Hoppa yfir valmynd

914/2020. Úrskurður frá 29. júní 2020

Úrskurður

Hinn 29. júní 2020 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 914/2020 í máli ÚNU 200400010.

Kæra, málsatvik og málsmeðferð

Með erindi til Herjólfs ohf., dags. 10. febrúar 2020, óskaði A eftir upplýsingum um nöfn starfsmanna félagsins, stöðu þeirra og menntun miðað við 1. febrúar 2020. Óskað var eftir því að upplýsingarnar bærust á pappír. Með erindi, dags. 25. febrúar 2020, kærði hann á töf á afgreiðslu erindisins til úrskurðarnefndar um upplýsingamál.

Herjólfur ohf. svaraði beiðni kæranda með bréfi, dags. 24. febrúar 2020. Í svari félagsins segir að hjá því starfi um 70 starfsmenn á ársgrundvelli og sé um að ræða bæði fasta starfsmenn og afleysingastarfsmenn. Unnið sé að því að taka saman upplýsingar um starfsmenn félagsins og verði þær birtar á vefsíðu þess um leið og þeirri vinnu væri lokið. Í kæru til úrskurðarnefndar um upplýsingamál, dags. 27. febrúar 2020, er gerð sú krafa að Herjólfur ohf. verði úrskurðaður til að afhenda umbeðin gögn á pappír.

Með erindi, dags. 23. júní 2020, óskaði úrskurðarnefnd um upplýsingamál eftir nánari upplýsingum frá Herjólfi ohf. um nöfn starfsmanna og starfssvið þeirra. Sérstaklega var óskað eftir upplýsingum um hvort breytingar hefðu orðið á lista yfir starfsfólk félagsins og starfssvið þess, sem birtur var á vef félagsins, frá 1. febrúar 2020.

Í svari Herjólfs ohf. við fyrirspurn úrskurðarnefndarinnar, dags. 25. júní 2020, kemur fram að á vefsíðu félagsins, www.herjolfur.is, undir flokknum „um okkur“, séu tiltekin nöfn allra starfsmanna félagsins auk starfs- og/eða stöðuheita þeirra. Ekki hafi þótt ástæða til að færa inn afleysingafólk eða starfsfólk sem sé í tímabundnum störfum, svo sem sumarstarfsmenn, enda um skammtímaráðningar að ræða. Það sé jafnframt mat félagsins að ástæðulaust sé að veita, birta eða upplýsa um frekari hagi eða stöðu starfsmanna. Starfsmenn og þá sérstaklega áhafnameðlimir þurfi að hafa réttindi því annars sé ekki hægt að lögskrá þá um borð. Einnig kemur fram að listinn sé uppfærður reglulega og engar breytingar hafi verið gerðar á starfsmannamálum frá því kærandi hafi óskað eftir upplýsingunum. Samdægurs óskaði úrskurðarnefndin eftir upplýsingum um hvort afleysingafólk hefði starfað fyrir félagið þann. 1. febrúar 2020. Herjólfur ohf. svaraði því sama dag að allir þeir starfsmenn sem hefðu verið starfandi 1. febrúar hefðu verið skráðir á vefsíðu félagsins og ætti það bæði við um fastráðna starfsmenn og afleysingafólk sem þá hefði verið að störfum.

Niðurstaða
1.

Í máli þessu er deilt um rétt kæranda til aðgangs að upplýsingum um nöfn starfsmanna Herjólfs ohf., stöðu þeirra og menntun miðað við 1. febrúar 2020.

Upplýsingalög nr. 140/2012 taka skv. 2. mgr. 2. gr. til aðila sem teljast að 51% hluta eða meira í eigu hins opinbera, ríkisins eða sveitarfélaga. Í 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga er tekið fram að skylt sé, ef þess sé óskað, að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum sem varða tiltekið mál, með þeim takmörkunum sem greinir í 6.-10. gr. Sama gildir þegar óskað er aðgangs að tilteknum fyrirliggjandi gögnum.

Samkvæmt 4. tölul. 6. gr. upplýsingalaga tekur réttur almennings til aðgangs að gögnum ekki til gagna sem tengjast málefnum starfsmanna, sbr. 7. gr. laganna.

Í 7. gr. upplýsingalaga er nánar fjallað um upplýsingar um málefni starfsmanna. Samkvæmt ákvæðinu er meginreglan sú að réttur almennings til aðgangs að gögnum um málefni starfsmanna taki ekki til gagna í málum sem varða umsóknir um starf, framgang í starfi eða starfssambandið að öðru leyti, sbr. 1. mgr. 7. gr. laganna. Í 2.- 4. mgr. 7. gr. koma fram undantekningar frá þessari reglu.

Í 4. mgr. 7. gr. upplýsingalaga segir að veita beri almenningi upplýsingar um eftirtalin atriði sem varði starfsmenn lögaðila sem falli undir lögin:

1. nöfn starfsmanna og starfssvið,
2. launakjör æðstu stjórnenda og upplýsingar um menntun þeirra.

Í 5. mgr. 7. gr. segir að almenningur eigi rétt til aðgangs að upplýsingum skv. 2. og 4. mgr. 7. gr. upplýsingalaga frá viðkomandi vinnuveitanda jafnvel þótt þær sé ekki að finna í gögnum sem tilheyra tilteknu máli.

Kærandi óskaði eftir upplýsingum um nöfn starfsmanna Herjólfs ohf., stöðu þeirra og menntun en samkvæmt 1. tölul. 4. mgr. 7. gr. upplýsingalaga er félaginu aðeins skylt að veita almenningi upplýsingar um nöfn starfsmanna og starfssvið starfsmanna félaga í meirihlutaeigu hins opinbera. Er því staðfest sú ákvörðun Herjólfs ohf. um að veita kæranda ekki aðgang að upplýsingum um menntun starfsfólks félagsins.

2.

Í svari Herjólfs ohf. við beiðni kæranda, dags. 24. febrúar 2020, segist félagið vera að vinna að því að taka saman upplýsingar um starfsmenn og að þær verði í kjölfarið birtar á vefsíðu félagsins. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál bendir á að samkvæmt 5. mgr. 7. gr. upplýsingalaga á almenningur rétt til aðgangs að upplýsingum skv. 2. og 4. mgr. frá viðkomandi vinnuveitanda jafnvel þótt þær sé ekki að finna í gögnum sem tilheyra tilteknu máli.

Fyrir liggur að í kjölfar beiðni kæranda hóf Herjólfur ohf. vinnu við að taka saman upplýsingar um nöfn starfsmanna og starfssvið þeirra. Ekki verður hins vegar séð af gögnum málsins að kærandi hafi verið upplýstur um hvenær upplýsingarnar urðu aðgengilegar á vefnum.

Herjólfur ohf. vísar til þess í svari félagsins til úrskurðarnefndar um upplýsingamál, dags. 23. júní 2020, að upplýsingar um nöfn starfsmanna félagsins og starfssvið þeirra séu birtar á vefsíðu þess og tilgreinir hvar þær sé að finna. Félagið staðhæfir að sá listi sem aðgengilegur var á vefsíðu félagsins þann 25. júní 2020 endurspegli nöfn og starfssvið starfsmanna sem störfuðu hjá félaginu 1. febrúar 2020 en kærandi óskaði eftir að upplýsingarnar yrðu miðaðar við þá dagsetningu. Herjólfur ohf. kveður engar breytingar hafa verið gerðar á starfsmannamálum síðan þá. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur ekki forsendur til að rengja þá staðhæfingu félagsins.

Í kæru krefst kærandi þess að fá umbeðnar upplýsingar afhentar á pappír.

Í 2. mgr. 19. gr. upplýsingalaga segir að þegar beiðni um aðgang að gögnum sé afgreidd með vísan til þess að umbeðnar upplýsingar séu þegar aðgengilegar almenningi, og án þess að umbeðin gögn séu afhent, skuli tilgreina nákvæmlega hvar og með hvaða hætti upplýsingarnar séu aðgengilegar.

Samkvæmt 1. mgr. 18. gr. upplýsingalaga skal veita aðgang að gögnum á því formi eða sniði og á þeim tungumálum sem þau eru varðveitt á, nema þau séu þegar aðgengileg almenningi, sbr. 2. mgr. 19. gr. laganna. Í 2. málsl. 1. mgr. 18. gr. segir svo að séu gögn eingöngu varðveitt á rafrænu formi geti aðili valið á milli þess að fá þau á því formi eða útprentuð á pappír. Í máli þessu kemur því til álita hvort 2. málsl. 1. mgr. 18. gr. leiði til þess að aðili hafi val um form umbeðinna gagna þegar þau eru þegar aðgengileg almenningi.

Í athugasemdum við 18. gr. í frumvarpi því er varð að upplýsingalögum nr. 140/2012 segir að séu upplýsingar þegar aðgengilegar almenningi, til dæmis á vef stjórnvaldsins eða á annarri vefslóð, sé almennt fullnægjandi að vísa á upplýsingarnar þar.

Með hliðsjón af framangreindu er það mat úrskurðarnefndar um upplýsingamál að 2. málsl. 1. mgr. 18. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 verði ekki túlkaður á þá leið að ákvæðið leggi þá skyldu á stjórnvöld að afhenda gögn á því formi sem aðili óskar eftir þegar þau eru þegar aðgengileg almenningi, sbr. 2. mgr. 19. gr. laganna og úrskurði nefndarinnar nr. 598/2015, 675/2017 og 896/2020. Herjólfi ohf. var því heimilt að afgreiða beiðni kæranda um aðgang að umbeðnum upplýsingum með því að vísa á vef félagsins þar sem unnt er með einföldum hætti að nálgast þær.

Samkvæmt framangreindu er það niðurstaða úrskurðarnefndar um upplýsingamál að kæranda hafi ekki verið synjað um aðgang að upplýsingum um nöfn og stöðu starfsmanna Herjólfs ohf. miðað við 1. febrúar 2020. Verður því þessum hluta kærunnar vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð

Staðfest er ákvörðun Herjólfs ohf., dags. 26. júní 2020, um að synja beiðni kæranda, A, um aðgang að upplýsingum um menntun starfsmanna félagsins.

Kæru A, dags. 20. febrúar 2020, er að öðru leyti vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.


Hafsteinn Þór Hauksson
formaður

Kjartan Bjarni Björgvinsson

Sigríður Árnadóttir

Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira