Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 169/2020 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 169/2020

Fimmtudaginn 9. júlí 2020

A

gegn

Fjölskyldusviði C

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Björn Jóhannesson lögfræðingur og Guðfinna Eydal sálfræðingur.

Með kæru, móttekinni 1. apríl 2020, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála, ákvörðun Fjölskyldusviðs C, dags. 17. mars 2020, um að flytja mál sonar kæranda, B, til Barnaverndar L samkvæmt 15. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl.).

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Drengurinn B er X ára gamall og er sonur kæranda. Mál hans hefur verið til meðferðar hjá barnaverndaryfirvöldum í C frá 10. janúar 2020 þegar tilkynning samkvæmt 17. gr. bvl. barst frá Barnaverndarstofu. Þann 15. janúar 2020 var ákveðið að hefja könnun málsins samkvæmt 22. gr. bvl. Í niðurstöðu greinargerðar vegna könnunar málsins, dags. 28. janúar 2020, kom fram að lagt væri til að áætlun um meðferð málsins yrði gerð sem fæli í sér að eftirlit yrði með högum drengsins. Þann 29. janúar 2020 var síðan samþykkt að gerð yrði áætlun í máli drengsins samkvæmt 23. gr. bvl. Á fundi með kæranda þann 30. janúar 2020 var óskað eftir samvinnu við hann um gerð áætlunar sem kærandi féllst ekki á. Þann 5. febrúar 2020 upplýsti kærandi að hann hefði skráð drenginn í skóla í L og lögheimili hans væri nú í L.

Á 619. fundi Fjölskyldusviðs C þann 17. mars 2020 var mál drengsins tekið fyrir og eftirfarandi bókun gerð og vísað til þess að heimilt væri að áfrýja ákvörðuninni til Fjölskyldunefndar C, auk þess sem heimilt væri að skjóta ákvörðuninni til úrskurðarnefndar velferðarmála:

„Barnaverndarmál. Mál tekið fyrir.

“Vísað er til barnaverndarmálafundar 28. janúar 2020, þar sem lögð var fram greinargerð um niðurstöðu könnunar. Samþykkt var að gerð yrði áætlun um meðferð máls skv. 23. gr. barnaverndarlaga í málinu.

Faðir samþykkti ekki undirritun áætlunar um meðferð máls.

Faðir sagðist hafa flutt til L.

Á grundvelli þess að starfsmenn telja að gera þurfti meðferðaráætlun í málinu er lagt til að málið verði flutt til Barnaverndar L skv. 15. gr. barnaverndarlaga.“

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 1. apríl 2020. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 8. apríl 2020, var óskað eftir greinargerð Fjölskyldusviðs C ásamt gögnum máls. Með bréfi úrskurðarnefndar velferðarmála, dags. 27. apríl 2020, var þess óskað að kærandi undirritaði kæru til nefndarinnar. Með tölvupóstum 5., 7. og 9. maí 2020 upplýsti kærandi að hann myndi ekki undirrita kæru og taldi jafnframt að nefndarmenn væru vanhæfir til að fjalla um málið. Þann 12. maí 2020 barst úrskurðarnefndinni undirritað kærueyðublað. Greinargerð Fjölskyldusviðs C barst með bréfi, dags. 4. maí 2020, og með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 13. maí 2020, var hún send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust frá kæranda 19. maí 2020 og með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 20. maí 2020, voru þær sendar Fjölskyldunefnd C til kynningar. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir athugasemdir við meðferð málsins og mótmælir því meðal annars að könnun hafi verið framkvæmd í málinu. Kærandi segir það ósatt að hann hafi ekki viljað skrifa undir áætlun um meðferð málsins. Þá hafi aðdragandi flutnings á lögheimili til L verið með þeim hætti að hann hafi ekki getað haft lögheimili hjá bróður sínum í C þar sem það hefði skert réttindi bróður hans til bóta. Kærandi hafi því verið tilneyddur til að flytja lögheimili sitt og sonar síns til L. Þá geri kærandi athugasemd við að Fjölskyldusvið C vilji halda málinu áfram og krefjist kærandi þess að málið verði látið niður falla. Kærandi kveður margt af því, sem fram hafi komið í málinu um vanrækslu hans á drengnum, vera ósannindi og bendir á að eftir flutning hafi ekki komið fram neinar kvartanir um vanhirðu eða ofbeldi.

III.  Sjónarmið Fjölskyldusviðs C

Í greinargerð Fjölskyldunefndar C er farið ítarlega yfir forsögu og framvindu málsins. Að mati nefndarinnar felist það skýrlega í 15. gr. bvl. að ef barn flyst úr umdæmi nefndar á meðan hún sé með mál til meðferðar skuli nefndin tafarlaust tilkynna flutninginn til barnaverndarnefndar í því umdæmi sem barnið flytji í og beri barnavernd í því umdæmi að taka strax við meðferð málsins. Kærandi hafi tilkynnt í símtali 5. febrúar 2020 að hann hefði flutt lögheimili þeirra feðga til L og að drengurinn hefði verið skráður í J á O. Gerði hann jafnframt athugasemdir við það að Fjölskyldusvið C væri að íhlutast í málinu. Með vísan til framangreinds hafi Fjölskyldusviði C borið að flytja málið til L.

VI.  Niðurstaða

Kærandi heldur því fram að úrskurðarnefnd velferðarmála sé vanhæf til að fjalla um mál hans. Í II. kafla stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er fjallað um sérstakt hæfi. Í 3. gr. er fjallað um vanhæfnisástæður nefndarmanna til meðferðar máls. Nefndarmenn úrskurðarnefndar velferðarmála telja engar slíkar ástæður vera fyrir hendi.

Drengurinn B er X ára gamall og fer kærandi með forsjá hans. Kærandi er faðir drengsins. Með hinni kærðu ákvörðun Fjölskyldusviðs C var ákveðið að flytja mál drengsins til Barnaverndar L með vísan til 15. gr. bvl.

Samkvæmt 6. gr. bvl. er heimilt að skjóta úrskurðum og stjórnsýsluákvörðunum barnaverndarnefnda, eftir því sem nánar er kveðið á um í lögunum, til úrskurðarnefndar velferðarmála, sbr. lög um úrskurðarnefnd velferðarmála nr. 85/2015.

Samkvæmt 22. gr. bvl. er það markmið könnunar máls að afla nauðsynlegra upplýsinga um aðstæður barns og meta þörf fyrir úrræði samkvæmt ákvæðum bvl., allt í samræmi við hagsmuni og þarfir barns. Í þessu skyni skal barnaverndarnefnd kappkosta að afla sem gleggstra upplýsinga um hagi barns, svo sem andlegt og líkamlegt ásigkomulag, tengsl við foreldra eða aðra, hagi foreldra, aðbúnað á heimili, skólagöngu, hegðun og líðan þess. Leita skal aðstoðar sérfræðinga eftir því sem þörf krefur. Um könnun máls, rannsóknarheimildir barnaverndarnefnda, skyldu til að láta barnaverndarnefndum í té upplýsingar og málsmeðferð fyrir barnaverndarnefnd almennt, gilda ákvæði VIII. kafla bvl.

Samkvæmt 23. gr. bvl. skal barnaverndarnefnd taka saman greinargerð þegar mál hefur að mati nefndarinnar verið kannað nægilega. Í greinargerð skal lýst niðurstöðum könnunar, tiltekið hverra úrbóta er þörfog settar fram tillögur að heppilegum úrræðum ef því er að skipta. Ef könnun leiðir í ljós að þörf sé á beitingu sérstakra úrræða samkvæmt bvl., skal barnaverndarnefnd, í samvinnu við foreldra og eftir atvikum barn sem náð hefur 15 ára aldri, gera skriflega áætlun um frekari meðferð málsins. Hafa skal samráð við börn eftir því sem aldur þeirra og þroski gefur tilefni til. Áætlun skal gera til ákveðins tíma og endurskoða eftir þörfum. Samkvæmt gögnum málsins var gerð áætlun í máli drengsins sem kærandi hafði ekki samþykkt þegar hann flutti lögheimili þeirra úr umdæmi barnaverndaryfirvalda C.

Í 2. mgr. 15. gr. bvl. kemur fram að ef barn flyst úr umdæmi barnaverndarnefndar á meðan hún hefur mál til meðferðar, skal nefndin tafarlaust tilkynna flutninginn til barnaverndarnefndar í því umdæmi sem barnið flytur í og upplýsa viðtakandi barnaverndarnefnd um öll afskipti af málefnum barnsins og láta þeirri nefnd í té öll nauðsynleg gögn málsins. Í ákvæðinu er ekki kveðið á um að ákvörðun barnaverndaryfirvalda um að tilkynna flutning barns til annars umdæmis á grundvelli 2. mgr. 15. gr. bvl. sé kæranleg til úrskurðarnefndar velferðarmála.

Með vísan til framangreinds er kæru vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A, vegna ákvörðunar Fjölskyldusviðs C, dags. 17. mars 2020, um að flytja mál sonar kæranda, B, til Barnaverndar L samkvæmt 15. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira