Hoppa yfir valmynd
Matsnefnd eignarnámsbóta

Matsmál nr. 2/2023, úrskurður 16. ágúst 2024

Ár 2024 föstudaginn 16. ágúst er í matsnefnd eignarnámsbóta samkvæmt lögum nr. 11/1973 tekið fyrir matsmálið nr. 2/2023

 

Vegagerðin

gegn

Óskari Gunnlaugssyni

Baldri Gunnlaugssyni,

Birni Gunnlaugssyni,

Guðríði Gunnlaugsdóttur,

Hauki Gunnlaugssyni,

Vilborgu Gunnlaugsdóttur

Erni Ingólfssyni,

Guðlaugu Helgu Ingólfsdóttur

Svavari Ingólfssyni,

Svandísi Ingólfsdóttur,

Sigrúnu S. Ingólfsdóttur,

Ástu B. Ingólfsdóttur,

og Gunnlaugi Ingólfssyni.   

 

 

og í því kveðinn upp svohljóðandi

 

ÚRSKURÐUR

 

I

Skipan matsnefndar eignarnámsbóta:

Matsnefnd eignarnámsbóta er í máli þessu skipuð Allani Vagni Magnússyni, varaformanni ad hoc, ásamt Gústaf Vífilssyni, verkfræðingi, og Magnúsi Leópoldssyni, löggiltum fasteignasala, sem formaður kvaddi til starfans samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms.

 

II.

Matsbeiðni, eignarnámsheimild, aðilar og matsandlag:

Með beiðni dagsettri 27. mars 2023 fór Vegagerðin, kt. 680269-2899, Borgartúni 5 – 7, Reykjavík (hér eftir nefnd eignarnemi), þess á leit við matsnefnd eignarnámsbóta að hún legði mat á bætur vegna eignarnáms á spildu og jarðefni úr óskiptu landi jarðarinnar Berufjarðar og Berufjarðar 2.

Eignarnámsheimild er í 37. gr. vegalaga nr. 80/2007.

Eignarnámsþolar eru Óskar Gunnlaugsson [...], Baldur Gunnlaugsson [..], Björn Gunnlaugsson [...], Guðríður Gunnlaugsdóttir [...], Haukur Gunnlaugsson [...], Vilborg Gunnlaugsdóttir [...], Örn Ingólfsson [...], G. Helga Ingólfsdóttir [...], Svavar Ingólfsson [...], Svandís Ingólfsdóttir [...], Sigrún S. Ingólfsdóttir [...], Ásta B. Ingólfsdóttir [...]og Gunnlaugur Ingólfsson [...], þinglýstir eigendur jarðanna Berufjarðar og Berufjarðar 2 í Múlaþingi.

Matsandlagið eru 421.271 fermetrar lands undir veg úr óskiptu landi jarðanna Berufjarðar og Berufjarðar 2. undir vegsvæði Axlarvegar (veganr. 939). Svæðið er 40 metra breið spilda frá Berufjarðarbotni upp á fjallveginn Öxi að svokölluðum Merkjahrygg á vatnaskilum þar sem mætast landamerki óskipts lands Berufjarðarjarðanna og jarðarinnar Vatnsskóga í Skriðsdal. Heildarflatarmál vegsvæðisins nemur 447.968 fermetrum en frá því dragast 26.997 fermetrar af núverandi vegsvæði en eignarnemi telur sig eiganda að 12 metra breiðri spildu í núverandi vegsvæði sem nýtast mun áfram sem hluti heildarvegsvæðis nýs Axlarvegar. Verðmæti eldra vegsvæðis núverandi vegar sem leggst af verður skilað aftur til landeigenda, alls 99.531 m2 (9,95 ha)svæði. Verður það regið frá bótum á lágmarksverði 10 krónnum fyrir fermetrann.

 

Þá er um að ræða eignarnám á 367.000 rúmmetrum malarefnis úr óskiptu land Berufjarðar og Berufjarðar 2 sem tekið verður úr skipulögðum námum og vegskeringum sem liggja utan hins 40 metra breiða svæðis og verður nýtt til uppbyggingar nýs Axlarvegar. Er þar um að ræða 211.000 rúmmetra af fyllingarefni, 147.000 rúmmera af styrktarlagsefni, 3.000 rúmmetra af burðarlagsefni og 6.000 rúmmetra af slitlagasefni. 

 

Málsmeðferð

Við fyrstu fyrirtöku málsins hinn 21. apríl sl. var fært er til bókar að matsnefnd fallist á að lagaheimild sé til eignarnámsins í 37. gr. vegalaga nr. 80/2007, sbr. fyrri málslið 1. mgr. 5. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms og að árangurslaust hafi verið leitað sátta með aðilum um eignarnámsbætur, sbr. 1. málslið 7. gr. laga nr. 11/1973.

Með bréfi dagsettu 24. maí sl. var Allan Vagn Magnússon fyrrverandi dómstjóri settur varaformaður matsnefndar eignarnámsbóta ad hoc til meðferðar máls þessa. Matsnefnd eignarnámsbóta fór á vettvang 14. júní 2023 ásamt lögmönnum aðila eignarnámsþolunum Óskari Gunnlaugsyni, Baldri Gunnlaugssyni og Gunnlaugi Ingólfssyni og Sveini Sveinsyni umdæmisverkfræðingi Vegagerðarinnar og Axel Viðari Hilmarssyni verkfræðingi, og kynnti sér aðstæður.

Á fundi nefndarinnar hinn 27. júní 2023 lagði lögmaður gerðarbeiðanda fram greinargerð sína ásamt tveimur fylgiskjölum sem hafði borist nefndinni 19. júní 2023 og lögmaður eignarnámsþola lagði fram greinargerð sína ásamt fylgiskjölum sem nefndinni bárust 23. júní 2023.

Með bréfi dagsettu 16. júní sl. 2023 kærðu eignarnámsþolar ákvörðun eignarnema um að beita eignarnámi til innviðaráðuneytisins.

Lögmenn aðila óskuðu þess á fyrrnefndum fundi 27. júní 2023 að málinu yrði frestað vegna framkominnar kæru.

Með úrskurði innviðaráðuneytisins hinn 9. júlí sl. var kröfu eignarnámsþola um að fella úr gildi ákvörðun eignarnema um eignarnám frá 17. mars 2023 hafnað.

Að svo komnu máli boðaði formaður til flutnings um sjónarmið aðila varðandi mat á bótum til matsþola og fluttu lögmenn aðila fram sjónarmið þeirra varðandi matið á fundi hinn 15. ágúst sl. og var málið að því búnu tekið til úrskurðar.

 

Sjónarmið eignarnema:

Eignarnemi krefst þess að matsnefnd eignarnámsbóta meti hæfilegar bætur til eignarnámsþola vegna eignarnáms á 421.271 fermetra landi undir veg úr landi Berufjarðar og Berufjarðar. Um sé að ræða 40 metra breitt og u.þ.b. 11,2 kílómetra langt vegsvæði Axarvegar um land jarðanna Berufjarðar og Berufjarðar 2 að frádregnum 26.697 fermetrum lands núverandi vegar sem tilheyri eignarnema. Eignarnemi muni skila 99.531 fermetrum lands til eignarnámsþola að verðmæti 10 krónur hver fermetri þannig að 995.310 krónur dragist frá bótum.

            Enn fremur er krafa um eignarnám á 367.000 rúmmetrum jarðefna úr námu og vegskeringum innan landamerkja óskipts lands Berufjarðarjarðanna, alls 211.000 rúmmetra af fyllingarefni, 147.000 rúmmetra af styrktarlagsefni, 3.000 rúmmetra af burðarlagsefni og 6.000 rúmmetrar af slitlagsefni.

            Þá krefst hann þess að ákveðinn verði hæfilegur málskostnaðar vegna hagsmunagæslu eignarnámsþola miðað við eðli og umfang málsins.

 

1.         Land undir vegsvæði.

Vegsvæðið sem tekið er eignarnámi sé 40 metra breið spilda sem sé 11.200 metrar að lengd.  Vegsvæðið sé alls 447.968 fermetrar en frá því svæði sé dregið núverandi vegstæði sem nýtist áfram 26.697 fermetrar. Samtals sé flatarmál þess lands sem bætt er 421.271 fermetri.  Eignarnemi hafi boðist til að greiða 40 krónur fyrir fermetrann eða samtals 16.850.840 krónur.  Þar sem gamall vegur sé endurbyggður þannig að gamli vegurinn falli innan veglínunnar telur Vegagerðin sig eiga 12 metra breiða spildu. þ.e. 6 metra út frá miðlínu vegar til beggja átta.  Í Hæstaréttardómi nr. 99/1978, svokölluðum „Leirvogstungudómi“ frá 1980 hafi rétturinn komist að þeirri niðurstöðu að Vegagerðin teldist eiga gamla vegstæðið, eða 12 metra breiða spildu lands undir eldri vegi á grundvelli 20 ára óslitins hefðaréttar.  Þessi dómur Hæstaréttar sé viðurkenndur í reynd og hafi matsnefnd eignarnámsbóta lagt þennan skilning til grundvallar í úrskurðum sínum um bætur.  Sömu sjónarmið komi fram í úrskurðum nr. 644/2006 og nr. 388/2002 og einnig í dómi Hæstaréttar nr. 2/2011

            Ákvörðunin bótafjárhæðar vegna óræktað lands 40 krónur fyrir fermetrann taki mið af fyrri samningum málsaðila frá árinu 2017 vegna vegagerðar í landi matsþola um Berufjarðarbotn að teknu tilliti til verðlagsbreytinga frá 2018.  Einnig sé litið til ákvarðana á verðmæti lands undir veg í úrskurðum matsnefndar eignarnámsbóta nr.  16/2019 og  17/2019, sem varða jarðir á Fljótsdalshéraði sem upp voru kveðnir 7. apríl 2022.  Þó verði að líta til þess að í þeim úrskurðum sé fjallað um heimalönd bújarða á Héraði þar sem annars vegar sé stunduð sauðfjárrækt og hins vegar skógrækt þar sem niðurstaðan hafi verið að greiða skyldi 80/ krónur fyrir fermetra.  Í þessu samhengi verði að líta til þess að það land sem þar var tekið undir veg/lagt í eldra vegstæði liggi m.a. um tún og skógarreiti auk vel gróins lands á láglendi.  Því sé eðlilegt að slíkt land sé hærra metið en land í vegstæði Axarvegar, sem liggi fjarri bæjarstæði Berufjarðarjarða, að hluta í bröttum klettahlíðum inn frá botni Berufjarðar. 

            Hinn nýi Axarvegur muni liggja örlítið hækkandi undir hlíð Fossárfells um uppgrónar aurkeilur frá fjallinu og um úthaga um tæplega 3ja kílómetra leið þar sem vegurinn hækki snöggt upp á svokallað Beitivelli sem liggi í um 100 metra yfir sjó.  Þar hafi land fyrir alllöngu verið ræst fram með skurðum, landið þar sé grasi gróið en engin ræktun sé á svæðinu. Á Beitivöllum hafi veglínu verið breytt að ósk ábúanda frá upphaflegri áætlun og vegurinn færður nær fjallshlíðinni, þannig að minnkaður var sá hluti hins framræsta lands sem fellur innan vegsvæðis.  Veglínan hækki síðan upp í 200 m hæð við ána Hemru.  Þaðan hækki veglínan  í 300 metra hæð ofan við Vagnabrekku. Veglínan hækki svo upp í 400 m hæð innan við Grjótá gegnt Vínárneshjöllum sunnan Berufjarðarár. Miðað við beina loftlínu nemi hækkun veglínunnar í  landinu 300 m á ca. 3,6 km. leið sem næmi jöfnum 12% veghalla.  Veglínan sjálf á þessari 3,6 km. leið sé 4,4 km. að lengd og þjóni lengingin þeim tilgangi að ná hallanum alls staðar niður í 8% hámarks veghalla.  Frá Grjótá hækki veglínan rólega upp í um 500 m hæð á landamerkjum við Marköldu. 

            Í neðangreindri töflu sé að finna lýsingu á gróðurfari í veglínu hins nýja vegar.

Berufjrörður

Tegund lands

M.y.s.

Frá
stöð


stöð

M

Beitland, klapparbríkur og -hjallar, gróið að hluta 520-400 15360 18700 3340
Beitland, brattar klapparbríkur og -hjallar, gróið að mestu 400-300 18700 20000 1300
Beitland, brattar klapparbríkur og -hjallar, gróið að mestu 300-200 20000 21200 1200
Beitland, brattar klapparbríkur og -hjallar, gróið að mestu 200-100 21200 21300 100
Beitiland, fullgróið en klappir hér og þar við yfirborð 200-100 21300 22600 1300
Beitland, brattar klapparbríkur og -hjallar, gróið að mestu 200-100 22600 22780 180
Framræst túnlendi 200-100 22780 22850 70
Beitiland, fullgróið en klapparás að hluta við yfirborð 200-100 22850 23060 210
Framræst túnlendi 100-90 23060 23400 340
Beitland, brattar klapparbríkur og hjallar, gróið að mestu 90-60 23400 23800 400
Beitland um skriðuorpnar fjallsrætur, gróið og að hluta grýtt 60-5 23800 25100 1300
Botn Berufjarðar, núverandi vegur 5 25100 26700 1600
SAMTALS metrar vegalengd - Berufjörður       11340

 

Um gróðurfar á vegsvæðinu frá 400 – 500 m hæðar yfir sjó segi svo:

  1. „Melar eru algengir í þessari hæð. Víða er grunnt á klöpp, Svarðlag er almennt þunnt og gróðurþekja rýrari. Þar af er mosi áberandi.“

    Um gróður neðar í landinu seg svo:

  2. „Gróðurfar verður almennt gróskumeira og svarðlag þykkara eftir því sem neðar dregur. Hlíðar eru sums staðarvel grónar lyngi og nokkuð er um deiglendi eða votlendi ofan á hjöllum.Þýfi er sums staðar ofan á hjöllum fjær hömrum.Klappir eru að hluta vel vaxnar mosa.“

Í fyrr tilvitnuðum úrskurðum matsnefndar eignarnámsbóta hafi sem fyrr segir verið metið gróið land í byggð á láglendi.  Einu sjáanlegu beinu notin sem höfð verði af vegsvæði Axarvegar séu sem beitiland fyrir sauðfé. Undirlendi  sé mjög lítið sunnan Berufjarðaár þar til kemur upp á Beitivelli og stutt þar inn af þar sem sé lítils háttar sléttlendi sem vegurinn muni liggja um.  Berufjarðardalurinn sé mjög þröngur eftir að komið sé inn fyrir jörðina Melshorn í botni fjarðarins og möguleikar á sérstakri landnýtingu vandséðir.  Ákvörðun um tilboð að fjárhæð 40 krónur fyrir fermetra lands byggi á námundun milli áætlaðs verðmætis gróins lands og ógróins, fyrri samninga aðila um bætur fyrir land í Berufjarðarbotni, með hliðsjón af niðurstöðum matsnefndar eignarnámsbóta í hliðstæðum málum og að teknu tilliti til verðlagsþróunar.  Eignarnemi telur boð sitt sanngjarnt og í samhljómi við þær meginlínur sem lesa megi út úr fyrri samningum, almennri framkvæmd og úrskurðum matsnefndar eignarnámsbóta. Um gæði og notagildi þess lands er meta skal er annars vísað til vettvangsgöngu matsnefndar eignarnámsbóta og málsaðila og lögmanna þeirra þann 14. júní sl. þar sem glöggt hafi mátt sjá og kynna sér alla landkosti.

 

2.         Eldra vegsvæði sem skilað er.

Skilað sé til landeigenda 99.531 fermetrum af eldra vegsvæði sem falli utan hins nýja vegar.  Eignarnemi reiknar verð þess lands 10/ krónur fyrir fermetra og sé uppreiknað verðmæti þess lands dregið frá bótum vegna lands sem nýtt verði undir hinn nýja veg.  Þessi fjárhæð hafi um alllangt skeið verið viðmiðun vegna lands sem skilað sé vegna breyttrar veglínu og hafi ekki tekið verðlagsbreytingum um alllangt skeið.

 

3.         Efnistaka til vegagerðar

Frá því landeigendum var gert tilboð um bætur vegna endurbyggingar Axarvegar í óskiptu landi Berufjarðarjarðanna hafi eignarnemi endurskoðað tilboðið og uppfært verð á efnisflokkum m.a. með hliðsjón af úrskurðum matsnefndar eignarnámsbóta, fyrri samningum  og með tilliti til verðlagsþróunar og hækkað boð sitt sem því nemur.

 

3.1.      Fyllingarefni

Fyllingarefni sé óflokkað og óunnið efni sem nýtt sé til fyllingar í uppbyggingu vega þar sem sérstakra efnisgæða, umfram það að efnið sé frostfrítt.  Tilboð vegna fyllingarefnis er hækkað úr  35 krónum fyrir rúmmetra frá tilboðsbréfi í 40 krónur.  Greiðsla fyrir ætlað efnismagn sem sé 211.000 fyrir rúmmetra hækki í 8.440.000 krónur.

 

3.2.      Styrktarlagsefni

Styrktarlagsefni sé flokkað efni, grófara en fyllingarefnið og ætlað til að auka styrk undirlags vegarins.  Við verðlagningu styrktarlagsefnis í tilboði hafi m.a. verið litið til fyrri samninga við matsþola og verðlagsþróunar og tilboðið hækkað úr 100 krónum fyrir rúmmetra sem greinir í tilboðsbréfinu og nemi nú 115 krónum.  Áætlað efnismagn sé 147.000 rúmmetrar að andvirði 16.905.000 krónur.

 

3.3.      Burðarlagsefni

Tilboð varðandi burðarlagsefni hafi verið 125 krónur fyrir rúmmetra er hækkað í 150 krónur fyrir rúmmetra og er áætlað að 3.000 rúmmetrar þess efnis verði unnir úr skeringum utan 20 m frá vegarmiðju. Litið sé til fyrri samninga við matsþola og úrskurða matsnefndar eignarnámsbóta og tekið mið af verðlagsþróun. Burðarlagsefnið þurfi að vinna úr sprengigrjóti og verði aðeins nýtt til vegagerðar við Axarveg.  Þá beri einnig að athuga að efni úr skeringum verði eðli máls samkvæmt ekki nýtt frekar eftir að vegagerð lýkur.  Áætlað efnismagn sé 3.000 rúmmetrar að andvirði 450.000 krónur.

 

3.4.      Slitlagsefni

Efni til slitlags sem er áætlað 6.000 rúmmetrar verði allt tekið úr efnisnámu við Háöldu.  Við verðtilboðið 175 krónur fyrir rúmmetra hafi verið litið til fyrri samninga við matsþola og aðra viðsemjendur, en einnig til fyrrnefndra tveggja úrskurða frá 2019.  Þetta verð sé óbreytt frá tilboði með hliðsjón af öðrum samningum um sams konar efni.  Áætlað efnismagn sé 6.000 rúmmetrar að andvirði 1.050.000 krónur.

 

Heildarandvirði jarðefna skv. leiðréttu tilboði eignarnema nemi 26.845.000 krónum.

 

3.5.     Röskun og óhagræði ábúanda í Berufirði.

Í tilboðsbréfi Vegagerðarinnar frá 13. maí 2022 hafi ábúanda verið boðnar 1.200.000 krónur vegna röskunar og óhagræðis vegna framkvæmdarinnar.  Hafi verið litið til nokkurra atriða sem einkum hafi í för með sér röskun og óhagræði fyrir ábúanda á framkvæmdatímanum, sem muni verða alllangur.  Miklar sprengingar verði í vegstæðinu og sumum námum við uppbyggingu vegarins.  Vegagerðin frá Berufjarðarbotni upp að landamerkjum á Marköldu þar sem Axarvegur fer hæst sé öll í landi Berufjarðarjarðanna og séu 10 efnisnámur á landi jarðanna, þar af þrjár stórar námur á láglendi inn af fjarðarbotni.  Búast megi við mikilli umferð þungavinnuvéla á svæðinu auk vélagnýs frá grjótmulningsvélum og öðrum tækum í námum.  Þá sé viðbúið að þessar miklu framkvæmdir hafi áhrif á hagagöngu sauðfjár á Öxi.

Í réttarframkvæmd hafi sú meginregla verið talin gilda við ákvörðun fjárhæðar eignarnámsbóta að miða beri bætur við sölu- og markaðsvirði eignar, nema útreikningur á grundvelli notagildis eignar leiði til hærri niðurstöðu en ætlað sölu- eða markaðsverð. Markaðsvirði bújarða á Austurlandi sé fremur lágt á landsvísu en staðsetning eignar og möguleikar á nýtingu sveifli verðmiðanum mjög.  Berufjarðarjarðirnar teljist liggja fremur afskekktar frá þéttbýli og undirlendi sé fremur lítið í fjarðarbotninum og Berufjarðardalurinn upp á Öxina mjög þröngur og þar nánast ekkert undirlendi. Þá beri að líta til þess að efnisnám á jörðinni liggi utan „markaðssvæða“.  Eini líklegi kaupandi jarðefna í Berufjarðarbotni sé eignarnemi, sem með Axarvegi ljúki malartöku þar í fyrirsjáanlegri framtíð.  Öðrum aðilum virðist ekki til að dreifa sem líklegum kaupendum.  Berufjarðardalurinn sé eina landsvæðið úr jörðunum Berufirði og Berufirði 2 sem verði fyrir áhrifum af Axarvegi.  Aðrir hlutar jarðarinnar á láglendi liggi utan áhrifasvæðis hans. Í því samhengi sé rétt að líta til úrskurðar matsnefndar eignarnámsbóta nr. 2/2011 varðandi jörðina Hjarðarhaga á Jökuldal í Múlaþingi þar sem segi svo:

„Fallist er á það með eignarnámsþola að fasteignamatsverð lands á landsbyggðinni gefur ekki raunhæfa mynd af markaðsvirði lítilla spilda sem ganga kaupum og sölum úr stærri jörðum.  Allt hið eignarnumda land er gróið land og hluti þess tún. Þá liggur fyrir að trjárækt sem eignarnámsþoli hefur stundað á landinu mun fara forgörðum að hluta til. Aðilar málsins eru sammála um að miða við að 20 hríslur muni eyðileggjast vegna framkvæmda eignarnámsþola. Að áliti matsnefndarinnar eru ekki líkur fyrir því að hið eignarnumda land sé eftirsótt sem sumarhúsaland, sérstaklega þegar litið er til legu þess þétt að núverandi vegi á svæðinu.“

Varðandi þetta sjónarmið um verðmat á landi meðfram vegi sem sé endurbyggður vísast til úrskurðar matsnefndar eignarnánsbóta í máli nr. 10/2008 vegna endurbyggingar Borgarfjarðarvegar eystri og úrsk. nr. 349/2004 vegna endurbyggingar vegar við Þjórsártún.  Þar komi fram að land meðfram vegi þar sem þjóðvegur er fyrir sé metið lægra en land sem liggi utan áhrifasvæðis þjóðvega.

Fasteignamat jarðarinnar Berufjarðar (fastanr. 217-9015) nemi 20.884.000 krónum og útihúsa á jörðinni sem séu sérmetnar (fastanr. 251-2044) nemi 20.090.000 krónum eða samtals 40.974.000 krónum.

Fasteignamat jarðarinnar Berufjarðar 2 (fastanr. 217-8999) nemi 10.556.000 krónum.

Heildarfasteignamat beggja jarðanna og útihúsa nemi því 51.530.000 krónum.

Fasteignamati sé ætlað að spegla sem næst markaðsvirði fasteigna og hafi á undanförnum tveimur áratugum með bættri tölvutækni færst nær því marki en áður.  Útihús á jörðinni Berufirði séu flest byggð á árunum 1962 – 1983 en eitt 123 fermetra fjárhús árið 2002.  Sem bújarðir séu Berufjörður og Berufjörður 2 nú að óbreyttu lítt fallnar til annars búrekstrar en sauðfjárbúskapar og markaður með slíkar jarðir fjarri þéttbýli sé þröngur og virðist freista fárra þannig að sjónarmið um notagildi eignar sem áhrifaþátt í verðlagningu eigi ekki við. 

Tilboð eignarnema um bætur fyrir land  undir vegsvæði hafi hljóðað upp á 16.850.840 krónur eða tæp 33% af fasteignamati jarðanna í heild, þótt heildarflatarmál þess vegsvæðið sem krafist er eignarnáms á nemi aðeins um 42 ha. og liggi nær algerlega utan ræktarlegs hluta landsins.  Til samanburðar megi geta þess að allt ræktað land/tún Berufjarðarjarðanna sé skráð 56 ha. að stærð og fasteignamat þeirra nemur samtals 6.510.000 krónur.  Allt land jarðanna utan ræktuna sé metið til fasteignamats á 4.163.000 krónur. Samanlagt land jarðanna Berufjarðar og Berufjarðar 2, þ.e. allt land ræktað og óræktað, sé metið til fasteignamats á 10.673.000 krónur eða sem nemi 63.3% af tilboði eignarnema.  Þess utan hafi eignarnemi boðist til að greiða 26.845.000 krónur fyrir jarðefni úr landi jarðanna. Samtals nemi leiðrétt boð eignarnema  44.895.840 krónum eða um 87% af heildarfasteignamati jarðanna beggja.  Þessu til viðbótar bjóði eignarnemi 1.200.000 krónur fyrir rask og óhagræði til ábúanda.  Verði ekki annað séð en að tilboð eignarnema fyrir 42 ha. lands og kaup á jarðefnum í óbyggilegum afdal sé ríkulegt. Krafa eignarnema um eignarnám á landi og jarðefnum hafi því verið óhjákvæmilegt og heimil skv. 37. gr. vegalaga nr.11/1973.

Að síðustu er til þess vísað að skv. skýrslu Samgöngustofu fyrir árið 2022 telst Axarvegur vera langhættulegasti veghluti landsins í dreifbýli m.v. ekna kílómetra. Þessi niðurstaða styðji enn frekar þá almannaþörf sem liggi að baki eignarnámsköfu Vegagerðarinnar um að endurbyggja þurfi í heild einn hættulegasta vegarkafla landsins.

 

Sjónarmið eignarnámsþola:

Eignarnámsþolar telja framkomið boð eignarnema um bætur, samtals 44.895.840 krónur vera of lágt og er krafa þeirra að bætur verði ákveðnar samtals 100.000.000 krónur sem sundurliðist þannig:

 

  1. Land undir vegstæði 45.110.000 krónur
  2. Bætur vegna efnis53.690.000 krónur
  3. Bætur v. röskunar og óhagræðis1.200.000 krónur

 

Bætur fyrir hið eignarnumda land.

 

Tilboð Vegagerðarinnar sé um 16.850.840 krónur og grundvallað á rúmmetraverði sem sé 40 krónur.  Af hálfu landeigenda er á því byggt að boðið sé allt of lágt, með tilliti áhrifa vegalagningarinnar á hið eignarnumda land.

 

Eignarréttur að landi sé varinn af 72. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944.  Hann sé friðhelgur og engan megi skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji. Þurfi til þess lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir, samkvæmt stjórnarskrárákvæðinu. Í vegalögum nr. 80/2007 með síðari breytingum sé að finna heimild Vegagerðarinnar til eignarnáms.  Eignarnámsþolar séu andsnúnir eignarnáminu og beri að ákvarða fjárhæð bóta út frá því sjónarmiði að þau fái fullar bætur.

 

Mat á umhverfisáhrifum Axarvegar og Hringvegar um Skriðdal og Berufjarðarbotn, hafi farið fram á árunum 2010-2011, sbr. álit Skipulagsstofnunar frá 15. apríl 2011. Þessar framkvæmdir hafi verið aðgreindar með áföngum og mál þetta snúist eingöngu um Axarveg.  Í áliti Skipulagsstofnunar frá 16. apríl 2011 segi um eftirfarandi um vænt spjöll á landi (niðurstöðukafli á bls. 1):   

„Skipulagsstofnun telur ljóst að helstu neikvæðu áhrif fyrirhugaðra framkvæmda verði áhrifin á stórbrotið og tilkomumikið landslag á 6-7 km kafla í Berufjarðardal.  Skipulagsstofnun telur að um verði að ræða verulega neikvæð áhrif á landslagið vegna umfangs vegarins og óafturkræfni áhrifanna, burtséð frá því hvort að vegur verði lagður skv. veglínu A, C eða E.  Á sumum stöðum verður það svæði sem raskast vegna vegarins meira en 100 m breytt vegna umfangsmikilla skeringa og fyllinga.  Skipulagsstofnun telur ótvírætt að vegna landslagsaðstæðna á svæðinu sé ekki mögulegt að koma fyrir vegamannvirki, af því umfangi sem fyrirhugað er, sem gæti á nokkurn hátt fallið að landslaginu og svo hefði ekki í för með sér varanlegar breytingar á landslagi og ásýnd svæðisins.  Stofnunin telur að þær mótvægisaðgerðir sem Vegagerðin fyrirhugar megni lítið að draga úr neikvæðum áhrifum á landslag á þessu svæði. [...]“

 

Á bls. 10 í sömu umsögn, í kafla 6.1 um áhrif á landslag og sjónræn áhrif, segi:

„.. Fram kemur í kaflanum ofan af Öxi og niður í Berufjarðardal, hafi framkvæmdin í för með sér verulegar breytingar á landslagi.  Til að hægt sé að leggja veg sem uppfylli kröfur í vegstaðli, frá stöð 19000-28500, þar sem um sé að ræða mjög tilkomumikið hjallalandslag þurfi í öllum tilfellum að gera miklar skeringar í hjallabrúnir og hlíðar auk þess að fylla yfir landið neðan við skeringarnar.  Vegagerð í brekkunum niður í Berufjörð muni sjást vel frá botni Berufjarðar, bæði ofan og neðan frá og hafi veruleg sjónræn áhrif, óháð leiðarvali. ...“ 

 

Landsgæði Berufjarðarjarðanna séu algerlega einstök, með tilliti til stórbrotinnar náttúru og útsýnis.  Sú staðreynd að hæsti hluti jarðarinnar liggi nokkuð hátt yfir sjávarmáli sé jafnframt það atriði sem geri jörðina einstaka, auk þess sem halda beri því til haga að jörðin sé vel gróin.  Frá því Skipulagsstofnun ritaði tilvísað álit sitt hafi viðhorf til verðmæta sem felast í náttúrunni breyst með aukinni áherslu á náttúruvernd. Á þeim tólf árum sem liðin séu frá áliti Skipulagsstofnunar hafi fjöldi ferðamanna sem til landsins kemur margfaldast.  Mikill áhugi hafi verið á Austurlandi og gróska í ferðamanniðnaði.  Eftirspurn hafi verið eftir fölum jörðum, þar sem ósnortin náttúra hafi verið helsta aðdráttarafl.

Áhrifum hinnar fyrirhugðu vegarlagningar sé ágætlega lýst í tilvísaðri umsögn Skipulagsstofnunar og vísist til hennar.  Þar sé vægt tekið til orða, þar sem um sá að ræða algerlega einstakt land, eftirminnilegt hverjum þeim sem þar kemur.  Sérstaklega sé áréttað að hið fyrirhugaða vegarstæði sé mjög umfangsmikið og þar sem það sé ekki „ofan í“ núverandi vegarstæði (fjarri því), tvístri það jörðinni og landsnytjum á óhagkvæman hátt.  Jörðin myndi ekki eina heild á sama hátt og í dag og raunar sé það þannig að land sunnan við hinn fyrirhugaða veg verði lítt nýtilegt og aðgengilegt.  Náttúrurask verði hvorutveggja mjög verulegt og óafturkræft, þannig að séð verði eftir um alla framtíð.  Þá verði rekstrarleið búfjár vandamál.   

Að þessu athuguðu telja eigarnámsþolar að fyrrnefnt boð sé allt of lágt og gera kröfu um 46.110.000 krónur í þessum lið, sem þau telja sanngjarna og raunar mjög hóflega kröfu.

Landeigendur telja ekki réttmætt að draga frá bótum skil Vegagerðarinnar á núverandi vegarstæði.  Vegagerðin hafi aldrei greitt fyrir þennan veg, hann hafi verið unninn að mestu í sjálfboðavinnu íbúa á sínum tíma.  Því sé ekki unnt að líta svo á að Vegagerðin sé eigandi vegarins.  Þá sé það þannig að verði nýr vegur að veruleika, þá verði tveir vegir um Öxi í þröngum dal.  Gamla vegarstæðið verði þá lýti á jörðinni í nágrenni nýja vegarins og vafasamt að meta það til fjárgildis.  Með úrskurði Matsnefndar eignarnámsbóta í máli nr. 3/2022 hafi nefndin komist að þeirri niðurstöðu um að það rúmist ekki innan lögbundins hlutverks hennar að taka afstöðu til álitaefna tengdu þessu.

 

Bætur fyrir efni:

Boð Vegagerðarinnar fyrir efni sé samtals 26.845.000 krónur og miðast við eftirfarandi verð:

 

Fyllingarefni:  áætlað magn 211.000 rúmmetrar á 40 krónur fyrir rúmmetrann samtals 8.440.000 krónur.

Styrktarlagsefni:  áætlað magn 147.000 rúmmetrar á 115 krónur fyrir rúmmetrann samtals 16.905.000 krónur.

            Burðarlagsefni:  áætlað magn 3.000 rúmmetrar á 150 krónur fyrir rúmmetrann

samtals 450.000 krónur.

            Slitlagsefni:  áætlað magn 6.000 rúmmetrar á 175 krónur fyrir rúmmetrann

samtals 1.050.000 krónur.

Þessi rúmmetraverð séu ennþá of lág.  Verð jarðefna á markaði sé margfalt hærra, sjá t.d. verðskrár Steypustöðvarinnar og Björgunar því til staðfestu.  Markaðsverð á jarðefnum hafi farið ört hækkandi á undanförnum árum og ekki útlit fyrir annað en að sú þróun muni halda áfram.

Með vísan til þessa krefjast eignarnámsþolar bóta vegna efnistöku sem nemur tvöföldum þeim fjárhæðum sem Vegagerðin hefur boðið, eða 53.690.000 króna.  Verði þessi fjárhæð lækkuð sé krafist enn hærri bóta vegna skerðinga á landi sem því nemur.

Bætur fyrir óhagaræði og rask:

Þær verði að meta að álitum og sé ekki gerð athugasemd við mat Vegagerðarinnar á þessum þætti, 1.200.000 krónur.

 

Niðurstaða matsnefndar:

Eignarnám á spildu úr landi eignarnámsþola í landi Berufjarðarjarðanna er til komið á grundvelli 37 gr. vegalaga í þágu framkvæmda við endurbyggingu og styrkingu Axarvegar á vegakafla milli Berufjarðarbotns og Merkjahryggs sem er á mörkum óskipts lands Berufjarðarjarðanna og Vatnsskóga í Skriðdal. Axarvegur (939) liggur um samnefnda heiði, Öxi. Í dag er vegurinn hlykkjóttur malarvegur en verður eftir framkvæmd tveggja akreina vegur, klæddur bundnu slitlagi og mun liggja frá Skriðdals- og Breiðdalsvegi (95) að tengingu við Hringveg (1) hjá Berufjarðarbrú. Eignarnemi kveður markmið framkvæmdarinnar vera að gera veginn greiðfærari og bæta til muna umferðaröryggi. Vegurinn verði uppbyggður svo snjór safnist síður á hann og þar með aukist líkur þess að hægt verði að hafa hann opinn allt árið, en í dag sé vegurinn lokaður yfir snjóþyngstu mánuðina. Veglínan verði beinni, beygjur ekki eins krappar og langhalli að hámarki 8% í stað 21% nú.

Í réttarframkvæmd hefur sú meginregla verið talin gilda við ákvörðun fjárhæðar eignarnámsbóta að miða beri bætur við sölu- og markaðsvirði eignar, nema útreikningur á grundvelli notagildis eignar leiði á hinn bóginn til hærri niðurstöðu en ætlað sölu- eða markaðsverð, svo og að í undantekningartilvikum geti eignarnámsþoli átt rétt á bótum sem ákvarðaðar eru á grundvelli enduröflunarverðs, sbr. t.d. dóma Hæstaréttar 18. október 2012 í máli nr. 233/2011 og 10. apríl 2014 í máli nr. 802/2013. Með sölu- eða markaðsvirði eignar er átt við það verð sem ætla má að fengist fyrir eignina við sölu hennar. Þegar bætur eru ákveðnar á grundvelli notagildis er leitast við að staðreyna þann líklega arð sem eignin getur gefið af sér á ársgrundvelli að teknu tilliti til endingartíma og vaxta. Þá koma bætur á grundvelli enduröflunarverðs aðeins til greina í undantekningartilvikum, t.d. þeim sjaldgæfu tilvikum þegar svo hagar til að eignarnámsþola er skylt vegna fyrirmæla í lögum að halda áfram tiltekinni starfsemi sem hann hefur stundað á þeirri eign sem hann hefur verið sviptur.

Matsandlagið eru er 40 metra breitt og u.þ.b. 11,2 km langt  svæði undir veg úr óskiptu landi jarðanna Berufjarðar og Berufjarðar og nær frá Berufjarðarbotni upp á fjallveginn Öxi að svokölluðum Merkjahrygg á vatnaskilum þar sem mætast landamerki Berufjarðarjarðanna og jarðarinnar Vatnsskóga í Skriðdal. Frá þessu svæði sem er 447.968 fermetrar ber að draga 26.997 fermetra af núverandi vegstæði en eignarnemi telur sig nú eiganda að 12 metra breiðri spildu í núverandi vegstæði sem nýtast muni áfram sem hluti af heildarvegsvæði nýs Axarvegar. Verðmæti eldra vegsvæðis núverandi vegar sem leggst af verður skilað aftur til landeigenda, alls 99.531 fermetri (9,95 ha), verði dregið frá bótum á lágmarksverði 10 krónum fyrir fermetra. Eignarnámið tekur til spildunnar með öllum gögnum og gæðum í samræmi við úrskurðarframkvæmd matsnefndar eignarnámsbóta.

Þá er um að ræða eignarnám á 211.000 rúmmetrum fyllingarefnis, 147.000 rúmmetrum styrktarlagsefnis, 3.000 rúmmetrum burðarlagsefnis og 6.000 rúmmetrum slitlagsefnis úr skilgreindum námum á landi jarðanna svo og úr skeringum við veginn utan við hið 40 metra breiða vegsvæði sem tekið er eignarnámi.

Við úrlausn máls þessa er til þess að líta að miða ber eignarnámsbætur við sölu- og markaðsvirði eignar, nema sérstakar ástæður standi til þess að reikna bætur á grundvelli notagildis eða enduröflunarverðs en ekki þykir sýnt fram á að það komi til álita um þá spildu sem hér er tekin eignarnámi. Með sölu- eða markaðsvirði er eins og áður greinir átt við það verð sem ætla má að fengist fyrir eignina við sölu hennar. Það er álit nefndarinnar að til staðar sé virkur markaður um kaup og sölu lands á svæðinu. Verður niðurstaða um eignarnámsbætur á grundvelli markaðsverðs matsandlagsins reist á heildstæðu mati, þar sem meðal annars er höfð hliðsjón af fyrirliggjandi gögnum, þeim sjónarmiðum sem greinir í 27. gr. laga nr. 6/2001 með síðari breytingum, úrskurðum matsnefndarinnar sjálfrar í hliðstæðum málum og sérþekkingu sem nefndin býr yfir.

Í fyrsta lagi þarf að ákveða fjárhæð eignarnámsbóta til handa eignarnámsþola fyrir þá landspildu sem fer undir Axarveg. Þarna er um að ræða vel gróið beitiland neðst sem breytist í heiðarland eftir því sem ofar dregur. Fjölbreytni í landslagi gerir það vel fallið til útivistar Telur matsnefndin að tilboð eignarnema, 40 krónur á fermetra, gefi ekki raunhæfa mynd af verðmæti landsins. Það geri ekki heldur það viðmiðunarverð sem krafa eignarnámsþola byggi á, 80 krónur á fermetra. Matsnefndin telur rétt að miða við að verðmæti matsandlagsins nemi 52 krónum á fermetra eða 520.000 krónum á hektara. Bætur ákvarðast því 21.906.092 krónur fyrir 421.271 fermetra lands (421.271 x 52 krónur). Eldra vegsvæði að stærð 99.531 fermetri er skilað til eignarnámsþola og reiknar eignarnemi verð þess 10 krónur fyrir fermetra. Hæfilegar bætur vegna þessa þykja vera 11 krónur fyrir fermetra eða 1.094.861 krónur (99.531 x 11 krónur) sem dragast frá ofangreindri fjárhæð..

Bætur til eignarnámsþola fyrir þennan þátt þykja hæfilega ákvarðaðar 20.811.231 krónur.

Í öðru lagi kemur til álita fyrir matsnefndinni hverjar bætur eignarnámsþolum beri vegna töku jarðefna til framkvæmdanna. Til þess er að líta að við flutning málsins hækkaði eignarnemi boð sitt úr 40 krónum í 50 krónur fyrir hvern rúmmetra fyllingarefnis, úr 115 krónum í 135 krónur fyrir hvern rúmmetra styrktarlagsefnis, úr 150 krónum í 170 krónur fyrir hven rúmmetra burðarlagsefnis og í 200 krónur fyrir hvern rúmmetra slitlagsefnis.

Tilboð eignarnema, 50 krónur fyrir hvern rúmmetra fyllingarefnis gefur ekki raunhæfa mynd af verðmæti efnisins. Það gerir ekki heldur það viðmiðunarverð sem krafa eignarnámsþola byggir á, 80 krónur fyrir hvern rúmmetra. Matsnefndin telur rétt að verðmæti fyllingarefnisins nemi 60 krónum á rúmmetra. Fyrir 211.000 rúmmetra fyllingarefnis þykja hæfilegar eignarnámsbætur vera 12.660.000 krónur (211.000 x 60)

Tilboð eignarnema, 135 krónur fyrir hvern rúmmetra styrktarlagsefnis gefur ekki raunhæfa mynd af verðmæti efnisins. Það gerir ekki heldur það viðmiðunarverð sem krafa eignarnámsþola byggir á, 230 krónur fyrir hvern rúmmetra. Matsnefndin telur rétt að verðmæti styrktarlagsefnis nemi 130 krónum á rúmmetra. Fyrir 147.000 rúmmetra styrktarlagsefnis þykja hæfilegar eignarnámsbætur vera 19.119.000 krónur (147.000 x 130)

Tilboð eignarnema, 170 krónur fyrir hvern rúmmetra burðarlagsefnis gefur ekki raunhæfa mynd af verðmæti efnisins. Það gerir ekki heldur það viðmiðunarverð sem krafa eignarnámsþola byggir á, 300 krónur fyrir hvern rúmmetra. Matsnefndin telur rétt að verðmæti fyllingarefnisins nemi 200 krónum á rúmmetra. Fyrir 3.000 rúmmetra burðarlagsefnis þykja hæfilegar eignarnámsbætur vera 600.000 krónur (3.000 x 200)

Tilboð eignarnema, 200 krónur fyrir hvern rúmmetra slitlagsefnis gefur ekki raunhæfa mynd af verðmæti efnisins. Það gerir ekki heldur það viðmiðunarverð sem krafa eignarnámsþola byggir á, 350 krónur fyrir hvern rúmmetra. Matsnefndin telur rétt að verðmæti slitlagsefnis nemi 240 krónum á rúmmetra. Fyrir 6.000 rúmmetra slitlagsefnis þykja hæfilegar eignarnámsbætur vera 1.440.000 krónur (6.000 x 240)

Samkvæmt þessu þykja bætur vegna töku jarðaefna til vegagerðarinna hæfilega ákvarðaðar 33.819.000 krónur.

Þá er það í þriðja lagi álit matsnefndarinnar að til komi rask og ónæði vegna umsvifa eignarnema á framkvæmdatíma og þykja bætur vegna þessa þáttar hæfilega ákveðnar 1.400.000 krónur.

 

Með hliðsjón af framangreindu þykja hæfilegar eignarnámsbætur til handa eignarnámsþola vera 56.030.231 krónur.

Þá skal eignarnemi greiða eignarnámsþolum 2.671.298 krónur að viðbættum virðisaukaskatti í kostnað vegna reksturs máls þessa fyrir nefndinni eins og greinir í úrskurðarorði.

Þá skal eignarnemi greiða 2.400.000 krónur í ríkissjóð vegna starfa matsnefndar eignarnámsbóta í máli þessu.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Eignarnemi, Vegagerðin, skal greiða eignarnámsþolum, Óskari Gunnlaugssyni, Baldri Gunnlaugssyni, Birni Gunnlaugssyni, Guðríði Gunnlaugsdóttur, Hauki Gunnlaugssyni, Vilborgu Gunnlaugsdóttur, Erni Ingólfssyni, Guðlaugu Helgu Ingólfsdóttur, Svavari Ingólfssyni, Svandísi Ingólfsdóttur, Sigrúnu S. Ingólfsdóttur, Ástu B. Ingólfsdóttur og Gunnlaugi Ingólfssyni 56.030.231 krónu í eignarnámsbætur í máli þessu og 2.671.298 krónur, að viðbættum virðisaukaskatti, í málskostnað.

Þá skal eignarnemi greiða 2.400.000 krónur í ríkissjóð vegna kostnaðar við matsnefnd eignarnámsbóta í máli þessu.

 

 

Allan Vagn Magnússon

 

 

Gústaf Vífilsson                                                                    Magnús Leópoldsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta