Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 30/2020 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 30/2020

Miðvikudaginn 26. ágúst 2020

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Anna Rut Kristjánsdóttir lögfræðingur.

Með rafrænni kæru, móttekinni 17. janúar 2020, kærði A til úrskurðarnefndar velferðarmála synjun Tryggingastofnunar ríkisins frá 15. janúar 2020 á umsókn kæranda um ellilífeyri sjómanna og tengdar greiðslur. 

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 20. desember 2019, sótti kærandi um snemmtöku ellilífeyris sjómanna og tengdar greiðslur hjá Tryggingastofnun ríkisins. Með bréfi, dags. 15. janúar 2020, tilkynnti stofnunin kæranda að umsókn hans um ellilífeyri sjómanna hefði verið synjað.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 17. janúar 2020. Með bréfi, dagsettu 22. janúar 2020, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 14. febrúar 2020, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 17. febrúar 2020. Með bréfi, dags. 8. júlí 2020, óskaði úrskurðarnefnd velferðarmála eftir nánari skýringum frá kæranda. Svar barst frá kæranda með tölvupósti þann 21. júlí 2020. Frekari athugasemdir bárust ekki.

 

II.  Sjónarmið kæranda

Af kæru má ráða að kærandi óski eftir að ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 15. janúar 2020, um að synja honum um ellilífeyri sjómanna verði endurskoðuð. Í kæru segir að kærandi hafi verið sjómaður í yfir 30 ár og samanlagður tími hans á sjó sé nálægt 4.800 dögum, þar af stór hluti þess tíma á bátum undir 12 brúttólestum. Hann hafi verið á sjó alla sína starfsævi fyrir utan sex ár sem hann vann í landi. Þar sem hann þurfi að vera búinn að vera 4.500 daga á sjó skilji hann ekki af hverju hann hafi fengið neitun.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærð sé ákvörðun stofnunarinnar um synjun á umsókn um ellilífeyri sjómanna.

Með bréfi, dags. 15. janúar 2020, hafi Tryggingastofnun synjað umsókn kæranda um ellilífeyri sjómanna þar sem kærandi hafi ekki uppfyllt það skilyrði að hafa verið lögskráður á skip eigi færri en 180 daga á ári að meðaltali í 25 ár.

 

Samkvæmt 17. gr. laga um almannatryggingar nr. 100/2007 eigi þeir rétt til ellilífeyris sem náð hafi 67 ára aldri og hafi verið búsettir hér á landi, sbr. I kafla, að minnsta kosti þrjú almanaksár frá 16 til 67 ára aldurs. Full réttindi ávinnist með búsetu hér á landi í að minnsta kosti 40 almanaksár frá 16 til 67 ára aldurs. Sé um skemmri tíma að ræða reiknist réttur til ellilífeyris í hlutfalli við búsetutímann.

 

Í 8. og 9. mgr. 17. gr. laganna sé fjallað um ellilífeyri sjómanna. Þar segi að hver, sem stundað hafi sjómennsku í 25 ár eða lengur, skuli eiga rétt á töku ellilífeyris frá og með 60 ára aldri, enda sé að öðru leyti fullnægt skilyrðum þeirrar greinar. Starfsár sjómanna skuli í þessu sambandi miðast við að sjómaður hafi verið lögskráður á íslenskt skip eða skip gert út af íslenskum aðilum eigi færri en 180 daga að meðaltali í 25 ár. Nánari ákvæði um framkvæmd skulu sett með reglugerð.

 

Nú hafi sjómaður stundað sjómennsku í 25 ár eða lengur að hluta eða öllu leyti á opnum báti eða þilfarsbáti undir 12 brl. eða af öðrum ástæðum ekki borið skylda til lögskráningar og sé þá heimilt að úrskurða honum ellilífeyri frá og með 60 ára aldri, enda sé sannað að sú sjómennska hafi verið aðalstarf viðkomandi á meðan á henni stóð.

 

Kærandi hafi sótt um ellilífeyri sjómanna með rafrænni umsókn, dags. 20. desember 2019. Með umsókn hafi fylgt gögn frá Samgöngustofu um lögskráningardaga kæranda og einnig skattframtöl kæranda vegna tekjuáranna 1974 til og með 1993 sem einnig hafi sýnt lögskráningardaga kæranda.

 

Samkvæmt innsendum gögnum hafi kærandi stundað sjómennsku með hléum frá árinu 1973. Um sé að ræða 32 ár sem kærandi hafi stundað einhverja sjómennsku samkvæmt gögnunum. Tryggingastofnun hafi tekið saman alla lögskráningardaga kæranda á þessum árum og sett upp í töflur. Á þeim 32 árum sem kærandi hafi stundað sjómennsku hafi lögskráningardagar hans verið 4.645 dagar.

 

Í 17. gr. laga um almannatryggingar segi að starfsár sjómanna skuli miðast við að sjómaður hafi verið lögskráður á skip eigi færri en 180 daga á ári að meðaltali í 25 ár eða hafi með öðrum orðum náð 4.500 lögskráningardögum á 25 ára tímabili. Til þess að ákvarða þetta líti Tryggingastofnun til 25 sóknarmestu áranna af þessum 32 árum og séu þá lögskráningardagarnir 4.418 dagar eða 176,7 dagar að meðaltali á ári.

 

Samkvæmt framansögðu uppfylli kærandi ekki skilyrðið um 180 lögskráningardaga að meðaltali í 25 ár og því hafi kæranda verið synjað um ellilífeyri sjómanna.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 15. janúar 2020, þar sem umsókn kæranda um ellilífeyri sjómanna og tengdar greiðslur var synjað. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort kærandi eigi rétt á greiðslu ellilífeyris sjómanna.

Samkvæmt 8. mgr. 17. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar skal hver, sem stundað hefur sjómennsku í 25 ár eða lengur, eiga rétt á töku ellilífeyris frá og með 60 ára aldri, enda sé að öðru leyti fullnægt skilyrðum greinarinnar. Starfsár sjómanna skal í þessu sambandi miðast við að sjómaður hafi verið lögskráður á íslenskt skip eða skip gert út af íslenskum aðilum eigi færri en 180 daga að meðaltali í 25 ár.

Samkvæmt 9. mgr. 17. gr. laganna segir að nú hafi sjómaður stundað sjómennsku í 25 ár eða lengur að hluta eða öllu leyti á opnum báti eða þilfarsbáti undir 12 brl. eða af öðrum ástæðum ekki borið skylda til lögskráningar og er þá heimilt að úrskurða honum ellilífeyri frá og með 60 ára aldri, enda sé sannað að sú sjómennska hafi verið aðalstarf viðkomandi á meðan á henni stóð.

Af gögnum málsins verður ráðið að kærandi hefur stundað sjómennsku með hléum frá árinu 1973. Samkvæmt gögnum frá Samgöngustofu var kærandi lögskráður sjómaður á 23 ára tímabili, frá X til X með hléum, svo og samfleytt frá árinu X til X, auk ársins 2019.

Samkvæmt skattframtölum kæranda sinnti hann sjómennsku samfleytt frá árinu X til ársins 1980. Skattframtölin sýndu einnig fram á sjómennsku kæranda á árunum X til X. Árin X og X var kærandi hvort tveggja með skráða lögskráningardaga og skráða sjómennsku samkvæmt skattframtölum.

Af gögnum málsins verður ráðið að mat Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn kæranda fór þannig fram að miðað var við skráða lögskráningardaga þar sem þeir voru til staðar. Skattframtöl kæranda voru metin með þeim hætti að horft var til fjölda daga sem viðkomandi var á sjó. Voru þeir metnir út frá frádráttarliðum í skattframtölum kæranda þar sem fram kom að sjómannafrádráttur miðaðist við slysatryggingu hjá útgerð í ákveðið margar vikur á ári sem og frádrátt vegna daga sem fæði var greitt á sjó. Á árunum X til X taldi Tryggingastofnun ríkisins 1.640 sjódaga hjá kæranda, mest árið X þegar metnir voru 272 dagar en minnst árið X þegar metnir voru 52 dagar.

Úrskurðarnefnd velferðarmála leggur sjálfstætt mat á öll fyrirliggjandi gögn málsins.

Úrskurðarnefndin kallaði eftir því að kærandi legði fram frekari skýringar og gögn sem varpað gætu ljósi á þá staðhæfingu kæranda að sjódagar hans væru nálægt 4.800 talsins. Kærandi vísaði þá til skattframtala og stöðuskráningar sjómanns hjá Samgöngustofu yfir lögskráningardaga sína sem þegar höfðu legið fyrir við mat Tryggingastofnunar ríkisins. Úrskurðarnefndin getur ekki fallist á að af þeim gögnum verði ráðið að sjódagar kæranda séu 4.800 talsins, heldur telur úrskurðarnefndin ljóst af gögnum málsins að þeir séu færri en 4.500, sé litið til sóknarmestu 25 ára kæranda á sjó á tímabilinu X til X. Nefndin telur að við ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins á skráðum dögum samkvæmt stöðuskráningu sjómanns frá Samgöngustofu, sem og sjódögum samkvæmt skattframtölum kæranda, hafi stofnunin metið fyrirliggjandi gögn kæranda til hagsbóta svo sem frekast var unnt. Þrátt fyrir það nær kærandi ekki því skilyrði 8. mgr. ákvæðisins um að lögskráðir dagar skuli hafa verið að minnsta kosti 180 dagar að meðaltali í 25 ár.

Þá kemur til skoðunar hvort kærandi uppfylli skilyrði 9. mgr. 17. gr. laganna.

Kærandi byggir á því í kæru að sjódagar hans séu nálægt 4.800 talsins og þar af sé stór hluti sjódaga hans á bátum undir 12 brúttólestum. Af gögnum málsins má ráða að lögskráningardagar kæranda á bátum undir 12 brúttólestum séu jafnframt skráðir í gögnum Samgöngustofu yfir lögskráningardaga sjómanns. Úrskurðarnefndin telur að ákvæði 9. mgr. 17. gr. eigi aðeins við um sjódaga sem ekki hefur verið unnt að skrá með lögformlegum hætti, enda mælir ákvæðið fyrir um undantekningu sem túlka ber þröngt. Úrskurðarnefndin telur því að lagaskilyrði séu ekki uppfyllt til þess að beita 9. mgr. 17. gr. laganna um tilvik kæranda. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur samkvæmt framansögðu að afgreiðsla Tryggingastofnunar á umsókn kæranda um ellilífeyri sjómanna hafi verið í samræmi við 8. mgr., sbr. 9. mgr. 17. gr. laga um almannatryggingar.

Að framangreindu virtu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu ellilífeyris sjómanna frá 15. janúar 2020, staðfest.

 

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 15. janúar 2020 um synjun á umsókn A, um ellilífeyri sjómanna, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

                                                                                                                                                                                             Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira