Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd kosningamála

Úrskurður nr. 1/2022 - Kæra vegna synjunar Þjóðskrár Íslands um skráningu á kjörskrá

Úrskurðarnefnd kosningamála

 

Ár 2022, þriðjudaginn 3. maí, kom úrskurðarnefnd kosningamála saman til að úrskurða um kæru A vegna synjunar Þjóðskrár Íslands um skráningu á kjörskrá og kveðinn upp svohljóðandi

ÚRSKURÐUR

mál nr. 1/2022

Mál þetta úrskurða Berglind Svavarsdóttir, Anna Tryggvadóttir og Unnar Steinn Bjarndal.

I.

Með tölvupósti dags. 27. apríl 2022 kærði kærandi, A synjun Þjóðskrár Íslands, dags. 26. apríl 2022, um að skrá hann á kjörskrá til úrskurðarnefndar kosningamála. Samkvæmt beiðni bárust nefndinni gögn málsins frá Þjóðskrá með tölvupósti, dags. 28. apríl 2022. Frekari skýringar bárust nefndinni frá kæranda með tölvupósti, dags. 29. apríl 2022.

 

II.

Samkvæmt gögnum málsins flutti kærandi frá X til Danmerkur síðastliðið haust og hóf þar nám. Í synjun Þjóðskrá Ísland á beiðni kæranda er vísað til 3. mgr. 4. gr. kosningalaga nr. 112/2021, þar sem kemur fram að umsókn námsmanns, sem er forsenda þess að hann haldi kosningarétti sínum hér á landi sbr. 2. mgr. 4. gr. sömu laga, skuli send Þjóðskrá Íslands eigi síðar en 40 dögum fyrir kjördag, eða í síðasta lagi 4. apríl vegna sveitarstjórnarkosninga 14. maí 2022. Þar sem beiðni kæranda hafi verið send Þjóðskrá Íslands 5. apríl sl. teljist hún of seint fram komin og sé því hafnað.

III.

Kærandi vísar til þess að við flutning til Danmerkur þá hafi hann ekki gert sér grein fyrir því að lögheimili hans yrði flutt að honum forspurðum. Hann hafi talið að hann yrði skráður með aðsetur í Danmörku en lögheimili hans yrði áfram að X. Honum væri kunnugt um tilvik þar sem aðilar búsettir á Norðurlöndum væru enn skráðir með lögheimili á Íslandi og þess vegna hafi hann talið víst að lögheimili hans yrði áfram það sama. Hann hafi ekki fengið vitneskju um það fyrr en degi eftir að frestinum lauk og þá frá formanni kjörstjórnar í X að hann væri ekki á kjörskrá.

 

Kærandi óskar eftir endurskoðun á synjun Þjóðskrár Íslands þannig að hann geti haldið áfram að taka þátt í íslensku samfélagi þó hann sé með aðsetur í Danmörku vegna náms. Hann vilji hafa áhrif á það samfélag sem hann komi í að námi loknu.

IV.

Í 4. gr. kosningalaga nr. 112/2021 er kveðið á um kosningarétt við sveitarstjórnarkosningar.  Samkvæmt a-lið 1. mgr. á hver íslenskur ríkisborgari kosningarétt sem náð hefur 18 ára aldri þegar kosning fer fram og á skráð lögheimili í sveitarfélaginu.

 

Í 2. mgr. 4. gr. laganna er fjallað um kosningarétt námsmanna sem hafa flutt lögheimili sitt frá landinu til Danmerkur, Finnlands, Færeyja, Grænlands, Noregs eða Svíþjóðar samkvæmt Norðurlandasamningi um almannaskráningu, sbr. 4. mgr. 9. gr. laga um lögheimili og aðsetur, nr. 80/2018. Í ákvæðinu kemur fram að slíkur námsmaður teljist ekki hafa glatað kosningarrétti sínum í því sveitarfélagi sem hann átti skráð lögheimili í við brottför, enda fullnægi hann að öðru leyti skilyrðum a-liðar 1. mgr. og leggi fram umsókn skv. 3. mgr. um að neyta kosningarréttar síns.

 

Af kærunni verður ráðið að kærandi telji að hann eigi rétt á að halda kosningarétti sínum hér á landi þar sem lögheimili hans hafi verið flutt til Danmerkur að honum forspurðum þegar hann hóf þar nám. Af því tilefni er tekið fram að samkvæmt 9. gr. laga um lögheimili og aðsetur nr. 80/2018 er einstaklingi sem stundar nám erlendis heimilt að hafa lögheimili á Íslandi á meðan náminu stendur enda sé hann ekki skráður með lögheimili erlendis á meðan. Sú heimild tekur hins vegar ekki til þeirra einstaklinga sem hafa tilkynnt flutning samkvæmt Norðurlandasamningi um almannaskráningu frá 1. nóvember 2004 er samþykktur var af hálfu Íslands 2. júní 2006. Samkvæmt þeim samningi ber einstaklingi að eiga lögheimili í innflutningsríkinu á meðan dvöl á Norðurlöndunum stendur sbr. 4. mgr. 9. gr. laga nr. 80/2018 og getur aðeins verið skráður í þjóðskrá eins norræns lands í einu. Samkvæmt framansögðu verður ekki annað séð en að skráning á lögheimili kæranda í Danmörku sé í samræmi við lög þótt kærandi hafi ekki sjálfur haft frumkvæði að lögheimilisskráningunni.

 

Af þessu leiðir að kærandi getur eingöngu neytt kosningaréttar við sveitarstjórnarkosningar hér á landi ef hann uppfyllir skilyrði 2. mgr. 4. gr. kosningalaga, þ.m.t. að senda umsókn til Þjóðskrár Íslands eigi síðar en 40 dögum fyrir kjördag, sbr. 3. mgr. 4. gr. kosningalaga.

 

Með vísan til framangreindra lagaákvæða og greinargerðar með frumvarpi að lögum nr. 18/2022 um breytingar á lögum nr. 112/2021 bar kæranda að senda umsókn í síðasta lagi þann 4. apríl til að geta neytt kosningaréttar í sveitarstjórnarkosningum sem fram fara þann 14. maí 2022. Þar sem það var ekki gert telst beiðnin of seint fram komin og synjun Þjóðskrár Íslands staðfest.

 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Þjóðskrár Íslands um að synja A, um skráningu á kjörskrá, er staðfest.

 

Reykjavík, 3. maí 2022.

 

Berglind Svavarsdóttir

 

Anna Tryggvadóttir                                                                            Unnar Steinn Bjarndal


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum