Hoppa yfir valmynd

Skipulag háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins

Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið samanstendur af tveimur meginskrifstofum og tveimur (stoð)skrifstofum sem starfa þvert á ráðuneytið. 

Ráðuneytið starfar sem ein heild og skiptist í fjórar skrifstofur: skrifstofa framkvæmda og eftirfylgni; skrifstofa stefnumörkunar og alþjóðasamskipta; skrifstofa stjórnsýslu og skrifstofa ráðuneytisstjóra. 

Ráðuneytið allt veitir ráðherra og ráðuneytisstjóra ráðgjöf og stuðning í daglegum störfum á hlutlægum og málefnalegum grunni og við að samræma starf í ráðuneytinu, skipulag og starfshætti. 

Markmið skipulags ráðuneytisins er að treysta stefnumótun og samræma aðgerðir og vinnubrögð við framkvæmd stefnu ráðuneytisins og ráðherra. Jafnframt felur stjórnskipulagið í sér eflingu á innri starfsemi ráðuneytisins með áherslu á markvissa stjórnun.

Skrifstofa framkvæmda og eftirfylgni

Hlutverk skrifstofu framkvæmda og eftirfylgni er að hafa yfirumsjón með gerð og framkvæmd fjárlaga. Þá veitir skrifstofan tölfræðiupplýsingar varðandi fjárlög og fjárveitingar, hefur umsjón með fjárheimildum á málefnasviðum ráðuneytisins og tryggir lögbundið eftirlit með ríkisaðilum sem undir ráðuneytið heyra. Skrifstofan fer með samskipti við og tryggir lögbundið eftirlit með ríkisaðilum (stofnunum og sjóðum) og öðrum sem starfa að stjórnarframkvæmd á málefnasviðum ráðuneytisins. Skrifstofan hefur umsjón með skyldum ráðherra um að annast lögbundna yfirstjórn ríkisaðila og annast eftirlit með starfrækslu, fjárreiðum og eignum stjórnvalda. Hún tryggir lögbundið eftirlit með öðrum aðilum og aðilum sem fá styrki eða framlög. Hún safnar hlutlægum upplýsingum og tölulegum gögnum til að undirbúa stefnur og áherslur ráðherra, sem m.a. birtast í fjármálaáætlun og fjárlögum. Þá sér skrifstofan um samningagerð og styrkveitingar á málefnasviði ráðuneytisins, ásamt því að tryggja samræmi og gæði þeirra samninga sem gerðir eru vegna einstakra verkefna eða styrkja. Skrifstofan annast kostnaðarmat lagafrumvarpa og hefur umsjón með framkvæmda- og húsnæðismálum. Skrifstofan annast einnig rekstur og fjármál ráðuneytisins og sameiginlega innri þjónustu, þ.m.t. fjárhags- launa- og ferðabókhald.

Helstu verkefni og hlutverk:

  • Fjármálaáætlun, fjárlagagerð og eftirlit með framkvæmd fjárlaga
  • Samskipti og eftirlit með ríkisaðilum
  • Styrkveitingar og samningsgerð
  • Áhrifamat stjórnarfrumvarpa og stjórnvaldsfyrirmæla
  • Söfnun og framsetning tölfræðilegra upplýsinga
  • Fagleg forysta og samhæfing fyrir stofnanir og sjóði á málefnasviði ráðuneytisins

Skrifstofa stefnumörkunar og alþjóðasamskipta

Hlutverk skrifstofu stefnumörkunar og alþjóðasamskipta er að móta stefnur og áherslur ráðherra svo sem þær sem birtast í stefnum stjórnvalda, fjármálaáætlun, fjárlögum, lagafrumvörpum, reglugerðum og aðgerðaáætlunum. Skrifstofan fer með faglegt efnisinnihald í stefnum ráðherra, lagafrumvörpum, reglugerðum og öðrum stjórnvaldsfyrirmælum, samningum og leiðbeiningum sem stuðla að umbótum. Skrifstofan hefur samstarf og samráð við hagaðila um mótun stefnu eftir því sem við á. Skrifstofan fer með alþjóðasamskipti og sinnir alþjóðlegri hagsmunagæslu í málaflokkum ráðuneytisins fyrir Íslands hönd. Skrifstofan undirbýr skipanir og tilnefningar í nefndir og ráð í alþjóðlegu samstarfi. Skrifstofan annast m.a. samstarf á sviði EES, EFTA og Norrænu ráðherranefndarinnar. 

Helstu verkefni og hlutverk:

  • Stefnumörkun og greining
  • Alþjóðasamskipti
  • Norrænt samstarf
  • EES málefni

Skrifstofa stjórnsýslu

Hlutverk skrifstofu stjórnsýslu er að leiða umbótastarf í stjórnsýslu innan ráðuneytisins. Skrifstofan ber ábyrgð á samskiptum við Alþingi, þingmenn og nefndir þingsins. Skrifstofan ber ábyrgð á skjalavistun og málaskrá ráðuneytisins. Hún fer einnig með mannauðsmál forstöðumanna stofnana ráðuneytisins, hefur yfirsýn og fylgist með starfi stjórna, nefnda og verkefnahópa á vegum ráðuneytisins í samráði við tengiliði. Skrifstofan skipuleggur og hefur umsjón með samskiptum við eftirlitsstofnanir Alþingis, Ríkisendurskoðun og umboðsmann Alþingis í samráði við aðrar skrifstofur og starfseiningar ráðuneytisins. Skrifstofan annast gæðamál og innra eftirlit ráðuneytisins. Þá sér hún um innkaup á aðföngum, gerð samninga er varða rekstur ráðuneytisins, áætlanagerð og stoðþjónustu. 

Helstu verkefni og hlutverk:

  • Samhæfing og umbótastarf
  • Skjalasafn ráðuneytisins
  • Samskipti við Alþingi og stofnanir þess
  • Mannauðsmál forstöðumanna ráðuneytisins
  • Kvartanir og kærur

Skrifstofa ráðuneytisstjóra

Hlutverk skrifstofu ráðuneytisstjóra er að samhæfa rekstur ráðuneytisins og þróun og sinna sérstökum og tímabundnum úrlausnarefnum og áherslumálum sem ráðuneytið fæst við í samstarfi við aðrar skrifstofur ráðuneytisins og önnur ráðuneyti eftir atvikum. Skrifstofan ber ábyrgð á rekstri ráðuneytisins, launasetningu, jafnlaunakerfi og aðbúnaði starfsfólks. Þá undirbýr skrifstofan skipanir og tilnefningar í nefndir og ráð sem heyra undir málefnasvið ráðuneytisins. 

Skrifstofan hefur umsjón með upplýsingamiðlun, fjölmiðlasamskiptum og útgáfumálum. Hún fer með jafnréttismál, mannauðsmál og ráðningar, fræðslu og starfsþróun starfsfólks. Skrifstofan fer jafnframt með mál er varða dagskrá ráðherra, skipulag viðtala við ráðherra, heimsóknir hans og ferðir, undirbúning funda og mál sem varða þingstörf ráðherra. 

Þá tekur skrifstofan á móti kærum er varða málefnasvið ráðuneytisins. Skrifstofan vinnur náið með skrifstofum og starfseiningum ráðuneytisins að framgangi verkefna sem varða ráðuneytið í heild eða að hluta og styður við starf verkefnahópa sem settir og starfa þvert á ráðuneytið. 

Helstu verkefni og hlutverk:

  • Innri rekstur
  • Mannauðsmál
  • Innkaup
  • Stoðþjónusta
  • Upplýsingamiðlun og útgáfumál

 

Sjá einnig:

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum