Hoppa yfir valmynd
Kærunefnd útboðsmála

Mál nr. 16/2019. Ákvörðun kærunefndar útboðsmála.

Með kæru móttekinni hjá kærunefnd útboðsmála 14. júní 2019 kærir Malbikun Akureyrar ehf. útboð Vegagerðarinnar auðkennt „Yfirlagnir á Norður- og Austursvæði 2019 - malbik“. Kærandi krefst þess að kærunefnd útboðsmála felli úr gildi ákvörðun varnaraðila um að hefja samningaviðræður við Finn ehf. um hið útboðna verk. Jafnframt er þess krafist að „úrskurðað verði að kærði Vegagerðin skuli ganga til samninga við kæranda“ um hið útboðna verk, en til vara „að úrskurðað verði að verkið skuli boðið út að nýju.“ Til vara er þess krafist að kærunefnd útboðsmála láti uppi álit sitt á skaðabótaskyldu varnaraðila gagnvart kæranda. Jafnframt er krafist málskostnaðar. Í þessum hluta málsins tekur kærunefnd útboðsmála afstöðu til þess hvort rétt sé að verða við kröfu varnaraðila um að aflétta sjálfkrafa stöðvun hins kærða innkaupaferlis sem komst á með kæru í máli þessu.

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 17. júlí 2019
í máli nr. 16/2019:
Malbikun Akureyrar ehf.
gegn
Vegagerðinni og 
Finni ehf.

Með kæru móttekinni hjá kærunefnd útboðsmála 14. júní 2019 kærir Malbikun Akureyrar ehf. útboð Vegagerðarinnar auðkennt „Yfirlagnir á Norður- og Austursvæði 2019 - malbik“. Kærandi krefst þess að kærunefnd útboðsmála felli úr gildi ákvörðun varnaraðila um að hefja samningaviðræður við Finn ehf. um hið útboðna verk. Jafnframt er þess krafist að „úrskurðað verði að kærði Vegagerðin skuli ganga til samninga við kæranda“ um hið útboðna verk, en til vara „að úrskurðað verði að verkið skuli boðið út að nýju.“ Til vara er þess krafist að kærunefnd útboðsmála láti uppi álit sitt á skaðabótaskyldu varnaraðila gagnvart kæranda. Jafnframt er krafist málskostnaðar.  Í þessum hluta málsins tekur kærunefnd útboðsmála afstöðu til þess hvort rétt sé að verða við kröfu varnaraðila um að aflétta sjálfkrafa stöðvun hins kærða innkaupaferlis sem komst á með kæru í máli þessu. 

Í maí 2019 óskaði varnaraðili eftir tilboðum í yfirlagnir á Norður- og Austursvæði, en verkið fólst í lagningu malbiks, viðgerðum, hjólfarafyllingum og fræsingum Í grein 1.8 í útboðsgögnum voru gerðar kröfur um reynslu bjóðenda. Kom meðal annars fram að bjóðendur skyldu á síðastliðnum sjö árum hafa lokið við a.m.k. eitt sambærilegt verk fyrir varnaraðila eða annan aðila. Með sambærilegu verki væri átt við „verkefni svipaðs eðlis og að upphæð verksamnings hafi að lágmarki verið 50% af tilboði í þetta verk“. Þá kom fram að yfirstjórnandi verks skyldi á síðastliðnum sjö árum hafa stjórnað „a.m.k. einu verki svipaðs eðlis og þar sem upphæð verksamnings hefði verið a.m.k. 50% af tilboði bjóðanda í þetta verk“. Í grein 1.9 kom fram að val á tilboði myndi fara fram á grundvelli lægsta verðs. Þrjú tilboð bárust í útboðinu og var tilboð Finns ehf. lægst að fjárhæð, en það nam 174.027.230 krónum. Tilboð kæranda var næstlægst og nam 191.324.000 krónum. Með bréfi 12. júní 2019 tilkynnti varnaraðili að tilboð Finns ehf. hefði orðið fyrir valinu. 
Málatilbúnaður kæranda byggir að meginstefnu á því að Finnur ehf. uppfylli ekki kröfur kafla 1.8 í útboðsgögnum um reynslu. Með sambærilegu verki í skilningi útboðsgagna sé átt við verk sem felist í niðurlagningu eða yfirlögn á malbiki, eða til vara niðurlagningu slitlaga eins og malbiks, klæðningu eða steypu. Verk sem felist í jarðvinnu við burðarlag við vegagerð og efnisflutninga geti ekki talist sambærileg verk. Hafi hvorki Finnur ehf. né yfirstjórnandi verks hjá fyrirtækinu reynslu af malbikunarverkefnum. Megi varnaraðili ekki semja við Finn ehf. um hið útboðna verk þar sem fyrirtækið uppfylli ekki kröfur útboðsgagna til hæfis bjóðenda.  Af hálfu varnaraðila er einkum vísað til þess að Finnur ehf. hafi unnið verkið „Þórunnarstræti hitaveitulögn“ og hafi malbikun verið stór hluti verksins. Geti ekki aðeins komið til skoðunar nákvæmlega sömu verkþættir og um ræði í útboðinu við mat á reynslu af verkum sem séu svipaðs eðlis samkvæmt grein 1.1.8 í útboðsgögnum. 

Niðurstaða
Kærunefnd útboðsmála hefur kynnt sér þau gögn um reynslu af verkefnum, sbr. grein 1.1.8 í útboðsgögnum, sem fylgdu tilboði Finns ehf. og kallað var eftir af hálfu varnaraðila við yfirferð tilboða. Af yfirliti yfir verkreynslu sem fylgdi tilboði fyrirtækisins verður ráðið að það hafi meðal annars unnið við fræsingu og nýlögn malbiks við lagningu hitaveitulagnar við Þórunnarstræti á Akureyri. Fram kom að upphæð verksamningsins hefði numið 35.000.000 króna. Í fyrirliggjandi tölvubréfi sem Finnur ehf. sendi varnaraðila 19. júní 2019 var nánar skýrt að umrætt verk hefði verið unnið á síðustu vikum fyrir Norðurorku og að það væri að „upphæð ca. kr. 120 milljónir og er malbikshluti þess um 35-40 milljónir króna“. 
Skilja verður grein 1.1.8 í útboðsgögnum með þeim hætti að það sé skilyrði að bjóðendur hafi reynslu af verki svipaðs eðlis og það sem útboðið lýtur að, sem og að fjárhæð samnings vegna þess verks nemi að lágmarki 50% af þeirri fjárhæð sem tilboð bjóðandans nemur. Að teknu tilliti til þess að hið kærða útboð laut að lagningu malbiks, viðgerðum, hjólfarafyllingum og fræsingum getur nefndin, eins og mál þetta liggur fyrir nú, ekki fallist á að lægstbjóðandi hafi uppfyllt umrætt skilyrði með vísan til fyrrgreinds verks sem hann kveður sjálfur ekki hafa numið hærri fjárhæð en 40.000.000 króna að því er varðar fræsingu og lagningu malbiks. Að þessu virtu er það álit nefndarinnar að leiddar hafi verið verulegar líkur að broti gegn lögum um opinber innkaup sem leitt geti til ógildingar ákvarðana eða annarra athafna varnaraðila samkvæmt 1. mgr. 110. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup. Ekki verður fallist á að slíkir almannahagsmunir séu í húfi að aflétta beri stöðvun samningsgerðar, sbr.  lokamálslið sama ákvæðis. Verður samkvæmt þessu ekki fallist á kröfu varnaraðila um að stöðvun samningsgerðar sem komst á með kæru í þessu máli verði aflétt. 

Ákvörðunarorð:

Hafnað er kröfu varnaraðila, Vegagerðarinnar, um að stöðvun samningsgerðar vegna útboðs  auðkennt „Yfirlagnir á Norður- og Austursvæði 2019 - malbik“, verði aflétt. 

Reykjavík, 17. júlí 2019 

Ásgerður Ragnarsdóttir

Auður Finnbogadóttir

Sandra Baldvinsdóttir

 

Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira