Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 380/2024-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 380/2024

Þriðjudaginn 12. nóvember 2024

A

gegn

Vinnumálastofnun – Fæðingarorlofssjóði

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir.

Með kæru, dags. 19. ágúst 2024, kærði B, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvarðanir Fæðingarorlofssjóðs, dags. 27. maí 2024 og 27. júní 2024, um að synja umsókn hennar um lengingu á greiðslum í fæðingarorlofi vegna veikinda.

I. Málavextir og málsmeðferð

Með bréfi, dags. 15. maí 2024, sótti kærandi um lengingu á greiðslum í fæðingarorlofi vegna veikinda, annars vegar á grundvelli 17. gr. laga nr. 144/2020 um fæðingar- og foreldraorlof og hins vegar á grundvelli 18. gr. laganna. Með ákvörðunum Fæðingarorlofssjóðs, dags. 27. maí og 27. júní 2024, var umsókn kæranda synjað.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 19. ágúst 2024. Með bréfi, dags. 28. ágúst 2024, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs ásamt gögnum málsins. Greinargerð sjóðsins barst 27. september 2024 og var kynnt umboðsmanni kæranda með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 1. október 2024. Athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess annars vegar að ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 27. júní 2024, verði snúið og kæranda veittur réttur til átta daga lengingar á fæðingarorlofi á grunni 17. gr. laga nr. 144/2020. Hins vegar að ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags 27. maí 2024, verði felld úr gildi og að kæranda verði veittur réttur til lengingar á fæðingarorlofi á grunni 18. gr. sömu laga vegna tímabilsins X 2024 til X 2024. Til vara sé þess krafist að nefndin ákveði aðra skemmri lengingu vegna sama tímabils, þó eigi skemmri en 15 daga. Til þrautarvara krefjist kærandi 14 daga lengri réttar á fæðingarorlofi.

Kærandi tekur fram að hún hafi með bréfi, dags. 14. maí 2024, sótt um aukið fæðingarorlof vegna veikinda í tengslum við fæðingu barns. Í bréfinu hafi verið rakið að þann X 2024 hafi kærandi lagst inn á meðgöngu- og sængurlegudeild Landspítalans vegna einkenna meðgöngueitrunnar, þá gengin 23 vikur og sex daga. Á öðrum degi innlagnar, í svokölluðum vaxtarsónar, hafi greinst fyrirstaða í naflastreng og þá hafi verið ljóst að til fyrirburafæðingar kæmi. Meðferð frá þeim tíma hafi miðað að því að kaupa sem flesta daga barnsins í móðurkviði, eða allt þar til heilsa kæranda eða barns leyfði ekki meir. Frá X hafi kærandi því verið inniliggjandi á sjúkrahúsi. Eftir átta daga innlögn, þann X, hafi kæranda hrakað mjög og um miðjan dag hafi verið ljóst að framkvæma þyrfti keisaraskurð. Þá um kvöldið hafi komið í heiminn stúlkubarn, 28 sm. og 487 gr., eftir slétta 25 vikna meðgöngu, en áætlaður fæðingardagur hafi verið X 2024. Illa hafi gengið að ná einkennum kæranda niður og hún hafi því verið áfram inniliggjandi á LSH eftir fæðingu. Háþrýstingur hafi verið viðvarandi og í tvígang eftir fæðingu hafi hún verið flutt af meðgöngu- og sængurlegudeild yfir á fæðingargang aftur, þrátt fyrir að hafa þá þegar alið barn. Ástæða þess hafi verið að á síðarnefndu deildinni hafi verið hægt að viðhafa stöðuga yfirlegu, mónitora ástand og líðan samfleytt, en umönnunaraðilar hafi metið slíkt nauðsynlegt.

Kærandi hafi fengið leyfi til heimfarar þann X 2024 en sú útskrift hafi í raun verið bundin skilorði, þ.e. kæranda  hafi borið að koma í eftirlit á göngudeild kvensjúkdóma strax daginn eftir og síðan á tveggja daga fresti eftir það. Að auki hafi kæranda borið að mónitora blóðþrýsting heima fyrir og eftir atvikum hafi komið til álita að innritast á ný á legudeild.

Í fyrrnefndu bréfi til sjóðsins hafi kærandi sótt um aukið fæðingarorlof vegna veikinda sinna. Annars vegar hafi verið sótt um lengingu vegna veikinda í aðdraganda fæðingarinnar, þ.e. frá X til X, á grundvelli 17. gr. laga nr. 144/2020 um fæðingar- og foreldraorlof, og hins vegar vegna veikinda í tengslum við fæðingu tímabilið X til X, sbr. 18. gr. laganna, en samkvæmt vottorði sérfræðilæknis hafi ástand kæranda verið slíkt á þeim tíma að hún hafi verið ófær um að annast barn sitt vegna veikindanna.

Með bréfi, dags. 27. maí 2024, hafi Fæðingarorlofssjóður synjaði kæranda um aukið fæðingarorlof á grunni 18. gr. laga nr. 144/2020, enda meðgöngueitrun meðgöngusjúkdómur en ekki fæðingarsjúkdómur. Í svarbréfinu hafi ekki verið vikið að umsókn kæranda á grunni 17. gr. laganna. Með erindi 11. júní 2024 hafi kærandi óskað eftir afstöðu Fæðingarorlofssjóðs til umsóknarinnar á grundvelli 17. gr. þar sem henni hefði ekki verið svarað. Svar hafi borist 18. júní en þar hafi komið fram að þarf sem kærandi hefði ekki hætt „þátttöku á vinnumarkaði í skilningi b-liðar 2. mgr. 22. gr. getur hún ekki átt rétt á lengingu skv. 17. gr. Nánar er fjallað um þetta í athugasemdum við 17. gr. frumvarps þess er varð að lögum nr. 144/2020, en þar segir m.a. að ekki geti komið til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði samkvæmt ákvæðinu nema greiðslur frá vinnuveitanda, þar með talið vegna veikindaréttar hafi fallið niður meira en mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag. Til nánari skýringar þá er réttur til lengingar skv. 17. gr. einungis greiddur út á þeim tíma sem veikindin standa yfir og foreldrið á ekki inni veikindarétt hjá vinnuveitanda.“ Kærandi hafi lýst sig þessu ósammála en hafi óskað þess að Fæðingarorlofssjóður myndi taka formlega afstöðu til umsóknar um lengingu á grunni 17. gr. laga nr. 144/2020, þá með það að marki að mál hennar fengi efnislega meðferð að fullu fyrir kærunefndinni. Það hafi sjóðurinn gert með ákvörðun, dags. 27. júní 2024. Þeirri umsókn hafi einnig verið synjað.

Kærandi uni ekki þeirri niðurstöðu og leiti því til kærunefndarinnar. Kærandi bendi á að hún hafi ekki enn sótt um lengingu á fæðingarorlofi vegna veikinda barns, sbr. 19. gr. laga nr. 144/2020, en það eigi ekki að koma að sök þar sem réttindi samkvæmt 17., 18. og 19. gr. laganna standi óháð hverju öðru, að því gefnu að skilyrði lagaákvæðanna séu uppfyllt.

Kröfugerð kæranda sé tvíþætt, enda um tvær synjanir að ræða. Hvað varði synjun Fæðingarorlofssjóðs um aukinn rétt á grunni 17. gr. laga nr. 144/2020 sé afar mikilvægt, óháð niðurstöðu nefndarinnar til réttar til lengingar á orlofi, að úrskurðarnefndin tryggi að sjóðurinn túlki ákvæðið á réttan hátt framvegis. Sjóðurinn virðist ganga út frá því að ákvæðið mæli fyrir um að barnshafandi foreldri verði að leggja niður störf eftir að tveir mánuðir séu eftir af meðgöngu, en þó eigi síðar en mánuður sé eftir. Sé gengið út frá því, til einföldunar, að full meðganga sé 40 vikur og að einn mánuður sé fjórar vikur, þá virðist það vera afstaða sjóðsins að réttur samkvæmt 1. mgr. 17. gr. geti aðeins stofnast á 32. til 36. viku meðgöngu. Það fáist engan veginn staðist, enda væru veikindi í aðdraganda fyrirburafæðinga fyrir 32. viku þar með undanskilin.

Í tilfelli kæranda liggi fyrir að hún hafi verið rétt rúmlega hálfnuð með hefðbundna meðgöngu þegar veikindin hafi komið upp, þ.e. eftir rétt tæplega 24 vikna meðgöngu. Strangt til tekið hafi þrír og hálfur mánuður verið í áætlaðan fæðingardag og því megi færa sterk rök fyrir því að kærandi hafi lagt niður störf „meira en mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag“.

Fæðingarorlofssjóður hafi enn fremur byggt synjunina á því að kærandi hefði fengið greidd laun vegna Xmánaðar 2024. Ástæða þess sé sú að veikindi kæranda hafi borið skjótt að og hún hafi verið að störfum dagana fyrir innlögn. Að auki sé það ekki skilyrði samkvæmt 1. mgr. 17. gr. laga nr. 144/2020 að umsækjandi hafi ekki fengið greidd laun frá vinnuveitanda á umræddu launatímabili heldur aðeins gerð krafa um að barnshafandi foreldri hafi verið nauðsyn, þegar meira en mánuður sé í áætlaðan fæðingardag barns, að fara í leyfi frá störfum eða hætta þátttöku á vinnumarkaði samkvæmt b. lið 2. mgr. 22. gr. laganna. Hefðbundin túlkun á orðinu gefur til kynna að ekki sé nauðsynlegt að gera bæði, þ.e. að leggja niður störf og hætta þátttöku á vinnumarkaði. Í tilfelli kæranda sé ljóst að þremur og hálfum mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag barns síns hafi hún lagst inn á sjúkrahús í átta daga vegna veikinda í tengslum við þungunina. Á þeim tíma hefði enginn með réttu ráði mælst til þess að hún myndi mæta til vinnu og sinna starfi sínu sem C, enda innrituð á legudeild sjúkrahúss. Skilyrði 1. mgr. 17. gr. laga nr. 144/2020 um óvinnufærni sé því uppfyllt. Að sama skapi hafi meðferðin miðast að því marki að fresta óumflýjanlegri fyrirburafæðingu eins og kostur var.

Umsókn kæranda hafi fylgt frumrit vottorðs frá sérfræðilækni, sbr. 2. mgr. 17. gr. laga nr. 144/2020 en staðfestingu vinnuveitanda samkvæmt 3. mgr. greinarinnar hafi vantað. Úr því hafi verið bætt hér fyrir nefndinni.

Að mati kæranda hafi synjun Fæðingarorlofssjóðs því hvorki verið reist á réttum forsendum um atvik né réttri túlkun á 1. mgr. 17. gr. laga nr. 144/2020. Kærandi telji því að sér beri réttur til átta daga lengingar á orlofi vegna tímabilsins í aðdraganda fæðingar, þ.e. X til X.

Hvað varði synjun á auknum rétti á grunni 18. gr. laga nr. 144/2020 telji kærandi að niðurstaða Fæðingarorlofssjóðs, sem og eldri úrskurðir úrskurðarnefndarinnar um áþekk álitaefni, hvorki vera í samræmi við forsögu, markmið og inntak lagaákvæðisins, né heldur markmið laganna sjálfra. Því þyki rétt að rekja forsögu ákvæðisins lítillega. Fyrirmynd núverandi 18. gr. laga nr. 144/2020 megi rekja til c. liðar 7. gr. laga um breytingu lagaákvæða um fæðingarorlof nr. 51/1997, en greinin hafi breytt 5. mgr. 15. gr. þágildandi laga nr. 117/1993 um almannatryggingar. Í 4. málsl. ákvæðisins hafi verið mælt fyrir um að heimilt væri að „framlengja greiðslu fæðingarstyrks um allt að tvo mánuði vegna alvarlegra veikinda móður eftir fæðingu.“ Tilgangur breytingarinnar, samkvæmt framsöguræðu heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, hafi verið að „bæta móður og barni upp þann tíma sem þau geta ekki verið í samvistum á fæðingarorlofstíma vegna alvarlegra veikinda móður.“ 10. gr. reglugerðar nr. 296/1998 um greiðslur í fæðingarorlofi hafi síðan mælt fyrir um heimild til framlengingar greiðslna „vegna alvarlegra veikinda móður sem er í fæðingarorlofi.“

Með setningu laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof hafi þessi réttindi verið þrengd lítillega, sbr. 3. mgr. 17. gr. laganna. Þrengingin hafi falist í því að veikindi eftir fæðingu eða í fæðingarorlofi sköpuðu ekki aukinn rétt heldur þurfti alvarleg veikindi í tengslum við fæðingu. Með 6. gr. laga nr. 136/2011 hafi því skilyrði verið bætt við, sem áður hafi verið í reglugerðum, að móðir þyrfti að hafa verið ófær um að annast barn sitt, samkvæmt mati sérfræðilæknis, vegna veikindanna.

Með setningu gildandi fæðingarorlofslaga hafi hins vegar verið gerð nokkuð mikil breyting á ákvæðinu, þ.e. að í stað þess að veikindin séu í tengslum við fæðinguna verði að vera unnt að rekja þau til hennar með beinum hætti. Af greinargerð frumvarpsins megi ráða að ekki sé um efnisbreytingu að ræða en trauðla verði fallist á það.

Færa megi fyrir því sterk rök að niðurstaða Fæðingarorlofssjóðs í máli kæranda sé í samræmi við 1. mgr. 18. gr. laga nr. 144/2020 sé greinin lesin samkvæmt orðanna hljóðan. Hins vegar sé að hugsa sér tilvik sem falli undir grunnrök þess en geri það ekki, þar sem veikindin megi ekki rekja með beinum hætti til fæðingarinnar sjálfrar. Breytingin nú leiði til að mynda til þess, samkvæmt beinni orðskýringu, að svæsið þunglyndi í kjölfar fæðingar falli utan gildssviðs þess, enda tæplega hægt að rekja það með beinum og ótvíræðum hætti til fæðingarinnar. Sömu sögu væri að segja af barnshafandi foreldri sem veikist skyndilega alvarlega og eignist barn sitt fáum dögum síðar, eða þá ef foreldri fái mikla sótt strax í kjölfar fæðingar, án þess þó að fæðingin sé beinlínis orsök veikindanna.

Í tilfelli kæranda sé orsök veikindanna svæsin meðgöngueitrun sem hafi leitt til sjúkrahússlegu í tæpar tvær vikur eftir fæðingu og langra eftirkasta eftir það. Allan Xmánuð hafi kærandi t.d. sjaldnast náð að vera lengur en sex klukkustundir á vökudeild LSH, hvar dóttir hennar hafi verið inniliggjandi, vegna ástands síns. Veikindin hafi sannarlega verið í tengslum við fæðinguna, enda meðganga og fæðing tengd órjúfanlegum böndum. Það sé í besta falli umdeilanlegt hvort unnt sé að túlka „enda verði veikindin rakin til fæðingarinnar“ svo rúmt að það nái líka til aðdraganda fæðingar. Kærandi byggi þó á því að slíkt sé unnt, þá með vísan til forsögu og markmiðs fæðingarorlofslaganna. Framangreindar breytingar á 18. gr. laga nr. 144/2020 og forverum hennar beri ekki með sér að stefnt hafi verið að því að breyta inntaki ákvæðisins frá því sem ákveðið hafi verið með setningu laga nr. 51/1997. Þvert á móti beri ummæli í greinargerðum með sér að aðeins sé stefnt að litlum orðalagsbreytingum en að efnislega eigi ákvæðin að vera óbreytt. Um þetta vísist til sérstakra athugasemda með frumvarpi til laga nr. 95/2000 og laga nr. 144/2020. Að sama skapi leiði túlkun Fæðingarorlofssjóðs, sem og fyrri úrskurðir úrskurðarnefndarinnar um áþekk álitamál í tíð eldri laga, til þess að 18. gr. laga nr. 144/2020 rekist á við markmið laganna sem birtist í 2. gr. þeirra, nánar tiltekið að tryggja barni samvistir við báða foreldra og að gera foreldrum kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf.

Aðalkrafa kæranda varðandi 18. gr. laga nr. 144/2020 byggi á því að henni beri réttur til aukins fæðingarorlofs vegna alls tímabilsins sem hún hafi verið ófær um að annast barn sitt samkvæmt vottorði sérfræðilæknis, þ.e. frá X til X 2024. Varakrafan byggi á að nefndin úrskurði um annað og styttra tímabil, þó eigi skemmra en 15 daga, sé það mat nefndarinnar að kærandi hafi verið fær um að annast barn sitt fyrr en vottorðið beri með sér. Þrautarvarakröfu sína leiði kærandi af 1. málsl. 3. mgr. 8. gr. laga nr. 144/2020 en samkvæmt honum hafi henni borið lagaskylda til að vera í fæðingarorlofi „að minnsta kosti fyrsta hálfa mánuðinn“ eftir fæðingu dóttur sinnar. Stærstan hluta þess tíma hafi kærandi verið inniliggjandi á sjúkrahúsi og samanlagðar samvistir með barni hennar, á tveggja vikna tímabilinu í kjölfar fæðingar, rétt um sólarhringur. Með vísan til markmiðs 18. gr., um að bæta móður og barni upp þann tíma sem þau geti ekki verið í samvistum á fæðingarorlofstíma vegna alvarlegra veikinda móður, skjóti skökku við ef sá lögboðni tími fáist ekki bættur samkvæmt ákvæðinu. Að endingu sé ítrekað að sameiginlegur réttur foreldra til lengingar samkvæmt 19. gr. laga nr. 144/2020 eigi ekki að hafa áhrif við mat á mögulegum rétti kæranda samvkæmt 17. og 18. gr. laganna, enda um sjálfstæð réttindi að ræða. Að sama skapi liggi fyrir hætta á að markmið laganna samkvæmt 2. gr. náist illa í tilfelli kæranda og maka hennar, enda hafi dóttir kæranda legið á vökudeild í 15 vikur eftir fæðingu. Á þeim tíma hafi báðir foreldrar verið í fæðingarorlofi að heild eða hluta.

III. Sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs

Í greinargerð Fæðingarorlofssjóðs kemur fram að kærð sé ákvörðun sjóðsins um að synja kæranda um framlengingu fæðingarorlofs vegna alvarlegra veikinda í tengslum við fæðingu. Einnig sé kærð ákvörðun um að synja kæranda um lengingu fæðingarorlofs vegna veikinda á meðgöngu. Eitt læknisvottorð hafi borist í málinu, dags. 20. mars 2024, en einnig liggi fyrir umsögn sérfræðilæknis Fæðingarorlofssjóðs.

Í 1. mgr. 17. gr. laga nr. 144/2020 um fæðingar- og foreldraorlof komi fram að ef barnshafandi foreldri sé nauðsynlegt af heilsufarsástæðum sem tengist meðgöngunni að fá leyfi frá störfum eða hætta þátttöku á vinnumarkaði samkvæmt b. lið 2. mgr. 22. gr. meira en mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag barns að mati sérfræðilæknis skuli foreldrið eiga rétt á lengingu fæðingarorlofs og greiðslum úr Fæðingarolofssjóði þann tíma sem um ræði en þó aldrei lengur en tvo mánuði. Með heilsufarsástæðum sem tengist meðgöngunni sé átt við sjúkdóma sem kunni að koma upp vegna meðgöngu og valda óvinnufærni, sem og meðferð til að koma í veg fyrir fyrirburafæðingu eða til að vernda heilsu fósturs, enda hafi meðferðin í för með sér óvinnufærni. Beri fæðingu að fyrir áætlaðan fæðingardag barns falli heimild til lengingar samkvæmt þessu ákvæði niður frá þeim tíma.

Í 2. mgr. 17. gr. laga nr. 144/2020 komi fram að rökstyðja skuli þörf á lengingu fæðingarorlofs samkvæmt 1. mgr. með vottorði þess sérfræðilæknis sem annast hafi foreldrið og skuli Vinnumálastofnun berast frumrit af framangreindu vottorði. Vinnumálastofnun skuli meta hvort lenging fæðingarorlofs sé nauðsynleg og sé stofnuninni heimilt að óska eftir umsögn frá öðrum sérfæðilækni við matið.

Þá segi í 3. mgr. 17. gr. laganna að umsókn um lengingu fæðingarorlofs samkvæmt 1. mgr. skuli fylgja staðfesting vinnuveitanda og/eða Vinnumálastofnunar, eftir því sem við eigi. Í þeirri staðfestingu skuli koma fram hvenær greiðslur hafi fallið niður. Í athugasemdum með ákvæði frumvarpsins til framangreindra laga komi meðal annars fram að ástæðan sé sú að ekki geti komið til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði samkvæmt ákvæðinu nema greiðslur frá vinnuveitanda, þar með talið vegna veikindaréttar, eða greiðslur Vinnumálastofnunar hafi fallið niður meira en mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag.

Áætlaður fæðingardagur barns kæranda hafi verið X 2024. Líkt og fram komi í vottorði D, sérfræðilæknis, hafi kærandi veikst snemma á meðgöngu eða þegar hún hafi verið gengin 23 vikur og sex daga. Kærandi hafi verið inniliggjandi vegna meðgöngueitrunar sem hafi versnaði mikið og barnið hafi fæðst í kjölfarið með bráðakeisara X 2024.

Í málinu hafi verið óskað umsagnar E sérfræðilæknis, sbr. umsögn hans frá 13. september 2024. Í umsögninni komi eftirfarandi fram: „Ég tel að kærandi uppfylli læknisfræðileg skilyrði til að kunna að eiga rétt á lengingu vegna veikinda á meðgöngu að öðrum skilyrðum uppfylltum, svo sem að hún hafi látið af störfum mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag“.

Lenging fæðingarorlofs í skilningi 1. mgr. 17. gr. laga nr. 144/2020 hefði í fyrsta lagi getað hafist tveimur mánuðum fyrir áætlaðan fæðingardag barns kæranda, eða þann 7. mars 2024, og að því gefnu að greiðslur frá vinnuveitanda hefðu fallið niður samkvæmt 3. mgr. Þá skuli  réttur til lengingar falla niður við fæðingu barns samkvæmt 1. mgr. Þar sem barn kæranda hafi fæðst þann X 2024, áður en lenging samkvæmt ákvæðinu hefði getað hafist og greiðslur frá vinnuveitanda hafi ekki fallið niður fyrr en við fæðingu barns hafi kæranda verið synjað um lengingu með bréfi, dags. 27. júní 2024.

Í 1. mgr. 18. gr. laga nr. 144/2020 sé að finna heimildarákvæði til að framlengja fæðingarorlof foreldris um allt að tvo mánuði vegna alvarlegra veikinda í tengslum við fæðingu, enda verði veikindin rakin til fæðingarinnar og foreldrið hafi í fæðingarorlofi sínu verið ófært um að annast barn sitt vegna veikindanna að mati sérfræðilæknis. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar skuli rökstyðja þörf fyrir lengingu á fæðingarorlofi með vottorði sérfræðilæknis og Vinnumálastofnun sé heimilt að óska eftir umsögn frá öðrum sérfræðilækni um hvort lenging fæðingarorlofs sé nauðsynleg samkvæmt ákvæðinu. Í athugasemdum með 18. gr. frumvarps til framangreindra laga sé tekið fram að miðað sé við að veikindi foreldris sem fætt hafi barn verði rakin til fæðingarinnar sjálfrar og það hafi af þeim völdum verið ófært um að annast barn sitt í fæðingarorlofi sínu að mati sérfræðilæknis. Önnur veikindi foreldris sem fætt hafi barn veiti ekki rétt til lengingar fæðingarorlofs.

Í 2. mgr. 18. gr. laga nr. 144/2020 komi fram að rökstyðja skuli þörf á lengingu fæðingarorlofs samkvæmt 1. mgr. með vottorði þess sérfræðilæknis sem annast hafi foreldrið og skuli Vinnumálastofnun berast frumrit af framangreindu vottorði. Vinnumálastofnun skuli meta hvort lenging fæðingarorlofs sé nauðsynleg og stofnunni sé heimilt að óska eftir umsögn frá öðrum sérfræðilækni við matið.

Þann 16. maí 2024 hafi borist vottorð D, sérfræðilæknis. Í því segi:

„Kona sem snemma á meðgöngu, 23v6d, greinist með snemmkomna og svæsna meðgöngueitrun. Leggst inn á sængurkvenna og meðgöngudeild LSH með háan blóðþrýsting og einkenni hjartabilunar. Kemur einnig í ljós vaxtarskerðing hjá barninu. Er inniliggjandi vegna meðgöngu eitrunar sem versnar mikið X 2024 og er þá gerður bráðakeisari vegna þess veik A er í meðgöngueitrun. Eftir keisara áfram mjög veik í meðgöngueitrun með háan blóðþrýsting sem gengur erfiðlega að að lækka og hjartabilunar mynd. Er inniliggjandi á LSH X 2024-X 2024. Eftir útskrift áfram veik, slöpp og með erfiðan háþrýsting. Er lengi að jafna sig á meðgöngueitruninni. Er á tímabilinu X 2024-X 2024 svo veik að hún er óvinnufær og eftir fæðingu barns ófær um að sinna því. Barnið þar að auki mikill fyrirburi sem þarfnast umönnun vökudeild.“

Með bréfi til kæranda, dags. 27. maí 2024, hafi henni verið synjað um lengingu fæðingarorlofs þar sem af læknisvottorði væri ekki ráðið að veikindi hennar megi rekja til fæðingarinnar sjálfrar, jafnvel þótt um alvarleg veikindi væri að ræða. Kæranda hafi einnig verið bent á að senda vottorð vegna veikinda barns.

Í málinu hafi verið óskað umsagnar E, sérfræðilæknis, sbr. umsögn hans dags. 13. september 2024. Í umsögninni komi eftirfarandi fram:

„Varðandi umsókn um lengingu fæðingarorlofs vegna veikinda eftir fæðingu, tímabilið X – X24 þá er að mínu mati ljóst að veikindi kæranda, þ.e. svæsin meðgöngueitrun, var framkomin á meðgöngunni eins og fram kemur í vottorði D sérfræðilæknis og héldu þau veikindi áfram eftir fæðingu, en verða ekki rakin til fæðingarinnar sjálfrar. Skv. 18. gr. laga um fæðingarorlof þurfa veikindi að tengjast fæðingunni sjálfri til að skapa rétt til lengingar fæðingarorlofs eftir fæðingu og svo er ekki í þessu tilfelli að mínu mati.“

Samkvæmt skýru orðalagi 1. mgr. 18. gr. laga nr. 144/2020 sé það skilyrði til að eiga rétt til lengingar samkvæmt ákvæðinu að veikindin verði rakin til fæðingarinnar sjálfrar. Ekki verði séð af læknisvottorði sem hafi borist frá D né umsögn E að veikindi móður megi rekja til fæðingarinnar. Að mati Fæðingarorlofssjóðs uppfylli kærandi því ekki skilyrði 1. mgr. 18. gr. um alvarleg veikindi í tengslum við fæðingu.

Með vísan til alls framangreinds telji Fæðingarorlofssjóður að kæranda hafi réttilega verið synjað um lengingu fæðingarorlofs vegna veikinda á meðgöngu og veikinda í tengslum við fæðingu, sbr. synjunarbréf, dags. 27. júní og 27. maí 2024.

IV. Niðurstaða

Kærðar eru ákvarðanir Fæðingarorlofssjóðs um að synja umsókn kæranda um lengingu á greiðslum í fæðingarorlofi vegna veikinda.

Í IV. kafla laga nr. 144/2020 um fæðingar- og foreldraorlof er fjallað um aukinn rétt til fæðingarorlofs. Þar segir í 1. mgr. 17. gr. að sé barnshafandi foreldri nauðsynlegt af heilsufarsástæðum sem tengist meðgöngunni að fá leyfi frá störfum eða hætta þátttöku á vinnumarkaði samkvæmt b. lið 2. mgr. 22. gr., meira en mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag barns að mati sérfræðilæknis, skuli foreldrið eiga rétt á lengingu fæðingarorlofs og greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði þann tíma sem um ræði en þó aldrei lengur en í tvo mánuði. Með heilsufarsástæðum sem tengist meðgöngunni sé átt við sjúkdóma sem upp kunni að koma vegna meðgöngu og valdi óvinnufærni, tímabundna eða langvarandi sjúkdóma sem versni á meðgöngu og valdi óvinnufærni sem og meðferð til að koma í veg fyrir fyrirburafæðingu eða til að vernda heilsu fósturs, enda hafi meðferðin í för með sér óvinnufærni. Beri fæðingu að fyrir áætlaðan fæðingardag barns falli heimild til lengingar samkvæmt ákvæðinu niður frá þeim tíma.

Í 2. mgr. 17. gr. kemur fram að rökstyðja skuli þörf á lengingu fæðingarorlofs samkvæmt 1. mgr. með vottorði þess sérfræðilæknis sem annast hafi foreldrið og skuli Vinnumálastofnun berast frumrit af framangreindu vottorði. Vinnumálastofnun skuli meta hvort lenging fæðingarorlofs sé nauðsynleg og stofnuninni sé heimilt að óska eftir umsögn frá öðrum sérfræðilækni við matið. Þá segir í 3. mgr. 17. gr. að umsókn um lengingu fæðingarorlofs samkvæmt 1. mgr. skuli fylgja staðfesting vinnuveitanda og/eða Vinnumálastofnunar, eftir því sem við eigi. Í þeirri staðfestingu skuli koma fram hvenær greiðslur hafi fallið niður. Í athugasemdum með því ákvæði í frumvarpi til laganna kemur meðal annars fram að ástæðan sé sú að ekki geti komið til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði samkvæmt ákvæðinu nema greiðslur frá vinnuveitanda, þar með talið vegna veikindaréttar, eða greiðslur Vinnumálastofnunar hafi fallið niður meira en mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag.

Samkvæmt 18. gr. laga nr. 144/2020 er heimilt að lengja fæðingarorlof foreldris sem fætt hefur barn um allt að tvo mánuði vegna alvarlegra veikinda foreldrisins í tengslum við fæðinguna, enda verði veikindin rakin til fæðingarinnar og foreldrið hafi af þeim völdum verið ófært um að annast barn sitt í fæðingarorlofi sínu að mati sérfræðilæknis. Í athugasemdum með ákvæðinu í frumvarpi ti laganna kemur meðal annars fram að miðað sé við að veikindi foreldris sem fætt hafi barn verði rakin til fæðingarinnar og það hafi af þeim völdum verið ófært að annast um barn sitt í fæðingarorlofi sínu að mati sérfræðilæknis. Önnur veikindi foreldris sem fætt hafi barn veiti ekki rétt til lengingar fæðingarorlofs.

Fyrir liggur að kærandi sótti um lengingu fæðingarorlofs á grundvelli 17. gr. laga nr. 144/2020 fyrir tímabilið X til X 2024, eða frá því að hún lagðist inn á sængurkvenna- og meðgöngudeild Landspítalans og fram að fæðingu barns hennar. Áætlaður fæðingardagur barnsins var X 2024. Umsókn kæranda var synjað á þeirri forsendu að kærandi hafi fengið greidd laun frá vinnuveitanda á því tímabili sem sótt hafi verið um greiðslur fyrir, auk þess sem veikindin hafi átt sér stað áður en lengingin hefði getað hafist samkvæmt 1. mgr. 17. gr. laganna.

Samkvæmt upplýsingum frá Fæðingarorlofssjóði fékk kærandi greiðslur frá vinnuveitanda sínum fram að fæðingardegi barns hennar og hefur þeim upplýsingum ekki verið hnekkt af hálfu kæranda. Er því ljóst að kærandi uppfyllti ekki skilyrði fyrir lengingu fæðingarorlofs á grundvelli 17. gr. laga nr. 144/2020, sbr. 3. mgr. þess ákvæðis.

Þá liggur fyrir að kærandi sótti um lengingu fæðingarorlofs á grundvelli 18. gr. laga nr. 144/2020 fyrir tímabilið X til X 2024. Umsókn kæranda var synjað á þeirri forsendu að veikindi mætti ekki rekja til fæðingarinnar sjálfrar.

Með umsókn kæranda fylgdi læknisvottorð D, sérfræðilæknis, dags. 20. mars 2024. Þar kemur eftirfarandi fram:

„Kona sem snemma á meðgöngu, 23v6d, greinist með snemmkomna og svæsna meðgöngueitrun. Leggst inn á sængurkvenna og meðgöngudeild LSH með háan blóðþrýsting og einkenni hjartabilunar. Kemur einnig í ljós vaxtarskerðing hjá barninu. Er inniliggjandi vegna meðgöngu eitrunar sem versnar mikið X 2024 og er þá gerður bráðakeisari vegna þess veik A er í meðgöngueitrun. Eftir keisara áfram mjög veik í meðgöngueitrun með háan blóðþrýsting sem gengur erfiðlega að að lækka og hjartabilunar mynd. Er inniliggjandi á LSH X 2024-X 2024. Eftir útskrift áfram veik, slöpp og með erfiðan háþrýsting. Er lengi að jafna sig á meðgöngueitruninni. Er á tímabilinu X 2024-X 2024 svo veik að hún er óvinnufær og eftir fæðingu barns ófær um að sinna því. Barnið þar að auki mikill fyrirburi sem þarfnast umönnun vökudeild.“

Í fyrirliggjandi umsögn E, sérfræðilæknis, dags. 13. september 2024, segir meðal annars svo:

„Varðandi umsókn um lengingu fæðingarorlofs vegna veikinda eftir fæðingu, tímabilið X – X 24 þá er að mínu mati ljóst að veikindi kæranda, þ.e. svæsin meðgöngueitrun, var framkomin á meðgöngunni eins og fram kemur í vottorði D sérfræðilæknis og héldu þau veikindi áfram eftir fæðingu, en verða ekki rakin til fæðingarinnar sjálfrar. Skv. 18. gr. laga um fæðingarorlof þurfa veikindi að tengjast fæðingunni sjálfri til að skapa rétt til lengingar fæðingarorlofs eftir fæðingu og svo er ekki í þessu tilfelli að mínu mati.“

Í ákvæði 18. gr. laga nr. 144/2020 kemur skýrt fram að til þess að heimilt sé að lengja fæðingarorlof foreldris sem fætt hefur barn verður að vera um að ræða alvarleg veikindi og veikindin verða að vera rakin til fæðingarinnar sjálfrar. Þá er hnykkt á því skilyrði í athugasemdum með ákvæðinu í frumvarpi til laganna og sérstaklega tekið fram að önnur veikindi foreldris sem fætt hefur barn veiti ekki rétt til lengingar fæðingarorlofs. Af fyrirliggjandi læknisvottorðum verður ekki séð að mati nefndarinnar að þau veikindi kæranda sem þar eru tilgreind megi beinlínis rekja til fæðingar barns hennar. Um var að ræða meðgöngutengd veikindi sem héldu áfram eftir fæðingu barnsins. Að því virtu er skilyrði 18. gr. laganna ekki uppfyllt.

Með vísan til framangreinds eru ákvarðanir Fæðingarorlofssjóðs um að synja kæranda um lengingu fæðingarorlofs vegna veikinda því staðfestar.

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvarðanir Fæðingarorlofssjóðs, dags. 27. maí 2024 og 27. júní 2024, um að synja umsókn A, um lengingu fæðingarorlofs vegna veikinda, eru staðfestar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

 

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 

 

                                                                    

                                                                    


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta