Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 452/2024-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 452/2024

Fimmtudaginn 14. nóvember 2024.

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 22. september 2024, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 16. september 2024, um að setja greiðslur atvinnuleysisbóta til hans á bið.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun 29. ágúst 2024. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 16. september 2024, var kæranda tilkynnt að umsókn hans hefði verið samþykkt en með vísan til þess að hann ætti ótekinn biðtíma frá fyrri umsókn yrðu bætur ekki greiddar fyrr en sá tími væri liðinn.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 22. september 2024. Með bréfi, dags. 25. september 2024, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst 21. október 2024 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 22. október 2024. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hafa hlotið viðurlög frá Vinnumálastofnun og greitt skuldina með afborgunum til sýslumannsins á Selfossi. Kærandi eigi fjölskyldu og telji að ákvörðun Vinnumálastofnunar sé ósanngjörn. Hann voni að viðurlögunum verði ekki bætt við ákvörðun stofnunarinnar.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi verið skráður atvinnulaus hjá Vinnumálastofnun á árunum 2022 til 2024. Þann 27. mars 2024 hafi kæranda verið gert að sæta viðurlögum í þrjá mánuði á grundvelli 1. mgr. 59. gr. og 1. mgr. 61. gr. laga um atvinnuleysistryggingar með vísan til ótilkynntrar dvalar hans erlendis. Kæranda hafi þann 17. ágúst 2023 verið gert að sæta biðtíma í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 59. gr. með vísan til ótilkynntrar vinnu hans í maí 2023. Í júní 2024 hafi kærandi óskað eftir að vera afskráður sem atvinnuleitandi hjá stofnunninni frá 1. júní 2024 þar sem hann hefði verið kominn í tímabundna vinnu.

Kærandi hafi aftur sótt um greiðslu atvinnuleysisbóta með umsókn, dags. 29. ágúst 2024. Með erindi, dags. 16. september 2024, hafi kæranda verið tilkynnt að umsókn hans hefði verið samþykkt. Útreiknaður bótaréttur kæranda hafi verið 100%. Kæranda hafi jafnframt verið tilkynnt um ótekin viðurlög frá fyrri umsókn hans um atvinnuleysisbætur. Ótekin viðurlög hafi verið 1,76 mánuðir og kæranda hafi verið tilkynnt um að greiðslur atvinnuleysisbóta myndu hefjast að þeim tíma liðnum. Í erindi til kæranda hafi ranglega verið fullyrt að ótekin viðurlög væru vegna ákvörðunar, dags. 16. september 2024. Þá hafi jafnframt komið fram að kærandi væri í ráðningsambandi til 30. september 2024 hjá B.

Þann 3. október 2024 hafi kæranda verið send leiðrétt ákvörðun þar sem fram hafi komið að ótekinn biðtími væri byggður á ákvörðun frá 27. mars 2024.

Lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir, sbr. 1. gr. laganna.

Fjallað sé um kærufrest til úrskurðarnefndarinnar í 5. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála. Þar segi að kæra skuli berast úrskurðarnefnd velferðarmála skriflega innan þriggja mánaða frá því að aðila máls hafi verið tilkynnt um ákvörðun. Kærufrestur vegna viðurlagaákvörðunar, dags. 27. mars 2024, hafi því verið liðinn þegar kæra hafi borist nefndinni í október 2024. Umsögn Vinnumálastofnunar muni því einblína á þá niðurstöðu stofnunarinnar að biðtími eftir greiðslum atvinnuleysistrygginga hafi haldið áfram að líða þegar kærandi hafi aftur sótt um greiðslur atvinnuleysistrygginga.

Mál þetta varði þá ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 16. september 2024, að kærandi skuli sæta eftirstöðvum viðurlaga þegar hann hafi sótt um greiðslur atvinnuleysisbóta að nýju þann 29. ágúst 2024. Líkt og fyrr segi hafi kæranda verið gert að sæta þriggja mánaða viðurlögum í mars 2024. Þegar kærandi hafi verið afskráður í júní 2024 hafi hann ekki tekið út biðtíma samkvæmt ákvörðun stofnunarinnar. Þegar kærandi hafi aftur sótt um greiðslur atvinnuleysistrygginga í ágúst 2024 hafi eftirstöðvar viðurlaga verið 1,76 mánuðir.

Í 1. mgr. 61. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé kveðið á um ítrekunaráhrif í þeim tilvikum þegar atvinnuleitanda sé í annað sinn gert að sæta viðurlögum. Ákvæði sé svohljóðandi:

„Sá sem hefur sætt viðurlögum skv. 57.–59. gr. eða biðtíma skv. 54. og 55. gr. og eitthvert þeirra tilvika sem þar greinir á sér stað að nýju á sama tímabili skv. 29. gr. skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að þremur mánuðum liðnum frá þeim degi er ákvörðun Vinnumálastofnunar um ítrekunaráhrif liggur fyrir enda hafi hann fengið greiddar atvinnuleysisbætur skemur en samtals 24 mánuði  á sama tímabili skv. 29. gr. Hafi hinn tryggði fengið greiddar atvinnuleysisbætur í samtals 24 mánuði eða lengur á sama tímabili skv. 29. gr. þegar atvik sem lýst er í 1. málsl. á sér stað skal hinn tryggði ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann uppfyllir skilyrði 31. gr.“

Í lögum um atvinnuleysistryggingar sé kveðið á um nokkur tilvik þar sem biðtími eða viðurlög samkvæmt lögunum falli niður eða frestist. Þannig sé meðal annars kveðið á um í 3. mgr. 59. gr. laganna að taki hinn tryggði starfi sem sé ekki hluti af vinnumarkaðsaðgerðum meðan á biðtíma samkvæmt 1. mgr. standi falli viðurlögin niður eftir að hinn tryggði hafi starfað í að minnsta kosti hálfan mánuð áður en hann sæki aftur um atvinnuleysisbætur enda hafi hann sagt starfinu lausu eða misst það af gildum ástæðum. Þá segi í 3. mgr. að vari starfið í skemmri tíma, hann hafi sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna eða misst það af ástæðum sem hann eigi sjálfur sök á haldi viðurlögin áfram að líða þegar hinn tryggði sæki aftur um atvinnuleysisbætur, sbr. einnig 61. gr. Slíka heimild sé ekki að finna í 61. gr. sem fjalli um ítrekunaráhrif þegar atvinnuleitandi sæti viðurlögum í annað sinn. Þar af leiðandi hafi viðurlög hans haldið áfram að líða þegar hann hafi sótt um atvinnuleysisbætur að nýju með umsókn, dags. 29. ágúst 2024.

Þá sé í 5. mgr. 61. gr. kveðið á um að ítrekunaráhrif samkvæmt ákvæðinu falli niður þegar nýtt tímabil samkvæmt 29. gr. hefjist, sbr. 30. eða 31. gr. laganna. Kærandi hafi ekki áunnið sér rétt til nýs tímabils samkvæmt 29. gr. þegar hann hafi aftur sótt um greiðslur atvinnuleysistrygginga í ágúst 2024.

Með vísan til framangreindra lagaákvæða sé ljóst að kæranda hafi borið að sæta eftirstöðvum ótekinna viðurlaga þegar hann hafi sótt um greiðslur atvinnuleysisbóta að nýju þann 29. ágúst 2024.

Með vísan til alls framangreinds sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að rétt hafi verið staðið að ákvörðun í máli kæranda og að eftirstöðvar viðurlaga hans skuli halda áfram að líða frá umsóknardegi þann 29. ágúst 2024.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 16. september 2024, um að setja greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda á bið.

Með ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 27. mars 2024 var réttur kæranda til atvinnuleysisbóta felldur niður í þrjá mánuði á grundvelli 1. mgr. 57. gr., sbr. 1. mgr. 61. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar með vísan til ótilkynntrar dvalar hans erlendis. Kærandi var afskráður af atvinnuleysisskrá 1. júní 2024 eða áður en þriggja mánaða viðurlagatíma lauk. Kærandi sótti á ný um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 29. ágúst 2024. Umsókn kæranda var samþykkt 16. september 2024 en tekið var fram að bætur yrðu ekki greiddar fyrr en ótekinn biðtími frá fyrri umsókn væri liðinn.

Í 5. mgr. 61. gr. laga nr. 54/2006 kemur fram að ítrekunaráhrif samkvæmt ákvæðinu falli niður þegar nýtt tímabil samkvæmt 29. gr. hefjist, sbr. 30. eða 31. gr. laganna. Í 29. gr. laga nr. 54/2006 er kveðið á um að sá sem teljist tryggður samkvæmt lögunum geti átt rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta samfellt í 30 mánuði frá þeim degi er Vinnumálastofnun tók við umsókn hans um atvinnuleysisbætur nema annað leiði af lögunum. Biðtími eftir greiðslu atvinnuleysisbóta samkvæmt X. kafla telst hluti tímabilsins sem og sá tími er viðurlög samkvæmt XI. kafla standa yfir. Í 4. mgr. 29. gr. laganna kemur fram að tímabilið samkvæmt 1. mgr. haldi áfram að líða þegar hinn tryggði sækir að nýju um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar eftir að hafa starfað í skemmri tíma en 24 mánuði á innlendum vinnumarkaði frá því að hann fékk síðast greiddar atvinnuleysisbætur. Þá segir í 31. gr. laga nr. 54/2006 að nýtt tímabil samkvæmt 29. gr. hefjist þegar hinn tryggði sækir að nýju um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar eftir að hafa starfað samfellt á innlendum vinnumarkaði í að minnsta kosti 24 mánuði frá því að hann fékk síðast greiddar atvinnuleysisbætur.   

Samkvæmt gögnum málsins hafði kærandi ekki, þegar umsókn hans barst Vinnumálastofnun þann 29. ágúst 2024, starfað í 24 mánuði á innlendum vinnumarkaði frá því að hann fékk síðast greiddar atvinnuleysisbætur. Kærandi hafði því ekki áunnið sér rétt til nýs bótatímabils samkvæmt 31. gr. laga nr. 54/2006 og því hélt allur ótekinn biðtími vegna eldri viðurlaga áfram að líða þegar hann skráði sig atvinnulausan að nýju 29. ágúst 2024.

Með vísan til framangreinds er hin kærða ákvörðun staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 16. september 2024, um að setja greiðslur atvinnuleysisbóta til A, á bið, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta