Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 1/1997

Álit kærunefndar jafnréttismála í málinu nr. 1/1997

Á fundi kærunefndar jafnréttismála fimmtudaginn 17. júlí 1997 var samþykkt svohljóðandi niðurstaða í máli þessu:

I.

Með bréfi dags. 30. desember 1996 óskaði konan A, jarðefnafræðingur og deildarstjóri jarðefnafræðisviðs og rannsóknastofu í jarðefnafræði hjá Orkustofnun eftir því við kærunefnd jafnréttismála að hún kannaði og tæki afstöðu til þess hvort ráðning í stöðu framkvæmdastjóra orkurannsóknasviðs á Orkustofnun bryti gegn ákvæðum laga nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, jafnréttislaga.

Kærunefnd óskaði eftirfarandi upplýsinga frá orkumálastjóra:

1. Fjölda og kyn þeirra sem sóttu um stöðuna.

2. Menntun og starfsreynslu þess sem ráðinn var, ásamt upplýsingum um aðra sérstaka hæfileika hans, sbr. 8. gr. jafnréttislaga.

3. Fjölda og kyn yfirmanna á Orkustofnun.

4. Afrits af auglýsingu um starfið.

5. Starfslýsingar fyrir starfið.

6. Annað það sem orkumálastjóri teldi til upplýsinga fyrir málið.

Greinargerð orkumálastjóra er dags. 28. janúar 1997. Henni fylgdi m.a. afrit af umsókn þess sem ráðinn var, skipurit yfir stofnunina ásamt drögum að nýju skipuriti og drög að starfslýsingu fyrir framkvæmdastjóra orkurannsóknasviðs. Yfirlit yfir fræði- og ritstörf A og þess sem ráðinn var, hafa verið lögð fram. Athugasemdir kæranda við greinargerð orkumálastjóra eru dags. 26. febrúar. Kærandi hefur jafnframt lagt fram greinargerðir dags. 13. maí og 9. júní ásamt fylgigögnum og orkumálastjóri tvær greinargerðir dags. 13. maí og bréf ásamt fylgiskjölum dags. 28. maí og 18. júní. Kærunefnd jafnréttismála aflaði upplýsinga frá kirkju, mennta- og rannsóknaráðuneyti Noregs um prófgráðu þeirra einstaklinga sem málið varðar. Kærandi og orkumálastjóri mættu á fund nefndarinnar 2. maí 1997.

II.

Í Morgunblaðinu 24. nóvember 1996 voru auglýstar lausar til umsóknar þrjár yfirmannastöður á Orkustofnun, þ.m.t. staða framkvæmdastjóra orkurannsóknasviðs. Auglýsingunni segir:

"Framundan er skipulagsbreyting á Orkustofnun og verður stofnunin í meginatriðum skipt í orkumálasvið og orkurannsóknasvið. Eftirtalin störf hjá stofnuninni eru laus til umsóknar og verður ráðið í þau frá 1. janúar nk., nema um annað semjist.

Í öllum þremur tilvikum miðast ráðningin við sérfræðingsstarf, en viðkomandi mun falið að gegna hinu auglýsta yfirmannshlutverki í fimm ár í senn. Yfirmenn þessir starfa undir stjórn og í nánu samstarfi við orkumálastjóra. Um er að ræða fjölbreytt og krefjandi störf og er lögð rík áhersla á frumkvæði og sjálfstæði.

Laun eru samkvæmt kjarasamningi ríkisins við það stéttarfélag opinberra starfsmanna sem við á og aðilar sammælast um.

Um stöðu framkvæmdastjóra orkurannsóknasviðs segir:
Verksvið orkurannsóknarsviðs er m.a.:

- Orku- og auðlindarannsóknir á grundvelli verksamninga aðallega á sviði jarðvísinda.

- Markaðsfærsla á þekkingu Orkustofnunar.

- Þróun aðferða og tækja til rannsókna á orkulindum landsins.

Starf framkvæmdastjórans er einkum fólgið í:

- stjórnun og rekstur orkurannsóknasviðs sem sjálfstæðrar einingar,

- gerð verksamninga við orkumálasvið og aðra verkkaupa um orku- og auðlindarannsóknir og 

- faglegri yfirstjórnun á starfi sviðsins.

Krafist er menntunar á sviði náttúruvísinda eða verkfræði og reynslu af rannsóknum á ofangreindu sviði. Ennfremur reynslu af verkefnastjórnun í rannsóknum eða annarri hliðstæðri stjórnunarreynslu.

Umsækjendur um starfið voru fjórir, þrír karlar og ein kona. Í stöðuna var ráðinn maðurinn B, verk- og jarðeðlisfræðingur og deildarstjóri jarðeðlisfræðisviðs Orkustofnunar.

III.

A lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1963 og cand.mag. prófi með jarðfræði, efnafræði og eðlisfræði sem aðalgreinar frá raunvísindadeild Háskólans í Osló árið 1967. Vorið 1970 lauk hún cand. real. prófi frá sama skóla. Hún var rannsóknarstyrkþegi við skólann árið 1970 til 1971 og gistikennari við háskólann í Bristol, Englandi 1973 til 1974. Hún hóf störf á Orkustofnun árið 1971 sem sérfræðingur á jarðhitadeild. Frá árinu 1979 hefur hún starfað sem deildarstjóri jarðefnafræðideildar. Starf hennar felst í yfirumsjón með jarðefnafræðilegum rannsóknum á jarðhitasvæðum og rekstri efnafræðistofu Orkustofnunar.

A var stundakennari við Háskóla Íslands í tvö ár en hefur frá 1973 kennt staka tíma á nokkura ára fresti um sérstök efni í jarðefnafræði. Hún hefur verið dæmd hæf til að gegna dósentstöðu. Á árunum 1978 og 1979 skipulagði hún námsbraut í borholujarðfræði við Háskóla Sameinuðu þjóðanna og þjálfaði þar fyrstu styrkþega skólans. Hún hefur síðan kennt einstök námskeið við skólann og tekið þátt í þjálfun styrkþega í jarðefnafræði.

Í umsókn A um starf framkvæmdastjóra orkurannsóknarsviðs kemur fram að hún eigi að baki langa stjórnunarreynslu. Hún hafi byggt upp og stjórnað margs konar rannsóknarstarfsemi og verið verkefnisstjóri í mörgum þverfaglegum rannsóknarverkefnum sem spanna jarðhitarannsóknir, grunnrannsóknir og almennar jarðefnarannsóknir. Hún hafi verið yfirverkefnisstjóri ríkisverkefna á jarðhitadeild Orkustofnunar um nokkurra mánaða skeið og byggt upp og stjórnað verkefni sem miðar að því að byggja upp vinnslueftirlitskerfi fyrir allar hitaveitur landsins og haft eftirlit með nýtingu jarðhitakerfa hjá hitaveitunum. Verkefni hennar síðustu ár hafi verið uppbygging og stjórnun á stóru verkefni um umhverfisáhrif jarðhita og jarðhitanýtingar í samvinnu Orkustofnunar, Hitaveitu Suðurnesja, Hitaveitu Reykjavíkur, Landsvirkjunar, Veðurstofu Íslands, Háskóla Íslands og umhverfisráðuneytisins.

Með umsókninni er einnig yfirlit yfir rannsóknarstörf A, ritstörf og erindi, nefnda- og félagsstörf, endurmenntun og námskeið. Þar kemur m.a. fram að hún hafi skrifað um 60 greinar í erlend og innlend tímarit og bækur og um 300 skýrslur og greinargerðir um ýmis rannsóknarefni á Orkustofnun. Hún hafi setið í ýmsum faglegum nefndum á vegum heilbrigðis- og tryggingaráðuneytisins og Norrænu ráðherranefndarinnar, í stjórn ýmissa fagfélaga og sé kjörfélagi í Vísindafélagi Íslendinga. Um endurmenntun segir að hún hafi tvívegis dvalið árlangt erlendis við rannsóknarstörf bæði í Noregi og Bretlandi og um tveggja mánaða skeið við rannsóknir og fyrirlestrahald í Japan. Hún hafi sótt ýmis námskeið m.a. í tölvunotkun og umhverfismálum.

B lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1971, B.S. prófi í jarðeðlisfræði frá Háskóla Íslands árið 1976 og cand. real. prófi frá Háskólanum í Bergen árið 1979. Hann lauk doktorsprófi frá sama skóla árið 1985 og fékk leyfi til verkfræðingsnafnbótar tveimur árum síðar.

Í umsókn B um starf framkvæmdastjóra orkurannsóknarsviðs er rakinn starfsferill hans. Hann var stundakennari við Þinghólsskóla, Víghólaskóla og Menntaskólann í Kópavogi á árunum 1971 til 1975, samhliða námi. Hann hóf störf hjá Orkustofnun sem sumarmaður í mælingaflokki árið 1974, var flokksstjóri árið 1975 og sérfræðingur við jarðhitarannsóknir sumrin 1976 til 1978. Frá því hann lauk námi árið 1979 hefur hann starfað á jarðhitadeild Orkustofnunar, fyrst sem verkefnisstjóri í ýmsum meiriháttar verkefnum stofnunarinnar en frá árinu 1985 sem deildarstjóri jarðeðlisfræðideildar. Hefur starf hans þar falist í yfirumsjón með þróun jarðeðlisfræðilegrar mælitækni, leit að heitu vatni fyrir hitaveitur og fiskeldisstöðvar og ráðgjöf til starfandi hitaveitna um boranir og rekstur jarðhitasvæða.

B hefur stöku sinnum verið staðgengill deildarforstjóra. Hann hefur gegnt ýmsum stjórnunarverkefnum í umboði forstjóra jarðhitadeildar og orkumálastjóra, einkum gerð verk- og fjárhagsáætlana. Frá árinu 1995 hefur hann verið fulltrúi Íslands í stjórnarnefndum Joule og Thermie rannsóknaráætlana Evrópusambandsins. Hann hefur verið stundakennari við verkfræði- og raunvísindadeildir Háskóla Íslands flest ár frá 1979.

Með umsókn B fylgdi listi yfir greinar og skýrslur á íslensku og listi yfir greinar á erlendum málum sem hann hefur unnið einn eða ásamt öðrum á starfsferli sínum, alls um 100 fræðigreinar og skýrslur.

Fyrir liggja upplýsingar frá orkumálastjóra um hlutfall kynja í stjórnunarstöðum og sérfræðingsstörfum á Orkustofnun. Samkvæmt þeim eru konur 14% þeirra sem gegna föstum sérfræðingastörfum en karlar 86%. Hlutfall kynja í yfirmannastöðum liggur ekki enn fyrir þar sem ekki hefur verið ráðið í nokkrar fagdeildarstjórastöður í framhaldi af þeim skipulagsbreytingum sem gerðar hafa verið á stofnuninni. Að mati orkumálastjóra eru líkur á að þeir starfsmenn sem þeim störfum gegndu fyrir breytingar, muni gegna þeim áfram. Ætla má því að ein kona muni áfram gegna slíkri yfirmannsstöðu þegar skipulagsbreytingarnar verða að fullu komnar til framkvæmda eða 9 - 10%. Yfirmannastöður á þjónustusviði eru þá ekki meðtaldar. Ef einungis er litið til æðstu yfirmanna, þ.e. orkumálastjóra og forstöðumanna þeirra fjögurra sviða sem stofnunin greinist í samkvæmt þeim drögum að skipuriti sem liggja frammi í málinu, gegna karlar öllum þeim störfum.

IV.

1. Sjónarmið kæranda.

A rökstyður erindi sitt með því að hún telji sig hæfari til að gegna starfi framkvæmdastjóra orkurannsóknasviðs að því er varðar faglegan árangur í starfi. Hún hafi að auki lengri stjórnunarreynslu og hafi stjórnað mun fleiri, fjölbreyttari og umfangsmeiri rannsóknarverkefnum en sá sem ráðinn var. Þessu til stuðnings vísar hún til yfirlits yfir starfsferil sinn sem fram komi í umsókn hennar um starfið og í greinargerð hennar til kærunefndar. Þar komi fram að hún hafi unnið brautryðjandastarf á þessu sviði, skrifað greinar og flutt erindi á fagráðstefnum bæði innanlands og utan sem oft sé vitnað til.

Í auglýsingu um starfið komi fram að verksvið framkvæmdastjóra orkurannsóknarsviðs sé m.a. orku- og auðlindarannsóknir á grundvelli verksamninga, aðallega á sviði jarðvísinda. Hún hafi í samfellt 25 ár unnið að orku- og auðlindarannsóknum á Orkustofnun og þekki þetta svið því mjög vel. Hún hafi stýrt stórum þverfaglegum rannsóknarverkefnum og gert verksamninga um þau við stofnanir og orkufyrirtæki. Í auglýsingunni sé einnig tekið fram að í starfinu felist markaðsfærsla á þekkingu Orkustofnunar. Í starfi sínu hafi hún verið frumkvöðull að kynningu og markaðsfærslu á þekkingu stofnunarinnar, m.a. tekið þátt í átaki fyrir um 10 árum til að koma á samningum við hitaveitur um vinnslurannsóknir og flutt mörg erindi í því skyni vítt og breitt um landið. Hún hafi á starfsferli sínum haft faglega umsjón með þróun aðferða og tækja við jarðhitarannsóknir, grunnvatnsrannsóknir og almennar jarðefnarannsóknir.

Í auglýsingunni komi einnig fram nokkur helstu atriði varðandi starf framkvæmdastjóra. Þar sé nefnd stjórnun og rekstur viðkomandi sviðs, gerð verksamninga við orkumálasvið og aðra verkkaupa um orku- og auðlindarannsóknir og fagleg yfirstjórn. Öll þessi skilyrði uppfylli hún mjög vel. Hún hafi gegnt stjórnunarstöðu á stofnunni í rúm tuttugu ár og stýrt stórum þverfaglegum verkefnum sem byggst hafi á verksamningum.

Að því er varðar menntun þeirra, bendir A á að lokagráða hennar, cand. real. gráða frá Háskólanum í Osló, hafi verið æðsta prófgráða sem hægt hafi verið að taka innan náttúruvísinda þegar hún lauk námi. Nokkrum árum síðar hafi prófgráðum verið breytt við norska háskóla og námskröfur til cand. real. prófs minnkaðar og síðar hafi gráðan verið felld burt. Á þeim tíma er hún lauk námi hafi þetta próf jafngilt doktorsprófi. Þessu til stuðnings bendir hún á mat launadeildar fjármálaráðuneytisins á námi hennar en það mat hafi byggst á niðurstöðu matsnefndar í menntamálaráðuneytinu sem metið hafi próf hennar til stiga er hún hóf störf á Orkustofnun að námi loknu. Einnig hafi hún verið metin hæf til dósentstöðu og verið gistikennari í post. doctorate námi við háskóla á Englandi.

A bendir á að hún hafi verið í forystu ýmissa fagsamtaka sem ekki verið séð að eigi við um B. Hún hafi t.d. verið formaður Jarðfræðafélags Íslands og forseti í norrænu fagsamtökunum Nordisk lerforening. Þá sé hún ein fárra vísindamanna utan Háskóla Íslands kjörfélagi í Vísindafélagi Íslands og eigi sæti í fagráði Rannsóknarráðs Íslands um náttúruvísindi og umhverfisrannsóknir.

Málsmeðferð orkumálastjóra varðandi stöðuveitinguna endurspeglist annars vegar af því, að við mat á umsækjendum hafi verið lögð áhersla á þau faglegu atriði sem talin séu henta B best og hins vegar af því að "skilgreina stöðuveitinguna þannig að hún sé þess eðlis að orkumálastjóri eigi að hafa víðtækt svigrúm til að taka ákvörðun samkvæmt eigin frjálsu mati, þ.e. geðþótta."

Þegar litið sé á hlutfall kvenna og karla í stjórnunarstöðum hjá ríkisstofnunum halli verulega á konur. Skýringum orkumálastjóra er mótmælt og á það bent að þrátt fyrir lágt hlutfall kvenna sem útskrifast frá verk- og raunvísindadeild Háskóla Íslands sé það hlutfall mun hærra en hlutfall kvenna í sérfræðistörfum á Orkustofnun. Konur séu um helmingi of fáar í þeim störfum miðað við framboð sérfræðinga á sviði jarðvísinda og verkfræði. Á undanförnum árum hafi orðið bylting í fjölda kvenna sem útskrifast hafi frá háskólum og tilgangur jafnréttislaga sé m.a. að láta þá byltingu endurspeglast í stöðuveitingum hjá stofnunum þar sem hallar á annað kynið.

Að lokum bendir A á að kærunefnd jafnréttismála hafi á árinu 1991 komist að þeirri niðurstöðu að B væri ekki sjáanlega hæfari en hún til að sinna verkefnum yfirverkefnisstjóra jarðhitadeildar Orkustofnunar. Þótt nú sé um annað starf að ræða sé eðli þeirra svipað og á þeim árum sem liðin eru hafi ekki orðið stórvægilegar breytingar á hæfni þeirra tveggja.

2. Sjónarmið kærða.

Orkumálastjóri mótmælir því að með ráðningu í stöðu framkvæmdastjóra orkurannsóknarsviðs hafi verið brotið gegn jafnréttislögum. Í greinargerð hans til kærunefndar dags. 28. janúar sl. leggur hann áherslu á að starfið sé fyrst og fremst stjórnunar- og rekstrarlegs eðlis en ekki fræðilegt. Þrátt fyrir það verði að gera þá kröfu til þess sem starfinu gegnir að hann hafi sem mesta menntun, breiða, faglega þekkingu og njóti virðingar þess vegna. Við val í yfirmannastöður samkvæmt nýja skipuritinu, hafi hann einnig þurft að hafa í huga þau markmið sem sett voru við endurskipulagningu stofnunarinnar og þá staðreynd að um var að ræða val í forystusveit fyrir kostnaðarsömu og mikilvægu opinberu fyrirtæki. Ekki sé verið að útdeila virðingarstöðum fyrir ötult starf, langa starfsreynslu, vísindaleg afrek eða annað því um líkt, eins og þegar háskólakennarar eru forframaðir úr lægri stöðum í prófessorsembætti. Því geti verið nauðsynlegt að víkja frá þeirri röðun sem þessir mælikvarðar kynnu að setja. Bent er á að forstöðumönnum ríkisstofnana sé falið að reka ríkisfyrirtæki þannig að þau standist samanburð við velrekin einkafyrirtæki. Þetta kalli á nýja hugsun við mannaráðningar.

Fimm matsþættir hafi verið lagðir til grundvallar mati á hæfni umsækjenda. Í fyrsta lagi stjórnunarleg færni og reynsla á umræddu sviði. B og A hafi gegnt stjórnunarstarfi á Orkustofnun um áratuga skeið og stýrt verkefnum hvort á sínu sviði. Enda þótt stjórnunarreynsla A sé lengri, sé ekki rétt að meta stjórnunarreynslu einungis út frá árum heldur einnig árangri. Það hafi verið hans mat sem m.a. byggist á umsögnum annarra að B væri hæfastur umsækjenda að þessu leyti.

Í öðru lagi hafi fagleg menntun, fræðileg færni og rannsóknarreynsla verið lögð til grundvallar. B og A séu bæði með cand. real próf frá Noregi en B hafi þar að auki lokið doktorsnámi. Þeirri fullyrðingu A að menntun þeirra sé sambærileg er mótmælt. Fram komi m.a. í umsögnum norskra fagaðila að svo sé ekki. Bæði hafi verið ötul við rannsóknir og ekki sé rétt í tilvikum sem þessum að leggja einungis til grundvallar fjölda fræðigreina eða skýrslna. Líklegt sé að fræðilegur bakgrunnur þeirra sé áþekkur. Bæði hafi tekið þátt í ýmis konar faglegu félagsstarfi. Að auki verði að hafa í huga að B hafi stundað kennslu við Háskóla Íslands um langa hríð. Niðurstaða hans hafi því verið að B ætti að baki umtalsvert víðfeðmara og dýpra faglegt nám en A og önnur fagleg færni jafni ekki þann mun.

Þriðji matsþáttur sem lagður var til grundvallar hafi verið hæfni til að stýra faglegu starfi með metnaðarfullu starfsfólki og lag við mannleg samskipti. Þótt hér sé um afar huglægan þátt að ræða, þá hljóti hann að skipta miklu við val á umsækjendum í stjórnunarstarf. Einnig hér hafi B verið talinn fremri. Því til stuðnings vísar orkumálastjóri til könnunar á afstöðu starfsmanna til umsækjenda sem fyrirtækið Sinna ehf. hafi framkvæmt. Niðurstaða þeirrar könnunar sé ótvírætt B í vil.

Fjórði og fimmti þáttur hafi verið ætlaður vilji og metnaður við að stuðla að framgangi hins nýja skipulags og líkindi til þess að samstarf við æðstu yfirmenn Orkustofnunar, þar með talið orkumálastjóra, yrði árangursríkt. Orkumálastjóri segir það hafa verið mat sitt að B væri best treystandi til að stuðla að framgangi hins nýja skipulags Orkustofnunar. Hann hafi á margan hátt lagt grunninn að þeirri nýskipan, m.a. með vinnu sinni í nefnd á vegum iðnaðarráðherra á árunum 1988 - 89 og í starfshópi um breytt skipulag sem þáverandi orkumálastjóri skipaði fyrir tveimur árum. Þá hafi hann sjálfur leitað eftir liðveislu B síðastliðið haust vegna undirbúnings mála, kynnst þekkingu hans og skynjað sterkan vilja til að sinna verkefninu í samræmi við hin settu markmið. Enda þótt þekking hans á afstöðu annarra umsækjenda hafi verið minni, þá telji hann mjög líklegt að þau hefðu einnig lagt sig fram. Hann hafi þó með hliðsjón af "reynslu B og ábyrgð á skipulagsmálum" talið hann líklegastan til að koma þessari breytingu farsællega fram. Hið sama eigi við um líkur á árangursríku samstarfi við æðstu yfirmenn Orkustofnunar. Frá því hann tók við starfi orkumálastjóra hafi samskipti hans verið mest við B og verið hin ánægjulegustu. Um aðra hafi því verið erfitt að dæma en hann hafi óttast að samskiptin við A yrðu ekki árekstralaus þó svo hann hafi ekki haft af því eigin reynslu.

Orkumálastjóri kveður niðurstöðu sína því hafa verið að B væri hæfasti umsækjandinn og munurinn á honum og A svo afgerandi að ekki væri hægt að fara að markmiði 5. gr. jafnréttislaga og ráða A í starfið. Þessa niðurstöðu hafi stjórn Orkustofnunar lýst sig sammála á fundi sínum 20. desember 1996.

Orkumálastjóri bendir á að þegar skoðað sé hlutfall kynjanna í stjórnunarstöðum hjá Orkustofnun beri að hafa í huga að í föstum sérfræðingsstörfum séu konur um 14% og svipað hlutfall hafi verið í faglegum yfirmannastöðum eða um 7% og líkur séu á að það hlutfall haldist óbreytt eftir að nýja skipulagið komi að fullu til framkvæmda. Þá beri einnig að líta til þess að mun færri konur en karlar ljúki háskólanámi í náttúruvísindum og verkfræði. Þannig séu einungis um 10% þeirra sem útskrifast hafa sem verkfræðingar frá Háskóla Íslands á síðustu tveimur áratugum konur, tæp 16% þeirra sem útskrifast hafa sem jarðeðlis- eða eðlisfræðingar og rúm 32% þeirra sem útskrifast hafa sem jarðfræðingar.

Þá er þeim rökum kæranda mótmælt að vísa til fyrra máls hennar fyrir kærunefnd jafnréttismála. Þó svo málið varði sömu persónur og sömu stofnun verði að taka á þessu máli algerlega óháð hinu fyrra. Því til stuðnings er bent á að aðrir menn báru ábyrgð á ákvörðunum Orkustofnunar í eldra málinu og kusu að halda uppi takmörkuðum vörnum. Þetta komi skýrt fram í álitsgerð nefndarinnar. Þá verði ekki talið að um svipar stöður sé að ræða, hvorki hvað varðar umfang né hæfniskröfur. Móttmælt er að ekki hafi orðið neinar breytingar á hæfni umræddra tveggja umsækjenda. Fimm ára aukin starfsreynsla þeirra sjálfra og sama viðbót við reynslu starfsmanna og stofnunarinnar af umsækjendum hlýtur að koma við sögu.

V.

Tilgangur jafnréttislaga nr. 28/1991 er að koma á jafnrétti og jafnri stöðu kvenna og karla á öllum sviðum samfélagsins. Margvíslegar skyldur eru lagðar á atvinnurekendur til að ná þessu markmiði. Í 5. gr. laganna segir að atvinnurekendur og stéttarfélög skuli vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði. Sérstaklega skulu atvinnurekendur vinna að því að jafna stöðu þeirra innan fyrirtækja sinna eða stofnana og sjá til þess að störf flokkist ekki í kvenna- og karlastörf.

Skv. 6. gr. laganna er óheimilt að mismuna starfsfólki eftir kynferði og gildir það m.a. um ráðningu, setningu og skipun í starf og um stöðubreytingar. Atvinnurekandi skal, ef máli er vísað til kærunefndar, sýna nefndinni fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans. Í 7. gr. er kveðið á um að öll laus störf skuli standa opin jafnt konum sem körlum.

Í 8. gr. er að finna mikilvægar leiðbeiningar um hvaða þætti beri að leggja til grundvallar mati á hæfni umsækjenda um starf en þar er tilgreind menntun, starfsreynsla og aðrir sérstakir hæfileikar þess sem ráðinn var.

Á árinu 1991 óskaði A eftir því við kærunefnd jafnréttismála að hún kannaði og tæki afstöðu til þess hvort sú ákvörðun þáverandi orkumálastjóra að fela B verkefni yfirverkefnisstjóra vegna leyfis hans frá störfum, væri brot á jafnréttislögum. Þrátt fyrir ítrekuð tilmæli, færði Orkustofnun engin rök fyrir ákvörðun sinni. Nefndin taldi ekki verða séð af fyrirliggjandi gögnum um menntun og starfsreynslu aðila, að B væri hæfari en A til að sinna umræddum verkefnum. Með vísan til þessa og upplýsinga um kynjahlutfall í yfirmannastöðum á stofnuninni, var talið að jafnréttislög hefðu verið brotin. Það mál sem nú er til umfjöllunar varðar sömu einstaklinga. Að öðru leyti er ekki um sambærileg mál að ræða. Til skoðunar nú er ráðning í annars konar stöðu. Mun ítarlegri upplýsingar liggja nú fyrir, m.a. um menntun kæranda og B, en í því máli. Ólík sjónarmið geta legið að baki mismunandi ráðningum og því verður að skoða hvert mál á grundvelli þeirri gagna sem fyrir liggja, þeirra krafna sem gerðar eru til starfsins og aðstæðna að öðru leyti.

Ráðning í stöðu framkvæmdastjóra orkurannsóknasviðs var liður í endurskipulagningu Orkustofnunar. Endurskipulagning eða miklar breytingar á vinnustað geta verið erfiðar í framkvæmd og umdeildar, ekki síst meðal starfsmanna. Markmið endurskipulagningar á Orkustofnun var að laga stofnunina að breyttum aðstæðum þar sem umsvif og umfang verkefna hafði dregist saman. Við mat á hæfni þessara tveggja umsækjenda verður því einnig að taka mið af líklegum möguleikum þeirra til að skapa breytingunum stuðning meðal starfsmanna og koma þeim þannig í framkvæmd án átaka. Þar kann þekking á hinu nýja skipulagi og markmiðum þess að skipta máli.

Af auglýsingu um umrædda stöðu verður ráðið að krafist var bæði stjórnunarlegrar og faglegrar hæfni. Ekki verður fallist á með kæranda að með orðalagi auglýsingarinnar hafi orkumálastjóri dregið taum B, enda fellur auglýsingin vel að menntun og starfsreynslu beggja.

Í greinargerð orkumálastjóra dags. 28. janúar sl. kemur fram að við val á umsækjendum hafi verið horft til hæfni þeirra til að stýra faglegu starfi með metnaðarfullu starfsfólki og lægni í mannlegum samskiptum, ætlaðs vilja og metnaðar við að stuðla að framgangi hins nýja skipulags, líkinda á árangursríku samstarfi við yfirmenn Orkustofnunar, ásamt þáttum eins og stjórnunarlegri færni og reynslu, faglegri menntun, fræðilegri færni og rannsóknareynslu.

A lauk cand. real. prófi frá Háskólanum í Osló en B dr. scient frá Háskólanum í Bergen. Samkvæmt bréfi kirkju-, mennta- og rannsóknaráðuneytis Noregs til kærunefndar jafnréttismála dags. 7. maí sl. var prófgráðum við norska háskóla breytt árið 1977. Fyrir þann tíma var cand. mag. lægri prófgráða, þriggja og hálfs árs nám, og cand. real. hærri prófgráða sem til þurfti tveggja ára viðbótarnám. Árið 1977 voru innleiddar cand. scient. og dr. scient. gráður. Engar breytingar voru gerðar á cand. mag. gráðunni en cand. real. gráðan lögð niður. Í bréfi ráðuneytisins kemur fram að cand. scient. sé eins og hálfs árs nám til viðbótar cand. mag. og að litið sé á þá gráðu sem sambærilega cand. real. gráðunni. Dr. scient. gráða krefst þriggja ára rannsóknarnáms eftir cand. scient. gráðuna. B hefur samkvæmt þessu meiri menntun en A.

Bæði eiga að baki langan starfsferil við verkefnastjórnun og fræðistörf. A hefur stýrt faglegu starfi á Orkustofnun í 20 ár, B í 12 ár. Hún hefur því lengri stjórnunarreynslu en hann. Bæði hafa sinnt fræðistörfum um langt árabil og ritað fjölda fræðigreina og skýrslna. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum eru fræðistörf A umfangsmeiri en B en ekki liggur fyrir samanburður á fræðilegu gildi þeirra.

Kærunefnd telur ekkert hafa komið fram við meðferð málsins sem bendi til annars en að bæði teljist vel hæf til að stýra faglegu starfi með metnaðarfullu starfsfólki, hafi vilja og metnað til að stuðla að framgangi hins nýja skipulags, lægni í mannlegum samskiptum og vilja til árangursríks samstarfs við yfirmenn stofnunarinnar. Ekki verður fallist á það með orkumálastjóra að persónuleg þekking hans á starfi og áreiðanleika eins umsækjanda, eða huglæg afstaða hans til líklegs árangurs þeirra í samstarfi, verði lögð til grundvallar mati á hæfni. Slík sjónarmið eru andstæð tilgangi og markmiði jafnréttislaga og bjóða heim hættu á geðþóttaákvörðunum.

Enda þótt könnun sú sem fram fór á viðhorfi starfsmanna Orkustofnunar til umsækjenda þyki ekki verða lögð til grundvallar niðurstöðu í máli þessu þykir ekkert fram komið sem gerir framkvæmd hennar eða niðurstöðu tortrygginlega.

Fyrir liggur að menntun B er umtalsvert meiri en A. Jafnframt liggur fyrir að þekking hans á þeim skipulagsbreytingum sem verið er að koma á hjá Orkustofnun er meiri en A. Orkumálastjóri hefur fært fram ítarleg rök fyrir vali sínu sem að hluta til byggjast á hlutlægum sjónarmiðum. Með hliðsjón af því og og framangreindu og þrátt fyrir að halli á konur í sérfræðings- og stjórnunarstöðum á Orkustofnun, telur kærunefnd að sýnt hafi verið nægjanlega fram á að önnur atriði en kynferði hafi ráðið vali í stöðu framkvæmdastjóra orkurannsóknasviðs Orkustofnunar, sbr. 2. mgr. 6. gr. jafnréttislaga.

Með vísan til framangreinds er það niðurstaða kærunefndar jafnréttismála að ráðning í stöðu framkvæmdastjóra orkurannsóknasviðs á Orkustofnun brjóti ekki gegn ákvæðum laga nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

 

Sigurður Tómas Magnússon

Gunnar Jónsson

Hjördís Hákonardóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum