Starfshópur um rekstrartilkynningar samkvæmt lögum nr. 41/2007, um landlækni og lýðheilsu
Undanfarin ár hefur tilkynningum til embættis landlæknis um fyrirhugaðan rekstur heilbrigðisþjónustu fjölgað verulega. Tilkynningarnar eru af ýmsum toga og varða allt frá rekstri sem lýtur að útgáfu læknisvottorða til flókinnar og sérhæfðrar heilbrigðisþjónustu. Embættið hefur bent á að afgreiðsla málanna sé jafnframt tímafrek og vandasöm auk þess sem það telur að ákvæði laga um landlækni og lýðheilsu um rekstrartilkynningar þarfnist endurskoðunar í ljósi breytts umhverfis.
Kveðið er á um faglegar kröfur til reksturs heilbrigðisþjónustu í 6. gr. laga um landlækni og lýðheilsu. Ákvæðin hafa ekki sætt efnislegri endurskoðun frá því að lögin tóku gildi í september 2007. Þá hefur reglugerð nr. 768/2007, um eftirlit landlæknis með rekstri heilbrigðisþjónustu og faglegar lágmarkskröfur, ekki tekið breytingum frá því að hún var sett. Að mati ráðuneytisins kann að koma til greina að ráðast í breytingar á ákvæðum laga um landlækni og lýðheilsu í þessu sambandi, sem og ákvæðum reglugerðar nr. 768/2007, þannig að lög og reglur endurspegli breytt umhverfi í rekstri heilbrigðisþjónustu á Íslandi og aðkomu embættis landlæknis að því að heimilt sé að stunda reksturinn.
Starfshópinn skipa
- Ester Petra Gunnarsdóttir, án tilnefningar, formaður
- Gunnhildur Erla Kristjánsdóttir, tilnefnd af Samtökum fyrirtækja í velferðarþjónustu
- Haraldur Sæmundsson, tilnefndur af Félagi sjúkraþjálfara
- Ellen Ósk Eiríksdóttir, tilnefnd af Sjúkratryggingum Íslands
- Ragnar Freyr Ingvarsson, tilnefndur af Læknafélagi Íslands og til vara Katrín Ragna Kemp
- Bettý Grímsdóttir, tilnefnd af embætti landlæknis
- Pétur Maack Þorsteinsson, tilnefndur af Sálfræðingafélagi Íslands
Starfsmaður hópsins er Viktor M. Alexandersson, lögfræðingur í heilbrigðisráðuneytinu.
Starfshópurinn er skipaður frá 3. júlí 2025 og er gert er ráð fyrir að hópurinn skili tillögum sínum til ráðherra fyrir 1. janúar 2026.