Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 533/2021 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 533/2021

Miðvikudaginn 16. mars 2022

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Unnþór Jónsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 4. október 2021, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 10. ágúst 2021 um að lækka greiðslur tekjutryggingar til kæranda.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Með bréfi, dags. 5. júlí 2021, upplýsti kærandi Tryggingastofnun ríkisins um hækkun lífeyrisgreiðslna til hans frá Póllandi. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 10. ágúst 2021, var kæranda tilkynnt um að greiðslur til hans frá stofnuninni hefðu verið endurreiknaðar með hliðsjón af nýjum tekjuupplýsingum frá honum. Samkvæmt bréfinu lækkuðu greiðslur tekjutryggingar til kæranda.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 13. október 2021. Með bréfi, dagsettu sama dag, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 31. október 2021, bárust athugasemdir frá kæranda og voru þær sendar Tryggingastofnun til kynningar með bréfi, dags. 3. nóvember 2021. Með bréfi, dags. 2. nóvember 2021, barst greinargerð frá Tryggingastofnun og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 4. nóvember 2021. Athugasemdir bárust frá kæranda 24. nóvember og 6. desember 2021. Þær voru sendar Tryggingastofnun til kynningar með bréfum, dags. 29. nóvember og 10. desember 2021. Frekari athugasemdir bárust ekki.

 

 

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að kærandi kæri ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 10. ágúst 2021 um að skerða örorkubætur hans. Tryggingastofnun hafi ákveðið að lækka örorkubætur til hans úr 114.623 kr. í 111.778 kr. frá 1. september 2021. Að auki hafi stofnunin rukkað hann um ofgreiðslu að fjárhæð 22.569 kr. og lækkað bæturnar í ágúst 2021 í 92.054 kr.

Ástæða lækkunar á örorkubótum sé líklega fjárhæð bóta sem kærandi fái greiddar frá Póllandi. Tryggingastofnun hafi ekki svaraði beiðni kæranda um upplýsingar.

Í athugasemdum kæranda frá 31. október 2021 kemur fram að kærandi hafi spurt Tryggingastofnun með tölvupósti 21. ágúst 2021 um ástæðu ofgreiðslukröfu og lækkunar örorkubóta, auk þess sem óskað var eftir upplýsingum um þær reglur sem hafi legið til grundvallar þeim útreikningum. Þar sem svar hafi ekki borist frá Tryggingastofnun geti hann ekki rökstutt kæru sína.

Í athugasemdum kæranda frá 6. desember 2021 gagnrýnir hann meðferð Tryggingastofnunar á örorkulífeyrisþegum.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að vísað sé til kæru kæranda, dags. 13. október 2021, til úrskurðarnefndar velferðarmála vegna ákvörðunar Tryggingastofnunar frá 10. ágúst 2021 um endurreikning örorkulífeyris og tengdra greiðslna. Tryggingastofnun fari fram á staðfestingu hinnar kærðu ákvörðunar.

Í 16. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, sé kveðið á um tilhögun útreiknings tekjutengdra bóta. Í 2. mgr. ákvæðisins sé vísað til laga nr. 90/2003 um tekjuskatt varðandi hvað skuli teljast til tekna. Til tekna samkvæmt III. kafla laga um almannatryggingar teljist tekjur samkvæmt II. kafla um tekjuskatt, að teknu tilliti til ákvæða 28. gr. sömu laga um hvað teljist ekki til tekna og frádráttarliða samkvæmt 1., 3., 4. og 5. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. og 31. gr. sömu laga eða undantekninga og takmarkana samkvæmt öðrum sérlögum.

Tryggingastofnun greiði lífeyri á grundvelli áætlunar um tekjur viðkomandi árs, sbr. 5. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar. Bótaþegi beri ábyrgð á því að slík tekjuáætlun endurspegli árstekjur og beri að breyta áætluninni ef svo sé ekki, sbr. 1. mgr. 39. gr. sömu laga og 3. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags. Að sama skapi sé bótaþega skylt að tilkynna Tryggingastofnun um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geti haft áhrif á greiðslur.

Í 7. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar komi fram að þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum, skuli Tryggingastofnun endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna. Einnig sé fjallað um endurreikning í reglugerð nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags. Tryggingastofnun hafi ekki heimild til að líta fram hjá tekjuupplýsingum sem fram komi í skattframtölum.

Komi í ljós við endurreikning bóta að bætur hafi verið ofgreiddar fari um það samkvæmt 55. gr. laganna. Þar komi fram skylda Tryggingastofnunar til að innheimta ofgreiddar bætur. Sú meginregla sé ítrekuð í 9. gr. reglugerðar nr. 598/2009.

Kærandi hafi verið á örorkulífeyri almannatrygginga og tengdum greiðslum frá 1. apríl 2006. Hann sé í dag búsettur í Póllandi og fái örorkulífeyri úr almannatryggingum pólska ríkisins. Þær greiðslur komi til frádráttar þeim örorkulífeyrisgreiðslum sem kærandi fái hér á landi eftir því sem nánar sé kveðið á um í 16. gr. laga um almannatryggingar.

Með bréfi, dags. 15. apríl 2021, hafi Tryggingastofnun óskað eftir upplýsingum um erlendar tekjur kæranda. Óskað hafi verið eftir afriti af skattframtali hans fyrir árið 2020 frá búsetulandi. Umbeðnar upplýsingar hafi borist þann 15. maí 2021.

Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 10. ágúst 2021, hafi kæranda verið tilkynnt um endurskoðun á upphæð lífeyris og tengdra greiðslna á grundvelli nýrrar tekjuáætlunar.

Samkvæmt upphaflegri tekjuáætlun kæranda hafi verið reiknað með að lífeyristekjur hans í Póllandi yrðu 14.736 PLN. Á grundvelli nýrra upplýsinga úr skattframtali kæranda vegna ársins 2020 hafi tekjuáætlunin hins vegar verið leiðrétt og hækkuð í 18.948 PLN.

Í áðurnefndu bréfi Tryggingastofnunar, dags. 10. ágúst 2021, hafi kæranda verið tilkynnt að þar sem tekjur hans hafi reynst hærri en tekjuáætlun hafi gert ráð fyrir hafi myndast endurkrafa innan ársins að upphæð 22.569 kr. Tekið hafi verið fram að innheimta ofgreiddra bóta færi hins vegar ekki fram fyrr en eftir að endanlegt uppgjör greiðslna vegna ársins 2021 lægi fyrir haustið 2022.

Á grundvelli breyttrar tekjuáætlunar hafi mánaðarleg greiðsla örorkulífeyris og tengdra greiðslna verið lækkuð úr 114.623 kr. í 111.778 kr. frá og með 1. september 2021.

Tryggingastofnun vísi að öðru leyti til 5. gr. reglugerðar nr. 598/2009. Þar segi að komi fram upplýsingar frá bótaþega sem leiði til breytinga á tekjuáætlun innan ársins skuli stofnunin breyta útreikningi bóta frá og með næsta mánuði á eftir til samræmis við upplýsingar frá bótaþega. Ef í ljós komi að bætur hafi verið ofgreiddar komi ofgreiðslan til innheimtu við næsta árlegt uppgjör, nema bótaþegi semji um annað.

Með vísan til framanritaðs sé það niðurstaða Tryggingastofnunar að ákvörðun um endurreikning lífeyris á grundvelli nýrrar tekjuáætlunar vegna tekna ársins 2020 hafi verið rétt miðað við fyrirliggjandi gögn og gildandi reglur.

IV.  Niðurstaða

Ágreiningur máls þessa lýtur að ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 10. ágúst 2021 um að lækka greiðslur tekjutryggingar til kæranda.

Í 16. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar er kveðið á um tekjutengingu lífeyristrygginga og hvernig Tryggingastofnun ríkisins skuli standa að útreikningi bóta. Í 2. mgr. 16. gr. sömu laga segir að til tekna samkvæmt III. kafla laganna skuli telja tekjur samkvæmt II. kafla laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, með undantekningum. Í 5. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar segir að til grundvallar bótaútreikningi hvers mánaðar skuli leggja 1/12 af áætluðum tekjum bótagreiðsluársins og að bótagreiðsluár sé almanaksár. Samkvæmt 39. gr. laga um almannatryggingar er umsækjanda eða greiðsluþega skylt að veita stofnuninni allar nauðsynlegar upplýsingar til að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og annarra greiðslna samkvæmt lögunum og endurskoðun þeirra. Enn fremur er skylt að tilkynna stofnuninni um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geta haft áhrif á bætur eða greiðslur.

Um breytingar innan bótagreiðsluársins er fjallað í 5. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags. Ákvæðið hljóðar svo:

„Komi fram upplýsingar frá þeim aðilum sem getið er um í 1. mgr. 3. gr. eða við eftirlit Tryggingastofnunar sem leiða til breytinga á tekjuáætlun innan ársins og breytingin hefur áhrif á rétt til bóta eða fjárhæð greiðslna skal stofnunin breyta útreikningi bóta frá og með næsta mánuði á eftir til samræmis við þær upplýsingar og upplýsa bótaþega samstundis um breytinguna. Telji bótaþegi upplýsingarnar ekki réttar skal hann leggja fram gögn því til staðfestingar.

Þegar nýr útreikningur bóta, sbr. 1. mgr., liggur fyrir skal jafna áætluðum heildargreiðslum ársins á alla mánuði bótagreiðsluársins og greiða bætur samkvæmt því þá mánuði sem eftir eru af árinu. Ef í ljós kemur að bætur hafi verið ofgreiddar kemur ofgreiðslan til innheimtu við næsta árlegt uppgjör, nema bótaþegi semji um annað. Hafi bætur verið vangreiddar skal bótaþega greitt það sem upp á vantar.“

Á grundvelli 7. mgr. 16. gr. þeirra laga ber Tryggingastofnun ríkisins að endurreikna bótafjárhæðir eftir að endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluárs liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum. Leiði endurreikningur í ljós að bætur hafi verið ofgreiddar ber Tryggingastofnun að innheimta þær samkvæmt 55. gr. laga um almannatryggingar. Ákvæði 2. mgr. 55. gr. laga um almannatryggingar hljóðar svo:

„Ef tekjutengdar bætur samkvæmt lögum þessum eru ofgreiddar af Tryggingastofnun eða umboðum hennar skal það sem er ofgreitt dregið frá öðrum tekjutengdum bótum sem bótaþegi síðar öðlast rétt til. Þetta á eingöngu við ef tekjur á ársgrundvelli eru hærri en lagt var til grundvallar við útreikning bóta og ofgreiðsla stafar af því að bótaþegi hefur ekki tilkynnt Tryggingastofnun um tekjuaukninguna eða aðrar breyttar aðstæður, sbr. 39. gr.“

Í tekjuáætlun ársins 2021 var gert ráð fyrir að kærandi hefði 14.736 PLN í lífeyristekjur á árinu frá Póllandi, eða 1.228 PLN á mánuði. Með bréfi, dags. 5. júlí 2021, upplýsti kærandi Tryggingastofnun um að frá 1. júlí 2021 myndu lífeyrisgreiðslur hans frá Póllandi vera 1.927 PLN á mánuði. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 10. ágúst 2021, var kæranda tilkynnt um að greiðslur til hans frá stofnuninni hefðu verið endurreiknaðar með hliðsjón af nýjum tekjuupplýsingum frá honum. Í tekjuáætluninni sem fylgdi bréfinu var gert ráð fyrir að kærandi væri með 18.948 PLN í árstekjur. Samkvæmt upplýsingum frá Tryggingastofnun miðast sú tala við 1.228 PLN á mánuði fyrir fyrstu sex mánuði ársins og 1.930 PLN á mánuði fyrir síðustu sex mánuði ársins. Samkvæmt hinni kærðu ákvörðun lækkuðu greiðslur tekjutryggingar til kæranda í kjölfarið.

Af kæru verður ráðið að kærandi sé ósáttur við tvennt, þ.e. annars vegar mánaðarlega lækkun greiðslna tekjutryggingar til hans og hins vegar lækkun greiðslna tekjutryggingar í ágúst 2021.

Eins og áður hefur komið fram greiðir Tryggingastofnun lífeyri á grundvelli áætlunar um tekjur viðkomandi árs, sbr. 5. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar. Ef bótaþegar tilkynna um breytingu á tekjum sem hafa áhrif á rétt til bóta skal stofnunin breyta útreikningi bóta frá og með næsta mánuði á eftir til samræmis við þær upplýsingar, sbr. 5. gr. reglugerðar nr. 598/2009. Fyrir liggur að kærandi tilkynnti Tryggingastofnun um hækkun á lífeyrisgreiðslum frá Póllandi og af gögnum málsins verður ráðið að stofnunin breytti útreikningi bóta í samræmi við þær upplýsingar. Með hliðsjón af framangreindu og niðurstöðu úrskurðarnefndar velferðarmála í kærumáli nr. 251/2018 er ekki gerð athugasemd við að Tryggingastofnun hafi lækkað mánaðarlegar greiðslur tekjutryggingar til kæranda.

Af greiðsluáætlun kæranda vegna ársins 2021 verður ráðið að kærandi fékk mun lægri greiðslu í tekjutryggingu í ágúst 2021 en þá mánuði sem á eftir komu. Samkvæmt upplýsingum frá Tryggingastofnun virðist ástæðan vera sú að væntanleg ofgreiðslukrafa fyrir mánuðina janúar til júlí hafi verið dregin frá greiðslu ágústmánaðar. Stofnunin bendir á að þetta fari inn í útreikninga í uppgjöri vegna ársins 2021 og ef seinni tekjuáætlunin reynist rétt komi þetta í veg fyrir að kærandi fái ofgreiðslukröfu þá.

Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að ráðið verði af 2. mgr. 55. gr. laga um almannatryggingar og 5. gr. reglugerðar nr. 598/2009 að óheimilt sé að draga væntanlega ofgreiðslukröfu vegna breytinga á tekjum ársins 2021 frá öðrum tekjutengdum bótum fyrr en uppgjör samkvæmt 7. mgr. 16. gr. laganna hefur farið fram, nema bótaþegi semji um annað. Úrskurðarnefndin telur því að Tryggingastofnun hafi verið óheimilt að draga væntanlega ofgreiðslukröfu vegna ársins 2021 frá greiðslu ágústmánaðar 2021 í tilviki kæranda, enda verður ekki ráðið af gögnum málsins að hann hafi veitt heimild fyrir slíku.

Með hliðsjón af framangreindu er ákvörðun Tryggingastofnunar frá 10. ágúst 2021 um að lækka mánaðarlegar greiðslur tekjutryggingar til kæranda staðfest. Ákvörðun Tryggingastofnunar um að draga væntanlega ofgreiðslukröfu vegna ársins 2021 frá greiðslu ágústmánaðar 2021 er felld úr gildi.

 

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar frá 10. ágúst 2021 um að lækka mánaðarlegar greiðslur tekjutryggingar til A, er staðfest. Ákvörðun Tryggingastofnunar um að draga væntanlega ofgreiðslukröfu vegna ársins 2021 frá greiðslu ágústmánaðar 2021 er felld úr gildi.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira