Hoppa yfir valmynd

Stjórnsýslukæra vegna höfnunar á undanþágubeiðni vegna eyrnamerkinga - MAR22040077

MAR22040077
NAFN: Stjórnsýslukæra vegna höfnunar á undanþágubeiðni vegna eyrnamerkinga
LYKILORÐ: Merking búfjár, leiðbeininga- og rannsóknaskylda

Föstudaginn, 16. desember 2022, var í matvælaráðuneytinu
kveðinn upp svohljóðandi

Ú R S K U R Ð U R

Með erindi, dags. 11. apríl 2022, kærði [A] (hér eftir kærandi) ákvörðun Matvælastofnunar frá 24. febrúar 2022, þess efnis að hafna undanþágubeiðni kæranda um að nautgrip númer [X], sem kærandi hafði sent til slátrunar, yrði fargað vegna rangra eyrnamerkinga.
Fyrrgreind ákvörðun var kærð á grundvelli 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og barst erindi kæranda innan kærufrests.

Krafa
Þess er krafist að hin kærða ákvörðun verði úrskurðuð ógild. Jafnframt er þess krafist að Matvælastofnun verði gert að greiða kæranda bætur.

Málsatvik
Þann 24. febrúar 2022 barst kæranda bréf frá sláturhússtjóra Sláturhússins á Hellu þess efnis að nautgrip, sem kærandi hafði sent til slátrunar þann 23. febrúar 2022 yrði fargað, þ.e. ekki nýttur til manneldis, þar sem merkingar á gripnum væru ófullnægjandi. Þann sama dag, 24. febrúar, óskaði kærandi eftir undanþágu skv. 3. mgr. 15. gr. reglugerðar nr. 916/2012 um merkingar búfjár. Þann 25. febrúar 2022 hafnaði héraðsdýralæknir Suðurumdæmis undanþágubeiðninni á þeim forsendum að ekki þótti „sýnt fram á nauðsyn þess að þessi gripur gæti ekki beðið slátrunar þar til viðurkennd eyrnamerki væri hægt að setja í henni.“
Kærandi mótmælti þessari niðurstöðu með bréfi 25. febrúar 2022. Þann 28. febrúar 2022 svaraði Matvælastofnun mótmælum kæranda með þeim hætti að undanþágubeiðninni hafi verið hafnað af héraðsdýralækni með bréfi þann 24. febrúar 2022. Vísaði Matvælastofnun jafnframt til kæruheimildar til matvælaráðuneytisins.
Með bréfi, dags. 11. apríl 2022, var ákvörðun Matvælastofnunar kærð til ráðuneytisins. Hinn 20. apríl 2022 óskaði ráðuneytið eftir umsögn Matvælastofnunar vegna málsins auk annarra gagna sem stofnunin taldi varða málið. Umsögn Matvælastofnunar barst þann 18. maí 2022. Kæranda var veittur frestur til andmæla vegna umsagnar Matvælastofnunar þann 23. maí 2022 og bárust andmæli kæranda þann 5. júní 2022. Þann 21. september 2021 óskaði ráðuneytið eftir nánari rökstuðningi Matvælastofnunar fyrir því að stofnunin mæti það svo að merkingar umrædds nautgrips hafi ekki verið fullnægjandi skv. reglugerð nr. 916/2012. Svar Matvælastofnunar barst ráðuneytinu þann 26. september 2022.

Sjónarmið kærenda
Kærandi vísar til þess að þann 24. febrúar 2022 hafi honum borist fréttir frá sláturhússtjóra Sláturhússins á Hellu þess efnis að nautgrip sem kærandi hafði sent til slátrunar þann 23. febrúar 2022 yrði fargað. Þann sama dag hafi kærandi sótt um undanþágu á grundvelli 3. mgr. 15. gr. reglugerðar nr. 916/2012 og óskað eftir því að grip númer [X] yrði ekki fargað heldur yrði hann nýttur til manneldis.
Kærandi vísar til þess að bændur og eftirlitsmenn hafi ekki sama skilning á reglugerð nr. 916/2012, en kærandi leggur þann skilning í reglugerðina að tilgangur hennar sé að tryggja rekjanleika búfjárafurða. Kærandi vísar til þess að fyrir liggi forprentað bæjarnúmer ásamt skýrt merktu gripanúmeri ásamt móðerni, faðerni og fæðingadegi sem stemmi við hjarðbók og sé því hægt að taka af allan vafa á uppruna gripsins. Umræddur nautgripur hafi því sannanlega verið merktur með forprentuðum viðurkenndum merkjum þrátt fyrir að gripanúmer hafi verið handskrifað. Því telur kærandi að uppfylltar séu kröfur sem gerðar eru til að tryggja rekjanleika gripsins.

Kærandi vísar jafnframt til þess að öll skilyrði hafi verið fyrir hendi til að veita undanþágu fyrir slátrun gripsins þar sem enginn vafi geti hafa leikið á að um væri að ræða gripinn [X]. Um sé að ræða íþyngjandi ákvörðun af hálfu héraðsdýralæknis sem valdi honum fjárhagstjóni. Kærandi telur að Matvælastofnun hafi borið að gæta meðalhófs og heimila slátrun með eðlilegum hætti.

Umsögn Matvælastofnunar
Matvælastofnun veitti umsögn um kæru með bréfi dags. 18. maí. Stofnunin vísar þar til þess að tilgangur laga um matvæli, nr. 93/1995, sé að tryggja, svo sem kostur er, gæði, öryggi og hollustu matvæla og að merkingar og aðrar upplýsingar um þau séu réttar og fullnægjandi. Samkvæmt 13. gr. a. laganna skal á öllum stigum framleiðslu og dreifingar matvæla vera fyrir hendi möguleiki á að rekja ferli matvæla, dýra sem gefa af sér afurðir til manneldis og hvers kyns efna sem nota á eða vænst sé að notuð verði í matvæli. Í reglugerð nr. 916/2012 um merkingar búfjár er kveðið á um kröfur sem gerðar eru til merkinga einstakra búfjártegunda. Samkvæmt 1. gr. reglugerðarinnar er markmið hennar að tryggja rekjanleika búfjárafurða frá upprunahjörð og/eða fæðingu viðkomandi dýrs til sölu afurða og skapa með því grundvöll að markvissu matvæla- og búfjáreftirliti, eftirliti með flutningum dýra, skráningu búfjársjúkdóma og meðhöndlun þeirra.
Matvælastofnun vísar til 4. gr. reglugerðarinnar þar sem kveðið er á um merkingarskyldu og að umráðamaður búfjár beri ábyrgð á að allt búfé sem alið er á hans vegum sé merkt innan tilskilins tíma frá fæðingu með viðurkenndu merki, sem fylgja á dýrinu alla ævi þess. Þá sé kveðið á um að óheimilt sé að breyta eða fjarlægja einstaklingsnúmer/merki dýrs eða eldishóps, nema það sé orðið ólæsilegt eða skemmt. Missi dýr merki, glatist það, eða það verði ólæsilegt, skal umráðamaður endurmerkja dýrið með merki sem tryggir rekjanleika þess við fyrra merki og hjarðbók. Í 5. gr. reglugerðarinnar eru kröfur um gerð plötumerkja og þar segir m.a. að upplýsingar á merkjum skuli prenta fyrirfram með skýru letri sem ekki er hægt að breyta. Plötumerki til notkunar samkvæmt reglugerðinni skulu viðurkennd af Matvælastofnun. Í 6. gr. er gerð krafa um að nautgripir skulu merktir með forprentuðu plötumerki í bæði eyru innan 20 daga frá fæðingu. Samkvæmt ákvæðinu skulu eftirfarandi upplýsingar koma fram á merkjunum a. YD-einkennisstafi Matvælastofnunar, b. IS-einkennisstafi Íslands, c. Búsnúmer og d. Gripanúmer. Matvælastofnun vísar til þess að forprentuð plötumerki séu því aðeins lögleg að allar ofangreindar upplýsingar séu prentaðar á merkið og ekki sé leyfilegt að ein blaðka, merkisins sé handskrifuð. Krafan sé að upplýsingarnar á merkjunum séu óafmáanlegar og lítur Matvælastofnun svo á að handskrifaður texti á merki uppfylli ekki það skilyrði.

Matvælastofnun vísar til ákvæðis 15. gr. reglugerðar nr. 916/2012 sem ber heitið „ábyrgð sláturhúsa og flutningsaðila“. Þar er kveðið á um að flutningsaðilum sé óheimilt að taka til flutnings ómerkta nautgripi, sauðfé/geitfé, hross og svín. Í 3. mgr. ákvæðisins er kveðið á um að berist ómerkt dýr í sláturrétt sláturhúss skuli það tilkynnt dýralækni sláturhússins. Dýrinu skuli slátrað en heilbrigðisskoðun dýralæknis frestað eða tryggt við heilbrigðisskoðun dýralæknis og stimplun að afurðirnar fari ekki til manneldis. Jafnframt er kveðið á um í ákvæðinu að Matvælastofnun geti veitt undanþágu frá þessu ákvæði ef viðhlítandi skýringar koma fram á því af hverju dýrið er ómerkt og hægt er að sýna fram á uppruna þess m.a. hvað einstaklingsnúmer dýrið hafði og skráningu í hjarðbók. Það er á ábyrgð sláturhúss og/eða eiganda búfjár að sýna fram á uppruna og veita skýringar sem og óska eftir undanþágu fyrir heilbrigðisskoðun dýralæknis. Matvælastofnun vísar til þess að rekjanleiki samkvæmt löggjöfinni teljist ekki fullnægjandi þegar forprentuð eyrnamerki vantar í nautgrip.
Matvælastofnun vísar til þess að við úttekt Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) hafi því verið veitt athygli að merkingar nautgripa sem hafði verið slátrað uppfylltu ekki ákvæði reglugerðar EB 911/2004. Tilmæli ESA hafi verið þau að tryggja þyrfti að einungis yrðu notuð forskráð plötumerki í nautgripi. Hafi Matvælastofnun í kjölfar þeirra tilmæla ákveðið að breyta verklagi til að uppfylla ákvæði um rekjanleika og merkingar nautgripa. Slíkt sé að mati Matvælastofnunar ekki gert öðruvísi en að tryggja að nautgripir sem koma til slátrunar séu með forprentuð plötumerki sem uppfylla 6. gr. reglugerðar nr. 911/2012 og að eftirlitsdýralæknir sem sinni heilbrigðisskoðun við slátrun geti tryggt að upplýsingar um sláturgripi séu réttar, þ.m.t. með tilliti til uppruna og heilbrigðisstöðu hvers og eins grips sem sé lagður inn til slátrunar. Verklag Matvælastofnunar hafi áður verið að skrá frávik í sláturhúsi ef merkingar nautgripa uppfylltu ekki ákvæði reglugerðar nr. 916/2012, senda frávikið til viðkomandi innleggjanda og eftir atvikum framkvæma eftirlit á búinu.

Matvælastofnun vísar til þess að stofnunin hafi upplýst um breytt verklag með bréfi til slátursleyfishafa þann 29. júní 2021 þar sem farið hafi verið yfir forsendur verklagsins og tekið fram að tryggja verði að nautgripir sem sendir eru til slátrunar séu framvegis merktir á réttan hátt. Jafnframt hafi komið fram í bréfinu að hægt væri að fara fram á undanþágu frá 6. gr. reglugerðar nr. 916/2012 en að slík beiðni þyrfti að senda viðkomandi héraðsdýralækni með a.m.k. sólahrings fyrirvara og að það þyrfti að koma fram skýringar á því undanþágunni. Jafnframt hafi verið leiðbeiningar um hvað þyrfti að koma fram í beiðninni: 1) Nafn og bú innleggjanda, 2) Búsnúmer og einstaklingsnúmer viðkomandi grips, 3) Lýsing á grip eins og skráð í Huppu og/eða mynd af gripnum.
Matvælastofnun vísar til þess að sú ákvörðun stofnunarinnar að setja sólahringsfyrirvara á undanþágubeiðni væri til að starfsfólk Matvælastofnunar geti kannað hvort viðkomandi gripur sé skráður í Huppu, hvort hann komi frá tilgreindu búi innleggjanda og hvort gripur sé á afurðarfresti, þ.e. hvort hann hafi verið meðhöndlaður með lyfjum sem koma í veg fyrir að hann sé nýttur til manneldis. Einnig sé kannað hvaða ástæður séu fyrir beiðni um undanþágu en til þess að hægt sé að taka beiðni til greina verði að vera málefnalegar ástæður að baki beiðninni. Matvælastofnun vísar til þess að umræddum grip hafi verið slátrað þann 23. febrúar en umsókn um undanþágu hafi komið þann 24. febrúar.
Matvælastofnun vísar til þess að stofnunin hafi sent bréf til sláturleyfishafa til frekari útskýringar á verklaginu sem tilkynnt var 29. júní 2021. Farið hafi verið fram á það að sláturleyfishafar kynntu viðskiptamönnum sínum verklagið. Jafnframt sendi héraðsdýralæknir Suðausturumdæmis tölvubréf þann 21. október 2021 á sláturleyfishafa í umdæminu og tilkynnti að skerpt yrði á veitingu undanþága frá og með 1. nóvember 2021. Tekið var fram að frá þeim tíma yrðu einungis veittar undanþágur í neyðartilvikum, þ.e. þar sem ekki væri framkvæmanlegt að endurmerkja gripi af einhverjum ástæðum.

Athugasemdir kæranda við umsögn Matvælastofnunar
Með bréfi dags. 5. júní 2022 gerði kærandi athugasemdir við umsögn MAST frá 9. maí s.á. Kærandi vísar þar til þess að umræddur nautgripur hafi verið með forprentuð merki í báðum eyrum Hann hafi ekki veitt því athygli að gripanúmer væri handskrifað. Hafi jafnframt verið brugðist samstundis við því að sækja um undanþágu þegar dýralæknir óskaði skýringa á merkingum griparins. Sú undanþágubeiðni hafi verið tekin til formlegrar umfjöllunar hjá MAST og henni svarað þann sama dag. Því standist ekki þær athugasemdir MAST að undanþágubeiðnin hafi verið of seint fram komin.
Kærandi telur að skýrt hafi komið fram í undanþágubeiðninni um hvaða grip hafi verið að ræða og í raun hafi aldrei verið vafi um uppruna hans, enda gripanúmer skráð á forprentað merki í eyra hans. Kærandi vísar jafnframt til þess að í reglugerð nr. 916/2012 komi skýrt fram að hægt sé að sækja um undanþágu þegar að gripur sé kominn í sláturhús.
Varðandi tilvísun Matvælastofnunar til úttektar ESA þá vísar kærandi til þess að þar komi fram að tilgangurinn með athugasemdunum sé að hægt sé að tryggja uppruna sláturgriparins, sem hafi verið mögulegt í þessu tilfelli. Kærandi vísar til svarbréfs Matvælastofnunar við undanþágubeiðninni þann 24. febrúar en þar sé í tvígang vísað til gripanúmers og því hafi ekki á neinum tímapunkti verið vafi um uppruna umrædds grips. Jafnframt telur kærandi að Matvælastofnun hafi ekki uppfyllt leiðbeiningaskyldu sína samkvæmt stjórnsýslulögum nr. 37/1993 með tilkynningu um breytt verklag þar sem tilkynningin fór einungis til þriðja aðila, þ.e. sláturleyfishafa en kærandi er ekki sláturleyfishafi.
Kærandi telur að málefnalegar ástæður liggi til grundvallar því að handskrifuð númer voru á forprentuðu merkjunum.

Frekari rökstuðningur Matvælastofnunar
Matvælastofnun veitti frekari rökstuðning fyrir niðurstöðu sinni með bréfi dags. 26. september 2022. Matvælastofnun vísar til þess að þann 18. maí 2022 hafi stofnunin breytt verklagi sínu eftir athugasemdir frá Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) haustið 2019. Handskrifaðar upplýsingar á eyrnamerkjum uppfylli ekki ákvæði um merkingar skv. reglugerð ESB 2017/949 heldur sé gerð krafa um að einungis séu notuð forskráð plötumerki í nautgripi. Vísar Matvælastofnun til þess að handskrifaðar upplýsingar skulu einungis leyfðar í undantekningartilvikum þegar sótt hefur verið um undanþágu vegna nánar greindra ástæðna. Tekið hafi verið fram varðandi beiðnir um undanþágur að þær skyldu berast a.m.k. sólahring áður en gripur væri sendur í sláturhús. Þessar breytingar hafi verið kynntar sláturleyfishöfum sem beðnir voru um að koma upplýsingum til umráðmanna gripa.
Matvælastofnun vísar til þess að forprentað eyrnamerki er skilgreint þannig að bæði bæjarnúmer og einstaklingsnúmer séu forprentuð. Krafan sé að upplýsingarnar á merkjunum séu óafmáanlegar og texti sem sé handskrifaður telst ekki óafmáanlegur.
Matvælastofnun vísar til þess að umrædd undanþágubeiðni hafi verið vegna merkja á nautgrip þar sem handskrifað var á merki eftir að upphafleg merki höfðu dottið úr gripnum. Gripnum hafi verið slátrað þann 23. febrúar. Héraðsdýralæknir hafi rökstutt synjun á undanþágubeiðninni með því „að ekki hefði verið sýnt fram á að gripurinn gæti ekki beðið slátrunar þar til hann væri með viðurkenndar merkingar í samræmi við ákvæði um merkingar nautgripa“. Matvælastofnun vísar til reglugerðar nr. 916/2012, um merkingar búfjár, þar sem fjallað er um kröfur sem gerðar eru til merkingar einstakra búfjártegunda. Samkvæmt 1. gr. reglugerðarinnar er markmið hennar að tryggja rekjanleika búfjárafurða frá upprunahjörð og/eða fæðingu viðkomandi dýrs til sölu afurða og skapa með því grundvöll að markvissu matvæla- og búfjáreftirliti, eftirliti með flutningum dýra, skráningu búfjársjúkdóma og meðhöndlun.
Matvælastofnun vísar til þess að héraðsdýralæknir taldi að ekki hefði verið sýnt fram á skilyrði fyrir undanþágu, þ.e. „nauðsyn þess að viðkomandi gripur færi í sláturhús án fullnægjandi merkinga og synjaði því undanþágubeiðninni“.

Forsendur og niðurstöður
Málið lýtur að ákvörðun Matvælastofnunar þess efnis að hafna undanþágubeiðni kæranda um að nautgrip númer [X], sem kærandi hafði sent til slátrunar, yrði fargað vegna rangra eyrnamerkinga.
Ágreiningur málsins lýtur að því hvort skilyrði fyrir undanþágu skv. 3. mgr. 15. gr. reglugerðar nr. 916/2012, um merkingar búfjár séu uppfyllt.
Í lögum nr. 93/1995, um matvæli, er kveðið á um innflutning og dreifingu matvæla. Samkvæmt 1. gr. laganna er tilgangur þeirra að tryggja gæði, öryggi og hollustu matvæla og að merkingar og aðrar upplýsingar um þau séu réttar og fullnægjandi. Samkvæmt 13. gr. a. laganna skal á öllum stigum framleiðslu og dreifingar matvæla vera fyrir hendi möguleiki á að rekja ferli matvæla, dýra sem gefa af sér afurðir til manneldis og hvers kyns efna sem nota á eða vænst sé að notuð verði í matvæli.
Í reglugerð nr. 916/2012, um merkingar búfjár, er kveðið á um kröfur sem gerðar eru til merkinga einstakra búfjártegunda. Samkvæmt 1. gr. reglugerðarinnar er markmið hennar að tryggja rekjanleika búfjárafurða frá upprunahjörð og/eða fæðingu viðkomandi dýrs til sölu afurða og skapa með því grundvöll að markvissu matvæla- og búfjáreftirliti, eftirliti með flutningum dýra, skráningu búfjársjúkdóma og meðhöndlun þeirra. Í 4. gr. reglugerðarinnar er kveðið á um merkingarskyldu og að umráðamaður búfjár beri ábyrgð á að allt búfé sem alið er á hans vegum sé merkt innan tilskilins tíma frá fæðingu með viðurkenndu merki, sem fylgja á dýrinu alla ævi þess. Þá er kveðið á um að óheimilt sé að breyta eða fjarlægja einstaklingsnúmer/merki dýrs eða eldishóps, nema það sé orðið ólæsilegt eða skemmt. Missi dýr merki, glatist það, eða það verði ólæsilegt, skal umráðamaður endurmerkja dýrið með merki sem tryggir rekjanleika þess við fyrra merki og hjarðbók. Í 5. gr. reglugerðarinnar eru kröfur um gerð plötumerkja og þar segir m.a. að upplýsingar á merkjum skuli prenta fyrirfram með skýru letri sem ekki er hægt að breyta. Plötumerki til notkunar samkvæmt reglugerðinni skulu viðurkennd af Matvælastofnun. Í 6. gr. reglugerðarinnar er gerð krafa um að nautgripir skulu merktir með forprentuðu plötumerki í bæði eyru innan 20 daga frá fæðingu. Samkvæmt ákvæðinu skulu eftirfarandi upplýsingar koma fram á merkjunum a. YD-einkennisstafi Matvælastofnunar, b. IS-einkennisstafi Íslands, c. Búsnúmer og d. Gripanúmer.
Í 15. gr. reglugerðar nr. 916/2012 er kveðið á um ábyrgð sláturhúsa og flutningsaðila. Í 3. mgr. ákvæðisins er kveðið á um að berist ómerkt dýr í sláturrétt sláturhúss skuli það tilkynnt dýralækni sláturhússins. Dýrinu skuli slátrað en heilbrigðisskoðun dýralæknis frestað eða tryggt við heilbrigðisskoðun dýralæknis og stimplun að afurðirnar fari ekki til manneldis. Jafnframt er kveðið á um í ákvæðinu að Matvælastofnun geti veitt undanþágu frá þessu ákvæði ef viðhlítandi skýringar koma fram á því af hverju dýrið er ómerkt og hægt er að sýna fram á uppruna þess m.a. hvað einstaklingsnúmer dýrið hafði og skráningu í hjarðbók. Það er á ábyrgð sláturhúss og/eða eiganda búfjár að sýna fram á uppruna og veita skýringar sem og óska eftir undanþágu fyrir heilbrigðisskoðun dýralæknis.

Fyrir liggur í málinu að merkingar umrædds nautgrips uppfylltu ekki skilyrði 5. og 6. gr. reglugerðar nr. 916/2012 þegar að hann kom í sláturrétt sláturhúss. Ágreiningur málsins snýr að því hvort kærandi uppfyllti skilyrði fyrir undanþágu skv. 3. mgr. 15. gr. reglugerðarinnar. Skilyrði undanþágunnar eru þau að viðhlítandi skýringar þurfa að koma fram á því af hverju dýrið er ómerkt og að hægt þurfi að sýna fram á uppruna þess m.a. hvað einstaklingsnúmer dýrið hafði og skráningu í hjarðbók. Jafnframt kemur fram í ákvæðinu að óska þurfi eftir undanþágunni fyrir heilbrigðisskoðun dýralæknis, sem fer fram eftir að dýri er slátrað samkvæmt ákvæðinu.
Kærandi óskaði eftir undanþágu sama dag og honum var tilkynnt að merkingar umrædds nautgrips uppfylltu ekki skilyrði reglugerðar nr. 916/2012. Í undanþágubeiðninni fylgdi einstaklingsnúmer, númer foreldra, fæðingardagur og skjáskot úr hjarðbók. Hefur ekki komið fram í gögnum málsins að Matvælastofnun hafi ekki talið þessi gögn nægjanleg til að tryggja rekjanleika gripsins.
Ráðuneytið getur ekki tekið undir það sjónarmið Matvælastofnunar að hafna beri undanþágubeiðni kæranda á þeim forsendum að stofnunin hafi tekið upp breytt verklag sínu eins og líst er að ofan, sem lýst er hér að ofan. Stofnunin verði við framkvæmdina að líta til orðalags 3. mgr. 15. gr. reglugerðar nr. 916/2012 og hvort skilyrði ákvæðisins séu uppfyllt. Umrætt verklag stofnunarinnar gangi lengra en ákvæði reglugerðarinnar og feli í sér íþyngjandi kröfur sem ekki hafi stoð í henni og gangi jafn vel í berhögg við skýrt orðalag reglugerðarinnar. Markmiðum reglugerðarinnar megi þannig ná með minna íþyngjandi hætti en lýst er í kæru. Þannig hafi stofnunin brotið gegn ákvæðum 12. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, um meðalhóf með hinni kærðu ákvörðun.
Ráðuneytið telur einnig að Matvælastofnun hafi brotið gegn leiðbeiningaskyldu sinni skv. 7. gr. stjórnsýslulaga þegar að stofnunin tilkynnti einungis slátursleyfishöfum um breytt verklag en ekki bændum sem þangað leiti þjónustu, enda sé um að ræða verklag sem hafi bein og íþyngjandi áhrif á þá.
Með vísan til framangreinds telur ráðuneytið að skilyrði séu fyrir því að ógilda þá ákvörðun Matvælastofnunar frá 24. febrúar 2022 þess efnis að hafna undanþágubeiðni kæranda samkvæmt 3. mgr. 15. gr. reglugerðar nr. 916/2012. Ráðuneytið tekur ekki afstöðu til kröfu kæranda um bætur en beinir því til kæranda að slíkar kröfur þarf að bera upp við Ríkislögmann.

Úrskurðarorð
Ákvörðun Matvælastofnunar, dags. 24. febrúar 2022, um að hafna undanþágubeiðni kæranda samkvæmt 3. mgr. 15. gr. reglugerðar nr. 916/2012, er hér með ógild.Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira