Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 36/2017

ÁLIT

KÆRUNEFNDAR HÚSAMÁLA

í máli nr. 36/2017

Leigugreiðslu- og viðskilnaðartrygging.

I. Málsmeðferð kærunefndar

Með bréfi, dags. 31. mars 2017, beindi A, hér eftir nefndur álitsbeiðandi, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við B, hér eftir nefnt gagnaðili.

Gagnaðila var gefinn kostur á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum í samræmi við ákvæði 3. mgr. 85. gr. húsaleigulaga, nr. 36/1994.

Auk álitsbeiðni var greinargerð gagnaðila, dags. 10. maí 2017, lögð fyrir nefndina. Málið var tekið til úrlausnar á fundi nefndarinnar 18. júlí 2017.

II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni

Álitsbeiðandi leigði nafngreindum aðila eign sína til eins árs frá 1. október 2015. Sem tryggingu fyrir réttum efndum samningsins keypti leigjandinn leigugreiðslu- og viðskilnaðartryggingu hjá gagnaðila. Telur álitsbeiðandi að gagnaðili geti ekki borið því fyrir sig að bótakrafa hans vegna tjóns á hinu leigða húsnæði hafi komið of seint fram.

Krafa álitsbeiðanda er:

Að viðurkennt verði að hann hafi ekki glatað rétti til að gera kröfu í leigugreiðslu- og viðskilnaðartryggingu leigjanda hjá gagnaðila þótt hann hafi ekki lýst henni innan tveggja mánaða.

Í álitsbeiðni kemur fram að í lok leigutíma hafi starfsmaður gagnaðila tekið hina leigðu eign út og tilgreint á skýrslu nokkra galla sem álitsbeiðandi hafi gert kröfu um að yrðu bættir. Hafi hann átt í munnlegum samskiptum við starfsfólk gagnaðila vegna þessa. Að endingu hafi gagnaðili neitað honum um greiðslu bóta á þeirri forsendu að hann hefði ekki lýst bótakröfu sinni skriflega innan fjögurra vikna frá leigulokum skv. 64. gr. húsaleigulaga, nr. 36/1994, en honum hafi ekki verið sú regla kunn auk þess sem hann taldi að skýrsla gagnaðila og munnleg samskipti hlytu að koma í sama stað. Þá telur hann gagnaðila ekki hafa sinnt upplýsingaskyldu gagnvart sér.

Í greinargerð gagnaðila er vísað til 1. gr. reglugerðar nr. 878/2001, um kærunefnd húsamála, því til stuðnings að gagnaðili geti ekki verið aðili að máli hjá nefndinni. Þá komi greiðslukrafa álitsbeiðanda fyrst fram rúmu ári eftir að leigusambandi lauk og sé því fyrnd. Ekki sé nægilegt í því sambandi að kvarta yfir ákveðnum göllum heldur þurfi að leggja fram fjárkröfu.

III. Forsendur

Aðilar deila um hvort álitsbeiðandi hafi uppfyllt skilyrði 64. gr. húsaleigulaga, nr. 36/1994, um að lýsa bótakröfu sinni skriflega, eða hafa uppi áskilnað þar að lútandi, innan tveggja mánaða frá leigulokum með því að óska eftir úttekt frá gagnaðila á meintum göllum húsnæðisins 1. mars 2016. Aðilar leigusamnings hafi verið viðstaddir skoðunina og álitsbeiðandi verið í samskiptum við starfsmenn gagnaðila um uppgjör á bótakröfunni símleiðis.

Ákvæði 1. mgr. 85. gr. húsaleigulaga kveður á um að aðilar leigusamnings geti óskað eftir álitsgerð kærunefndar húsamála greini þá á um gerð og/eða framkvæmd leigusamnings. Þar sem gagnaðili er ekki aðili að húsaleigusamningi þeim er um ræðir ber að vísa málinu frá.

IV. Niðurstaða

Málinu er vísað frá kærunefnd húsamála.

Reykjavík, 18. júlí 2017

Auður Björg Jónsdóttir

Valtýr Sigurðsson

Eyþór Rafn Þórhallsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum