Mál nr. 454/2024-Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 454/2024
Þriðjudaginn 17. desember 2024
A
gegn
Vinnumálastofnun
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.
Með kæru, dags. 22. september 2024, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 19. ágúst 2024, um að fella niður rétt hans til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 7. nóvember 2022 og var umsóknin samþykkt 6. desember 2022. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 19. ágúst 2024, var kæranda tilkynnt að réttur hans til atvinnuleysisbóta hefði verið felldur niður í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 57. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar sökum þess að hann hefði hafnað starfi.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 22. september 2024. Með bréfi, dags. 25. september 2024, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar vegna kærunnar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst 21. október 2024 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar 23. október 2024. Athugasemdir bárust frá kæranda 28. október 2024 og voru kynntar Vinnumálastofnun með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 30. október 2024. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 18. nóvember 2024, var óskað eftir tilteknum upplýsingum frá B vegna málsins. Svar barst frá fyrirtækinu 28. nóvember 2024 og var það kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 3. desember 2024. Athugasemdir bárust frá kæranda 9. desember 2024.
II. Sjónarmið kæranda
Í kæru greinir kærandi frá því að hann hafi þann 24. júní 2024 fengið boð í atvinnuviðtal hjá B. Hann hafi samþykkt boðið og farið í viðtalið síðar sama dag. Í viðtalinu hafi kæranda verið tjáð að hann yrði beðinn um að vinna umtalsverða yfirvinnu án þess að fá greitt fyrir hana. Kærandi bendi á að það brjóti beinlínis í bága við kjarasamningsbundin réttindi hans. Í byrjun júlímánaðar 2024 hafi kærandi orðið var við margar fréttir sem hafi staðfest áhyggjur hans eftir umrætt viðtal, svo sem varðandi eitraða vinnustaðamenningu, þar á meðal andlegt ofbeldi, að halda eftir launum og kjörum með ólögmætum hætti, ógreidda yfirvinnu og misnotkun á atvinnuleysistryggingakerfinu. Þann 12. júlí 2024 hafi fyrirtækið boðið kæranda starfið. Kærandi hafi verið óviss um hvernig hann ætti að snúa sér í málinu vegna þess að hann hafi haft áhyggjur af ráðningarferli fyrirtækisins og ströngu banni Vinnumálastofnunar við að hafna atvinnutilboði, auk þess sem hann hafi verið í virkri atvinnuleit á sama tímabili. Þar af leiðandi hafi kærandi aldrei hafnað starfinu með beinum hætti. Þann 22. júlí 2024 hafi kærandi staðfest atvinnuleit við Vinnumálastofnun.
Þann 13. ágúst 2024 hafi Vinnumálastofnun tilkynnt kæranda að stofnunin hefði svipt hann atvinnuleysisbótum með vísan til þess að hann hefði hafnað atvinnutilboði. Kærandi hafi lagt fram skýringarbréf, dags. 14. ágúst 2024, þar sem hann hafi lýst áhyggjum sínum af starfsvæntingum fyrirtækisins og vinnustaðamenningu, auk þess sem hann hafi vísað til fjölmiðlaumfjöllunar þess efnis. Kærandi hafi jafnframt óskað eftir því að Vinnumálastofnun kannaði ráðningaraðferðir fyrirtækisins út frá skjalfestri misnotkun þess á atvinnuleysistryggingakerfinu. Þann 19. ágúst 2024 hafi Vinnumálastofnun hafnað skýringum kæranda.
Í kjölfar beiðni kæranda um rökstuðning hafi hann verið veittur með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 4. september 2024. Kærandi geri fimm athugasemdir við rökstuðning stofnunarinnar. Í fyrsta lagi fari Vinnumálastofnun rangt með helstu röksemdir kæranda. Í rökstuðningi stofnunarinnar segi:
„Í skýringum þínum segir þú að atvinnurekandi hafi ekki getað svarað þér hvenær nákvæmlega starf myndi hefjast, að þér bæri að vinna á kvöldin og um helgar og að starfið gæti verið stressvaldandi.“
Með þessu brjóti Vinnumálastofnun áhyggjur kæranda af brotum á réttindum hans niður í óánægju með starfsskilyrði. Ástæða þess að kærandi hafi nefnt áhyggjur varðandi yfirvinnu hafi verið sú að skýrt hafi verið tekið fram að sú vinna yrði ekki greidd. Þá hafi kærandi einungis nefnt viðurkenningu fyrirtækisins á streituvaldandi vinnuaðstæðum vegna alvarlegra ásakana á hendur fyrirtækinu í fréttum.
Þá vísi stofnunin til nefndra frétta kæranda sem „upplýsingar á internetinu“:
„Bentir þú jafnframt á að þú hefðir fundið upplýsingar á internetinu sem bentu til þess að stjórnendur umrædds atvinnurekanda beittu andlegu ofbeldi.“
Þær fréttir sem um ræði séu frá virtum rannsóknarfjölmiðli, Heimildinni, sem sýni ítarlegar frásagnir margra fyrrum starfsmanna B sem spanni nokkur ár. Þá geri Vinnumálastofnun enga tilraun til að minnast á þá misnotkun sem fram komi í fréttunum.
Loks hafi Vinnumálastofnun haldið því fram í rökstuðningi sínum að kærandi hafi einfaldlega verið óánægður með laun og vinnutíma sem hafi staðið til boða. Stofnunin hafi gert lítið úr áhyggjum kæranda varðandi hugsanleg brot á réttindum hans:
„Fyrir liggur að þér bauðst atvinnutilboð sem þú þáðir ekki sökum þess að þú hafir ekki verið sáttur með launakjör og starfsaðstæður sem atvinnurekandi bauð.“
Í öðru lagi geri kærandi athugasemd við að Vinnumálastofnun hafi ekki gert tilraun til að bregðast við sérstakri beiðni kæranda um að rannsaka eða kanna vinnustaðamenningu og starfshætti fyrirtækisins. Þannig hafi stofnunin brugðist varðandi það að draga fyrirtækið til ábyrgðar. Í þriðja lagi sé Vinnumálastofnun í raun að valdefla fyrirtækið með því að hafna sjónarmiðum kæranda.
Í fjórða lagi geri kærandi athugasemdir við ákvörðun Vinnumálastofnunar um viðurlög. Í stað þess að rannsaka fyrirtækið hafi stofnunin gert kæranda að sæta viðurlögum. Sú ákvörðun jafngildi því að refsa atvinnuleitandanum fyrir að láta í ljós gildar áhyggjur sínar af því að verið sé að brjóta á réttindum launafólks að því er varði ólaunaða yfirvinnu, sem og áhyggjur af eitruðu vinnuumhverfi og skjalfestri hagnýtingu fyrirtækisins á atvinnuleitendum fyrir eigin fjárhagslegan ávinning.
Í fimmta lagi hafi kærandi áhyggjur af því að Vinnumálastofnun noti fé skattgreiðenda til að niðurgreiða laun fyrir meint svikafyrirtæki sem hafi hugsanlega brotið kjarasamningsbundinn rétt.
Í athugasemdum kæranda vegna greinargerðar Vinnumálastofnunar, dags. 28. október 2024, kemur fram að í greinargerðinni séu sömu sjónarmið endurtekin og hafi komið fram í rökstuðningi stofnunarinnar til kæranda. Stofnunin fjalli hins vegar ekki efnislega um sjónarmið kæranda eins og þau komi fram í kæru til úrskurðarnefndarinnar. Vinnumálastofnun haldi áfram að vísa til kvartana kæranda sem óánægju með vinnutíma en kjarni málflutnings hans sé ógn um að atvinnurekandi brjóti gegn kjarasamningsbundnum réttindum.
Vinnumálastofnun vísi til þess að kærandi hafi verið ósáttur við launakjör en kærandi kveður það ekki vera rétt. Stofnunin eigi að mati kæranda að gera sér grein fyrir því að ólaunuð kvöld- og helgarvinna, til viðbótar við fulla dagvinnu, sé brot á kjarasamningsbundnum réttindum hans. Það sé ekki hægt að biðja hann um að vinna verulega yfirvinnu launalaust, slíkt sé bæði ólögmætt og óréttlátt. Stofnunin lýsi þessu samt sem áður sem persónulegri óánægju kæranda með laun. Slík rangfærsla, hvort sem hún sé viljandi eða ekki, bendi til alvarlegs stofnanabrests að mati kæranda. Þá líti Vinnumálastofnun þægilega framhjá fjalli af sönnunargögnum um misnotkun atvinnurekanda.
Vinnumálastofnun ljúki greinargerð sinni með því að segja að þegar samningar séu undirritaðir kanni stofnunin alltaf kjör atvinnuleitanda við ráðningu. Kærandi telji ágalla vera á þessari fullyrðingu. Misnotkunin sem um ræði, sem atvinnurekandi hafi gefið skýrt til kynna að myndi eiga við um kæranda, kæmi ekki fram í samningi fyrir fram. Því feli þessar ráðstafanir Vinnumálastofnunar ekki í sér neina vernd. Kærandi telji auk þess að ágreiningurinn afhjúpi stóran galla á kerfi Vinnumálastofnunar, enda sé nánast ómögulegt fyrir atvinnuleitendur að hafna atvinnutilboði, burtséð frá því hver sé ástæðan.
Þær reglur sem Vinnumálastofnun starfi eftir geri ráð fyrir huglægu mati í hverju tilviki þar sem atvinnuleitendum sé gefinn kostur á að færa fram gilda ástæðu fyrir höfnun á starfi eða atvinnuviðtali. Kærandi hafi lagt fram vel rökstudda og gilda ástæðu.
Í athugasemdum kæranda, dags. 9. desember 2024, kemur fram að það komi ekki á óvart að fyrirtæki sem hafi af mörgum fyrrum starfsmönnum verið ásakað um misferli neiti fyrir það að hafa sett ákveðnar kröfur á kæranda. Þegar kærandi hafi spurt út í vinnutíma í starfsviðtalinu hafi honum verið tjáð að farið yrði fram á kvöld- og helgarvinnu í „aðdraganda skilafrests“. Þar sem eingöngu hafi verið um að ræða tveggja mánaða starf hefði verið hægt að túlka hvaða tímabil sem er sem „aðdraganda skilafrests“. Þetta jafngildi viðurkenningu á ólaunaðri yfirvinnu óháð lengd yfirvinnutíma. Samhliða vinnuumhverfi sem að sögn þeirra sem hafi tekið viðtalið væri streituvaldandi og þyrfti góðar taugar í hafi kærandi haft ríka ástæðu til að gruna að réttindi hans yrðu misnotuð. Skýringar fyrirtækisins um að yfirvinna yrði greidd út með orlofi haldi ekki vatni. Um hafi verið að ræða tímabundið starf til tveggja mánaða án frítíma eftir á þar sem starfinu hefði verið lokið. Kærandi spyrji hvernig hann hefði átt að fara í frí þegar hann hefði orðið atvinnulaus að nýju. Ef átt hafi verið við að greitt yrði fyrir vinnuna eftir á hafi það ekki komið fram í viðtalinu.
Kærandi tekur fram að hann hafi greint frá öðru starfi sem hann hafi verið að bíða eftir svari við til að hafa áhrif á samningsstöðu sína. Ástæðan fyrir því að hann hafi ekki svarað þeim eftir þeirra boð sé einföld. Vegna þess sem hafi komið fram í viðtalinu hafi kærandi flett fyrirtækinu upp á netinu og fundið ítarlega fjölmiðlaumfjöllun um misnotkun og vanrækslu. Vegna þessa hafi kærandi ekki haft áhuga á að hafa frekari samskipti við fyrirtækið.
Mál kæranda hjá úrskurðarnefndinni snúist um að meta hvort ákvörðun Vinnumálastofnunar um að svipta hann bótum hafi verið gild og réttmæt. Vinnumálastofnun hafi fengið ítarlegar skýringar kæranda og hafi verið gert grein fyrir annars vegar útbreiddum ásökunum á hendur þessum vinnuveitanda og hins vegar þeirri staðreynd að honum hafi verið sýnd álíka svívirðileg vinnuskilyrði eins og komi fram í þeim ásökunum. Það sem fyrirtækið hafi um málið að segja skipti ekki máli.
III. Sjónarmið Vinnumálastofnunar
Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi sótt um greiðslu atvinnuleysistrygginga með umsókn, dags. 7. nóvember 2022. Með erindi, dags. 6. desember 2022, hafi kæranda verið tilkynnt að umsókn hans hefði verið samþykkt og að útreiknaður bótaréttur væri 100%.
Þann 22. júlí 2024 hafi Vinnumálastofnun borist þær upplýsingar að kærandi hefði hafnað atvinnutilboði sem honum hafi staðið til boða hjá B. Um hafi verið að ræða starf við [...]. Fyrirhugað hafi verið að umrætt starf myndi vara í tvo mánuði. Vinnumálastofnun hafi sent ferilskrá kæranda til atvinnurekanda þann 20. júní 2024 með það fyrir augum að koma á ráðningarsambandi milli kæranda og atvinnurekanda. Kærandi hafi ekki tekið umræddu starfi og með erindi, dags. 13. ágúst 2024, hafi verið óskað eftir skriflegri afstöðu kæranda á höfnun á atvinnutilboði hjá B. Athygli kæranda hafi jafnframt verið vakin á því að hefði hann hafnað atvinnutilboði eða atvinnuviðtali, án gildra ástæðna, gæti hann þurft að sæta biðtíma eftir greiðslum atvinnuleysistrygginga. Vinnumálastofnun hafi borist ýtarlegar skýringar frá kæranda þann 14. ágúst 2024 þar sem hann hafi kveðist hafa hafnað umræddu atvinnutilboði. Kærandi hafi vísað til þess að atvinnurekandi hefði ekki getað veitt sér upplýsingar um hvenær umrætt starf myndi hefjast. Kærandi hafi einnig bent á að starf sem honum hafi staðið til boða hjá B myndi einungis vara í tvo til þrjá mánuði. Þá hafi kærandi verið ósáttur við kaup og kjör og í því samhengi bent á að um kvöld og helgarvinnu væri að ræða en engin yfirvinna borguð, einungis grunnlaun. Hann hafi talið að launakjör væru óásættanleg. Þá hafi kærandi orðið þess áskynja að vinnustaðamenning hjá umræddum vinnuveitanda væri stressvaldandi. Í því samhengi hafi hann bent á fréttir á fréttamiðlum máli sínu til stuðnings.
Kæranda hafi með erindi Vinnumálastofnunar, dags. 19. ágúst 2024, verið tilkynnt að greiðslur atvinnuleysistrygginga til hans væru stöðvaðar í tvo mánuði. Ákvörðun þessi hafi verið tekin á grundvelli 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.
Framangreind ákvörðun Vinnumálastofnunar hafi verið kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála þann [22. september] 2024. Í kæru skýri kærandi frá aðstæðum sínum og sjónarmiðum. Kæra til nefndarinnar sé efnislega samhljóða þeim skýringum sem þegar hafi borist Vinnumálastofnun. Skýringar kæranda á ástæðum höfnunar hans á fyrirliggjandi atvinnutilboði hafi verið þær að atvinnurekandi hefði samkvæmt fréttamiðlum brotið á réttindum fyrrverandi starfsfólks.
Lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir, sbr. 1. gr. laganna.
Markmið laga um atvinnuleysistryggingar sé að tryggja þeim sem tryggðir séu og misst hafi fyrra starf sitt tímabundna fjárhagsaðstoð á meðan þeir séu að leita sér að nýju starfi. Með þessu sé verið að tryggja stöðu og öryggi fólks í atvinnuleysi. Gert sé ráð fyrir að þeir sem teljist tryggðir séu í virkri atvinnuleit þann tíma og séu jafnframt reiðbúnir að taka þátt í þeim vinnumarkaðsaðgerðum sem þeim standi til boða. Atvinnuleysistryggingar veiti þannig þeim sem tryggðir séu innan atvinnuleysistryggingakerfisins fjárhagslegt úrræði í tímabundnu atvinnuleysi sínu. Ríkar kröfur beri að gera til þeirra sem hafni starfi á innlendum vinnumarkaði að hafa til þess gildar ástæður samkvæmt lögunum, enda eigi almennt ekki að þiggja atvinnuleysisbætur í stað þess að gegna launuðu starfi.
Eitt af skilyrðum þess að umsækjandi um atvinnuleysisbætur eigi rétt til greiðslu atvinnuleysistrygginga sé að hann sé í virkri atvinnuleit, sbr. a. lið 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Í 14. gr. laganna sé nánar kveðið á um hvað teljist til virkrar atvinnuleitar. Þar sé útlistað að umsækjandi þurfi meðal annars að vera reiðubúinn að taka hvert það starf sem greitt sé fyrir, vera reiðubúinn að taka starfi hvar sem er á Íslandi án sérstaks fyrirvara og hafa til þess vilja og getu. Að öðrum kosti verði ekki litið á hlutaðeigandi í virkri atvinnuleit.
Í 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé kveðið á um viðurlög vegna höfnunar á starfi eða atvinnuviðtali. Ákvæðið sé svohljóðandi:
„Sá sem hafnar starfi sem honum býðst með sannanlegum hætti eftir að hafa verið í atvinnuleit í a.m.k. fjórar vikur frá móttöku Vinnumálastofnunar á umsókn um atvinnuleysisbætur skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila, sbr. þó 5. mgr. Hið sama á við um þann sem hafnar því að fara í atvinnuviðtal vegna starfs sem honum býðst með sannanlegum hætti eða sinnir ekki atvinnuviðtali án ástæðulausrar tafar.“
Við móttöku umsóknar um atvinnuleysistryggingar veiti Vinnumálastofnun öllum atvinnuleitendum leiðbeiningar um hvar finna megi upplýsingar um réttindi og skyldur atvinnuleitanda. Þannig sé öllum atvinnuleitendum vísað á heimasíðu Vinnumálastofnunar, þar sem sé meðal annars að finna skýrar upplýsingar um afleiðingar þess að hafna starfi án gildra ástæðna. Ákvæði laga um atvinnuleysistryggingar séu skýr hvað varði skyldu atvinnuleitanda til að taka störfum sem séu í boði og um höfnun á atvinnuviðtölum.
Fyrir liggi að kærandi hafi hafnað boði um atvinnu hjá B. Í þeim tilfellum sem atvinnuleitandi hafni atvinnuviðtali komi til álita hvort skýringar hans vegna höfnunar á umræddu starfi séu gildar í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar. Samkvæmt 4. mgr. 57. gr. skuli Vinnumálastofnun meta við ákvörðun um viðurlög samkvæmt 1. mgr. 57. gr. hvort ákvörðun hins tryggða um að hafna atvinnuviðtali hafi verið réttlætanleg. Í 4. mgr. segir orðrétt:
„Vinnumálastofnun skal meta við ákvörðun um viðurlög skv. 1. mgr. hvort ákvörðun hins tryggða um að hafna starfi hafi verið réttlætanleg vegna aldurs hans, félagslegra aðstæðna sem tengjast skertri vinnufærni eða umönnunarskyldu vegna ungra barna eða annarra náinna fjölskyldumeðlima. Enn fremur er Vinnumálastofnun heimilt að líta til heimilisaðstæðna hins tryggða þegar hann hafnar starfi fjarri heimili sínu sem og til ráðningar hans í ótímabundið starf innan tiltekins tíma. Þá er heimilt að taka tillit til aðstæðna þess sem getur ekki sinnt tilteknum störfum vegna skertrar vinnufærni samkvæmt vottorði sérfræðilæknis. Getur þá komið til viðurlaga skv. 59. gr. hafi hinn tryggði leynt upplýsingum um skerta vinnufærni.“
Ríkar kröfur séu gerðar til atvinnuleitanda að þeir taki þeim störfum sem þeim kunni að bjóðast, enda eigi ekki að þiggja atvinnuleysisbætur í stað þess að gegna launuðu starfi. Líta beri til þess að samkvæmt 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þurfi atvinnuleitandi að vera reiðubúinn að taka hvert það starf sem greitt sé fyrir samkvæmt lögum og kjarasamningum, hvar sem er á Íslandi og án sérstaks fyrirvara. Fyrir liggi að kæranda hafi boðist atvinnutilboð sem hann hafi ekki þegið sökum þess að hann hafi ekki verið sáttur með launakjör sem atvinnurekandi hafi boðið og að starf myndi einungis vara í tvo til þrjá mánuði. Þá hafi kærandi lesið á fréttamiðlum að umræddur atvinnurekandi hefði farið illa með starfsfólk.
Vinnumálastofnun sé gert að meta skýringar kæranda með hliðsjón af þeirri ríku skyldu sem hvíli á umsækjendum um atvinnuleysisbætur til að vera reiðubúnir að taka hvert það starf sem greitt sé fyrir, vera reiðubúnir að taka starfi hvar sem er á Íslandi án sérstaks fyrirvara og hafa til þess vilja og getu. Það sé mat stofnunarinnar að skýringar kæranda geti ekki talist gildar í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar. Engin gögn í máli þessu bendi til þess að starfskjör þess starfs sem auglýst hafi verið hafi ekki verið í samræmi við lágmarkskjör kjarasamninga. Stofnunin bendi á að atvinnurekandi hafi óskað eftir þjónustu Vinnumálastofnunar við ráðningu í umrætt starf með það í huga að ráða atvinnuleitendur á ráðningarstyrk, sbr. b-lið 12. gr. laga nr. 55/2006 um vinnumarkaðsaðgerðir og 9. gr. reglugerðar nr. 918/2020. Þegar slíkir samningar séu undirritaðir kanni Vinnumálastofnun alltaf kjör atvinnuleitanda við ráðningu, enda sé eitt af skilyrðum fyrir gerð samnings um ráðningu með styrk að hlutaðeigandi fyrirtæki, stofnun eða félagasamtök skuldbindi sig til að greiða viðkomandi atvinnuleitanda laun samkvæmt ákvæðum gildandi kjarasamnings. Það sé því afstaða Vinnumálastofnunar að kærandi hafi hafnað atvinnutilboði án gildra ástæðna og að hann skuli því sæta viðurlögum á grundvelli 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.
IV. Niðurstaða
Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að fella niður rétt kæranda til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 57. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.
Ákvæði 1. mgr. 57. gr. laga nr. 54/2006 er svohljóðandi:
„Sá sem hafnar starfi sem honum býðst með sannanlegum hætti eftir að hafa verið í atvinnuleit í a.m.k. fjórar vikur frá móttöku Vinnumálastofnunar á umsókn um atvinnuleysisbætur skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila, sbr. þó 5. mgr. Hið sama á við um þann sem hafnar því að fara í atvinnuviðtal vegna starfs sem honum býðst með sannanlegum hætti eða sinnir ekki atvinnuviðtali án ástæðulausrar tafar.“
Þá segir svo í 4. mgr. 57. gr. laganna:
„Vinnumálastofnun skal meta við ákvörðun um viðurlög skv. 1. mgr. hvort ákvörðun hins tryggða um að hafna starfi hafi verið réttlætanleg vegna aldurs hans, félagslegra aðstæðna sem tengjast skertri vinnufærni eða umönnunarskyldu vegna ungra barna eða annarra náinna fjölskyldumeðlima. Enn fremur er Vinnumálastofnun heimilt að líta til heimilisaðstæðna hins tryggða þegar hann hafnar starfi fjarri heimili sínu sem og til ráðningar hans í ótímabundið starf innan tiltekins tíma. Þá er heimilt að taka tillit til aðstæðna þess sem getur ekki sinnt tilteknum störfum vegna skertrar vinnufærni samkvæmt vottorði sérfræðilæknis. Getur þá komið til viðurlaga skv. 59. gr. hafi hinn tryggði leynt upplýsingum um skerta vinnufærni.“
Samkvæmt gögnum málsins var kæranda þann 20. júní 2024 miðlað í starf hjá B og fór hann í atvinnuviðtal 24. júní 2024. Fyrirtækið tilkynnti Vinnumálastofnun þann 23. júlí 2024 að kærandi hefði hafnað starfinu. Kærandi hefur meðal annars vísað til þess að atvinnurekandi hafi tjáð honum að kærandi þyrfti að vinna talsverða yfirvinnu án þess að fá greitt fyrir hana en kærandi hafi talið það brot á kjarasamningsbundnum réttindum sínum. Þá hafi kærandi orðið var við fréttir sem hafi staðfest áhyggjur hans eftir atvinnuviðtalið varðandi eitraða vinnustaðamenningu, ógreidda yfirvinnu og misnotkun á atvinnuleysistryggingakerfinu.
Samkvæmt upplýsingum frá B var kæranda boðið starf ritstjóra og textasmiðs og kvaðst hann opinn fyrir starfinu, bæði í atvinnuviðtali og í símtali eftir viðtalið. Starfið fari að langmestu leyti fram á dagvinnutíma, frá klukkan 9 til 17, en ef unnið sé eftir klukkan 17 sé það vanalega tekið út í fríi. Þá var tekið fram að kærandi hafi sagst vera að bíða eftir svari vegna annars starfstilboðs en þegar fyrirtækið hafi reynt að hafa samband við kæranda hafi hann ekki svarað, hvorki skriflega né í síma, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.
Í 1. mgr. 13. gr. laga nr. 54/2006 er fjallað um almenn skilyrði þess að vera tryggður samkvæmt lögunum. Eitt af þeim skilyrðum er að vera í virkri atvinnuleit en samkvæmt c. lið 1. mgr. 14. gr. fellur þar undir að vera reiðubúinn að taka hvert það starf sem greitt er fyrir samkvæmt lögum og kjarasamningum, sbr. 1. gr. laga nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda. Ekki verður séð af gögnum málsins að það hafi ekki verið uppfyllt vegna framangreinds starfs sem kæranda bauðst.
Með vísan til þess er það mat úrskurðarnefndarinnar að þær skýringar sem kærandi hefur gefið séu ekki þess eðlis að þær réttlæti höfnun á starfinu, sbr. 4. mgr. 57. gr. laga nr. 54/2006. Ákvörðun Vinnumálastofnunar um að fella niður rétt kæranda til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 57. gr. laga nr. 54/2006 er því staðfest.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 19. ágúst 2024, um að fella niður rétt A, til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði, er staðfest.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir