Hoppa yfir valmynd
Kærunefnd jafnréttismála

Mál nr. 7/2022 - Úrskurður

Úrskurður kærunefndar jafnréttismála

 

 

A

gegn

Rauða krossinum á Íslandi

 

Kyn. Launamismunun. Leiðréttingarkrafa. Fallist á brot.

A kærði mismun í um átta mánuði á launum hennar hjá R og karlkyns samstarfsmanns sem hóf störf um mánuði eftir að hún hóf störf en þau gegndu samskonar starfi. Jafnframt kærði hún mismun sem fólginn var í því að hún fékk ekki endurskoðun á launum samkvæmt ráðningarsamningi eins og hann. Í málinu lá fyrir viðurkenning R á því að hann hefði gert mistök við greiðslu launa til A, að hann hefði hækkað launin til samræmis við laun karlsins og greitt A launamuninn afturvirkt. Í samræmi við það var ekki hjá því komist að telja að A hefði viðurkennt brot gegn 1. mgr. 18. gr., sbr. 6. gr., laga nr. 150/2020. Samkvæmt því var það niðurstaða kærunefndar að A hefði verið mismunað á grundvelli kyns í launum, sbr. 1. mgr. 18. gr. laga nr. 150/2020, sbr. 6. gr. sömu laga, þegar hún gegndi starfi lögfræðings hjá R.

Á fundi kærunefndar jafnréttismála hinn 14. júlí 2023 er tekið fyrir mál nr. 7/2022 og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:

  1. Með kæru, dags. 31. mars 2022, kærði A mismun á launum hennar og karlkyns starfsmanns hjá Rauða krossinum á Íslandi á tilteknu tímabili þegar þau gegndu störfum lögfræðinga hjá félaginu. Þá kærði hún þá ákvörðun félagsins að endurskoða ekki laun hennar með sambærilegum hætti og hjá þessum sama karlkyns starfsmanni. Hafi það leitt til þess að laun hans hæfi hækkað umfram hennar laun.
  2. Kæran ásamt fylgigögnum var kynnt kærða með bréfi, dags. 3. maí 2022. Greinargerð kærða barst með bréfi, dags. 24. júní 2022, og var óskað eftir afstöðu kæranda til hennar 28. s.m. Athuga­semdir kæranda eru dags. 20. júlí 2022 og voru þær kynntar kærða daginn eftir. Kærði sendi frekari athugasemdir með bréfi, dags. 18. ágúst 2022, og voru þær sendar kæranda sama dag. Frekari athugasemdir kæranda eru dags. 12. september s.á. og voru þær kynntar kærða 19. s.m. Viðbótarathugasemdir kærða bárust kæru­nefndinni með bréfi, dags. 4. október s.á., og voru þær kynntar kæranda daginn eftir sem sendi kærunefndinni viðbótarathugasemdir með bréfi, dags. 28. október s.á. Þær voru kynntar kærða 2. nóvember en athugasemdir hans bárust með bréfi, dags. 16. nóvember 2022.

     

    MÁLAVEXTIR

  3. Kærandi var ráðin lögfræðingur hjá kærða í lok september 2020. Mánuði síðar var karl ráðinn til sömu starfa hjá kærða en á lægri launum. Samkvæmt ráðningarsamningi skyldu laun hans endurskoðuð fjórum mánuðum frá upphafi starfs. Laun karlsins hækkuðu við endurskoðun samkvæmt ráðningarsamningi en laun kæranda ekki. Leiddi það til þess að laun hennar voru lægri en karlsins á tímabilinu apríl til desember 2021 eða í um átta mánuði. Þegar upp komst um þennan launamun síðla árs 2021 voru laun kæranda hækkuð frá 1. janúar 2022. Kærandi krafðist launa­leiðréttingar aftur­virkt en kærði hafnaði því. Launamismunurinn var hins vegar greiddur kæranda eftir að hún hafði lagt fram kæru til kærunefndar jafnréttismála.

     

    SJÓNARMIÐ KÆRANDA

  4. Kærandi heldur því fram að kærði hafi gerst brotlegur við lög nr. 150/2020 með því að greiða henni lægri laun en karlkyns lögfræðingi sem gegndi sama starfi og hún samkvæmt sömu starfslýsingu og þar með jafn verðmætu starfi og hún frá tímabilinu apríl til desember 2021 eða í um átta mánuði. Hafi karlinn hafið störf á lægri launum en hún en þar sem laun hans hafi verið endurskoðuð á grundvelli endurskoðunar­ákvæðis í ráðningarsamningi eftir fjóra mánuði frá ráðningu, sem hafi verið eftir skemmri tími en umsamið hafi verið gagnvart henni, eða sem nam tveimur mánuðum, hækkuðu laun hans á undan hennar launum. Það leiddi til að þess að hann fékk hærri laun en hún á umræddu tímabili. Telur kærandi því að um tvíþætta mismunun sé að ræða á grundvelli kyns sem hafi falið í sér brot gegn 6. og 16. gr. laga nr. 150/2020 og 7.–9. gr. laga nr. 86/2018 um jafna meðferð á vinnumarkaði.
  5. Kærandi telur að ekki hafi verið fyrir hendi málefnalegar ástæður fyrir þeim launa­mun sem var á launum kæranda og samstarfsmanns hennar í umrædda mánuði. Voru laun hennar hækkuð til jafns við hans laun eftir að upp komst um málið mörgum mánuðum síðar. Þannig hafi hennar laun verið óbreytt til 1. janúar 2022 en laun hans hækkað í apríl 2021 eftir endurskoðun launa hans eftir fjóra mánuði í starfi. Jafnframt bendir hún á að það hafi ekki verið málefnalegt að hans laun hafi verið endurskoðuð á undan hennar launum þar sem hann hafi hafið störf mánuði á eftir henni.
  6. Bendir kærandi á að yfirmaður hennar hjá kærða hafi upphaflega viðurkennt að umrædd launahækkun karlsins hafi verið mistök. Hafi það verið afsakað munnlega í launaviðtölum í nóvember 2021 og í viðtali við mannauðsstjóra í desember 2021. Þegar kærandi hafi krafist formlegra svara hafi kærði haldið því fram að engin mistök hafi átt sér stað, umræddur starfsmaður hafi átt launahækkunina skilið en ekki kærandi. Þá hafi því verið haldið fram að ábyrgð á beiðni um endurskoðun launa hafi legið hjá kæranda þrátt fyrir að í ráðningarsamningi komi fram að endurskoðun launa eigi að fara fram eftir sex mánuði í starfi. Í svörum kærða frá 8. mars 2022 hafi hins vegar verið tekið fram að slík endurskoðun eða mat á störfum hennar hafi farið fram en frammistaða hennar í starfi hafi ekki verið talin gefa tilefni til þess að hækka launin. Bendir kærandi á að í desember 2021, eftir að upp komst um málið, hafi verið farið yfir launamál allra lögfræðinga og hafi hennar laun verið hækkuð til jafns við laun karlsins en í því felist skýr viðurkenning kærða á því að hún hafi ekki átt að vera á lægri launum en hann. Kröfu hennar um launaleiðréttingu afturvirkt hafi þó verið hafnað.
  7. Kærandi bendir á að kæran beinist að háttsemi kærða og að hún hafi falið í sér brot á lögum um jafnréttismál. Ekki sé um að ræða kröfu um greiðslu fjár eða afstöðu kærunefndarinnar til bótafjárhæða líkt og kærði lætur liggja að. Kærandi telur að viðurkenning kærða á því að „mistök“ hafi átt sér stað geti ekki valdið frávísun málsins frá kærunefndinni.
  8. Kærandi tekur fram að málflutningur kærða verði ekki skilinn á annan veg en að hann gangist ekki við því að hafa brotið gegn ákvæðum jafnréttislaga þrátt fyrir að hafa viðurkennt að kærandi og samstarfsmaður hennar hafi gegnt jafn verðmætum störfum og að „mistök“ hafi leitt til þessa mismunar. Málflutningur kærða sé nokkuð þversagna­kenndur í þessum efnum og verði ekki annað séð en að hann reyni að fría sig ábyrgð á brotum sínum með eftiráskýringum þegar háttsemi kærða var kærð til kærunefndar jafnréttismála. Hafi kærða gefist fjölmörg tækifæri til þess að leiðrétta þann mun sem var á launum kæranda og samstarfsmanns hennar eftir að upp komst um málið en kærði hafi hafnað því ítrekað þegar eftir því hafi verið leitað. Hafi hann haldið því fram að hann hafi ekki gert neitt rangt og farið með ósannindi um að mat á starfi kæranda hefði farið fram af hálfu yfirmanns hennar sem hafi verið helsta ástæða þess að ekki hafi verið tilefni til launahækkunar líkt og átti við um samstarfsmann hennar. Hafi kærði vegið gróflega að starfsheiðri kæranda í tilraun sinni til að fría sig ábyrgð á umræddum launamun.
  9. Kærandi telur að markaðsviðmiðanir, samningsfrelsi og verðskuldaðar launahækkanir umrædds starfsmanns, án þess að aðrir starfsmenn yrðu hafðir í huga, geti ekki með nokkru móti talist til málefnalegra skýringa á þeim mismun sem var á launum kæranda og samstarfsmanns hennar. Í fyrsta lagi sætir frelsi til samninga um launa­kjör eðli málsins samkvæmt takmörkunum sem leiða af ákvæðum jafnréttislaga líkt og staðfest var með dómi Hæstaréttar í máli nr. 11/2000. Í öðru lagi hafi kærði ekki fært fram neinar sönnur þess að samstarfsmaður kæranda hafi réttilega átt að fá hærri laun greidd fyrir sambærilegt starf og kærandi gegndi eða átt rétt á endurskoðun á launum sínum eftir ráðningu áður en laun kæranda komu til endurskoðunar.
  10. Kærandi tekur fram að ómálefnalegur launamunur verði ekki réttlættur með athafnaleysi atvinnurekenda þegar kemur að því að viðhafa verkferla og gagnsæi við launaákvarðanir. Jafnframt væri ótækt að réttlæta kynbundinn launamun við þær aðstæður þar sem slíkum verkferlum sé til að dreifa hjá atvinnurekanda en þeim ekki fylgt í raun. Telur kærandi að á atvinnurekendum hvíli athafnaskylda í þessum efnum, sbr. álit kærunefndar frá 31. október 2005 í máli nr. 11/2004.
  11. Kærandi bendir á að málflutningur kærða hafi tekið breytingum eftir að hún hafi kært málið til kærunefndar og að nú sé látið að því liggja að umræddur mismunur hafi orsakast af óvenjulegum aðstæðum vegna heimsfaraldurs og samkomutakmörkunum og að ásetningur til að mismuna hafi ekki verið fyrir hendi, hvorki á grundvelli kyns né annarra þátta. Verði ekki annað ráðið af háttsemi kærða en að beinn ásetningur hafi staðið til mismununar þar sem hann hafi hafnað að leiðrétta þann mun sem var fyrir hendi á launum þeirra kvenna sem gegndu jafn verðmætum eða verðmætari störfum en samstarfsmaður þeirra, sem fékk hærri laun. Hafi kærði setið fast við sinn keip þrátt fyrir vitneskju stjórnenda um þennan launamun.
  12. Bendir kærandi á að brot gegn ákvæðum laga nr. 150/2020 sé skaðabótaskylt vegna fjártjóns og miska samkvæmt almennum reglum, sbr. 31. gr. laganna og 16. gr. laga nr. 86/2018. Tekur kærandi fram að úrskurðir kærunefndar um brot verði að teljast þýðingarmiklir fyrir þá sem leita til kærunefndar til þess að fá úr því skorið hvort háttsemi sú sem sé kærð teljist brot gegn jafnréttislögum og möguleika þeirra á að leita í framhaldinu réttar síns vegna fjártjóns og miska. Jafnframt bendir kærandi á að fjár­tjón hennar vegna málsins hafi ekki verið bætt að fullu. Hafi hún endað í veikindaleyfi vegna málsins með tilheyrandi tekjuskerðingu frá 10. mars til 30. apríl eftir að réttur hennar til launa í veikindum var uppurinn hjá kærða. Þá hafi kærandi þurft að sækja sér þjónustu sálfræðings vegna málsins sem hefur haft töluverðan kostnað í för með sér. Þá hafi kærandi jafnframt lögvarða hagsmuni af því að fá greiddan málskostnað fyrir kærunefndinni, sbr. heimild kærunefndarinnar til þess að ákvarða málskostnað reynist úrskurður nefndarinnar kæranda í hag, sbr. 4. mgr. 8. gr. laga nr. 151/2020.
  13. Kærandi tekur undir með kærða að best hefði verið að leysa málið með sátt en því miður hafi ekki náðst sáttagrundvöllur svo sem sjá megi af samskiptum aðila. Bendir kærandi á að kærði hafi ekki enn sent kæranda sundurliðun á útreikningi launagreiðslunnar sem um ræðir en það sé ástæða þess að kærandi hafi ekki enn gert athugasemdir við fjárhæðina.
  14. Kærandi bendir á að bæði hún sjálf og samstarfsmaður hennar hafi starfað á alþjóða­­sviði sem sé enn starfrækt innan kærða og sé þar enn unnið að málefnum sem varða umsækjendur um alþjóðlega vernd. Kærandi hafi ekki verið eina konan sem upp­lifði kynbundinn launamun en aðrar samstarfskonur hafi óskað eftir launaleiðréttingu eftir að upp hafi komist um launakjör samstarfsmanns þeirra. Voru mál þeirra afgreidd með sambærilegum hætti og kæranda, þ.e.a.s. með synjun um leiðréttingu. Telur kærandi því ekkert því til fyrirstöðu að kærunefnd jafnréttismála beini því til kærða að kannað verði hvort brotið hafi verið gegn fleiri einstaklingum og ef svo væri að leiðrétta laun þeirra.

     

    SJÓNARMIÐ KÆRÐA

  15. Kærði krefst þess að kærunni verði vísað frá kærunefnd jafnréttismála þar sem kærandi hafi ekki lengur hagsmuni af því að fá úrskurð um mögulegt brot kærða á lögum nr. 150/2020. Bendir kærði á að af 8. gr. laga nr. 151/2020 sé ljóst að kærunefnd úrskurði hvorki um fjárhæð launa eða bóta né hvort réttur til miskabóta sé fyrir hendi eða möguleg fjárhæð þeirra. Komi sá hluti kröfugerðar kæranda því ekki til meðferðar fyrir kærunefndinni.
  16. Telur kærði að þar sem hann hafi viðurkennt að um mistök hafi verið að ræða varðandi launaákvarðanir sem leiddu til umrædds launamunur á þeim tíma sem um ræðir, og sem hafi verið greiddur kæranda, séu ekki lengur til staðar neinir hagsmunir kæranda af því að fá niðurstöðu kærunefndar um rétt hennar. Jafnframt bendir kærði á að þar sem umrædd störf lögfræðinga hjá kærða hafi nú verið lögð niður þjóni engum tilgangi að ætla kærða að gera úrbætur varðandi laun og launaákvarðanir þeim tengdum.
  17. Kærði tekur fram að eftir að hann hafi verið upplýstur um kæru kæranda til kæru­nefndar og gefinn kostur á að koma sínum sjónarmiðum að í málinu hafi hann talið rétt að freista þess að leita sátta við kæranda um málalok. Hafi kærði ákveðið að viðurkenna mistök varðandi launahækkanir á árinu 2021 og bjóða kæranda að gera upp við hana þann launamun sem myndaðist tímabundið á launum hennar og þess starfsmanns sem hún bar sig saman við gegn því að kæran yrði samhliða afturkölluð. Hafi kærði talið slík málalok hagkvæm fyrir báða aðila, ekki síst þar sem þá væri hægt að ljúka málinu fljótlega enda störfin ekki lengur til staðar innan kærða. Var málinu í samráði við kærunefnd frestað meðan leitað var sátta. Kærandi hafi hins vegar hafnað því að draga kæruna til baka þótt kærði hafi viðurkennt mistökin og greitt henni launamuninn.
  18. Tekur kærði fram að kærandi hafi upplýst kærða 20. maí 2022 um að hún væri tilbúin að ljúka málinu og hafi óskað eftir tillögu kærða um lúkningu þess. Hafi hún tekið fram að forsenda þess væri skrifleg afsökunarbeiðni frá kærða og að gert yrði upp við hana það sem munaði í launum, auk þess sem henni yrðu greiddar miskabætur. Kærði hafi viðurkennt mistök í bréfi til kæranda 25. maí 2022 og jafnframt gert henni grein fyrir því að ekki hafi verið ætlunin að mismuna henni í launum. Var staðfest að kærði væri tilbúinn til að verða við kröfu kæranda um að greiða launamuninn að fjárhæð 360.000 kr. með því skilyrði að kæran yrði dregin til baka um næstu mánaðamót. Þar sem kærandi var hins vegar ekki tilbúin til að taka afstöðu til tillögu kærða fyrir mánaðamótin varð ekki af launagreiðslu þau mánaðamót. Kærandi hafi svarað 6. júní 2022 þar sem fram kom að hún gæti ekki fallist á tillögu kærða. Ítrekaði kærandi nauðsyn þess að kærði sendi henni formlega afsökunarbeiðni og að hún væri tilbúin til að ljúka málinu með sátt og draga kæruna til baka bærist slík afsökunarbeiðni, launa­munurinn yrði gerður upp við hana, auk þess sem hún gerði kröfu um miskabætur að fjárhæð 500.000 kr. Kærði hafi svarað kæranda 14. júní 2022 þar sem áréttað var að kærði hafi fallist á að mistök hefðu verið gerð í tengslum við laun aðila og að kærði harmaði að það hafi gerst og valdið kæranda vanlíðan. Þá var ítrekað það sem áður hefði komið fram í samskiptum aðila, að á engan hátt hefði verið um ásetning að ræða að laun hennar hefðu verið tímabundið lægri. Upplýst hefði verið að kærði myndi greiða henni umræddan launa­mun en engar athugasemdir hefðu borist við fjárhæðina. Miskabótakröfu hefði hins vegar verið hafnað og farið fram á að kæra yrði dregin til baka. Í svari kæranda 15. júní 2022 hefði því verið hafnað að draga kæruna til baka þar sem hún teldi ljóst að um brot gegn lögum nr. 150/2020 hefði verið að ræða sem væri bótaskylt vegna fjártjóns og miska. Óskaði kærandi jafnframt eftir sundur­liðun fjárhæðarinnar og gerði áskilnað ef hún teldi hana ranga. Umrædd fjárhæð var greidd kæranda 16. júní 2022 en þann sama dag gerði kærandi athugasemdir við að greiðslan kæmi fram á launa­seðli sem fyrirframgreidd laun. Hafi kærði skýrt 20. júní 2022 af hverju greiðslan hafi verið merkt sem fyrirframgreidd laun. Þá hafi verið gerð grein fyrir því að um væri að ræða greiðslu á mismun launa upp á 40.000 kr. á mánuði í níu mánuði og að orlof sem varð eftir yrði greitt um næstu mánaðamót. Frekari samskipti hafi ekki átt sér stað milli aðila vegna málsins og hafi engar athugasemdir borist frá kæranda við fjárhæðina sem var greidd.
  19. Tekur kærði fram að krafa kæranda samkvæmt kæru varði mismun á launum í átta mánuði en hún hafi fengið greidda fjárhæð sem nemur launum í níu mánuði. Hafi hún því fengið leiðréttingu afturvirkt og jafnframt fengið greitt meira en hún gerði kröfu um að yrði leiðrétt. Með því hafi fjártjón kæranda verið bætt og rúmlega það.
  20. Telur kærði að þar sem hann hafi viðurkennt mistök varðandi launaákvarðanir sem hafi leitt til launamunar þann tíma sem um ræðir og lýst því að þau væru hörmuð hafi verið komin fram fullnægjandi afsökunarbeiðni gagnvart kæranda. Þar sem hann hafi að auki gert launamuninn upp gagnvart kæranda hafi hún ekki lengur hagsmuni af því að fá niðurstöðu kærunefndar í málinu enda snúi kæruefnið að því að kærandi hafi á tilteknu tímabili verið á lægri launum en sá sem hún beri sig saman við og hún krafist leiðréttingar á því.
  21. Kærði tekur fram að hann hafi gert allt til þess að koma til móts við kæranda og ná sáttum í málinu að því undanskildu að fallast á greiðslu miskabóta en kærði telur skilyrði miskabóta ekki vera fyrir hendi. Það sé ekki heldur á valdi kærunefndar að úrskurða um slíkt, sbr. t.d. úrskurð kærunefndar í máli nr. 6/2021. Þar sem kærandi gerir ekki heldur kröfu þess efnis fyrir kærunefnd séu engir hagsmunir lengur fyrir kæranda að fá úrskurð kærunefndarinnar. Jafnframt tekur kærði fram að greiðsla mögulegs málskostnaðar geti ekki verið grundvöllur fyrir því að málið teljist úrskurðartækt. Greiðsla málskostnaðar snúi að því að gera aðila skaðlausan af því að hafa þurft að standa straum af málarekstri, t.d. greiða lögmannskostnað. Af hálfu kæranda hafi ekki verið sýnt fram á neinn slíkan kostnað hennar af málinu enda ekki annað að sjá en að hún reki málið að öllu leyti sjálf.
  22. Þá telur kærði að túlkun kæranda á ummælum yfirmanns hafi verið byggð á mis­skilningi en um hafi verið að ræða skýringu á því af hverju þessi tiltekni starfsmaður hafi tímabundið verið með hærri laun en kærandi. Það að einn starfsmaður hafi samið við sinn yfirmann um launahækkun sem er umfram það sem aðrir höfðu fengið hefðu vissulega verið mistök sem þýddi þó ekki að sá starfsmaður hefði ekki verið vel að þeirri hækkun kominn eða að frammistaða kæranda hefði ekki gefið tilefni til sambærilegrar launahækkunar.
  23. Kærði telur að ekki hafi verið brotið gegn lögum nr. 150/2020 og lögum nr. 86/2018. Hafi sá tímabundni launamunur sem myndaðist á launum kæranda og þess sem hún ber sig saman við ekki grundvallast á kynferði heldur hafi málefnalegar ástæður legið þar að baki. Því er þannig alfarið mótmælt að launahækkun sú er samstarfsmaður kæranda hlaut hafi verið kynbundin.
  24. Tekur kærði fram að innan hans ráðist laun starfsmanna fyrst og fremst af markaðs­launum og því sem um semst á milli starfsmanns og yfirmanns. Umræddur samstarfs­maður hafi verið ráðinn 2. nóvember 2020 á byrjunarlaunum sambærilegum launum kæranda. Við ráðningu samstarfsmannsins hafi verið rætt um mögulega endurskoðun launa eftir um 3–6 mánuði og eftir 4–5 mánuði í starfi hafi hann óskað að fyrra bragði eftir launaviðtali hjá yfirmanni sínum þar sem möguleg launahækkun hafi verið rædd. Hækkunin var samþykkt frá 1. apríl 2022 þar sem góð frammistaða hans í starfi þótti gefa tilefni til þess. Vegna þessa var tímabundinn mismunur á launum kæranda og samstarfsmanns hennar en laun kæranda voru hækkuð nokkrum mánuðum síðar við árlega launagreiningu innan kærða. Jafnframt bendir kærði á að það sé að sjálfsögðu á ábyrgð starfsmanna að ákveða sjálf hvort þau vilji nýta sér launaviðtöl og óska eftir launahækkunum en í launaviðtali samstarfsmannsins var það mat yfirmanns að hann verðskuldaði launahækkun, án þess að kærandi og aðrir starfsmenn væru sérstaklega hafðir í huga við það mat.
  25. Kærði tekur fram að þrátt fyrir ítarlega leit hafi endanlegt og undirritað eintak af ráðningarsamningi kæranda ekki fundist hjá kærða heldur eingöngu drög. Eins og þar sést er ekki að finna ákvæði um endurskoðun launa eftir hálft ár enda er slíkt ákvæði almennt ekki í ráðningarsamningum kærða við starfsmenn sína. Af hálfu kærða er því dregið í efa að um slíkt hafi verið samið við kæranda þótt vissulega sé það ekki útilokað. Í ljósi þess sé því mótmælt af hálfu kærða sem ósönnuðu að samið hafi verið við kæranda um launahækkun eftir sex mánaða starf. Auk þess tekur kærði fram að þótt slíkt ákvæði hefði verið að finna í ráðningarsamningnum þýddi það ekki endilega að laun kæmu til með að verða hækkuð. Það að frammistaða kæranda hafi ekki gefið tilefni til launa­hækkunar þýði ekki að kærandi hafi staðið sig illa í starfi sínu heldur einungis að á þeim tímapunkti þegar frammistaðan var metin hafi ekki þótt tilefni til hækkunar. Það hafi hins vegar breyst við árlega launagreiningu nokkru síðar.
  26. Kærði harmar það ógagnsæi sem varð við launasetningu á þessum tíma sem um ræðir og að ekki hafi að öllu leyti verið farið eftir þeim verkferlum sem giltu. Bendir kærði á að í bréfi sem var sent kæranda 26. maí 2022 sé sérstaklega tekið fram að kærði muni draga lærdóm af þeim aðstæðum sem sköpuðust. Sé ljóst að kærði ætli sér að bregðast við og gera breytingar til hins betra innan félagsins, ef þess gerist þörf, að því er varðar launaákvarðanir og málefni sem þeim tengjast. Bendir kærði á að óvenjulegir tímar hafi m.a. haft áhrif á það að skort hafi á verkferla en ljóst sé að heimsfaraldur og samkomutakmarkanir hafi haft gríðarlegar afleiðingar í för með sér innan kærða sem og annars staðar. Í ljósi þessa telur kærði fráleitt að halda því fram að beinn ásetningur og skýr brotavilji hafi staðið til þess að mismuna á grundvelli kyns og sé því mótmælt sem röngu og ósönnuðu.
  27. Hafnar kærði því að málflutningur hans sé þversagnakenndur og hafi tekið breytingum eftir kæru til kærunefndar. Það sé ekki rétt enda var verið að reyna að ná sáttum í málinu. Mat kærði það sem svo að það væri hagkvæmt fyrir báða aðila og hafi hann því reynt allt til að koma til móts við kæranda.
  28. Tekur kærði fram að athugasemdir í tengslum við launamismun hafi eingöngu varðað afmarkaðan hóp starfsmanna innan félagsins. Þá varði mál þetta eingöngu kæranda og séu ítrekaðar tilvísanir hennar til málefna annarra starfsmanna kærða því þessari kæru óviðkomandi og því mótmælt að slíkt geti verið rökstuðningur fyrir kröfum kæranda.

     

    NIÐURSTAÐA

  29. Mál þetta snýr að því hvort kærði hafi brotið gegn 18. gr. laga nr. 150/2020 um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, sbr. 6. gr. sömu laga, með því að greiða kæranda sem gegndi starfi lögfræðings lægri laun en karlkyns lögfræðingi í samtals átta mánuði. Jafnframt snýr málið að því hvort ákvæði í ráðningarsamningi þeirra þar sem fram kom mismunandi endurskoðunartími á launum hafi brotið gegn fyrrnefndum ákvæð­um. Það skal tekið fram að þar sem málið varðar mismunun í kjörum á grundvelli kyns koma ákvæði laga nr. 86/2018 um jafna meðferð á vinnumarkaði ekki til skoðunar í málinu.
  30. Kærði hefur krafist frávísunar málsins á þeim grundvelli að kærandi hafi ekki lengur lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins. Vísar kærði til þess að hann hafi viðurkennt mistök við launaákvörðun, sent kæranda skriflega afsökunarbeiðni, greitt launa­mismuninn og staðfest skriflega að hann muni læra af reynslunni og gera betur. Jafnframt vísar kærði til þess að umrædd störf hafi verið aflögð.
  31. Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 150/2020 kemur fram að markmið laganna sé að koma í veg fyrir mismunun á grundvelli kyns og koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 151/2020 um stjórn­sýslu jafnréttismála gilda lögin um stjórnsýslu á sviði jafnréttismála á því sviði sem löggjöf um jafnréttismál tekur til, m.a. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, og um störf kærunefndar jafnréttismála. Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laganna tekur kæru­nefnd jafnréttismála til meðferðar kærur sem til hennar er beint samkvæmt framan­sögðu og kveður upp skriflegan úrskurð um hvort ákvæði laganna hafi verið brotin.
  32. Í samræmi við framangreint tekur kærunefndin afstöðu til þess hvort ákvæði laga nr. 150/2020 hafi verið brotin óháð því hvort einstakir atvinnurekendur hafi að eigin mati brugðist við umkvörtunum í þágu þess starfsfólks sem heldur fram broti á lögunum enda getur brot á þeim leitt til viðurlaga samkvæmt V. kafla laganna. Hefur því sá sem heldur því fram að slíkt brot hafi átt sér stað lögvarða hagsmuni af því að kærunefnd leysi úr því hvort ákvæði laganna hafi verið brotin gagnvart sér. Verður því ekki fallist á frávísun málsins á þeim grundvelli að kærði hafi viðurkennt mistök við greiðslu launa kæranda, hækkað laun hennar til samræmis við laun karlkyns samstarfsmannsins og greitt henni muninn afturvirkt. Þá hefur það ekki áhrif á þessa niðurstöðu að störf þau sem um ræðir hafi verið lögð niður hjá kærða.
  33. Almennt ákvæði um launajafnrétti er í 6. gr. laga nr. 150/2020. Samkvæmt 1. mgr. skulu konum, körlum og fólki með hlutlausa skráningu kyns í þjóðskrá greidd jöfn laun og njóta sömu kjara fyrir sömu eða jafn verðmæt störf. Í 2. mgr. ákvæðisins er tekið fram að með jöfnum launum sé átt við að laun skuli ákveðin á sama hátt fyrir fólk óháð kyni. Skuli þau viðmið sem lögð eru til grundvallar launaákvörðun ekki fela í sér kynjamismunun.
  34. Samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laga nr. 150/2020 er atvinnurekendum óheimilt að mismuna konum, körlum og fólki með hlutlausa skráningu kyns í þjóðskrá í launum og öðrum kjörum á grundvelli kyns. Samkvæmt sönnunarreglu í 2. mgr. 18. gr. kemur það í hlut einstaklings sem telur á sér brotið að leiða líkur að því að hann njóti mismunandi launakjara fyrir sömu eða jafn verðmæt störf á grundvelli kyns. Takist sú sönnun skal atvinnurekandi sýna fram á, ef um launamun er að ræða, að munurinn skýrist af öðrum þáttum en kyni. Af framangreindu er ljóst að það kemur í hlut kæranda að færa fram staðreyndir eða önnur gögn og upplýsingar sem leiða líkur að því að kyn hafi haft áhrif á launakjör í starfi því sem um ræðir.
  35. Samkvæmt 1. og 2. mgr. 6. gr. laga nr. 150/2020 ber atvinnurekanda að greiða jöfn laun, sem eru ákveðin á sama hátt fyrir fólk óháð kyni, fyrir sömu eða jafn verðmæt störf. Í málinu liggur fyrir að kærandi og karlkyns samstarfsmaður hennar sem bæði eru lögfræðingar gegndu samskonar störfum hjá kærða. Kærandi hóf störf í lok september 2020 eða um mánuði áður en karlinn og var þá á hærri launum en hann. Laun hans tóku hins vegar breytingum til hækkunar í samræmi við endurskoðunarákvæði í ráðningarsamningi rúmum fjórum mánuðum eftir að hann hóf störf sem leiddi til þess að laun hans urðu hærri en laun kæranda sem tóku engum breytingum. Af þeim gögnum sem liggja fyrir í málinu, þ.m.t. drögum að ráðningarsamningi kæranda þar sem kveðið er á um endurskoðun launa eftir sex mánuði, verður gengið út frá því að endurskoðunarákvæði í ráðningarsamningi kæranda hafi verið með þeim hætti, eins og hún heldur fram. Hefur kærða ekki tekist að hnekkja þessari staðhæfingu kæranda með því að leggja fram undirritaðan eða endanlegan ráðningarsamning annars efnis.
  36. Í málinu liggur fyrir að kærði féllst upphaflega ekki á að hafa gert mistök við launa­ákvarðanir þegar kærandi fór fram á leiðréttingu í desember 2021, sbr. tölvubréf mann­auðsstjóra 15. desember 2021 og 8. mars 2022. Hann hækkaði þó launin til samræmis við karlkyns samstarfsmann kæranda frá janúar 2022, á grundvelli árlegrar launa­greiningar sinnar, sbr. áðurnefnt tölvubréf 15. desember 2021. Þá neitaði hann að greiða launamun afturvirkt þá átta mánuði sem mismununin varði, þ.e.a.s. frá apríl til desember 2021.
  37. Eftir að kærandi lagði fram kæru í málinu reyndi kærði að ná sáttum við kæranda sem fólst í því að viðurkenna mistök og greiða henni umræddan mismun á launum með því skilyrði að hún myndi draga kæruna til baka. Kærandi var tilbúin að sætta málið en ekki að fara að þessu skilyrði kærða. Þá gerði hún kröfu um afsökunarbeiðni og miskabætur. Varð því ekkert úr sáttum milli aðila. Undir rekstri málsins, sbr. bréf kærða 26. maí 2022, viðurkenndi kærði að mistök hefðu verið gerð við launaákvörðun kæranda sem leiddi til nefnds launamunar og greiddi í framhaldinu kæranda þá fjár­hæð sem hann segir að nemi umræddum launamun í alls níu mánuði.
  38. Áður er rakið að kærði hafi viðurkennt mistök við greiðslu launa til kæranda, hækkað laun hennar til samræmis við laun karlkyns samstarfsmannsins sem gegndi sama starfi og kærandi hjá kærða þegar upp komst um launamuninn, greitt henni fjárhæð sem að hans sögn var sú fjárhæð sem nemi launamuninum afturvirkt, jafnframt að hafa sent henni skriflega afsökunarbeiðni og staðfest að hann muni læra af reynslunni. Af gögnum málsins og umsögnum kærða má afdráttarlaust ráða að hann hafi ekki talið unnt að réttlæta á hlutlægan og málefnalegan hátt umræddan launamun, þ.m.t. þá ákvörðun að endurskoða laun karlkyns starfsmanns með öðrum hætti en laun kæranda. Í samræmi við það verður ekki hjá því komist að telja að kærði hafi gerst brotlegur við 1. mgr. 18. gr. laga nr. 150/2020, sbr. 6. gr. sömu laga.
  39. Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða kærunefndar jafnréttismála að kæranda hafi verið mismunað á grundvelli kyns í launum, sbr. 1. mgr. 18. gr. laga nr. 150/2020, sbr. 6. gr. sömu laga, í um átta mánuði frá apríl til desember 2021, þegar hún gegndi starfi lögfræðings hjá kærða.

Ú r s k u r ð a r o r ð

Kærði, Rauði krossinn á Íslandi, braut gegn 1. mgr. 18. gr. laga nr. 150/2020 um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna við launaákvörðun til kæranda, A, frá apríl til desember 2021.

 

Kristín Benediktsdóttir

 

Andri Árnason

 

Ari Karlsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum