Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir á sviði samgöngumála

Úrskurður í máli nr. SRN18050060

Ár 2019, þann 1. febrúar, er í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi
ú r s k u r ð u r
í máli nr. SRN18050060

Kæra X
á ákvörðun
Samgöngustofu



I. Kröfur og kæruheimild

Þann 20. maí 2018 barst ráðuneytinu kæra X (hér eftir nefnd kærendur) vegna ákvörðunar Samgöngustofu (hér eftir nefnd SGS) í máli nr. x/2018 frá 24. apríl 2018. Með ákvörðun Samgöngustofu voru kærendur ekki taldir eiga rétt á frekari bótum til viðbótar þeirri fjárhæð sem WOW air hefði þegar boðist til að greiða vegna tjóns á farangri í flugi WW861 þann 12. apríl 2017 frá Edinborg til Keflavíkur. Kærendur krefjast þess að þau fái bæði bætur vegna tjóns á farangri þeirra beggja sem var í sameiginlegri tösku.

Ákvörðun SGS er kærð til ráðuneytisins á grundvelli 3. mgr. 126. gr. c laga um loftferðir nr. 60/1998.

II. Kæruefni og ákvörðun SGS


WOW air annaðist flug WW861 frá Edinborg til Keflavíkur þann 12. apríl 2017. Að lokinni flugferð kom í ljós að innrituð taska kærenda og farangur sem í henni var hafði orðið fyrir umtalsverðum skemmdum. Er deilt um bótaábyrgð WOW air vegna tjónsins.

Hin kærða ákvörðun er svohljóðandi:

I. Erindi

Þann 22. júní 2017 barst Samgöngustofu (SGS) kvörtun frá X (kvartandi). Kvartandi og eiginkona hans ferðuðust á vegum WOW air (WW) þann 12. apríl 2017 með flugi WW861 frá Edinborg til Keflavíkur. Að lokinni flugferð kom í ljós að innrituð taska kvartanda og farnagur sem í henni var hafði orðið fyrir töluverðum skemmdum. Sendi kvartandi greiðslukvittanir ásamt myndum af hlutum sem höfðu orðið fyrir skemmdum.

Í kvörtuninni kemur fram að WW bauð kvartanda hámarksbætur skv. 2. mgr. 108. gr. loftferðalaga nr. 60/1996, eða 1150 SDR, en kvartandi telur sig eiga rétt á tvöfaldri þeirri upphæð þar sem tjón hafi orðið á hlutum í töskunni sem bæði hafi verið í eigu hans og eiginkonu hans. Vísar kvartandi til Montreal samningsins og dóms Evrópudómstólsins frá 22. nóvember 2012 í máli C410/11 Pedro Espada Sanchez and Others v Iberia Lineas Aereas de Espana SA, máli sínu til stuðnings.

II. Málavextir og bréfaskipti

Samgöngustofa sendi WW kvörtunina til umsagnar með tölvupósti þann 22. júní 2017. Þann 24. júlí 2017 barst umsögn WW. Í umsögninni vísar WW til þess að vegna tjóns sem kann að verða á farangri farþega meðan á loftflutningum stendur, sé bæði í Montreal samningnum og lögum um loftferðir nr. 60/1998 kveðið á um takmarkanir á þeirri fjárhæð sem flugrekendum ber skylda til þess að greiða. Fram kemur að WW samþykki að greiða kvartanda hámarksbætur vegna tjóns á farangri eins og kveðið sé á um í loftferðalögum nr. 60/1998 og Montreal samningunum. Hins vegar hafni WW því að tvöfalda skuli þá upphæð þar sem ekkert liggi fyrri um eignir annars farþega en kvartanda hafi verið í töskunni. Þannig hvíli rík sönnunarbyrði á farþega sem ætli að sanna að farangur hans hafi í raun verið í tösku á vegum annars farþega.

Í umsögn WW kemur ennfremur fram að þótt tveir farþegar nýti sömu tösku fyrir farangur beggja veiti það þeim ekki sjálfkrafa rétt á bótum að upphæð 2.250 SDR. Hver farþegi eigi rétt á hámarksbótum ef hann hafi sannað tjón sitt, ekki sé um að ræða sameiginlegan rétt farþega sem nota sömu farangurstösku. Farþegar geti þannig ekki samnýtt rétt hvors annars til bóta skv. Montreal samningnum.
Kvartandi hafi lagt fram kvittanir fyrir eftirfarandi hlutum:
1. Samsonite case, Fenwick of Newcastle 02/12/16 455.00 GBP
2. Vilbrequin Swinshorts, Vilbrequin London 28/02/2017 180.00 GBP
3. Hermes Belt, Selfridges, 25/02/17 670.00 GBP
4. 2x Hanro underwear, Hanro, 08/02/17 47.25 GBP, stykkið
5. Prada Zip Up, Mr Porter, 24/02/17 515.00 GBP
6. Moncler LS Gaufre jacket, Harvey Nichols 710.00 GBP

Þær kvittanir sem kvartandi hafi sent WW máli sínu til stuðnings, hafi allar verið á nafni kvartanda og staðfesti það að fatnaður og aðrir hlutir hafi verið í eigu hans. Kvartandi hafi gengið út frá því að hámarksbætur fyrir töskuna væru 2.250 (SDR) óháð því hvaða eigur hefðu orðið fyrir skemmdum.

Samgöngustofa sendi kvartanda umsögn WW til athugasemda með tölvupósti þann 3. ágúst 2017. Í svari kvartanda sem barst Samgöngustofu sama dag kemur fram að hlutirnir sem orðið hafi fyrir tjóni, hafi verið í eigu tveggja farþega. Á grundvelli Montreal samningsins og dóms Evrópudómstólsins sem vísað sé til, sé ljóst að takmörkun fjárhæðar eigi við farþega en ekki töskur, þannig að WW beri að greiða kvartanda tvöfalda þá upphæð sem félagið hafi boðist til að greiða.

Þann 16. apríl sl. óskaði Samgöngustofa eftir því að kvartandi sendi Samgöngustofu upphaflega kröfu til WW þar sem tiltekin væru þau verðmæti sem skemmst hefðu, auk þess sem Samgöngustofa óskaði eftir frekari upplýsingum frá kvartanda um hvort kvartandi eða eiginkona hans hefðu átt hlutina sem skemmdust sem og óskað var frekari upplýsinga um þá hluti greiðslukvittanir höfðu ekki fylgt.

Þann sama dag kom kvartandi upphaflegri kröfu sinni til WW á framfæri við Samgöngustofu. Þar kemur fram að kvartandi gerði kröfu vegna eftirfarandi verðmæta:
Samsonite case – 1
1 x Hermes belti – 2
1 x prada cardigan – 3
1 x moncler down jacket – 4
1 x pair coach pants – 5
3 x pair hanro underwear – 6
1 x vilebrequin shorts – 7
1 x sisley toner – 8
1 x sisley moisturiser – 9
pair of tablo socks – 10

Í tölvupósti kvartanda þann 16. apríl sl. Var ennfremur að finna útskýringar á því að hlutir 2, 3, 6, 7 hefðu verið í eigu kvartanda, en að hlutir 4, 5, 8, 9 og 10 hefðu verið í eigu eiginkonu kvartanda

Þann 17. apríl sl. Sendi kvartandi Samgöngustofu greiðslukvittanir vegna 5, 9 og 10, en á þeim kemur ekki fram hver er greiðandi umræddra hluta. Þann 18. apríl sendi kvartandi Samgöngustofu myndir af hlutum 4, 9, 5 og 10. Var þar um að ræða myndir af úlpu, íþróttabuxum, kremi og sokkum.


III. Forsendur og niðurstaða Samgöngustofu


Neytendur flugþjónustu eða aðrir sem hagsmuna hafa að gæta sem telja að flugrekandi, flytjandi, ferðaskrifstofa eða umboðsmaður framangreindra aðila hafi brotið gegn skyldum sínum samkvæmt lögum um loftferðir nr. 60/1998, eða reglugerðum settum á grundvelli þeirra geta beint kvörtun til Samgöngustofu, sbr. 1. mgr. 126. gr. c loftferðalaga. Stofnunin tekur málið til skoðunar í samræmi við ákvæði laganna og stjórnsýslulaga og sker úr ágreiningi með ákvörðun, sbr. 3. mgr. 126. gr. c og 140. gr. loftferðalaga, ef hann verður ekki jafnaður með öðrum hætti. Sú ákvörðun er bindandi.

Í ljósi þess að ágreiningur aðila hefur ekki verið jafnaður er með þessari ákvörðun Samgöngustofu tekin afstaða til ábyrgðar WOW á tjóni kvartanda.

Ágreiningur aðila felst einkum í því að kvartandi telur sig eiga rétt á bótum fyrir tjón tveggja farþega, sbr. 2. mgr. 108. gr. loftferðalaga, en WW telur að ekki hafi verið sýnt fram á að aðrir en kvartandi sjálfur hafi orðið fyrir tjóni og vísar m.a. um það til þess að kvittanirnar sem kvartandi sendi WW hafi allar verið í nafni kvartanda sem staðfesti að allir hlutir og fatnaður hafi eingöngu verið í eigu kvartanda.

Um ábyrgð flytjanda á farangri er kveðið í 104. gr. loftferðalaga nr. 60/1998. Þar kemur fram að flytjandi er „ábyrgur fyrir tjóni sem verður ef innritaður farangur glatast, skemmist eða eyðileggst ef tjónsatburðurinn á sér stað í loftfari, eða meðan innritaður farangur er í vörslum flytjanda, starfsmanna hans eða umboðsmanna. Flytjandi er ekki ábyrgur ef og að því leyti sem tjón á farangri má rekja til eðlislægra galla eða ástands farangurs.“

Þá er í 108. gr. loftferðalaga fjallað um takmarkanir á ábyrgð flytjanda og kemur þar fram í 2. mgr. 108. gr. ábyrgð „flytjanda vegna þess að farangur glatast, eyðileggst, skemmist eða tefst skal takmörkuð við 1.150 SDR vegna hvers farþega, nema farþegi hafi við innritun farangurs sérstaklega tilgreint þá hagsmuni sem tengdir eru við afhendingu farangurs á ákvörðunarstað og greitt umkrafið aukagjald, og gildir þá hið tilgreinda verðmæti sem hámark á ábyrgð flytjanda, nema hann sanni að raunverulegir hagsmunir farþega hafi verið minni.“

Samgöngustofa sér ekki ástæðu til þess að draga í efa þá túlkun á dómi Evrópudómstólsins í máli C410/11 sem fram kemur hjá kvartanda að farþegar geti öðlast sjálfkrafa rétt til bóta vegna tjóns sem þeir verða fyrir á farangri sínum, óháð því undir hvaða nafni farangurinn var í raun innritaður.

Þar ber þó að líta til þess að á grundvelli almennra skaðabótareglna ber tjónþola skylda til þess að sanna tjón sitt. Tekur stofnunin undir með WW að rík sönnunarbyrði hvílir á farþega sem ætlar að sanna að farangur hans hafi í raun verið í tösku á vegum annars farþega.

Með vísan til þeirra gagna sem fyrir liggja í málinu hefur að mati Samgöngustofu ekki verið sýnt fram á með óyggjandi hætti að hlutur 4 (moncler down jacket), 5 (coach pants), 9 (sisley moisturiser) og 10 (tabio socks) hafi verið í eigu eiginkonu kvartanda. Þannig liggja ekki fyrir greiðslukvittanir í nafni eiginkonu kvartanda, né ber útlit hlutanna af myndum að dæma þess greinileg merki að vera í eigu konu frekar en karlmanns.

Með vísan til framangreinds er það mat Samgöngustofu að kvartandi hafi ekki fært fram fullnægjandi sönnur þess að hluti verðmæta þeirra sem skemmdust hafi verið í eigu eiginkonu hans.

Ákvörðunarorð:

Kvartandi og eiginkona hans eiga ekki rétt á frekari bótum til viðbótar þeirri fjárhæð sem WOW hefur boðist til að greiða.

III. Málsástæður kærenda, umsögn SGS og meðferð málsins í ráðuneytinu

Kæra X barst ráðuneytinu með tölvubréfi mótteknu 20. maí 2018.

Í kæru er vísað í Montreal samninginn og áðurnefndan dóm Evrópudómstólsins. Segjast kærendur aldrei hafa verið beðnir um að sanna mismunandi eignarhald þeirra hjóna á farangri í tösku. SGS hafi í tölvupósti þann 16. apríl 2018 beðið um ljósmyndir af skemmdum hlutum sem kærendur hafi sent. Þó virðist sem SGS hafi verið að leita eftir upplýsingum um eiganda hlutanna án þess að biðja beinlínis um það. Kærendur mótmæla niðurstöðu SGS í ljósi þess að þau hafi aldrei verið beðin um að sýna fram á sérstakt eignarhald farangurs. Þá benda kærendur einnig á að þau séu hjón og að í Bretlandi sé það þannig að allar hjúskapareigur séu sameiginlegar. Þá senda kærendur með ítarlegri upplýsingar. Þar er að finna tölvupóst frá Harvey Nichols þaðan sem Moncler jakkinn var keyptur. Eiginmaðurinn keypti jakkann sem gjöf handa konunni sinni. Í tölvupóstinum komi fram að um dömujakka sé að ræða. Kærendur ítreka vonbrigði sín með niðurstöðu SGS og telja að stofnunin hafi hvorki sinnt leiðbeiningarskyldu sinni né heldur rannsakað málið nægilega vel.

Kæran var send SGS til umsagnar með bréfi ráðuneytisins dags. 11. júní 2018.

Umsögn SGS barst ráðuneytinu með bréfi mótteknu 11. júlí 2018. Í umsögninni kemur m.a. fram að aðilar málsins séu sammála um að fleiri en einn farþegi geti átt farangur í sömu tösku og þar af leiðandi bótarétt vegna farangurs í einu og sömu töskunni, sbr. niðurstöðu í máli Evrópudómstólsins nr. C-410/11. Í niðurstöðu þess máls sé þó sérstaklega tekið fram að fara skuli eftir hefðbundnum sönnunarreglum í viðkomandi ríki þegar metið er hvort að farangur í töskunni hafi sannanlega tilheyrt fleiri en einum aðila. Til leiðbeiningar nefni dómurinn að við slíkt mat væri hægt að hafa til hliðsjónar hvort aðilarnir tilheyri sömu fjölskyldu, hvort aðilarnir keyptu miða saman og hvort aðilarnir skráðu sig til innritunar á sama tíma.

Álitaefni málsins snúi að sönnun á því hvaða farangur tilheyrði hvorum farþega. Í niðurstöðu SGS í hinni kærðu ákvörðun taldi stofnunin að sannað væri tjón sem næmi a.m.k. hámarksbótaupphæð skv. 2. mgr. 108. gr. loftferðalaga. Hins vegar taldi stofnunin að kærendur hefðu ekki getað sýnt fram á að hluti af farangri tilheyrði öðrum kærenda og því einungis ákvarðað um hámarks bótarétt til annars farþegans. Nú liggi fyrir ný gögn í málinu um farangur í eigu Michelle Hobby. Þar megi sjá að kærendur keyptu dúnjakka af gerðinni Moncler Gaufre þann 24. Febrúar 2017 að upphæð 710 breskra punda. Upplýsingar frá versluninni sem jakkinn var keyptur í bendi til þess að umræddur dúnjakki hafi verið kvenmannsjakki og ólívulitaður. Í gögnum megi sjá mynd af ólívulituðum dúnjakka sem sé rifinn. Með hliðsjón af framangreindum gögnum telur SGS því að kærendum hafi tekist að færa sönnur á að farangur í töskunni hafi tilheyrt fleiri en einum farþega, þ.e. báðum kærendum.

Um upphæð tjóns beri að líta til framlagðra kvittana, sbr. 10. gr. reglugerðar nr. 1048/2012. Þá telur SGS rétt að leggja eingöngu til grundvallar þá hluti sem kærendur hafa sýnt fram á að hafi orðið fyrir tjóni, þ.e. með myndum. Varði tjón X alls að núvirði 1.493, 1 SDR og beri því að takmarka tjón hans við hámarksfjárhæð 2. mgr. 108. gr. loftferðalaga, þ.e. 1.150 SDR. Varðandi tjón Michelle Hobby liggi fyrir kvittun að fjárhæð 710 pund vegna Moncler dúnjakka, auk þess sem líta beri svo að ferðataskan sé að hálfu í hennar eigu. Heildartjón hennar beri því að meta að fjárhæð 937,5 breskra punda eða að núvirði SDR 879.

Með bréfi ráðuneytisins dags. 24. júlí 2018 var WOW air gefinn kostur á að gæta andmælaréttar gagnvart sjónarmiðum SGS. Engar athugasemdir bárust.

IV. Niðurstaða ráðuneytisins

Krafa kærenda lýtur að því að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og fallist verði á kröfu þeirra um fullar bætur beggja farþega vegna tjóns á farangri.

Ágreiningur aðila í máli þessu snýst um hvort báðir farþegar eigi rétt til bóta vegna farangurs sem var í einni tösku og hvernig sönnun eignarhalds fari fram.

Líkt og fram hefur komið er kveðið á um ábyrgð flytjanda á farangri í lögum nr. 60/1998 um loftferðir. Samkvæmt 1. mgr. 104. gr. laganna ber flytjandi ábyrgð á tjóni sem verður ef innritaður farangur glatast, skemmist eða eyðileggst ef tjónsatburðurinn á sér stað í loftfari, eða meðan innritaður farangur er í vörslum flytjanda, starfsmanna hans eða umboðsmanna. Þó er flytjandi ekki ábyrgur ef og að því leyti sem tjón á farangri má rekja til eðlislægra galla eða ástands farangurs. Ákvæði 1. mgr. 104. gr. laga um loftferðir mælir fyrir um hlutlæga ábyrgð flytjanda á tjóni sem innritaður farangur kann að verða fyrir meðan hann er í vörslu flytjanda, starfsmanna hans eða umboðsmanna. Ábyrgð flytjanda vegna glataðs farangurs takmarkast við 1.150 SDR skv. 2. mgr. 108. gr. laganna, nema ásetningur eða stórfellt gáleysi flytjanda eða einhverra þeirra sem hann ber ábyrgð á sé sannaður. Svara ákvæði 104. gr. og 108. gr. loftferðalaga til 2. mgr. 17. gr. og 22. gr. Montreal samningsins.

Svo sem fram er komið felur 1. mgr. 104. gr. laga um loftferðir í sér hlutlæga ábyrgðarreglu, þ.e. skaðabótaskylda flytjanda án sakar á tjóni því sem innritaður farangur kann að verða fyrir meðan hann er í vörslu flytjanda, starfsmanna hans eða umboðsmanna. Hagræði tjónþola sem af því leiðir er að hann þarf einungis að sýna fram á að hin hlutlæga ábyrgðarregla eigi við og orsakatengsl, en þarf ekki að sýna fram á að önnur hlutlæg skilyrði skaðabótaábyrgðar séu fyrir hendi svo til skaðabótaábyrgðar flytjanda komi. Samkvæmt 2. málslið 1. mgr. 104. gr. getur flytjandi einungis takmarkað ábyrgð sína ef og að því leyti sem tjón á farangri má rekja til eðlislægra galla eða ástands farangurs.

Líkt og áður hefur komið fram geta fleiri en einn farþegi átt farangur í sömu tösku og þar af leiðandi bótarétt vegna farangurs í einu og sömu töskunni sbr. niðurstöðu í máli Evrópudómstólsins nr. C-410/11. Þá kemur einnig fram í áðurnefndum dómi að tilgangurinn með Montreal samningnum sé m.a. að koma á ríkri bótaábyrgð flugrekenda sem þó eru settar skorður með hámarki bóta í ákveðnum tilfellum, t.d. vegna tjóns á farangri. Þannig sé ákveðið jafnvægi tryggt milli neytendaverndar og bótaábyrgðar. Hámarksviðmið bótagreiðslna í samningnum er einnig hugsað til hagsbóta fyrir flugrekendur sem geta þá séð fyrir hver hámarksbótaábyrgð getur orðið.

Taka verður undir gagnrýni kærenda að leiðbeiningaskyldu SGS hafi verið ábótavant. Af tölvupóstsamskiptum, póstur sendur kæranda 16.04.2018, megi ráða að hvergi sé þess krafist að færðar séu sérstakar sönnur á eignarhald mismunandi hluta sem urðu fyrir tjóni. Kærendur voru beðnir um að áframsenda upplýsingar sem sendar höfðu verið WOW air sem og að greina frá því hvaða hlutir tilheyrðu kæranda og hvaða hlutir tilheyrðu eiginkonu hans. Brást kærandi strax við þessari beiðni. Teldi SGS að færa þyrfti frekari sönnur á eignarhald hefði stofnuninni verið í lófa lagið að rannsaka gögn betur og kalla eftir frekari upplýsingum í samræmi við rannsóknarreglu stjórnsýslulaga.

Fyrir liggur að viðurkenndur hefur verið bótaréttur af hálfu WOW air sem nemur hámarksfjárhæð bóta til annars farþegans, þ.e. X. Í hinni kærðu ákvörðun komst SGS að þeirri niðurstöðu að kærendur ættu ekki rétt á frekari bótum. Af fyrirliggjandi gögnum og með vísan til þess sem rakið hefur verið telur ráðuneytið hins vegar sannað að hinn farþeginn, þ.e. Michelle Hobby, hafi einnig orðið fyrir tjóni vegna farangurs í sömu tösku. Nemi það tjón alls SDR 879, eða alls 937,5 bresk pund vegna skemmda á dúnjakka og ferðatösku.

Með vísan til þess sem rakið hefur verið verður hinni kærðu ákvörðun því breytt á þann veg að kærendur eigi rétt á bótum sem nemur SDR 879 umfram þeir bætur sem WOW air hafði boðið að fjárhæð 1.150 SDR.

Vegna mikilla anna í ráðuneytinu hefur uppkvaðning úrskurðar dregist og er beðist velvirðingar á því.


Úrskurðarorð:

Hinni kærðu ákvörðun er breytt á þann veg að X eiga rétt að bótum úr hendi WOW air að fjárhæð SDR 879 umfram þær SDR 1.150 sem.áður höfðu verið boðnar.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum