Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 360/2024-Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 360/2024

Miðvikudaginn 16. október 2024

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 6. ágúst 2024, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvarðanir Vinnumálastofnunar, dags. 7. júní 2024 og 26. júlí 2024, um að fella niður rétt hennar til atvinnuleysisbóta í tvo og þrjá mánuði.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun 2. maí 2024. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 7. júní 2024, var kæranda tilkynnt að umsókn hennar um atvinnuleysisbætur hefði verið samþykkt en með vísan til starfsloka hjá fyrrum vinnuveitanda væri réttur til atvinnuleysisbóta hins vegar felldur niður í tvo mánuði á grundvelli 54. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. Mál kæranda var tekið fyrir að nýju hjá Vinnumálastofnun í kjölfar beiðni frá kæranda. Með ákvörðun stofnunarinnar, dags. 14. júní 2024, var fyrri ákvörðun staðfest.

Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 17. júlí 2024, var kæranda tilkynnt að réttur hennar til atvinnuleysisbóta væri felldur niður í þrjá mánuði á grundvelli 1. mgr. 58. gr., sbr. 1. mgr. 61. gr. laga nr. 54/2006 þar sem hún hefði ekki mætt á boðaðan fund hjá stofnuninni. Mál kæranda var tekið fyrir að nýju hjá Vinnumálastofnun og var ákvörðunin afturkölluð.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 6. ágúst 2024. Með bréfi, dags. 7. ágúst 2024, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst 5. september 2024 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 11. september 2024. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru greinir kærandi frá því að hafa búið á Íslandi í um sjö ár, alltaf verið í einni eða fleiri vinnum og borgað skatt. Þegar heimsfaraldur Covid-19 hafi skollið á hafi kærandi misst báðar vinnur sínar og verið atvinnulaus í fyrsta sinn. Kærandi hafi þá verið á atvinnuleysisbótum hjá Vinnumálastofnun í um fimm mánuði. Kærandi hafi svo fengið vinnu hjá B og í kjölfarið skráð sig af atvinnuleysisbótum. Eftir nokkra mánuði í starfi hafi fyrirtækið ákveðið að fækka starfsfólki og kærandi þá misst vinnuna. Hún hafi því orðið atvinnulaus að nýju og farið aftur á atvinnuleysisbætur. Kærandi hafi síðar verið ráðin í hlutastarf hjá C. Í desember 2021 hafi kærandi fengið fullt starf hjá D og skráð sig af atvinnuleysisbótum. Kærandi bendi á að hún hafi aldrei ofnotað bætur frá Vinnumálastofnun.

Þann 1. febrúar 2024 hafi kærandi ákveðið að hætta störfum hjá D eftir þrjú ár sem verslunarstjóri. Ástæður uppsagnarinnar hafi verið þær að kærandi hafi upplifað einelti, að verið væri að nota hana og grafa undan henni. Kærandi sé gyðingur og síðasta hálfa árið í starfi hafi fólk snúist gegn henni. Hún hafi einnig glímt við mikla streitu þar sem erfitt hafi verið að fá frí. Kærandi hafi alltaf þurft að vinna á meðan aðrir stjórnendur hafi verið í tveggja og þriggja vikna fríum. Þá hafi í tvígang verið ráðist á kæranda þar sem viðskiptavinir hafi öskrað á hana. Enginn á vinnustað kæranda hafi hjálpað henni eða rætt við hana eftir atvikin. Þá hafi kærandi heyrt óviðeigandi brandara og fleiri leiðinlega hluti á starfsmannafundum. Kærandi hafi því ákveðið að hætta störfum.

Þann 3. maí 2024 hafi kærandi sótt um atvinnuleysisbætur að nýju. Þann 7. júní 2024 hafi Vinnumálastofnun tilkynnt kæranda að umsókn kæranda hefði verið samþykkt en með vísan til starfsloka hennar væri réttur hennar til atvinnuleysisbóta felldur niður í tvo mánuði. Það sé kæranda óskiljanlegt að fulltrúum Vinnumálastofnunar hafi verið sama um ástæður uppsagnar hennar. Kærandi greini frá því að stofnunin hafi ákveðið að greiða ítölskum vini hennar fullar atvinnuleysisbætur frá fyrsta degi eftir að hafa sagt starfi sínu lausu þar sem hann hafi viljað „skipta um starf fyrir annað“. Kærandi bendi einnig á að mjög erfitt sé að starfa í veitingageiranum en allir þurfi á tekjum að halda. Kæranda líði illa yfir ákvörðun Vinnumálastofnunar og hafi beðið stofnunina um að endurskoða málið. Hún hafi verið svipt réttindum sínum og nauðsynjum.

Þann 20. júní 2024 hafi kærandi verið boðuð á upplýsingafund á þjónustuskrifstofu Vinnumálastofnunar, dags. 21. júní 2024. Kærandi hafi hins vegar átt að mæta í atvinnuviðtal á fundardag. Hún hafi því sent Vinnumálastofnun tölvupóst um að hún kæmist ekki á fundinn vegna atvinnuviðtalsins. Vinnumálastofnun hafi síðar óskað eftir skýringum á fjarveru kæranda. Tveimur vikum síðar hafi kæranda verið tilkynnt um viðurlög í formi þriggja mánaða biðtíma eftir atvinnuleysisbótum þar sem hún hefði ekki mætt á boðaðan fund hjá stofnuninni. Kæranda líði eins og hún hafi engin réttindi og eftir sjö ár á Íslandi sé fjárhagsstaða hennar mjög slæm.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi sótt um atvinnuleysisbætur þann 2. maí 2024. Í umsókn kæranda hafi komið fram að hún hefði sjálf sagt upp starfi sínu hjá D. Í nánari skýringum með ástæðum starfsloka hafi hún tekið fram atriði er hafi varðað starfsskilyrði, launakjör og samskipti við samstarfsfólk. Með erindi, dags. 28. maí 2024, hafi verið óskað eftir að kærandi skilaði frekari skýringum á starfslokum sínum hjá D. Auk þess hafi verið óskað eftir vottorði frá vinnuveitanda um starfstímabil og ástæður uppsagnar. Frekari skýringar á starfslokum hafi borist frá kæranda þann 6. júní 2024. Í skriflegum skýringum hafi kærandi vísað til viðmóts yfirmanna, annara verkstjóra, vinnuálags vegna veikinda annara starfsmanna og takmarkaðra möguleika til frítöku. Þá hafi kærandi jafnframt vísað til atviks sem hafi leitt til þess að henni hafi verið gefin viðvörun af yfirmönnum. Hún hafi sagt að ástæður uppsagnar sinnar væru að miklu leyti vegna meðhöndlunar yfirmanna á því atviki. Kærandi hafi jafnframt skilað afriti af uppsögn sinni og starfslokasamningi sem hún og atvinnurekandi hefðu gert sín á milli.

Með erindi, dags. 7. júní 2024, hafi umsókn kæranda verið samþykkt og útreiknaður bótaréttur verið 100%. Með vísan til starfsloka hafi henni þó verið tilkynnt að skýringar hennar hefðu ekki verið metnar gildar og að réttur hennar til greiðslu atvinnuleysisbóta yrði því felldur niður í tvo mánuði samkvæmt 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi hafi óskað eftir að málið yrði tekið fyrir að nýju með beiðni, dags. 13. júní 2024. Þann 14. júní 2024 hafi henni verið tilkynnt með erindi að málið hefði verið tekið fyrir að nýju og að fyrri ákvörðun hefði verið staðfest.

Með erindi, dags. 20. júní 2024, hafi kærandi verið boðuð á upplýsingafund á þjónustuskrifstofu Vinnumálastofnunar. Kærandi hafi ekki mætt á boðaðan upplýsingafund og með ákvörðun stofnunarinnar, dags. [17.] júlí 2024, hafi kæranda verið tilkynnt um [þriggja] mánaða biðtíma eftir greiðslum samkvæmt 1. mgr. 58. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Ákvarðanir Vinnumálastofnunar um biðtíma vegna starfsloka annars vegar og viðurlög á grundvelli 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar hins vegar hafi verið kærðar til úrskurðarnefndar velferðarmála þann 6. ágúst 2024.

Beiðni um endurskoðun á máli kæranda hafi borist 14. ágúst 2024. Sökum yfirsjónar hafi mál er hafi varðað fjarveru kæranda á skyldufund verið tekið til umfjöllunar að nýju þrátt fyrir að ákvörðun hefði verið skotið til úrskurðarnefndarinnar. Í kjölfar endurskoðunar hafi hin kærða ákvörðun, er varði viðurlög á grundvelli 1. mgr. 58. gr., sbr. 61. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar, verið afturkölluð. Kæranda hafi þann sama dag verið sent erindi og tilkynnt um að fyrri ákvörðun væri afturkölluð.

Þar sem ákvörðun um viðurlög á grundvelli 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar hafi þegar verið afturkölluð muni umsögn þessi einskorðast við ákvörðun stofnunarinnar um biðtíma eftir greiðslum samkvæmt 54. gr. laganna.

Lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir, sbr. 1. gr. laganna.

Tilgangur laga um atvinnuleysistryggingar sé að tryggja þeim sem tryggðir séu og misst hafi fyrra starf sitt tímabundna fjárhagsaðstoð í þrengingum sínum. Lögin veiti þeim fjárhagslegt úrræði og beri að gera ríkar kröfur til þeirra sem segi upp störfum sínum að hafa til þess gildar ástæður samkvæmt lögunum, enda eigi almennt ekki að þiggja atvinnuleysisbætur í stað þess að gegna launuðu starfi.

Í 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé kveðið á um þau tilvik þegar starfi sé sagt upp án gildra ástæðna. Þar segi orðrétt:

,,Sá sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum en hefur sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá móttöku umsóknar um atvinnuleysisbætur, sbr. þó 4. mgr. Hið sama gildir um þann sem missir starf sitt af ástæðum sem hann sjálfur á sök á.“

Orðalagið ,,gildar ástæður“ hafi verið túlkað þröngt og fá tilvik hafi verið talin falla þar undir. Í athugasemdum við 1. mgr. 54. gr. í greinargerð með frumvarpi því er hafi orðið að lögum um atvinnuleysistryggingar komi fram að með ákvæði þessu sé verið að undirstrika það markmið vinnumarkaðskerfisins að stuðla að virkri atvinnuþátttöku fólks. Í ljósi þess sé ekki gefinn kostur á að fólk segi upp starfi sínu til að fá greiddar atvinnuleysisbætur án þess að sérstakar ástæður liggi að baki uppsögninni í tilvikum þar sem annað starf sé ekki í boði. Þar sé jafnframt sérstaklega tekið fram að það sé erfiðleikum bundið að skilgreina nákvæmlega í lögum og reglugerðum hvaða ástæður, sem liggi að baki uppsögn, séu gildar, þar sem þær ástæður geti verið af margvíslegum toga. Í ljósi þess að um matskennda ákvörðun sé að ræða sé Vinnumálastofnun falið að meta hvernig atvik og aðstæður þess máls er fyrir henni liggi falli að umræddri reglu. Vinnumálastofnun beri að líta til almennra reglna og málefnalegra sjónarmiða við ákvarðanir um hvort umsækjendur um atvinnuleysisbætur skuli sæta biðtíma eftir bótum.

Fyrir liggi að kærandi hafi sagt upp störfum sínum hjá D. Ágreiningur í málinu snúi að því hvort ástæður kæranda fyrir uppsögn í starfi sínu teljist gildar í skilningi framangreinds ákvæðis 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Úrskurðarnefnd velferðarmála hafi í fyrri úrskurðum sínum talið að almennt beri að gera ríkar kröfur til atvinnuleitanda þegar metið sé hvort ástæður fyrir uppsögn séu gildar samkvæmt 1. mgr. 54. gr. laganna.

Þær skýringar sem kærandi hafi veitt Vinnumálastofnun á ástæðu uppsagnar hennar í starfi hafi lotið að starfskilyrðum, kjarasamningsbundnum réttindum hennar og samskiptum við yfirmenn og aðra samstarfsmenn. Þá hafi kærandi jafnframt kveðið að viðbrögð yfirmanna og meðhöndlun á atviki sem hafi leitt til áminningar í starfi hafi verið stór ástæða fyrir uppsögn hennar. Í slíkum tilvikum hafi í framkvæmd verið gerð sú krafa til launamanna að þeir nýti sér öll tiltæk úrræði til úrbóta, svo sem að leita til síns stéttarfélags eða tryggja sér annað starf, áður en þeir ákveði að segja starfi sínu lausu. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi kærandi ekki leitað úrbóta hjá atvinnurekanda né aðstoðar stéttarfélags. Þá hafi kærandi ekki tryggt sér annað starf áður en hún hafi sagt starfi sínu lausu. Það sé því afstaða Vinnumálastofnunar að kærandi skuli sæta biðtíma á grundvelli 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Með vísan til alls framangreinds sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi skuli vegna starfsloka sinna hjá D sæta tveggja mánaða biðtíma eftir greiðslum atvinnuleysisbóta á grundvelli 1. mgr. 54. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

IV.  Niðurstaða

Kærðar eru ákvarðanir Vinnumálastofnunar annars vegar um að fella niður rétt kæranda til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 54. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar og hins vegar um að fella niður rétt kæranda til atvinnuleysisbóta í þrjá mánuði á grundvelli 1. mgr. 58. gr., sbr. 1. mgr. 61. gr. sömu laga.

Fyrir liggur að Vinnumálastofnun afturkallaði ákvörðun sína frá 17. júlí 2024 um að fella niður rétt kæranda til atvinnuleysisbóta í þrjá mánuði á grundvelli 1. mgr. 58. gr., sbr. 1. mgr. 61. gr. laga nr. 54/2006. Kæranda var tilkynnt um afturköllunina með bréfi stofnunarinnar, dags. 14. ágúst 2024. Ákvörðun Vinnumálastofnunar um að fella niður rétt kæranda til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 54. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar kemur því aðeins til álita.

Ákvæði 1. mgr. 54. gr. laganna er svohljóðandi:

„Sá sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum en hefur sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá móttöku umsóknar um atvinnuleysisbætur, sbr. þó 4. mgr. Hið sama gildir um þann sem missir starf af ástæðum sem hann á sjálfur sök á.“

Óumdeilt er að kærandi sagði upp starfi sínu hjá D en ágreiningur málsins lýtur að því hvort ástæður hennar fyrir uppsögninni hafi verið gildar í skilningi 1. mgr. 54. gr. laga nr. 54/2006. Í athugasemdum við 1. mgr. 54. gr. laga nr. 54/2006 í frumvarpi til laga um atvinnuleysistryggingar kemur fram að það sé erfiðleikum bundið að takmarka þau tilvik sem geti talist til gildra ástæðna í lögum og reglugerðum þar sem ástæður þess að fólk segi störfum sínum lausum eða missi þau geti verið af margvíslegum toga. Því sé lagt til að lagareglan verði áfram matskennd og Vinnumálastofnun falið að meta atvik og aðstæður hverju sinni. Stofnuninni beri að líta til almennra reglna og málefnalegra sjónarmiða við ákvarðanir um hvort umsækjendur um atvinnuleysisbætur skuli sæta biðtíma eftir atvinnuleysisbótum. Jafnframt er bent á að um íþyngjandi ákvörðun sé að ræða. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að ráða megi af framangreindu að almennt beri að gera nokkuð ríkar kröfur til atvinnuleitanda þegar metið er hvort ástæður fyrir uppsögn séu gildar samkvæmt 1. mgr. 54. gr. laga nr. 54/2006.

Kærandi hefur gefið þær skýringar að hún hafi sagt upp starfi sínu þar sem hún hafi upplifað einelti, að verið væri að nota hana og grafa undan henni. Hún hafi glímt við mikla streitu þar sem erfitt hafi verið að fá frí. Þá hafi í tvígang verið ráðist á kæranda þar sem viðskiptavinir hafi öskrað á hana. Enginn á vinnustað kæranda hafi hjálpað henni eða rætt við hana eftir atvikin. Þá hafi kærandi heyrt óviðeigandi brandara og fleiri leiðinlega hluti á starfsmannafundum. Af hálfu Vinnumálastofnunar hefur komið fram að af gögnum málsins verði ekki séð að kærandi hafi leitað úrbóta hjá atvinnurekanda né aðstoðar stéttarfélags. Þá hafi kærandi ekki tryggt sér annað starf áður en hún hafi sagt starfi sínu lausu.

Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála verður ekki séð að kærandi hafi leitað allra tiltækra úrbóta áður en hún sagði starfi sínu lausu, svo sem með því að ræða við vinnuveitanda eða leita til síns stéttarfélags. Þá telur nefndin málefnalegt að gera þá kröfu til launþega að þeir segi ekki upp starfi sínu nema við ýtrustu nauðsyn þegar annað starf er ekki í hendi. Að mati nefndarinnar liggur slíkt ekki fyrir í tilviki kæranda og er því ekki um að ræða gildar ástæður fyrir uppsögn í skilningi 54. gr. laga nr. 54/2006. Kærandi átti því ekki rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en að tveimur mánuðum liðnum frá móttöku umsóknar hennar um atvinnuleysisbætur, sbr. 1. mgr. ákvæðisins.

Ákvörðun Vinnumálastofnunar um að fella niður rétt kæranda til greiðslu atvinnuleysisbóta í tvo mánuði er því staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 7. júní 2024, um að fella niður rétt A, til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta