Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 666/2021 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 666/2021

Miðvikudaginn 23. mars 2022

A

gegn

Sjúkratryggingum Íslands

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir.

Með kæru, sem barst úrskurðarnefndinni 10. desember 2021, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands frá 8. júlí 2020 þar sem kærandi var krafinn um endurgreiðslu ofgreiddra sjúkradagpeninga.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi fékk greidda sjúkradagpeninga frá Sjúkratryggingum Íslands vegna veikinda frá X til X. Við endurskoðun stofnunarinnar á rétti hans til sjúkradagpeninga kom í ljós að hann hafði fengið greidd laun í X en á sama tíma voru greiddir sjúkradagpeningar. Þar sem sjúkradagpeningar eru ekki greiddir samhliða launum sendu Sjúkratryggingar Íslands kæranda bréf, dags. 8. júlí 2020, þar sem hann var krafinn um endurgreiðslu ofgreiddra sjúkradagpeninga.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 10. desember 2021. Með bréfi, dags. 13. desember 2021, var kæranda tilkynnt um að kæra hefði borist að liðnum kærufresti og var honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða gögnum, teldi hann að skilyrði, sem fram kæmu í 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, gætu átt við í málinu. Engar athugasemdir bárust.


 

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru greinir kærandi frá því að hann hafi verið starfsmaður B frá árinu X. Hann hafi háð baráttu við þunglyndi og kvíða og hafi sótt sér viðeigandi aðstoð hjá C og fleiri stöðum. Þegar læknar hans hafi verið búnir að meta starfshæfni hans nægilega mikla til að hefja aftur störf hafi yfirmenn hans óskað eftir að hann færi í starfshæfnimat hjá D. Kærandi hafi farið í þrjú viðtöl þar, en ekkert þeirra hafi verið með sömu niðurstöðu og öll í mótsögn við það sem fagaðilar hans hafi metið á þeim tíma.

B hafi ekki viljað taka mark á starfshæfnivottorði hans og gert kröfu um að hann þyrfti að hafa 100% starfsgetu til að hefja aftur störf og ganga í starf sem hann hafi sinnt í X ár. Kærandi hafi neyðst til að skrifa undir starfslokasamning við stofnunina og samkvæmt honum hafi kærandi fengið greiddan uppsagnarfrest X.

[…]

III.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands frá 8. júlí 2020 þar sem kærandi var krafinn um endurgreiðslu ofgreiddra sjúkradagpeninga.

Samkvæmt 2. mgr. 36. gr. laga nr. 112/2008 um sjúkratryggingar, með síðari breytingum, sbr. 5. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála, skal kæra til úrskurðarnefndar vera skrifleg og skal hún borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun.

Samkvæmt gögnum málsins liðu sautján mánuðir frá því að kæranda var tilkynnt um hina kærðu ákvörðun með bréfi Sjúkratrygginga Íslands, dags. 8. júlí 2020, þar til kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 10. desember 2021. Kærufrestur samkvæmt 2. mgr. 36. gr. laga um sjúkratryggingar var því liðinn þegar kæran barst nefndinni. Í hinni kærðu ákvörðun var leiðbeint um kæruheimild og kærufrest.

Í 5. mgr. 7. gr. laga um úrskurðarnefnd velferðarmála er vísað til þess að um málsmeðferð, sem ekki er kveðið á um í lögunum, fari samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga og ákvæðum laga sem málskotsréttur til nefndarinnar byggist á hverju sinni.

Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir:

„Hafi kæra borist að liðnum kærufresti skal vísa henni frá nema:

1. afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, eða

2. veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar.

Kæru skal þó ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.“

Samkvæmt gögnum málsins leið meira en ár frá því að kæranda var tilkynnt um ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands með bréfi, dags. 8. júlí 2020, og þar til kæra barst úrskurðarnefndinni 10. desember 2021. Þegar af þeirri ástæðu skal kæru ekki sinnt, sbr. 2. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga.

Með hliðsjón af framangreindu er kærunni vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála þar sem kærufrestur er liðinn, sbr. 2. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira