Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 167/2021 - Endurupptekið

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Endurupptekið mál nr. 167/2021

Fimmtudaginn 20. október 2022

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 30. mars 2021, kærði B lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 17. febrúar 2021, um að synja beiðni hans um endurupptöku máls.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 25. júní 2020, var umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur synjað þar sem vinna hans á ávinnslutímabili bótaréttar næði ekki lágmarksrétti til atvinnuleysistrygginga. Með bréfi, dags. 9. nóvember 2020, fór kærandi fram á endurupptöku málsins og með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 17. febrúar 2021, var þeirri beiðni synjað.

Kærandi kærði ákvörðun Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar velferðarmála 30. mars 2021. Úrskurðarnefndin kvað upp úrskurð í máli kæranda 26. ágúst 2021 þar sem hin kærða ákvörðun var staðfest. Þann 27. júní 2022 kvartaði kærandi til umboðsmanns Alþingis vegna úrskurðarins. Með bréfi umboðsmanns Alþingis, dags. 20. september 2022, óskaði hann eftir nánari skýringum og upplýsingum frá nefndinni. Í ljósi þeirra upplýsinga sem fram komu í erindi umboðsmanns ákvað úrskurðarnefndin að endurupptaka málið. Kæranda og umboðsmanni Alþingis var greint frá þeirri ákvörðun með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 11. október 2022.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að samkvæmt bréfi, dags. 25. júní 2021, hafi umsókn hans um atvinnuleysisbætur verið hafnað þar sem vinna hans á ávinnslutímabili bótaréttar næði ekki lágmarksrétti til atvinnuleysistrygginga. Áður hafi kæranda verið sent bréf þann 4. júní þar sem bent hafi verið á að samkvæmt þeim gögnum sem Vinnumálastofnun hefði undir höndum væri ekki séð að vinna á ávinnslutímabili næði lögboðnu lágmarki og því hafi verið óskað eftir frekari gögnum til að sýna fram á annað. Kærandi hafi ekki sent viðeigandi gögn til Vinnumálastofnunar, enda hafi hann talið Vinnumálastofnun hafa aðgang að þeim gögnum í gegnum upplýsingar sem stofnunin aflaði frá Skattinum og því væri það óþarfi.

Kærandi vísar til þess að samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 geti aðili máls fengið ákvörðun stjórnvalds endurupptekna hafi ákvörðunin byggst á ófullnægjandi upplýsingum um málsatvik. Miðað við niðurstöðu Vinnumálastofnunar verði að telja ljóst að stofnunin hafi ekki haft réttar upplýsingar um vinnu kæranda á ávinnslutímabili er ákvörðun um synjun hafi verið tekin. Samkvæmt skattframtali kæranda vegna tekna ársins 2018 sé stofn til útreiknings tekjuskatts og útsvars 3.606.238 kr. vegna þess árs. Samkvæmt skattframtali vegna tekna ársins 2019 sé stofn til útreiknings tekjuskatts og útsvars 4.965.627 kr. Frá og með september 2019 hafi kærandi mánaðarlega reiknað sér laun (reiknað endurgjald) að fjárhæð 372.000 kr. og það hafi verið óbreytt út febrúar 2020. Strax í marsmánuði hafi orðið nær algjört tekjufall hjá kæranda vegna Covid-19 og því hafi hann greitt sér hálf laun fyrir marsmánuð og hafi ætlað að sækja um hlutabætur á móti. Eftir marsmánuð hafi kærandi ekki haft neina vinnu og því ekki haft neinar tekjur, en hann hafi treyst á að fá atvinnuleysisbætur í samræmi við 76. gr. stjórnarskrárinnar þar sem hann hafi verið og sé sannanlega atvinnulaus.

Samkvæmt viðmiðunarfjárhæðum um reiknað endurgjald hefði kærandi átt að reikna sér 428.000 kr. á mánuði (flokkur E2) miðað við fullt starf á árinu 2019 og 446.000 kr. vegna ársins 2020. Það sé því ljóst að reiknað endurgjald hans á ávinnslutímabili fari langt fram úr 25% lágmarksviðmiði til að uppfylla skilyrði til að minnsta kosti hlutfallsbóta. Þrátt fyrir að bent hafi verið á öll þessi atriði í endurupptökubeiðni til Vinnumálastofnunar hafi stofnunin samt hafnað endurupptökubeiðni. Í millitíðinni hafi Vinnumálastofnun hins vegar tekið ákvörðun þann 3. desember 2020 um að samþykkja umsókn kæranda með 50% bótarétti og þannig hafi hann fengið greitt frá og með september 2020. Ljóst sé að ef kærandi hafi átt rétt á 50% atvinnuleysisbótum frá september þá hafi hann átt enn ríkari rétt frá 1. apríl, enda hafi hann verið í vinnu fram að þeim tíma en nær atvinnulaus með öllu frá þeim tíma. Því virðist sem ákvörðun um höfnun atvinnuleysisbóta vegna umsóknar kæranda í mars 2020 geti ekki staðist með nokkru móti.

Í athugasemdum vegna greinargerðar Vinnumálastofnunar tekur kærandi fram að fullyrðingar stofnunarinnar um að hann hafi ekki náð lágmarksbótarétti, sbr. 2. mgr. 15. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 54/2006, séu bersýnilega rangar. Eins og fram komi í gögnum málsins hafi stofn til útreiknings tekjuskatts og útsvars vegna tekna kæranda á árinu 2019 verið 4.965.627 kr. Frá og með september 2019 hafi kærandi mánaðarlega reiknað sér laun að fjárhæð 372.000 kr. og samviskusamlega skilað skilagreinum í samræmi við það. Kærandi hefði samkvæmt viðmiðunarfjárhæðum um reiknað endurgjald átt að reikna sér 428.000 kr. á mánuði (flokkur E2) miðað við fullt starf á árinu 2019 og 446.000 kr. vegna ársins 2020. Það sé því ljóst að reiknað endurgjald hans á ávinnslutímabili fari langt fram úr 25% lágmarksviðmiði til að uppfylla skilyrði til að minnsta kosti hlutfallsbóta en heildartekjur atvinnurekstrar hans hafi því miður ekki leyft að hann reiknaði sér endurgjald í samræmi við viðmiðunarreglur RSK.

Óumdeilt sé að kærandi hafi skilað inn skattframtölum og skilagreinum í samræmi við þessi laun og því klár sú skylda hans til að greiða skatt af þeim. Hins vegar sé hann búinn að vera lengi með í gangi greiðslusamkomulag við Skattinn um greiðslur og því óumdeilt að hann sé eftir á með greiðslur. Það samkomulag breyti engu um skyldu hans til að greiða tryggingagjald og staðgreiðsluskatt af reiknuðu endurgjaldi sínu og því ákaflega þröng lögskýring, í ljósi þess skýra réttar sem 76. gr. stjórnarskrár tryggir fólki rétt til aðstoðar vegna atvinnuleysis, að sá réttur eigi aðeins við um þá sem hafi þá þegar staðið skil á öllum slíkum greiðslum en taki ekki jafnframt til þeirra sem hafi sannanlega upplýst skattyfirvöld um greiðslur, tekið á sig skuldbindingu um greiðslu þeirra skatta og gjalda og meira að segja samið við skattyfirvöld um greiðsludreifingu þeirra skuldbindinga sinna. Skoða þurfi anda og tilgang laga þegar ákvörðun um rétt til atvinnuleysisbóta sé tekin en augljóst sé að lögin séu hugsuð til að tryggja vinnandi mönnum rétt til slíkra bóta. Kærandi hafi svo sannanlega verið vinnandi maður þó að hann hafi verið eftir á með skatta og gjöld. Þá bendi kærandi á að ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 3. desember 2020 um að samþykkja nýja umsókn hans með 50% bótarétti frá september 2020 passi engan veginn við fyrri afstöðu stofnunarinnar, enda ljóst að réttur hans til atvinnuleysisbóta hafi verið óumdeilanlega meiri í mars 2020 en í september 2020.

III. Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi sótt um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun þann 31. mars 2020. Stofnunin hafi frestað afgreiðslu umsóknar kæranda þann 4. júní 2020. Kæranda hafi verið gefinn kostur á að skila inn frekari gögnum, ella yrði umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur synjað þar sem samkvæmt gögnum málsins næði vinna kæranda á ávinnslutímabili ekki því lágmarki sem kveðið væri á um í 19. gr., sbr. b-lið 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Umsókn kæranda hafi verið synjað þann 25. júní 2020 þar sem kærandi hafi ekki náð lágmarksbótarétti, sbr. 2. mgr. 15. gr., sbr. 3. gr. laga nr. 54/2006. Þann 6. september 2020 hafi kærandi sótt aftur um atvinnuleysisbætur og umsókn hans hafi verið samþykkt þann 3. desember 2020. Útreiknaður bótaréttur kæranda sé 50%. Afgreiðslu umsóknar kæranda frá 6. september 2020 hafi verið frestað þann 29. apríl 2021 þar sem komið hafi í ljós að bótaréttur kæranda virtist hafa verið ranglega reiknaður út frá reiknuðu endurgjaldi sem kærandi hafi ekki greitt af tilskilið tryggingagjald. Sú ákvörðun sé tekin á grundvelli 2. mgr. 35. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Vinnumálastofnun tekur fram að lög nr. 54/2006 gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna og sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir. Í 2. mgr. 15. gr. laganna segi að þegar um sé að ræða launamann sem starfi hjá eigin félagi, svo sem einkahlutafélagi eða samlagsfélagi, skuli miða við reglur Ríkisskattstjóra um reiknað endurgjald í viðkomandi starfsgrein við mat á bótarétti einstaklinga. Með ákvæðinu sé kveðið skýrt á um að þegar um sé að ræða umsækjendur um atvinnuleysisbætur sem hafi starfað hjá eigin félagi á ávinnslutímabilinu skuli miða við reglur Ríkisskattstjóra um reiknað endurgjald í viðkomandi starfsgrein. Um útreikning bótaréttar þeirra sem starfi hjá eigin fyrirtækjum eða sem sjálfstætt starfandi einstaklingar gildi 19. gr. laga nr. 54/2006. Samkvæmt ákvæðinu beri Vinnumálastofnun að reikna bótarétt sjálfstætt starfandi einstaklings út frá þeim launum sem viðkomandi reikni sér vegna vinnu sinnar. Ef reiknað endurgjald atvinnuleitanda nái ekki lágmarksviðmiðum Ríkisskattstjóra ákvarðist bótaréttur af hlutfalli reiknaðs endurgjalds sem greitt hafi verið af og viðmiðunarfjárhæð Ríkisskattstjóra. Umsækjandi um atvinnuleysisbætur geti því einungis átt hlutfallslegan rétt til bóta ef reiknað endurgjald sé lægra en viðmiðunarfjárhæð Ríkisskattstjóra. Samkvæmt h. lið 18. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þurfi umsækjandi sem hafi verið með sjálfstæða starfsemi að hafa staðið skil á greiðslu tryggingagjalds og staðgreiðsluskatts af reiknuðu endurgjaldi samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda við stöðvun rekstrar. Samkvæmt þeim gögnum sem Vinnumálastofnun hafi undir höndum nái vinna kæranda á ávinnslutímabili bótaréttar ekki því lágmarki sem kveðið sé á um í 19. gr., sbr. b-lið 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Samkvæmt gögnum málsins hafi kærandi ekki greitt tilskilið tryggingagjald af reiknuðu endurgjaldi á ávinnslutímabili. Sjálfstætt starfandi einstaklingur sem greiðir ekki mánaðarlega staðgreiðsluskatt af reiknuðu endurgjaldi á síðustu tólf mánuðum áður en hann sækir um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar teljist ekki tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar. Hið sama gildi um sjálfstætt starfandi einstakling sem ekki hafi greitt slíka staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi fyrir minnst þrjá mánuði á ávinnslutímabilinu. Þeir mánuðir sem kærandi hafi ekki greitt af reiknast ekki til bótaréttar. Störf kæranda á ávinnslutímabili nægi því ekki til ávinnslu lágmarksréttinda innan atvinnuleysistryggingakerfisins samkvæmt fyrirliggjandi gögnum, þ.e. starfshlutfall og starfstími kæranda veita kæranda ekki rétt til lágmarksatvinnuleysisbóta.

Með vísan til framangreindra sjónarmiða sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að réttilega hafi verið staðið að ákvörðun bótaréttar kæranda og að staðfesta beri ákvörðun stofnunarinnar í máli kæranda.

Í athugasemdum Vinnumálastofnunar eru framangreind sjónarmið ítrekuð. Vísað er til þess að í 2. mgr. 18. gr. laga nr. 54/2006 sé að finna undanþágu frá h. lið 1. mgr. ákvæðisins þegar einstaklingur hafi ekki staðið skil á greiðslu tryggingagjalds og staðgreiðsluskatts af reiknuðu endurgjaldi samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda við stöðvun rekstrar en greiði síðan þau gjöld aftur í tímann. Við ákvörðun á tryggingahlutfalli sjálfstætt starfandi einstaklings í þeim tilfellum sé Vinnumálastofnun þó einungis heimilt að miða að hámarki við þrjá mánuði af þeim tíma er vanskilin áttu við um. Kærandi hafi ekki staðið í skilum á staðgreiðslu vegna reiknaðs endurgjalds. Ekki verði séð að kærandi hafi greitt af vinnu sinni í meira en tvo mánuði miðað við þær upplýsingar sem liggi til grundvallar frá Skattinum. Störf kæranda á ávinnslutímabili nægi því ekki til ávinnslu lágmarksréttinda innan atvinnuleysistryggingakerfisins samkvæmt fyrirliggjandi gögnum, þ.e. starfshlutfall og starfstími kæranda veiti honum ekki rétt til lágmarksatvinnuleysisbóta. Vinnumálastofnun hafi ekki borist staðfesting á því að kærandi hafi greitt staðgreiðslu á að minnsta kosti þremur mánuðum af reiknuðu endurgjaldi sínu á ávinnslutímabili atvinnuleysistrygginga. Greiðsluáætlun feli ekki í sér staðfestingu á greiðslu staðgreiðslu en lög um atvinnuleysistryggingar geri skýra kröfu um að staðið hafi verið í skilum á gjöldum svo að unnt sé að meta störf einstaklinga til ávinnslu atvinnuleysisbóta. Þegar vanskil séu á staðgreiðslu sé Vinnumálastofnun þar að auki einungis heimilt að líta til þriggja þeirra mánaða, að hámarki, við mat á bótarétti umsækjanda. Athugasemdir kæranda og þau gögn sem hafi fylgt þeim til nefndarinnar hafi því ekki áhrif á niðurstöðu málsins að mati stofnunarinnar.

Í svari Vinnumálastofnunar við beiðni úrskurðarnefndarinnar um frekari upplýsingar varðandi bótarétt kæranda kemur fram að ákvörðun frá 3. desember 2020 um að kærandi ætti rétt til 50% atvinnuleysisbóta hafi verið röng. Mistök í kerfi Vinnumálastofnunar hafi leitt til þess að bótaréttur hans reiknaðist 50%. Bótaréttur kæranda vegna umsóknar frá 31. mars 2020 hafi því reiknast með eftirfarandi hætti. Í kerfum Vinnumálastofnunar sé kærandi skráður í tekjuflokk E9, þ.e. honum hafi borið að reikna sér endurgjald að fjárhæð 300.000 kr. samkvæmt viðmiðunarreglum um reiknað endurgjald fyrir árið 2020. Fyrir árið 2019 hafi kæranda borið að reikna sér endurgjald að fjárhæð 288.000 kr. Samkvæmt upplýsingum frá Skattinum hafi kærandi reiknað sér endurgjald að fjárhæð 372.000 kr. fyrir mánuðina september 2019 til febrúar 2020. Þá hafi kærandi reiknað sér endurgjald að fjárhæð 186.000 kr. fyrir mars 2020. Kærandi hafi aftur á móti ekki staðið skil á tryggingagjaldi fyrir mánuðina nóvember 2019 til mars 2020. Því teljist þeir mánuðir ekki með í bótarétti kæranda. Sömu forsendur liggi að baki útreikningi bótaréttar kæranda vegna umsóknar hans frá 6. september 2020.

IV. Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 17. febrúar 2021, um að synja beiðni kæranda um endurupptöku ákvörðunar frá 25. júní 2020 um synjun á umsókn hans um atvinnuleysisbætur.

Í 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er fjallað um skilyrði fyrir endurupptöku mála. Í 1. mgr. ákvæðisins kemur fram að eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun og hún verið tilkynnt eigi aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef atvik máls eru á þann veg að eitt af eftirfarandi skilyrðum sem fram koma í 1. og 2. tölul. geti átt við:

  1. ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða
  2. íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafaverulega frá því að ákvörðun var tekin.

Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að eftir að þrír mánuðir eru liðnir frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun samkvæmt 1. tölulið 1. mgr., eða aðila var eða mátti vera kunnugt um breytingu á atvikum sem ákvörðun samkvæmt 2. tölulið 1. mgr. var byggð á, verði beiðni um endurupptöku máls ekki tekin til greina nema að fengnu samþykki frá öðrum aðilum málsins. Mál verði þó ekki tekið upp að nýju ef ár er liðið frá fyrrgreindum tímamörkum nema veigamiklar ástæður mæli með því. Þegar 24. gr. stjórnsýslulaga sleppir kann stjórnvöldum að vera skylt að endurupptaka mál á grundvelli ólögfestra reglna, til dæmis ef efnislegur annmarki er á ákvörðun stjórnvalds.

Umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur frá 30. mars 2020 var synjað með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 25. júní 2020, á þeirri forsendu að vinna hans á ávinnslutímabili bótaréttar næði ekki lágmarksrétti til atvinnuleysistrygginga, sbr. 2. mgr. 15. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. Af gögnum málsins er þó ljóst að kærandi var ekki launamaður í skilningi a-liðar 3. gr. laga nr. 54/2006 heldur sjálfstætt starfandi, sbr. b-lið 3. gr. og því áttu ákvæði 18. og 19. gr. laganna að koma til skoðunar við mat á umsókn kæranda.

Með vísan til þess er ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 25. júní 2020 reist á röngum lagagrundvelli og því til staðar efnislegur annmarki. Að því virtu telur úrskurðarnefndin rétt að Vinnumálastofnun taki mál kæranda til nýrrar meðferðar og er hin kærða ákvörðun því felld úr gildi.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 17. febrúar 2021, um að synja beiðni A, um endurupptöku máls, er felld úr gildi og málinu vísað til nýrrar meðferðar stofnunarinnar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira