ætti umgengni fjórum sinnum á ári eða oftar en stúlkan óskaði sjálf eftir. B bókaði um fjögur skipti á meðferðarfundi starfsmanna þann 6. október 2021 og töldu starfsmenn þá rétt að auka umgengni úr þremur í fjögur skipti á ári. Það er því ljóst að vilji stúlkunnar til umgengni stangast á við vilja kæranda  til umgengni og því ljóst að hagsmunir kæranda verða að víkja í þessu máli, sbr. 1. tl. 3. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins.

Stúlkan sé í varanlegu fóstri og sé því ekki stefnt að öðru en að hún verði í umsjá fósturforeldra til 18 ára aldurs. Kærandi hafi afsalað sér forsjá til barnaverndarnefndar B í janúar 2015. Stúlkan sem nú sé rúmlega X ára gömul hafi verið vistuð utan heimilis frá rúmlega X mánaða aldri. Stúlkan hafi verið í umsjá fósturforeldra sinna frá því í september 2014 eða frá því að hún var X mánaða gömul.

Starfsmenn B telji brýnt að stúlkan fái að búa við stöðugleika, frið og ró í fóstrinu og telja ljóst að ákveðið rask verði á lífi stúlkunnar í kringum umgengni. Að sögn fósturforeldra hafi það tekið rúma viku fyrir stúlkuna að jafna sig eftir umgengni en fósturforeldrar séu að jafnaði þeir aðilar sem þekkja hagi og líðan barnarma best, sbr. álit umboðsmanns Alþingis, dags. 7. apríl 2006 í máli nr. 4474/2005. Það sé mat starfsmanna B að umgengni umfram úrskurð umdæmisráðs sé bersýnilega andstæður hagsmunum og þörfum stúlkunnar sem sjálf hefur tjáð sig við talsmann að hún vilji ekki umgengni umfram það sem ákveðið hafi verið.

Að öðru leyti sé vísað til úrskurð umdæmisráðs B þann 14. apríl 2023 og þess rökstuðnings sem þar kemur fram vegna umgengni kæranda við stúlkuna.

Með vísan til alls framangreinds, allra gagna málsins og með hagsmuni stúlkunnar að leiðarljósi sé fyrir hönd B ítrekuð áðurnefnd krafa að kæru sé vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála á þeim forsendum að kærufrestur hafi verið liðin þegar lögmaður kæranda sendi inn kæru. Til vara sé gerð krafa um að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

IV. Afstaða stúlkunnar

Stúlkunni var skipaður talsmaður sem tók viðtal við hana 9. nóvember 2022. Í skýrslu talsmanns kemur fram að stúlkan vilji hitta kæranda þrisvar til fjórum sinnum á ári. Aðspurð sagðist henni líða vel í umgengni. Þá tók stúlkan fram að hún væri til í að eiga umgengni heima hjá móður en þá vilji hún hafa systur sína með.


 

V. Afstaða fósturforeldra

Með tölvupósti til fósturforeldra, dags. 19. október 2023, var óskað eftir afstöðu þeirra til krafna kæranda um umgengni. Í svari fósturforeldra sem barst úrskurðarnefndinni með tölvupósti 22. október 2023, kemur fram að þau séu algjörlega mótfallin því að umgengni fari fram oftar en ákveðið hafi verið í hinum kærða úrskurði. Ástæða þess er sú að stúlkan hafi aðlagast mjög vel og hún búi við stöðugleika og góða aðstæður, og það séu hagsmunir hennar að halda í þann stöðugleika. Stöðugleikinn býr í því að finna fyrir öryggi og það finnur hún ekki fyrir eftir umgengni. Þá hafi það reynst erfitt að koma til baka í stöðugleikann. Þá sé stúlkan mjög rótlaus og það taki það hana upp í viku að jafna sig eftir umgengni þar sem hún sé mjög viðkvæm. Hún sveiflist mikið í skapi og mikil vinna fari í það að róa hana. Þessi óróleiki komi þó ekki aðeins fram við umgengni heldur sé hún mjög óróleg í nýjum aðstæður og allt óvænt og óskipulagt geti komið henni í uppnám. Fósturforeldrar hafi verið með stúlkuna á ART (Aggressive replacement training) námskeiði þar sem reynt sé að aðstoða hana að takast á við ýmsar aðstæður og tilfinningar. Reiði geti þá brotist út hjá henni við minnstu breytingar. Það þurfi ekki að vera flókin atriði, skertur dagur í skólanum eða óvænt kölluð inn á fótboltaleik, vera á nýjum stað, allt sem heitir að brjóta upp hið daglega norm og eða rútínu á ekki við hana. Stúlkunni virðist líða best þegar hún sé í ákveðinni rútínu og fari ákveðin vinna í það að halda henni í ró og tryggja að hún finni að hún sé örugg.

Fram kemur að stúlkan hafi komið til fósturforeldra í fóstur í september 2014 og hafi hún þá verið X mánaða gömul. Hún hafi verið hjá þeim í níu ár og ekki verið í umsjón kæranda frá X mánaða aldri. Stúlkan hafi aðlagast vel og líti á fósturforeldra sem foreldra sína og kallar þau mömmu og pabba og börnin á heimilinu systkin sín. Það hafi alltaf verið markmiðið að tryggja stúlkunni varanlega og frambúðar umönnun, öryggi og stöðugleika og það telja fósturforeldrar sé ekki verið að gera með því að auka umgengni við kæranda.

Stúlkan viti að hún eigi kynforeldra og búið sé að ákveða umgengni við þau. Fósturforeldrar telja að réttur barns að þekkja kynforeldra og vera í tengslum við kyn og blóðfjölskyldu sé virtur og hún fái umgengni samkvæmt því.

Þar sem umgengnin hafi oft snúist um gjafirnar og loforð um gull og græna skóga þá sé ekkert ólíklegt að stúlkan vilji hitta kynmóður meira og oftar. Stúlkan hafi nú oft nefnt það að hún ætli að biðja kynforeldra að kaupa rafmagnshlaupahjól, línuskauta og aðra hluti sem fósturforeldrar hafa neitað henni um.

Ákvarðanir sem teknar séu fyrir hönd stúlkunnar þurfa að miða að því að gera það sem sé best fyrir hana, hennar öryggi og stöðugleika. Stjórnvöld hafi tekið þá ákvörðun að vista hana utan heimilis og hafi hún verið tekin af heimili sínu x mánaða gömul. Það hafi verið gert til að tryggja öryggi hennar og vernda hana. Fósturforeldrar séu ábyrg fyrir hennar hagsmunum og þeir séu ávallt hafðir að leiðarljósi í þessu máli.


 

VI.  Niðurstaða

Stúlkan, Stúlkan D er X ára gömul og er í varanlegu fóstri hjá fósturforeldrum sínum. Kærandi er móðir stúlkunnar.

Með hinum kærða úrskurði var ákveðið að stúlkan hefði umgengni við kæranda fjórum sinnum á ári, í tvær klukkustundir í senn, í janúar, maí, ágúst og september. Umgengni skyldi vera undir eftirliti.

Í hinum kærða úrskurði kemur fram að stúlkan hafi átt heimili hjá fósturforeldrum síðan í september 2014. Þar njóti hún stöðugleika og öryggis og sé sátt og ekkert sem bendi til annars en að þar muni hún eiga heima til 18 ára aldurs. Ekki væri séð að það myndi þjóna hagsmunum stúlkunnar að auka umgengni við kæranda frekar. 

Kærandi, sem er kynmóðir stúlkunnar, krefst þess að umgengni hennar við stúlkuna verði aukinn. Fyrir barnavernd gerði hún kröfu um að umgengni yrði einu sinni í mánuði. Að mati kæranda geti það valdið miklum óstöðugleika fyrir stúlkuna að eiga einungis umgengni fjórum sinnum á ári.

Samkvæmt 1. mgr. 51. gr. geta aðilar máls skotið úrskurði til úrskurðarnefndar velferðarmála innan fjögurra vikna frá því að viðkomandi var tilkynnt um úrskurð. Samkvæmt upplýsingum frá B var úrskurður umdæmisráð, dags. 14. apríl 2023, birtur kæranda 3. maí 2023 og kæra barst úrskurðarnefndinni með tölvupósti 31. maí 2023. Kærufrestur var því ekki liðinn þegar kæra barst úrskurðarnefndinni. Verður því ekki fallist aðalkröfu B um frávísun málsins.

Í kæru er m.a. vísað til þess að við framangreint hagsmunamat varðandi tíðni umgengni hafi verið brot á 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög um mannréttindasáttmála Evrópu nr. 62/1994 sem kveður á um friðhelgi einkalífs og fjölskyldu og 3. mgr. 9. gr. Barnasáttmála Sameinuðu Þjóðanna, auk dóma Mannréttindadómstóls Evrópu. Í hinum kærða úrskurði er fjallað um þau ákvæði laga, mannréttindasáttmála Evrópu og þá fjölþjóðlegu sáttmála sem gerðir hafa verið að því marki sem slíkt hefur þýðingu fyrir niðurstöðu þessa máls. Úrskurðarnefndin tekur undir þann rökstuðning sem fram kemur í hinum kærða úrskurði og bendir auk þess á að í athugasemdum við 74. gr. barnaverndarlaga, sem fjallar um gagnkvæman rétt foreldra og barna sem ráðstafað hefur verið í fóstur til umgengni á meðan sú ráðstöfun varir, kemur fram að reglan sé eðlileg og í samræmi við mannréttindaákvæði og alþjóðasamninga sem Ísland hefur fullgilt.

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. bvl. á barn rétt á umgengni við foreldra og aðra sem eru því nákomnir. Foreldrar eiga með sama hætti rétt á umgengni við barn sitt í fóstri samkvæmt 2. mgr. sömu lagagreinar, nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með ráðstöfun þess í fóstur. Við mat á þessu skal meðal annars taka tillit til þess hversu lengi fóstri er ætlað að vara. Samkvæmt 3. mgr. lagagreinarinnar skal taka afstöðu til umgengni barns, sem ráðstafað er í fóstur, við foreldra og aðra nákomna og skal taka mið af því hvað þjóni best hagsmunum barnsins. Samkvæmt 4. mgr. sömu lagagreinar hefur umdæmisráð barnaverndar úrskurðarvald um ágreiningsefni er varða umgengni barns við foreldra og aðra nákomna, hvort sem það varðar rétt til umgengni, umfang umgengnisréttarins eða framkvæmd.

Það er meginregla í barnaverndarstarfi að hagsmunir barns skuli ávallt vera í fyrirrúmi og beita skuli þeim ráðstöfunum sem barni eru fyrir bestu. Við úrlausn þessa máls ber því að líta til þeirrar stöðu sem stúlkan er í. Það er gert til þess að unnt sé að taka ákvörðun um umgengni kæranda við dóttur sína á þann hátt að hún þjóni hagsmunum hennar best, sbr. 3. mgr. 74. gr. bvl.

Að mati úrskurðarnefndarinnar ber fyrst og fremst að líta til þess hvaða hagsmuni stúlkan hefur af umgengni við kæranda. Í greinargerð starfsmanna  B, sem lögð var fyrir umdæmisráð B, kemur fram að stúlkan hafi aðlagast mjög vel á fósturheimili og búi þar við stöðugleika og góðar aðstæður. Telja starfsmenn barnaverndar það fyrst og fremst hagsmuni stúlkunnar að viðhalda þeim stöðugleika. Stúlkan eigi umgengni við kynföður þrisvar á ári í tvær klukkustundir í senn. Þá hitti stúlkan systur sína oftast í umgengni með kynmóður og eftir samkomulagi við fósturforeldra. Umgengni við kynmóðir hafi verið þrisvar sinnum á ári en var aukinn á árinu 2021 í fjögur skipti. Umgengni hefur gengið nokkuð vel. Starfsmenn telja ekki raunhæft að umgengni fari fram á heimili kynmóður þar sem stúlkan þekkir ekki aðstæður og sé jafnframt að glíma við erfiðar tilfinningar, sé mjög viðkvæm og sveiflast mikið í skapi. Þá sé hún óróleg í nýjum aðstæðum og má lítið breyta út frá hennar daglegu rútínu þar sem það veldur henni uppnámi.

Samkvæmt gögnum málsins er það afstaða stúlkunnar að eiga umgengni við kæranda þrisvar til fjórum sinnum ári. Fósturforeldrar eru mótfallnir því að umgengni stúlkunnar við kæranda verði oftar en ákveðið hefur verið með hinum kærða úrskurði þar sem þau telja mikilvægt að öryggi og stöugleiki ríki í lífi stúlkunnar.

Samkvæmt því, sem hér að framan greinir, fellst úrskurðarnefndin á ofangreind sjónarmið B og telur að það þjóni hagsmunum stúlkunnar best við núverandi aðstæður að umgengni hennar við kæranda verði með þeim hætti sem ákveðið var með hinum kærða úrskurði. Er þá litið til þeirrar stöðu sem hún er í samkvæmt því sem fram kemur í gögnum máls og lýst er hér að framan. Með því að takmarka umgengni er tilgangurinn að tryggja hagsmuni stúlkunnar og öryggi.

Í ljósi málavaxta telur úrskurðarnefndin nauðsynlegt að umgengni fari fram undir eftirliti starfsmanna barnaverndar og í húsnæði á vegum B eða á öðrum stað sem er til þess fallinn að kærandi og stúlkan geti átt gæðastundir og aðilar koma sér saman um. Verður því ekki fallist á kröfu kæranda um umgengni án eftirlits og að umgengni fari fram á heimili kæranda.

Með hliðsjón af atvikum máls verður að mati úrskurðarnefndarinnar talið að umgengnin hafi verið ákveðin í samræmi við þau sjónarmið sem leggja ber til grundvallar samkvæmt 2., 3. og 4. mgr. 74. gr. bvl.

Með vísan til alls þess, sem að framan greinir, ber að staðfesta hinn kærða úrskurð umdæmisráðs B frá 14. apríl 2023.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Úrskurður umdæmisráðs B frá 14. apríl 2023 varðandi umgengni D, við A, er staðfestur.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

 

Kári Gunndórsson

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum