Hoppa yfir valmynd
Kærunefnd útlendingamála

Nr. 424/2019 - Úrskurður

Ákvarðanir Útlendingastofnunar um að synja um að taka umsóknir kærenda um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar á grundvelli a-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga og endursenda þau til Grikklands er felld úr gildi.

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 12. september 2019 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 424/2019

í stjórnsýslumálum nr. KNU19060004 og KNU19060005

Kæra […],

[…]

og barna þeirra

á ákvörðunum

Útlendingastofnunar

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 3. júní 2019 kærðu einstaklingar er kveðast heita […], vera fæddur […] og vera ríkisborgari […] (hér eftir M) og […], vera fædd […] og vera ríkisborgari […] (hér eftir K), ákvarðanir Útlendingastofnunar, dags. 13., 17. og 20. maí 2019 um að taka ekki til efnismeðferðar umsóknir kærenda og barna þeirra, […], fd. […] (hér eftir A), […], fd. […] (hér eftir B) og […], fd. […] (hér eftir C), sem öll eru ríkisborgarar […], um alþjóðlega vernd á Íslandi og vísa þeim frá landinu.

Kærendur krefjast þess aðallega að ákvarðanir Útlendingastofnunar verði felldar úr gildi og að stofnuninni verði gert að taka umsóknir þeirra til efnislegrar meðferðar hér á landi með vísan til 3. mgr. 36. gr., sbr. 42. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016, og með vísan til 2. mgr. 36. gr. laganna. Til vara er þess krafist að ákvarðanir Útlendingastofnunar verði felldar úr gildi og að mál kærenda verði send til nýrrar meðferðar vegna galla á málsmeðferð og brota á reglum stjórnsýsluréttar.

Fyrrgreindar ákvarðanir eru kærðar á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og bárust kærurnar fyrir lok kærufrests.

II. Málsmeðferð

Kærendur lögðu fram umsóknir um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 27. febrúar 2019. Við leit að fingraförum kærenda í Eurodac gagnagrunninum, þann 28. febrúar 2019, kom í ljós að fingraför þeirra höfðu verið skráð í grunninn af yfirvöldum í Grikklandi. Þann 7. mars 2019 var upplýsingabeiðni beint til yfirvalda í Grikklandi, sbr. 34. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir nefnd Dyflinnarreglugerðin). Í svari grískra yfirvalda, dags. 19. mars 2019, kom fram að kærendum hefði verið veitt viðbótarvernd þar í landi þann 13. febrúar 2018 og að þau væru með gilt dvalarleyfi í Grikklandi til 13. febrúar 2021. Þá framvísuðu kærendur grískum flóttamannavegabréfum með gildistíma til 14. júlí 2023 og f.h. A, B og C með gildistíma til 14. júlí 2021. Þá framvísuðu kærendur grískum dvalarleyfisskírteinum sem gáfu til kynna að kærendur væru með gilt dvalarleyfi þar í landi til 13. febrúar 2021. Kærendur komu til viðtals hjá Útlendingastofnun, m.a. þann 26. mars 2019, ásamt löglærðum talsmanni sínum. Útlendingastofnun ákvað dagana 13., 17. og 20. maí 2019 að taka ekki umsóknir kærenda um alþjóðlega vernd hér á landi til efnismeðferðar og að þeim skyldi vísað frá landinu. Ákvarðanirnar voru birtar fyrir kærendum þann 21. maí 2019 og kærðu kærendur ákvarðanirnar þann 3. júní 2019 til kærunefndar útlendingamála. Greinargerð kærenda barst kærunefnd 13. júní 2019 ásamt fylgigögnum. Kærunefnd bárust viðbótargögn dagana 9. og 16. júlí, 13., 16. og 22. ágúst og 10. september 2019. Þá barst kærunefnd tölvupóstur frá grískum stjórnvöldum þann 20. ágúst 2019 sem var svar við erindi kærunefndarinnar, dags. 14. ágúst 2019.

III. Ákvarðanir Útlendingastofnunar

Í ákvörðunum Útlendingastofnunar kom fram að kærendum hefði verið veitt viðbótarvernd í Grikklandi. Umsóknir þeirra um alþjóðlega vernd yrðu því ekki teknar til efnismeðferðar, sbr. a-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, enda fæli flutningur kærenda til Grikklands ekki í sér brot gegn 42. gr. laga um útlendinga, sbr. jafnframt 3. mgr. 36. gr. laganna. Þá hefðu kærendur ekki slík tengsl við Ísland að nærtækast væri að þau fengju hér vernd eða að sérstakar ástæður væru fyrir hendi þannig að taka bæri umsóknir kærenda til efnismeðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kærendum var vísað frá landinu, sbr. c-lið 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, og skyldu þau flutt til Grikklands.

Í ákvörðunum Útlendingastofnunar í málum barnanna A, B og C kom fram að það væri niðurstaða stofnunarinnar, með vísan til niðurstöðu í málum foreldra þeirra, að gættum ákvæðum samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013, laga um útlendinga og barnaverndarlaga nr. 80/2002, að hagsmunum þeirra væri best borgið með því að fylgja foreldrum sínum til Grikklands.

IV. Málsástæður og rök kærenda

Í greinargerð kærenda kemur fram að þau hafi í viðtölum hjá Útlendingastofnun greint frá því að þau hafi dvalið í Grikklandi í tæplega eitt og hálft ár. Aðstæður þeirra hafi verið slæmar, þau hafi ekki haft aðgang að menntun, heilbrigðisaðstoð eða atvinnu. […]. Fjölskyldan hafi því þurft á mikilli heilbrigðisaðstoð að halda í Grikklandi en erfiðlega hafi gengið að fá hana auk þess sem hún hafi ekki verið góð. Þá hafi fjölskyldan þurft að ferðast langar leiðir til þess að nálgast aðstoðina sem hafi einnig verið kostnaðarsöm. Þá vísa kærendur til þess að til að fá heilbrigðisaðstoð hafi verið nauðsynlegt að fá samþykki Sameinuðu þjóðanna, sem hafi tekið tíma en vegna alvarlegra veikinda C hafi bið eftir lækni skipt sköpum. Kærendur kveði að fái C ekki viðeigandi læknisþjónustu sé hætt við því að hann muni glíma við erfiðleika vegna heilsuleysis ævilangt. Kærendur telji að niðurstaða Útlendingastofnunar um að kærendur eigi lagalegan rétt á endurgjaldslausri grunnheilbrigðisþjónustu, lyfjum og rannsóknum í Grikklandi eigi ekki við í máli þeirra […]. Þá vísi kærendur til bréfs barnalæknis hér á landi þar sem fram komi að læknirinn telji að C muni þurfa á […] að halda á næstu mánuðum.

Krafa kærenda er m.a. byggð á því að uppi séu sérstakar ástæður í málum þeirra, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kærendur telji að fjölskyldan sé öll í sérstaklega viðkvæmri stöðu m.a. vegna alvarlegra veikinda C. Kærendur kveði að þau muni eiga erfitt uppdráttar í Grikklandi, m.a. vegna þeirra kerfislægu fordóma og mismununar sem þar þrífist gagnvart flóttafólki, og þá ýti lýsingar kærenda á aðstæðum sínum í Grikklandi undir þá staðreynd að staða þeirra muni vera verulega síðri en almennings við endursendingu þeirra þangað. Þá kveði kærendur að það muni ekki vera börnunum fyrir bestu að verða send aftur til Grikklands. Ljóst sé að C þurfi á sérhæfðri læknisaðstoð að halda og alls óvíst hvort hann muni fá hana í Grikklandi. Kærendur telji, með vísan til aðstæðna fjölskyldunnar í Grikklandi sem og til heilsufars C, að taka beri mál fjölskyldunnar til efnismeðferðar á grundvelli sérstakra ástæðna, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

 

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Réttarstaða barna kærenda

Í 2. mgr. 10. gr. laga um útlendinga segir að ákvarðanir sem varði barn skuli teknar með það sem því sé fyrir bestu að leiðarljósi, því tryggður réttur til að tjá skoðanir sínar í málum sem það varði og að tekið sé tillit til skoðana barnsins í samræmi við aldur þess og þroska. Í 3. mgr. 25. gr. laga um útlendinga kemur fram að við ákvörðun sem sé háð mati stjórnvalds skuli huga að öryggi barns, velferð þess og félagslegum þroska og möguleika þess til að sameinast fjölskyldu sinni. Í 32. gr. a reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017 kemur m.a. fram að sé ólögráða barn í fylgd annars eða beggja foreldra skal það almennt viðurkennt að hagsmunum barns sé best borgið með því að tryggja fjölskylduna sem heild og rétt hennar til að vera saman.

Kærunefnd hefur farið yfir gögn málanna, m.a. viðtöl við M, K, A og B hjá Útlendingastofnun og framlögð heilsufarsgögn, þ. á m. varðandi börnin A, B og C. Það er mat nefndarinnar, á grundvelli gagna málanna, að ekki séu forsendur til annars en að ætla að hagsmunum A, B og C sé best borgið með því að tryggja rétt fjölskyldunnar til að vera saman og að réttarstaða A, B og C verði ákvörðuð í samræmi við meginregluna um einingu fjölskyldunnar. Börnin A, B og C eru í fylgd foreldra sinna og verður því tekin afstaða til mála fjölskyldunnar í einum úrskurði.

Ákvæði 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er mælt fyrir um að umsókn um alþjóðlega vernd skuli tekin til efnismeðferðar nema undantekningar sem greindar eru í a-, b- og c-liðum ákvæðisins eigi við. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 36. gr. er stjórnvöldum heimilt að synja því að taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar hafi umsækjandi komið til landsins að eigin frumkvæði eftir að hafa hlotið virka alþjóðlega vernd eða annars konar vernd í öðru ríki eða ef hann, eftir að hafa dvalist í ríki þar sem hann þurfti ekki að sæta ofsóknum, gat óskað eftir því að fá viðurkennda stöðu sem flóttamaður og, ef hann var talinn flóttamaður, fengið vernd í samræmi við alþjóðasamning um stöðu flóttamanna.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum málanna var kærendum og börnum þeirra veitt viðbótarvernd í Grikklandi þann 13. febrúar 2018 og hafa þau gilt dvalarleyfi þar í landi til 13. febrúar 2021. Að mati kærunefndar felur sú vernd sem kærendur og börn þeirra njóta í Grikklandi í sér virka alþjóðlega vernd í skilningi a-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Einstaklingsbundnar aðstæður kærenda

Kærendur eru hjón með þrjú börn […]. Í gögnum um heilsufar M kemur fram að hann sé almennt við góða andlega og líkamlega heilsu en glími við […]. Í gögnum um heilsufar K kemur fram að hún sé almennt við góða líkamlega heilsu en að hún eigi erfitt með svefn. Þá kemur fram í gögnum um heilsufar A og B að þau séu almennt við góða andlega og líkamlega heilsu.

Meðal gagna málsins eru heilsufarsgögn varðandi C þar sem fram kemur m.a. að hann glími við […]. Í gögnum rituðum af sérfræðilækni á Landspítala háskólasjúkrahúsi kemur fram að C sé með […]. Í tölvupósti frá barnalækni á Barnaspítala hringsins, dags. 7. júní 2019, kemur fram að ef ekki verði gerð aðgerð af einhverjum orsökum sé það ávísun á […] síðar á lífsleiðinni. Þá kemur fram í tölvupósti frá sama lækni dags. 9. júlí 2019 að aðgerð innan sex mánaða væri ásættanleg út frá læknisfræðilegu sjónarmiði. Í fylgiblaði með læknisvottorði sérfræðilæknis í barnalækningum, dags. 5. september 2019, kemur fram að sökum veikinda sinna hafi C einkenni […]. Þá kemur fram að tilboð í […] hafi verið samþykkt […].

Að mati kærunefndar er ljóst, m.a. með vísan til fyrirliggjandi heilsufarsgagna og með vísan til ungs aldurs og þjónustuþarfar C, að veikindi hans séu þess eðlis að fjölskyldan öll hafi sérþarfir sem taka þurfi tillit til við meðferð málsins, sbr. 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga.

Aðstæður í Grikklandi

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Grikklandi, m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum og gögnum:

 • 2018 Report on International Religious Freedom – Greece (United States Department of State, 21. júní 2019);
 • 2018 – Country Reports on Human Rights Practices – Greece (United States Department of State, 13. mars 2019);
 • Amnesty International Report 2017/18 – Greece (Amnesty International, 22. febrúar 2018);
 • Asylum Information Database, National Country Report: Greece (European Council on Refugees and Exiles, 29. mars 2019);
 • Commissioner for Human Rights: Report of the Commissioner for Human Rights of the Council of Europe, Dunja Mijatovic, following her visit to Greece from 25 to 29 June 2018 (Council of Europe, 6. nóvember 2018);
 • ECRI Report on Greece (fifth monitoring cycle) (European Commission against Racism and Intolerance, 24. febrúar 2015);
 • EU/Greece: Pressure to Minimize Number of Migrants Identified as ´vulnerable´ (Human Rights Watch, 1. júní 2017); Freedom in the World 2018 – Greece (Freedom House, 1. ágúst 2018);
 • Greece as a Country of Asylum – UNHCR‘s Recommendations (UNHCR, 6. apríl 2015);
 • Migration Flows and Refugee Protection – Administrative challenges and human rights issues (The Greek Ombudsman, apríl 2017);
 • Petition to the European Parliament – Regarding degrading reception conditions and EU funding in Greece (Solidarity Now, mars 2017);
 • Reports of the Special Rapporteur on the human rights of migrants on his mission to Greece, (United Nations, General Assembly, 24. apríl 2017);
 • State of the World‘s Minorities and Indigenous Peoples 2016 – Greece (Minority Rights Group International, 12. júlí 2016);
 • Upplýsingar af vefgátt um evrópsk réttarkerfi (e. European e-Justice Portal): https://e-justice.europa.eu, og
 • World Report 2019 – European Union (Human Rights Watch, 17. janúar 2019).

Af ofangreindum gögnum verður ráðið að grísk stjórnvöld hafa verið gagnrýnd vegna aðbúnaðar umsækjenda um alþjóðlega vernd og flóttamanna þar í landi. Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur m.a. bent á þau neikvæðu áhrif sem efnahagur Grikklands hefur haft á aðstæður einstaklinga sem hafa hlotið alþjóðlega vernd þar í landi og möguleika þeirra á að aðlagast grísku samfélagi. Að mati kærunefndar er ljóst af framangreindum gögnum að þeir einstaklingar sem hlotið hafa alþjóðlega vernd í Grikklandi lifa oft á jaðri samfélagsins og búa í sumum tilvikum við félagslega einangrun. Einstaklingar með alþjóðlega vernd eiga hins vegar sama rétt til félagslegrar aðstoðar og grískir ríkisborgarar og í dvalarleyfi þeirra felst jafnframt sjálfkrafa aðgangur að vinnumarkaði. Þá veita frjáls félagasamtök einstaklingum með alþjóðlega vernd aðstoð við að kynna sér réttindi sín í Grikklandi.

Einstaklingar sem hlotið hafa alþjóðlega vernd í Grikklandi eiga rétt á endurgjaldslausri grunnheilbrigðisþjónustu, þ. á m. nauðsynlegri geðheilbrigðisþjónustu og lyfjum. Samkvæmt þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér um aðstæður í Grikklandi hefur bág fjárhagsstaða gríska ríkisins haft mikil áhrif á heilbrigðiskerfi landsins og hefur kostnaðarþátttaka almennings aukist við kaup á lyfjum og þjónustu. Þannig geti verið vandkvæðum bundið að sækja sér heilbrigðisþjónustu þar í landi og þá sérstaklega sérhæfða heilbrigðisþjónustu, m.a. vegna skorts á fjármagni og starfsfólki. Á þetta jafnt við um alla borgara Grikklands, bæði gríska ríkisborgara og aðra sem hafa rétt til dvalar í ríkinu.

Sem fyrr segir eiga einstaklingar með alþjóðlega vernd sama rétt til félagslegrar aðstoðar og grískir ríkisborgarar en aðgengi þeirra að húsnæði er háð sömu skilyrðum og takmörkunum og aðgengi annarra ríkisborgara þriðju ríkja með löglega dvöl í Grikklandi. Fá gistiskýli eru í boði fyrir heimilislausa auk þess sem ekkert húsnæði er til staðar sem einungis er ætlað einstaklingum með alþjóðlega vernd. Erfitt getur reynst að fá pláss í gistiskýlum þar sem aðsóknin er mikil og eru dæmi um að einstaklingar með alþjóðlega vernd hafist við í yfirgefnum húsum við mjög bágar aðstæður. Á þetta einnig við um einstaklinga sem hafa verið sendir til Grikklands frá öðrum Evrópuríkjum.

Í framangreindum gögnum kemur fram að grísk yfirvöld veiti einstaklingum með alþjóðlega vernd sem búa undir fátæktarmörkum fjárhagsaðstoð í formi mánaðarlegra greiðslna. Einstaklingar sem hyggjast nýta sér úrræðið þurfa að uppfylla ýmis skilyrði og má sem dæmi nefna að þeir þurfa að hafa kennitölu, skattnúmer, gilt dvalarleyfi og bankareikning. Þá þurfa þeir m.a. að framvísa leigusamningi í þeim tilvikum þegar þeir búa í leiguhúsnæði og í tilviki heimilislausra einstaklinga þurfa þeir að framvísa vottorði um heimilisleysi frá gistiskýlinu eða sveitarfélaginu þar sem þeir búa. Þá kemur fram í fyrrnefndum gögnum að engin sérúrræði eru til staðar varðandi félagsþjónustu fyrir fólk í viðkvæmri stöðu, s.s. þolendur pyndinga.

Í skýrslu Asylum Information Database kemur fram að börn með alþjóðlega vernd í Grikklandi eigi sama rétt til þess að ganga í skóla þar í landi og börn með grískt ríkisfang fram að 15 ára aldri. Þrátt fyrir það þá kemur fram að einungis rúmlega helmingur barna á flótta sæki skóla í Grikklandi. Er ástæðan fyrir þessu m.a. rakin til tungumálahindrana og þess að námið henti ekki börnum sem njóti alþjóðlegrar verndar í Grikklandi.

Þá kemur fram í ofangreindri skýrslu Asylum Information Database að dvalarleyfi einstaklinga sem hlotið hafa alþjóðlega vernd eða viðbótarvernd í Grikklandi séu gefin út til þriggja ára í senn. Umsókn um endurnýjun dvalarleyfis þurfi að berast 30 dögum áður en að leyfið renni út en ef umsókn berist eftir þann tíma leiði það þó ekki eitt og sér til þess að umsókn sé synjað. Umsókn sé þá að jafnaði endurnýjuð. Við málsmeðferð umsókna um endurnýjun dvalarleyfis sé þó framkvæmd könnun á sakaferli sem geti leitt til þess að alþjóðleg vernd umsækjanda sé afturkölluð og honum í kjölfarið synjað um endurnýjun dvalarleyfis. Þá sé málsmeðferðartími umsókna um endurnýjun dvalarleyfis u.þ.b. tveir mánuðir en þó séu dæmi um að það tímabil geti lengst upp í sex mánuði, en á meðan umsókn sé í vinnslu fái umsækjendur sérstakt kort sem veiti þeim sömu réttindi og fylgi dvalarleyfinu útgefið til tveggja mánaða í senn.

Ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga

Í 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Í 32. gr. a og 32. gr. b reglugerðar um útlendinga, sbr. 4. mgr. 36. gr. laganna, koma fram viðmið varðandi mat á því hvort taka skuli umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar vegna sérstakra tengsla eða ef sérstakar ástæður mæla með því. Í 32. gr. a reglugerðar um útlendinga koma fram sérviðmið er varða börn og ungmenni. Þar segir m.a. að við mat á því hvort taka skuli umsókn til efnismeðferðar vegna sérstakra ástæðna skuli hagsmunir barnsins hafðir að leiðarljósi.

Af gögnum málsins er ljóst að C þjáist af […] og er það mat barnalæknis hér á landi að C þurfi að fara í […] og að ef aðgerðin verði ekki framkvæmd muni það leiða til heilsufarsvanda í framtíðinni. Í tölvupósti frá sérfræðilækni á Landspítalanum, dags. 9. júlí 2019, kemur fram að aðgerð innan sex mánaða sé vel ásættanlegt út frá læknisfræðilegu sjónarmiði. Þá kemur fram í gögnum málsins að samþykkt hafi verið að senda C í […] í lok september sem þó megi fresta um einhverjar vikur. Í ljósi framangreinds telur kærunefnd að fyrir hendi sé ástæða er varðar heilsufar C sem sé svo einstaklingsbundin og sérstök að ekki verði framhjá henni litið. Hefur heilsufar C því vægi við mat á því hvort taka beri umsókn hans til efnismeðferðar, sbr. 32. gr. a reglugerðar um útlendinga.

Eins og að framan hefur verið rakið hafa einstaklingar sem njóta alþjóðlegrar verndar í Grikklandi ýmis réttindi þar í landi, m.a. rétt til endurgjaldslausrar grunnheilbrigðisþjónustu. Þá liggur einnig fyrir að sökum álags á innviði landsins getur í sumum tilvikum verið vandkvæðum bundið fyrir einstaklinga með alþjóðlega vernd að sækja sér viðeigandi heilbrigðisþjónustu. Kærunefnd óskaði eftir upplýsingum frá grískum stjórnvöldum, með tölvupósti þann 14. ágúst 2019, um þá aðstoð sem C standi til boða við endursendingu til Grikklands. Í svari grískra stjórnvalda, þann 20. ágúst 2019, var vísað á heimasvæði frjálsra félagasamtaka með almennum upplýsingum um þá þjónustu sem einstaklingar með alþjóðlega vernd njóta í Grikklandi. Liggja því ekki fyrir einstaklingsbundnar upplýsingar um aðgang C að nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu.

Að mati kærunefndar er ekki unnt að draga aðra ályktun af gögnum málsins en að það sé andstætt öryggi C, velferð hans og þroska ef umrædd […] fer ekki fram innan þess tíma sem fjallað er um í framangreindum gögnum. Í ljósi upplýsinga um mögulegar hindranir aðgangs einstaklinga með alþjóðlega vernd í Grikklandi að viðeigandi heilbrigðisþjónustu telur kærunefnd ekki unnt að fullyrða að C muni standa til boða sú læknisþjónusta sem hann þarf á að halda innan þess tíma. Með hliðsjón af alvarleika veikinda C og ungum aldri hans er það mat kærunefndar að synjun á efnismeðferð umsóknar C, og flutningur hans til Grikklands, væri því ekki í samræmi við hagsmuni hans.

Samkvæmt framangreindu er það niðurstaða kærunefndar að fyrir hendi séu sérstakar ástæður í máli C, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, sbr. einnig 2. mgr. 10. gr. og 3. mgr. 25. gr. laga um útlendinga og 1. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 22. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013, og tilvitnuð ákvæði reglugerðar um útlendinga.

Að framangreindu virtu og með vísan til sjónarmiða um einingu fjölskyldunnar er það niðurstaða kærunefndar að fella úr gildi ákvarðanir Útlendingastofnunar í málum kærenda og barna þeirra og leggja fyrir stofnunina að taka mál þeirra til efnislegrar meðferðar.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið er það niðurstaða kærunefndar útlendingamála, eins og hér stendur á, að taka beri mál kærenda og barna þeirra til efnismeðferðar hér á landi.

 

Úrskurðarorð

Ákvarðanir Útlendingastofnunar eru felldar úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka mál kærenda og barna þeirra til efnismeðferðar.

The decisions of the Directorate of Immigration are vacated. The Directorate shall examine the merits of the applicant‘s and their children‘s applications for international protection in Iceland.

 

Anna Tryggvadóttir

 

Gunnar Páll Baldvinsson                                                                                 Bjarnveig Eiríksdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira