Mál nr. 14/2024. Úrskurður kærunefndar útboðsmála.
Úrskurður kærunefndar útboðsmála 31. október 2024
í máli nr. 14/2024:
Hópbílar ehf.
gegn
Hafnarfjarðarbæ og
Teiti Jónassyni ehf.
Lykilorð
Útboðsgögn. Hæfi.
Útdráttur
HFJ bauð út sérhæfða akstursþjónustu í sveitarfélaginu fyrir árin 2024-2028 og bárust tvö tilboð. HFJ valdi tilboð TJ og kærði HB þá ákvörðun til kærunefndar útboðsmála. HB byggði á því að tilboð TJ hefði ekki uppfyllt kröfur útboðslýsingar um virk gæðastjórnunarkerfi, umhverfisstjórnunarkerfi og öryggisstjórnunarkerfi. Í niðurstöðu kærunefndarinnar kom fram að í útboðslýsingu hefði ekki verið gerð krafa um umrædd gæðakerfi væru vottuð samkvæmt viðeigandi ISO staðli heldur aðeins að þau teldust virk.. Í útboðslýsingu hefði komið fram að mat á virkni kerfanna yrði byggt á skriflegum gögnum frá bjóðendum. Með tilboði TJ hefðu fylgt upplýsingar um umrædd kerfi en HFJ hefði jafnframt leitað til verkfræðistofu sem hefði lagt mat á virkni gæðakerfa TJ. Með vísan til þess og annars sem rakið var í úrskurði nefndarinnar var kröfum HB í málinu hafnað.
Með kæru móttekinni hjá kærunefnd útboðsmála 30. apríl 2024 kærðu Hópbílar ehf. (hér eftir „kærandi“) þá ákvörðun Hafnarfjarðarbæjar (hér eftir „varnaraðili“) að velja tilboð Teits Jónassonar ehf. í útboði nr. U241801 auðkennt „Útboð á akstri. Sérhæfð akstursþjónusta í Hafnarfirði 2024-2028“.
Kröfugerð kæranda er svohljóðandi: „Kært er útboð nr. U241801 „Sérhæfð akstursþjónusta í Hafnarfirði 2024-2028“ varðandi þær ákvarðanir Bæjarsjóðs Hafnarfjarðar að meta tilboð Teits Jónassonar ehf. gilt og taka tilboði þess félags. Einnig er þess krafist að kærunefnd úrskurði að varnaraðila verði gert að greiða málskostnað.“
Varnaraðila og Teiti Jónassyni ehf. (hér eftir „hagsmunaaðili“) var kynnt kæran og gefinn kostur á að gera athugasemdir. Varnaraðili krefst þess í greinargerð sinni 14. maí 2024 aðallega að kærunni verði vísað frá kærunefnd útboðsmála en til vara að kærunefnd hafni öllum kröfum kæranda. Loks krefst varnaraðili þess að kæranda verði gert að greiða málskostnað sem renni í ríkissjóð, sbr. 3. mgr. 111. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup.
Hagsmunaaðili krefst þess í greinargerð sinni 13. maí 2024 að kröfu kæranda verði hafnað og að stöðvun samningsgerðar verði aflétt.
Kærunefnd útboðsmála óskaði eftir því við varnaraðila að hann legði fram tilboð kæranda og hagsmunaaðila í málinu, sem var og gert 16. maí 2024. Þá óskaði kærunefndin eftir afriti af rökstuðningi fyrir vali tilboðs, sem kærandi hafði óskað eftir, og var það skjal sent kærunefndinni 23. maí 2024.
Með ákvörðun kærunefndar útboðsmála 12. júní 2024 var fallist á kröfu varnaraðila um að sjálfkrafa stöðvun samningsgerðar yrði aflétt.
Varnaraðili lagði ekki fram frekari athugasemdir í málinu. Hagsmunaaðili tilkynnti kærunefnd útboðsmála 27. júní 2024 að hann hygðist ekki leggja fram frekari athugasemdir í málinu.
Kærandi lagði fram lokaathugasemdir sínar 12. júlí 2024 og krafðist m.a. annars aðgangs að tilteknum skjölum sem fylgdu tilboði hagsmunaaðila, sem merkt höfðu verið trúnaðarmál til kærunefndarinnar.
Kærunefnd útboðsmála veitti varnaraðila og hagsmunaaðila færi á að koma á framfæri athugasemdum vegna kröfu kæranda um aðgang að fyrrnefndum gögnum. Athugasemdir þeirra bárust báðar 27. ágúst 2024, sem lögðust báðir gegn því að kæranda yrði veittur aðgangur að þeim gögnum.
Með ákvörðun 24. september 2024 féllst kærunefnd útboðsmála á að veita kæranda aðgang að umræddum gögnum.
Hvorki varnaraðili né hagsmunaaðili lögðu fram frekari athugasemdir í málinu.
Kærandi lagði fram sínar lokaathugasemdir 3. október 2024.
I
Málavextir eru þeir að í febrúar 2024 auglýsti varnaraðili hið kærða útboð innanlands og á Evrópska efnahagssvæðinu. Í grein 0.1 í útboðslýsingu kom fram að sérhæfð akstursþjónusta í bænum væri í stöðugri endurskoðun með það að leiðarljósi að bæta þjónustuna fyrir notendur með sem hagkvæmustum hætti. Samkvæmt grein 0.2 miðast samningstíminn við 1. júlí 2024 og gilti í fjögur ár, með ákvæðum um að heimilt væri að framlengja hann tvisvar sinnum um tvö ár ef báðir aðilar óski þess. Geti þannig hámarkssamningstími orðið alls átta ár.
Í grein 0.7 í útboðslýsingu koma fram kröfur til hæfis og getu bjóðenda, en í grein 0.7.1 er tekið fram að hæfi bjóðenda verði metið á grundvelli þeirra upplýsinga sem þeir senda inn með tilboði sínu, eigin yfirlýsingar svo og annarra upplýsinga sem kaupandi kynni að óska eftir. Í grein 0.7.5 koma fram kröfur til tæknilegrar og faglegrar getu bjóðenda. Með tilboðsgögnum bjóðenda skyldu í fyrsta lagi fylgja upplýsingar um þjónustustjóra og lykilstarfsmenn, en gerðar eru tilteknar kröfur til starfsreynslu þeirra af sambærilegum verkum, og skyldi ferilskrá allra helstu lykilstarfsmanna fylgja með tilboðinu. Í öðru lagi þurfi að fylgja skipurit bjóðanda ásamt tilteknum upplýsingum og í þriðja lagi upplýsingar um bifreiðar og tækjabúnað bjóðanda. Í fjórða lagi eru gerðar kröfur til gæða-, umhverfis- og öryggisstaðla. Bjóðandi skyldi í þeim efnum hafa virkt gæðastjórnunarkerfi byggt á ISO 9001 eða sambærilegt og vinna samkvæmt því. Ekki væri gerð krafa um vottað gæðastjórnunarkerfi. Bjóðandi skyldi skila inn með tilboði sínu greinargóðum upplýsingum um það gæðastjórnunarkerfi sem hann ynni samkvæmt þar sem skýr lýsing komi fram hvernig það virkar til að tryggja gæði rekstursins. Þá skyldi bjóðandi skila inn með tilboði sínu greinargóðum upplýsingum um það umhverfisstjórnunarkerfi sem hann ynni samkvæmt. Bjóðandi skyldi hafa virkt umhverfisstjórnunarkerfi byggt á ISO14001 eða sambærilegt kerfi og vinna samkvæmt því. Loks skyldi bjóðandi skila inn með tilboði sínu greinargóðum upplýsingum um það öryggisstjórnunarkerfi sem hann ynni samkvæmt. Bjóðandi skyldi hafa virkt öryggisstjórnunarkerfi byggt á ISO 45001 eða sambærilegt kerfi.
Í grein 0.9.10 koma fram valforsendur hins kærða útboðs. Þar segir að til mats komi þau tilboð sem uppfylli allar SKAL kröfur og hæfiskröfur útboðsins. Mælikvarði verði lagður til grundvallar við vali á samningsaðila. Verð myndi gilda 70 stig eftir þeirri formúlu sem lýst er í sömu grein, og gæðaþættir 30 stig. Í gæðaþáttunum myndi bifreiðafloti vega 12 stig, notendaviðmót vefsíðu/app 6 stig, þjónustuver 6 stig, gæðastjórnunarkerfi með gilda vottun 4 eða 1 stig, umhverfisstjórnunarkerfi með gilda vottun 4 eða 1 stig og öryggisstjórnunarkerfi með gilda vottun 4 eða 1 stig. Að því er varðar gilda vottun vegna þessara atriða þá er tekið fram í sömu grein útboðslýsingar að væri bjóðandi með eina gilda ISO vottun áður en tilboðsfrestur líði, hljóti hann 4 stig. Fyrir hverja eina viðbótar ISO vottun hljóti hann 1 stig í viðbót, þannig að mögulegt sé að fá alls 6 stig í heildina fyrir vottanir.
Tvö tilboð bárust í hinu kærða útboði, annars vegar frá kæranda og hins vegar frá hagsmunaaðila. Tilboð kæranda fékk alls 62,7 stig, sem skiptust þannig að fyrir verð fékk tilboð hans 49,7 stig og fyrir gæðaþætti 13 stig, þ. á m. 5 stig fyrir ISO vottaða staðla. Tilboðsverð kæranda nam 1.885.192.000 krónum fyrir fjögurra ára samningstíma. Tilboð hagsmunaaðila fékk alls 82 stig, þar af 70 stig fyrir verð og 12 stig fyrir gæðaþætti, en fyrir ISO vottaða staðla fékk hagsmunaaðili 0 stig. Tilboð hagsmunaaðila nam alls 1.438.800.000 krónum fyrir fjögurra ára samningstíma.
Varnaraðili tilkynnti með bréfi 18. apríl 2024 um að tilboð hagsmunaaðila hafi verið valið, enda metið hagstæðast fyrir kaupanda samkvæmt valforsendum útboðslýsingar. Var öðrum bjóðendum leiðbeint um að biðtími samningsgerðar samkvæmt 1. mgr. 86. gr. laga nr. 120/2016 hæfist degi síðar og myndi ljúka 30. apríl 2024, og heimilt væri að ganga til samninga frá og með 1. maí 2024.
II
Kærandi telur að tilboð hagsmunaaðila hafi átt að teljast ógilt og semja hafi átt við kæranda sem þann eina aðila sem hafi verið með gilt tilboð. Kærandi hafi óskað eftir nánari rökstuðningi fyrir ákvörðun um val tilboðs með tölvupósti til varnaraðila 26. apríl 2024, ásamt öllum tilboðsgögnum hagsmunaaðila, upplýsingum um matsnefnd varnaraðila og þeim gögnum sem hún hafi skilað af sér í tengslum við val á tilboði. Svar við þeirri fyrirspurn hafi ekki borist áður en kæra hafi verið lögð fram í máli þessu. Miðað við þær upplýsingar sem kærandi hafi, telji hann að hagsmunaaðili hafi ekki uppfyllt tilteknar skal-kröfur varðandi virk gæðakerfi til að tilboð hans teljist gilt. Um þau hafi verið fjallað undir grein 0.7.5 í útboðslýsingu. Þar hafi verið kveðið á um að með tilboðsgögnum skyldu fylgja greinargerðir sem innihéldu lýsingu á gæðastjórnunarkerfi, umhverfisstjórnunarkerfi og öryggisstjórnunarkerfi sem bjóðandi ynni samkvæmt. Kærandi telji að tilboð hagsmunaaðila hafi ekki uppfyllt þær kröfur og því hafi tilboð þess verið ógilt. Þar með hafi átt að vísa því frá, en skýrt hafi komið fram í útboðslýsingu að tilboð bjóðanda sem ekki uppfyllti þessi skilyrði yrði vísað frá. Þá bendi kærandi á að þessi atriði varði umhverfis- og öryggisstjórnunarkerfi sem kærandi hafi lagt mikinn tíma og fjármuni í að innleiða á undanförnum árum og viðhaldið með árlegum úttektum sérstaks vottunaraðila.
Í athugasemdum sínum 12. júlí 2024 kveður kærandi að það veki furðu að bæði varnaraðili og hagsmunaaðili hafi óskað eftir því að trúnaður skyldi ríkja yfir þeim gögnum sem varða gæðastjórnun, umhverfismál og Öryggishandbók félagsins, enda verði ekki séð að þau gögn, ásamt minnisblaði Strendings verkfræðistofu ehf., geti farið í sér viðkvæm viðskipta- og trúnaðargögn um rekstur félagsins. Málið varði hvort hagsmunaaðili hafi uppfyllt skilyrði hins kærða útboðs um gæða-, umhverfis- og öryggisstaðla. Telji kærandi að til þess að eftirlitskerfi geti talist virk í skilningi útboðsgagna verði þau að vera tekin út reglulega af óháðum aðila, m.a. til að tryggja að unnið sé eftir þeim. Með öðrum hætti verði virkni kerfanna og það að unnið sé samkvæmt þeim ekki staðfest. Slíkar úttektir séu krafa þegar kerfi séu ISO vottuð.
Í athugasemdum kæranda 3. október 2024, sem lagðar voru fram eftir að kærandi fékk aðgang að umþrættum gögnum, er tekið fram að gögnin sýni með skýrum hætti að ekki hafi verið staðfest af hálfu varnaraðila að hagsmunaaðili hafi uppfyllt skilyrði hins kærða útboðs. Gerð hafi verið krafa um að gæða-, umhverfis- og -öryggisstjórnunarkerfi væru virk og unnið væri samkvæmt þeim. Af minnisblaði Strendings verkfræðistofu ehf. verði ráðið að aðeins hafi farið fram athugun á framlögðum gögnum en ekki hafi komið til skoðunar hvort kerfin væru virk eða unnið væri samkvæmt þeim. Þá sé ljóst að lýsing á kerfum hagsmunaaðila sé takmörkuð og ekki nálægt þeim kröfum sem gerðar séu til þeirra kerfa. Ekkert liggi fyrir um að eftirlitskerfi hagsmunaaðila séu reglulega tekin út af óháðum aðila, hvorki í almennum rekstri eða í tengslum við útboðið, þannig að þau teljist virk. Að því er varðar gæðastjórnunarkerfi hagsmunaaðila sé lagt fram bréf frá framkvæmdarstjóra þar sem vísað sé til gæðastefnu, án þess að sú stefna sé lögð fram. Þá hafi verið vísað til gæðahandbókar félagsins, en hún hafi ekki heldur verið lögð fram. Að því er varðar umhverfisstjórnunarkerfi félagsins sé einungis um almennar lýsingar á stefnu þess að ræða og einnig tekið fram að stefnt sé að umhverfisvottun samkvæmt ISO 14001 staðli á árinu 2024. Það sé ekki í samræmi við upplýsingar um umhverfismálastefnu hagsmunaaðila á vefsvæði félagsins. Þá verði að gera athugasemdir við að framlögð öryggishandbók og öryggismappa verkstæðis Teits Jónassonar ehf. verði talin sýna fram á að félagið hafi yfir að ráða fullnægjandi öryggisstjórnunarkerfi og starfi samkvæmt því.
III
Varnaraðili bendir á að þegar kærunefnd útboðsmála hafi tilkynnt um kæru málsins hafi verið tiltekið að um væri að ræða kröfu um stöðvun innkaupaferlis. Það sé rangt, enda hafi það verið leiðrétt í samskiptum lögmanns varnaraðila og kærunefndarinnar, þar sem upplýst hafi verið um að kærunefndin hafi tekið kærunni sem svo að um sjálfkrafa stöðvun samningsgerðar sé að ræða. Því sé ljóst að ekki sé um neina kröfu um stöðvun samningsgerðar í málinu að ræða.
Varnaraðili bendir þá á að kæran hafi verið móttekin utan lögbundin biðtíma samkvæmt 1. mgr. 86. gr. laga nr. 120/2016 og því sé ekki fyrir hendi nein sjálfkrafa stöðvun samningsgerðar. Fyrir liggi að varnaraðili hafi tilkynnt um ákvörðun um val tilboðs 18. apríl 2024 og af því leiði að biðtími hafi hafist degi síðar. Honum hafi lokið 29. apríl s.á., sem hafi ekki verið almennur frídagur. Kæra í málinu hafi borist kærunefnd útboðsmála 30. apríl 2024 og þar með utan biðtíma samningsgerðar. Lögmaður varnaraðila hafi komið þessum sjónarmiðum áleiðis til kærunefndar útboðsmála, en nefndin hafi tilkynnt lögmanninum um að málið færi í þann farveg eins og gögn málsins bæru með sér og tæki nefndin enga efnislega afstöðu til þess atriðis né annars fyrr en varnar- og hagsmunaaðili hafi tjáð sig um kæruna. Varnaraðili bendir í þessu sambandi á að biðtími samningsgerðar sé lögbundinn samkvæmt 1. mgr. 86. gr. laga nr. 120/2016. Um leið sé einnig lögbundið að kæra leiði einungis til sjálfkrafa stöðvunar ef hún berist innan lögbundins biðtíma, sbr. 1. málsl. 1. mgr. 107. gr. sömu laga. Að mati varnaraðila hafi nefndinni verið rétt og skylt að taka afstöðu til þess við upphaf málsins hvort kæra hafi borist innan þessara fresta og þá hvaða áhrif kæra hafi á málsmeðferðina. Varnaraðili telji enn fremur að það hafi enga þýðingu þótt biðtími hafi verið ranglega tilgreindur í tilkynningu um val tilboðs, enda geti slíkt ekki framlengt lögbundinn biðtíma. Í þessu sambandi hafi jafnframt þýðingu að kærandi hafi haft lögmann sér til aðstoðar sem hafi getað leiðbeint honum um hinn rétta biðtíma. Óski varnaraðili eftir því að kærunefndin taki afstöðu til þessa við fyrsta tækifæri.
Verði það áfram afstaða kærunefndarinnar að sjálfkrafa stöðvun innkaupaferlisins sé fyrir hendi, krefjist varnaraðili þess að henni verið aflétt þegar í stað, sbr. 2. mgr. 107. gr. laga nr. 120/2016. Telji varnaraðili að málatilbúnaður kæranda sé haldlaus enda hafi hagsmunaaðili fullnægt öllum skilyrðum útboðsins. Fjarri fari að verulegar líkur hafi verið leiddar að broti gegn lögum nr. 120/2016 eða reglum settum samkvæmt þeim. Varnaraðili telji það einnig hafa ríka þýðingu við úrlausn kröfu um að aflétta sjálfkrafa stöðvun samningsgerðar að horfa til eðlis þeirrar þjónustu sem um ræði. Sú þjónusta sem útboðið hafi tekið til varði akstursþjónustu fyrir aldraða og fatlað fólk í Hafnarfirði. Um sé að ræða afar viðkvæman hóp notenda og mjög mikilvægt að afstýra því að hnökrar verði við veitingu þjónustu til þessa hóps. Tilboð í hinu kærða útboði séu gild til 14. júní nk. Verði ekki búið að aflétta stöðvun samningsgerðar fyrir þann tíma, eða efnismeðferð málsins lokið, sé ljóst að tilboð hagsmunaaðila renni út með tilheyrandi óvissu og tjóni fyrir bæði varnaraðila sem og þá sem eigi lögbundinn rétt til þeirrar þjónustu sem útboðið hafi lotið að. Þá þurfi hagsmunaaðili tíma til að undirbúa þá þjónustu sem þeim sé ætlað að veita frá 1. júlí nk.
Efnislega krefst varnaraðili þess að kærunni verði vísað frá kærunefnd útboðsmála og bendir á að í kærunni sé ekki sett nein kröfugerð eða krafa gerð um að kærunefndin taki einhverja tiltekna ákvörðun í málinu. Ekki sé gerð krafa um ógildingu ákvarðana varnaraðila. Ekki sé hægt að taka kröfugerð kæranda til greina enda óljóst til hvers kærandi ætlist af nefndinni. Þá byggir varnaraðili einnig á því í þessu sambandi að kæra málsins sé vanreifuð. Raunverulegar málsástæður kæranda og það sem kæran byggi á sé að finna í næst síðustu málsgrein kærunnar, alls sjö línur. Það sé svo byggt á getgátum kæranda um gagnaðila sinn í útboðinu.
Varnaraðili andmælir þeim röksemdum kæranda að hagsmunaaðili hafi ekki uppfyllt kröfur útboðsgagna um gæða-, umhverfis- og öryggisstaðla, sbr. grein 0.7.5 í útboðslýsingu. Hagsmunaaðili hafi í fyrsta lagi lagt fram skjal undir heitinu Gæðastjórnun Teits Jónassonar ehf., dags. 26. september 2023. Augljóst sé að það fullnægi áskilnaði þeim sem hafi komið fram í fyrrnefndri grein útboðslýsingar. Varnaraðili hafi jafnframt aflað sér minnisblaðs frá verkfræðiþjónustunni Strendingi ehf., dags. 17. apríl 2024, vegna yfirferðar og mats á umræddum kröfum útboðslýsingar og framlögðum gögnum hagsmunaaðila, sem hafi staðfest að þessari kröfu hafi verið fullnægt. Í öðru lagi hafi hagsmunaaðili lagt fram skjal undir heitinu Umhverfismál Teits Jónassonar ehf., dags. 26. september 2023, en af því verði ráðið að áskilnaði um umhverfisvottun í grein 0.7.5 hafi verið fullnægt. Verkfræðiþjónustan Strendingur ehf. hafi einnig staðfest það, dags. 17. apríl 2024. Í þriðja lagi hafi hagsmunaaðili lagt fram Öryggishandbók Teits Jónassonar ehf., sem varnaraðili telji að fullnægi framangreindum áskilnaði í útboðslýsingu. Þá hafi verkfræðiþjónustan Strendingur ehf. staðfest það, dags. 17. apríl 2024.
Framangreindu til viðbótar bendir varnaraðili á að tilboð kæranda hafi verið um 33% yfir kostnaðaráætlun varnaraðila og augljóst að það hafi verið óaðgengilegt fyrir varnaraðila í skilningi 2. mgr. 82. gr. laga nr. 120/2016. Varnaraðili hefði því ekki getað tekið tilboði kæranda og þá séu ekki heldur skilyrði til þess að kveða á um skaðabótaskyldu í málinu. Þá krefst varnaraðili þess að kæranda verði gert að greiða málskostnað sem renni í ríkissjóð, sbr. 3. mgr. 111. gr. laga nr. 120/2016. Kæran sé bersýnilega tilefnislaus samkvæmt öllu framangreindu en jafnframt sé kæran höfð uppi í þeim tilgangi að tefja fyrir framgangi opinberra innkaupa. Hún sé ekki byggð á röksemdum eða gögnum heldur á getgátum kæranda sjálfs.
Hagsmunaaðili bendir á í greinargerð sinni 13. maí 2024 að það sé rangt hjá kæranda að tilboð félagsins hafi ekki uppfyllt skilyrði útboðslýsingar um gæða-, umhverfis- og öryggisstaðla. Kæran hafi aðeins varðað þessa hluta útboðslýsingar og telji hagsmunaaðili því óumdeilt að tilboð hans uppfyllir önnur skilyrði útboðslýsingar.
Hagsmunaaðili leggur áherslu á að ekki hafi verið gerð ófrávíkjanleg krafa í útboðsskilmálum um að bjóðendur séu með vottað gæðastjórnunarkerfi ISO 9001, vottað öryggisstjórnunarkerfi ISO 45001 og vottað umhverfisstjórnunarkerfi ISO 14001. Skilyrðin hafi aðeins verið að bjóðendur hafi virk gæðastjórnunar-, öryggisstjórnunar- og umhverfisstjórnunarkerfi í rekstri sínum er byggi á fyrrgreindum kerfum eða sambærilegum. Þá hafi verið sérstaklega mælt fyrir um tiltekin stig til bjóðenda sem skili inn gildum vottunum af ISO 9001, ISO 45001 og ISO 14001. Hagsmunaaðili sé ekki með þessar vottanir fyrir kerfunum og því hafi hann ekki fengið nein stig fyrir ISO vottaða staðla. Hann sé hins vegar með virkt gæðastjórnunarkerfi, virkt umhverfisstjórnunarkerfi og virkt öryggisstjórnunarkerfi, sem byggi á fyrrgreindum ISO vottuðum stöðlum og sambærilegum kerfum. Með tilboði hagsmunaaðila hafi fylgt greinargerðir sem innihaldi lýsingu á þessum kerfum sem hann vinni eftir. Þær staðfesti að tilboð hagsmunaaðila uppfylli að öllu leyti skilyrði útboðsgagna um virk stjórnunarkerfi.
Með tilboði hagsmunaaðila hafi fylgt greinargerð um virka gæðastjórnun dags. 26. september 2023 og þar sé að finna ítarlega lýsingu á gæðastjórnun í rekstri félagsins. Sú gæðastjórnun byggi m.a. á ISO 9001 og jafnframt á sambærilegum gæðastjórnunarkerfum. Þá komi fram að stefnt sé að vottuðu gæðastjórnunarkerfi ISO 9001 á árinu 2024, innleiðingin sé langt á veg komin og vænta má að það klárist innan skamms tíma. Þá hafi fylgt með tilboði hagsmunaaðila greinargerð um virkt umhverfisstjórnunarkerfi, dags. 26. september 2023, og sé þar að finna lýsingu á umhverfisstjórnun í rekstri félagsins. Hún byggi m.a. á ISO 14001 og sambærilegum kerfum og stefni félagið að vottuðu umhverfisstjórnunarkerfi ISO 14001 á árinu 2024, og megi vænta vottaðs kerfis innan skamms tíma. Enn fremur hafi fylgt með tilboði hagsmunaaðila greinargerð um virkt öryggisstjórnunarkerfi, sem sett sé fram í öryggishandbók félagsins og öryggismöppu verkstæðis sem sé hluti þeirrar greinargerðar. Þar sé að finna ítarlega lýsingu á öryggisstjórnunarkerfi félagsins, þar sem félagið nýti Dynamic CRM kerfi og ATVIK kerfi til skráningar á atvikum er varði öryggismál þess. Þá sé starfandi öryggisnefnd hjá félaginu. Vænta megi að félagið fái vottað öryggisstjórnunarkerfi ISO 45011 á þessu ári, en kerfið sem nú er byggi á því og sambærilegum kerfum.
IV
Að mati kærunefndar útboðsmála má fallast á með varnaraðila að kröfugerð kæranda sé ekki jafn skýr og æskilegt hefði verið hvað varðar aðalkröfu hans. Af orðalagi kröfunnar, lesinni í samhengi við málatilbúnað hans að öðru leyti, verður á hinn bóginn ráðið að aðalkrafa kæranda beinist að því að felld verði úr gildi ákvörðun varnaraðila um að velja tilboð hagsmunaaðila í hinu kærða útboði. Verður því að leggja til grundvallar að annmarki á kröfugerð kæranda að þessu leyti standi ekki í vegi fyrir efnislegri úrlausn hennar.
Málsástæður kæranda eru þær að tilboð hagsmunaaðila hafi átt að teljast ógilt þar sem kærandi telji að það hafi ekki uppfyllt svokallaðar skal-kröfur í grein 0.7.5 um virk gæðakerfi, þ.e. gæðastjórnunarkerfi, umhverfisstjórnunarkerfi og öryggisstjórnunarkerfi. Í grein 0.7.5 í útboðslýsingu kemur fram að tæknileg og fagleg geta bjóðanda skuli vera það trygg að hann geti staðið við skuldbindingar sínar gagnvart kaupanda. Í því skyni er kaupanda heimilt að setja skilyrði um að bjóðandi hafi nauðsynlegan mannauð, tækniúrræði og reynslu til að framkvæma þjónustuna í samræmi við viðeigandi gæðastaðla. Gerð var krafa um að bjóðandi skyldi hafa virkt gæðastjórnunarkerfi byggt á ISO 9001 eða sambærilegt og vinna samkvæmt því. Ekki var gerð krafa um vottað gæðastjórnunarkerfi, og skyldi bjóðandi skila inn með tilboði sínu greinargóðum upplýsingum um það gæðastjórnunarkerfi sem hann vinnur samkvæmt þar sem skýr lýsing komi fram hvernig gæðakerfið virkar til að tryggja gæði rekstursins. Þá skyldi bjóðandi skila inn með tilboði sínu greinargóðum upplýsingum um það umhverfisstjórnunarkerfi sem hann vinnur samkvæmt. Bjóðandi skuli hafa virkt umhverfisstjórnunarkerfi byggt á ISO 14001 eða sambærilegt kerfi og vinna samkvæmt því. Loks skyldi bjóðandi skila inn með tilboði sínu greinargóðum upplýsingum um það öryggisstjórnunarkerfi sem hann vinnur samkvæmt. Bjóðandi skuli hafa virkt öryggisstjórnunarkerfi byggt á ISO 45001 eða sambærilegt kerfi. Einnig var tekið fram í sömu grein útboðsgagna að með tilboðsgögnum skyldu fylgja greinargerðir sem innihéldu lýsingu á þessum gæðakerfum bjóðanda. Í valforsendum í grein 0.9.10 kom fram að ef tilboð bjóðenda uppfyllti kröfur um ISO vottanir þessara gæðakerfi þá gat tilboð fengið mest 6 stig. Ef aðeins ein vottun væri fyrir hendi fengist 4 stig, og svo eitt stig til viðbótar fyrir hvora ISO vottun umfram það.
Samkvæmt framansögðu var gerð sú krafa til bjóðenda að þeir hefðu yfir að ráða virkum gæðakerfum sem tækju mið af ISO vottunum og skyldu bjóðendur skila inn greinargóðum upplýsingum um þau kerfi. Aðeins fengjust stig fyrir þennan hluta ef gæðakerfi bjóðenda væru ISO vottuð. Hagsmunaaðili fékk 0 stig fyrir þennan hluta tilboðs síns og er af hans hálfu viðurkennt að gæðakerfi hans séu ekki með ISO vottanir.
Eins og útboðsgögn eru úr garði gerð verður krafan um virkt gæðakerfi ekki skýrð svo íþyngjandi að í henni felist að gæðakerfi bjóðenda hafi verið tekin út af óháðum aðila. Þess í stað verður hún skýrð svo að í henni felist ekki annað og meira en að greinargóð gögn liggi fyrir um gæðakerfið, enda má ráða af útboðslýsingu að mat á virkni kerfa verði byggt á skriflegum gögnum frá bjóðendum.
Kærunefnd útboðsmála hefur kynnt sér tilboð hagsmunaaðila í málinu og tekið afstöðu til þess hvort það fullnægi umræddri kröfu. Með tilboði hans fylgdu upplýsingar um gæðastjórnunarkerfi og um umhverfisstjórnunarkerfi, en í báðum er tekið fram að unnið væri að því að tryggja viðeigandi ISO vottun á árinu 2024, auk upplýsinga um öryggisstjórnunarkerfi. Þá liggur fyrir í gögnum málsins minnisblað frá verkfræðistofunni Strendingi ehf., sem unnið var fyrir varnaraðila, þar sem lagt var mat á þau fylgigögn með tilboði hagsmunaaðila um gæðakerfi. Þar er tekið fram að það sé mat Strendings ehf. að hagsmunaaðili hafi virk gæðakerfi sem uppfylli áskilnað greinar 0.7.5 í útboðslýsingu.
Að mati kærunefndar útboðsmála uppfyllti því tilboð hagsmunaaðila kröfur greinar 0.7.5 í útboðslýsingu. Var varnaraðila því rétt að velja tilboð hagsmunaaðila í hinu kærða útboði.
Að öllu framangreindu virtu verður kröfum kæranda í máli þessu hafnað.
Með vísan til þessara málsúrslita þykir rétt að málskostnaður falli niður.
Úrskurðarorð
Öllum kröfum kæranda, Hópbíla ehf., í máli þessu er hafnað.
Málskostnaður fellur niður.
Reykjavík, 31. október 2024
Reimar Pétursson
Kristín Haraldsdóttir
Auður Finnbogadóttir