Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 19/2019. Úrskurður kærunefndar útboðsmála.

Úrskurður kærunefndar útboðsmála 18. febrúar 2020

í máli nr. 19/2019:

K16 ehf.
gegn
Ríkiskaupum
Vegagerðinni
og Framkvæmdasýslu ríkisins

Með kæru 5. júlí 2019 kærði K16 ehf. þá „ákvörðun framkvæmdasýslu ríkisins að ganga til samninga við Reginn vegna Vegagerðarinnar“. Kærandi gerir þá kröfu að felldur verði úr gildi „samningur sem Framkvæmdasýsla ríkisins gerði f.h. Vegagerðar vegna uppbyggingar á og leigu á lóð að Suðurhrauni í Hafnarfirði“. Ríkiskaupum, Vegagerðinni og Framkvæmdasýslu ríkisins (hér eftir vísað til sem varnaraðila) var kynnt kæran og gefinn kostur á að gera athugasemdir. Með greinargerð móttekinni 7. ágúst 2019 kröfðust varnaraðilar þess að öllum kröfum kæranda yrði vísað frá nefndinni eða hafnað. Reginn hf. var gefinn kostur á að tjá sig um kæruna sem hagsmunaaðili og skilaði félagið greinargerð til nefndarinnar 18. júlí 2019. Kæranda var gefinn kostur á að gera athugasemdir við greinargerðir varnaraðila og bárust þær nefndinni 3. desember 2019.

I

Með auglýsingu Ríkiskaupa 30. október 2018 var óskað eftir tilboðum í húsnæði á höfuðborgarsvæðinu til leigu fyrir skrifstofur og geymslur ásamt útisvæði fyrir Vegagerðina. Umsjónaraðili var Framkvæmdasýsla ríkisins. Í auglýsingunni kom meðal annars fram að ætlunin væri að taka fullbúið húsnæði á langtímaleigu til 20 ára. Fyrirspurnarfrestur var til 14. nóvember 2018, svarfrestur til 19. nóvember og tilboðum skyldi skila eigi síðar en kl. 13:00 þann 22. sama mánaðar. Alls bárust 15 tilboð vegna auglýsingarinnar, meðal annars frá kæranda. Varnaraðilar tilkynntu tilboðsgjöfum 1. mars 2019 að ætlunin væri að taka tvö tilboð til nánari skoðunar og var síðar gerður samningur á grundvelli annars þeirra. Varnaraðilar sendu kæranda frekari rökstuðning með bréfi 6. mars 2019 og í kjölfarið áttu sér stað samskipti milli aðila til 2. maí 2019.

II

Kærandi telur að ganga hafi átt til samninga við hann þar sem hann hafi átt hagstæðasta tilboðið. Kærandi er ósammála því að ferlið hafi ekki fallið undir lög um opinber innkaup enda hafi ekki verið um hefðbundna leigu í skilningi a-liðar 1. mgr. 11. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup að ræða. Varnaraðilar hafi gert gríðarlega strangar kröfur um aðbúnað, útlit og aðstöðu. Þá sé ekki gert ráð fyrir hefðbundnu sambandi á milli leigusala og leigutaka, en ekki virðist gert ráð fyrir því að um fullfrágengið húsnæði sé að ræða. Varnaraðilar hafi ekki leiðbeint um kæruleið og því sé ekki hægt að líta svo á að kærufrestur sé liðinn.

III

Varnaraðilar byggja einkum á því að vísa eigi málinu frá kærunefnd útboðsmála þar sem leiga á fasteignum sé undanskilin lögum um opinber innkaup, en einnig þar sem kæran sé of seint fram komin, sbr. 106. gr. laganna.

Lögð er áhersla á að óskað hafi verið eftir húsnæði til leigu en ekki eftir byggingu húss. Auglýsingin hafi augljóslega varðað leigu á byggingu sem þegar hefði verið reist og falli samningurinn því undir undanþáguákvæði a-liðar 1. mgr. 11. gr. laga um opinber innkaup. Hafi raunar verið tekið fram í umræddri auglýsingu að lög um opinber innkaup ættu ekki við og það verið ítrekað í svörum við fyrirspurnum sem voru birt 19. nóvember 2018, sem og í svari til kæranda 2. maí 2019. Þá er byggt á því að tilboð kæranda hafi í öllu falli ekki uppfyllt kröfur auglýsingarinnar og verði því að hafna kröfum hans.

IV

Sá samningur sem stefnt var að því að gera í kjölfar auglýsingar varnaraðila frá 30. október 2018 varðaði leigu á fasteign. Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup taka lögin til samninga um fjárhagslegt endurgjald sem opinberir kaupendur samkvæmt 3. gr. laganna gera við fyrirtæki og hafa að markmiði framkvæmd verks, sölu vara eða veitingu þjónustu í skilningi laganna. Ýmsir samningar falla þó utan gildissviðs laganna og í 1. mgr. 11. gr. eru taldir upp þjónustusamningar sem lögin taka ekki til. Meðal þeirra eru samningar um kaup eða leigu, gegn hvers konar fjárhagslegu endurgjaldi, á jörð, byggingum sem þegar hafa verið reistar eða öðrum fasteignum eða réttindum yfir þeim, sbr. a-lið 1. mgr. 11. gr. laganna.

Með vísan til framangreinds telur nefndin að hið kærða ferli og sá samningur sem gerður var í kjölfarið falli utan gildissviðs laga um opinber innkaup og þar með valdsviðs kærunefndar útboðsmála, sbr. 2. mgr. 103. gr. laganna. Verður þegar af þeirri ástæðu að vísa kærunni frá kærunefnd útboðsmála.

Úrskurðarorð:

Kæru K16 ehf., vegna auglýsingar 30. október 2018 og samningsgerðar varnaraðila, Ríkiskaupa, Vegagerðarinnar og Framkvæmdasýslu ríkisins, um leigu á húsnæði og útisvæði fyrir Vegagerðina, er vísað frá kærunefnd útboðsmála.

Reykjavík, 18. febrúar 2020

Ásgerður Ragnarsdóttir

Auður Finnbogadóttir

Sandra Baldvinsdóttir
Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira