1/2023 A gegn Háskólanum á Akureyri
Ár 2024, 9. janúar, lauk áfrýjunarnefnd í kærumálum háskólanema, þau Elvar Jónsson lögmaður og formaður nefndarinnar, Eva Halldórsdóttir lögmaður og Pétur Marteinn Urbancic Tómasson lögfræðingur málinu
nr. 1/2023
A
gegn
Háskólanum á Akureyri
með svohljóðandi
Á L I T I
I.
Málsmeðferð
Mál þetta hófst með kæru A, dags. 26. apríl 2023, sem barst áfrýjunarnefnd í kærumálum háskólanema með tölvupósti þann sama dag, þar sem krafist var úrskurðar um hvort málsmeðferð Háskólans á Akureyri („HA“ eða „skólinn“) hafi verið í samræmi við a. og b. lið 1. mgr. 1. gr. reglna nr. 550/2020 hvað varðar tillögur HA um lok meistaraverkefnis kæranda í kjölfar þess að Vísindasiðanefnd („VSN“) taldi hagsmunatengsl leiðbeinanda og val á þátttakendum rannsóknar í andstöðu við lög og gerði kröfu um eyðingu rannsóknargagna. Í öðru lagi krefst kærandi þess að áfrýjunarnefnd í kærumálum háskólanema veiti álit samkvæmt 3. mgr. 1.gr. reglna nr. 550/2020 um hvort málsmeðferðin hafi í heild samræmst lögum og góðum stjórnsýsluháttum, þá bæði hvað varðar upphaflegt erindi kæranda um mögulegar leiðir til námsloka sem og varðandi eftirfarandi úrvinnslu málsins, bæði fyrir og eftir aðkomu mennta- og menningarmálaráðuneytis, síðar háskóla-, iðnaðar-, og nýsköpunarráðuneytis („ráðuneytið“) í málinu.
Nefndin óskaði eftir athugasemdum HA við kæruna þann 24. maí 2023. Viðbrögð HA bárust með tölvupósti 13. júní 2023.
Nefndin bauð kæranda að leggja fram andmæli við athugasemdir HA þann 19. júní 2023 og skilaði kærandi andmælum við þær þann 4. júlí 2023. Nefndin fundaði með kæranda þann 10. júlí 2023 og HA þann 17. ágúst 2023. Var það fyrirkomulag lagt til af nefndinni til að mæta kröfum málsaðila um fundartíma. Aðspurðir sögðust málsaðilar sáttir við það fyrirkomulag og kom fram af hálfu kæranda að hann kysi fremur að nefndin fundaði með málsaðilum hvorum í sínu lagi þar sem kærandi treysti sér ekki til fundar með HA.
Fundargerðir fundanna voru sendar hvorum málsaðila um sig, þannig að fundargerð fundar nefndarinnar með kæranda var send HA og öfugt, og þeim gefinn kostur á því að koma á framfæri athugasemdum við það sem kom fram á fundi. Bárust athugasemdir frá kæranda þann 18. september 2023 og frá HA þann 20 september s.á. Í kjölfarið taldi nefndin sig hafa öll nauðsynleg gögn undir höndum og var málið tekið til úrskurðar.
II.
Málsatvik
Atvik máls þessa eiga rætur að rekja til ársins 2018. Samhengisins vegna er mikilvægt að rekja þau með nokkuð ítarlegum hætti.
1.
Kærandi stundaði framhaldsnám á heilbrigðisvísindasviði við HA. Skólaárið 2018-2019 vann kærandi að meistaraverkefni á námslínunni Sálræn áföll og ofbeldi og hafði lokið öllum einingum til prófgráðu að undanskildum 60 ECTS einingum fyrir meistararitgerð. Stefndi hún að útskrift sumarið 2019.
VSN veitti rannsóknarleyfi fyrir rannsókn í tengslum við meistararitgerð kæranda samkvæmt rannsóknaráætlun og vann kærandi að ritgerðinni undir leiðsögn B, sem jafnframt var ábyrgðarmaður rannsóknar, og C, sem var meðrannsakandi.
2.
Samskipti milli kæranda annars vegar og leiðbeinenda hennar og meðrannsakenda hins vegar virðast hafa gengið ágætlega fyrir sig í upphafi. Þegar leið að skilum hallaði hins vegar undan fæti í samskiptum aðila. Í úrskurði úrskurðarnefndar HA vegna kvörtunar kæranda, frá 5. júní 2019, er þessu í grófum dráttum líst svo að skýrleika hafi skort á í samskiptunum aðila varðandi mikilvægar vörður og dagsetningar og misskilnings hafi gætt um framvindu rannsóknarinnar. Þá hafi aðila greint á um hvert hlutverk ábyrgðarmanns hafi verið.
Þann 1. apríl 2019, eða skömmu fyrir áætluð skil á meistararitgerð, leitaði kærandi til sviðsforseta Heilbrigðisvísindasviðs og óskaði eftir aðstoð þar sem hún hefði áhyggjur af vinnubrögðum leiðbeinenda sinna. Þannig hafi hana m.a. grunað að annar leiðbeinenda hefði ekki gætt að hagsmunatengslum og upplýst um fjárhagslegan ávinning sem hún kynni að hafa af því verkefni sem var andlag rannsóknarinnar. Í kjölfar samskipta vegna þessa var haldinn fundur með sviðsforseta, leiðbeinanda kæranda, skrifstofustjóra hjá HA og tveimur nemendum frá stúdentaráði HA til að reyna að leiða í jörð þá deilu sem upp var komin. Ekki náðust þar sættir og þann 9. apríl 2019 kvartaði kærandi formlega til úrskurðarnefndar HA og óskaði eftir nýjum leiðbeinendum.
3.
Samkvæmt því sem fram kemur í gögnum málsins vísaði kærandi málinu einnig til VSN. Þann 3. maí 2019 hóf VSN athugun á því hvort rannsóknarverkefnið stæðist lög nr. 44/2014 um vísindarannsóknir á heilbrigðissviði vegna framkvæmdar rannsóknarinnar. Óskaði nefndin af því tilefni eftir upplýsingum, gögnum og sjónarmiðum frá ábyrgðarmanni vegna mögulegrar ákvörðunar um að afturkalla leyfi fyrir rannsókninni. Með bréfi 12. maí 2019 svaraði ábyrgðarmaður fyrirspurn VSN. Í niðurlagi bréfsins var síðan óskað eftir upplýsingum frá VSN um hvort ábyrgðarmaður hefði heimild til að „segja meistaranema upp“ vegna „vanhæfi nemans“.
Í frumniðurstöðu sinni, dags. 29. maí 2019, kom fram af fyrirliggjandi gögnum væri ljóst að einn meðrannsakenda rannsóknarinnar, leiðbeinandi kæranda, hefði hagsmunatengsl við verkefnið sem var andlag rannsóknarinnar. Ekki væri gerð athugasemd við að hagsmunatengsl væru til staðar svo lengi sem skipulag og framkvæmd rannsóknarinnar væri með þeim hætti að siðfræðilega og vísindaleg sjónarmið væru höfð í heiðri. Því væri í umsóknarferlinu óskað eftir því að ábyrgðaraðilar lýstu hagsmunatengslum og þess væri einnig getið í kynningarefni til þátttakenda í rannsókn. Að mati nefndarinnar hefðu hvorki upphafleg umsókn né fylgigögn uppfyllt þetta skilyrði. Rannsóknin hefði því ekki fullnægt skilyrðum laga nr. 44/2014. Þá kom einnig fram að framkvæmd við öflun þátttakenda í rannsókninni hefði verið í ósamræmi við samþykkta rannsóknaráætlun og lög nr. 44/2014 og verið „alvarleg og aðfinnsluverð“. VSN upplýsti HA og ábyrgðarmann verkefnisins í kjölfarið um að til skoðunar væri að beina tilmælum til þeirra að hætta rannsókn og eyða öllum rannsóknargögnum.
Ábyrgðarmaður rannsóknarinnar sendi VSN tölvupóst 31. maí 2019 þar sem fram kom að rannsóknin yrði „stöðvuð þegar í stað“ og „öllum gögnum eytt“. Þann 10. júní 2019 sendi ábyrgðarmaður svo formlegt erindi til VSN vegna málsins þar sem fram kom að hún væri sammála þeirri niðurstöðu nefndarinnar að hætta rannsókn þegar í stað og eyða öllum gögnum, en þó ekki á sama grundvelli og nefndin hefði komist að heldur vegna vinnubragða kæranda, sem hefði ekki „tekið leiðsögn“.
Varð það endanleg niðurstaða VSN þann 25. júní 2019 að afturkalla rannsóknarleyfið „að virtum þeim alvarlegu ágöllum“ sem væru á framkvæmd rannsóknarinnar, þ.e. að hún væri ekki í samræmi við framlagða rannsóknaráætlun og uppfyllti ekki lengur ákvæði laga, og að virtri afstöðu ábyrgðarmanns um að ekki yrði raunhæft að fara fram á úrbætur á rannsókninni. Þannig var þeirri kröfu beint að ábyrgðarmanni verkefnisins að eyða öllum gögnum og að upplýsa meðrannsakendur um ákvörðun VSN. Af fyrirliggjandi gögnum virðist ljóst að kærandi var ekki upplýst um þessa niðurstöðu.
Í kjölfarið áttu sér stað nokkur samskipti milli ábyrgðarmanns rannsóknarinnar og VSN um eyðingu rannsóknargagna og um rétt kæranda til aðgangs að þeim. Í tölvupósti til nefndarinnar 8. september 2019 óskaði ábyrgðarmaður eftir svari við tilteknum spurningum sem lutu að þessu. Erindi þetta hefur að geyma alvarlegar ávirðingar í garð kæranda auk viðkvæmra persónuupplýsinga um hennar einkalíf, auk þess sem þar er að finna útlistun á orðrómi um einkahagi kæranda. Ekki er ástæða til að rekja efnistök erindisins nánar.
4.
Hvorki HA né úrskurðarnefnd HA féllust á að útvega kæranda nýja leiðbeinendur fyrr en 5. júní 2019, en eftir að VSN hóf athugun sína og gaf út frumniðurstöðu taldi úrskurðarnefnd HA að skólinn yrði að fela öðrum leiðbeinendum að taka við stjórn verkefnisins en hafnaði þó hagsmunatengslum upphaflegra leiðbeinenda. Þá var tiltekið að ef VSN teldi rannsóknina haldna ágöllum færi málið í viðeigandi ferli innan HA og yrði væntanlega tekið fyrir hjá siðanefnd skólans. Gögn málsins bera ekki með sér að svo hafi verið gert.
Virðist mega heita ljóst að á þessum tímapunkti hafi legið fyrir að ekki yrði af útskrift kæranda á fyrirhuguðum tíma.
Eins og áður greinir komst VSN að þeirri niðurstöðu 25. júní 2019 að afturkalla skyldi rannsóknarleyfið og eyða öllum rannsóknargögnum, en þær upplýsingar fékk kærandi að eigin sögn ekki fyrr en 3. júlí 2019 .
Með bréfi 8. júlí 2019 upplýsti skólinn kæranda um niðurstöðu VSN og að ekki væri unnt að útvega henni nýja leiðbeinanda við rannsókn sem hefði verið afturkölluð. Boðað var til fundar um lausnir í málinu svo hún gæti lokið námi sínu við skólann, en upplýst að sá fundur gæti ekki farið fram fyrr en um haustið vegna sumarleyfa.
Aðilar funduðu vegna málsins þann 6. september 2019. Með bréfi 15. september s.á. bar HA upp tillögu að lausn sem fólst í grunninn í því að óháður aðili legði mat á vinnuframlag kæranda og kærandi myndi gera munnlega grein fyrir vinnu sinni og legði jafnframt til mats fræðilegan kafla ritgerðarinnar.
Með bréfi, dags. 27. nóvember 2019, upplýsti kærandi að hún væri viljug til að fallast á þessa tillögu skólans að uppfylltum tilteknum skilyrðum. Kærandi gerði þannig kröfu um að matið myndi standast faglegar kröfur laga nr. 63/2006 um háskóla og lög nr. 85/2008 um háskóla, auk reglna HA þannig að tryggt yrði að útskrift hennar stæðist faglegar kröfur. Vísaði kærandi til þess að hinn óháði prófdómari skyldi meta yfirferð kæranda með það í huga að VSN hefði látið eyða öllum rannsóknargögnum. Þá gerði kærandi kröfu um að fá að samþykkja val á hinum óháða aðila. Jafnframt óskaði kærandi eftir því að undirbúningsfundur yrði haldinn fyrir matið svo kæranda yrðu ljósar forsendur matsins. Í bréfinu gerði kærandi einnig þá kröfu að HA afhenti kæranda skriflega afsökunarbeiðni og viðurkenndi jafnframt bótaskyldu vegna þess að leiðsögn hafi verið alvarlega áfátt, vísindaleg vinnubrögð leiðbeinenda hafi ekki verið fagleg né í samræmi við lög og að framganga annars leiðbeinandans í hennar garð hafi falið í sér ærumeiðingar og ámælisverð framkomu. Var þess óskað að niðurstaða um bótakröfuna lægi fyrir „áður en lagt [yrði] mat á meistaraverkefnið“.
Með tölvupósti til lögmanns kæranda þann 9. desember 2019 upplýsti skrifstofustjóri rektorsskrifstofu að rektor hefði bótakröfuna til skoðunar og myndi vísa henni til ríkislögmanns. Í ljósi þess að krafa hefði verið gerð um að ekki yrði lagt mat á meistaraverkefnið fyrr en bótakröfunni hefði verið svarað, yrði málið „nú lagt til hliðar“ á meðan bótakrafan væri til meðferðar hjá ríkislögmanni.
5.
Um það bil ári síðar, eða þann 30. nóvember 2020, svaraði HA bréfi kæranda. Skólinn útskýrði töf á afgreiðslu skólans á þá leið að kærandi hefði óskað eftir að niðurstaða úr bótakröfu lægi fyrir áður en lagt yrði mat á meistaraverkefni kæranda, en samkvæmt gögnum málsins virðist bótakröfunni hafa verið hafnað með bréfi ríkislögmanns til lögmanns kæranda 11. september 2020.
Í erindi skólans voru jafnframt lagðar fram tvær tillögur um námslok. Fyrri tillagan var efnislega sú sama og kæranda var boðin með bréfi HA dags. 15. september 2019. Í seinni tillögunni var tilgreint að erfitt yrði að meta meistararitgerðina út frá viðtölum og niðurstöðum þar sem öllum gögnum hefði verið eytt og væri því lagt til, í stuttu máli, að kærandi ynni kerfisbundna fræðilega samantekt til 60 ECTS eininga. Leiðbeinandi yrði nefndur dósent við HA og meðleiðbeinandi tiltekinn lektor við skólann, en ef ekki yrði á það fallist yrði fundinn meðleiðbeinandi frá HÍ í samráði við kæranda.
Kærandi hafnaði báðum tillögum HA með bréfi dags. 29. mars 2021. Þar kom fram sú afstaða kæranda að málsmeðferð HA hefði rýrt trúverðugleika kæranda sem nemanda og að kærandi teldi verulegan vafa ríkja á því að hún myndi njóta sanngjarnrar málsmeðferðar við framkvæmd tillögu HA. Taldi kærandi að í ljósi verulegra tafa HA á málsmeðferð og þar sem ekki hefði verið gætt að ríkum hagsmunum kæranda af útskrift væru matstillögur HA óframkvæmanlegar.
6.
Í kjölfarið kvartaði kærandi til mennta- og menningarmálaráðuneytisins, sem þá fór með málefni háskóla, og óskaði eftir því að vinnubrögð HA í máli kæranda yrðu tekin til skoðunar. Ráðuneytið tók mál kæranda til meðferðar og urðu þónokkur bréfskipti milli ráðuneytisins og HA þar sem ráðuneytið óskaði svara um tiltekin atriði er vörðuðu málsmeðferð HA í máli kæranda.
Þann 25. febrúar 2022 sendi ráðuneytið bréf til HA þar sem m.a. kom fram það mat ráðuneytisins að HA hefði, miðað við framvindu málsins og samskipti innan stjórnsýslu og með hliðsjón af niðurstöðu til úrskurðarnefndar HA frá 5. júní 2019, átt að vísa máli kæranda til siðanefndar HA og að ráðuneytið teldi enn tilefni til að fela siðanefnd skólans að fara yfir málið í heild sinni og skila niðurstöðu. Þá væri það mat ráðuneytisins að mikilvægt hefði verið að ljúka málinu strax sumarið 2019 fremur en að fresta ákvörðun fram á haust vegna sumarleyfa og að HA hefði dregið málsmeðferð og ákvarðanatöku í máli kæranda óhæfilega lengi með tilliti til ríkra og veigamikla hagsmuna kæranda af því að ljúka námi í samræmi við eðlilega námsframvindu. Jafnframt var vísað til þess að HA bæri ábyrgð á inntöku nemenda og ef HA veitti nemendum undanþágu frá tilteknum kröfum til undirbúnings á námi bæri HA ríka ábyrgð á að veita þeim nemendum viðeigandi og fullnægjandi leiðsögn leiðbeinanda. Einnig þyrfti að gæta þess að sömu reglur giltu um nemendur. Þá lagði ráðuneytið áherslu á að HA skyldi ekki láta nemendur sem leituðu réttar síns vegna samskipta við skólann gjalda þess með neinum hætti. HA bæri að veita nemendum réttláta málsmeðferð óháð kvörtunum sem kynnu að vera til meðferðar hjá skólanum. Þá mæltist ráðuneytið til þess að ávirðingar og brot starfsmanna skólans á lögum um vísindarannsóknir á heilbrigðissviði og rannsóknarskilmálum VSN eða öðrum lögum yrði ekki látnar bitna á námsframvindu nemenda. Þá vakti ráðuneytið athygli á að rektor skólans væri yfirmaður stjórnsýslu HA og æðsti fulltrúi gagnvart starfsmönnum og stofnunum innan HA.
Rektor svaraði erindi ráðuneytisins með bréfi 10. mars 2022 þar sem því var m.a. hafnað að mál kæranda hefði dregist óhóflega og að hún hefði verið látin gjalda þess að hafa leitað réttar síns vegar samskipta við skólann. Þá kom fram að þær lausnir sem lagðar hefðu verið til í nóvember 2019, svo kærandi gæti lokið námi sínu, stæðu enn til boða.
Ráðuneytið lauk athugun sinni með bréfi til kæranda þann 17. mars 2022. Í bréfinu kom fram að fyrir lægju tillögur frá HA um með hvaða hætti kæranda stæði til boða að ljúka námi sínu. Þá kom einnig fram í bréfi HA að ráðuneytið gæti ekki aðhafst í einstaka málum eða gefið rektor fyrirmæli um einstakar ákvarðanir en þó hefði ráðuneytið brýnt fyrir rektor HA að virða þær lögmæltu skyldur sem á hvíli á honum, HA og einstaka fræðasviðum um að tryggja skilvirka stjórnsýslu í svo þýðingarmiklum málum gagnvart nemendum.
7.
Þann 19. desember 2022 sendi lögmaður kæranda bréf til ríkislögmanns og óskaði eftir endurskoðun á afstöðu ríkislögmanns til bótakröfu kæranda. Ríkislögmaður tilkynnti kæranda þann 6. mars 2023 að krafa kæranda um bótakröfu vegna fjártjóns væri hafnað, þar sem ekki lægi fyrir sönnun um meint fjártjón né orsakatengsl og sennilega afleiðingu í því sambandi. Var í því sambandi bent á að skólinn hefði ítrekað áréttað boð um tvær lausnir til að kærandi gæti lokið námi sínu en að kærandi hefði ekki fallist á þær.
Ríkislögmaður féllst hins vegar á, með vísan til framangreindra athugasemda ráðuneytisins, að HA hefði dregið málsmeðferð og ákvarðanatöku í máli kæranda óhóflega lengi og bauð fram miskabætur á grundvelli b-liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.
Kærandi leitaði í kjölfar þess til Umboðsmanns Alþingis sem taldi sér ekki heimilt samkvæmt lögum að fjalla um kvörtun kæranda þar sem athugasemdir kæranda við tillögur HA höfðu ekki verið bornar undir áfrýjunarnefnd í kærumálum háskólanema samkvæmt reglum nr. 550/2020.
Leitaði því kærandi til nefndarinnar með kæru þá er mál þetta varðar.
III.
Málsástæður kæranda
Kærandi byggir á því að nemendur hafi rétt til að bera undir nefndina ákvarðanir um framkvæmd námsmats og mats á námsframvindu telji þeir brotið á rétti sínum. Vísar kærandi um það til a. og b. liðar 1. mgr. 1. gr. reglna nr. 550/2020 um störf áfrýjunarnefndar í kærumálum háskólanema. Þá sé nemendum einnig heimilt að bera undir nefndina hvort að málsmeðferð háskóla á erindi hafi verið í samræmi við lög og góða stjórnsýsluhætti.
Kærandi byggir á því að fyrirlögn námsmats eða námslok af hálfu HA, í bréfum 30. nóvember 2020 og 10. mars 2022, hafi komið niður á sér á óréttmætan hátt með hliðsjón af málsmeðferðinni í heild. Þá telur kærandi að þau úrræði sem kæranda hafi verið boðin eftir að rannsóknargögnum var eytt hafi verið sérlega íþyngjandi og kæranda ekki veittur jafn réttur á við aðra nemendur á sömu námsbraut.
Þá byggir kærandi á því að þau úrræði sem HA hafi boðið hafi verið ómöguleg þegar leið á málsmeðferð á máli kæranda hjá HA þar sem lengd málsmeðferð hafi haft áhrif. Tafir á málinu sakist af tregðu HA til að svara fyrirspurnum kæranda og ráðuneytisins með fullnægjandi hætti. Málsmeðferðin og síðustu afskipti HA af úrlausn málsins, síðast í bréfi 10. mars. 2022, hafi því brotið gegn a. og/eða b. lið 1. mgr. 1. gr. reglna nr. 550/2020
Kærandi byggir jafnframt á því að málsmeðferð HA á tilhögun námsmats til lúkningar meistaranáms kæranda og úrvinnsla umkvartana kæranda hafi í heild sinni verið í ósamræmi við góða og hefðbundna stjórnsýsluhætti, m.a. með hliðsjón af leiðbeiningarskyldu þar sem hvergi hafi verið vikið að rétti kæranda til að bera mál sitt undir nefndina eða hvort ákvörðun HA um tillögu að námslokum væri endanleg og hverjir kærufrestir væru, lengd málsmeðferðar, jafnræðisreglu og meðalhófsreglu að því er varðaði tillögu að námsmati og úrlausn máls kæranda.
Á fundi kæranda með nefndinni kom fram að kærandi liti svo á að málinu væri lokið hjá HA. Þá kom fram hjá kæranda að hún treysti sér ekki til að klára nám sitt við HA.
IV.
Málsástæður Háskólans á Akureyri
HA byggir á því að skólinn hafi ítrekað boðið kæranda leiðir sem leitt hefðu getað til þess að kærandi lyki námi sínu við skólann. Standi vilji kæranda til að ljúka námi sínu við HA muni skólinn koma til móts við hana innan þeirra reglna sem um nemendur gildi.
Þá byggir HA á því að VSN hafi afturkallað rannsóknarleyfi kæranda vegna þess að ábyrgðarmaður rannsóknar kæranda hafi sagt sig frá henni. Rannsóknin hefði því aldrei getað haldið áfram í samræmi við leyfi VSN. Þannig hefði kæranda alltaf verið gert að vinna verkefnið frá grunni með öðrum ábyrgðarmanni og þar með nýrri umsókn til VSN og nýju leyfi til rannsóknar. Eftir að niðurstaða VSN hafi legið fyrir hafi kæranda verið boðnar lausnir til að ljúka námi sínu án þess að ljúka við rannsóknina eða hefja nýja rannsókn.
Þá byggir HA á því að aðilar innan og utan HA geti beint erindum til siðanefndar HA en hún taki ekki upp mál að eigin frumkvæði. Siðanefnd HA hafi engin erindi borist vegna máls kæranda.
HA vísar einnig til þess að við úrskurð úrskurðarnefndar HA í máli kæranda hafi nefndin ekki haft þær upplýsingar að VSN hafi fyrirskipað eyðingu allra rannsóknargagna og ógildingu rannsóknarleyfis kæranda. HA hafnar því að kæranda hafi ekki verið veittar neinar leiðbeiningar í kjölfar þeirrar niðurstöðu. Forseti Heilbrigðisvísindasviðs HA hafi ritað kæranda bréf þar sem farið var yfir stöðu málsins. Í framhaldi af því hafi verið haldinn fundur með kæranda og í kjölfar hans hafi HA lagt fram tillögur að lausnum. Þessu hafi lögmaður kæranda svarað og gert kröfu um að HA tæki afstöðu til bótakröfu kæranda áður en lagt yrði mat á meistaraverkefni kæranda.
HA hafnar því að skólinn hafi ekki axlað skyldur sínar samkvæmt lögum nr. 63/2006 um háskóla. Þá hafnar HA því að hafa brotið gegn meginreglum stjórnsýsluréttar um vandaða stjórnsýsluhætti. Um þetta vísar HA til þess að kvörtun kæranda á vormisseri 2019 hafi farið í tilgreint ferli slíkra kvartana við HA. Úrskurðarnefnd skólans hafi gert tilraunir til að ná sáttum og leita leiða svo kærandi gæti lokið námi og útskrifast á vormisseri 2019. Það hafi ekki gengið upp. Þá hafi forseti Heilbrigðisvísindasviðs tekið aftur við málinu og leitað leiða til að finna lausnir í samráði og sátt við kæranda.
Þá vísar HA til þess að skólinn hafi farið að lögum, reglum og skráðum og óskráðum reglum stjórnsýsluréttar um vandaða og faglega stjórnsýsluhætti í hvívetna og málsmeðferð í máli kæranda hafi verið í samræmi við aðstæður hverju sinni. Hafnar HA því öllum kröfum kæranda en vekur athygli á því að kæranda standi enn til boða að ljúka námi við HA ef vilji kæranda stendur til þess.
V.
Niðurstaða
Ágreiningur máls þessa lýtur að málsmeðferð HA á tillögum um lok meistaraverkefnis kæranda í kjölfar fyrrnefnds hagsmunaáreksturs og hvort málsmeðferð HA hafi samræmist lögum og góðum stjórnsýsluháttum vegna mögulegra leiða til námsloka sem og úrvinnslu málsins þar á eftir sem allt hófst þann 1. apríl 2019.
Um störf nefndarinnar gilda reglur nr. 550/2020. Í 3. mgr. 1. gr. reglnanna er fjallað um málskot til nefndarinnar. Þar segir að máli háskólanema verði ekki skotið til nefndarinnar nema fyrir liggi endanleg ákvörðun háskóla um rétt eða skyldu nemandans. Þó sé heimilt að bera undir nefndina hvort málsmeðferð háskóla á skriflegu erindi háskólanema hafi verið í samræmi við lög og góða stjórnsýsluhætti, og skal nefndin þá veita álit sitt um það efni.
Á fundi nefndarinnar með kæranda var borið undir kæranda hvort að óskað væri eftir úrskurði nefndarinnar eða áliti. Kom þá fram í máli lögmanns kæranda að óskað væri eftir úrskurði og/eða áliti allt eftir því nefndin teldi rétt og heimilt. Þá svaraði kærandi því jafnframt að kæranda hugnaðist ekki að klára nám sitt við HA.
Í kæru kæranda er tiltekið að óskað sé eftir því að nefndin úrskurði um hvort málsmeðferð HA hafi verið í samræmi við a. og b. lið 1. mgr. 1. gr. reglna nr. 550/2020 hvað varðar tillögur HA um lok meistaraverkefnis kæranda í kjölfar þess VSN taldi hagsmunatengsl leiðbeinanda og val á þátttakendum rannsóknar í andstöðu við lög og gerði kröfu um eyðingu rannsóknargagna.
Fyrir liggur að úrskurðarnefnd HA komst að þeirri niðurstöðu í úrskurði sínum dags. 5. júní 2019 að HA skyldi útvega kæranda nýjan leiðbeinanda og leggja til óháðan prófdómara til að fara yfir verkefni kæranda ef kærandi óskaði þess. Ekki er sérstaklega tekið á niðurstöðu VSN í úrskurði úrskurðarnefndarinnar eins og vísað er til hér að framan. Aðalefni kæru og málsástæðna kæranda snýr að atvikum er varða þá atburði sem urðu eftir að VSN komst að þeirri niðurstöðu að kærandi skyldi hætta rannsókn sinni og eyða rannsóknargögnum. Á fundi nefndarinnar með kæranda kom fram að kærandi teldi að máli sínu væri lokið innan HA. Á fundi nefndarinnar með HA kom fram að afstaða HA væri sú að máli kæranda væri ekki lokið innan HA þar sem kæranda stæði enn til boða að klára nám sitt við skólann. Þrátt fyrir þetta kom fram sú afstaða HA að ekki væri gerður sérstakur ágreiningur við kæranda um það hvort máli kæranda væri lokið innan HA.
Í kæru kæranda er tiltekið að kærandi óski eftir því að nefndin veiti álit samkvæmt 3. málsl. 3. mgr. 1. gr. reglna nr. 550/2020 hvort málsmeðferðin hafi í heild samræmst lögum og góðum stjórnsýsluháttum, þá bæði hvað varðar upphaflegt erindi kæranda um mögulegar leiðir til námsloka sem og varðandi eftirfarandi úrvinnslu málsins, bæði fyrir og eftir aðkomu ráðuneytisins. Samkvæmt 1. málsl. 2. mgr. 20. gr. laga nr. 63/2006 um háskóla, sbr. einnig 1. málsl. 3. mgr. 1. gr. reglna nr. 550/2020 um störf áfrýjunarnefndar í kærumálum háskólanema, gilda ákvæði VII. kafla stjórnsýslulaga um málskot til nefndarinnar. Fjallað er um kærufrest í 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og kemur þar fram í 1. mgr. að kæra skuli borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um stjórnvaldsákvörðun, nema lög mæli á annan veg.
Af 3. málsl. 2. mgr. 20. gr. laga nr. 63/2006, sbr. einnig 3. málsl. 3. mgr. 1. gr. reglna nr. 550/2020, er ljóst að álit nefndarinnar um hvort skriflegt erindi nemanda hafi verið í samræmi við lög og góða stjórnsýsluhætti varðar málsmeðferð háskóla, óháð því hvort stjórnvaldsákvörðun hafi verið tekin í framhaldi þess erindis. Ekki er vikið sérstaklega að kærufresti í þeim tilvikum sem nefndin ber að veita álit í lögum nr. 63/2006 eða lögskýringargögnum með þeim lögum, eða í reglum nr. 550/2020. Verður því að líta svo á að hinn almenni kærufrestur stjórnsýslulaga nr. 37/1993 eigi við um álitsumleitanir til áfrýjunarnefndarinnar.
Upphaflegt erindi kæranda um mögulegar leiðir til námsloka er dagsett 27. nóvember 2019 og svaraði HA með bréfi, dags. 30. nóvember 2020, þar sem settar voru fram tillögur um námslok. Var því bréfi svarað 29. mars 2021, þar sem tillögum HA var hafnað. Kæra í máli þessu barst áfrýjunarnefndinni 26. apríl 2023 og var þriggja mánaða kærufrestur skv. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 37/1993 þá liðinn.
Fjallað er um réttaráhrif þess að kæra berst að liðnum kærufresti í 28. gr. laga nr. 37/1993. Í 2. mgr. nefnds ákvæðis kemur fram að kæru skuli ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila. Með vísan tl þess verður því að vísa kröfu kæranda um að áfrýjunarnefndin veiti álit á hvort upphaflegt erindi til kæranda um mögulegar leiðir til námsloka hafi samræmst lögum og góðum stjórnsýsluháttum frá nefndinni.
Kærandi gerir einnig þá kröfu að nefndin veiti álit um „eftirfarandi úrvinnslu málsins, bæði fyrir og eftir aðkomu ráðuneytisins að málinu.“ Nokkuð óljóst verður að telja hvaða skriflega erindi kærandi óskar álits á, sbr. 3. málsl. 2. mgr. 20. gr. laga nr. 63/2006 og 3. málsl. 3. mgr. 1. gr. reglna nr. 550/2020, en af gögnum málsins má ráða að frekari samskipti kæranda og HA hafa ekki orðið um námslok kæranda en að framan er rakið. Kærandi kvartaði til mennta- og menningarmálaráðuneytisins, nú háskóla- iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti, sem tók málið til skoðunar á grundvelli yfirstjórnunar- og eftirlitsheimilda sinna. Þá hefur kærandi átt í samskiptum við ríkislögmann um mögulega bótaskyldu HA og kvartað til umboðsmanns Alþingis. Engin af framangreindum samskiptum valda því að kærufrestur rofni, sbr. til hliðsjónar 3. og 4. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga. Verður því einnig að vísa kröfu kæranda um að áfrýjunarnefndin veiti álit á „eftirfarandi úrvinnslu málsins, bæði fyrir og eftir aðkomu ráðuneytisins að málinu“ hafi samræmst lögum og góðum stjórnsýsluháttum frá nefndinni, sbr. 2. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga.
Næst verður tekið til athugunar hvort fyrir liggi stjórnvaldsákvörðun HA sem kæranleg er til áfrýjunarnefndarinnar. Eins og áður er rakið gilda ákvæði VII. kafla stjórnsýslulaga um málskot til áfrýjunarnefndarinnar og verður máli ekki skotið til hennar nema fyrir liggi endanleg ákvörðun háskóla um rétt eða skyldu nemenda.
Nokkuð óljóst er af kæru máls hver hin kærða stjórnvaldsákvörðun er í máli þessu. Áfrýjunarnefndin spurði því sérstaklega út í þetta atriði á fundum með aðilum máls. Kærandi taldi máli sínu lokið innan HA, en gat ekki með skýrum hætti bent á hvaða stjórnvaldsákvörðun hefði verið tekið. HA taldi hins vegar að máli kæranda væri ekki lokið innan skólas með ákvörðun. Með sömu rökum og rakin hafa verið hér að framan verður að telja að kæra vegna stjórnvaldsákvarðana sem kunna að hafa verið teknar fram að síðustu samskiptum aðila máls þessa, þ.e. 29. mars 2021, og þar til kæra barst í málinu 26. apríl 2023, hafi borist að liðnum kærufresti og beri að vísa frá nefndinni skv. 1. og 2. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga.
Í ljósi þess að kærandi og HA eru ósammála um hvort máli kæranda sé lokið innan HA þykir áfrýjunarnefndinni þó rétt að benda á þá skyldu stjórnvalds að klára stjórnsýslumál með formlegum hætti, t.d. með niðurfellingu eða með stjórnvaldsákvörðun og láti þá eftir atvikum fylgja leiðbeiningar í samræmi við fyrirmæli 20. gr. stjórnsýslulaga. Þá þykir nefndinni rétt að benda á að telji kærandi tilteknu stjórnsýslumáli enn vera ólokið innan HA er unnt að kæra drátt á afgreiðslu máls sérstaklega til þess stjórnvalds sem ákvörðun í málinu verður kærð til, sbr. 4. mgr. 9. gr.
Með hliðsjón af öllu framangreindu er það niðurstaða nefndarinnar að vísa frá kröfu kæranda um úrskurð á málsmeðferð HA í máli kæranda og beiðni kæranda um álit nefndarinnar á því hvort málsmeðferð HA hafi verið í samræmi við lög og góða stjórnsýsluhætti, sbr. 2. mgr. 20. gr. laga nr. 63/2006 og 3. mgr. 1. gr. reglna nr. 550/2020.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Máli kæranda er vísað frá nefndinni.
Elvar Jónsson
Eva Halldórsdóttir Pétur Marteinn Urbancic Tómasson